Dómi fullnægt í Dómsdalnum
„Þjóðirnar . . . skulu halda upp í Jósafatsdal, því að þar mun ég sitja til þess að dæma allar þjóðirnar.“ — JÓEL 3:17.
1. Af hverju sér Jóel flokka þyrpast saman í „dómsdalnum“?
„FLOKKARNIR þyrpast saman í dómsdalnum“! Við lesum þessi áhrifamiklu orð í Jóel 3:19. Af hverju þyrpast þessir flokkar saman? Jóel svarar: „Því að dagur [Jehóva] er nálægur.“ Það er hinn mikli réttlætingardagur Jehóva Guðs — til að fullnægja dómi á öllum þeim sem hafa hafnað stofnsettu ríki hans í höndum Krists Jesú. Loksins er komið að því að ‚englarnir fjórir‘ í 7. kafla Opinberunarbókarinnar losi tak sitt á „fjórum vindum jarðarinnar“ en það veldur ‚mikilli þrengingu sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða aftur.‘ — Opinberunarbókin 7:1; Matteus 24:21.
2. (a) Hvers vegna er viðeigandi að kalla staðinn, þar sem Jehóva fullnægir dómi, „Jósafatsdal“? (b) Hvernig brást Jósafat réttilega við þegar á hann var ráðist?
2 Í Jóel 3:17 er staðurinn, þar sem þessum dómi er fullnægt, kallaður ‚Jósafatsdalur.‘ Það er viðeigandi því að á ólgutímum í sögu Júdaríkis fullnægði Jehóva dómi þar í þágu hins góða konungs Jósafats, en nafn hans merkir „Jehóva er dómari.“ Ef við íhugum það sem átti sér stað á þeim tíma skiljum við betur það sem brátt mun eiga sér stað á okkar tímum. Frásöguna er að finna í 2. Kroníkubók 20. kafla. Í 1. versi lesum við að ‚Móabítar og Ammónítar og nokkrir af Meúnítum með þeim hafi farið á móti Jósafat til bardaga.‘ Hvernig brást Jósafat við? Hann gerði það sem trúfastir þjónar Jehóva gera alltaf þegar hætta steðjar að. Hann leitaði eftir handleiðslu Jehóva í bæn og bað innilega: „Guð vor, munt þú eigi láta dóm yfir þá ganga? Því að vér erum máttvana gagnvart þessum mikla mannfjölda, er kemur í móti oss. Vér vitum eigi, hvað vér eigum að gjöra, heldur mæna augu vor til þín.“ — 2. Kroníkubók 20:12.
Jehóva svarar bæn
3. Hvaða fyrirmæli gaf Jehóva Júdamönnum þegar árás grannþjóða blasti við?
3 Þegar „allir Júdamenn stóðu frammi fyrir [Jehóva], ásamt ungbörnum þeirra, konum og sonum,“ bænheyrði hann þá. (2. Kroníkubók 20:13) Á sama hátt og hann notar ‚hinn trúa og hyggna þjón‘ nú á tímum notaði hann levítann og spámanninn Jehasíel til að flytja viðstöddum svar sitt. (Matteus 24:45) Við lesum: „Svo segir [Jehóva] við yður: Hræðist eigi né skelfist fyrir þessum mikla mannfjölda, því að eigi er yður búinn bardaginn, heldur Guði. . . . En eigi þurfið þér að berjast við þá, skipið yður aðeins í fylkingu, standið kyrrir og sjáið liðsinni [Jehóva] við yður . . . Óttist eigi og skelfist eigi. Farið í móti þeim á morgun, og [Jehóva] mun vera með yður.“ — 2. Kroníkubók 20:15-17.
