„Musterið“ og „landshöfðinginn“ nú á tímum
„Landshöfðinginn skal ganga inn mitt á meðal þeirra, þegar þeir ganga inn, og fara út, þegar þeir fara út.“ — ESEKÍEL 46:10.
1, 2. Hvaða grundvallarsannleikur sviptir að miklu leyti hulunni af musterissýn Esekíels?
RABBÍNAR Gyðinga til forna voru ekki allir sáttir við bók Esekíels. Að sögn Talmúðsins hvarflaði jafnvel að sumum þeirra að útiloka hana frá helgiritasafni Heilagrar ritningar. Musterissýnin vafðist sérstaklega fyrir þeim og þeir lýstu yfir að hún væri ofvaxin mannlegum skilningi. Aðrir biblíufræðingar hafa staðið ráðþrota frammi fyrir sýn Esekíels af musteri Jehóva. Hvað um okkur?
2 Frá því að hrein guðsdýrkun var endurreist hefur Jehóva margoft veitt fólki sínu andlegt innsæi, meðal annars skilning á því hvað andlegt musteri hans sé, það er að segja tilbeiðslufyrirkomulag hans sem líkt er við musteri.a Þessi grundvallarsannleikur sviptir að miklu leyti hulunni af musterissýn Esekíels. Við skulum skoða nánar hina fjóra þætti sýnarinnar — musterið, prestastéttina, landshöfðingjann og landið. Hvað tákna þeir nú á dögum?
Musterið og þú
3. Hvaða lærdóm má draga af lofthæðinni og súluskreytingunum í hliðhúsum musterisins?
3 Ímyndum okkur að við séum í skoðunarferð um musterið í sýninni. Við göngum sjö tröppur upp að einu af stóru hliðunum. Þegar við komum inn fyrir ytra hliðið, inn í hliðhúsið, lítum við upp full lotningar. Lofthæðin er meira en 30 metrar! Með þessu erum við minnt á að gerðar eru háar kröfur til þeirra sem ganga inn í tilbeiðslufyrirkomulag Jehóva. Ljósgeislar frá gluggunum lýsa upp súlur með úthöggnum pálmum en þeir eru notaðir í Ritningunni til að tákna ráðvendni. (Sálmur 92:13; Esekíel 40:14, 16, 22, Biblían 1912) Þessi helgi staður er fyrir þá sem eru andlega og siðferðilega ráðvandir. Þar af leiðandi viljum við varðveita ráðvendni svo að tilbeiðsla okkar sé Jehóva þóknanleg. — Sálmur 11:7.
4. Hverjir fá ekki inngöngu í musterið og hvað lærum við af því?
4 Hvoru megin gangsins eru þrjú varðherbergi. Hleypa verðirnir okkur inn í musterið? Jehóva segir Esekíel að enginn útlendur maður, ‚óumskorinn á hjarta,‘ megi inn koma. (Esekíel 40:10; 44:9) Hvað merkir það? Guð viðurkennir enga sem tilbiðjendur sína nema þá sem elska lög hans og lifa eftir þeim. (Jeremía 4:4; Rómverjabréfið 2:29) Hann býður þá velkomna í andlegt tjald sitt eða tilbeiðsluhús. (Sálmur 15:1-5) Frá því að hrein tilbeiðsla var endurreist árið 1919 hefur jarðneskt skipulag Jehóva skýrt siðferðislög hans stig af stigi og haldið þeim á loft. Þeir sem viljandi neita að hlýða þeim eru ekki lengur velkomnir meðal fólks hans. Hin biblíulega aðferð að gera iðrunarlausa syndara ræka hefur haldið tilbeiðslu okkar hreinni og óflekkaðri. — 1. Korintubréf 5:13.
5. (a) Hvað er líkt með sýn Esekíels og sýn Jóhannesar í Opinberunarbókinni 7:9-15? (b) Hverja tákna ættkvíslirnar 12 sem tilbiðja í ytri forgarðinum?
5 Gangurinn opnast út í ytri forgarðinn þar sem fólkið tilbiður og vegsamar Jehóva. Þetta minnir okkur á sýn Jóhannesar postula um ‚múginn mikla‘ sem tilbiður Jehóva „dag og nótt í musteri hans.“ Pálmar koma fyrir í báðum sýnunum. Í sýn Esekíels prýða þeir gangana. Í sýn Jóhannesar hafa tilbiðjendurnir pálmagreinar í höndum sem táknar gleði þeirra að lofsyngja Jehóva og bjóða Jesú velkominn sem konung sinn. (Opinberunarbókin 7:9-15) Í samhengi við sýn Esekíels tákna 12 ættkvíslir Ísraels hina „aðra sauði.“ (Jóhannes 10:16; samanber Lúkas 22:28-30.) Ert þú í hópi þeirra sem hafa gleði af að lofa Jehóva með því að boða ríki hans?
