Miskunn Jehóva forðar okkur frá örvæntingu
„Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.“ — SÁLMUR 51:3.
1, 2. Hvernig áhrif getur alvarleg synd haft á þjón Jehóva?
ENGINN getur brotið lög Jehóva sér að meinalausu. Það kemur berlega í ljós ef við drýgjum alvarlega synd gegn Guði! Þótt við kunnum að hafa þjónað Jehóva trúfastlega svo árum skiptir getur það valdið okkur miklum áhyggjum eða þunglyndi að brjóta lög hans. Okkur getur fundist Jehóva hafa yfirgefið okkur og að við séum ekki lengur þess verð að þjóna honum. Synd okkar getur virst sem dimmt ský er lokar fyrir ljós hylli Guðs.
2 Davíð konungur Forn-Ísraels var einu sinni þannig á vegi staddur. Hvernig bar það til?
Víxlspor geta leitt til stórsyndar
3, 4. Hvað kom fyrir Davíð konung á velmegunartíma?
3 Davíð elskaði Guð en steig víxlspor sem leiddu til alvarlegra synda. (Samanber Galatabréfið 6:1.) Þetta getur hent hvaða ófullkominn mann sem er, einkum ef hann fer með yfirráð yfir öðrum. Davíð var auðugur konungur, frægur og valdamikill. Hver vogaði sér að véfengja orð hans? Hæfir menn voru honum reiðubúnir til þjónustu og fólk var óðfúst að gera það sem hann bað um. Samt gerði Davíð þau mistök að taka sé margar eiginkonur og að telja þjóðina. — 5. Mósebók 17:14-20; 1. Kroníkubók 21:1.
4 Á þessum velmegunartíma drýgði Davíð alvarlegar syndir gegn Guði og mönnum. Þar leiddi ein synd til annarrar eins og samofnir þræðir í klæði úr vefstól Satans! Meðan aðrir Ísraelsmenn börðust við Ammoníta horfði Davíð af hallarþaki sínu á hina fögru konu Úría, Batsebu, baða sig. Úría var í stríði og konungur lét færa konuna í höll sína og drýgði hór með henni. Það er hægt að ímynda sér hve honum hefur brugðið þegar hann uppgötvaði síðar að hún var með barni! Davíð sendi eftir Úría í von um að hann myndi sænga hjá Batsebu og álíta barnið sitt eigið. Þótt Davíð léti Úría drekka sig drukkinn neitaði hann að sofa hjá henni. Davíð fylltist nú örvæntingu og sendi Jóab hershöfðingja leynileg fyrirmæli um að setja Úría í fremstu víglínu þar sem öruggt var að hann myndi falla. Úría féll í bardaga, ekkja hans syrgði hann hið hefðbundna sorgartímabil og Davíð kvæntist henni áður en menn sáu að hún var barnshafandi. — 2. Samúelsbók 11:1-27.
5. Hvað gerðist eftir að Davíð syndgaði með Batsebu og hvaða áhrif höfðu syndir hans á hann?
5 Guð notaði spámanninn Natan til að afhjúpa syndir Davíðs og sagði: „Ég læt ólán koma yfir þig frá húsi þínu.“ Í samræmi við það dó barnið sem Batsebu fæddist. (2. Samúelsbók 12:1-23) Frumgetinn sonur Davíðs, Amnon, nauðgaði Tamar, hálfsystur sinni, og bróðir hennar myrti hann. (2. Samúelsbók 13:1-33) Absalon, sonur konungs, reyndi að sölsa undir sig hásætið og smánaði föður sinn með því að eiga kynmök við hjákonur hans. (2. Samúelsbók 15:1–16:22) Borgarastríði lauk með dauða Absalons og meiri sorgum fyrir Davíð. (2. Samúelsbók 18:1-33) En syndir Davíðs auðmýktu hann og komu honum til að gera sér grein fyrir nauðsyn þess að halda sér nærri hluttekningarsömum Guði sínum. Ef okkur verður á skulum við iðrast í auðmýkt og nálægja okkur Jehóva. — Samanber Jakobsbréfið 4:8.