4. Hvernig krafðist Jehóva þess að fólk sitt væri virkt en ekki aðgerðarlaust þegar óvinir ógnuðu því?
4 Jehóva krafðist meira af Jósafat konungi og þjóð hans en að sitja með hendur í skauti og bíða eftir yfirnáttúrlegri frelsun. Þeir áttu að taka frumkvæðið í að verjast ögrun óvinarins. Konungurinn og ‚allir Júdamenn, ásamt ungbörnum þeirra, konum og sonum,‘ sýndu sterka trú með því að hlýða Guði og fara á fætur snemma næsta morgun og ganga í fylkingu á móti innrásarliðinu. Á leiðinni hélt konungurinn áfram að veita þeim guðræðislegar leiðbeiningar og hvatningu og brýndi fyrir þeim: „Treystið [Jehóva], Guði yðar, þá munuð þér fá staðist, trúið spámönnum hans, þá munuð þér giftudrjúgir verða!“ (2. Kroníkubók 20:20) Treystið Jehóva! Trúið spámönnum hans! Það var forsenda góðs árangurs. Í dyggri þjónustu okkar við Jehóva skulum við heldur aldrei draga í efa að hann láti trú okkar bera sigur úr býtum!
5. Hvernig lofa vottar Jehóva nútímans hann kappsamlega?
5 Eins og Júdamenn á dögum Jósafats verðum við að ‚lofa Jehóva, því að miskunn hans varir að eilífu.‘ Hvernig lofum við hann? Með því að prédika Guðsríki af kappi! Við getum bætt verkum við trú okkar eins og þessir trúföstu Júdamenn lögðu af stað með ‚fagnaðarópi og lofsöngvum.‘ (2. Kroníkubók 20:21, 22) Já, sýnum ósvikna trú er Jehóva býr sig undir að láta til skarar skríða gegn óvinum sínum. Enda þótt leiðin virðist löng skulum við vera staðráðin í að vera þolgóð og virk í trúnni eins og sigursælir þjónar hans gera á erfiðleikasvæðum heims nú á tímum. Í sumum löndum, þar sem eru grimmilegar ofsóknir, ofbeldi, hungur og skelfilegt efnahagsástand, ná trúfastir þjónar Guðs undraverðum árangri eins og fram kemur í Árbók votta Jehóva 1998.
Jehóva bjargar fólki sínu
6. Hvernig hjálpar sterk trú okkur að sýna hollustu nú á dögum?
6 Óguðlegar þjóðir umhverfis Júda reyndu að gleypa þjóð Guðs, en hún svaraði í trú með því að syngja honum lofsöngva. Við getum sýnt sömu trú. Með því að fylla líf okkar lofi til Jehóva styrkjum við andleg hertygi okkar og gefum Satan ekkert færi á okkur með kænskubrögð sín. (Efesusbréfið 6:11) Sterk trú bælir niður freistinguna til að láta niðurlægjandi skemmtiefni, efnishyggju og sinnuleysi hins deyjandi umheims leiða okkur afvega. Með ósigrandi trú og hollustu þjónum við ásamt ‚hinum trúa og hyggna þjóni‘ og nærumst stöðuglega á þeirri andlegu fæðu sem okkur er veitt „á réttum tíma.“ — Matteus 24:45.
7. Hvernig hafa vottar Jehóva brugðist við árásum?
7 Trú okkar er byggð á Biblíunni og styrkir okkur til að standa gegn hatursherferðum að undirlagi þeirra sem sýna anda ‚illa þjónsins‘ í Matteusi 24:48-51. Þessi spádómur er að uppfyllast á einstakan hátt því að fráhvarfsmenn eru önnum kafnir við að dreifa lygum og áróðri víða um lönd, jafnvel í leynimakki við suma valdamenn þjóðanna. Þar sem við á hafa vottar Jehóva brugðist við eins og lýst er í Filippíbréfinu 1:7 og ‚varið fagnaðarerindið og staðfest það‘ með lögum. Níu dómarar Mannréttindadómstólsins í Strassborg staðfestu til dæmis einróma í grísku dómsmáli hinn 26. september 1996 að „vottar Jehóva falli undir skilgreininguna ‚þekkt trúfélag‘“ og hafi rétt til að njóta skoðana-, samvisku- og trúfrelsis og til að boða trú sína. Dómur Guðs segir um fráhvarfsmenn: „Fram á þeim hefur komið þetta sannmæli: ‚Hundur snýr aftur til spýju sinnar,‘ og: ‚Þvegið svín veltir sér í sama saur.‘“ — 2. Pétursbréf 2:22.
