‚Vertu hughraustur og harla öruggur‘
„Eigi skuluð þér óttast þau, því að [Jehóva] Guð yðar berst fyrir yður.“ — 5. MÓSEBÓK 3:22.
1. (a) Hvernig var ástatt með Ísrael við lok ferðarinnar um eyðimörkina? (b) Hvernig hvatti Móse þjóðina?
KOMIÐ var að miklum tímamótum í sögu Ísraels. Heilög þjóð Guðs átti nú að búa sig undir að ganga inn í fyrirheitna landið! Í 40 ár hafði Móse leitt Ísraelsmenn um mikla og ógurlega eyðimörk. Núna, í Móabslandi, nálægt Jórdanánni, ávarpaði hann þjóð Guðs í síðasta sinn. Hann var orðinn 120 ára en „eigi glapnaði honum sýn, og eigi þvarr þróttur hans.“ Rödd hans brást honum ekki heldur. Jósúa, sem var í þann mund að taka við af honum, og allur Ísrael hlýtur að hafa hrifist af því með hve miklum þrótti Móse lýsti lögmáli Jehóva og hversu hann hvatti þjóðina til að vera hugrökk þegar hún gengi inn í fyrirheitna landið til að taka það til eignar. — 5. Mósebók 1:1-5, 19, 21, 29, 30; 3:22; 31:6, 7, 23; 34:7.
2. Hvernig vitum við að þessir atburðir eru okkur nútímamönnum til fræðslu?
2 Eru þessir atburðir fjarlægrar fortíðar einungis áhugavert sögubrot? Þeir eru miklu meira en það. Páll postuli segir okkur: „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ (Rómverjabréfið 15:4) Þessir atburðir eiga sér nútímahliðstæðu. Þeir geta styrkt okkur fyrir þann andlega hernað sem við heyjum núna. Þeir eru líka „til viðvörunar oss, sem endir aldanna er kominn yfir,“ hjálp til að forðast snörur Satans. — 1. Korintubréf 10:11; 1. Pétursbréf 4:7.
Hvaðan kom Jósúa styrkur?
3, 4. (a) Hvers vegna þurfum við að byggja upp hugrekki? (b) Hvernig getum við gert það?
3 Eftir mjög skamman tíma munu þjónar Guðs ganga fylktu liði inn í nýja skipan Jehóva. Í ljósi þeirra atburða, sem eru að þróast í heiminum, þurfum við að rækta með okkur hugrekki. Hvernig getum við gert það? Þegar Jósúa bjó sig undir að ganga inn í fyrirheitna landið bauð Guð honum: „Ver þú aðeins hughraustur og harla öruggur að gæta þess að breyta eftir öllu lögmálinu, því er Móse þjónn minn fyrir þig lagði. Vík eigi frá því, hvorki til hægri né vinstri, til þess að þér lánist vel allt, sem þú tekur þér fyrir hendur. Eigi skal lögmálsbók þessi víkja úr munni þínum, heldur skalt þú hugleiða hana um daga og nætur, til þess að þú gætir þess að gjöra allt það, sem í henni er skrifað, því að þá munt þú gæfu hljóta á vegum þínum og breyta viturlega.“ — Jósúa 1:7, 8.
4 Þetta er rétta leiðin! Lestu daglega í Biblíunni. Hún geymir lög Guðs fyrir okkur. Hugleiddu hana. Hlýddu áminningum hennar. Láttu ekki leiða þig út í efnishyggju og siðleysi umheimsins. Breyttu viturlega undir öllum kringumstæðum. Notaðu skynsamlega þá nákvæmu þekkingu og þann andlega skilning sem þú hefur aflað þér með námi þínu í orði Guðs. Talaðu um hana við aðra. Með því að gera það og með því að treysta á Jehóva getur þú verið ‚hughraustur og harla öruggur og lánast allt vel.‘ — Samanber Sálm 1:1-3; 93:5; 119:165-168.
5. (a) Hvernig geta ungir þjónar orðsins, líkt og Jósúa, byggt upp styrk og öryggi? (b) Hvaða gott markmið geta ungir vottar sett sér?
