Unglingar — þjálfið skilningarvitin
„Fasta fæðan er fyrir fullorðna, fyrir þá, sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.“ — HEBREABRÉFIÐ 5:14.
1, 2. (a) Hvernig erum við í svipaðri aðstöðu og kristnir menn í Efesus að fornu? (b) Hvaða hæfileikar geta forðað þér frá hættu og hvernig geturðu þroskað þá?
„HAFIÐ . . . nákvæma gát á, hvernig þér breytið, ekki sem fávísir, heldur sem vísir. Notið hverja stund, því að dagarnir eru vondir.“ (Efesusbréfið 5:15, 16) ‚Vondir menn og svikarar hafa magnast í vonskunni‘ síðan Páll postuli skrifaði þessi orð fyrir tvö þúsund árum. Við lifum „örðugar tíðir“ eða ‚háskatíma‘ eins og önnur þýðing orðar það. — 2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13; Phillips.
2 En þú getur forðast þær hættur, sem kunna að liggja í leyni, með því að þroska með þér „hyggindi, . . . þekking og aðgætni.“ (Orðskviðirnir 1:4) Orðskviðirnir 2:10-12 segja: „Speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg. Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig, til þess að frelsa þig frá vegi hins illa, frá þeim mönnum, sem fara með fals.“ En hvernig geturðu þroskað með þér þessa hæfileika? Hebreabréfið 5:14 segir að ‚fasta fæðan sé fyrir fullorðna, fyrir þá sem jafnt og þétt hafa tamið skilningarvitin til að greina gott frá illu.‘ Það þarf að þjálfa skilningarvitin eins og hverja aðra hæfileika. Gríska orðið, sem Páll notar, merkir bókstaflega að ‚hafa verið þjálfuð eins og fimleikamaður.‘ Hvernig á að byrja slíka þjálfun?
Þjálfaðu skilningarvitin
3. Hvernig geturðu notað skilningarvitin þegar þú þarft að taka ákvörðun?
3 Skilningarvitin eða hæfnin til að greina rétt frá röngu þjálfast jafnt og þétt við notkun. Þú tekur tæpast skynsamlega ákvörðun ef þú byggir hana á ágiskun, skyndihvöt eða fylgir hreinlega fjöldanum. Til að taka viturlegar ákvarðanir þarftu að nota skilningarvitin. Hvernig? Í fyrsta lagi með því að skoða málið vandlega og þekkja allar staðreyndir. Spyrðu spurninga ef nauðsyn krefur. Kannaðu hvað þú átt um að velja. Orðskviðirnir 13:16 segja: „Kænn maður gjörir allt með skynsemd.“ Reyndu síðan að ganga úr skugga um hvaða biblíuleg lög eða meginreglur eiga við í málinu. (Orðskviðirnir 3:5) Biblíuþekking er auðvitað nauðsynleg til þess að geta gert það. Þess vegna hvetur Páll okkur til að neyta ‚fastrar fæðu,‘ að læra hve sannleikurinn er „víður og langur, hár og djúpur.“ — Efesusbréfið 3:18.
4. Hvers vegna er nauðsynlegt að þekkja meginreglur Guðs?
4 Þetta er nauðsynlegt af því að við erum ófullkomin og hættir til að syndga. (1. Mósebók 8:21; Rómverjabréfið 5:12) „Svikult er hjartað fremur öllu öðru, og spillt er það,“ segir í Jeremía 17:9. Ef við höfum ekki meginreglur Guðs að leiðarljósi getum við blekkt okkur svo að við höldum að illt sé gott — einfaldlega vegna þess að holdið girnist það. (Samanber Jesaja 5:20.) Sálmaritarinn sagði: „Með hverju getur ungur maður haldið vegi sínum hreinum? Með því að gefa gaum að orði þínu. Af fyrirmælum þínum er ég skynsamur orðinn, fyrir því hata ég sérhvern lygaveg.“ — Sálmur 119:9, 104.
5. (a) Af hverju fara sumir unglingar út á lygaveg? (b) Hvernig tileinkaði ung stúlka sér sannleikann?