6. Hvers vegna var sekt Davíðs konungs sérstaklega mikil?
6 Sekt Davíðs var sérstaklega mikil vegna þess að hann var valdhafi í Ísrael og þekki lögmál Jehóva vel. (5. Mósebók 17:18-20) Hann var ekki egypskur faraó eða babýlonskur konungur sem skorti slíka þekkingu og gerði kannski að jafnaði ýmislegt sem Guð hafði vanþóknun á. (Samanber Efesusbréfið 2:12; 4:18.) Hann tilheyrði þjóð sem var vígð Jehóva og gerði sér ljóst að hórdómur og morð eru stórsyndir. (2. Mósebók 20:13, 14) Kristnir menn þekkja einnig lög Guðs. Líkt og Davíð brjóta hins vegar sumir þeirra þessi lög vegna meðfæddrar tilhneigingar til syndar, mannlegs veikleika og freistingar sem þeir sporna ekki gegn. Ef það skyldi henda eitthvert okkar þurfum við ekki að halda áfram að vera í myrkri sem takmarkar andlega sýn okkar og umvefur okkur djúpri örvæntingu.
Léttir fylgir játningu
7, 8. (a) Hvað kom fyrir Davíð þegar hann reyndi að leynda syndum sínum? (b) Hvers vegna ber að játa syndir sínar og láta af þeim?
7 Ef við erum sek um að hafa brotið lög Guðs alvarlega kann okkur að finnast erfitt að játa syndir okkar, jafnvel fyrir Jehóva. Hvað getur gerst undir þeim kringumstæðum? Í Sálmi 32 viðurkenndi Davíð: „Meðan ég þagði [í stað þess að játa], tærðust bein mín, allan daginn kveinaði ég, því að dag og nótt lá hönd þín [Jehóva] þungt á mér, lífsvökvi minn þvarr sem í sumarbreiskju.“ (Vers 3, 4) Þegar hinn villuráfandi Davíð reyndi að fela synd sína og þagga niður rödd samviskunnar lémagnaðist hann. Angistin dró svo úr honum þrótt að hann var eins og tré á þurrkatímum sem missir vökvunina er heldur í því lífinu. Vel kann að vera að hann hafi fundið fyrir slæmum áhrifum á hug sinn og líkama. Að minnsta kosti missti hann gleði sína. Hvað ættum við að gera ef eitthvert okkar lendir í svipaðri aðstöðu?
8 Játning fyrir Guði getur haft í för með sér fyrirgefningu og létti. „Þá játaði ég synd mína fyrir þér og fól eigi misgjörð mína,“ söng Davíð. „Ég mælti: ‚Ég vil játa afbrot mín fyrir [Jehóva],‘ og þú fyrirgafst syndasekt mína.“ (Sálmur 32:5) Ert þú þjakaður yfir einhverri leyndri synd? Væri þá ekki best að játa hana og hætta henni þannig að þú getir hlotið miskunn Guðs? Hvers vegna ekki að kalla á öldunga safnaðarins og leita andlegrar lækningar? (Orðskviðirnir 28:13; Jakobsbréfið 5:13-20) Iðrunarhugur þinn verður viðurkenndur og smám saman getur þú endurheimt kristna gleði þína. „Sæll er sá er afbrotin eru fyrirgefin, synd hans hulin,“ sagði Davíð. „Sæll er sá maður er [Jehóva] tilreiknar eigi misgjörð, sá er eigi geymir svik í anda.“ — Sálmur 32:1, 2.
9. Hvenær var Sálmur 51 ortur og hvers vegna?
9 Davíð og Batseba þurftu að standa Jehóva Guði reikningsskap vegna syndar sinnar. Enda þótt hægt hefði verið að taka þau af lífi fyrir syndir sínar sýndi Guð þeim miskunn. Einkum var hann miskunnsamur við Davíð vegna sáttmálans um ríkið. (2. Samúelsbók 7:11-16) Iðrunarhugur Davíðs vegna synda sinna í sambandi við Batsebu sést vel af Sálmi 51. Iðrunarfullur orti konungur þennan sálm eftir að Natan spámaður hafði vakið samvisku hans fyrir því hve gríðarlega hann hefði brotið lög Guðs. Það kostaði Natan hugrekki að vekja athygli Davíðs á syndum hans, líkt og kristnir öldungar verða að vera hugrakkir til að gera slíkt hið sama nú á dögum. Í stað þess að neita ákærunni og fyrirskipa aftöku Natans játaði konungur auðmjúklega. (2. Samúelsbók 12:1-14) Sálmur 51 greinir frá því hvað hann sagði við Guð í bæn um svívirðilegan verknað sinn og er verðugt íhugunar- og bænarefni, einkum ef við höfum syndgað og þráum miskunn Jehóva.