5 Jósúa hafði ‚þjónað Móse frá æsku.‘ (4. Mósebók 11:28) Vafalaust hafði þetta nána samfélag hjálpað honum að byggja upp andlegan styrk. Á svipaðan hátt geta ungir þjónar orðsins nú á tímum byggt upp styrk og öryggi með því að starfa með guðhræddum foreldrum sínum, brautryðjendum, gamalreyndum vottum og öðrum drottinhollum þjónum Jehóva. Þátttaka í starfinu hús úr húsi með slíkum kostgæfum þjónum orðsins getur veitt þér gleði og hjálpað þér að byggja upp á unga aldri þroska og löngun til að sækja fram í þjónustunni. (Postulasagan 20:20, 21; Jesaja 40:28-31) Hvaða betra markmið geta ungir vottar sett sér en það að þjóna ríki Jehóva í fullu starfi! — Sálmur 35:18; 145:10-12.
6. Hvernig var Jósúa okkur fordæmi í sambandi við herförina gegn Amalek?
6 Þegar Móse sendi Jósúa til að berjast við Amalekíta ‚gjörði Jósúa sem Móse hafði sagt honum.‘ Hann var hlýðinn og því vann hann sigur. Við munum líka eiga hlut í að upphefja nafn Jehóva ef við gefum nákvæman gaum þeim bardagaskipunum sem við fáum í gegnum skipulag hans. Jehóva sagði Móse að hafa sigur hans yfir Amalek í minnum með því að skrifa hann í bók og gera Jósúa hann hugfastan. Enginn vafi leikur á að Jósúa miklaði sigur Jehóva enn frekar með því að tala um hann við aðra. Á sama hátt getum við nú á dögum kunngert máttarverk hins alvalda Drottins Jehóva og boðað hinn yfirvofandi „hefndardag“ hans yfir hinum guðlausu. — 2. Mósebók 17:10, 13, 14; Jesaja 61:1, 2; Sálmur 145:1-4.
7, 8. (a) Hvaða trúartraust létu Jósúa og Kaleb í ljós eftir för sína til Kanaans? (b) Hvaða aðvörun og hvatning er fólgin í því hvernig Jehóva tók á málum á þeim tíma?
7 Þegar Móse sendi út tólf höfðingja til að njósna í fyrirheitna landinu var Jósúa þeirra á meðal. Þegar þeir sneru aftur voru tíu njósnamannanna mjög hræddir við íbúa Kanaanlands og töldu fólkið á að berjast fyrir því að snúið yrði aftur til Egyptalands. En Jósúa og Kaleb sögðu djarflega: „Ef [Jehóva] hefir á oss velþóknun, þá mun hann flytja oss inn í þetta land og gefa oss það, landið, sem flýtur í mjólk og hunangi. Gjörið aðeins ekki uppreisn móti [Jehóva] og hræðist ekki landsfólkið, því að þeir eru brauð vort. Vikin er frá þeim vörn þeirra, en [Jehóva] er með oss! Hræðist þá eigi!“ — 4. Mósebók 13:1-14:38.
8 En söfnuður Ísraelsmanna hélt áfram að mögla svo að Jehóva skarst í leikinn og dæmdi þessa óttaslegnu Ísraelsmenn til að reika í 40 ár um eyðimörkina. Að undanskildum Kaleb og Jósúa dóu allir vopnfærir menn án þess að sjá fyrirheitna landið. Hvílík aðvörun fyrir okkur nútímamenn! Möglum aldrei gegn ráðstöfunum Jehóva. Jafnvel þótt við þurfum að starfa á svæði þar sem erfitt er að bera vitni skulum við vera hugrökk, sterk og örugg í því að bera inn á heimili manna boðskapinn um ríki Guðs sem getur bjargað lífi þess. Megum við aldrei vera eins og fráhvarfsmenn okkar tíma sem í stað þess að bera opinberlega vitni rægja bræður sína og snúa aftur til háttarlags heimsins — þess sem Egyptaland táknaði. — 4. Mósebók 14:1-4, 26-30; Lúkas 12:45, 46; samanber Postulasöguna 5:27-29, 41, 42.
Nafn Jehóva hafið hátt!
