Unglingar — hlutverk ykkar í hamingjusamri, einhuga fjölskyldu
„Ég var sonur í föðurhúsum, viðkvæmt einkabarn heima hjá móður minni.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 4:3.
1, 2. Hvaða vandamál er við að glíma á sumum kristnum heimilum?
HVERSU hressandi er það ekki fyrir þig getir þú úthellt kvíða þínum og áhyggjum fyrir einhverjum sem lætur sér annt um þig, reynir að skilja tilfinningar þínar og ræður þér heilt! Þegar þessi aðili er annað hvort foreldra þinna ert þú mikillar blessunar aðnjótandi. En hversu náin tengsl finnst þér þú hafa við foreldra þína?
2 Tveir unglingar, sem eiga kristna foreldra, segja: „Aðalvandamál okkar var tjáskiptaörðugleikar. Við virtumst ekki geta talað við foreldra okkar. Okkur þykir afskaplega vænt um foreldra okkar en við virðumst ekki geta talað saman og skipst á skoðunum. Við höfum beðið Jehóva margsinnis um hjálp hans í þessu máli en höfum ekki fundið lausn.“ Hvernig stendur á því að stundum skuli samræður og skoðanaskipti ekki vera sem skyldi jafnvel á kristnu heimili? Er einhver leið fær út úr slíkum erfiðleikum?
Orsakir vandans
3, 4. Nefnið nokkur atriði sem geta stuðlað að tjáskiptaörðugleikum milli foreldra og barna.
3 Unglingana, sem á undan getur, greindi á við foreldra sína um val á skemmtun og vinum. Ágreiningur, samhliða þeirri tilfinningu að ekki sé tekið tillit til skoðana, getur lokað fyrir eðlileg tjáskipti. En hvers vegna verður þessi ágreiningur? Í Orðskviðunum 20:29 er gefin til kynna ein ástæða. Þar segir: „Krafturinn er ágæti ungra manna, en hærurnar prýði öldunganna.“ „Kraftur“ unga fólksins er enn ekki tempraður af hörðum skóla reynslunnar, og því hættir ykkur unga fólkinu til að sjá ekki hætturnar og halda að ekkert geti komið fyrir ykkur. Foreldrar ykkar hafa hins vegar sökum aldurs — eða jafnvel biturrar reynslu — aflað sér visku og vita betur. Þótt þeir skilji tilfinningar ykkar vita þeir kannski af leyndum hættum sem þið sjáið ekki. — Orðskviðirnir 29:15.
4 Stundum geta samræður og skoðanaskipti verið treg vegna þess að þér finnst erfitt að tala um tilfinningar sem valda þér sársauka. Þú getur verið niðurdreginn vegna árekstra við aðra eða eigin galla. Þér kann að líða eins og Job sem fannst jafnvel bræður hans, nánustu vinir hans, já, meira að segja eiginkonan hafa snúið við sér bakinu. (Jobsbók 19:13-19) Stundum kemur upp tjáskiptavandamál vegna þess að foreldrar ‚byrgja eyrun‘ þegar barn þeirra reynir að tjá sínar innstu tilfinningar. (Orðskviðirnir 21:13) Unglingsstúlka kvartaði: „Ég var mjög niðurdregin, ég grét oft og pabbi sagði: ‚Það hjálpar þér ekkert að gráta,‘ svo að ég byrgði tilfinningarnar inni. Ég grét ekki þegar hann var nálægur og við töluðum alls ekkert saman.“
5. Hvert er fyrsta skrefið í átt að bættum samræðum og skoðanaskiptum?
5 Hvað sem viðhorfum foreldra þinna líður getur þú sjálfur gert margt til að samræður og skoðanaskipti innan fjölskyldunnar verði opinskárri! Byrjaðu á því að leggja hreinskilnislegt mat á samband þitt við foreldra þína. Ísraelsþjóðin þóttist til dæmis eiga náið samband við himneskan föður sinn og sagði: „Faðir minn, þú ert trúnaðarvinur æsku minnar!“ Í reyndinni var sambandið mjög þvingað vegna uppreisnargirni þjóðarinnar. (Jeremía 3:4, 5, NW) Eru foreldrar þínir í raun ‚trúnaðarvinir‘ þínir? Getur hugsast að þú gerir jafnvel óafvitandi eitthvað sem hindrar opinská tjáskipti? Þegar Salómon sagði í Orðskviðunum 4:3: „Ég var sonur í föðurhúsum,“ átti hann við að hann hafi verið sannur sonur — hann hafi gert eitthvað til að vera það. Hvað gerir þú til að eiga nánara samband við foreldra þína og vera þeim sannur sonur eða dóttir?
