Sameinaðir undir merki kærleikans
„Umfram allt hafið brennandi kærleika hver til annars.“ — 1. PÉTURSBRÉF 4:8.
1. Hvers konar kærleika sjáum við meðal þjóna Guðs nú á tímum og hvað hafa smurðir kristnir menn boðað síðan 1922?
SJÁUM við þess konar kærleika meðal þjóna Guðs nú á tímum? Svo sannarlega gerum við það! Þessi kærleikur beinist að viðurkenningu og stuðningi við drottinvald Jehóva, líkt og Davíð studdi það. Sérstaklega frá árinu 1922 hafa smurðir bræður Jesú Krists, ‚sonar Davíðs,‘ boðað um alla jörðina að ríki Guðs sé í nánd og að kappar kúgunarstjórnar Satans eigi fyrir sér aftöku af hendi hins skipaða dómara Guðs, Jesú Krists. — Matteus 21:15, 42-44; Opinberunarbókin 19:11, 19-21.
2. Hvers vegna var hægt að kalla Davíð ‚mann eftir hjarta Jehóva‘?
2 Davíð var ‚maður eftir hjarta Jehóva.‘ Það mátti glöggt sjá af kærleika hans til Jehóva og réttlætisins — einkennum sem jafnvel hinn huglausi Sál konungur viðurkenndi í fari Davíðs — og af öðrum eiginleikum hans svo sem óttaleysi, algerri hollustu við Jehóva, forystuhæfileika og auðmjúkri undirgefni við guðræðislega skipan. — 1. Samúelsbók 13:14; 16:7, 11-13; 17:33-36; 24:9, 10, 17.
3. Hvernig leit Jónatan á Davíð og hvers vegna?
3 Eftir sigur sinn yfir Golíat gaf Davíð sig aftur fram við Sál. Þá gekk fram á sjónarsviðið annar unnandi réttlætisins. Það var Jónatan, elsti sonur Sáls konungs. „Þegar Davíð hafði endað tal sitt við Sál, þá lagði Jónatan ást mikla við Davíð og unni honum sem lífi sínu.“ (1. Samúelsbók 18:1) Það var þó ekki hugrekki Davíðs og leikni með slöngvivaðinn sem aflaði honum innilegrar aðdáunar Jónatans, heldur brennandi kostgæfni hans fyrir því að halda nafni Jehóva hreinu, ósérplægni hans og skilyrðislaust traust til Jehóva. — Samanber Sálm 8:2, 10; 9:2, 3.
4. Hvernig sýndi Jónatan að hann viðurkenndi að Davíð væri smurður til konungs?
4 Þótt Jónatan væri um 30 árum eldri en Davíð bast hann þessum unga stríðsmanni ævarandi vináttuböndum. „Og Jónatan gjörði fóstbræðralag við Davíð, af því að hann unni honum sem lífi sínu. Og Jónatan fór úr skikkju sinni, sem hann var í, og gaf Davíð hana, svo og brynjukufl sinn og jafnvel sverð sitt, boga sinn og belti.“ (1. Samúelsbók 18:3, 4) Þetta var einstök viðurkenning sem Jónatan veitti Davíð! Undir eðlilegum kringumstæðum hefði Jónatan verið erfingi Sáls. Samt sem áður sýndi hann Davíð innilegan, réttsýnan kærleika og undirgefni sem smurðum til konungs, honum sem öðrum fremur var ráðinn í að halda á lofti nafni Jehóva og drottinvaldi. — 2. Samúelsbók 7:18-24; 1. Kroníkubók 29:10-13.
5. Hvað var Jónatan ljóst þegar guðræðislegur hernaður átti í hlut?
5 Jónatan var einnig baráttumaður fyrir réttlætinu. Hann hafði sjálfur sagt að ‚ekkert gæti tálmað Jehóva að veita sigur, hvort heldur er með mörgum eða fáum.‘ Hvers vegna? Vegna þess að Jónatan gerði sér ljóst að alltaf er nauðsynlegt að leita leiðsagnar Jehóva til að vinna sigur í guðræðislegum hernaði. Þegar Jónatan gerðist óafvitandi brotlegur og Sál dæmdi hann til dauða, tók hann þeim dómi auðmjúkur í bragði. Til allrar hamingju leysti fólkið hann undan lífláti. — 1. Samúelsbók 14:6, 9, 10, 24, 27, 43-45.
