Jehóva, hinn óvilhalli „dómari alls jarðríkis“
„[Faðirinn] dæmir án manngreinarálits eftir verkum hvers eins.“ — 1. PÉTURSBRÉF 1:17.
1, 2. (a) Hvers vegna ætti það að vera hvort tveggja í senn ógnvekjandi og hughreystandi tilhugsun að Jehóva er hinn mikli dómari? (b) Hvaða hlutverki gegna jarðneskir þjónar Jehóva í máli hans gegn þjóðunum?
JEHÓVA er hinn mikli „dómari alls jarðríkis.“ (1. Mósebók 18:25) Sem hinn æðsti Guð alls alheimsins hefur hann ótakmarkaðan rétt til að dæma sköpunarverur sínar. Þetta er hvort tveggja í senn ógnvekjandi og hughreystandi tilhugsun. Um þetta, sem virðist vera mótsögn, tjáði Móse sig á áhrifamikinn hátt er hann sagði: „Því að [Jehóva] Guð yðar, hann er Guð guðanna og Drottinn drottnanna, hinn mikli, voldugi og óttalegi Guð, sem eigi gjörir sér mannamun og þiggur eigi mútur. Hann rekur réttar munaðarleysingjans og ekkjunnar og elskar útlendinginn, svo að hann gefur honum fæði og klæði.“ — 5. Mósebók 10:17, 18.
2 Hvílíkt jafnvægi! Mikill, voldugur og óttalegur Guð en þó óvilhallur og gætir á kærleiksríkan hátt hagsmuna munaðarleysingja, ekkna og útlendinga. Hver gæti óskað sér elskuríkari dómara en Jehóva? Jehóva dregur upp þá mynd af sér að hann eigi í málaferlum við þjóðirnar í heimi Satans og hann kallar á þjóna sína til að vera vottar hans. (Jesaja 34:8; 43:9-12) Hann er ekki háður vitnisburði þeirra til að sanna guðdóm sinn og réttmætt drottinvald. En hann veitir vottum sínum þau framúrskarandi sérréttindi að bera vitni fyrir öllu mannkyni um það að þeir virði óskoruð yfirráð hans. Vottar hans beygja sig sjálfir undir réttmætt drottinvald hans og með þjónustu sinni koma þeir öðrum til að gangast undir vald hins æðsta dómara.
Dómsaðferð Jehóva
3. Hvernig mætti draga saman dómsaðferð Jehóva og hvernig sést það í máli Adams og Evu?
3 Þegar mannkynið var að stíga sín fyrstu skref dæmdi Jehóva sjálfur nokkra þá sem brotið höfðu af sér. Dæmi um það hvernig hann fór með dómsmál voru fordæmi fyrir þá þjóna hans sem myndu síðar bera ábyrgð á að annast dómsmál meðal fólks hans. (Sálmur 77:12, 13) Dómsaðferð hans mætti lýsa í hnotskurn þannig: Festa sé hún nauðsynleg, miskunn sé hún möguleg. Adam og Eva, fullkomnar mannlegar sköpunarverur sem gerðu viljandi uppreisn, áttu enga miskunn skilda. Jehóva dæmdi þau því til dauða. En miskunn hans kom inn í myndina varðandi afkvæmi þeirra. Jehóva frestaði að fullnægja dauðadóminum og gaf þannig Adam og Evu tækifæri til að eignast börn. Í kærleika veitti hann afkomendum þeirra von um lausn úr fjötrum syndar og dauða. — 1. Mósebók 3:15; Rómverjabréfið 8:20, 21.
4. Hvernig meðhöndlaði Jehóva Kain og hvers vegna er það mál sérstaklega áhugavert?
4 Það er sérstaklega áhugavert hvernig Jehóva meðhöndlaði Kain vegna þess að það er fyrsta skráða málið þar sem einn af ófullkomnum afkomendum Adams og Evu, „seldur undir syndina,“ átti í hlut. (Rómverjabréfið 7:14) Tók Jehóva það til greina og meðhöndlaði Kain á annan hátt en foreldra hans? Og gætu kristnir umsjónarmenn nú á dögum dregið einhvern lærdóm af þessu máli? Skoðum það. Jehóva tók eftir röngum viðbrögðum Kains við því að fórn hans var ekki litin með velþóknun og varaði hann við hættunni sem hann var í. Gamall málsháttur segir að ‚betra sé heilt en vel gróið.‘ Með öðrum orðum eru forvarnir betri en lækning. Jehóva gekk eins langt og hann gat með því að vara Kain við að leyfa syndugum tilhneigingum sínum að ná völdum yfir sér. Hann lagði sig fram við að hjálpa honum að ‚gjöra rétt.‘ (1. Mósebók 4:5-7) Þetta var í fyrsta sinn sem Guð fór fram á iðrun hjá syndugum manni. Er Kain hafði sýnt með viðhorfi sínu að hann iðraðist ekki og drýgt glæpinn, dæmdi Jehóva hann brottrækan en mildaði dóminn með ákvæði um að öðrum mönnum væri bannað að drepa hann. — 1. Mósebók 4:8-15.
