Job var þolgóður — Við getum það líka!
„Vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið.“ — JAKOBSBRÉFIÐ 5:11.
1. Hvað sagði aldraður kristinn maður um prófraunir sínar?
‚DJÖFULLINN er á hælunum á mér! Mér líður eins og Job!‘ Með þessum orðum lýsti A. H. Macmillan líðan sinni eitt sinn fyrir nánum vini við aðalstöðvar votta Jehóva. Bróðir Macmillan lauk jarðneskri ævi sinni 26. ágúst 1966, þá 89 ára gamall. Hann vissi að launin fyrir trúfasta þjónustu smurðra kristinna manna eins og hans „fylgja þeim.“ (Opinberunarbókin 14:13) Vegna upprisu til ódauðleika á himnum myndu þeir halda tafarlaust áfram að þjóna Jehóva. Vinir bróður Macmillans fögnuðu því að hann skyldi öðlast þessi laun. Á síðustu æviárum sínum varð hann hins vegar fyrir ýmsum prófraunum, þeirra á meðal heilsubresti sem lét hann finna sárlega fyrir því að Satan var að reyna að brjóta ráðvendni hans við Guð á bak aftur.
2, 3. Hver var Job?
2 Job sá, sem bróðir Macmillan líkti sér við, var maður sem stóðst miklar trúarprófraunir. Job átti heima í „Ús-landi,“ líklega í norðanverðri Arabíu. Hann var afkomandi Sems Nóasonar og tilbað Jehóva. Prófraunir Jobs virðast hafa átt sér stað einhvern tíma eftir að Jósef dó og áður en Móse sannaði sig ráðvandan. Á þeim tíma var enginn maður á jörð jafnoki Jobs í guðrækni. Jehóva leit á Job sem ráðvandan, réttlátan og guðhræddan mann. — Jobsbók 1:1, 8.
3 Job var „meiri öllum austurbyggjum.“ Hann var hjónmargur og bústofn hans var 11.500 skepnur. En andleg auðæfi skiptu hann mestu máli. Líklegt er að Job hafi frætt syni sína sjö og dætur sínar þrjár um Jehóva eins og guðræknir feður gera nú á tímum. Jafnvel eftir að þau voru flutt úr föðurhúsum þjónaði hann sem prestur fjölskyldunar með því að færa fórnir fyrir þau, ef þau kynnu að hafa syndgað. — Jobsbók 1:2-5.
4. (a) Af hverju ættu ofsóttir kristnir menn að hugleiða fordæmi Jobs? (b) Hvaða spurningar íhugum við um Job?
4 Job er ofsóttum kristnum mönnum umhugsunarvert fordæmi sem getur styrkt þá til að vera þolgóðir og þolinmóðir. „Vér teljum þá sæla, sem þolgóðir hafa verið,“ skrifaði lærisveinninn Jakob. „Þér hafið heyrt um þolgæði Jobs og vitið, hvaða lyktir [Jehóva] gjörði á högum hans. [Jehóva] er mjög miskunnsamur og líknsamur.“ (Jakobsbréfið 5:11) Smurðir fylgjendur Jesú og „mikill múgur“ nútímans þarfnast þolgæðis líkt og Job til að standast trúarprófraunir. (Opinberunarbókin 7:1-9) Hvaða prófraunir stóðst Job? Af hverju varð hann fyrir þeim? Og hvernig getum við notið góðs af reynslu hans?
Þýðingarmikið deilumál
5. Hvað átti sér stað á himnum án vitundar Jobs?
5 Án vitundar Jobs var alvarlegt deilumál í uppsiglingu á himnum. Dag einn komu „synir Guðs . . . til þess að ganga fyrir [Jehóva].“ (Jobsbók 1:6) Eingetinn sonur Guðs, Orðið, var viðstaddur. (Jóhannes 1:1-3) Hinir réttlátu englar og óhlýðnir englasynir Guðs voru einnig þar. (1. Mósebók 6:1-3) Satan var viðstaddur, enda var honum ekki úthýst af himnum fyrr en eftir stofnsetningu Guðsríkis árið 1914. (Opinberunarbókin 12:1-12) Satan var í þann mund að koma af stað þýðingarmiklu deilumáli með því að draga í efa réttmæti drottinvalds Jehóva yfir öllum sköpunarverum hans.
