Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Esterarbókar
ÁÆTLUNIN gat ekki mistekist. Gyðingum yrði útrýmt hratt og örugglega. Á fyrir fram ákveðnum degi yrðu allir Gyðingar í öllu heimsveldinu strádrepnir, allt frá Indlandi til Eþíópíu. Það var að minnsta kosti ætlun mannsins sem var heilinn á bak við þessi áform. En honum yfirsást eitt mikilvægt atriði. Guð himnanna getur frelsað útvalda þjóð sína úr hvaða hættu sem er. Í Esterarbók segir frá því hvernig björgun þjóðarinnar bar að höndum.
Esterarbók er skrifuð af öldruðum Gyðingi sem Mordekai hét og hún spannar um 18 ára sögu í stjórnartíð Ahasverusar Persakonungs, öðru nafni Xerxesar fyrsta. Þessi stórbrotna frásaga lýsir því hvernig Jehóva bjargar þjóð sinni, sem er dreifð út um víðáttumikið heimsveldi, þegar óvinir brugga henni banaráð. Sagan er afar styrkjandi fyrir trú okkar sem þjónum Jehóva í 235 löndum. Og persónurnar, sem Esterarbók segir frá, eru ýmist góðar fyrirmyndir eða ekki verðar eftirbreytni. Það má með sanni segja að „orð Guðs er lifandi og kröftugt“. — Hebreabréfið 4:12.
DROTTNING ÞARF AÐ SKERAST Í LEIKINN
Ahasverus konungur heldur mikla veislu á þriðja stjórnarári sínu (493 f.Kr.). Vastí drottning, sem er annáluð fyrir fegurð, bakar sér megna vanþóknun konungs og er svipt stöðu sinni. Gyðingastúlkan Hadassa er valin í hennar stað úr hópi fegurstu meyja í ríkinu. Að ráði Mordekais, frænda síns, leynir hún því að hún sé Gyðingur og notar persneska nafnið Ester.
Hrokafullur maður, sem Haman heitir, er skipaður forsætisráðherra. Hann reiðist heiftarlega þegar Mordekai neitar að falla á kné og lúta honum þannig að hann áformar að útrýma öllum Gyðingum í Persaveldi. (Esterarbók 3:2) Hann telur Ahasverus á að gera þetta og tekst að fá konunglega tilskipun um að framið skuli þjóðarmorð. Mordekai klæðist þá „sekk og ösku“. (Esterarbók 4:1) Ester verður að skerast í leikinn. Hún býður konungi og forsætisráðherra til veislu. Þeir þiggja boðið með þökkum og Ester biður þá að koma til annarrar veislu daginn eftir. Haman er himinlifandi en er þó æfur yfir því að Mordekai skuli neita að heiðra sig. Hann leggur því á ráðin um að drepa Mordekai næsta dag, áður en veislan hefst.
Biblíuspurningar og svör:
1:3-5 — Stóð veislan í 180 daga? Textinn segir ekki að veislan hafi staðið þetta lengi heldur að konungur hafi sýnt höfðingjum sínum auðæfi og vegsemd ríkisins í 180 daga. Kannski notaði hann þennan langa tíma til að státa af vegsemd ríkisins, vekja hrifningu höfðingja sinna og sannfæra þá um að hann væri fær um að hrinda áformum sínum í framkvæmd. Ef þetta er rétt ályktað má ætla að í 3. og 5. versi sé átt við veisluna sem stóð í 7 daga en hún var haldin eftir að dagarnir 180 voru liðnir.
1:8 — Hvað er átt við þegar sagt er að fylgt hafi verið „því fyrirmæli, að enginn skyldi halda drykk að mönnum“? Það virðist hafa verið venja hjá Persum að hvetja hver annan til að drekka ákveðið magn við tækifæri sem þetta en hér gerir Ahasverus konungur undantekningu. „Menn máttu drekka eins mikið eða lítið og þeir vildu,“ að sögn heimildarrits.
1:10-12 — Hvers vegna neitaði Vastí drottning að fara til konungs? Sumir fræðimenn telja að hún hafi ekki viljað niðurlægja sig fyrir drukknum gestum konungs. Eins má vera að drottning hafi ekki verið undirgefin þótt fögur væri. Biblían lætur ósagt hvað henni gekk til en vitringar konungs álitu greinilega að það væri alvarlegt mál að kona hlýddi ekki manni sínum, og þeir töldu að slæmt fordæmi drottningar myndi hafa áhrif á allar konur í skattlöndum Persíu.
