Gleði Jehóva er vígi okkar
„Þessi dagur er helgaður Drottni vorum. Verið því eigi hryggir, því að gleði [Jehóva] er hlífiskjöldur [„vígi,“ NW] yðar.“ — NEHEMÍA 8:10.
1, 2. (a) Hvað er vígi? (b) Hvernig sýndi Davíð að hann leitaði hælis hjá Jehóva?
JEHÓVA er óviðjafnanlegt vígi. Og hvað er vígi? Það er varnarvirki, öruggur staður þar sem hægt er að leita skjóls og bjargast. Í Forn-Ísrael leit Davíð á Guð sem vígi sitt. Líttu til dæmis á ljóð sem hann orti hinum hæsta „þá er [Jehóva] frelsaði hann af hendi allra óvina hans og af hendi Sáls,“ konungs í Ísrael. — Sálmur 18, yfirskrift.
2 Davíð hóf þetta hrífandi ljóð með orðunum: „Ég elska þig, [Jehóva], þú styrkur minn. [Jehóva], bjarg mitt og vígi og frelsari minn, Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis, skjöldur minn og horn hjálpræðis míns, háborg mín!“ (Sálmur 18:2, 3) Sál konungur hafði ranglega gert Davíð útlægan og lagt hann í einelti, og hinn ráðvandi Davíð leitaði hælis hjá Jehóva á sama hátt og maður flýr bak við virkismúra undan einhverri ógæfu.
3. Af hverju var ‚mikil gleðihátíð‘ meðal Gyðinga á dögum Esra?
3 Sú gleði, sem Jehóva veitir, er óbrigðult vígi eða athvarf þeim sem ganga ráðvandir á vegi hans. (Orðskviðirnir 2:6-8; 10:29) Til að hafa þá gleði, sem Guð gefur, verða menn auðvitað að gera vilja hans. Við skulum í þessu sambandi líta á það sem gerðist í Jerúsalem á dögum Esra. Fræðimaðurinn Esra og aðrir miðluðu skilningi til fólksins með því að lesa lögmálið og útskýra það. Fólkið var síðan hvatt: „Farið og etið feitan mat og drekkið sæt vín og sendið þeim skammta, sem ekkert er tilreitt fyrir, því að þessi dagur er helgaður Drottni vorum. Verið því eigi hryggir, því að gleði [Jehóva] er hlífiskjöldur [„vígi,“ NW] yðar.“ ‚Mikil gleðihátíð‘ varð úr þegar Gyðingar fóru eftir því sem þeir höfðu lært og héldu ánægjulega laufskálahátíð. (Nehemía 8:1-12) Þeir sem gerðu ‚gleði Jehóva að vígi sínu‘ söfnuðu kröftum fyrir tilbeiðslu hans og þjónustu. Þar eð gleði Jehóva reyndist vígi þeirra megum við vænta þess að þjónar Guðs nú á tímum séu líka glaðir. Hvaða ástæður hafa þeir þá til að vera glaðir?
„Skalt þú gleðjast mikillega“
4. Nefndu eina sérstaka gleðiuppsprettu fólks Jehóva?
4 Ein sérstök ástæða til að gleðjast er sú að Jehóva sér um að þjónar hans geti komið saman. Svæðis- og umdæmismót votta Jehóva veita þeim gleði nú á tímum alveg eins og hinar árlegu hátíðir, sem Ísraelsmenn héldu, glöddu hjörtu þeirra. Ísraelsmönnum var sagt: „Í sjö daga skalt þú halda [Jehóva] Guði þínum hátíð [laufskálahátíðina] á þeim stað, sem [Jehóva] velur, því að [Jehóva] Guð þinn mun láta þér blessast allan jarðargróða þinn og öll handaverk þín. Fyrir því skalt þú gleðjast mikillega.“(5. Mósebók 16:13-15) Já, Guð vildi að þeir ‚gleddust mikillega.‘ Um kristna menn gegnir sama máli því að Páll postuli hvatti trúbræður sína: „Verið ávallt glaðir í Drottni. Ég segi aftur: Verið glaðir.“ — Filippíbréfið 4:4.