6. Hvaða tilgangi þjónuðu herbergin í ytri forgarðinum og á hvaða sérréttindi minnir það hina aðra sauði?
6 Þegar við göngum um ytri forgarðinn sjáum við herbergin 30 þar sem fólk neytir sjálfviljafórna sinna. (Esekíel 40:17) Þeir sem tilheyra hinum öðrum sauðum færa ekki dýrafórnir en koma þó ekki tómhentir til andlega musterisins. (Samanber 2. Mósebók 23:15.) Páll postuli segir: „Fyrir [Jesú] skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans. En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.“ (Hebreabréfið 13:15, 16; Hósea 14:3) Það eru mikil sérréttindi að færa Jehóva slíkar fórnir. — Orðskviðirnir 3:9, 27.
7. Hvað tryggir mæling musterisins?
7 Esekíel fylgist með þegar engill mælir musterið í sýninni. (Esekíel 40:3) Á líkan hátt var Jóhannesi postula sagt: „Rís upp og mæl musteri Guðs og altarið og teldu þá, sem þar tilbiðja.“ (Opinberunarbókin 11:1) Hvað merkir þessi mæling? Í báðum tilfellum er hún greinilega trygging fyrir því að ekkert geti hindrað Jehóva í að uppfylla fyrirætlanir sínar í sambandi við hreina tilbeiðslu. Á sama hátt getum við treyst því að ekkert geti stöðvað endurreisn hreinnar guðsdýrkunar — ekki einu sinni hatrömm andstaða voldugra stjórna.
8. Hverjir ganga um hliðin inn í innri forgarðinn og á hvað minna hliðin okkur?
8 Þegar við göngum gegnum ytri forgarðinn sjáum við þrjú hlið inn í innri forgarðinn. Innri hliðin eru gegnt ytri hliðunum og jafnstór. (Esekíel 40:6, 20, 23, 24, 27) Aðeins prestar mega ganga inn í innri forgarðinn. Innri hliðin minna okkur á að hinir smurðu verða að uppfylla kröfur og lög Guðs, en sömu kröfur og lög eru öllum sannkristnum mönnum til leiðsagnar. En við hvað starfa prestarnir og hvaða þýðingu hefur það núna?
Trúföst prestastétt
9, 10. Hvernig hefur hið ‚konunglega prestafélag,‘ sem prestastéttin í Esekíelssýninni táknar, séð fyrir andlegri fræðslu?
9 Fyrir daga kristninnar unnu prestarnir erfiðisvinnu í musterinu. Það var krefjandi starf að slátra dýrum, fórna þeim á altarinu og þjóna samprestum og fólkinu. En þeir höfðu fleiri mikilvægum skyldum að gegna. Jehóva skipaði svo fyrir um prestana: „Þeir skulu kenna lýð mínum að gjöra greinarmun á heilögu og óheilögu og fræða hann um muninn á óhreinu og hreinu.“ — Esekíel 44:23; Malakí 2:7.
10 Kanntu að meta elju og auðmjúka þjónustu hinna smurðu, hins ‚konunglega prestafélags,‘ í þágu hreinnar guðsdýrkunar? (1. Pétursbréf 2:9) Líkt og levítaprestarnir til forna hafa þeir tekið forystuna í að veita andlega fræðslu, og leiða fólki fyrir sjónir hvað sé hreint og þóknanlegt í augum Guðs og hvað ekki. (Matteus 24:45) Slík fræðsla er veitt í biblíuritum, á kristnum samkomum og mótum og hefur hjálpað milljónum manna að sættast við Guð. — 2. Korintubréf 5:20.
11. (a) Hvernig lagði sýn Esekíels áherslu á hreinleika prestanna? (b) Hvernig hafa hinir smurðu verið hreinsaðir í andlegum skilningi á hinum síðustu dögum?