8. Hvernig fullnægði Jehóva dómi á óvinum þjóðar sinnar á dögum Jósafats?
8 Á dögum Jósafats fullnægði Jehóva dómi á þeim sem vildu vinna fólki hans tjón. Við lesum: „Setti [Jehóva] launsátur móti Ammónítum, Móabítum og Seírfjalla-búum, er fóru í móti Júda, og þeir biðu ósigur. Ammónítar og Móabítar hófust gegn Seírfjalla-búum til þess að gjöreyða þeim og tortíma, og er þeir höfðu gjörsigrað Seírbúa, þá hjálpuðu þeir til að tortíma hver öðrum.“ (2. Kroníkubók 20:22, 23) Júdamenn kölluðu staðinn Lofgjörðardal eða Blessunardal. Þegar Jehóva fullnægir dómi á óvinum sínum nú á tímum verður það þjóð hans einnig til blessunar.
9, 10. Hverjir hafa reynst verðskulda óhagstæðan dóm Jehóva?
9 Okkur er því spurn hverjir hljóti óhagstæðan dóm Jehóva nú á tímum? Til að fá svar við því þurfum við að fletta aftur upp í spádómi Jóels. Jóel 3:8 talar um óvini þjóðar sinnar sem „gáfu svein fyrir skækju og seldu mey fyrir vín.“ Já, þeir líta niður á þjóna Guðs, telja þá standa sér langt að baki og börn þeirra ekki meira virði en gjald vændiskonu eða verð vínkönnu. Þeir verða að svara til saka fyrir það.
10 Þeir sem stunda andlegt vændi verðskulda jafnharðan dóm. (Opinberunarbókin 17:3-6) Og þeir sem fá stjórnmálaöflin til að ofsækja votta Jehóva og hindra starf þeirra, eins og sumir æsingamenn af flokki trúarleiðtoga hafa gert í Austur-Evrópu á síðustu árum, eru sérstaklega ámælisverðir. Jehóva segist ætla að snúast gegn slíkum ranglætismönnum. — Jóel 3:9-13.
„Heilagt stríð!“
11. Hvernig skorar Jehóva á óvini sína að berjast?
11 Því næst hvetur Jehóva þjóð sína til að boða áskorun meðal þjóðanna: „Búið yður í heilagt stríð! Kveðjið upp kappana! Allir herfærir menn komi fram og fari í leiðangur!“ (Jóel 3:14) Þetta er yfirlýsing um óvenjulegt stríð — réttlátt stríð. Drottinhollir vottar Jehóva reiða sig á andleg vopn í baráttunni gegn lygaáróðri og þeir berjast gegn lygi með sannleika. (2. Korintubréf 10:4; Efesusbréfið 6:17) Bráðlega helgar Guð ‚stríðið á hinum mikla degi Guðs hins alvalda.‘ (Opinberunarbókin 16:14) Það mun losa jörðina við alla andstæðinga drottinvalds hans. Þjónar hans á jörðinni munu ekki eiga neinn þátt í stríðinu. Bæði bókstaflega og táknrænt hafa þeir ‚smíðað plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum.‘ (Jesaja 2:4) Jehóva skorar hins vegar á óvinaþjóðirnar að gera hið gagnstæða: „Smíðið sverð úr plógjárnum yðar og lensur úr sniðlum yðar!“ (Jóel 3:15) Hann býður þeim að nota allar hervélar sínar og nýjustu hergögn í þessum bardaga. En þjóðirnar geta ekki sigrað því að bardaginn og sigurinn er Jehóva!
12, 13. (a) Hvernig hafa margar þjóðir sýnt sig herskáar þrátt fyrir endalok kalda stríðsins? (b) Hvað eru þjóðirnar ekki búnar undir?