5. (a) Hvað er gleði og hvernig öðlast kristnir menn hana? (b) Hvernig getum við verið glöð þrátt fyrir prófraunir?
5 Þar eð Jehóva vill að við séum glaðir veitir hann okkur gleði sem einn af ávöxtum heilags anda síns. (Galatabréfið 5:22, 23) Og hvað er gleði? Hún er ánægjukennd samfara því að vænta einhvers góðs eða eignast það. Gleði er það að vera hamingjusamur, jafnvel fagnandi. Þessi ávöxtur heilags anda Guðs heldur okkur uppi í prófraunum. „Vegna gleði þeirrar, er beið hans [Jesú], leið hann þolinmóðlega á krossi, mat smán einskis og hefur nú setst til hægri handar hásæti Guðs.“ (Hebreabréfið 12:2) Lærisveinninn Jakob skrifaði: „Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir. Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði.“ En hvað nú ef við vitum ekki hvað við eigum að gera þegar við lendum í einhverri prófraun? Þá getum við með trúartrausti beðið um visku til að takast á við hana. Að breyta í samræmi við himneska visku hjálpar okkur að leysa vandamál eða halda út langvarandi prófraunir án þess að missa gleði Jehóva. — Jakobsbréfið 1:2-8.
6. Hver eru tengsl gleðinnar og sannrar tilbeiðslu?
6 Gleðin, sem Jehóva veitir, styrkir okkur til að efla sanna tilbeiðslu. Þannig var það á dögum Nehemía og Esra. Þeir Gyðingar, sem gerðu gleði Jehóva að vígi sínu, styrktust og efldu hag sannrar tilbeiðslu. Og jafnhliða því að þeir unnu að framgangi tilbeiðslunnar á Jehóva jókst gleði þeirra. Það er eins nú á dögum. Sem tilbiðjendur Jehóva höfum við tilefni til að gleðjast mikillega. Við skulum nú líta á nokkrar fleiri ástæður af þeim mörgu sem við höfum til að gleðjast.
Samband við Guð fyrir milligöngu Krists
7. Hvaða ástæðu hafa kristnir menn til að vera glaðir vegna sambands síns við Jehóva?
7 Náið samband okkar við Jehóva gerir okkur að hamingjusamasta fólki á jörðinni. Áður en við gerðumst kristin vorum við hluti af ranglátu mannfélagi sem er ‚andlega blindað og fjarlægt lífi Guðs.‘ (Efesusbréfið 4:18) Það er sannarlega gleðilegt að við skulum ekki lengur vera fjarlæg Jehóva! Að sjálfsögðu kostar það viðleitni að varðveita velþóknun hans. Við verðum að ‚standa stöðugir í trúnni, grundvallaðir og fastir fyrir og hvika ekki frá von fagnaðarerindisins.‘ (Kólossubréfið 1:21-23) Við getum glaðst yfir því að Jehóva skuli hafa dregið okkur til sonar síns í samræmi við orð Jesú sjálfs: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann.“ (Jóhannes 6:44) Ef við kunnum virkilega að meta hið dýrmæta samband okkar við Guð fyrir milligöngu Krists vörumst við hvaðeina sem getur spillt því.