9. Hvernig reis Jósúa undir sínu nýja nafni?
9 Í upptalningu Biblíunnar á njósnamönnunum tólf er Jósúa nefndur Hósea sem merkir „hjálpræði.“ En frásagan segir að ‚Móse hafði kallað Hósea Núnsson Jósúa [sem merkir „Jehóva er hjálpræði“].‘ Hvers vegna lagði Móse slíka áherslu á nafn Jehóva? Vegna þess að Jósúa var eitt helsta verkfærið til að upphefja þetta nafn. Jósúa varð lifandi dæmi um hlýðni við það boð sem Móse lagði síðar áherslu á við Ísrael: „Þú skalt elska [Jehóva] Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ Hann naut með því þeirra sérréttinda að sýna fram á að ‚Jehóva sé hjálpræði.‘ — 4. Mósebók 13:8, 16; 5. Mósebók 6:5.
10. (a) Hvað þýðir nafn Jehóva fyrir þig? (b) Hvaða styrk getum við fengið af orðum Jehóva við Jósúa?
10 Höfum við ekki líka lært að meta nafn Jehóva sem mjög dýrmætt og lofsvert? Hið mikla nafn hans merkir „hann kemur til leiðar“ því að standa við fyrirheit sín. Hversu stórkostleg eru ekki fyrirheit hans um Guðsríki! Með sams konar kostgæfni og Jósúa ættum við að vilja mikla nafn Jehóva og tilgang fyrir öllum sem enn kunna að eiga eftir að taka við voninni um hina hreinu og réttlátu nýju heimsskipan. Á þessum erfiðu tímum getum við sótt styrk í orð Jehóva við Jósúa: „Hefi ég ekki boðið þér: Ver þú hughraustur og öruggur? Lát eigi hugfallast og óttast eigi, því að [Jehóva] Guð þinn er með þér í öllu, sem þú tekur þér fyrir hendur.“ — Jósúa 1:9.a
11. (a) Hvernig var merking nafns Jesú undirstrikuð þegar hann reið inn í Jerúsalem? (b) Hvernig leit Jesús á nafn Jehóva og á hverju sést það?
11 Nafnið Jesús á grísku, sem einnig merkir „Jehóva er hjálpræði,“ samsvarar nafninu Jósúa eða Jehosúa. Það er fyrir tilverknað Jesú Krists sem Jehóva veitir mannkyninu hjálpræði. Árið 33 að okkar tímatali, þegar Jesús reið inn í Jerúsalem á asna, hrópaði mannfjöldinn: „Hósanna! Blessaður sé sá sem kemur, í nafni [Jehóva]!“ (Markús 11:9; Sakaría 9:9) Jósúa var sönn fyrirmynd Jesú sem ‚lét okkur eftir fyrirmynd til þess að við skyldum feta í hans fótspor.‘ (1. Pétursbréf 2:21) Eins og Jósúa mat Jesús nafn Jehóva sem mjög dýrmætt og upphóf það. Tvívegis í lokabæn sinni með lærisveinum sínum lagði hann áherslu á nafn Guðs: „Ég hef opinberað nafn þitt þeim mönnum, sem þú gafst mér úr heiminum. . . . Ég hef kunngjört þeim nafn þitt og mun kunngjöra, svo að kærleikur þinn, sem þú hefur auðsýnt mér, sé í þeim og ég sé í þeim.“ (Jóhannes 17:6, 26) Hvílík sérréttindi fyrir okkur að kunngera öðrum þetta nafn!
12. Hvaða máttarverka bíðum við núna og hvers vegna?
12 Þegar við lesum frásögn Biblíunnar af trúu forystustarfi Jósúa getum við haft í huga að hinn meiri Jósúa, Jesús Kristur, leiðir fólk Guðs nú á dögum. Hinn mikli upphafningardagur Jehóva er í nánd. Við bíðum þess með óþreyju að fyrirheit hans um réttláta nýja skipan að þeim degi loknum uppfyllist! (2. Pétursbréf 3:10-13, 17, 18) Við bíðum því með trúartrausti eftir öðrum máttarverkum Jehóva, enn meiri en þeim sem hann vann fyrir milligöngu Jósúa.
Kraftaverk Jehóva við Jórdan
13. (a) Í hvaða aðstöðu, sem virtist vonlaus, var Ísrael á austurbakka Jórdanar? (b) Hvernig var Ísrael umbunuð hlýðni sín?