6. Hvað var Satan að reyna og hvernig rægði hann Jehóva?
6 „Hvaðan kemur þú?“ spurði Jehóva. „Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana,“ svaraði Satan. (Jobsbók 1:7) Hann hafði verið að leita að einhverjum sem hann gæti gleypt. (1. Pétursbréf 5:8, 9) Satan ætlaði að brjóta á bak aftur ráðvendni manna, sem þjónuðu Jehóva, og reyna þar með að sanna að enginn gæti hlýtt Guði fyllilega af kærleika. Jehóva hóf máls á deilunni og spurði Satan: „Veittir þú athygli þjóni mínum Job? því að enginn er hans líki á jörðu, maður ráðvandur og réttlátur, guðhræddur og grandvar.“ (Jobsbók 1:8) Job uppfyllti staðla Guðs sem tóku tillit til ófullkomleika hans. (Sálmur 103:10-14) En Satan svaraði um hæl: „Ætli Job óttist Guð fyrir ekki neitt? Hefir þú ekki lagt skjólgarð um hann og hús hans og allt, sem hann á, hringinn í kring? Handaverk hans hefir þú blessað, og fénaður hans breiðir sig um landið.“ (Jobsbók 1:9, 10) Þannig rægði djöfullinn Jehóva með því að gefa í skyn að enginn elskaði hann og tilbæði vegna eiginleika hans heldur mútaði hann sköpunarverum sínum til að þjóna sér. Satan fullyrti að Job þjónaði Guði af eigingjörnum hvötum, ekki af kærleika.
Satan gerir árás!
7. Á hvaða hátt ögraði djöfullinn Jehóva og hvernig brást Jehóva við?
7 „En rétt þú út hönd þína,“ sagði Satan, „og snert þú allt, sem hann á, og mun hann þá formæla þér upp í opið geðið.“ Hvernig brást Guð við svona móðgandi ögrun? „Sjá,“ sagði Jehóva, „veri allt, sem hann á, á þínu valdi, en á sjálfan hann mátt þú ekki leggja hönd þína.“ Djöfullinn hafði sagt að Guð blessaði og yki allt sem Job átti og setti skjólgarð um það. Guð leyfði að Job þjáðist að því undanskildu að það mátti ekki snerta líkama hans. Satan hafði illt í hyggju er hann yfirgaf samkomuna. — Jobsbók 1:11, 12.
8. (a) Hvaða eignamissi varð Job fyrir? (b) Hver var sannleikurinn um ‚eld Guðs‘?
8 Satan beið ekki boðanna að ráðast til atlögu. Einn af þjónum Jobs færði honum þessi ótíðindi: „Nautin voru að plægja og ösnurnar voru á beit rétt hjá þeim. Gjörðu þá Sabear athlaup og tóku þau, en sveinana drápu þeir.“ (Jobsbók 1:13-15) Skjólgarðurinn umhverfis eigur Jobs hafði verið tekinn burt. Illu andarnir beittu afli sínu þegar í stað því að annar þjónn kom með þessar fregnir: „Eldur Guðs féll af himni og kveikti í hjörðinni og sveinunum og eyddi þeim.“ (Jobsbók 1:16) Það var djöfulleg illska að láta í veðri vaka að Guð bæri sök á slíkri ógæfu og léti hana jafnvel koma yfir þjón sinn. Þar eð eldingum slær niður af himni hefði hæglega mátt kenna Jehóva um, en í reynd var eldurinn kominn frá illum öndum.
9. Hvaða áhrif hafði það að missa aleiguna á samband Jobs við Guð?
9 Er Satan hélt árásum sínum áfram kom þriðji þjónninn og skýrði svo frá að Kaldear hefðu tekið úlfaldahjörð Jobs og drepið alla hina þjónana. (Jobsbók 1:17) Enda þótt Job missti þannig aleiguna spillti það ekki sambandi hans við Guð. Gætir þú varðveitt ráðvendni þína við Jehóva þótt þú yrðir fyrir miklum eignamissi?