„Kærleiki og trúfesti“
6. (a) Hvaða eiginleikar geta, samkvæmt Orðskviðunum 3:3, hjálpað unglingum að ‚ávinna sér hylli Guðs og manna‘? (b) Hvernig er hægt að ‚binda þá um háls sér‘?
6 Hinn vitri konungur Salómon grundaði hvað unglingar þyrftu að gera til að ‚ávinna sér hylli og fögur hyggindi bæði í augum Guðs og manna,‘ þeirra á meðal foreldranna. Að hvaða niðurstöðu komst hann? „Son minn, . . . kærleiki og trúfesti munu aldrei yfirgefa þig. Bind þau um háls þér, rita þau á spjald hjarta þíns.“ (Orðskviðirnir 3:1-4) Kærleiki og trúfesti tengja þig foreldrum þínum nánari böndum. Þessir eiginleikar þurfa að verða óaðskiljanlegur hluti persónuleika þíns, ‚bundnir um háls þér, ritaðir á spjald hjarta þíns.‘ Á biblíutímanum var innsiglishringur oft borinn í festi um hálsinn. (1. Mósebók 38:18) Þessi hringur var ómetanlegur því að án hans var ekki hægt að staðfesta eða fullgilda skjal. Sá sem bar hringinn gleymdi honum aldrei og var stöðugt minntur á verðmæti hans. Þannig ætti alltaf að hafa í huga verðmæti kærleika og trúfesti og aldrei gleyma því. En hvernig getur þú látið þessa eiginleika í ljós?
7. Hvernig er hægt að sýna kærleika í því skyni að bæta samræður og skoðanaskipti?
7 Hebreska orðið, sem hér er þýtt „kærleiki,“ merkir „tryggur kærleikur“ og gefur í skyn persónuleg hollustutengsl. Sýnir þú foreldrum þínum tryggð og telur þig skuldbundinn til að eiga náin tilfinningatengsl við þá? Í Sakaría 7:9, 10 er slíkur kærleikur tengdur miskunn og hluttekningu. Reynir þú að setja þig í spor foreldra þinna og skilja það álag sem þeir þurfa að bera? Kærleikur sumra er ‚eins hvikull og morgunský, eins og döggin, sem snemma hverfur.‘ (Hósea 6:4) Hverfur kærleikur þinn eins og dögg fyrir sólu þegar þig greinir eitthvað á við foreldra þína eða þú færð ekki þínu framgengt? Heldur þú tungu þinni ‚ástúðlegri‘ þegar þú ert í uppnámi? Hollusta og hluttekning eru nauðsynleg opinskáum samræðum og skoðanaskiptum. — Orðskviðirnir 31:26.
8. Hvernig geta unglingar sýnt trúfesti?
8 „Trúfesti“ skapar trúnaðartraust sem er nauðsynlegt nánu sambandi af sérhverju tagi. Vertu ekki eins og ‚fláráðir menn‘ sem fela sitt sanna eðli. (Sálmur 26:4) Þú finnur kannski fyrir freistingu til að leika tveim skjöldum — vera eitt í viðurvist kristinna foreldra þinna og annað þegar þeir sjá ekki til. Það getur leitt þig út í hörmulega ógæfu, einkum ef þú mætir erfiðu vandamáli og ert illa í stakk búinn til að leysa það sjálfur. Hugsaðu þér líka þann trúnaðarbrest sem verður þegar tvískinnungurinn kemur í ljós. „Foreldrar mínir vita miklu meira en ég ímynda mér,“ sagði ung kristin stúlka. „Ef ég reyni að fela eitthvað fyrir þeim er ég bara að plata sjálfa mig og reyna að leika á Jehóva.“ Já, vertu staðráðinn í að þroska með þér trúfesti, heiðarleika og hollustu hið innra. En birtast þessir eiginleikar aðeins í því að þú forðist ‚hlykkjótt‘ tal og hátterni? — Orðskviðirnir 4:20, 24; 10:9.
