Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir fyrstu bókar Sálmanna
HVAÐ er viðeigandi að kalla biblíubók sem er að mestu leyti lofsöngvar um skaparann, Jehóva Guð? Varla er hægt að hugsa sér betra heiti en Sálmarnir. Sálmarnir eru lengsta bók Biblíunnar og innihalda fagra lofsöngva þar sem yrkisefnið er yndislegir eiginleikar Guðs og máttarverk hans. Þar er einnig fjöldi spádóma. Margir af sálmunum túlka tilfinningar sálmaritaranna þegar þeir urðu fyrir mótlæti. Þeir eru ortir á þúsund ára tímabili, allt frá dögum spámannsins Móse fram yfir útlegðarárin í Babýlon. Meðal sálmaskáldanna voru Móse, Davíð konungur og fleiri, en Esra prestur er talinn hafa komið bókinni í endanlegt form.
Frá fornu fari hefur Sálmunum verið skipt í fimm bækur eða hluta: (1) Sálm 1-41; (2) Sálm 42-72; (3) Sálm 73-89; (4) Sálm 90-106 og (5) Sálm 107-150. Í þessari grein er fjallað um fyrsta hlutann. Allir sálmarnir í honum nema þrír eru eignaðir Davíð Ísraelskonungi. Ekki er vitað hver eða hverjir ortu 1., 10. og 33. sálminn.
„GUÐ MINN, HELLUBJARG MITT“
Í fyrsta sálminum segir að sá maður sé sæll sem hefur yndi af lögmáli Jehóva en í öðrum sálminum er athyglinni beint að ríki Guðs.a Þessi hluti Sálmanna er að miklu leyti innilegar bænir til Guðs. Sálmur 3-5, 7, 12, 13 og 17 eru til dæmis bænir um að Guð frelsi þjóna sína af hendi óvina þeirra. Áttundi sálmurinn leggur áherslu á það hve Jehóva er mikill í samanburði við smæð mannsins.
Davíð lýsir hvernig Jehóva verndar þjóna sína og syngur: „Guð minn, hellubjarg mitt, þar sem ég leita hælis.“ (Sálmur 18:3) Í Sálmi 19 er Jehóva lofaður sem skapari og löggjafi, í Sálmi 20 sem frelsari og í Sálmi 21 er fjallað um það hvernig hann frelsar smurðan konung sinn. Í 23. sálminum er honum lýst sem hirðinum mikla en í þeim 24. sem dýrlegum konungi.
Biblíuspurningar og svör:
2:1, 2 — Hvaða „fánýt ráð“ hyggja þjóðirnar á? Hin ‚fánýtu ráð‘ felast í því að mannleg stjórnvöld hugsa sýknt og heilagt um það að halda völdum. Þetta er fánýtt vegna þess að þeim hlýtur að mistakast það. Eru nokkrar líkur á að þjóðunum takist það fyrst þær „bera ráð sín saman gegn Drottni og hans smurða“?
2:7 — Hver er „ályktun Drottins“? Hér er átt við sáttmálann um ríki sem Jehóva hefur gert við ástkæran son sinn, Jesú Krist. — Lúkas 22:28, 29.
2:12 — Í hvaða skilningi geta valdhafar þjóðanna ‚hyllt soninn‘? Í Biblíunni frá 1912 segir: „Kyssið soninn.“ Á biblíutímanum var litið á koss sem tákn um vináttu og hollustu. Gestir voru boðnir velkomnir með kossi. Þegar konungum jarðar er skipað að kyssa soninn er átt við að þeir eigi að bjóða hann velkominn sem konung og Messías.
3:1 — Hvaða tilgangi þjónuðu yfirskriftir sálmanna? Í yfirskriftunum er stundum tiltekið hver orti sálminn og/eða gefnar upplýsingar um aðstæður á þeim tíma sem hann var ortur, samanber 3. sálminn. Í yfirskriftunum er þess stundum getið af hvaða tilefni eða til hvaða nota ákveðinn sálmur var ortur (Sálmur 4 og 5) eða gefnar upplýsingar um hljóðfæraleik (Sálmur 6).