Enn meiri harmleikur á sér stað
10, 11. (a) Hvað varð um hin tíu börn Jobs? (b) Hvernig leit Job á Jehóva eftir hörmulegan dauða barna sinna?
10 Djöfullinn var ekki skilinn að skiptum við Job. Enn einn þjónn færði þessar fregnir: „Synir þínir og dætur átu og drukku vín í húsi elsta bróður síns. Kom þá skyndilega fellibylur austan yfir eyðimörkina og lenti á fjórum hornum hússins, svo að það féll ofan yfir [„unga fólkið og það dó,“ NW]. Ég einn komst undan til að flytja þér tíðindin.“ (Jobsbók 1:18, 19) Þetta hefði mátt rangtúlka þannig að Guð hefði stýrt náttúruöflunum með þessum afleiðingum. Það voru hins vegar illu andarnir sem voru að verki og höfðu snert einkar viðkvæman blett hjá Job.
11 Harmi lostinn ‚reif Job skikkju sína, skar af sér hárið, féll til jarðar og tilbað.‘ En taktu eftir orðum hans. „[Jehóva] gaf og [Jehóva] tók, lofað veri nafn [Jehóva].“ Frásagan bætir við: „Í öllu þessu syndgaði Job ekki, og ekki átaldi hann Guð heimskulega.“ (Jobsbók 1:20-22) Satan beið enn einn ósigurinn. Hvernig myndum við sem þjónar Guðs taka sorginni ef við misstum ástvin? Óeigingjörn hollusta við Jehóva og traust á honum gerir okkur kleift að vera ráðvönd og þolgóð. Hinir smurðu og félagar þeirra, sem hafa jarðneska von, geta vissulega sótt huggun og styrk í þessa frásögu af þolgæði Jobs.
Deilan harðnar
12, 13. Hvað fór Satan fram á og hvernig brást Guð við á öðru þingi á himni?
12 Jehóva kallaði fljótlega saman annað þing á himnum. Job var nú orðinn barnlaus fátæklingur. Svo var að sjá sem Guð hefði slegið hann, en þrátt fyrir það varðveitti hann ráðvendni sína. Satan viðurkenndi auðvitað ekki að ásakanir hans á hendur Guði og Job væru rangar. „Synir Guðs“ voru nú í þann mund að heyra rök beggja er Jehóva bjóst til að leiða deiluna við Satan til lykta.
13 Jehóva krafði Satan reikningsskapar og spurði: „Hvaðan kemur þú?“ Og svarið? „Ég hefi verið að reika um jörðina og arka fram og aftur um hana.“ Aftur vakti Jehóva athygli á réttlátum og ráðvöndum, guðhræddum og grandvörum þjóni sínum Job sem enn varðveitti ráðvendni sína. Djöfullinn svaraði: „Nær er skinnið en skyrtan, og fyrir líf sitt gefur maðurinn allt sem hann á. En rétt þú út hönd þína og snert þú bein hans og hold, og þá mun hann formæla þér upp í opið geðið.“ Guð svaraði þá: „Sjá, veri hann á þínu valdi, en þyrma skalt þú lífi hans.“ (Jobsbók 2:2-6) Satan gaf í skyn að Jehóva hefði nú ekki enn tekið burt alla skjólgarða og krafðist þess að fá að snerta hold Jobs og bein. Djöfullin fékk ekki leyfi til að drepa Job, en hann vissi að hægt væri að kvelja hann með sjúkdómi og láta líta svo út sem Guð væri að refsa honum fyrir leyndar syndir.
14. Með hverju sló Satan Job og af hverju gat enginn maður linað þjáningar hans?
14 Satan hafði sig á burt og hófst handa með djöfullegri ánægju. Hann sló Job „illkynjuðum kaunum frá hvirfli til ilja.“ Job hlýtur að hafa liðið ömurlega er hann sat í öskunni og skóf sig með leirbroti! (Jobsbók 2:7, 8) Enginn mennskur læknir gat linað kvalir Jobs því það var Satan sem olli þessum hræðilega kvalafulla, viðbjóðslega og auðmýkjandi sjúkdómi. Jehóva einn gat læknað hann. Ef þú þjáist af völdum sjúkdóms skaltu aldrei gleyma að Guð getur hjálpað þér að halda út og gefið þér líf í nýjum heimi þar sem sjúkdómar verða ekki til. — Sálmur 41:2-4; Jesaja 33:24.
