25. KAFLI
„Innileg samúð Guðs okkar“
1, 2. (a) Hvernig bregst móðir við þegar barnið hennar grætur? (b) Hvaða tilfinning er enn sterkari en umhyggja móður fyrir barni sínu?
BARN grætur um miðja nótt. Móðirin vaknar þegar í stað. Hún sefur ekki eins fast og áður – ekki síðan barnið fæddist. Og hún hefur lært að þekkja mismunandi grát þess. Oft getur hún gert greinarmun á því hvort barnið er svangt, vill láta halda á sér eða þarfnast einhvers annars. En það skiptir ekki máli af hvaða orsökum barnið grætur – móðirin sinnir því. Móðurástin leyfir henni ekki að hunsa þarfir barnsins.
2 Umhyggja móður fyrir barni, sem hún hefur borið undir belti, er einhver blíðasta tilfinning sem menn þekkja. En það er til óendanlega sterkari tilfinning – innileg samúð og umhyggja Jehóva Guðs. Við getum nálgast Jehóva með því að kynna okkur þennan aðlaðandi eiginleika. Við skulum því kanna hvað er fólgið í samúð og hvernig Guð sýnir hana.
Hvað er samúð?
3. Hvað merkir hebreska sögnin sem er þýdd ‚að miskunna‘ eða ‚sýna meðaumkun‘?
3 Í Biblíunni eru náin tengsl milli samúðar og miskunnar. Nokkur hebresk og grísk orð eru notuð í Biblíunni til að lýsa innilegri samúð. Tökum hebreska orðið rachamʹ sem dæmi, en það er oft þýtt ‚að miskunna‘ eða ‚sýna meðaumkun‘. Uppflettirit segir að sagnorðið rachamʹ „lýsi djúpstæðri og innilegri samúð eins og kviknar þegar við horfum upp á veikleika eða þjáningar þeirra sem okkur þykir vænt um eða þarfnast hjálpar okkar“. Þetta hebreska orð, sem Jehóva notar um sjálfan sig, er skylt orði sem þýðir „móðurkviður“ og getur merkt „móðurleg umhyggja“.a – 2. Mósebók 33:19; Jeremía 33:26.
4, 5. Hvernig notar Biblían móðurástina til að fræða okkur um samúð og umhyggju Jehóva?
4 Biblían notar móðurástina til að kenna okkur hvað sé fólgið í samúð Jehóva. Við lesum í Jesaja 49:15: „Getur kona gleymt brjóstabarni sínu eða látið sér standa á sama um soninn sem hún fæddi? Þó að hún gæti gleymt þá gleymi ég þér aldrei.“ Þessi hjartnæma lýsing undirstrikar djúpstæða samúð Jehóva og umhyggju fyrir fólki sínu. Hvernig þá?
5 Það er erfitt að ímynda sér að móðir gleymi að sinna brjóstabarni sínu. Barnið er algerlega ósjálfbjarga og er háð umhyggju hennar og ást dag og nótt. En því miður er ekki óþekkt að mæður vanræki börn sín, einkum á þeim hættulegu tímum sem við lifum og í ‚kærleiksleysinu‘ sem einkennir þá. (2. Tímóteusarbréf 3:1, 3) Jehóva segir hins vegar: ‚Ég gleymi þér aldrei.‘ Innileg samúð Jehóva og umhyggja hans fyrir þjónum sínum bregst aldrei. Hún er óendanlega sterkari en blíðasta tilfinning sem hægt er að hugsa sér – umhyggja móður fyrir ungbarni sínu. Það er ekkert undarlegt að biblíuskýrandi skuli segja um Jesaja 49:15: „Þetta er ein sterkasta, ef ekki alsterkasta lýsing Gamla testamentisins á kærleika Guðs.“
6. Hvernig hafa margir ófullkomnir menn litið á innilega samúð en um hvað fullvissar Jehóva okkur?
6 Er innileg samúð veikleikamerki? Margir ófullkomnir menn hafa haldið því fram. Rómverski heimspekingurinn Seneca kenndi til dæmis að „vorkunnsemi væri veikleiki hugans“ en hann var samtíða Jesú og einn virtasti menntamaður Rómar. Seneca aðhylltist stóuspeki sem leggur áherslu á rósemi án tilfinninga. Vitur maður getur hjálpað nauðstöddum, sagði Seneca, en hann má ekki leyfa sér að vorkenna þeim því að tilfinningin myndi ræna hann rónni. Þessi sjálfhverfa lífsskoðun bauð ekki upp á innilega samúð eða umhyggju. En Jehóva er alls ekki þannig, enda fullvissar hann okkur um það í orði sínu að hann sé „mjög samúðarfullur og miskunnsamur“. (Jakobsbréfið 5:11, neðanmáls) Samúð er ekki veikleiki heldur sterkur og mikilvægur eiginleiki eins og við munum sjá. Við skulum kanna hvernig Jehóva sýnir samúð og umhyggju eins og ástríkt foreldri.