Drottinhollur kærleikur látinn í ljós
6. Hvernig kom drottinhollur kærleikur Jónatans Davíð til bjargar?
6 Sál varð öfundsjúkur út af orðstír Davíðs sem hermaður og leitaðist við að drepa hann, en drottinhollur kærleikur Jónatans kom honum til bjargar! Við lesum: „Jónatan, sonur Sáls, hafði miklar mætur á Davíð. Fyrir því sagði Jónatan Davíð frá þessu og mælti: ‚Sál faðir minn situr um að drepa þig. Ver því var um þig á morgun snemma og fel þig og ver þú kyrr í því leyni.‘“ Við þetta tækifæri tókst Jónatan að róa Sál þannig að Davíð var þyrmt. En þegar Davíð ‚barðist aftur við Filista og felldi mikinn fjölda af þeim‘ blossaði fjandskapur Sáls upp á ný. Enn á ný afréð hann að drepa Davíð þannig að Davíð flúði. — 1. Samúelsbók 19:1-10.
7. Hvað sögðu Jónatan og útlaginn Davíð hvor við annan til að staðfesta sáttmála sín á milli?
7 Síðar hittust þeir Jónatan og flóttamaðurinn Davíð á ný. Jónatan sagði þá: „Hvað sem þú biður um mun ég fyrir þig gjöra.“ Mennirnir tveir staðfestu á ný sáttmála sinn frammi fyrir Jehóva og Davíð hét því að hann myndi aldrei svipta hús Jónatans miskunn sinni. Það loforð hélt hann dyggilega. „Jónatan vann Davíð enn eið við ást þá, er hann bar til hans, því að hann unni honum hugástum.“ — 1. Samúelsbók 20:4-17; 2. Samúelsbók 21:7.
8. Hvers vegna hittust Jónatan og Davíð með leynd á akri úti og hvað gerðist þá?
8 Sál konungur varð nú ósveigjanlegur í þeim ásetningi sínum að drepa Davíð. Hann meira að segja kastaði spjóti að sínum eigin syni, Jónatan, þegar hann einu sinni tók upp hanskann fyrir Davíð! Jónatan átti því leynilegan fund við Davíð á akri úti. „En Davíð . . . féll fram á ásjónu sína til jarðar og laut þrisvar sinnum, og þeir kysstu hvor annan og grétu hvor með öðrum, þó Davíð miklu meir. Og Jónatan sagði við Davíð: ‚Far þú í friði. En viðvíkjandi því, sem við báðir höfum unnið eið að í nafni [Jehóva], þá sé [Jehóva] vitni milli mín og þín og milli minna niðja og þinna niðja að eilífu.‘“ Síðan skildu þeir og Davíð hafðist við sem útlagi í Sífeyðimörk. — 1. Samúelsbók 20:41, 42.
9, 10. (a) Hvernig uppörvaði Jónatan Davíð enn frekar er þeir hittust, trúlega í síðasta sinn? (b) Hvaða harmljóð orti Davíð þegar Filistar felldu Jónatan og Sál og hvernig endaði það?
9 Með sama kærleiksþeli og áður hélt Jónatan áfram að uppörva Davíð. Frásagan segir: „Jónatan, sonur Sáls, tók sig upp og fór á fund Davíðs í Hóres og hughreysti hann í nafni Guðs og sagði við hann: ‚Óttast þú ekki, því að Sál faðir minn mun eigi hendur á þér festa, en þú munt verða konungur yfir Ísrael, og mun ég þá ganga þér næstur. Sál faðir minn veit og þetta.‘ Og þeir gjörðu báðir sáttmála fyrir augliti [Jehóva].“ — 1. Samúelsbók 23:15-18.
10 Svo er að sjá sem þetta hafi verið síðasti fundur Davíðs og hins trygga félaga hans, Jónatans. Síðar, þegar bæði Jónatan og Sál féllu í bardaga við Filista, orti Davíð sorgarkvæði, „Kvæðið um bogann.“ Í því lét hann í ljós virðingu sína fyrir Sál sem smurðum konungi Jehóva en lauk því með þessum orðum: „En að hetjurnar skyldu falla í bardaganum og Jónatan liggja veginn á hæðum þínum! Sárt trega ég þig, bróðir minn Jónatan, mjög varstu mér hugljúfur! Ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna. En að hetjurnar skuli vera fallnar og hervopnin glötuð!“ (2. Samúelsbók 1:18, 21, 25-27) Davíð var síðan smurður öðru sinni, sem konungur yfir Júda.