11 En prestarnir verða að gera meira en að kenna öðrum að vera hreinir. Þeir verða sjálfir að vera hreinir. Esekíel sá því fyrir að prestastétt Ísraels yrði hreinsuð. (Esekíel 44:10-16) Sagan sýnir á sama hátt að Jehóva settist í andlegt musteri sitt árið 1918 til að „hreinsa“ og rannsaka hinn smurða prestahóp. (Malakí 3:1-5) Þeir sem voru taldir andlega hreinir eða höfðu iðrast fyrri skurðgoðadýrkunar, fengu að halda þeim sérréttindum að þjóna í andlegu musteri Guðs. En líkt og allir aðrir geta einstaklingar af hópi hinna smurðu orðið óhreinir, bæði andlega og siðferðilega. (Esekíel 44:22, 25-27) Þeir hafa þurft að leggja hart að sér til að varðveita sig ‚óflekkaða af heiminum.‘ — Jakobsbréfið 1:27; samanber Markús 7:20-23.
12. Hvers vegna ættum við að meta mikils starf hinna smurðu?
12 Við getum öll spurt okkur hvort við kunnum að meta fordæmi hinna smurðu í áralangri trúfastri þjónustu þeirra, og hvort við líkjum eftir trú þeirra. Það er skynsamlegt af þeim sem tilheyra múginum mikla að hafa í huga að hinir smurðu verða ekki alltaf hjá þeim hér á jörð. Jehóva sagði um prestana í sýn Esekíels: „Ekki skuluð þér gefa þeim fasteign [land] í Ísrael, ég er fasteign þeirra.“ (Esekíel 44:28) Á sama hátt eiga hinir smurðu sér ekki varanlegan samastað á jörð. Þeir eiga sér himneska arfleifð, og múgurinn mikli telur það sérréttindi að styðja þá og hvetja meðan þeir eru enn hér á jörð. — Matteus 25:34-40; 1. Pétursbréf 1:3, 4.
Hver er landshöfðinginn?
13, 14. (a) Af hverju hlýtur landshöfðinginn að vera af hópi annarra sauða? (b) Hverja táknar landshöfðinginn?
13 Nú vaknar áhugaverð spurning. Hverja táknar landshöfðinginn? Þar eð bæði er talað um hann sem einstakling og hóp megum við ætla að hann tákni flokk manna. (Esekíel 44:3; 45:8, 9) En hverja? Varla hina smurðu. Í sýninni vinnur landshöfðinginn náið með prestastéttinni en tilheyrir henni ekki. Ólíkt prestunum fær hann arfleifð í landinu og á sér framtíð hér á jörð en ekki á himnum. (Esekíel 48:21) Og Esekíel 46:10 segir: „Landshöfðinginn skal ganga inn mitt á meðal þeirra, þegar þeir [sem eru ekki af prestaættkvísl] ganga inn [í ytri forgarð musterisins], og fara út, þegar þeir fara út.“ Hann fer ekki inn í innri forgarðinn heldur tilbiður í ytri forgarðinum og fer inn og út úr musterinu ásamt fólkinu. Þetta bendir tvímælalaust til þess að landshöfðinginn sé af hópi hins mikla múgs annarra sauða.
14 Landshöfðinginn ber greinilega einhverja ábyrgð meðal fólks Guðs. Hann situr í forsal Austurhliðsins í ytri forgarðinum. (Esekíel 44:2, 3) Það bendir til þess að hann gegni umsjónarstöðu líkt og öldungar Ísraels sem sátu í borgarhliðinu og dæmdu. (Rutarbók 4:1-12; Orðskviðirnir 22:22) Hverjir meðal annarra sauða gegna umsjónarstöðu nú á tímum? Það eru öldungar með jarðneska von sem hafa verið útnefndir af heilögum anda. (Postulasagan 20:28) Núna er því verið að búa landshöfðingjahópinn undir að gegna stjórnunarstöðu í nýja heiminum.
15. (a) Hvernig varpar sýn Esekíels ljósi á samband öldunga af múginum mikla og hins smurða prestahóps? (b) Hvaða forystu hafa smurðir öldungar tekið í jarðnesku skipulagi Guðs?
15 En hvert er samband smurða prestahópsins og öldunga af múginum mikla sem gegna umsjónarstöðu núna? Sýn Esekíels gefur til kynna að hlutverk öldunga af múginum mikla sé að styðja hina smurðu í andlegu forystuhlutverki þeirra og vera þeim undirgefnir. Hvernig? Munum að prestarnir í sýninni fengu það verkefni að veita fólki andlega fræðslu. Þeim var einnig sagt að dæma í deilumálum manna. Og levítunum var falið að gegna „umsjónarstöðu“ í musterishliðunum. (Esek. 44:11, 23, 24, NW) Landshöfðinginn átti greinilega að lúta forystu og andlegri þjónustu prestanna. Það er því viðeigandi að hinir smurðu skulu hafa tekið forystu í hreinni tilbeiðslu á okkar tímum. Hið stjórnandi ráð votta Jehóva hefur til dæmis verið valið af hópi hinna smurðu. Þessir trúföstu smurðu öldungar hafa verið að þjálfa landshöfðingjahópinn í áratugi og búa hann undir að taka að fullu við þeim yfirráðum, sem honum verður ætlað að fara með, í komandi nýjum heimi Guðs.