8. Hvernig hefur Jesús stuðlað að gleði okkar?
8 Syndafyrirgefning vegna trúar á lausnarfórn Jesú er mikið gleðiefni vegna þess að hún gerir okkur mögulegt að eiga samband við Guð. Með því að velja syndina af ásetningi leiddi forfaðir okkar Adam dauða yfir allt mannkynið. En Páll postuli útskýrði: „Guð auðsýnir kærleika sinn til vor, þar sem Kristur er fyrir oss dáinn meðan vér enn vorum í syndum vorum.“ Páll skrifaði einnig: „Eins og af misgjörð eins leiddi sakfellingu fyrir alla menn, þannig leiðir og af réttlætisverki eins sýknun og líf fyrir alla menn. Eins og hinir mörgu urðu að syndurum fyrir óhlýðni hins eina manns, þannig mun hlýðni hins eina réttlæta hina mörgu.“ (Rómverjabréfið 5:8, 18, 19) Það er mikið gleðiefni að Jehóva Guði skuli þóknast að endurleysa þá afkomendur Adams sem notfæra sér þessa kærleiksríku ráðstöfun!
Trúfrelsi og upplýsing
9. Af hverju erum við glöð frá trúarlegum sjónarhóli?
9 Frelsi frá Babýlon hinni miklu, heimsveldi falskra trúarbragða, er önnur ástæða til að vera glaður. Það er sannleikur Guðs sem hefur gert okkur frjáls. (Jóhannes 8:32) Og frelsi frá þessari trúarbragðaskækju merkir að við eigum ekki hlutdeild í syndum hennar, hreppum ekki plágur hennar og tortímumst ekki með henni. (Opinberunarbókin 18:1-8) Það er ekkert sorgarefni að sleppa við allt þetta!
10. Hvaða upplýsingar njótum við sem fólk Jehóva?
10 Að skilja orð Guðs og lifa eftir því veitir mikla gleði. Nú þegar við erum frjáls undan áhrifum falskra trúarbragða verður andlegt innsæi okkar stöðugt skýrara, innsæi sem himneskur faðir okkar veitir fyrir milligöngu ‚hins trúa og hyggna þjóns.‘ (Matteus 24:45-47) Af öllum jarðarbúum hafa einungis þeir sem eru vígðir Jehóva skilyrðislaust, heilagan anda hans og hinn blessunarríka skilning á orði hans og vilja. Eins og Páll sagði: „Oss hefur Guð opinberað hana [það sem hann hefur fyrirbúið þeim er elska hann] fyrir andann, því að andinn rannsakar allt, jafnvel djúp Guðs.“ (1. Korintubréf 2:9, 10) Við getum verið bæði þakklát og glöð yfir því að við skulum njóta þess vaxandi skilnings sem talað er um í Orðskviðunum 4:18: „Gata réttlátra er eins og bjartur árdagsljómi, sem verður æ skærari fram á hádegi.“
Vonin um Guðsríki og eilíft líf
11. Hvernig hefur hinni gleðilegu von um Guðsríki verið komið á framfæri við aðra?
11 Von okkar um Guðsríki veitir okkur líka gleði. (Matteus 6:9, 10) Sem vottar Jehóva höfum við lengi boðað að Guðsríki sé eina von alls mannkyns. Lítum til dæmis á árið 1931 þegar við tókum okkur nafnið vottar Jehóva með ályktun sem samþykkt var með fögnuði á 51 móti um heim allan. (Jesaja 43:10-12) Þessi ályktun og þýðingarmikil mótsræða J. F. Rutherfords (þáverandi forseta Varðturnsfélagsins) birtust í bæklingnum Guðsríki, von heimsins. Í honum var önnur ályktun, sem samþykkt var á mótinu, þar sem kristni heimurinn var fordæmdur fyrir fráhvarf sitt og fyrir að fyrirlíta ráð Jehóva. Þar sagði einnig: „Von heimsins er Guðsríki og það er hans eina von.“ Á fáeinum mánuðum dreifðu vottar Jehóva yfir fimm milljónum eintaka af þessum bæklingi í öllum heimshlutum. Síðan höfum við oft staðfest að Guðsríki er eina von mannkynsins.