3:3 — Hvað merkir „sela“? Flestir telja orðið merkja hlé til hljóðrar hugleiðingar, annaðhvort á söngnum eingöngu eða söngnum og hljóðfæraleiknum. Þögnin var gerð til að styrkja hugsunina eða tilfinninguna sem fram kom í sálminum. Ekki þarf að lesa orðið þegar Sálmarnir eru lesnir upp.
11:3 — Hvaða stoðir eru rifnar niður? Hér er átt við undirstöður mannlegs samfélags — lög, reglu og réttvísi. Þegar þetta lætur undan skapast ringulreið í samfélaginu og réttlætið hverfur. Við slíkar aðstæður verða „hinir réttlátu“ að treysta Guði í einu og öllu. — Sálmur 11:4-7.
21:4 — Hvað táknar ‚gullin kóróna‘? Ósagt er látið hvort kórónan var bókstafleg eða táknræn fyrir aukna vegsemd sem Davíð hlaut fyrir hina mörgu sigra sína. En versið er einnig spádómur um þá konungskórónu sem Jesús hlaut frá Jehóva árið 1914. Að kórónan skuli vera úr gulli gefur til kynna að stjórn hans sé í hæsta gæðaflokki.
22:2, 3 — Af hverju fannst Davíð Jehóva hafa yfirgefið sig? Slíkt var álagið frá óvinunum að Davíð fannst ‚hjarta sitt vera sem vax, bráðnað sundur í brjósti sínu‘. (Sálmur 22:15) Kannski leið honum eins og Jehóva hefði yfirgefið sig. Jesú leið líka þannig þegar hann var líflátinn. (Matteus 27:46) Orð Davíðs enduróma eðlileg viðbrögð hans við aðstæðum sem honum virtust vonlausar. Ljóst er þó af bæn hans í Sálmi 22:17-22 að hann hafði ekki misst trúna á Guð.
Lærdómur:
1:1. Við ættum að forðast félagsskap við þá sem elska ekki Jehóva. — 1. Korintubréf 15:33.
1:2. Látum aldrei dag líða án þess að hugleiða andleg mál. — Matteus 4:4.
4:5. Þegar við reiðumst er viturlegt að hafa taumhald á tungunni þannig að við segjum ekkert sem við munum sjá eftir. — Efesusbréfið 4:26.
4:6. Andlegar fórnir okkar eru því aðeins „réttar fórnir“ að við færum þær af réttu tilefni og lifum í samræmi við kröfur Jehóva.
6:6. Er hægt að hugsa sér betri ástæðu til að vilja lifa áfram? — Sálmur 115:17.
9:13. Jehóva gefur gætur að blóðsúthellingum í þeim tilgangi að refsa hinum seku en gleymir þó ekki „hrópi hinna hrjáðu“.
15:2, 3; 24:3-5. Sannir guðsdýrkendur verða að tala sannleika og forðast rógburð og ranga eiðstafi.
15:4. Við ættum að gera okkar ýtrasta til að vera orðheldin, jafnvel þó að það reynist okkur erfitt. Eina undantekningin er sú ef í ljós kemur að við höfum lofað einhverju sem stangast á við Biblíuna.
15:5. Þeir sem tilbiðja Jehóva þurfa að gæta þess að nota ekki peninga á rangan hátt.
17:14, 15. ‚Menn heimsins‘ eru uppteknir af því að skapa sér sem mest lífsgæði, koma börnum á legg og láta þeim eftir arf. Davíð þótti mest um vert að eignast gott mannorð hjá Guði til að mega ‚skoða auglit hans‘, það er að segja að njóta hylli hans. Þegar hann ‚vaknaði‘ gagnvart fyrirheitum Jehóva myndi hann ‚mettast af mynd hans‘ í merkingunni að fagna yfir návist hans. Ættum við ekki að einbeita okkur að andlegum fjársjóðum líkt og Davíð gerði?