16. Hvernig verða allir öldungar að koma fram, að sögn Jesaja 32:1, 2?
16 Hvers konar umsjónarmenn eiga í vændum að fá aukna ábyrgð sem landshöfðingjahópurinn? Spádómurinn í Jesaja 32:1, 2 segir: „Þegar konungurinn ríkir með réttlæti og höfðingjarnir stjórna með réttvísi, þá verður hver þeirra sem hlé fyrir vindi og skjól fyrir skúrum, sem vatnslækir í öræfum, sem skuggi af stórum hamri í vatnslausu landi.“ Þessi spádómur er að uppfyllast núna með þeim hætti að kristnir öldungar — bæði af hinum smurðu og hinum öðrum sauðum — leggja sig fram um að vernda hjörðina fyrir „skúrum“ í mynd ofsókna og kjarkleysis.
17. Hvaða augum eiga kristnir hirðar að líta sjálfa sig og hvernig á hjörðin að líta á þá?
17 Orðin „höfðingi“ og „landshöfðingi“ eru svipaðrar merkingar á hebresku en eru ekki notuð sem hefðartitlar. Þau lýsa öllu heldur ábyrgð þessara manna við umönnun sauða Guðs. Jehóva segir í skýrum viðvörunartón: „Látið yður nægja þetta, þér Ísraels höfðingjar! Látið af ofríki og yfirgangi, en iðkið rétt og réttlæti!“ (Esekíel 45:9) Öllum öldungum nútímans er hollt að taka slíkar ráðleggingar til sín. (1. Pétursbréf 5:2, 3) Og hjörðin gerir sér grein fyrir að Jesús hefur gefið hirða sem „gjafir í mönnum.“ (Efesusbréfið 4:8, NW) Hæfniskröfur þeirra eru skráðar í innblásnu orði Guðs. (1. Tímóteusarbréf 3:1-7; Títusarbréfið 1:5-9) Kristnir menn fylgja þess vegna forystu öldunganna. — Hebreabréfið 13:7.
18. Hvaða ábyrgð gegnir hinn væntanlegi landshöfðingjahópur núna og hvaða ábyrgð mun hann gegna í framtíðinni?
18 Á biblíutímanum fóru sumir landshöfðingjar með mikil völd en aðrir minni. Öldungar af múginum mikla hafa margvíslega ábyrgð. Sumir þjóna einum söfnuði, aðrir þjóna mörgum söfnuðum sem farandumsjónarmenn, sumir sitja í deildarnefndum og þjóna heilum löndum og aðrir aðstoða ýmsar nefndir hins stjórnandi ráðs. Í nýja heiminum útnefnir Jesús ‚höfðingja um land allt‘ til að taka forystuna meðal tilbiðjenda Jehóva á jörðinni. (Sálmur 45:17) Hann velur vafalaust marga þeirra úr hópi trúfastra öldunga nútímans. Af því að þessir menn eru að sanna sig núna mun hann fela mörgum þeirra jafnvel enn meiri sérréttindi í framtíðinni þegar hann opinberar hlutverk landshöfðingjahópsins í nýja heiminum.
Land fólks Guðs nú á tímum
19. Hvað táknar landið í sýn Esekíels?
19 Sýn Esekíels dregur líka upp mynd af hinu endurreista Ísraelslandi. Hvað táknar þessi hluti sýnarinnar? Aðrir endurreisnarspádómar sögðu fyrir að landið, Ísrael, yrði paradís eins og Eden. (Esekíel 36:34, 35) Núna búum við í endurreistu ‚landi‘ sem er líka í vissum skilningi eins og Edengarður. Við tölum til að mynda oft um andlega paradís okkar. Varðturninn hefur skilgreint „land“ okkar sem „athafnasvið“ útvalinnar þjóðar Guðs.b Hvar sem þjónn Jehóva er staddur er hann í þessu endurreista landi, svo framarlega sem hann leitast við að halda sannri guðsdýrkun á loft með því að feta í fótspor Krists Jesú. — 1. Pétursbréf 2:21.