5, 6. (a) Hvernig kom Jehóva fram við kynslóðina fyrir flóðið? (b) Hvað gerði Jehóva áður en hann fullnægði dómi yfir íbúum Sódómu og Gómorru?
5 Fyrir flóðið, þegar Jehóva ‚sá að illska mannsins var mikil á jörðinni, sárnaði honum það í hjarta sínu.‘ (1. Mósebók 6:5, 6) Hann „iðraðist“ að því leyti að hann harmaði það að meirihluti kynslóðarinnar fyrir flóðið hafði misnotað frjálsan vilja sinn og að hann yrði að fullnægja dómi sínum á henni. Hann gaf henni þó næga aðvörun með því að nota Nóa í mörg ár sem „prédikara réttlætisins.“ Eftir það hafði Jehóva enga ástæðu til að ‚þyrma hinum forna heimi‘ óguðlegra manna. — 2. Pétursbréf 2:5.
6 Jehóva var á líkan hátt skuldbundinn til að halda dóm yfir spilltum íbúum Sódómu og Gómorru. En tökum eftir hvernig hann meðhöndlaði málið. Hann hafði heyrt umkvörtunaróp vegna hneykslanlegrar framkomu þessa fólks þótt ekki væri nema vegna bæna hins réttláta Lots. (1. Mósebók 18:20; 2. Pétursbréf 2:7, 8) En áður en hann hófst handa ‚steig hann niður‘ til að kanna staðreyndir málsins fyrir milligöngu engla sinna. (1. Mósebók 18:21, 22; 19:1) Hann tók sér einnig tíma til að fullvissa Abraham um að aðgerðir hans yrðu ekki ósanngjarnar. — 1. Mósebók 18:23-32.
7. Hvaða lærdóm geta öldungar, sem sæti eiga í dómnefndum, dregið af því hvernig Jehóva dæmir?
7 Hvað geta öldungar nú á dögum lært af þessum dæmum? Í máli Adams og Evu sýndi Jehóva kærleika og tillitssemi gagnvart þeim sem voru ekki ámælisverðir í því máli, þó að þeir væru skyldir hinum seku. Hann sýndi afkomendum Adams og Evu miskunn. Í máli Kains sá Jehóva fyrir hættuna sem Kain var í og rökræddi vingjarnlega við hann til að reyna að koma í veg fyrir að hann drýgði synd. Jafnvel eftir að hafa rekið Kain brott var Jehóva umhyggjusamur við hann. Að auki fullnægði Jehóva dómi á kynslóðinni fyrir flóðið aðeins eftir að hafa sýnt mikla þolinmæði og þolgæði. Frammi fyrir þrálátri illsku ‚sárnaði Jehóva í hjarta sínu.‘ Hann harmaði það að menn skyldu gera uppreisn gegn réttlátri stjórn hans og að hann yrði að fella óhagstæðan dóm yfir þeim. (1. Mósebók 6:6; samanber Esekíel 18:31; 2. Pétursbréf 3:9.) Í máli Sódómu og Gómorru tók Jehóva fyrst af skarið eftir að hafa sannreynt staðreyndirnar. Hversu frábært fordæmi fyrir þá sem þurfa að meðhöndla dómsmál nú á dögum!
Mennskir dómarar á tímum ættfeðranna
8. Hvaða grundvallarreglur Jehóva voru þekktar á tímum ættfeðranna?
8 Þó að engin rituð lagaákvæði virðist hafa verið til á þeim tíma voru grundvallarlög Jehóva þekkt í þjóðfélagi ættfeðranna og þjónar hans voru skuldbundnir til að fara eftir þeim. (Samanber 1. Mósebók 26:5.) Atburðirnir í Eden höfðu sýnt þörfina á hlýðni og undirgefni við drottinvald Jehóva. Mál Kains hafði leitt í ljós vanþóknun Jehóva á morði. Strax eftir flóðið gaf Guð mannkyninu lög er vörðuðu heilagleika lífs, morð, dauðadóm og neyslu blóðs. (1. Mósebók 9:3-6) Jehóva fordæmdi hórdóm sterklega er upp kom atvik sem tengdist Abraham, Söru og Abímelek konungi í Gerar, nálægt Gasa. — 1. Mósebók 20:1-7.