Við erum ábyrg fyrir Guði
10. Hvernig gat Davíð náð sér andlega?
10 Davíð reyndi ekki að afsaka synd sína heldur sárbændi Guð: „Guð, vertu mér náðugur sakir elsku þinnar, afmá brot mín sakir þinnar miklu miskunnsemi.“ (Sálmur 51:3) Með synd sinni hafði Davíð farið út fyrir þann ramma sem lögmál Guðs setti. Hann hafði þó von um að ná sér andlega ef Guð sýndi honum miskunn samkvæmt elsku sinni eða tryggum kærleika. Ríkuleg miskunn Guðs fyrrum gaf hinum iðrandi konungi tilefni til að trúa að skapari hans myndi afmá misgerðir hans.
11. Hvað var gefið í skyn með fórnum friðþægingardagsins og hvers er krafist til að hljóta hjálpræði nú á dögum?
11 Gegnum spádómlega fyrirmynd fórna friðþægingardagsins gaf Jehóva til kynna að hann hefði leið til að hreinsa iðrunarfulla menn af synd þeirra. Við vitum núna að okkur veitist miskunn hans á grundvelli trúar á lausnarfórn Jesú Krists. Ef Davíð, sem hafði aðeins fyrirmyndir og skugga þessarar fórnar í huga, gat treyst á miskunn og elskuríka góðvild Jehóva, hve miklu fremur ættu nútímaþjónar Guðs að iðka trú á lausnargjaldið sem þeim er séð fyrir til hjálpræðis! — Rómverjabréfið 5:8; Hebreabréfið 10:1.
12. Hvað merkir það að syndga og hvað fannst Davíð um syndir sínar?
12 Í bæn sinni til Guðs bætti Davíð við: „Þvo mig hreinan af misgjörð minni, hreinsa mig af synd minni, því að ég þekki sjálfur afbrot mín, og synd mín stendur mér stöðugt fyrir hugskotssjónum.“ (Sálmur 51:4, 5) Að syndga er að missa marks hvað varðar staðla Jehóva. Davíð hafði vissulega gert það. Hann var þó ekki eins og hórdómsmaður eða morðingi sem kærði sig kollóttan um brot sitt og gerði sér aðeins áhyggjur af refsingunni eða hættunni á því að hann fengi sjúkdóm. Davíð elskaði Jehóva og hataði hið illa. (Sálmur 97:10) Honum bauð við synd sinni og vildi að Guð hreinsaði hann algerlega af henni. Davíð gerði sér fulla grein fyrir broti sínu og var sárhryggur yfir að hann skyldi hafa látið synduga löngun sína yfirbuga sig. Synd hans stóð honum stöðugt fyrir hugskotssjónum, því að guðhræddur maður með samviskubit er aldrei í rónni fyrir en hann hefur iðrast, játað og hlotið fyrirgefningu Jehóva.
13. Hvers vegna gat Davíð sagt að hann hefði syndgað gegn Guði einum?
13 Davíð viðurkenndi að hann væri ábyrgur gagnvart Jehóva og sagði: „Gegn þér einum hefi ég syndgað og gjört það sem illt er í augum þínum. Því ert þú réttlátur, er þú talar, hreinn, er þú dæmir.“ (Sálmur 51:6) Davíð hafði brotið lög Guðs, smánað konungsembættið og ‚smánað Jehóva með athæfi sínu‘ og kallað háðung yfir hann. (2. Samúelsbók 12:14; 2. Mósebók 20:13, 14, 17) Syndug verk Davíðs voru einnig brot gegn ísraelsku þjóðfélagi og fjölskyldumeðlimum hans, alveg eins og skírður syndari nú á tímum veldur kristna söfnuðinum og ástvinum sínum hryggð og erfiðleikum. Enda þótt hinn iðrandi konungur vissi að hann hefði syndgað gegn öðrum mönnum eins og Úría, viðurkenndi hann sína meiri ábyrgð gagnvart Jehóva. (Samanber 1. Mósebók 39:7-9.) Davíð viðurkenndi að dómur Jehóva yrði réttlátur. (Rómverjabréfið 3:4) Kristnir menn, sem hafa syndgað, þurfa að hafa sama viðhorf.