2:14-17 — Hafði Ester kynmök við konung? Nei, alls ekki. Frásagan segir að hinum konunum, sem voru leiddar til konungs, hafi verið skilað aftur í „hið annað kvennabúr“ sem geldingur konungs hafði umsjón með en hann „geymdi hjákvennanna“. Konurnar, sem voru næturlangt hjá konungi, urðu sem sagt hjákonur hans. Ester var ekki send í hús hjákvennanna eftir að hafa hitt konung. Þegar hún var leidd fyrir hann fékk hann „meiri ást á Ester en öllum öðrum konum, og hún ávann sér náð hans og þokka, meir en allar hinar meyjarnar“. (Esterarbók 2:17) Hvernig ávann hún sér „náð . . . og þokka“ Ahasverusar? Á sama hátt og hún hafði áunnið sér hylli annarra. „Stúlkan geðjaðist [Hegaí] og fann náð fyrir augum hans.“ (Esterarbók 2:8, 9) Hegaí hreifst af henni sökum útlits hennar og góðra eiginleika. Sagt er að Ester hafi fundið náð „í augum allra þeirra, er hana sáu“. (Esterarbók 2:15) Konungur hreifst sömuleiðis af því sem hann sá í fari Esterar og fékk ást á henni.
3:2; 5:9 — Hvers vegna neitaði Mordekai að lúta Haman? Það var ekki rangt fyrir Ísraelsmann að viðurkenna háa stöðu tignarmanns með því að falla fram fyrir honum. Hvað Haman varðaði var þó meira uppi á teningnum. Haman var Agagíti, sennilega Amalekíti, og Jehóva hafði fellt þann dóm að Amalekítum skyldi útrýmt. (5. Mósebók 25:19) Í augum Mordekais hefði það verið óhollusta við Jehóva að lúta Haman. Hann neitaði því afdráttarlaust að gera það og gaf þá skýringu að hann væri Gyðingur. — Esterarbók 3:3, 4.
Lærdómur:
2:10, 20; 4:12-16. Ester þáði ráð og leiðbeiningar þroskaðs manns sem tilbað Jehóva. Það er skynsamlegt af okkur að hlýða þeim sem fara með forystu á meðal okkar og vera þeim eftirlátir. — Hebreabréfið 13:17.
2:11; 4:5. Við ættum ekki að líta aðeins á „eigin hag, heldur einnig annarra“. — Filippíbréfið 2:4.
2:15. Ester sýndi hæversku og sjálfstjórn með því að biðja ekki um meiri skartgripi eða fínni fatnað en Hegaí lét henni í té. Það var „hinn huldi maður hjartans í óforgengilegum búningi hógværs og kyrrláts anda“ sem ávann Ester hylli konungs. — 1. Pétursbréf 3:4.
2:21-23. Ester og Mordekai hlýddu yfirvöldum og eru þar til fyrirmyndar. — Rómverjabréfið 13:1.
3:4. Stundum getur verið skynsamlegt að gera eins og Ester og segja ekki deili á sér. Við megum hins vegar ekki hika við að segja að við séum vottar Jehóva þegar við þurfum að taka afstöðu í mikilvægum málum sem varða drottinvald Jehóva eða ráðvendni okkar.
4:3. Þegar við lendum í prófraunum ættum við að biðja Jehóva að veita okkur visku og styrk til að standast.
4:6-8. Mordekai leitaði lagalegra úrræða gegn ógnuninni sem stafaði af samsæri Hamans. — Filippíbréfið 1:7.
4:14. Mordekai bar óbilandi traust til Jehóva.
4:16. Ester treysti algerlega á Jehóva og sýndi þann kjark að setja sig í aðstöðu sem hefði getað kostað hana lífið. Við verðum að læra að treysta á Jehóva en ekki sjálf okkur.
5:6-8. Ester bauð Ahasverusi til annarrar veislu til að ávinna sér velvild hans. Hún sýndi hyggindi og það ættum við líka að gera. — Orðskviðirnir 14:15.
TAFLIÐ SNÝST VIÐ
Taflið snýst við áður en langt um líður. Haman er hengdur á gálgann sem hann hafði ætlað Mordekai og Mordekai er skipaður forsætisráðherra. Og hvað um fyrirhugaða útrýmingu Gyðinga? Þar snýst taflið sömuleiðis við.