9, 10. Hvaða dæmi sýna að dómskerfi var til í þjóðfélagi ættfeðranna?
9 Í þá daga tóku fjölskylduhöfuð að sér hlutverk dómara og meðhöndluðu dómsmál. Jehóva tók fram varðandi Abraham: „Því að ég hefi útvalið hann, til þess að hann bjóði börnum sínum og húsi sínu eftir sig, að þau varðveiti vegu [Jehóva] með því að iðka rétt og réttlæti.“ (1. Mósebók 18:19) Abraham sýndi óeigingirni og góða dómgreind þegar hann lægði deilu milli sinna fjárhirða og Lots. (1. Mósebók 13:7-11) Júda, sem ættfaðir og dómari, dæmdi tengdadóttur sína, Tamar, til að vera grýtt til bana og brennd þar sem hann taldi hana hórkonu. (1. Mósebók 38:11, 24; samanber Jósúabók 7:25.) Þegar honum voru á hinn bóginn allar staðreyndir málsins kunnar lýsti hann hana réttlátari en sjálfan sig. (1. Mósebók 38:25, 26) Það er sannarlega mikilvægt að kynna sér öll málsatvik áður en dómur er felldur.
10 Jobsbók minnist á dómskerfi og sýnir hversu æskilegt er að dómar séu óvilhallir. (Jobsbók 13:8, 10; 31:11; 32:21) Job sjálfur hugsaði til baka til þess tíma er hann var virtur dómari sem sat við borgarhliðið, sinnti dómsmálum og varði málstað ekkjunnar og munaðarleysingjans. (Jobsbók 29:7-16) Þess sjást því merki að á tímum ættfeðranna hafi ‚öldungar‘ gegnt hlutverki dómara meðal afkomenda Abrahams, jafnvel fyrir brottförina úr Egyptalandi og áður en Guð gaf Ísraelsþjóðinni stjórnskipun og lög. (2. Mósebók 3:16, 18) Reyndar kynnti Móse skilmála lagasáttmálans fyrir öldungum Ísraels sem fulltrúum fólksins. — 2. Mósebók 19:3-7.
Dómskerfið í Ísrael
11, 12. Hvað aðgreindi dómskerfi Ísraelsmanna frá dómskerfi annarra þjóða að mati tveggja biblíufræðinga?
11 Meðhöndlun dómsmála í Ísrael var verulega ólík því réttarfari sem var hjá grannþjóðunum. Enginn greinarmunur var gerður á lögum um einkamál og hegningarlögum. Bæði voru samtvinnuð siðferðis- og trúarlögum. Brot gegn náunganum var brot gegn Jehóva. Rithöfundurinn André Chouraqui ritar í bók sinni The People and the Faith of the Bible: „Dómshefð Hebreanna er ólík þeirri sem var hjá nágrönnum þeirra, ekki aðeins í því hvernig afbrot og refsing er skilgreind heldur í sjálfum anda laganna. . . . Tóra [lögmálið] er ekki skilin frá daglegu lífi; hún stýrir eðli og inntaki daglegs lífs með því að úthluta blessun eða bölvun. . . . Í Ísrael . . . er nær ógerlegt að afmarka skýrt lagalegar athafnir borgarinnar. Þær voru faldar í heildarsvip lífshátta sem miðuðu algerlega að því að framfylgja vilja hins lifandi Guðs.“
12 Þessar einstöku aðstæður settu réttarfarið í Ísrael á mun æðra stig en hjá öðrum þjóðum þess tíma. Biblíufræðingurinn Roland de Vaux segir: „Hversu mjög sem lög Ísraelsmanna virðast svipa til klásúlna og ákvæða í ‚sáttmálum‘ og ‚lögbókum‘ Miðausturlanda eru þau gerólík að formi og innihaldi. Þau eru trúarleg lög. . . . Engin lögbók Austurlanda er sambærileg við lög Ísraelsmanna sem eru í heild sinni eignuð Guði. Innihaldi þau og blandi oft saman reglum um siðfræði og trúarathafnir er það vegna þess að þau ná yfir allt svið hins guðlega sáttmála og vegna þess að þessi sáttmáli stýrir ekki aðeins samskiptum manna við Guð heldur einnig manna innbyrðis.“ Það er engin furða að Móse skyldi hafa spurt: „Og hver er sú stórþjóð, er hafi svo réttlát lög og ákvæði, eins og allt þetta lögmál er, sem ég legg fyrir yður í dag?“ — 5. Mósebók 4:8.