Afsakandi kringumstæður
14. Hvaða afsakandi kringumstæður nefndi Davíð?
14 Enda þótt Davíð væri ekki að reyna að réttlæta sig sagði hann: „Sjá, sekur var ég, er ég varð til, syndugur, er móðir mín fæddi mig.“ (Sálmur 51:7) Davíð var fæddur í synd því að móðir hans fæddi hann með sársauka vegna arfgengrar syndar sinnar. (1. Mósebók 3:16; Rómverjabréfið 5:12) Orð hans merkja ekki að eðlileg mök innan hjónabands, getnaður og fæðing sé syndsamleg, þar sem hjónaband og barnsburður er ráðstöfun af hendi Guðs; Davíð var ekki heldur að vísa til einhverrar sérstakrar syndar móður sinnar. Hann var getinn í synd af því að foreldrar hans voru syndugir eins og allir ófullkomnir menn. — Jobsbók 14:4.
15. Hvað ættum við ekki að gera þótt Guð kunni að taka tillit til afsakandi kringumstæðna?
15 Ef við höfum syndgað getum við sagt Guði í bæn frá hverjum þeim afsakandi kringumstæðum sem kunna að hafa stuðlað að röngum verknaði okkar. En við skulum ekki nota óverðskuldaða góðvild Guðs til að afsaka lauslæti eða nota arfgengan ófullkomleika sem hjúp til að fela okkur fyrir ábyrgðinni á synd okkar. (Júdasarbréfið 3, 4) Davíð viðurkenndi ábyrgð sína á því að gæla við óhreinar hugsanir og láta undan freistingu. Við skulum biðja þess að við föllum ekki í freistni og síðan skulum við láta verkin vera samtaka slíkri bæn. — Matteus 6:13.
Bæn um hreinsun
16. Hvaða eiginleiki geðjast Guði og hvernig ætti það að hafa áhrif á hegðun okkar?
16 Fólk kann að virðast ágætisfólk helgað Guði en hann lítur undir yfirborðið og sér hvernig menn eru innst inni. Davíð sagði: „Sjá, þú [Jehóva] hefir þóknun á hreinskilni hið innra, og í fylgsnum hjartans kennir þú mér visku!“ (Sálmur 51:8) Davíð var sekur um fals og undirferli er hann bjó svo um hnútana að Úría dæi og með því að reyna að fela það að Batseba væri barnshafandi. Engu að síður vissi hann að Guð hefur þóknun á sannsögli og heilagleika. Það ætti að hafa góð áhrif á hegðun okkar því að Jehóva myndi dæma okkur ef við værum undirförul. (Orðskviðirnir 3:32) Davíð gerði sér líka ljóst að ef Guð myndi ‚kenna honum visku‘ sem iðrunarfullum konungi myndi hann geta fylgt stöðlum Guðs það sem eftir væri ævinnar.
17. Hvaða þýðingu hafði það að biðja um hreinsun með ísóp?
17 Með því að sálmaritarinn sá að hann þyrfti hjálp Guðs til að sigrast á syndugum tilhneigingum sínum bað hann áfram: „Hreinsa mig með ísóp, svo að ég verði hreinn, þvo mig, svo að ég verði hvítari en mjöll.“ (Sálmur 51:9) Ísópsjurtin (ef til vill mæra eða Origanum maru) var ásamt öðru notuð við hreinsunarathöfn fólks sem hafði verið smitað holdsveiki. (3. Mósebók 14:2-7) Það var því viðeigandi að Davíð skyldi biðja um að hann yrði hreinsaður af synd sinni með ísóp. Hreinleikahugtakið tengist einnig bæn hans um að Jehóva þvoi hann þannig að hann verði algerlega hreinn, jafnvel hvítari en snjór sem ekki hefur safnað í sig ryki eða rusli. (Jesaja 1:18) Ef einhver okkar eru núna með samviskubit út af einhverri rangri breytni, þá skulum við hafa þá trú að Guð geti hreinsað okkur og þvegið á grundvelli lausnarfórnar Jesú, ef við leitum iðrunarfull fyrirgefningar hans.