5 Af hverju hafa sumir unglingar, sem hafa alist upp á kristnu heimili, farið út á lygaveg? Getur verið að þeir hafi aldrei sannað fyrir sjálfum sér „hver sé vilji Guðs, hið góða, fagra og fullkomna“? (Rómverjabréfið 12:2) Sumir sækja kannski samkomur með foreldrum sínum og geta þulið upp sumar af undirstöðukenningum Biblíunnar. En séu þeir beðnir að koma með sannanir fyrir því sem þeir trúa eða skýra einhver af hinum dýpri sannindum Biblíunnar ristir þekking þeirra ósköp grunnt. Slíkir unglingar geta hæglega leiðst út á villigötur. (Efesusbréfið 4:14) Ef þú ert í þessari aðstöðu, væri þá ekki þjóðráð að breyta því? Ung systir segir: „Ég fór að rannsaka málið. Ég spurði mig: ‚Hvernig veit ég að þetta er rétta trúin? Hvernig veit ég að það er til Guð sem heitir Jehóva?‘“a Rækileg rannsókn á Ritningunni sannfærði hana um að það væri satt og rétt sem hún hafði lært af foreldrum sínum. — Samanber Postulasöguna 17:11.
6. Hvernig geturðu „metið rétt, hvað Drottni [Jehóva] þóknast“?
6 Með þekkingu á Jehóva í farteskinu áttu auðveldara með að ‚meta rétt hvað Drottni þóknast.‘ (Efesusbréfið 5:10) En ef þú ert ekki viss um hvað sé skynsamlegt að gera í ákveðnu máli skaltu biðja Jehóva um leiðsögn. (Sálmur 119:144) Reyndu að ræða málið við foreldra þína eða þroskaðan trúbróður eða trúsystur. (Orðskviðirnir 15:22; 27:17) Þú getur líka fundið góðar leiðbeiningar í Biblíunni og ritum Varðturnsfélagsins. (Orðskviðirnir 2:3-5) Því meir sem þú notar skilningarvitin, þeim mun skarpari verða þau.
Vertu skynsamur þegar þú velur þér afþreyingu og skemmtun
7, 8. (a) Hvernig geturðu notað skilningarvitin til að ákveða hvort þú eigir að mæta í boð eða partí? (b) Hver er afstaða Biblíunnar til þess að skemmta sér?
7 Við skulum nú kanna hvernig þú getur beitt skilningarvitunum við sérstakar aðstæður. Segjum að hópur unglinga ætli að hittast og þér sé boðið. Þú hefur jafnvel fengið prentað flugrit þar sem atburðurinn er auglýstur. Þér er sagt að mikill fjöldi unglinga í söfnuðinum verði á staðnum og greiða þurfi gjald til að standa undir kostnaði. Ættirðu að mæta á staðinn?
8 Notaðu skilningarvitin. Byrjaðu á því að safna staðreyndum. Hve margir verða þarna og hverjir? Hvenær byrjar þetta og hvenær lýkur því? Hvað er á dagskrá? Hvers konar umsjón verður á staðnum? Leitaðu þér síðan upplýsinga með hjálp efnisskrárinnar Watch Tower Publications Index.b Hvað gætu athuganir þínar leitt í ljós? Í fyrsta lagi að Jehóva fordæmir ekki að fólk komi saman til að skemmta sér. Raunar segir Prédikarinn 8:15 að ‚ekkert sé betra til fyrir manninn undir sólinni en að eta og drekka og vera glaður,‘ auk þess að vinna fyrir sér. Jesús Kristur sótti jafnvel veislur og að minnsta kosti einu sinni var hann viðstaddur brúðkaup. (Lúkas 5:27-29; Jóhannes 2:1-10) Í góðu hófi getur verið gott að blanda geði við aðra.
9, 10. (a) Hvaða hættur geta stundum verið á ferðinni þegar fólk kemur saman? (b) Hvaða spurninga gætirðu spurt þig áður en þú ákveður hvort þú mætir í boð eða partí?