12. Hvaða gleðilegar framtíðarhorfur veitast þeim sem þjóna Jehóva?
12 Við fögnum líka í voninni um eilíft líf undir stjórn Guðsríkis. Hin „litla hjörð“ smurðra kristinna manna hefur gleðilega himneska von. „Lofaður sé Guð og faðir Drottins vors Jesú Krists,“ skrifaði Pétur postuli, „sem eftir mikilli miskunn sinni hefur endurfætt oss til lifandi vonar fyrir upprisu Jesú Krists frá dauðum, til óforgengilegrar, flekklausrar og ófölnandi arfleifðar, sem yður er geymd á himnum.“ (Lúkas 12:32; 1. Pétursbréf 1:3, 4) Núna hlakkar yfirgnæfandi meirihluti votta Jehóva til eilífs lífs í paradís á jarðnesku yfirráðasvæði Guðsríkis. (Lúkas 23:43, NW; Jóhannes 17:3) Engir aðrir menn á jörðinni hafa nokkuð sambærilegt við hinar gleðilegu framtíðarhorfur okkar. Okkur ætti því að þykja mjög vænt um þær!
Blessunarríkt bræðrafélag
13. Hvernig ættum við að líta á alþjóðabræðrafélag okkar?
13 Það veitir okkur einnig mikla gleði að vera hluti af eina alþjóðabræðrafélaginu sem Guð viðurkennir. Við erum í besta félagsskap sem hugsast getur. Jehóva Guð sagði sjálfur um okkar daga: „Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð.“ (Haggaí 2:7) Allir kristnir menn eru að vísu ófullkomnir. En Jehóva hefur dregið slíka einstaklinga til sín fyrir milligöngu Jesú Krists. (Jóhannes 14:6) Þar eð Jehóva hefur dregið til sín þá sem hann álítur gersemar eykur það gleði okkar að sýna þeim bróðurást, hafa þá í hávegum, starfa með þeim að guðrækilegum viðfangsefnum, styðja þá í prófraunum þeirra og biðja fyrir þeim.
14. Hvaða hvatningu getum við sótt í 1. Pétursbréf 5:5-11?
14 Allt stuðlar þetta að gleði okkar. Gleði Jehóva er svo sannarlega vígi hins andlega bræðrafélags okkar um heim allan. Öll verðum við fyrir ofsóknum og öðrum erfiðleikum. En það ætti að þjappa okkur saman og efla einhug okkar, hins eina sanna skipulags Guðs á jörðinni. Eins og Pétur sagði ættum við að auðmýkja okkur undir Guðs voldugu hönd og varpa allri áhyggju okkar á hann í þeirri vissu að hann beri umhyggju fyrir okkur. Við þurfum að vera vökul því að djöfullinn leitast við að gleypa okkur. En við stöndum ekki ein því að Pétur bætir við: „Standið gegn honum, stöðugir í trúnni, og vitið, að bræður yðar um allan heim verða fyrir sömu þjáningum.“ Og þetta gleðiríka alþjóðabræðrafélag leysist aldrei upp því að við erum fullvissuð um að ‚eftir að við höfum þjáðst um lítinn tíma muni Guð fullkomna okkur, styrkja og gera öflug.‘ (1. Pétursbréf 5:5-11) Hugsaðu þér. Hið gleðiríka bræðrafélag okkar mun standa að eilífu!
Líf sem hefur tilgang
15. Af hverju má segja að vottar Jehóva hafi tilgang í lífinu?
15 Við njótum gleði í þessum hrjáða heimi vegna þess að við höfum tilgang í lífinu. Okkur er treyst fyrir þjónustu sem gleður okkur og aðra. (Rómverjabréfið 10:10) Það eru vissulega gleðileg sérréttindi að vera samverkamenn Guðs. Páll sagði í þessu sambandi: „Hvað er þá Apollós? Já, hvað er þá Páll? Þjónar, sem hafa leitt yður til trúar, og það eins og Drottinn hefur gefið hvorum um sig. Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn. Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur. Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði. Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.“ — 1. Korintubréf 3:5-9.
