Jehóva, sá sem gerir furðuverk
„Þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð!“ — SÁLMUR 86:10.
1, 2. (a) Hvaða áhrif hafa uppfinningar mannsins haft á heiminn? (b) Hvar getum við fundið von um betra líf?
NÚTÍMAMENN stæra sig af því að uppfinningar þeirra séu stórkostlegar — raftækin, fjarskiptin, myndbandatæknin, bifreiðin, þotan og tölvutæknin. Þessar uppfinningar hafa í óeiginlegri merkingu smækkað heiminn. En hvílíkur heimur! Í stað friðar, velsældar og nægta handa öllum eru stríð, glæpir, hryðjuverk, mengun, sjúkdómar og fátækt eins og plágur á mannkyninu. Og kjarnavopnin, sem dreifð eru um heiminn, geta enn, þótt þeim hafi verið fækkað, gereytt mannkyninu. Sölumenn dauðans, vopnaframleiðendurnir, halda áfram umfangsmestu gróðastarfsemi á jörðinni. Hinir ríku verða ríkari og hinir fátæku fátækari. Getur nokkur fundið leið út úr þessu öngþveiti?
2 Já! Sá er til sem lofar leið út úr vandanum, „hinn hæsti yfir þeim öllum,“ Jehóva Guð. (Prédikarinn 5:7) Hann innblés ritun sálmanna sem eru mjög hughreystandi og gefa viturleg heilræði fyrir neyðtartíma. Einn þeirra er Sálmur 86 sem er með þessari einföldu yfirskrift: „Davíðs-bæn.“ Þetta er bæn sem þú getur tekið þér í munn.
Hrjáður en trúfastur
3. Hvaða uppörvandi fordæmi er Davíð okkur sem nú lifum?
3 Davíð var mjög hrjáður er hann orti þennan sálm. Við nútímamenn, sem lifum ‚síðustu daga‘ heimskerfis Satans, þessar ‚örðugu tíðir,‘ stöndum frammi fyrir svipuðum prófraunum. (2. Tímóteusarbréf 3:1; sjá einnig Matteus 24:9-13.) Líkt og við var Davíð áhyggjufullur og niðurdreginn út af þeim vandamálum sem hann átti í. Hann leyfði þessum vandamálum þó aldrei að veikja tryggð sína og traust til skapara síns. Hann hrópaði: „Hneig eyra þitt, [ó Jehóva], og bænheyr mig, því að ég er hrjáður og snauður. Vernda líf mitt, því að ég er helgaður þér, hjálpa þú, Guð minn, þjóni þínum, er treystir þér. — Sálmur 86:1, 2.
4. Hvernig ættum við að sýna trúartraust okkar?
4 Við getum, eins og Davíð, treyst því að „Guð allrar huggunar,“ Jehóva, hneigi eyra sitt til jarðar og heyri auðmjúkar bænir okkar. (2. Korintubréf 1:3, 4) Ef við treystum óhagganlega á Guð okkar getum við fylgt ráði Davíðs: „Varpa áhyggjum þínum á [Jehóva], hann mun bera umhyggju fyrir þér, hann mun eigi að eilífu láta réttlátan mann verða valtan á fótum.“ — Sálmur 55:23.
Innilegt samband við Jehóva
5. (a) Hvernig hafa sumar nákvæmar biblíuþýðingar leiðrétt villur skrifara Gyðinga? (b) Hvernig vegsama 85. og 86. sálmurinn Jehóva? (Sjá neðanmálsathugasemd.)
5 Í 86. sálminum notar Davíð orðin „ó Jehóva“ 11 sinnum samkvæmt frummálinu. Bæn Davíðs er svo sannarlega áköf og samband hans við Jehóva innilegt. Síðar þótti skrifurum Gyðinga, einkum Sóferím-skrifurunum, ógeðfellt að ávarpa Guð svo innilega. Þeir ólu á hjátrúarkenndum ótta við að misnota nafnið. Þeir horfðu fram hjá þeirri staðreynd að maðurinn hafði verið skapaður í Guðs mynd og neituðu að eigna Guði eiginleika sem menn hafa einnig. Því settu þeir í 7 af þeim 11 skiptum, þar sem nafn Guðs kemur fyrir í hebreskum texta þessa eina sálms, titilinn Adhonai (Drottinn) í stað nafnsins JHVH (Jehóva). Við getum verið þakklát fyrir að Nýheimsþýðing Heilagrar ritningar, svo og fjölmargar aðrar nákvæmar biblíuþýðingar, skuli hafa sett nafn Guðs aftur á sinn stað í orði Guðs. Þar með er lögð sú áhersla á samband okkar við Jehóva sem vera á.a
6. Á hvaða vegu getum við sýnt að nafn Jehóva er okkur dýrmætt?