15. Hvað hvatti kona Jobs hann til að gera og hverju svaraði hann?
15 Loks sagði kona Jobs: „Heldur þú enn fast við ráðvendni þína? Formæltu Guði og farðu að deyja!“ „Ráðvendni“ táknar lýtalausa hollustu og hún kann að hafa sagt þetta í hæðnistón til að fá Job til að formæla Guði. En hann svaraði: „Þú talar svo sem heimskar konur tala. Fyrst vér höfum þegið hið góða af Guði, ættum vér þá ekki einnig að taka hinu vonda?“ Þetta kænskubragð Satans mistókst líka því að okkur er sagt: „Í öllu þessu syndgaði Job ekki með vörum sínum.“ (Jobsbók 2:9, 10) Setjum sem svo að ættingjar, sem eru trúnni andvígir, segi að það sé heimskulegt af okkur að slíta okkur út í kristnu starfi og hvetji okkur til að afneita Jehóva Guði. Líkt og Job getum við þolað slíkar prófraunir af því að við elskum Jehóva og þráum að lofa heilagt nafn hans. — Sálmur 145:1, 2; Hebreabréfið 13:15.
Þrír hrokafullir svikarar
16. Hverjir komu, í orði kveðnu til að hughreysta Job, en hvernig notaði Satan þá?
16 Næsta herbragð Satans reyndist vera þrír „vinir“ sem komu í orði kveðnu til að hughreysta Job. Einn þeirra var Elífas sem líklega var afkomandi Abrahams í ættleg Esaús. Þar eð Elífas tók fyrstur til máls var hann sennilega þeirra elstur. Þarna var einnig Bildad, afkomandi Súa, eins af sonum Abrahams og Ketúru. Sá þriðji var Sófar, kallaður Naamíti til að auðkenna ætt hans eða heimkynni, ef til vill í Arabíu norðvestanverðri. (Jobsbók 2:11; 1. Mósebók 25:1, 2; 36:4, 11) Þessir þremenningar voru handbendi Satans til að reyna að fá Job til að játa sig sekan um það sem hann var ranglega ákærður fyrir og brjóta ráðvendni hans á bak aftur, ekki ósvipað því hvernig sumir reyna nú á dögum að fá votta Jehóva til að afneita Guði.
17. Hvað gerðu þremenningarnir fyrst og hvað tók síðan við næstu sjö daga og nætur?
17 Þremenningarnir brugðu upp miklu sjónarspili til að lýsa samúð sinni. Þeir grétu, rifu klæði sín og jusu mold yfir höfuð sér. En síðan sátu þeir hjá Job í sjö daga og sjö nætur án þess að segja aukatekið hughreystingarorð! (Jobsbók 2:12, 13; Lúkas 18:10-14) Þessir þrír hrokafullu svikarar voru svo gersneyddir andlegu hugarfari að þeir höfðu ekkert hughreystandi að segja um Jehóva og fyrirheit hans. Þeir drógu hins vegar kolrangar ályktanir og bjuggust til að nota þær gegn Job jafnskjótt og þeir hefðu fylgt almennum sorgarsiðum. Athyglisvert er að áður en sjö daga þögn þeirra tók enda settist hinn ungi Elíhú innan heyrnarfæris.
18. Af hverju þráði Job frið dauðans?
18 Loks rauf Job þögnina. Gestir hans þrír höfðu ekki hughreyst hann og hann formælti fæðingardegi sínum og undraðist að aum ævi hans skyldi dregin á langinn. Hann þráði frið dauðans og ímyndaði sér ekki einu sinni að hann gæti notið sannrar gleði aftur áður en hann dæi, hann sem var allslaus, einmana og fárveikur. En Guð leyfði ekki að líf Jobs yrði snert. — Jobsbók 3:1-26.
