Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir annarrar bókar Sálmanna
ÞJÓNAR Jehóva vita að þeir mega búast við prófraunum og þrengingum. „Allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða,“ skrifaði Páll postuli. (2. Tímóteusarbréf 3:12) Hvað getur hjálpað okkur að standast prófraunir og ofsóknir og sanna þar með ráðvendni okkar gagnvart Guði?
Við fáum slíka hjálp í öðrum hluta Sálmanna. Í Sálmi 42 til 72 kemur fram að við verðum að reiða okkur algerlega á Jehóva og læra að vona á hann til að geta staðist prófraunir og bjargast. Það er góður lærdómur fyrir okkur. Boðskapur annarrar bókar Sálmanna er lifandi og kröftugur enn þann dag í dag, rétt eins og orð Guðs í heild. — Hebreabréfið 4:12.
JEHÓVA ER OKKUR „HÆLI OG STYRKUR“
Levíti er í útlegð. Það hryggir hann að geta ekki tilbeðið Jehóva í helgidómi hans en hann lætur huggast og segir: „Hví ert þú beygð, sál mín, og ólgar í mér? Vona á Guð.“ (Sálmur 42:6, 12; 43:5) Þetta vers er endurtekið þrívegis og tengir saman í eitt ljóð erindin þrjú í Sálmi 42 og 43. Í Sálmi 44 er beðið fyrir Júdaríki sem er í nauðum, hugsanlega vegna yfirvofandi innrásar Assýringa á dögum Hiskía konungs.
Í Sálmi 45 er sungið um konunglegt brúðkaup en það er spádómur um konung Messíasarríkisins. Í næstu þrem sálmum er Jehóva kallaður „hæli og styrkur“, „voldugur konungur yfir gjörvallri jörðinni“ og „vígi“. (Sálmur 46:2; 47:3; 48:4) Sálmur 49 lýsir með fögru ljóðmáli að „enginn maður fær keypt bróður sinn lausan“. (Sálmur 49:8) Fyrstu átta sálmarnir í annarri bókinni eru eignaðir sonum Kóra. Sá níundi, Sálmur 50, er eftir Asaf.
Biblíuspurningar og svör:
44:20 — Hvað er ‚staður sjakalanna‘? Hugsanlegt er að sálmaskáldið hafi átt hér við orustuvöll þar sem hinir föllnu urðu fæða sjakalanna.
45:14, 15a — Hver er „konungsdóttirin“ sem er „leidd fyrir konung“? Hún er dóttir ‚konungs aldanna‘, Jehóva Guðs. (Opinberunarbókin 15:3) Hún táknar dýrlega gerðan söfnuð 144.000 kristinna manna sem hann ættleiðir þegar hann smyr þá með anda sínum. (Rómverjabréfið 8:16) Þessi ‚dóttir‘ Jehóva er ‚búin sem brúður er skartar fyrir manni sínum‘ og er leidd til brúðgumans sem er konungurinn Messías. — Opinberunarbókin 21:2.
45:15b, 16 — Hverja tákna ‚meyjarnar‘? Þær tákna mikinn múg sannra guðsdýrkenda sem ganga í lið með leifum hinna andasmurðu og styðja þær. Þar sem þeir koma lifandi „úr þrengingunni miklu“ verða þeir á jörðinni þegar brúðkaupi konungs Messíasarríkisins lýkur á himnum. (Opinberunarbókin 7:9, 13, 14) Þá munu þeir fyllast „fögnuði og gleði“.
45:17 — Hvernig koma synir í stað feðra konungs? Jesús átti sér jarðneska forfeður þegar hann fæddist hér á jörð. Þeir verða synir hans þegar hann reisir þá upp frá dauðum í þúsundáraríkinu. Sumir af þeim verða gerðir að „höfðingjum um land allt“ eða út um alla jörð.
50:2 — Af hverju er Jerúsalem kölluð „ímynd fegurðarinnar“? Það er ekki vegna fegurðar borgarinnar heldur vegna þess að Jehóva notar hana og veitir henni mikla upphefð með því að láta reisa þar musteri sitt og gera hana að höfuðborg þar sem smurðir konungar hans sitja.
Lærdómur:
42:2-4. Levítinn þráði Jehóva rétt eins og hindin þráir vatn í vatnslausu landi. Svo hryggur var maðurinn yfir því að geta ekki tilbeðið Jehóva í helgidómi hans að ‚tár hans urðu fæða hans dag og nótt‘. Hann missti matarlystina. Ættum við ekki að þrá að tilbiðja Jehóva ásamt trúsystkinum okkar?
42:5, 6, 12; 43:3-5. Ef við erum af óviðráðanlegum ástæðum aðskilin tímabundið frá kristna söfnuðinum getur minningin um ánægjulega samveru haldið okkur uppi. Í fyrstu getur hún ef til vill aukið á einmanakenndina en hún ætti líka að minna okkur á að Guð er hæli okkar og við þurfum að vona á hann og bíða þess að hann bæti stöðu okkar.