19:2-7. Sköpunarverkið, sem getur hvorki talað né rökhugsað, lofar Jehóva. Ættum við þá ekki að vegsama hann, við sem getum hugsað, talað og tilbeðið? — Opinberunarbókin 4:11.
19:8-12. Allar kröfur Jehóva eru okkur fyrir bestu.
19:13, 14. Reynum eftir fremsta megni að forðast yfirsjónir.
19:15. Gefum ekki aðeins gaum að verkum okkar heldur einnig orðum og hugsunum.
„VEGNA SAKLEYSIS MÍNS HÉLST ÞÚ MÉR UPPI“
Davíð þráir heitt að vera ráðvandur og er staðráðinn í því. Þetta kemur skýrt fram í 25. og 26. sálminum. „Ég geng fram í grandvarleik,“ syngur hann. (Sálmur 26:11) „Meðan ég þagði, tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég,“ játar hann í bæn þar sem hann biðst fyrirgefningar á syndum sínum. (Sálmur 32:3) Hann hughreystir dygga þjóna Jehóva og segir: „Augu Drottins hvíla á réttlátum, og eyru hans gefa gaum að hrópi þeirra.“ — Sálmur 34:16.
Ráðin í Sálmi 37 voru ákaflega verðmæt fyrir Ísraelsmenn og eru það sömuleiðis fyrir okkur sem erum uppi á „síðustu dögum“ núverandi heimskerfis. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5) Í Sálmi 40:8, 9 er spádómur um Jesú Krist. Þar segir: „Sjá, ég kem, í bókrollunni eru mér reglur settar. Að gjöra vilja þinn, Guð minn, er mér yndi, og lögmál þitt er hið innra í mér.“ Í síðasta sálminum í þessari bók biður Davíð Jehóva um hjálp á hinum erfiðu árum eftir að hann syndgaði með Batsebu. „Vegna sakleysis míns hélst þú mér uppi,“ syngur hann. — Sálmur 41:13.
Biblíuspurningar og svör:
26:6 — Hvernig göngum við táknrænt séð kringum altari Jehóva, líkt og Davíð gerði? Altarið táknar þann vilja Jehóva að taka við fórn Jesú Krists til lausnar mannkyni. (Hebreabréfið 8:5; 10:5-10) Við göngum kringum altari Jehóva með því að trúa á fórnina.
29:3-9 — Hver er hugmyndin að baki því að líkja rödd Jehóva við þrumugný sem vekur óttablandna lotningu manna? Hugmyndin er einfaldlega sú að minna á ógnarmátt Jehóva.
31:24 — Hvernig er ofmetnaðarfullum manni goldið í fullum mæli? Honum er goldið með refsingu. Réttlátum manni er goldið fyrir yfirsjónir sínar þegar Jehóva agar hann. Þar sem ofmetnaðarfullur maður snýr ekki baki við rangri braut sinni er honum goldið í fullum mæli með harðri refsingu. — Orðskviðirnir 11:31; 1. Pétursbréf 4:18.
33:6 — Hver er ‚andi munns‘ Jehóva? Hér er átt við starfskraft Guðs, heilagan anda, sem hann beitti þegar hann skapaði hinn efnislega himin. (1. Mósebók 1:1, 2) Hann er kallaður andi munns hans vegna þess að hægt er að senda hann, líkt og sterkan andardrátt, til að áorka einhverju í fjarlægð.
35:19 — Hvað á Davíð við þegar hann biður Jehóva þess að láta ekki hatursmenn sína skotra augunum? Með því að skotra augunum væru óvinir Davíðs að gefa til kynna að þeir hlökkuðu yfir því að þeim skyldi takast að vinna honum eitthvað til miska. Davíð biður þess að það gerist ekki.