6 Bæn Davíðs heldur áfram: „Ver mér náðugur, [ó Jehóva], því þig ákalla ég allan daginn. Gleð þú sál þjóns þíns, því að til þín, [ó Jehóva], hef ég sál mína.“ (Sálmur 86:3, 4) Við veitum athygli að Davíð ákallaði Jehóva „allan daginn.“ Oft bað hann líka næturlangt, svo sem þegar hann var á flótta í eyðimörkinni. (Sálmur 63:7, 8) Eins hafa sumir vottar nú á dögum ákallað Jehóva upphátt þegar þeir hafa staðið frammi fyrir nauðgunartilraun eða annars konar líkamsárás. Stundum hafa góð málalok komið þeim á óvart.b Nafn Jehóva er okkur dýrmætt eins og það var ‚Jesú Kristi, syni Davíðs,‘ þegar hann var á jörðinni. Jesús kenndi lærisveinum sínum að biðja þess að nafn Jehóva mætti helgast og opinberaði þeim hvað nafnið stendur fyrir. — Matteus 1:1; 6:9; Jóhannes 17:6, 25, 26.
7. Hvaða dæmi höfum við um að Jehóva hefji upp sál þjóna sinna og hvernig ættum við að bregðast við því?
7 Davíð hóf sál sína eða sig allan til Jehóva. Hann hvetur okkur til að gera það líka og segir í Sálmi 37:5: „Fel [Jehóva] vegu þína og treyst honum, hann mun vel fyrir sjá.“ Þannig verður bæn okkar til Jehóva um að gleðja sál okkar ekki ósvarað. Margir ráðvandir þjónar Jehóva halda áfram að njóta mikillar gleði í þjónustu hans — þrátt fyrir erfiðleika, ofsóknir og veikindi. Bræður okkar á stríðshrjáðum svæðum í Afríku, svo sem í Angóla, Líberíu, Mósambík og Saír, hafa haldið áfram að láta þjónustu Jehóva ganga fyrir öðru í lífi sínu.c Hann hefur svo sannarlega látið þá gleðjast yfir ríkulegri, andlegri uppskeru. Við verðum að halda út eins og þeir hafa gert. (Rómverjabréfið 5:3-5) Er við höldum út er okkur heitið: „Því að enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu . . . hún mun . . . ekki undan líða.“ (Habakkuk 2:3) Megum við einnig ‚skunda að takmarkinu‘ í fullu trúartrausti á Jehóva.
Gæska Jehóva
8. Hvaða innilegt samband getum við átt við Jehóva og hvernig hefur hann sýnt gæsku sína?
8 Davíð heldur áfram og kemur með tilfinningaþrungið ákall: „Þú, [ó Jehóva], ert góður og fús til að fyrirgefa, gæskuríkur öllum þeim er ákalla þig. Hlýð, [ó Jehóva], á bæn mína og gef gaum grátbeiðni minni. Þegar ég er í nauðum staddur ákalla ég þig, því að þú bænheyrir mig.“ (Sálmur 86:5-7) „Ó Jehóva“ — aftur og aftur hrífumst við af þeim innileik sem þessi orð lýsa. Þetta er innileikur sem sífellt má rækta með bæninni. Davíð bað við annað tækifæri: „Minnst eigi æskusynda minna og afbrota, minnst mín eftir elsku þinni sakir gæsku þinnar, [ó Jehóva].“ (Sálmur 25:7) Jehóva er ímynd gæskunnar — með því að gefa Jesú sem lausnargjald, sýna iðrunarfullum syndurum miskunn og úthella elskuríkri góðvild sinni yfir drottinholla og þakkláta votta sína. — Sálmur 100:3-5; Malakí 3:10.
9. Hvaða loforð ættu iðrunarfullir syndarar að íhuga alvarlega?
9 Ættum við að sýta mistök fortíðarinnar? Ef við látum fætur okkar troða beinar brautir núna hressir það okkur að rifja upp loforð Péturs postula til iðrunarfullra manna um að „endurlífgunartímar“ muni koma frá Jehóva. (Postulasagan 3:20) Höldum nánu sambandi við Jehóva í bæn fyrir milligöngu lausnara okkar, Jesú, sem sagði hlýlega: „Komið til mín, allir þér sem erfiði hafið og þungar byrðar, og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar.“ — Matteus 11:28, 29; Jóhannes 15:16.