Nútímahliðstæður
11, 12. (a) Dæmi um hvers konar kærleika var ást þeirra Davíðs og Jónatans? (b) Fyrirmynd hvers var hinn brennandi kærleikur Davíðs og Jónatans?
11 Með því að „sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu,“ hvaða lærdóm getum við þá dregið af frásögunni um Davíð og Jónatan? (2. Tímóteusarbréf 3:16) Við tökum eftir að á milli þeirra ríkti ‚undursamlegri ást en ástir kvenna.‘ „Ástir kvenna“ geta að vísu verið unaðslegar þegar þeirra er notið í samræmi við lög Jehóva um hjónaband. (Matteus 19:6, 9; Hebreabréfið 13:4) En kærleikur Davíðs og Jónatans var enn ágætari í samræmi við boðorðið: „Heyr Ísrael! [Jehóva] er vor Guð; hann einn er [Jehóva]! Þú skalt elska [Jehóva] Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ — 5. Mósebók 6:4, 5.
12 Davíð og Jónatan voru sameinaðir í því að sýna þann kærleika er þeir börðust fyrir því að halda nafni Jehóva hreinu af lasti og óhróðri óvina hans. Þegar þeir gerðu það ræktuðu þeir um leið ‚brennandi kærleika hvor til annars.‘ (1. Pétursbréf 4:9) Þau sterku bönd, sem tengdu þá, gengu enn lengra en boðið hljóðaði um í 3. Mósebók 19:18: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Hér var komin fyrirmynd um hina nýju tegund kærleika sem gefin var í skyn í ‚nýju boðorði‘ Jesú: „Að þér elskið hver annan. Eins og ég hef elskað yður, skuluð þér einnig elska hver annan.“ Kærleikur Jesú var fórnfús, ekki aðeins í algerri undirgefni hans við vilja Jehóva heldur einnig í fúsleika hans jafnvel til að „leggja líf sitt í sölurnar fyrir vini sína.“ — Jóhannes 13:34; 15:13.
Ein sameinuð „hjörð“
13. Hvaða hópur boðbera Guðsríkis hefur gengið fram á sjónarsviðið, einkanlega frá 1935, og hvernig eru þeir sameinaðir hinum smurðu?
13 Smurðir kristnir menn af ‚litlu hjörðinni‘ hafa borið hita og þunga bardagans við Golíat okkar tíma. Frá 1935 hafa hins vegar gengið til liðs við þá boðberar Guðsríkis af öðru og stærra „sauðabyrgi.“ Þessir ‚aðrir sauðir‘ eru nú sameinaðir þeim sem eftir eru af hinum smurðu ‚sauðum‘ sem „ein hjörð“ í umsjá ‚eins hirðis,‘ ‚sonar Davíðs,‘ böndum ástar og einingar — sams konar og var milli Jónatans og Davíðs. — Lúkas 12:32; Jóhannes 10:16; Esekíel 37:24.
14. Hvað er hliðstætt tilraunum Sáls til að drepa Davíð og ástríkum stuðningi Jónatans við Davíð?
14 Um það leyti sem þessi Jónatanshópur var byrjaður að margfaldast í mikinn múg braust síðari heimsstyrjöldin út, þannig að mjög reyndi á bæði hina smurðu og félaga þeirra. Um árabil máttu þeir þola illvígar ofsóknir, oft að undirlagi klerka. Það svarar til tilrauna Sáls til að drepa hinn smurða Davíð og síðar Jónatan þegar hinn síðarnefndi lét í ljós stuðning sinn við Davíð. Hóparnir tveir, sem kenndir eru við Davíð og Jónatan, sýndu hvor öðrum sannarlega sterkan kærleika á þessu tímabili! Dæmisaga Jesú í Matteusi 25:35-40 uppfylltist oft bókstaflega.a
15. (a) Hvað er ólíkt með lífsstefnu vottanna og Sálshópi nútímans? (b) Hvað kann nú á tímum að vera hliðstætt hinum ‚illa anda frá Jehóva‘ sem ásótti Sál konung?
15 Ráðvendni votta Jehóva er harla ólík hegðun þess nútímahóps sem líkist Sál. Vottarnir, sem ‚eru ekki af heiminum,‘ hafa til endimarka jarðar hlýtt boði Jesú um að ‚elska hver annan.‘ (Jóhannes 15:17-19) Beggja vegna víglínunnar hafa klerkar kristna heimsins aftur á móti í heimsstyrjöldunum tveim beðið sinn „Guð“ um sigur, samtímis og trúbræður þeirra af öðrum þjóðum voru að brytja hermenn niður í milljónatali. Hinn ‚illi andi frá Jehóva,‘ sem sótti á Sál, kann að samsvara vel afleiðingunum af því er englarnir í Opinberunarbókinni 8. kafla helltu út plágunum. Augljóst er að klerkar kristna heimsins hafa ekki heilagan anda Jehóva. — 1. Samúelsbók 16:14; 18:10-12; 19:10; 20:32-34.