Lærdómur:
26:4. Það er skynsamlegt að forðast samneyti við fláráða menn sem villa á sér heimildir á spjallrásum Netsins, við þá sem þykjast vera vinir okkar í skólanum eða á vinnustað en hafa óhreint mjöl í pokahorninu, fráhvarfsmenn sem látast vera einlægir og þá sem lifa tvöföldu lífi.
26:7, 12; 35:18; 40:10. Við eigum að lofa Jehóva á safnaðarsamkomum.
26:8; 27:4. Höfum við yndi af því að sækja safnaðarsamkomur?
26:11. Davíð er ákveðinn í því að vera grandvar en biður Jehóva jafnframt að frelsa sig. Við getum verið ráðvönd þó að við séum ófullkomin.
29:10. Jehóva situr „uppi yfir flóðinu“ í þeirri merkingu að hann hefur fullkomna stjórn á mætti sínum.
30:6. Ríkjandi eiginleiki Jehóva er kærleikur, ekki reiði.
32:9. Jehóva vill ekki að við séum eins og skynlaust múldýr sem hlýðir vegna þess að það er beislað eða húsbóndinn er með svipu í hönd. Hann vill að við hlýðum sér vegna þess að við skiljum vilja hans.
33:17-19. Ekkert mannlegt fyrirkomulag getur veitt okkur hjálpræði, hversu öflugt sem það er. Við verðum að treysta Jehóva og ríki hans.
34:11. Hvílík hughreysting fyrir þá sem láta hagsmuni Guðsríkis ganga fyrir í lífinu.
39:2, 3. Þegar óguðlegir menn leita upplýsinga í þeim tilgangi að vinna trúsystkinum okkar tjón er viturlegt að ‚leggja haft á munninn‘ og þegja.
40:2, 3. Ef við vonum á Jehóva getur það hjálpað okkur í baráttunni við depurð og þunglyndi þannig að við komumst „upp úr glötunargröfinni, upp úr hinni botnlausu leðju“.
40:6, 13. Hvorki hörmungar né eigin ófullkomleiki getur yfirbugað okkur, svo framarlega sem við missum ekki sjónar á því að blessun Jehóva er meiri en svo að „tölu verði á komið“.
„Lofaður sé Drottinn“
Sálmarnir í fyrsta hlutanum eru ákaflega hughreystandi og hvetjandi. Hvort sem við eigum í prófraunum eða erum með vonda samvisku sem leggst þungt á okkur, getum við sótt styrk og hvatningu í þennan hluta hins kröftuga orðs Guðs. (Hebreabréfið 4:12) Í þessum 41 sálmi er að finna heilnæmar leiðbeiningar fyrir lífið. Hvað eftir annað erum við fullvissuð um að Jehóva yfirgefi okkur ekki, hvaða erfiðleikar sem verða á vegi okkar.
Fyrstu bók Sálmanna lýkur með orðunum: „Lofaður sé Drottinn, Guð Ísraels, frá eilífð til eilífðar. Amen. Amen.“ (Sálmur 41:14) Langar okkur ekki til að lofa Jehóva eftir að hafa skoðað hana?
[Neðanmáls]
a Annar sálmurinn rættist upphaflega á dögum Davíðs.
[Innskot á blaðsíðu 20]
Hið lífvana sköpunarverk lofar Jehóva. Ættum við ekki að gera það miklu fremur?
[Mynd á blaðsíðu 18]
Sálmar 1-41 eru flestir ortir af Davíð.
[Mynd á blaðsíðu 19]
Veistu hvaða sálmur lýsir Jehóva sem hirðinum mikla?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Láttu aldrei dag líða án þess að hugsa um andleg mál.
[Mynd rétthafi á blaðsíðu 18]
Stjörnur: Með góðfúslegu leyfi United States Naval Observatory
[Mynd rétthafi á blaðsíðu 20]
Stjörnur bls. 19 og 20: Með góðfúslegu leyfi United States Naval Observatory
[Mynd rétthafi á blaðsíðu 21]
Stjörnur: Með góðfúslegu leyfi United States Naval Observatory