9 En boð og partí geta verið ávísun á vandræði ef þau eru ekki vel skipulögð. Í 1. Korintubréfi 10:8 lesum við hvernig slæmur félagsskapur leiddi til hórdóms og aftöku ‚tuttugu og þriggja þúsunda ótrúrra Ísraelsmanna á einum degi.‘ Við fáum aðra alvarlega viðvörun í Rómverjabréfinu 13:13: „Framgöngum sómasamlega eins og á degi, ekki í ofáti né ofdrykkju, ekki í saurlífi né svalli, ekki í þrætu né öfund.“ (Samanber 1. Pétursbréf 4:3.) Það er að vísu ekki hægt að tiltaka neina hámarkstölu gesta þegar fólk kemur saman. En reynslan sýnir að því fleiri sem gestirnir eru, þeim mun erfiðara er að hafa umsjón með þeim. Það er minni hætta á ‚taumlausu teiti‘ ef hópurinn er tiltölulega smár og umsjón er góð. — Galatabréfið 5:21, Byington.
10 Athuganir þínar kveikja eflaust fleiri spurningar svo sem: Verða einhverjir þroskaðir, fullorðnir safnaðarmenn viðstaddir? Hver stendur á bak við þetta? Er tilgangurinn sá að eiga heilnæman félagsskap eða hagnast einhver á þessu? Eru einhverjar hömlur á því hverjir mega koma? Lýkur fjörinu á skikkanlegum tíma svo að viðstaddir geti tekið þátt í boðunarstarfinu daginn eftir ef svo ber undir? Verður tónlist og dans í samræmi við kristna mælikvarða, ef slíkt er á dagskrá? (2. Korintubréf 6:3) Það getur verið erfitt að spyrja slíkra spurninga. En Orðskviðirnir 22:3 benda á að ‚vitur maður sjái ógæfuna og feli sig en einfeldningarnir haldi áfram og fái að kenna á því.‘ Þú getur forðast áhættusamar aðstæður með því að nota skilningarvitin.
Skynsamleg menntun
11. Hvernig geta unglingar notað skilningarvitin til að búa sig undir framtíðina?
11 Biblían segir að það sé viturlegt að búa sig undir framtíðina. (Orðskviðirnir 21:5) Hefurðu rætt við foreldrana um þína framtíð? Kannski ætlarðu þér að gerast brautryðjandi. Ekkert starf getur veitt þér meiri lífsfyllingu. Ef þú temur þér góðar námsvenjur og þjálfar þig í boðunarstarfinu ertu að búa þig undir þetta spennandi starf. Hefurðu hugleitt hvernig þú getir séð fyrir þér meðfram boðunarstarfinu? Ef þú ákveður í framtíðinni að stofna fjölskyldu, verðurðu þá fær um að axla þessa auknu ábyrgð? Það þarf að nota skilningarvitin til að taka skynsamlegar og raunhæfar ákvarðanir um slík mál.
12. (a) Hvernig hafa sumar fjölskyldur lagað sig að breyttu efnahagsástandi? (b) Þarf viðbótarmenntun að stangast á við það markmið að gerast brautryðjandi? Skýrðu svarið.
12 Sums staðar er enn þá hægt að fá iðn- eða starfsþjálfun á vinnustað. Einstöku unglingar fá þjálfun í atvinnurekstri fjölskyldunnar eða hjá vinafólki sem er með eigin atvinnurekstur. Sumir sækja námskeið sem reynst geta gagnleg til að sjá fyrir sér síðar. Þar sem slíkt stendur ekki til boða velja foreldrar kannski að vel athuguðu máli að láta börnin fá viðbótarmenntun eftir framhaldsskóla. Slíkur undirbúningur fyrir ábyrgð fullorðinsáranna, sérstaklega til að geta gegnt brautryðjandastarfi til langs tíma litið, stangast ekki á við það að láta Guðsríki ganga fyrir. (Matteus 6:33) Og viðbótarmenntun útilokar ekki brautryðjandastarf. Unga stúlku í söfnuðinum hafði til dæmis lengi langað til að gerast brautryðjandi. Þegar hún lauk framhaldsskóla létu foreldrar hennar hana mennta sig enn frekar, en þau voru sjálf reglulegir brautryðjendur. Hún gat verið brautryðjandi með skólanum og núna notar hún það sem hún lærði til að sjá fyrir sér sem brautryðjandi.
