Höfuðþættir biblíubókanna Sálmur 42 til 72
Vonaðu á Jehóva
Þjónar Jehóva geta verið þolgóðir í prófraunum trúar sinnar vegna þess að Guð er hæli þeirra og frelsari. Það kemur mjög skýrt fram í annarri bók Sálmanna! Sálmur 42 til 72 sýna að við getum verið þolgóð ef við erum bænrækin þegar við bíðum þess að Jehóva gangi fram í okkar þágu.
„Vona á Guð“
Lestu Sálm 42 til 45. Levíti í útlegð er hryggur vegna þess að hann kemst ekki í helgidóm Jehóva heldur verður að sætta sig við að „vona á Guð“ og bíða þess að hann gangi fram sem frelsari. (Sálmur 42, 43) Síðan kemur ákall vegna þjóðar í hættu, ef til vill með vísan til innrásar Assýringa í Júda á dögum Hiskía konungs. (Sálmur 44) Þessu næst er konunglegur brúðkaupssöngur sem vísar fram til Messíasar, Jesú Krists, er átti að þeysa fram ‚sakir sannleika, auðmýktar og réttlætis.‘ — Sálmur 45.
◆ 42:2 — Hvernig var sálmaritarinn eins og ‚hind sem þráir vatnslindir‘?
Einhverra orsaka vegna var þessi levíti í útlegð. Svo mjög saknaði hann tilbeiðslunnar í helgidómi Jehóva að honum leið eins og hundeltri, þyrstri hind sem leitar vatns í gróðurvana, vatnslausu landi. Hann ‚þráði‘ Jehóva og þau sérréttindi að tilbiðja Guð í helgidómi hans. — Vers 3.
◆ 45:2 — Hvaða ‚ljúf orð‘ hrærðu hjarta sálmaritarans?
Hluti þessa sálms var heimfærður á Jesú Krist. (Sálmur 45:7, 8; Hebreabréfið 1:8, 9) Hjarta sálmaritarans hreifst af framtíðaratburði — því er Messíasarríkið yrði stofnsett árið 1914. Vottar Jehóva finna sig líka knúna til að boða þessi ‚ljúfu orð.‘
Lærdómur fyrir okkur: Lífsreynsla sálmaritarans í útlegðinni ætti að fá okkur til að meta mikils það samfélags sem við nú njótum við þjóna Jehóva. Ef við erum fangelsuð vegna ofsókna og getum ekki verið með þeim um stundarsakir, þá getum við hugleitt þá gleði sem við höfum áður notið í heilagri þjónustu, beðið um þolgæði og ‚vonað á Guð‘ í þeirri vissu að hann leyfi okkur á ný að eiga samfélag við dýrkendur sína. — Sálmur 42:5, 6, 12; 43:3-5.
Hæli okkar
Lestu Sálm 46 til 51. Jehóva, hæli okkar, mun stöðva styrjaldir. (Sálmur 46) Hann er „konungur yfir gjörvallri jörðinni“ og þessi ósigrandi verndari er Guð okkar að eilífu. (Sálmur 47, 48) Hinir kúguðu verða að vona á Jehóva, en allir sem ‚færa þakkir með fórnum‘ munu „sjá hjálpræði Guðs.“ (Sálmur 49, 50) Ef við stígum víxlspor en iðrumst, eins og Davíð vegna syndar sinnar með Batsebu, mun Guð frelsa okkur frá blóðskuld, vegna þess að ‚hann fyrirlítur ekki sundurmarið og sundurkramið hjarta.‘ — Sálmur 51.
◆ 46:3 — Hvernig getur ‚jörðin haggast‘?
Jafnvel þótt fjöllin hyrfu í hafið í náttúruhamförum myndu þeir sem treysta Guði ekkert þurfa að óttast. Hvað sem fyrir kemur geta þeir haft óhagganlegt trúartraust á Jehóva sem hæli sitt.
◆ 51:7 — Hvaða synd hafði Davíð í huga?
Hann átti ekki við að samlíf hjóna, getnaður og fæðing væru syndsamleg, og hafði ekki í huga neina sérstaka synd móður sinnar. Með þessum orðum viðurkenndi hann syndugt eðli sitt sem afkomanda Adams. (Jobsbók 14:4; Rómverjabréfið 5:12) Jehóva sýndi Davíð miskunn ekki aðeins vegna sáttmálans um ríkið, heldur líka vegna þess að hann hafði tekið í arf syndugar tilhneigingar og var iðrunarfullur. — 2. Samúelsbók 7:12-16.