Dómarar í Ísrael
13. Að hvaða leyti var Móse góð fyrirmynd öldungum nú á dögum?
13 Hvaða manngerð þurfti til að gegna dómarastarfi undir svona háleitu dómskerfi? Biblían segir um allra fyrsta dómarann sem skipaður var í Ísrael: „Maðurinn Móse var einkar hógvær, framar öllum mönnum á jörðu.“ (4. Mósebók 12:3) Hann hafði ekki óhóflegt sjálfstraust. (2. Mósebók 4:10) Þó að til þess væri ætlast að hann dæmdi meðal fólksins gerðist hann stundum málsvari þess frammi fyrir Jehóva, bað hann að fyrirgefa því og bauðst jafnvel til að fórna sjálfum sér í þess stað. (2. Mósebók 32:11, 30-32) Í ljóði sagði hann: „Ræða mín drjúpi sem dögg, eins og gróðrarskúrir á grængresið og sem þungaregn á jurtirnar.“ (5. Mósebók 32:2) Hann treysti ekki á eigin visku við að dæma fólkið heldur lýsti yfir: „Þegar mál gjörist þeirra á milli, koma þeir á fund minn, og ég dæmi milli manna og kunngjöri lög Guðs og boðorð hans.“ (2. Mósebók 18:16) Ef hann var í vafa skaut hann málinu til Jehóva. (4. Mósebók 9:6-8; 15:32-36; 27:1-11) Móse var gott fordæmi öldungum nú á dögum sem ‚gæta hjarðar Guðs‘ og fella dóma. (Postulasagan 20:28) Megi samskipti þeirra við bræður sína vera á sama hátt eins mild og „gróðrarskúrir á grængresið.“
14. Hvaða andlegra eiginleika var krafist af mönnum sem Móse skipaði dómara í Ísrael?
14 Er tíminn leið gat Móse ekki einn borið þá byrði að meðhöndla dómsmál fyrir þjóðina. (2. Mósebók 18:13, 18) Hann tók til greina uppástungu tengdaföður síns um að fá aðra til liðs við sig. Hvernig menn voru nú valdir? Við lesum: „‚Og þú skalt velja meðal alls fólksins dugandi menn og guðhrædda, áreiðanlega menn og ósérplægna,‘ . . . Og Móse valdi dugandi menn af öllum Ísraels lýð og skipaði þá foringja yfir lýðinn, suma yfir þúsund, suma yfir hundrað, suma yfir fimmtíu, suma yfir tíu. Og mæltu þeir lýðnum lögskil á öllum tímum. Vandamálunum skutu þeir til Móse, en sjálfir dæmdu þeir í hinum smærri málum.“ — 2. Mósebók 18:21-26.
15. Hvaða kröfur þuftu þeir að uppfylla sem gegndu dómarastörfum í Ísrael?
15 Sjá má að aldur var ekki eina viðmiðunin þegar valdir voru menn til dómarastarfa. Móse sagði: „Veljið til vitra menn, skynsama og valinkunna af hverri kynkvísl yðar, og mun ég skipa þá höfðingja yfir yður.“ (5. Mósebók 1:13) Móse var vel kunnugt það sem hinn ungi Elíhú hafði sagt mörgum árum áður: „Elstu mennirnir eru ekki ávallt vitrastir, og öldungarnir skynja eigi, hvað réttast er.“ (Jobsbók 32:9) Þeir sem skipaðir voru urðu vissulega að vera ‚valinkunnir‘ menn og reyndir. En framar öllu urðu þeir að vera dugandi, guðhræddir, áreiðanlegir og ósérplægnir menn sem voru vitrir og skynsamir. Það virðist því ljóst að þeir ‚höfðingjar‘ og „dómendur,“ sem nefndir eru í Jósúabók 23:2 og 24:1, voru ekki einhverjir aðrir menn en ‚öldungar‘ þeir sem nefndir eru í sömu versum heldur valdir úr þeirra hópi. — Sjá Insight on the Scriptures, 2. bindi, bls. 549.