Ákærendur Jobs gera árás
19. Hvað sakaði Elífas Job ranglega um?
19 Elífas talaði fyrstur í þriggja umferða kappræðum sem reyndu ráðvendni Jobs enn frekar. Elífas spurði í fyrstu ræðu sinni: „Hvar hefir hinum réttvísu verið tortímt?“ Hann ályktaði sem svo að Job hlyti að hafa gert eitthvað illt til að kalla yfir sig refsingu Guðs. (Jobsbók 4. og 5. kafli) Í annarri ræðu sinni gerði Elífas gys að visku Jobs og spurði: „Hvað veist þú, er vér eigi vissum?“ Elífas gaf í skyn að Job væri að reyna að upphefja sig yfir hinn alvalda. Hann lauk annarri árásinni með því að lýsa Job sekan um óguðleik, mútur og svik. (Jobsbók 15. kafli) Í lokaræðu sinni sakaði Elífas Job ranglega um marga glæpi — um fjárkúgun, að synja þurfandi um vatn og brauð og að undiroka ekkjur og munaðarleysingja. — Jobsbók 22. kafli.
20. Hvers eðlis voru árásir Bildads á Job?
20 Bildad talaði næstur í öllum umferðum kappræðnanna og hélt sig að mestu á sömu nótum og Elífas. Ræður Bildads voru styttri en hvassari. Hann sakaði jafnvel börn Jobs um ranga breytni þannig að þau hefðu verðskuldað dauða. Hann notaði þessa líkingu í villandi rökfærslu sinni: Eins og pappírssef og stör skrælna og deyja án vatns, eins fer fyrir „hverjum þeim, sem gleymir Guði.“ Það er að vísu rétt en það átti ekki við Job. (Jobsbók 8. kafli) Bildad skilgreindi hörmungar Jobs sem böl hins óguðlega. (Jobsbók 18. kafli) Í þriðju ræðu sinni hélt Bildad því fram að maðurinn sé ‚maðkur‘ og ‚ormur‘ og þar af leiðandi óhreinn frammi fyrir Guði. — Jobsbók 25. kafli.
21. Hvað sakaði Sófar Job um?
21 Sófar tók næstur til máls í kappræðunum. Á heildina litið talaði hann í sama dúr og Elífas og Bildad. Sófar sakaði Job um illsku og hvatti hann til að hætta syndugu hátterni sínu. (Jobsbók 11. og 20. kafli) Sófar hætti eftir tvær umferðir. Hann hafði engu við að bæta í þriðju umferðinni. En gegnum allar kappræðurnar svaraði Job ákærendum sínum hugrakkur í bragði. Hann sagði til dæmis við eitt tækifæri: „Hvimleiðir huggarar eruð þér allir saman. Er orðavindurinn nú á enda?“ — Jobsbók 16:2, 3.
Við getum verið þolgóð
22, 23. (a) Hvernig reynir djöfullinn kannski að brjóta niður ráðvendni okkar við Jehóva Guð, líkt og hann reyndi með Job? (b) Hvers gætum við spurt um viðhorf Jobs þótt hann þraukaði gegnum ýmsar prófraunir?
22 Alveg eins og Job getum við lent í fleiri en einni prófraun samtímis og Satan getur reynt að draga úr okkur kjark eða fá okkur með öðrum hætti til að láta af ráðvendni okkar. Hann reynir kannski að fá okkur til að snúast gegn Jehóva ef við lendum í fjárhagserfiðleikum. Ef ástvinur deyr eða heilsan brestur reynir Satan ef til vill að fá okkur til að kenna Guði um það. Einhver ásakar okkur kannski ranglega líkt og „vinir“ Jobs. Eins og bróðir Macmillan sagði er Satan kannski ‚á hælunum á okkur‘ en við getum verið þolgóð.
23 Eins og við höfum séð var Job þolgóður í þeim mörgu prófraunum sem hann varð fyrir. En var það rétt með herkjum sem hann þraukaði? Missti hann algerlega móðinn? Við skulum sjá hvort Job hafði hreinlega misst alla von.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvaða þýðingarmikið deilumál vakti Satan upp á dögum Jobs?
◻ Á hvaða hátt var Job reyndur til hins ítrasta?
◻ Hvað sökuðu þrír „vinir“ Jobs hann um?
◻ Hvernig reynir Satan kannski að brjóta niður ráðvendni okkar við Jehóva, líkt og hann reyndi með Job?
[Mynd á blaðsíðu 18]
A. H. Macmillan