Þegar Jehóva sýndi þjóð samúð
7, 8. Hvernig þjáðust Ísraelsmenn í Egyptalandi og hvernig brást Jehóva við þjáningum þeirra?
7 Samúð Jehóva birtist greinilega í samskiptum hans við Ísraelsmenn. Milljónir Ísraelsmanna voru þrælkaðar og sættu harðneskjulegri kúgun í Egyptalandi undir lok 16. aldar f.Kr. Egyptar „gerðu þeim lífið leitt með erfiðisvinnu og neyddu þá til að vinna leir og búa til múrsteina og vinna alls kyns þrælavinnu“. (2. Mósebók 1:11, 14) Í bágindum sínum hrópuðu Ísraelsmenn til Jehóva og báðu hann hjálpar. Hver voru viðbrögð hins samúðarfulla Guðs?
8 Jehóva var snortinn í hjarta sér. „Ég hef séð hve illa er farið með fólk mitt í Egyptalandi og heyrt hvernig það hrópar á hjálp vegna þeirra sem þrælka það,“ sagði hann. „Ég veit hvernig það þjáist.“ (2. Mósebók 3:7) Jehóva gat ekki annað en fundið til með þjónum sínum þegar hann horfði upp á kvöl þeirra og heyrði hróp þeirra. Jehóva býr yfir samkennd eins og fram kom í 24. kafla þessarar bókar. Og samkennd – það að geta sett sig tilfinningalega í spor annarra – er náskyld samúð. En Jehóva fann ekki aðeins til með fólki sínu heldur fann sig líka knúinn til að koma því til bjargar. „Í kærleika sínum og umhyggju endurleysti hann þá,“ segir Jesaja 63:9. Hann bjargaði Ísraelsmönnum úr Egyptalandi með „sterkri hendi“. (5. Mósebók 4:34) Síðan sá hann þeim fyrir fæði, leiddi þá inn í frjósamt land og gaf þeim það til eignar.
9, 10. (a) Hvers vegna frelsaði Jehóva Ísraelsmenn æ ofan í æ eftir að þeir settust að í fyrirheitna landinu? (b) Undan hverju frelsaði Jehóva Ísraelsmenn á dögum Jefta og af hverju gerði hann það?
9 Samúð Jehóva lét ekki staðar numið þar. Eftir að Ísraelsmenn settust að í fyrirheitna landinu reyndust þeir honum ótrúir hvað eftir annað og liðu fyrir það. En þegar þjóðin kom til sjálfrar sín ákallaði hún Jehóva. Og hann frelsaði hana æ ofan í æ. Af hverju? „Því að hann kenndi í brjósti um þjóð sína.“ – 2. Kroníkubók 36:15; Dómarabókin 2:11–16.
10 Tökum dæmi: Á dögum Jefta voru Ísraelsmenn farnir að tilbiðja falsguði þannig að Jehóva leyfði Ammonítum að kúga þá í 18 ár. Loks iðruðust Ísraelsmenn og „losuðu sig við útlendu guðina og þjónuðu Jehóva. Þá þoldi hann ekki lengur að horfa upp á þjáningar þeirra,“ segir Biblían. (Dómarabókin 10:6–16) Jehóva gat ekki horft upp á þjóðina þjást eftir að hún hafði sýnt einlæga iðrun. Í samúð sinni gaf hann Jefta kraft til að frelsa hana af hendi óvina hennar. – Dómarabókin 11:30–33.
11. Hvað sýna samskipti Jehóva við Ísraelsmenn um samúð hans?
11 Hvað lærum við um innilega samúð Jehóva af samskiptum hans við Ísraelsmenn? Meðal annars sjáum við að hún er meira en samúðarfull vitund um bágindi annarra. Þú manst eftir dæminu um samúð og umhyggju móður sem sinnir grátandi barni þegar í stað. Jehóva heyrir sömuleiðis þegar þjónar hans ákalla hann og í samúð sinni linar hann þjáningar þeirra. Og samskipti hans við Ísraelsmenn sýna greinilega að samúð er enginn veikleiki því að það var innileg samúð hans sem olli því að hann greip til harðra aðgerða til að hjálpa þeim. En sýnir Jehóva þjónum sínum samúð aðeins sem hópi?