Meðhöndlun dómsmála
16. Hverju ættum við nú á dögum að taka eftir varðandi leiðbeiningar þær sem Móse gaf nýskipuðum dómurum?
16 Um leiðbeingarnar til þeirra sem valdir voru dómarar sagði Móse: „Ég lagði þá svo fyrir dómendur yðar: ‚Hlýðið á mál bræðra yðar og dæmið réttlátlega, hvort heldur mann greinir á við bróður sinn eða útlending, er hjá honum dvelur. Gjörið yður eigi mannamun í dómum, hlýðið jafnt á lágan sem háan. Hræðist engan mann, því að dómurinn er Guðs. En ef eitthvert mál er yður ofvaxið, þá skjótið því til mín [Móse], og skal ég sinna því.‘“ — 5. Mósebók 1:16, 17.
17. Hverjir voru skipaðir dómarar og hvaða aðvörun gaf Jósafat konungur þeim?
17 Máli var að sjálfsögðu aðeins hægt að skjóta til Móse á meðan hann lifði. Frekari ráðstafanir voru því gerðar til að erfiðum málum mætti vísa til presta, levíta og sérskipaðra dómara. (5. Mósebók 17:8-12; 1. Kroníkubók 23:1-4; 2. Kroníkubók 19:5, 8) Jósafat konungur sagði dómurum þeim sem hann hafði skipað í borgum Júda: „Gætið að, hvað þér gjörið, því að eigi dæmið þér í umboði manna, heldur [Jehóva], . . . Svo skuluð þér breyta í ótta [Jehóva], með trúmennsku og af heilum hug. Og í hverri þrætu, er kemur fyrir yður frá bræðrum yðar, þeim er búa í borgum sínum, . . . skuluð þér vara þá við, svo að þeir verði ekki sekir við [Jehóva], og reiði komi yfir yður og bræður yðar. Svo skuluð þér breyta, að þér verðið ekki sekir.“ — 2. Kroníkubók 19:6-10.
18. (a) Nefnið nokkrar þeirra meginreglna sem dómarar í Ísrael urðu að fylgja. (b) Hvað urðu dómararnir að hafa í huga og hvaða ritningarstaðir sýna afleiðingar þess að þeir gleymdu því?
18 Eftirfarandi frumreglur eru meðal þeirra sem dómarar í Ísrael urðu að taka mið af: Jafn réttur ríkra og fátækra (2. Mósebók 23:3, 6; 3. Mósebók 19:15); alger óhlutdrægni (5. Mósebók 1:17); engar mútur mátti þiggja. (5. Mósebók 16:18-20) Dómarar áttu alltaf að muna að þeir voru að dæma hjörð Jehóva. (Sálmur 100:3) Reyndar var ein af ástæðum þess að Jehóva hafnaði Ísraelsþjóðinni sú að prestar hennar og hirðar brugðust því hlutverki að dæma með réttlæti og meðhöndluðu fólkið af hörku. — Jeremía 22:3, 5, 25; 23:1, 2; Esekíel 34:1-4; Malakí 2:8, 9.
19. Hvers virði fyrir okkur er þessi athugun á stöðlum Jehóva varðandi dómsmál fyrir okkar tímatal og hvað verður skoðað í næstu grein?
19 Jehóva breytist ekki. (Malakí 3:6) Þessi stutta upprifjun á því hvernig meðhöndla hefði átt dómsmál í Ísrael og hvernig Jehóva leit á það ef einhverjum var meinað að ná rétti sínum, ætti að fá öldunga nú á dögum, sem eru ábyrgir fyrir því að fella dóma, til að staldra við og hugleiða málið. Fordæmi Jehóva sem dómari og dómskerfið, sem hann setti á stofn í Ísrael, setti meginreglur sem gáfu fyrirmynd um meðhöndlun dómsmála í kristna söfnuðinum. Við munum sjá það í eftirfarandi grein.
Upprifjunarspurningar
◻ Hvernig mætti draga saman dómsaðferð Jehóva?
◻ Hvernig kom aðferð Jehóva fram í samskiptum hans við Kain og kynslóðina fyrir flóðið?
◻ Hverjir sinntu dómarastörfum á tímum ættfeðranna og hvernig?
◻ Hvað aðgreindi dómskerfi Ísraelsmanna frá dómskerfum annarra þjóða?
◻ Hvernig menn voru skipaðir sem dómarar í Ísrael og hvaða frumreglum áttu þeir að fylgja?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Á tímum ættfeðranna og í Ísrael meðhöndluðu skipaðir öldungar dómsmál við borgarhliðið.