Ester talar við konung á ný. Hún hættir lífi sínu þegar hún gengur fyrir hann með ákveðna beiðni í þeim tilgangi að hægt sé að ónýta áform Hamans. Ahasverus veit hvað gera skal. Þegar dagurinn rennur upp að Gyðingum skuli útrýmt er þeim sem ætla að vinna þeim tjón útrýmt í staðinn. Mordekai fyrirskipar að haldin skuli púrímhátíð ár hvert til að minnast þess að þjóðarmorðinu var afstýrt. Mordekai, sem gengur konungi næstur að völdum, ‚leitar heillar þjóðar sinnar og leggur liðsyrði öllu kyni sínu‘. — Esterarbók 10:3.
Biblíuspurningar og svör:
7:4 — Hvernig hefði konungur beðið skaða ef Gyðingum hefði verið útrýmt? Ester bendir konungi hæversklega á þann möguleika að selja Gyðinga að þrælum og vekur þar með athygli á þeim skaða sem hann myndi bíða af því að útrýma þeim. Silfurtalenturnar 10.000, sem Haman hafði lofað að greiða, vógu miklu minna í fjárhirslu konungs en hann hefði fengið í sinn hlut ef Haman hefði áformað að selja Gyðinga að þrælum. Og hefði áætlun Hamans verið hrint úr vör hefði konungur misst drottningu sína.
7:8 — Hvers vegna huldu hirðmenn andlit Hamans? Það var líklega gert til að lýsa yfir skömm eða yfirvofandi örlögum. Heimildarrit segir að „fornmenn hafi stundum hulið höfuð dauðadæmdra manna“.
8:17 — Í hvaða skilningi var það að „margir hinna heiðnu landsbúa gjörðust Gyðingar“? Margir Persar hafa greinilega tekið Gyðingatrú því að þeir hafa álitið það merki um velþóknun Guðs að Gyðingar skyldu mega verja hendur sínar. Sama meginregla er að verki þegar spádómurinn í Sakaría rætist þar sem segir: „Tíu menn af þjóðum ýmissa tungna [munu] taka í kyrtilskaut eins Gyðings og segja: ‚Vér viljum fara með yður, því að vér höfum heyrt, að Guð sé með yður.‘“ — Sakaría 8:23.
9:10, 15, 16 — Af hverju lögðu Gyðingar ekki hendur á fjármuni manna þrátt fyrir að þeim væri það heimilt samkvæmt tilskipun konungs? Þannig sýndu þeir svo ekki varð um villst að þeir vildu einungis fá að verja hendur sínar en ekki að auðgast.
Lærdómur:
6:6-10. „Drambsemi er undanfari tortímingar, og oflæti veit á fall.“ — Orðskviðirnir 16:18.
7:3, 4. Segjum við hugrökk frá því að við séum vottar Jehóva, jafnvel þó að það geti haft ofsóknir í för með sér?
8:3-6. Við getum og eigum að leita til yfirvalda og dómstóla til að verjast óvinum okkar.
8:5. Ester sýndi þá háttvísi að nefna ekki ábyrgð konungs á tilskipuninni um að þjóð hennar skyldi útrýmt. Við þurfum sömuleiðis að vera háttvís þegar við vitnum fyrir háttsettum valdamönnum.
9:22. Gleymum ekki hinum fátæku á meðal okkar. — Galatabréfið 2:10.
Jehóva veitir „frelsun og hjálp“
Mordekai gefur í skyn að Guð hafi haft ákveðinn tilgang með því að veita Ester drottningartign. Gyðingar fasta og biðjast fyrir þegar þeim er ógnað. Drottning gengur óboðin fyrir konung og hann tekur henni vinsamlega í bæði skiptin. Konungur er andvaka eina örlagaríka nótt. Esterarbók sýnir greinilega fram á hvernig Jehóva hagar atburðum til góðs fyrir þjóð sína.
Hin hrífandi frásögn Esterarbókar er sérstaklega hvetjandi fyrir okkur núna „er að endalokunum líður“. (Daníel 12:4) Góg frá Magóg, Satan djöfullinn, mun gera allsherjarárás á þjóna Jehóva „á hinum síðustu dögum“, það er að segja undir lok endalokatímans. Hann ætlar sér að útrýma öllum sem tilbiðja Guð í sannleika. En eins og gerðist á dögum Esterar mun Jehóva veita þeim sem tilbiðja hann „frelsun og hjálp“. — Esekíel 38:16-23; Esterarbók 4:14.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Ester og Mordekai frammi fyrir Ahasverusi.