Lærdómur fyrir okkur: Sálmur 46 á vel við þann tíma þegar Assýríumenn ógnuðu Jerúsalem. Vitandi að ‚Guð er hæli og styrkur, örugg hjálp í nauðum,‘ bað Hiskía konungur til Jehóva og borgin bjargaðist með undraverðum hætti. (2. Konungabók 19. kafli) Þegar við erum í nauðum ættum við líka að gera Guð að hæli okkar. Hvernig? Með því að treysta honum, fylgja orði hans og halda okkur við skipulag hans.
Björgun tryggð
Lestu Sálm 52 til 57. Guð upprætir vondan mann „úr landi lifenda“ og „tvístrar beinum“ hvers þess sem rís gegn þjónum hans. (Sálmur 52, 53) Þegar Davíð var á flótta undan Sál treysti hann að Guð myndi bjarga honum, og þegar hann var beittur svikum varpaði hann byrði sinni á Jehóva. (Sálmur 54, 55) Sálmaritarinn gerði sig ánægðan með að vona á Guð og bíða þess að hann byndi enda á ógæfuna. — Sálmur 56, 57.
◆ 52:10 — Hvernig er hinn réttláti eins og olíutré?
Olíutré getur táknað frjósemi, fegurð og reisn. (Jeremía 11:16; Hósea 14:6) Í þessum sálmi er hinn óguðlegi, sem mun hljóta ill endalok, borinn saman við réttlátan mann sem nýtur verndar og dafnar eins og gróskumikið olíutré.
◆ 54:3 — Hvers vegna sagði Davíð: ‚Hjálpa mér með nafni þínu‘?
Nafn Guðs býr ekki yfir neinum dulrænum mætti en getur staðið fyrir Guð sjálfan. Með þessari bæn sinni viðurkenndi Davíð að Jehóva sé fær um að bjarga þjóð sinni. (2. Mósebók 6:1-8) Þótt Sifítar gerðu Sál konungi viðvart um verustað Davíðs varð Sál að hætta eltingaleik sínum við hann þegar Filistar réðust inn í Ísrael. (1. Samúelsbók 23:13-29; Sálmur 54, yfirskrift) Þannig bjargaði Jehóva Davíð.
Lærdómur fyrir okkur: Fjandmenn Davíðs höfðu grafið honum gryfju. (Sálmur 57:7) Slík gryfja til að veiða í mann táknaði hættulegar aðstæður eða ráðabrugg gegn þjónum Jehóva. En andstæðingar þjóna Guðs geta fallið í eigin gryfju. Ef við því reiðum okkar á Jehóva og erum varkár er björgun okkar tryggð. — Orðskviðirnir 11:21; 26:27.
„Bíð róleg“
Lestu Sálm 58 til 64. Davíð hafði áhyggjur af ranglætinu og bað þess að Guð veitti hinum óguðlegu endurgjald. (Sálmur 58, 59) Þegar honum virtist ósigur blasa við ákallaði hann Guð um björgun og var þess viss að Guð myndi troða fótum óvini hans. (Sálmur 60) Jehóva hafði þá þegar verið hæli Davíðs svo að hann gat beðið þögull hjálpræðis frá honum. (Sálmur 61, 62) Þegar Davíð neyddist til að flýja út í eyðimörkina, ef til vill þegar Absalóm gerði uppreisn, gat hann leitað skjóls ‚í skugga vængja Guðs.‘ (Sálmur 63) Sálmaritarinn bað líka um vernd fyrir „óaldarflokki illvirkjanna“ og treysti að hinn réttláti fengi hæli hjá Jehóva. — Sálmur 64.
◆ 58:4-6 — Hvernig eru hinir óguðlegu eins og höggormur?
Lygar og rógur hinna óguðlegu getur eyðilagt mannorð fórnarlambsins, alveg eins og höggormseitur getur verið banvænt. (Sálmur 140:3; Rómverjabréfið 3:13; Jakobsbréfið 3:8) Auk þess eru hinir óguðlegu „eins og dauð naðra, sem lokar eyrunum,“ því að þeir neita að hlusta á og taka við leiðbeiningum.
◆ 63:4 — Hvernig er miskunn Guðs „mætari en lífið“?
Líf þess sem er fjarlægur Guði skortir sannan tilgang. Hinn trúi kærleikur Jehóva til Davíðs gaf lífi hans hins vegar gildi. Náið samband við Guð gerir lífið alltaf tilgangsríkt fyrir þjóna hans, fullvissar þá um hjálp hans og leiðsögn og gerir þeim fært að horfa fram veginn til eilífrar, hamingjuríkrar tilveru.