„Hjartans hreinskilni“
9. Hvaða vandamál yfirstigu tveir unglingar og með hvaða árangri?
9 Sum börn og unglingar segja foreldrum sínum ekki hreinskilnislega frá tilfinningum sínum. Einn unglinganna, sem nefndur var í 2. tölugrein, viðurkenndi til dæmis: „Til að halda friðinn fórum við að segja það sem við vissum að foreldrar okkar vildu heyra, en leyndum okkar raunverulegu tilfinningum.“ Þessir unglingar leituðu hjálpar. Safnaðaröldungur hvatti þá til að snúa sér til foreldra sinna og líkja eftir hinum unga Elíhú sem sagði: „Orð mín eru hjartans hreinskilni.“ (Jobsbók 33:3) Eftir innilega bæn opnuðu þau að lokum hjörtu sín fyrir foreldrum sínum og sögðu þeim frá þeirri beiskju sem bjó með þeim. (Samanber Orðskviðina 12:18.) Þótt faðirinn væri orðlaus yfir því að börnum hans væri þannig innanbrjósts játaði hann fyrir þeim að hann hefði farið út í öfgar. Það gladdi hann að þau skyldu segja hug sinn allan. Dóttirin segir að lokum: „Fjölskyldulífið batnar hægt og sígandi. Þegar við fórum að tala opinskár saman gátum við séð hvers vegna þau höfðu sett okkur þessar reglur. Þau hættu að tala við okkur eins og við værum smábörn. Við fórum að skilja hvert annað miklu betur.“
10, 11.(a) Hvað getur stuðlað að góðu fjölskyldulífi samkvæmt Orðskviðunum 27:19? (b) Hvernig geta unglingar heimfært þetta vers?
10 Ef þú opnar þig fyrir foreldrum þínum byggir þú upp hreinskilnislegt tjáskiptasamband við þau. Þegar þú talar með ró og virðingu geta foreldrar þínir skynjað hvað býr í hjarta þér. (Orðskviðirnir 29:11) Þú kemur líka auga á það sem býr í þeirra hjörtum. Slíkar hreinskilnislegar og vingjarnlegar samræður hjálpa þér að þekkja betur þitt eigið hjarta. Orðskviðirnir 27:19 segja: „Eins og andlit horfir við andliti í vatni, svo er hjarta eins manns gagnvart öðrum.“a Eins og þú getur séð spegilmynd þína í sléttum vatnspolli getur þú með hreinskilnislegum samræðum og skoðanaskiptum við foreldra þína komist að raun um að tilfinningar þeirra og áhugahvatir eru ekkert sérlega ólíkar þínum eigin. Slík skoðanaskipti stuðla að gagnkvæmum skilningi og umhyggju sem er forsenda góðra fjölskyldutengsla.
11 Vertu því fús til að tala við foreldra þína jafnvel um það sem veldur þér sársauka. Segðu þeim bæði frá ótta þínum og mistökum, gleði þinni og sigrum. Talaðu um markmið þín í lífinu og bænir þínar. Spornaðu gegn tilhneigingunni til að einangra þig. (Orðskviðirnir 18:1) Reyndu að eiga reglulega stundir með öðru hvoru foreldra þinna til að þið getið talað saman um slík trúnaðarmál. Sumir unglingar fá tækifæri til þess þegar þeir fara í langa gönguferð með öðru foreldra sinna, í tengslum við sameiginlega afþreyingu fjölskyldunnar eða milli heimsókna í boðunarstarfinu.