16, 17. Hvaða dæmi má nefna til að sanna að fólk Jehóva er glatt og hefur tilgang í lífinu?
16 Nefna mætti mörg dæmi til að sýna að trúföst þjónusta við Jehóva gefur lífinu tilgang og fyllir okkur gleði. Þessi orð eru dæmigerð: „Ég leit í kringum mig í troðfullum ríkissalnum [daginn sem hann var vígður] og sá átta úr fjölskyldu minni viðstadda, sjálfan mig, eiginkonu mína og þrjú börn okkar ásamt mökum. . . . Við hjónin höfum svo sannarlega átt hamingjusama og innihaldsríka ævi í þjónustu Guðs.“
17 Það er líka uppörvandi að vita að fólk getur öðlast gleði og raunverulegan tilgang í þjónustu Jehóva óháð aldri. Til dæmis lét kona, sem kynntist sannleika Biblíunnar á hjúkrunarheimili, skírast sem vottur Jehóva 102 ára gömul. Þar með gat hún endað ævina með gleði og tilgangi í lífinu því að hún ‚óttaðist Guð og hélt hans boðorð.‘ — Prédikarinn 12:13.
Óbrigðult vígi
18. Hvað væri hægt að gera til að sigrast á hugarvíli og auka gleði okkar?
18 Gleði Jehóva er óbrigðult vígi trúfastra manna. En þó svo að við höfum þessa gleði merkir það ekki að við verðum aldrei döpur, eins og Jesús var til dæmis í Getsemanegarðinum er hann sagði: „Sál mín er hrygg allt til dauða.“ (Markús 14:32-34) Setjum sem svo að eigingjörn hugðarefni hafi valdið okkur hugarvíli. Breytum þá um lífsstíl. Ef gleði okkar hefur dvínað vegna þess að við berum ósérhlífin mikla biblíulega ábyrgð getum við kannski hagrætt málum til að draga úr álagi og endurheimta gleði okkar. Og Jehóva mun veita okkur gleði ef við leitumst við að þóknast honum með því að standa af alefli gegn hinu synduga holdi, hinum illa heimi og djöflinum. — Galatabréfið 5:24; 6:14; Jakobsbréfið 4:7.
19. Hvernig ættum við að líta á hver þau sérréttindi sem við njótum í skipulagi Guðs?
19 Við höfum margar ástæður til að vera glöð, bæði þær sem við höfum nefnt og margar fleiri. Hvort sem við erum safnaðarboðberar eða eigum hlutdeild í einhverri þjónustu í fullu starfi skulum við öll vera önnum kafin í verki Drottins. Það stuðlar örugglega að gleði okkar. (1. Korintubréf 15:58) Hver svo sem sérréttindi okkar eru í skipulagi Jehóva skulum við vera þakklát fyrir þau og halda glöð áfram að veita kærleiksríkum og hamingjusömum Guði okkar heilaga þjónustu. — 1. Tímóteusarbréf 1:11, NW.
20. Hver eru mestu sérréttindi okkar og hvað megum við vera viss um?
20 Við höfum sérstaklega ástæðu til að gleðjast yfir þeim sérréttindum okkar að bera hið mikla nafn Jehóva sem vottar hans. Já, við erum ófullkomin og eigum í margs konar prófraunum, en við skulum hafa stórkostlegar blessanir okkar sem vottar Jehóva í huga. Og munum að okkar ástkæri himneski faðir bregst okkur aldrei. Við getum treyst því að við njótum alltaf blessunar ef við látum gleði Jehóva vera vígi okkar.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvað er ‚gleði Jehóva‘?
◻ Hvernig öðlast kristnir menn sanna gleði?
◻ Nefndu nokkrar ástæður fyrir votta Jehóva til að vera glaðir.
◻ Af hverju getur gleði Jehóva verið óbrigðult vígi?