12 Snemma á 10. áratugnum lýstu þjóðirnar því yfir að kalda stríðinu væri lokið. Hafa Sameinuðu þjóðirnar þá náð meginmarkmiði sínu að koma á friði og öryggi? Síður en svo. Hvað segja nýlegir atburðir í Alþýðulýðveldinu Kongó, Búrúndí, Írak, fyrrverandi Júgóslavíu, Líberíu, Rúanda og Sómalíu okkur? Með orðum Jeremía 6:14 segja þeir: „‚Það er friður! Það er friður!‘ þegar enginn friður er.“ — NW.
13 Enda þótt beinum stríðsátökum hafi verið hætt sums staðar keppa aðildarríki Sameinuðu þjóðanna enn þá innbyrðis í framleiðslu sífellt fullkomnari stríðsvopna. Sum ráða enn yfir miklum birgðum kjarnorkuvopna. Önnur framleiða efna- eða sýklavopn til gereyðingar. Þegar þessar þjóðir safnast saman á táknrænan stað sem nefnist Harmagedón skorar Jehóva á þær: „Heilsuleysinginn hrópi: ‚Ég er hetja!‘ Flýtið yður og komið, allar þjóðir sem umhverfis eruð, og safnist saman.“ Þá grípur Jóel fram í með eigin bón: „[Jehóva], lát kappa þína stíga niður þangað!“ — Jóel 3:15, 16.
Jehóva verndar sína
14. Hverjir eru kappar Jehóva?
14 Hverjir eru kappar Jehóva? Hinn sanni Guð er nefndur Jehóva allsherjar eða Jehóva hersveitanna um 280 sinnum í Biblíunni. (2. Konungabók 3:14) Þessar hersveitir eru englarnir á himnum sem eru alltaf reiðubúnir að gera eins og Jehóva segir. Þegar Sýrlendingar vildu ná Elísa á sitt vald opnaði Jehóva augu þjóns hans til að hann gæti séð hvers vegna þeim tækist það ekki: „Fjallið var alþakið hestum og eldlegum vögnum hringinn í kring um Elísa.“ (2. Konungabók 6:17) Jesús sagðist geta beðið föður sinn að senda sér „meira en tólf sveitir engla.“ (Matteus 26:53) Opinberunarbókin lýsir hvernig Jesús kemur ríðandi til að fullnægja dómi við Harmagedón: „Hersveitirnar, sem á himni eru, fylgdu honum á hvítum hestum, klæddar hvítu og hreinu líni. Og af munni hans gengur út biturt sverð að slá þjóðirnar með, og hann stjórnar þeim með járnsprota. Og hann treður vínþröng heiftarreiði Guðs hins alvalda.“ (Opinberunarbókin 19:14, 15) Þessari táknrænu vínþröng er lýst á litríkan hátt sem ‚hinni miklu reiði-vínþröng Guðs.‘ — Opinberunarbókin 14:17-20.
15. Hvernig lýsir Jóel stríði Jehóva gegn þjóðunum?
15 Hvernig ætlar Jehóva þá að verða við bón Jóels um að láta sína eigin kappa stíga niður? Við sjáum það af þessum myndrænu orðum: „Hreyfing skal koma á þjóðirnar og þær skulu halda upp í Jósafatsdal, því að þar mun ég sitja til þess að dæma allar þjóðirnar, sem umhverfis eru. Bregðið sigðinni, því að kornið er fullþroskað, komið og troðið, því að vínlagarþróin er full, það flóir út af lagarkerunum, því að illska þeirra er mikil. Flokkarnir þyrpast saman í dómsdalnum, því að dagur [Jehóva] er nálægur í dómsdalnum. Sól og tungl eru myrk orðin, og stjörnurnar hafa misst birtu sína. En [Jehóva] þrumar frá Síon og lætur raust sína gjalla frá Jerúsalem, svo að himinn og jörð nötra.“ — Jóel 3:17-21.