Jehóva sýnir einstaklingum samúð
12. Hvernig endurspegluðu lög Jehóva samúð hans í garð einstaklinga?
12 Lögmálið, sem Guð gaf Ísraelsmönnum, vitnar um samúð hans í garð einstaklinga. Lítum til dæmis á umhyggju hans fyrir fátækum. Jehóva vissi að ófyrirsjáanlegar aðstæður gætu valdið fátækt hjá fólki. Hvernig átti að koma fram við fátæka? Jehóva gaf Ísraelsmönnum ströng fyrirmæli um það: „Ekki herða hjarta þitt né vera nískur við fátækan bróður þinn. Vertu örlátur við hann og gefðu honum ekki með ólund. Þá mun Jehóva Guð þinn blessa allt sem þú gerir og tekur þér fyrir hendur.“ (5. Mósebók 15:7, 10) Hann bannaði Ísraelsmönnum enn fremur að skera akra sína út í hvert horn og tína eftirtíning. Bágstaddir máttu eiga eftirtíninginn. (3. Mósebók 23:22; Rutarbók 2:2–7) Þegar þjóðin virti þessi hugulsömu ákvæði þurftu bágstaddir í Ísrael ekki að betla til matar. Vitnar þetta ekki um innilega samúð og umhyggju Jehóva?
13, 14. (a) Hvernig veita orð Davíðs okkur vissu fyrir því að Jehóva sé innilega annt um hvert og eitt okkar? (b) Lýstu með dæmi hvernig Jehóva er nálægur þeim sem eru ‚sorgbitnir‘ eða „niðurbrotnir“.
13 Guði kærleikans er ekkert síður annt um okkur sem einstaklinga nú á tímum. Við getum treyst að hann er mjög næmur fyrir öllum þjáningum sem við megum þola. „Augu Jehóva hvíla á hinum réttlátu og eyru hans hlusta á grátbeiðni þeirra. Jehóva er nálægur hinum sorgbitnu, hjálpar þeim sem eru niðurbrotnir.“ (Sálmur 34:15, 18) Biblíuskýrandi segir um þá sem hér er lýst: „Þeir hafa sundurmarið hjarta og eru iðrunarfullir, það er að segja auðmýktir vegna syndar sinnar og hafa misst sjálfsvirðinguna; þeir hafa lítið álit á sjálfum sér og telja sig einskis virði.“ Viðbúið er að þeim sem líður þannig finnist Jehóva vera fjarlægur og þeir sjálfir of ómerkilegir til að hann sinni þeim. En það er ekki rétt. Orð Davíðs veita okkur vissu fyrir því að Jehóva yfirgefi ekki þá sem „hafa lítið álit á sjálfum sér“. Guð samúðarinnar veit að við þörfnumst hans mest þegar okkur líður þannig, og hann er nálægur okkur.
14 Lítum á dæmi. Tveggja ára drengur í Bandaríkjunum var með slæman barkahósta og móðir hans flýtti sér með hann á spítala. Læknar rannsökuðu drenginn og sögðu móðurinni að hann yrði að vera næturlangt á spítalanum. Og hvar eyddi móðirin nóttinni? Á stól inni á sjúkrastofunni við rúm drengsins. Litli drengurinn hennar var veikur og hún gat ekki hugsað sér að vera annars staðar en hjá honum. Við getum auðvitað vænst enn meira af hinum kærleiksríka föður okkar á himnum. Við erum nú sköpuð eftir mynd hans. (1. Mósebók 1:26) Hin hjartnæmu orð í Sálmi 34:18 segja okkur að Jehóva sé „nálægur“ eins og ástríkt foreldri þegar við erum ‚sorgbitin‘ eða ‚niðurbrotin‘ – hann er ávallt samúðarfullur og reiðubúinn að hjálpa.
15. Hvernig hjálpar Jehóva okkur sem einstaklingum?
15 Hvernig hjálpar Jehóva okkur hverju og einu? Ekki endilega með því að fjarlægja orsök þjáninganna. Hann hefur hins vegar gert ótalmargt til að hjálpa þeim sem ákalla hann. Orð hans, Biblían, hefur að geyma góð ráð sem við getum haft verulegt gagn af. Í söfnuðinum hefur hann látið í té hæfa umsjónarmenn sem kappkosta að endurspegla samúð hans og umhyggju með því að liðsinna trúsystkinum sínum. (Jakobsbréfið 5:14, 15) Jehóva „heyrir bænir“ og gefur þeim „heilagan anda sem biðja hann“. (Sálmur 65:2; Lúkas 11:13) Andi hans getur gefið okkur ‚kraft sem er ofar mannlegum mætti‘ svo að við getum haldið út uns ríki hans fjarlægir allt sem þjakar okkur. (2. Korintubréf 4:7) Erum við ekki þakklát fyrir þetta? Gleymum ekki að þetta er merki um innilega samúð og umhyggju Jehóva.