Bæn um endurreisn
18. Hvernig leið Davíð áður en hann iðraðist og játaði og hvernig getur sú vitneskja verið okkur gagnleg núna?
18 Sérhver kristinn maður, sem hefur verið með samviskubit, getur skilið orð Davíðs: „Lát mig heyra fögnuð og gleði, lát kætast beinin sem þú [Jehóva] hefir sundurmarið.“ (Sálmur 51:10) Áður en Davíð iðraðist og játaði syndir sínar leið honum ömurlega vegna þess að hann hafði slæma samvisku. Hann hafði ekki einu sinni ánægju af gleði- og fagnaðarsöng góðra söngvara og færra tónlistarmanna. Svo mikil var kvöl Davíðs yfir vanþóknun Guðs að honum leið eins og manni sem beinin höfðu verið brotin í með kvölum. Hann þráði fyrirgefningu, andlega lækningu og afturheimt þeirrar gleði sem hann hafði áður notið. Iðrunarfullur syndari nú á tímum þarfnast líka fyrirgefningar Jehóva þannig að hann endurheimti gleðina sem hann hafði áður en hann gerði eitthvað sem stofnaði sambandi hans við Guð í hættu. Þegar iðrunarfullur maður endurheimtir ‚fögnuð heilags anda‘ sýnir það honum að Jehóva hafi fyrirgefið honum og elski hann. (1. Þessaloníkubréf 1:6) Það er mjög hughreystandi!
19. Hvernig myndi Davíð líða ef Guð afmáði allar syndir hans?
19 Davíð bað enn fremur: „Byrg auglit þitt fyrir syndum mínum og afmá allar misgjörðir mínar.“ (Sálmur 51:11) Ekki var hægt að vænta þess að Jehóva liti syndina með velþóknun. Þess vegna var hann beðinn að byrgja auglit sitt fyrir syndum Davíðs. Konungurinn bað Guð líka að afmá allar misgerðir hans, þurrka út allt óréttlæti hans. Ef Jehóva myndi bara gera það myndi það létta lund Davíðs, létta af honum byrði slæmrar samvisku og veita konunginum, sem nú iðraðist, vissu fyrir því að elskuríkur Guð hans hefði fyrirgefið honum.
Hvað ef þú hefur syndgað?
20. Hvað er sérhver kristinn maður, sem hefur syndgað alvarlega, hvattur til að gera?
20 Sálmur 51 gefur til kynna að sérhver vígður þjónn Jehóva, sem hefur syndgað alvarlega en iðrast, geti beðið hann í trúartrausti að sýna sér velvild og hreinsa hann af synd hans. Ef þú ert kristinn maður sem hefur syndgað þannig, hví ekki að leita fyrirgefningar föður þíns á himnum í auðmjúkri bæn? Viðurkenndu að þú þarfnist hjálpar Guðs til að geta staðið þóknanlegur frammi fyrir honum og biddu hann að veita þér aftur þína fyrri gleði. Iðrunarfullir kristnir menn geta beðið Jehóva slíkra bæna með trúartrausti því að „hann fyrirgefur ríkulega.“ (Jesaja 55:7; Sálmur 103:10-14) Að sjálfsögðu ætti að leita til safnaðaröldunganna þannig að þeir geti veitt þá andlegu aðstoð sem þarf. — Jakobsbréfið 5:13-15.
21. Hvað athugum við næst?
21 Miskunn Jehóva forðar þjónum hans frá örvæntingu. En við skulum skoða aðrar innilegar bænir Davíðs í Sálmi 51. Nám okkar mun sýna okkur að Jehóva fyrirlítur ekki sundurmarið hjarta.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvaða áhrif getur alvarleg synd haft á þjón Jehóva?
◻ Hvaða áhrif hafði það á Davíð að reyna að leyna synd sinni?
◻ Hvers vegna sagði Davíð að hann hefði syndgað gegn Guði einum?
◻ Hvað ættum við ekki að gera þótt Guð kunni að taka tillit til afsakandi kringumstæðna ef við syndgum?
◻ Hvað ætti kristinn maður að gera ef hann hefur syndgað alvarlega?