16. (a) Hvernig notuðu klerkarnir tvær heimsstyrjaldir til að kúga þjóna Jehóva? (b) Hvernig má segja að Sál nútímans hafi á síðustu árum haldið áfram að hundelta þjóna Guðs?
16 Árið 1918 notfærðu klerkarnir sér stríðshitann til að telja valdamenn í Bandaríkjunum á að grípa til aðgerða gegn forystumönnum Biblíufélagsins Varðturninn og að lokum fangelsa þá. (Þessir biblíunemendur fengu síðar algera uppreisn æru.) Þegar síðari heimsstyrjöldin var háð var starfsemi votta Jehóva bönnuð á yfirráðasvæði Möndulveldanna og í flestum löndum breska samveldisins, oft vegna þrýstings frá kirkjuleiðtogum. Til dæmis getur að líta hér að ofan ljósrit af bréfi frá erkibiskupinum í Sydney (síðar kardínála), ritað rétt áður en starf votta Jehóva var bannað í Ástralíu. Þegar lögmæti bannsins kom til kasta hæstaréttar Ástralíu lýsti Starke dómari því sem „gerræðislegu, duttlungafullu og kúgandi.“ Banninu var aflétt þann 14. júní 1943 og stjórnvöld dæmd til að greiða skaðabætur. Á síðustu árum hafa stjórnir fjölmargra landa í Afríku og Asíu verið beittar þrýstingi að undirlagi trúfélaga sem hefur haft í för með sér að vottar Jehóva hafa verið miskunnarlaust kúgaðir. Þannig hefur Sál nútímans — klerkastétt kristna heimsins — haldið áfram að hundelta þjóna Guðs.
17. (a) Hvernig hafa vottar Jehóva mætt hinum linnulausa þrýstingi trúmála- og stjórnmálaafla? (b) Hverju er lýst með einingu vottanna um víða veröld?
17 Hvernig hafa vottar Jehóva núna á 9. áratugnum brugðist við þrýstingi stjórnmála- og trúmálaafla? Á sama hátt og Davíð bauð Golíat birginn og Davíð og Jónatan Sál konungi! Þeir eru óttalausir og staðráðnir í að varðveita ráðvendni í deilunni um drottinvaldið, því að þeir vita að Guðsríki mun ganga með sigur af hólmi. (Daníel 2:44) Þeir mæta ofsóknum sameinaðir sem einn maður og uppörva hver annan innan alþjóðlegs bræðrabandalags sem heimurinn hefur aldrei fyrr séð. Þeir eru hlutlausir á stríðstímum og úthella ekki blóði trúbræða sinna af öðrum þjóðum. (Míka 4:3, 5) Með þeim hætti sýna þeir að þeir eru sá hópur sem Jesús átti við þegar hann sagði: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Sem alþjóðlegt bræðrafélag hafa vottar Jehóva ‚íklæðst kærleika sem er band algjörleikans,‘ band sem er hafið yfir landamæri kynþátta, ættflokka og þjóða. — Kólossubréfið 3:14.
Að sýna „brennandi kærleika“
18. (a) Hvað er hliðstætt nú á tímum við kærleika Jónatans til Davíðs og í hverju birtist það? (b) Hvaða árangri hefur óhagganleg afstaða Davíðshópsins skilað um víða veröld?
18 Mundu að „Jónatan [lagði] ást mikla við Davíð og unni honum sem lífi sínu.“ Þessi kærleikur á sér einstaka hliðstæðu núna á „síðustu dögum“! (2. Tímóteusarbréf 3:1, 14) Út í gegnum hina glórulausu ólgu þessara ofbeldistíma hefur einn hópur manna, vottar Jehóva, verið sameinaður kærleiksböndum út um víða veröld. Sem hlutlausir kristnir menn hafa þeir heiðrað skapara sinn sem drottinvald alls mannkyns. (Sálmur 100:3) Refaím nútímans — stjórnmálalegir ættmenn „Golíats“ — halda kannski áfram að hæða og spotta hinn andlega Ísrael. (2. Samúelsbók 21:21, 22) Og Sál nútímans — klerkastétt kristna heimsins — heldur ef til vill áfram að valda Davíðs- og Jónatanshópnum erfiðleikum. (1. Samúelsbók 20:32, 33) En ‚bardaginn tilheyrir Jehóva.‘ Sem alvaldur Drottinn mun hann vinna lokasigur til blessunar drottinhollum þjónum sínum. Milljónir manna — í öllum löndum heims — hafa veitt athygli óhagganlegri afstöðu Davíðshópsins og sameinast honum undir merki Krists, ‚merki kærleikans.‘b — 1. Samúelsbók 17:47; Ljóðaljóðin 2:4.