16. Hvert er skýrasta dæmið um samúð Jehóva og hvaða áhrif hefur það á okkur sem einstaklinga?
16 Skýrasta dæmið um samúð Jehóva er auðvitað það að hann skyldi gefa þann sem honum þótti vænst um sem lausnargjald fyrir okkur. Það var kærleiksrík fórn af hálfu Jehóva og opnaði okkur leið til hjálpræðis. Munum að lausnargjaldið, sem hann gaf, nær til okkar persónulega. Það var því vel við hæfi að Sakaría, faðir Jóhannesar skírara, skyldi segja fyrir að lausnargjaldið miklaði ‚innilega samúð Guðs okkar‘. – Lúkas 1:78.
Þegar Jehóva heldur aftur af miskunn sinni
17–19. (a) Hvernig sýnir Biblían að miskunn Jehóva er ekki takmarkalaus? (b) Hvað olli því að miskunn Jehóva við fólk hans þraut?
17 Er miskunn Jehóva takmarkalaus? Nei, Biblían sýnir ótvírætt að Jehóva synjar þeim um miskunn sem vilja ekki ganga á réttlátum vegum hans. (Hebreabréfið 10:28) Við skulum rifja upp dæmi frá dögum Ísraels til að kanna ástæðuna.
18 Þó að Jehóva frelsaði Ísraelsmenn æ ofan í æ af hendi óvina þeirra þraut miskunn hans að lokum. Þessi þrjóska þjóð stundaði skurðgoðadýrkun og kom jafnvel með viðbjóðsleg skurðgoð sín inn í musteri Jehóva! (Esekíel 5:11; 8:17, 18) Biblían segir enn fremur: „Þeir hæddust að sendiboðum hins sanna Guðs, fyrirlitu orð hans og gerðu gys að spámönnum hans. Að lokum reiddist Jehóva þjóð sinni svo mikið að ekkert gat lengur bjargað henni.“ (2. Kroníkubók 36:16) Ísraelsmenn komust á það stig að það var enginn grundvöllur lengur til að sýna þeim miskunn, og þeir kölluðu yfir sig réttláta reiði Jehóva. Hvaða afleiðingar hafði það?
19 Jehóva gat ekki fundið til með fólki sínu lengur. „Ég mun hvorki finna til með þeim, vorkenna þeim né sýna þeim nokkra miskunn. Ekkert getur komið í veg fyrir að ég eyði þeim,“ sagði hann. (Jeremía 13:14) Jerúsalem og musterið voru því jöfnuð við jörðu og Ísraelsmenn fluttir sem herfangar til Babýlonar. Það er dapurlegt að syndugir menn skuli geta orðið svo mótþróafullir að Guð geti ekki miskunnað þeim lengur. – Harmljóðin 2:21.
20, 21. (a) Hvað gerist þegar miskunn Guðs er á þrotum? (b) Hvaða miskunnsömu ráðstöfun Jehóva skoðum við í næsta kafla?
20 Hvað um okkar tíma? Jehóva hefur ekki breytt sér. Í samúð sinni hefur hann falið vottum sínum að boða ‚fagnaðarboðskapinn um ríkið‘ út um allan heim. (Matteus 24:14) Þegar réttsinnað fólk bregst vel við boðuninni hjálpar hann því að skilja boðskapinn um ríkið. (Postulasagan 16:14) En þetta starf tekur enda. Það væri varla samúðarfullt af Jehóva að leyfa þessum illa heimi, með allri sinni eymd og þjáningum, að standa til eilífðar. Jehóva fullnægir dómi sínum yfir þessu heimskerfi þegar miskunn hans er á þrotum. En jafnvel þá sýnir hann samúð – gagnvart ‚heilögu nafni sínu‘ og trúum þjónum sínum. (Esekíel 36:20–23) Jehóva afmáir illskuna og við tekur réttlátur nýr heimur. Hann segir um óguðlega menn: „Ég mun ekki vorkenna þeim né sýna meðaumkun. Ég læt hegðun þeirra koma sjálfum þeim í koll.“ – Esekíel 9:10.
21 Þangað til sýnir Jehóva fólki samúð og umhyggju, jafnvel þeim sem stefna í tortímingu. Syndugir menn, sem iðrast í einlægni, geta notfært sér eina miskunnsömustu ráðstöfun hans – fyrirgefninguna. Í næsta kafla skoðum við nokkrar af fegurstu líkingum Biblíunnar sem lýsa því hve alger fyrirgefning Jehóva er.
a Athygli vekur að í Sálmi 103:13 er hebreska sögnin rachamʹ notuð um miskunn, eða samúð, föður við börn sín.