12. Hvaða veruleika þurfa unglingar að horfast í augu við?
12 Þótt viðleitni þín til að byggja upp samræður og skoðanaskipti skili venjulega góðum árangri eru hvorki þú né foreldrar þínir fullkomnir. Viðbrögð foreldra þinna geta stundum verið óréttmæt og þeir geta verið ónæmir fyrir tilfinningum þínum eða brugðist í því að setja rétt fordæmi. Foreldrar þínir geta meira að segja staðið utan trúarinnar og þá ekki alltaf komið fram við þig samkvæmt meginreglum Biblíunnar. Sum börn alast upp með aðeins öðru foreldra sinna eða eiga sér stjúpföður eða stjúpmóður. Undir báðum kringumstæðum er við ákveðna erfiðleika að glíma. Óháð því hversu náin tengsl þú átt við foreldra þína mun þér stundum finnast þú þurfa að bera vandamál þín einn. Hvernig er hægt að bera slíkt?
Lærðu að „bera ok í æsku“
13. Hvaða hugsun, sem virðist óvenjuleg, kemur fram í Harmljóðunum 3:27?
13 Þegar Jehóva kallaði Jeremía til spámanns svaraði Jeremía: „Sjá, ég kann ekki að tala, því að ég er enn svo ungur.“ En Jehóva hvatti hann og styrkti. Vegna þjáninga sinna, ótta og mótlætis var hann stundum að því kominn að gefast upp. Einu sinni sagði hann: „Bölvaður sé dagurinn, sem ég fæddist.“ (Jeremía 1:6, 19; 20:7-9, 11, 14) Síðar skrifaði hann: „Gott er fyrir manninn að bera ok í æsku.“ (Harmljóðin 3:27) En hvernig getur það verið gagnlegt að „bera ok“ í mynd mótlætis og erfiðleika? Jósef er gott dæmi til að lýsa því.
14, 15. (a) Hvað kom fyrir Jósef sem ungan mann? (b) Hvernig ‚létu orð Jehóva hann standast raunina‘?
14 Jósef var sautján ára þegar hann fékk í draumi loforð frá Guði um að hann myndi fá mikla og háa stöðu. Bræður hans urðu hins vegar öfundsjúkir og seldu hann sem þræl! Hann var fluttur til Egyptalands og síðar hlekkjaður í dýflissu fyrir upplognar sakir um nauðgunartilraun. (1. Mósebók 37:2, 4-11, 28; 39:20) Þessi ungi maður og erfingi dýrlegs fyrirheits var lokaður inni í óvistlegri dýflissu. Hann var gestur í framandi landi og átti þar engan vin sem gat beðið honum vægðar eða sýnt honum samúð.
15 „Þeir þjáðu fætur hans [Jósefs] með fjötrum, hann var lagður í járn, allt þar til er orð hans rættust, og orð [Jehóva] létu hann standast raunina.“ (Sálmur 105:17-19) Í 13 ár þurfti Jósef að halda út sem þræll og fangi þar til loforð Jehóva rættist. Þessi reynsla fágaði hann og heflaði. Þótt Jehóva væri ekki valdur að erfiðleikum hans leyfði hann þær í vissum tilgangi. Myndi Jósef halda von sinni á ‚orð Jehóva‘ þrátt fyrir mótlæti sitt? Myndi hann þroska sína góðu eiginleika og rækta þá þolinmæði, auðmýkt, andlegan styrk og viljafestu sem þyrfti til að takast á við erfitt verkefni? Jósef kom úr rauninni eins og gull hreinsað í eldi, hreinni og enn dýrmætari Guði sem notaði hann með stórfenglegum hætti eftir það. — 1. Mósebók 41:14, 38-41, 46; 42:6, 9.
16. Hvernig ættu unglingar að líta á mótlæti?
16 Bæði Jósef og Jeremía þjáðust án saka. Þeir höfðu þegar ræktað með sér eiginleika Guði að skapi. En í gegnum erfiðleika sína voru þessir eiginleikar fágaðir og heflaðir enn betur. Ungt fólk, sem hefur farið út á villigötur, hefur enn meiri þörf fyrir slíka fágun! Agi, sem getur verið erfitt að taka á móti, gefur af sér réttlæti hjá þeim sem temjast við hann. (Hebreabréfið 12:5-7, 11) Þessi ögun getur þroskað viljafestu líkt og herða má stál í eldi. ‚Jehóva var með Jósef og veitti honum náð,‘ og hann mun líka gefa þér styrk umfram það sem eðlilegt er og ríkulega umbuna þolgæði þitt. — 1. Mósebók 39:21; 2. Korintubréf 4:7.