13 Komið var að uppskerutímanum árið 1473 f.o.t. og flóð í Jórdanánni. Hvernig gátu nokkrar milljónir sálna, ungir sem aldnir, karlar, konur og börn komist yfir þetta beljandi fljót? Jehóva hafði samt boðið Jósúa: „Rís þú nú upp og far yfir ána Jórdan með allan þennan lýð.“ Lýðurinn svaraði Jósúa: „Vér skulum gjöra allt sem þú býður oss.“ Ísraelsmenn tóku síðan upp búðir sínar. Prestarnir gengu í broddi fylkingar berandi sáttmálsörkina sem var vandlega hulin og táknaði nærveru Jehóva hjá þeim. Jehóva gerði síðan ‚undursamlega hluti meðal þeirra,‘ því að „er þeir, sem örkina báru, komu að Jórdan, og prestarnir, sem báru örkina, drápu fótum sínum í vatnsbrúnina . . . þá stóð vatnið kyrrt, það er ofan að kom.“ Það sem fyrir neðan var „rann allt til þurrðar,“ út í Dauðahafið, „og lýðurinn fór yfir um.“ (Jósúa 1:2, 16; 3:5-16) Sannarlega var þetta tilkomumikið kraftaverk!
14. Hvaða hliðstæða er núna og hvaða árangri hefur vitnisburðurinn skilað?
14 Hin beljandi Jórdan á sér hliðstæðu nú á tímum í því mannflóði sem nú steypist áfram í átt til tortímingar í Harmagedón. (Samanber Jesaja 57:20; Opinberunarbókina 17:15.) Mannkynið stendur á brúninni, rétt í þann mund að steypast fram af, og Jehóva styrkir þjóna sína sem nú telja yfir þrjár milljónir — sambærilegt við þann fjölda þjóna Guðs sem gengu með Jósúa. — Samanber Habakkuk 2:3.
15. (a) Hvað nú á tímum samsvarar hugrekki prestanna á þeim tíma? (b) Hvernig á hinn ‚mikli múgur‘ sér fyrirmynd þarna?
15 Meðan þessar milljónir Ísraelsmanna voru að ganga yfir árfarveginn stóðu „prestarnir, sem báru sáttmálsörk [Jehóva], kyrrir á þurru mitt í Jórdan“ til tákns um að Jehóva Guð hefði gripið inn í gang mála. (Jósúa 3:17) Það var árið 1919 að smár hópur smurðra votta steig hugrakkur fram fyrir „vötn“ mannkynsins. Árið 1922 svöruðu þeir djarfir því kalli að ‚kunngera, kunngera, kunngera konunginn og ríki hans‘ og sögðu í reynd: „Hér er ég, send þú mig!“ Jehóva fullvissar þá um þetta: „Gangir þú gegnum vötnin, þá er ég með þér, gegnum vatnsföllin, þá skulu þau ekki flæða yfir þig.“ Árið 1931 heiðraði hann þá með því að gefa þeim nafnið vottar Jehóva. (Jesaja 6:8; 43:2, 12) Meðal þeirra sem gengu yfir Jórdan voru Ísraelsmenn aðrir en Levítar og afkomendur ‚hins mikla fjölda af alls konar lýð,‘ ekki Ísraelsmenn, sem yfirgáfu Egyptaland með Móse. Á líkan hátt er hinn ‚mikli múgur‘ okkar tíma með í förinni yfir til nýrrar skipanar Guðs, en þeir sem eftir eru af hinni andlegu prestastétt eru „staðfastir, óbifanlegir,“ til fyrirmyndar í trú sinni. — 2. Mósebók 12:38; Opinberunarbókin 7:9; 1. Korintubréf 15:58.
Kraftaverksins minnst
16. (a) Hvernig var kraftaverkið við Jórdan í minnum haft? (b) Hvaða vísbending er það um máttarverk Jehóva nú á tímum?