16. Hverjir verða meðal þeirra sem Jehóva fullnægir dómi á?
16 Með því að fullnægja dómi réttlætir Jehóva Guð drottinvald sitt að fullu, jafnörugglega og nafnið Jósafat þýðir „Jehóva er dómari.“ Spádómurinn kallar þá sem hljóta óhagstæðan dóm ‚flokka sem hópast saman í dómsdalnum.‘ Þeir sem eftir verða af áhangendum falstrúarbragðanna verða í þessum flokkum. Meðal þeirra verða einnig þeir sem lýst er í 2. Sálmi — heiðingjar, þjóðir, konungar jarðarinnar og höfðingjar — sem hafa kosið þetta spillta heimskerfi fremur en að ‚þjóna Jehóva með ótta.‘ Þeir neita að ‚hylla soninn.‘ (Sálmur 2:1, 2, 11, 12) Þeir viðurkenna ekki Jesú sem meðkonung Jehóva. Auk þess verða allir þeir, sem hinn dýrlegi konungur dæmir ‚hafra,‘ meðal flokkanna sem merktir eru til eyðingar. (Matteus 25:33, 41) Þegar tími Jehóva er kominn til að þruma frá hinni himnesku Jerúsalem ríður skipaður konungur hans, konungur konunganna, fram til að fullnægja þessum dómi. Himinn og jörð munu vissulega nötra! Við erum hins vegar fullvissuð um að ‚Jehóva sé athvarf sínum lýð og vígi Ísraelsmönnum.‘ — Jóel 3:21.
17, 18. Hverjir lifa þrenginguna miklu af og hvaða skilyrði búa þeir við?
17 Opinberunarbókin 7:9-17 bendir á hverjir lifi af þrenginguna miklu og kallar þá ‚mikinn múg‘ manna sem iðka trú á lausnarmátt blóðs Jesú. Þeir njóta verndar á degi Jehóva en flokkarnir í spádómi Jóels fá óhagstæðan dóm. Jóel segir við þá sem komast af: „Þér skuluð viðurkenna, að ég er [Jehóva], Guð yðar, sem bý á Síon, mínu heilaga fjalli,“ sem er himneskur bústaður hans. — Jóel 3:22a.
18 Spádómurinn upplýsir okkur síðan um að yfirráðasvæði hins himneska ríkis Guðs verði ‚heilagt og útlendingar skulu ekki framar inn í það koma.‘ (Jóel 3:17b) Það verða engir útlendingar eða óviðkomandi á himnum eða á jarðneskum vettvangi himnaríkis því að allir verða sameinaðir í hreinni tilbeiðslu.
19. Hvernig lýsir Jóel paradísarhamingju fólks Guðs nú á dögum?
19 Nú þegar ríkir mikill friður meðal þjóna Jehóva hér á jörð. Sameiginlega boða þeir dóma hans í rösklega 230 löndum og á um 300 mismunandi tungumálum. Hagsæld þeirra er fagurlega lýst í spádómi Jóels: „Á þeim degi munu fjöllin löðra í vínberjalegi og hálsarnir fljóta í mjólk og allir lækir í Júda renna vatnsfullir.“ (Jóel 3:23) Já, Jehóva mun halda áfram að úthella yfirgnæfandi fögnuði, blessun og hagsæld yfir tilbiðjendur sína á jörðinni og vaxandi flaumi dýrmætra sanninda. Drottinvald Jehóva hefur verið réttlætt að fullu í dómsdalnum og fögnuðurinn verður mikill því að hann býr að eilífu meðal endurleystrar þjóðar sinnar. — Opinberunarbókin 21:3, 4.
Manstu?
◻ Hvernig bjargaði Jehóva fólki sínu á dögum Jósafats?
◻ Hverja dæmir Jehóva til eyðingar í „dómsdalnum“?
◻ Hverjir eru kappar Guðs og hvaða hlutverki gegna þeir í lokaátökunum?
◻ Hvaða hamingju njóta trúfastir tilbiðjendur Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 29]
Júdamönnum var sagt: ‚Hræðist ekki því að ekki er ykkur búinn bardaginn heldur Guði.‘
[Mynd á blaðsíðu 31]
Jehóva skorar á óvini sína að ‚smíða sverð úr plógjárnum sínum.‘
[Mynd á blaðsíðu 32]
Biblían bendir á að mikill múgur lifi þrenginguna miklu af.