13. Hvernig ættu fjölskyldur að reikna kostnaðinn af viðbótarmenntun?
13 Það eru réttindi og skylda hverrar fjölskyldu að ákveða hvort börnin fá viðbótarmenntun eða ekki. Þegar slík menntun er skynsamlega valin getur hún komið að góðu gagni. En hún getur líka reynst gildra. Hvaða markmið hefurðu með menntuninni? Er markmiðið það að búa þig undir að axla ábyrgð fullorðinsáranna á heiðvirðan hátt eða ‚ætlarðu þér mikinn hlut‘? (Jeremía 45:5; 2. Þessaloníkubréf 3:10; 1. Tímóteusarbréf 5:8; 6:9) Hvað um viðbótarmenntun fjarri heimili þar sem þú þarft kannski að búa á stúdentagarði? Væri það viturlegt með hliðsjón af viðvörun Páls um að ‚vondur félagsskapur spilli góðum siðum‘? (1. Korintubréf 15:33; 2. Tímóteusarbréf 2:22) Mundu að „tíminn er orðinn stuttur.“ (1. Korintubréf 7:29) Hve mikinn tíma þarftu að helga náminu? Myndirðu eyða mestum hluta ungdómsáranna í nám? Hvernig ætlarðu þá að fara eftir hvatningu Biblíunnar um að ‚muna eftir skapara þínum á unglingsárum þínum‘? (Prédikarinn 12:1) Og gefur námið þér tíma fyrir samkomur, boðunarstarf og einkanám sem er kristnum manni svo mikilvægt? (Matteus 24:14; Hebreabréfið 10:24, 25) Ef skilningarvitin eru skörp missirðu aldrei sjónar á andlegum markmiðum þegar þú býrð þig undir framtíðina með hjálp foreldra þinna.
Sómasamlegt tilhugalíf
14. (a) Hvaða meginreglur ættu hjónaleysi í tilhugalífinu að hafa til viðmiðunar í sambandi við atlot? (b) Hvernig hafa sumir sýnt slæma dómgreind í þessu efni?
14 Tilhugalíf er annað svið þar sem þú þarft að hafa skilningarvitin í lagi. Það er ósköp eðlilegt að langa til að sýna þeim sem manni þykir vænt um ástúð. Hjónaleysin í Ljóðaljóðunum voru hreinlíf en sýndu hvort öðru ástúð að einhverju marki áður en þau giftust. (Ljóðaljóðin 1:2; 2:6; 8:5) Hjónaleysum í tilhugalífinu getur líka fundist í lagi að haldast í hendur, kyssast og faðmast, einkum þegar hjónaband virðist blasa við. En munið að „sá sem treystir eigin hyggjuviti, er heimskingi.“ (Orðskviðirnir 28:26) Því miður hafa mörg hjónaleysi sýnt slæma dómgreind og komið sér í freistandi aðstæður. Ástaratlotin hafa orðið áköf og taumlaus og óhreinleiki og jafnvel siðleysi hlotist af.
15, 16. Hvaða raunhæfar varúðarráðstafanir er hægt að gera til að tilhugalífið verði heiðvirt?
15 Ef þú ert í tilhugalífinu er skynsamlegt að vera ekki einn með tilvonandi maka þínum við óviðeigandi aðstæður. Það getur verið heppilegast að hittast ásamt öðrum eða á almannafæri. Sum hjónaleysi hafa velsæmisvörð með sér. Og munið eftir Hósea 4:11: „Vín og vínberjalögur tekur vitið burt.“ Áfengi getur slævt dómgreindina og komið fólki til að gera hluti sem það iðrar síðar meir.