17. Hvaða áhrif hafði mótlæti á unga stúlku? Hvað getur þú lært af því?
17 Tökum lítið dæmi: Ungri stúlku kom til hugar að hlaupast að heiman vegna þess að henni fannst hinn nýi stjúpfaðir sinn vera allt of strangur og ekki skeyta um tilfinningar hennar gagnvart látnum föður hennar. Hún gerði sér þó ljóst að það myndi aðeins skapa fleiri erfiðleika — og þraukaði. Núna, næstum 13 árum síðar, segir hún: „Agi stjúpföður míns gerði mig að betri manneskju. Meðan ég bjó ein með móður minni var ég spillt af eftirlæti og uppreisnargjörn. Ég vildi alltaf fá mínu framgengt. Ég lærði að taka tillit til annarra. Jehóva svaraði líka mínum mörgu bænum um að styrkja mig til að yfirstíga sorg mína og eignast betra samband við stjúpföður minn.“ Sá sem lærir að þrauka í gegnum erfiðleika eflir tengsl sín við Jehóva. Þannig getur hann orðið vinur þinn, ‚athvarf þitt frá æsku.‘ — Sálmur 71:5.
18. (a) Hvað ræður því hvernig unglingi mun farnast í lífinu? (b) Hvers vegna ættu unglingar að heiðra foreldra sína?
18 Gleymdu aldrei að umhverfi þitt heima fyrir ræður ekki öllu um manngildi þitt eða farsæld í lífinu. Þess í stað þekkist „sveinninn [eða stúlkan] þegar á verkum sínum, hvort athafnir hans [eða hennar] eru hreinar og einlægar.“ (Orðskviðirnir 20:11) Hreinar og einlægar athafnir þínar gera þig hjartfólginn Guði og veita lífi þínu gildi. Engin fjölskylda er fullkomin en reyndu að koma auga á það sem jákvætt er á þínu heimili. Hugsaðu um þær fórnir, sem foreldrar þínir hafa fært, til að sjá þér fyrir fæði, klæði, húsnæði og mörgu fleiru. Í stað þess að endurgjalda með vanþakklæti skalt þú „heiðra föður þinn og móður.“ Hafðu þau í miklum metum sem séu þau mjög dýrmæt. — Efesusbréfið 6:1-3; Orðskviðirnir 16:20; 17:13.
19. Hvaða umbun veitist ungu fólki fyrir að hlýða foreldrum sínum af öllu hjarta?
19 Opinskáar samræður og skoðanaskipti við foreldra þína munu dýpka kærleika þinn til þeirra. Hjarta þitt mun þá knýja þig til að hlýða þeim. „Son minn [eða dóttir], gleym eigi kenning minni, og hjarta þitt varðveiti boðorð mín,“ hvetur hinn vitri faðir. Hann bendir síðan á launin: „Því að langa lífdaga og farsæl ár og velgengni munu þau veita þér í ríkum mæli.“ — Orðskviðirnir 3:1, 2.
[Neðanmáls]
a Biblíuskýrandinn A. Cohen segir um þetta vers: „Við sjáum spegilmynd okkar eigin manngildis í hjarta vinar okkar. . . . Það er í gegnum opinská og náin vináttubönd sem við kynnumst sjálfum okkur og gerum okkur ljóst hvað býr innra með okkur.“ (Proverbs, The Soncino Press) Biblíuþýðing W. F. Becks segir: „Til að þú getir séð sjálfan þig speglast í hjarta annars manns.“
Manst þú?
◻ Hvað getur stuðlað að tjáskiptaörðugleikum?
◻ Hvernig getur unglingur sýnt kærleika?
◻ Með hvaða hætti mun trúfesti bæta tjáskipti fjölskyldunnar?
◻ Hvaða gagn mun unglingur hafa af því að bera ok mótlætis?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Ok mótlætisins fágaði og heflaði persónuleika Jósefs, og á sama hátt mun það fága persónuleika þinn að þrauka í gegnum erfiðleika og mótlæti.