20. Hvaða frumreglu getum við lært af ‚helguðu landspildunni‘ í Esekíelssýninni og hvernig má heimfæra hana?
20 Hvað um þann hluta landsins sem nefnist ‚helgaða landspildan‘? Þetta var fórnargjöf eða framlag fólksins til stuðnings prestastéttinni og borginni. „Allur landslýðurinn“ skyldi líka gefa spildu til landshöfðingjans. Hvað merkir þetta á okkar tímum? Auðvitað ekki að íþyngja eigi fólki Guðs með því að halda uppi launaðri klerkastétt. (2. Þessaloníkubréf 3:8) Stuðningurinn við öldungana er fyrst og fremst andlegur. Hann felst meðal annars í því að aðstoða við það verk sem verið er að vinna núna og vera samstarfsfús og undirgefin. En líkt og á tímum Esekíels er þessi fórnargjöf ‚gefin Jehóva,‘ en engum manni. — Esekíel 45:1, 7, 16.
21. Hvað má læra af skiptingu landsins í sýn Esekíels?
21 Það eru ekki aðeins landshöfðinginn og prestastéttin sem hafa fengið hlutskipti í þessu endurreista landi. Skipting landsins sýnir að allar ættkvíslirnar 12 eiga sér trygga arfleifð. (Esekíel 47:13, 22, 23) Þeir sem tilheyra múginum mikla eiga sér ekki aðeins samastað í hinni andlegu paradís nútímans, heldur er þeim einnig úthlutuð landspilda þegar þeir taka við arfleifð á jarðneskum vettvangi Guðsríkis.
22. (a) Hvað táknar borgin í Esekíelssýninni? (b) Hvaða lærdóm má draga af því að borgin er með hlið öllum megin?
22 Að lokum, hvað táknar borgin í sýninni? Þetta er ekki himnesk borg því að hún liggur mitt í ‚óheilögu‘ landi. (Esekíel 48:15-17) Hún hlýtur því að tákna eitthvað jarðneskt. Nú, hvað er borg eiginlega? Er ekki borg staður þar sem fólk safnast saman í skipulega einingu eða heild? Jú, og borgin virðist því tákna þá jarðnesku stjórn sem allir, er mynda hið réttláta mannfélag á jörð, munu njóta góðs af. Hún tekur að fullu til starfa á hinni komandi ‚nýju jörð.‘ (2. Pétursbréf 3:13) Borgin er með hlið öllum megin, eitt fyrir hverja ættkvísl, sem sýnir vel hve opin og aðgengileg hún er. Nútímafólk Guðs er ekki undir einhverri leynilegri stjórn sem starfar bak við tjöldin. Bræður í ábyrgðarstöðum eiga að vera aðgengilegir. Frumreglurnar sem þeir fylgja eru öllum kunnar. Sú staðreynd að fólk af öllum ættkvíslum yrkir landið, sem borgin hefur viðurværi af, minnir okkur á að hinir aðrir sauðir styðja þær stjórnunarráðstafanir sem gerðar eru til handa fólki Guðs um heim allan, líka efnislega. — Esekíel 48:19, 30-34.
23. Hvað verður tekið fyrir í næstu grein?
23 En hvað um fljótið sem rennur frá musterinu? Hvað það táknar núna og í framtíðinni er efni þriðju og síðustu greinarinnar í þessari syrpu.
[Neðanmáls]
a Sjá bókina Revelation — Its Grand Climax At Hand!, bls. 64, grein 22, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
Til upprifjunar
◻ Hvað táknar musterið í sýn Esekíels?
◻ Hverja tákna prestarnir sem þjóna í musterinu?
◻ Hver er landshöfðingjahópurinn og hvaða ábyrgð gegnir hann?
◻ Hvað er landið í sýn Esekíel og í hvaða skilningi er því skipt milli ættkvíslanna 12?
◻ Hvað táknar borgin?
[Skyringarmynd/Kort á blaðsíðu 25]
(Sjá uppraðaðann texta í blaðinu)
Skipting landsins samkvæmt sýn Esekíels.
HINAR TÓLF ÆTTKVÍSLIR
Hafið mikla
Galíleuvatn
Jórdan
Saltisjór
DAN
ASSER
NAFTALÍ
MANASSE
EFRAÍM
RÚBEN
JÚDA
LANDSHÖFÐINGINN
BENJAMÍN
SÍMEON
ÍSSAKAR
SEBÚLON
GAÐ
[Skyringarmynd]
STÆKKUÐ MYND AF HELGUÐU LANDSPILDUNNI
A. ‚Jehóva er hér‘ (Jehóva-Sjamma); B. beiti- og akurlendi borgarinnar
Hlutur levítanna
Helgidómur Jehóva
Hlutur prestanna
B A B