16 Orðskviðirnir 13:10 segja: „Með hroka vekja menn aðeins þrætur, en hjá ráðþægnum mönnum er viska.“ Það er skynsamlegt að ráða ráðum sínum og ræða hvernig þið ætlið að hegða ykkur. Setjið því takmörk hvernig þið sýnið hvort öðru ástúð og virðið tilfinningar og samvisku hvort annars. (1. Korintubréf 13:5; 1. Þessaloníkubréf 4:3-7; 1. Pétursbréf 3:16) Það getur verið erfitt í byrjun að ræða um þetta viðkvæma efni en það getur komið í veg fyrir alvarleg vandamál síðar.
Kennsla „frá æsku“
17. Hvernig gerði Davíð Jehóva að ‚athvarfi sínu frá æsku‘ og hvað geta unglingar lært af því?
17 Það kostar stöðuga árvekni að forðast snörur Satans — og stundum heilmikið hugrekki. Þú getur lent upp á kant við allan heiminn, ekki aðeins kunningjana. Sálmaritarinn Davíð bað: „Því að þú ert von mín, þú, [Jehóva], ert athvarf mitt frá æsku. Guð, þú hefir kennt mér frá æsku, og allt til þessa kunngjöri ég dásemdarverk þín.“ (Sálmur 71:5, 17)c Davíð er þekktur fyrir hugrekki sitt. En hvenær þroskaði hann það? Á unglingsárunum. Davíð hafði sýnt einstakt hugrekki áður en kom til átakanna við Golíat sem fræg eru. Hann hafði verndað sauði föður síns og drepið bæði bjarndýr og ljón. (1. Samúelsbók 17:34-37) En Davíð gaf Jehóva allan heiðurinn af hugrekki sínu og kallaði hann ‚athvarf sitt frá æsku.‘ Þar eð hann reiddi sig á Jehóva stóðst hann allar prófraunir sem hann lenti í. Þú kemst líka að raun um að Jehóva gefur þér hugrekki og styrk til að ‚sigra heiminn,‘ ef þú reiðir þig á hann. — 1. Jóhannesarbréf 5:4.
18. Hvað eru guðræknir unglingar hvattir til að gera?
18 Þúsundir ungmenna eins og þú hafa tekið hugrakka afstöðu og eru skírðir boðberar fagnaðarerindisins núna. Við þökkum Guði fyrir trú ykkar og hugrekki! Verið staðráðin í að forðast spillingu heimsins. (2. Pétursbréf 1:4) Haldið áfram að nota þjálfuð skilningarvit ykkar. Það verndar ykkur gegn ógæfu núna og tryggir hjálpræði ykkar um síðir. Þannig gerið þið líf ykkar farsælt eins og fram kemur í síðustu greininni.
[Neðanmáls]
a Sjá greinina „Ungt fólk spyr . . . Hvernig get ég tileinkað mér sannleikann?“ í Vaknið! janúar-mars 1999.
b Athugaðu fletturnar „Social Gatherings“ og „Entertainment.“ Í greininni „Skemmtun og afþreying — njóttu kostanna, forðastu snörurnar,“ í Varðturninum 1. febrúar 1993 eru líka miklar upplýsingar um þetta mál.
Spurningar til upprifjunar
◻ Hvernig þjálfar unglingur skilningarvitin?
◻ Hvernig getur unglingur notað skilningarvitin til að ákveða hvort hann sækir boð eða teiti innan safnaðarins?
◻ Hvað má hugleiða í sambandi við menntunaráform?
◻ Hvernig geta hjónaleysi í tilhugalífinu forðast siðleysi?
[Mynd á blaðsíðu 23]
Þú þjálfar skilningarvitin með því að læra að rannsaka málin.
[Myndir á blaðsíðu 24]
Eftirlit er auðvelt þegar hópurinn er smár og minni líkur á að allt fari úr böndum.
[Myndir á blaðsíðu 24]
Foreldrar ættu að aðstoða börnin við að skipuleggja menntun sína.
[Mynd á blaðsíðu 25]
Það er vernd fyrir fólk í tilhugalífinu að hittast með öðrum.