46:2-4. Þegar við lendum í nauðum þurfum við að treysta staðfastlega að Guð sé okkur „hæli og styrkur“.
50:16-19. Enginn sem fer með blekkingar eða stundar illt hefur rétt til að vera fulltrúi Guðs.
50:20. Við ættum ekki að bera mistök og galla annarra á torg heldur horfa fram hjá þeim. — Kólossubréfið 3:13.
„BÍÐ RÓLEG EFTIR GUÐI, SÁLA MÍN“
Þessi syrpa af sálmum hefst með innilegri bæn Davíðs eftir að hann syndgaði með Batsebu. Í Sálmi 52 til 57 kemur fram að Jehóva frelsar þá sem varpa byrði sinni á hann og bíða eftir hjálpræði hans. Davíð gerir Jehóva að hæli sínu í öllum þrengingum eins og fram kemur í Sálmi 58 til 64. „Bíð róleg eftir Guði, sála mín, því að frá honum kemur von mín,“ syngur hann. — Sálmur 62:6.
Náið vináttusamband við frelsara okkar ætti að vera okkur hvöt til að ‚syngja um hans dýrlega nafn‘. (Sálmur 66:2) Í Sálmi 65 er Jehóva lofaður sem örlátur gjafari, í Sálmi 67 og 68 sem hjálpræðisguð og í Sálmi 70 og 71 sem hæli og vígi.
Biblíuspurningar og svör:
51:14 — Hvaða „fúsleiks anda“ er Davíð að biðja um? Hér er hvorki átt við heilagan anda Jehóva né fúsleika hans til að hjálpa Davíð heldur anda Davíðs sjálfs, það er að segja tilhneigingar hans. Hann er að biðja Guð að gefa sér löngun til að gera rétt.
53:2 — Hvers vegna er sá maður ‚heimskingi‘ sem afneitar tilvist Guðs? Með heimsku er ekki átt við vitsmunaskort heldur siðferðilega heimsku eins og sjá má af siðferðishruninu sem hlýst af henni og lýst er í Sálmi 53:2-5.
58:4-6 — Í hvaða skilningi eru hinir illu eins og höggormar? Lygar þeirra um aðra eru eins og höggormseitur. Þeir eitra gott mannorð fórnarlamba sinna. Og þeir eru „eins og dauf naðra, sem lokar eyrunum“ því að þeir hlusta hvorki á leiðbeiningar né leiðréttingar.
58:8 — Í hvaða skilningi gerist það að óguðlegir „hverfa eins og vatn, sem rennur burt“? Vera má að Davíð hafi haft í huga ár eða læki í sumum árdölum fyrirheitna landsins. Þessi vatnsföll gátu bólgnað í skyndiflóðum en síðan þornað upp og horfið fyrr en varði. Davíð biður þess að hinir óguðlegu hverfi fljótt.
68:14 — Hvernig voru „vængir dúfunnar . . . lagðir silfri og fjaðrir hennar íbleiku gulli“? Sumar blágráar dúfur eru með lithverfar fjaðrir. Það er eins og slái á þær málmgljáa þegar gullið sólarljósið fellur á þær. Líkingin er hugsanlega sú að sigursælir hermenn Ísraels á heimleið úr bardaga séu eins og flugfimar, skínandi dúfur. Sumir fræðimenn benda á að lýsingin geti einnig átt við listmuni sem teknir voru að herfangi og voru þá sigurtákn. Davíð er að minnsta kosti að vísa til þeirra hersigra sem Jehóva gaf þjóð sinni yfir óvinum.
68:19 — Hverjar voru þessar ‚gjafir frá mönnum‘? Í New World Translation er talað um „gjafir í mynd manna“ og var hér um að ræða menn sem Ísraelsmenn tóku að herfangi þegar þeir lögðu undir sig fyrirheitna landið. Þeir fengu síðar það verkefni að aðstoða levítana í starfi. — Esrabók 8:20.
68:31 — Hvað merkir beiðnin um að „ógna . . . dýrinu í sefinu“? Davíð líkir óvinum þjóðar Jehóva við villidýr og biður Jehóva að ógna þeim eða halda þeim í skefjum svo að þeir geti ekki unnið tjón.
69:24 — Hvað merkir það að láta ‚lendar óvinanna riða‘? Vöðvarnir á lendunum eru nauðsynlegir til að við getum unnið erfiðisvinnu, svo sem tekið upp og borið þungar byrðar. Riðandi lendar gefa til kynna að menn missi máttinn. Davíð biður þess að fjandmenn hans verði magnlausir.
Lærdómur:
51:3-6, 19. Við þurfum ekki að verða viðskila við Guð þótt við syndgum því að við getum treyst á miskunn hans ef við iðrumst.