16 Jehóva sá um að þessa kraftaverks yrði minnst og bauð að tólf karlmenn, fulltrúar ættkvísla Ísraels, tækju tólf steina úr farvegi Jórdanar og kæmu þeim fyrir á vesturbakkanum við Gilgal. Þessir steinar myndu standa þar sem varanlegt minnismerki um nafn Jehóva og máttarverk hans. Segja átti sonum Ísraels síðar meir að þetta minnismerki væri „til þess að allar þjóðir á jörðu mættu vita, að hönd [Jehóva] er sterk, svo að þær óttuðust [Jehóva], Guð yðar alla daga.“ (Jósúa 4:1-8, 20-24) Á okkar tímum eru máttarverk Jehóva til verndar þjónum sínum, þrátt fyrir illskeyttar árásir stjórnmála- og trúarleiðtoga, minnismerki þess að hann sé með þjónum sínum. Enginn vafi leikur á að hinna miklu verka hans til upphafningar nafni sínu verður minnst um aldur í hinni nýju heimsskipan. — Opinberunarbókin 12:15, 16; Sálmur 135:6, 13.
17. Hvaða annað minnismerki reisti Jósúa? (b) Hvaða áþekkum vitnisburði hefur mannkynið ekki getað komist hjá nú á tímum?
17 Annað minnismerki skyldi reist: „Jósúa reisti tólf steina í Jórdan miðri á þeim stað, sem prestarnir, þeir er sáttmálsörkina báru, höfðu staðið, og eru þeir þar enn í dag.“ Þegar prestarnir gengu upp úr árfarveginum og Jehóva sleppti lausu flóðvatninu, sem stöðvað hafði verið, myndaði það iðustrauma í kringum þessa tólf vitnisburðarsteina. (Jósúa 4:9) Þaðan í frá kæmist vatnið ekki hjá því að verða fyrir áhrifum af steinunum. Eins er það núna þegar mannkynið steypist hraðar og hraðar í átt til „Dauðahafsins“ við Harmagedón — það getur ekki komist hjá því að taka eftir þeim vitnisburði sem vottar Jehóva hafa hrúgað upp um allan heim er þeir hafa ‚staðið stöðugir í einum anda og barist saman með einni sál fyrir trúnni á fagnaðarerindið.‘ (Filippíbréfið 1:27, 28) Fyrirliggjandi heimildir sýna að á síðustu 67 árum fram til 1986 hafa vottar Jehóva borið inn á heimili manna um allan heim yfir 570.000.000 bóka og bæklinga og yfir 6.400.000.000 eintaka af tímaritunum Varðturninn og Vaknið!, auk þess að taka milljónir áskrifta að þeim. Það er sannarlega minnisverður vitnisburður!
18. (a) Hvaða eiginleika hefur prestahópurinn sýnt núna? (b) Hvernig hafa allir þjónar Guðs verið örvaðir til athafna?
18 Við getum fagnað því að þessi vitnisburður hefur haldið áfram fram á þetta ár, 1987. Að gera vilja Guðs hefur útheimt erfiðisvinnu, eins og þá þegar mennirnir tólf báru hver um sig sinn minningarstein alla leiðina til Gilgal. En mikill brautryðjandaandi hefur sameinað þjóna Guðs nú á tímum og örvað þá til að vera stöðugt ‚hugrakkir og harla öruggir.‘ — Sálmur 27:14; 31:25; Sefanía 3:9.
19. Hverju megum við treysta þegar við rifjum upp fleiri atburði frá tímum Jósúa?
19 Aðrir atburðir á dögum Jósúa ættu að hvetja okkur til að sækja fram, þess fullviss að Jehóva muni vinna fleiri kraftaverk í þágu þjóna sinna. Í greininni sem fylgir verður rætt um sum þeirra.
[Neðanmáls]
a Asher Goldenberg segir í bók sinni Metre and Its Significance in the Bible (á hebresku) að á tímum fyrra musterisins hafi verið algengt að gefa sérnöfnum lengri mynd, að fella inn í þau hluta af fjórstafanafninu til að tjá hollustu við Jehóva. Hann segir að „í 5. Mósebók breyti Móse nafni Hósea ben-Nún í ‚Jehosúa‘ þegar hann sendi hann út til njósna; þannig sá hann fyrir að [Jósúa] myndi ekki svíkja [Jehóva].“
Til íhugunar um atburði á dögum Jósúa
◻ Hvers vegna ber að líta á þá sem meira en liðna sögu?
◻ Hvernig getum við í ljósi þeirra þroskað hugrekki og andlegan styrk?
◻ Hvaða góða fyrirmynd gaf Jósúa okkur?
◻ Á hvaða vegu var Jósúa fyrirmynd um Jesú?
◻ Hvaða atburðir okkar tíma eru hliðstæða atburðanna við Jórdan?