Lærdómur fyrir okkur: Davíð gerði sig ánægðan með að ‚bíða rólegur‘ eftir því að Guð léti til skarar skríða í hans þágu. (Sálmur 62:2-8) Með því að hann hafði beygt sig undir vilja Jehóva fannst honum hann öruggur og treysti Guði. Ef við berum slíkt traust til Jehóva, þá mun „friður Guðs“ varðveita hjörtu okkar og hugsanir meðan við bíðum freslunar hans frá óvinum okkar og þrengingum. — Filippíbréfið 4:6, 7; Sálmur 33:20.
Lofum frelsara okkar
Lestu Sálm 65 til 72. Jehóva er lofaður sem gjafari ríkulegrar uppskeru, gróðurskúra, grösugra beitilanda og vænna hjarða. (Sálmur 65) Syngja ætti lofsöng „um hans dýrlega nafn.“ (Sálmur 66) Honum skal sungið lof og hann er prísaður sem „hjálpræðisguð.“ (Sálmur 67, 68) Þjáningar Messíasar eru sagðar fyrir og Jehóva vegsamaður sem „frelsari.“ Sálmaritarinn ætlar að bíða hans. (Sálmur 69-71) Slíkt trúartraust verður umbunað, því að heitið er velsæld og frelsun frá kúgun, undir stjórn Messíasar. — Sálmur 72.
◆ 68:12 — Hverjar mynda hinn ‚mikla her‘ kvenna?
Eftir að Jehóva notaði hermenn Ísraels til að sigra óvin kunngerðu ísraelskar konur sigurtíðindin með tónlist, söng og dansi. (1. Samúelsbók 18:6, 7; samanber 2. Mósebók 15:20, 21.) Í hlýðni við „orð“ Guðs eða fyrirmæli börðust Ísraelsmenn við og sigruðu óvinaþjóðir fyrirheitna landsins. Ísraelskonur höfðu því gleðitíðindi til að boða þegar sigri var fagnað. Konur, sem eru þjónar orðsins, gegna nú stóru hlutverki sem boðberar Guðsríkis, og flytja fagnaðartíðindin um „orð“ Jehóva, þar á meðal aðvörun til þjóðanna um að Messíasarkonungurinn, Jesús Kristur, muni brátt sigra þær.
◆ 69:24 — Hvers vegna var Guð beðinn um að láta lendar óvinanna riða?
Mjaðmavöðvarnir eru mjög sterkir þegar þeir eru þandir. En þegar lendarnar riða, ef til vill sökum ótta, fer allur kraftur úr þeim. Þegar Davíð bað Guð um björgun bað hann þess að Guð gerði lendar óvinanna máttlausar.
◆ 72:16 — Hvað táknar þessi frjósemi?
‚Gróður Líbanons‘ kann að merkja svo þétt- og hávaxið korn að það líktist hinum gróskumiklu trjálundum Líbanons. Ef kornið yxi á stöllum upp til fjallstindanna mætti líkja háum, þykkum stönglinum, sem bar þungt kornaxið, við hin traustu og tígurlegu sedrustré í Líbanon. Þetta bendir til óvenjuríkulegrar uppskeru í Messíasarríkinu. Sú staðreynd að „menn skulu spretta upp í borgunum eins og gras úr jörðu,“ gefur til kynna að jarðneskir þegnar Jesú verði mjög fjölmennir.
Lærdómur fyrir okkur: Sálmaritarinn bað: „Þú sem hefir látið oss horfa upp á miklar nauðir og ógæfu, þú [Jehóva] munt láta oss lifna við að nýju.“ (Sálmur 71:20) Þótt Guð sé ekki valdur að slíkum þrengingum leyfir hann að við séum prófreyndir til svars við spottaranum djöflinum. (Jakobsbréfið 1:13; Orðskviðirnir 27:11) Jehóva lætur aldrei reyna okkur umfram það sem við getum borið, og getur hjálpað okkur að ganga með sterka trú út úr prófraunum. (1. Korintubréf 10:13; 1. Pétursbréf 1:6, 7) Smurðir kristnir menn sáu „miklar nauðir og ógæfu“ þegar þeir voru ofsóttir undir lok fyrri heimsstyrjaldarinnar. En Jehóva lét þá „lifna við að nýju“ árið 1919 og þeir sóttu fram í þjónustu Guðsríkis, síðar í félagi við ‚múginn mikla.‘ (Opinberunarbókin 7:9) Frelsarinn mikli á sannarlega lof skilið fyrir slík málalok.
Trú er nauðsynleg til að geta beðið þess að Guð gangi fram í okkar þágu. Við getum þurft að bíða hljóð þar eð við getum ekkert gert til að breyta erfiðum aðstæðum okkar. Þó munum við geta verið þolgóð, eins og sálmaritararnir, ef við erum sátt við að bíða og vona á Jehóva.