51:7, 9-12. Ef við höfum syndgað getum við ákallað Jehóva og beðist fyrirgefningar vegna þess að tilhneigingin til að syndga er arfgeng. Við ættum sömuleiðis að biðja hann að hreinsa okkur, reisa okkur við, hjálpa okkur að losna við syndugar tilhneigingar í hjartanu og gera okkur staðföst.
51:20. Syndir Davíðs ógnuðu velferð allrar þjóðarinnar svo að hann bað Guð að gera vel við Síon. Ef við drýgjum alvarlega synd getum við sett blett á nafn Jehóva og söfnuðinn. Við þurfum að biðja Guð að bæta það tjón sem við kunnum að hafa valdið.
52:10. Við getum verið eins og „grænt olíutré í húsi Guðs“ — verið nálæg Guði og frjósöm í þjónustu hans — með því að hlýða honum og þiggja ögun hans fúslega. — Hebreabréfið 12:5, 6.
55:5, 6, 13-15, 17-19. Það særði Davíð ákaflega að Absalon, sonur hans, skyldi gera samsæri gegn honum og að Akítófel, hinn virti ráðgjafi hans, skyldi svíkja hann. En það breytti því ekki að hann treysti Jehóva. Látum ekki tilfinningalegt álag draga úr trausti okkar til Guðs.
55:23. Hvernig vörpum við áhyggjum okkar á Jehóva? Með því að (1) leggja áhyggjur okkar fyrir hann í bæn, (2) leita stuðnings og leiðsagnar í orði hans og söfnuðinum og (3) með því að gera það sem við getum með góðu móti til að bæta ástandið. — Orðskviðirnir 3:5, 6; 11:14; 15:22; Filippíbréfið 4:6, 7.
56:9. Jehóva veit bæði hvernig ástatt er hjá okkur og hvaða tilfinningaleg áhrif það hefur.
62:12. Guð er ekki háður utanaðkomandi orkugjafa heldur er hann sjálfur mikill orkugjafi. „Hjá Guði er styrkleikur.“
63:4. „Miskunn [Guðs] er mætari en lífið“ vegna þess að án hennar er lífið tilgangslaust. Það er viturlegt að afla sér vináttu Jehóva.
63:7. Nóttin, hljóð og truflunarlaus, getur verið ágætistími til hugleiðingar.
64:3-5. Skaðlegt slúður getur spillt góðu mannorði saklauss manns. Við ættum hvorki að hlusta á slíkt slúður né breiða það út.
69:5. Til að varðveita friðinn er stundum skynsamlegt að „skila aftur“ með því að biðjast afsökunar, jafnvel þó að við teljum okkur ekki hafa gert neitt rangt.
70:2-6. Jehóva heyrir þegar við áköllum hann og biðjum hann hjálpar. (1. Þessaloníkubréf 5:17; Jakobsbréfið 1:13; 2. Pétursbréf 2:9) Hann leyfir ef til vill að prófraunin haldi áfram en gefur okkur visku til að takast á við hana og styrk til að standast hana. Hann leyfir ekki að okkar sé freistað um megn fram. — 1. Korintubréf 10:13; Hebreabréfið 10:36; Jakobsbréfið 1:5-8.
71:5, 17. Davíð byggði upp kjark og hugrekki með því að gera Jehóva að athvarfi sínu í æsku, jafnvel áður en hann barðist við risann Golíat. (1. Samúelsbók 17:34-37) Ungt fólk ætti að reiða sig á Jehóva í einu og öllu.
„Öll jörðin fyllist dýrð hans“
Síðasta ljóðið í annarri bók Sálmanna, Sálmi 72, fjallar um stjórnartíð Salómons og lýsir þeim skilyrðum sem munu ríkja á jörðinni undir stjórn Messíasar. Í þessum sálmi er lýst mikilli og unaðslegri gæfu. Þá verður friður, endi verður bundinn á kúgun og ofbeldi og gnóttir korns verða á jörðinni. Verðum við meðal þeirra sem fá að njóta þessarar gæfu og margs annars sem Guðsríki hefur í för með sér? Það getum við ef við erum sátt við að bíða eftir Jehóva líkt og sálmaskáldið og gera hann að hæli okkar og athvarfi.
„Bænir Davíðs Ísaísonar“ taka enda með orðunum: „Lofaður sé Drottinn, Guð, Ísraels Guð, sem einn gjörir furðuverk, og lofað sé hans dýrlega nafn um eilífð, og öll jörðin fyllist dýrð hans. Amen, amen.“ (Sálmur 72:18-20) Við skulum sömuleiðis lofa Jehóva af öllu hjarta og vegsama hið dýrlega nafn hans.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Veistu hverja „konungsdóttirin“ táknar?
[Mynd á blaðsíðu 10]
Jerúsalem er kölluð „ímynd fegurðarinnar“. Veistu af hverju?