19, 20. (a) Nefndu nokkur atriði sem skera sig úr í starfsskýrslu votta Jehóva. (b) Hve mikið fjölgaði vottunum á áratugunum 1979-88? (c) Hvernig má segja að vottarnir séu í sannleika sameinaðir um víða veröld og hvaða spurning vaknar við það?
19 Þú getur skoðað nánar hina vaxandi starfsemi þessara milljóna votta með hjálp töflunnar á blaðsíðu 4-7 í mörgum erlendum útgáfum þessa tímarits þann 1. janúar 1988 eða í Árbók votta Jehóva 1989. Á áratugnum 1979-88 hefur boðberum fagnaðarerindisins um stofnsett ríki Guðs fjölgað úr 2.186.075 í 3.592.651 en það svarar til 64,3 af hundraði. Út um allan heim eru þessir einstaklingar sameinaðir í einni sameiginlegri trú, einni sameiginlegri þjónustu við Guð og eru alls staðar samstíga í því að fylgja siðferðislögum Biblíunnar. Það er þetta samheldna, alþjóðlega bræðrafélag sem orð Jesú eiga við núna: „Ef þér haldið boðorð mín, verðið þér stöðugir í elsku minni, eins og ég hef haldið boðorð föður míns og er stöðugur í elsku hans.“ — Jóhannes 15:10; samanber 1. Korintubréf 1:10.
20 Þótt þessir vottar Jehóva prédiki á rúmlega 200 mismunandi tungumálum tala þeir hið hreina tungumál sannleikans er þeir þjóna Guði ‚einhuga.‘ Í því líkja þeir eftir fordæmi Davíðs og Jónatans. (Sefanía 3:9; 1. Samúelsbók 20:17; Orðskviðirnir 18:24) Langar þig ekki til að verða hluti af þessum Jónatanshópi nútímans ef þú ert ekki nú þegar sameinaður þjónum Guðs? Þú getur sett þér það markmið og vottar Jehóva munu sýna brennandi kærleika í að hjálpa þér að ná því.
[Neðanmáls]
a Sagt er frá einu dæmi þessa í Árbók votta Jehóva 1972, frá 3. grein á bls. 216 til 3. greinar á bls. 217.
b Sjá Árbók votta Jehóva 1988, bls. 150-4.
Upprifjun
◻ Hvernig lét Jónatan í ljós drottinhollan kærleika til Davíðs?
◻ Hvers konar kærleika fyrirmyndaði kærleikurinn milli Davíðs og Jónatans?
◻ Hvað er líkt með framgöngu kristna heimsins og Sáls konungs er hann hundelti Davíð?
◻ Hvað er sambærilegt nú á dögum við kærleika Jónatans til Davíðs?
◻ Hvað sýnir sameining vottanna um víða veröld fram á?
[Rammi á blaðsíðu 21]
Ég er yður þakklátur fyrir bréf yðar frá 9. þ. m. varðandi tilvísanir sem þér hafið fengið frá hr. Jennings, þingmanni.
Mér er vitanlega ljóst að þér þurfið að gæta ýtrustu varúðar í svo viðkvæmu máli sem hér um ræðir.
Ef einustu efasemdirnar, sem þér hafið, koma hins vegar til af því að þetta fólk segist boða kenningar kristinnar trúar, þá legg ég virðingarfyllst til að þér byggið ekki mat yðar á orðum þess heldur á staðreyndum. Sem staðreyndir í málinu legg ég hér fram þeirra eigin rit og þeirra eigin orð og gerðir, staðfestar af lögreglunni í New South Wales. Vart er hægt að ímynda sér nokkuð sem gengur jafnfreklega í berhögg við kristna trú.
Lögreglustjórinn í New South Wales hefur látið í ljós þá von sína að yfirvöld Samveldisins láti lýsa umrætt félag ólöglegt, þannig að lögreglan geti gripið til virkari aðgerða gegn því.