10. Hvernig leggja Sálmarnir áherslu á ástúðlega umhyggju Jehóva?
10 Sálmarnir í Biblíunni minnast yfir hundrað sinnum á ‚ástúðlega umhyggju‘ Jehóva sem er sannarlega ríkuleg. Í fyrstu fjórum versum 118. sálmsins eru þjónar Guðs hvattir til að þakka Jehóva og endurtekið er fjórum sinnum: „Því að miskunn [„ástúðleg umhyggja,“ NW] hans varir að eilífu.“ Sálmur 136 leggur áherslu á „miskunn [„ástúðlega umhyggju,“ NW] hans“ 26 sinnum. Megum við, hvenær sem okkur verður á — og eins og Jakobsbréfið 3:2 segir ‚hrösum við allir margvíslega‘ — vera tilbúin að leita fyrirgefningar Jehóva, í fullu trausti til ástúðlegrar umhyggju hans og miskunnar. Ástúðleg umhyggja hans er merki um drottinholla ást hans til okkar. Ef við höldum trúföst áfram að gera vilja Guðs sýnir hann okkur trygga ást sína með því að styrkja okkur til að þola sérhverja prófraun. — 1. Korintubréf 10:13.
11. Hvernig geta öldungarnir hjálpað til við að eyða sektarkennd?
11 Fyrir getur komið að aðrir hneyksli okkur. Tilfinningaleg eða líkamleg misnotkun á barnsaldri hefur skilið eftir sig sektarkennd hjá sumum eða þeim finnst þeir vera einskis virði. Slíkur eintaklingur getur ákallað Jehóva í trausti þess að hann svari. (Sálmur 55:17, 18) Vinsamlegur öldungur getur lagt sig fram um að hjálpa slíkum einstaklingi að viðurkenna þá staðreynd að þetta var ekki honum að kenna. Síðan gæti öldungurinn, með hlýlegum símtölum af og til, hjálpað honum uns hann er loks fær um að ‚bera byrðina.‘ — Galatabréfið 6:2, 5.
12. Hvernig hafa erfiðleikarnir magnast en hvernig getum við tekist farsællega á við þá?
12 Þjónar Jehóva þurfa að takast á við margar fleiri erfiðar aðstæður nú á tímum. Með heimsstyrjöldinni fyrri árið 1914 tóku stórfelldar hörmungar að hrjá jörðina. Eins og Jesús sagði fyrir var það „upphaf fæðingarhríðanna.“ Erfiðleikarnir hafa margfaldast eftir því sem lengra hefur liðið á ‚endalokatíma veraldar.‘ (Matteus 24:3, 8) Hinn ‚naumi tími‘ djöfulsins styttist óðfluga. (Opinberunarbókin 12:12) Eins og „öskrandi ljón“ í leit að fórnarlambi beitir óvinurinn mikli öllum brögðum til að gera okkur viðskila við hjörð Guðs og tortíma okkur. (1. Pétursbréf 5:8) En honum mun ekki takast það því að við setjum traust okkar algerlega á okkar eina Guð, Jehóva, líkt og Davíð gerði.
13. Hvernig geta foreldrar og börn þeirra notfært sér góðvild Jehóva?
13 Vafalaust innprentaði Davíð Salómon syni sínum hve nauðsynlegt það væri fyrir hann að reiða sig á gæsku Jehóva. Þannig gat Salómon sagt sínum eigin syni: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta. Þú skalt ekki þykjast vitur, óttast [Jehóva] og forðast illt.“ (Orðskviðirnir 3:5-7) Nútímaforeldrar ættu líka að kenna börnum sínum að biðja til Jehóva í fullu trúartrausti og að standast árásir harðbrjósta heims — svo sem hópþrýsting í skólanum og freistingar til að drýgja saurlifnað. Með því að lifa í samræmi við sannleikann ásamt börnum þínum dag frá degi getur þú innprentað þeim sannan kærleika til Jehóva og bænartraust til hans. — 5. Mósebók 6:4-9; 11:18-19.
Óviðjafnanleg verk Jehóva
14, 15. Nefndu nokkur af óviðjafnanlegum verkum Jehóva.
14 Með sterkri sannfæringu segir Davíð: „Enginn er sem þú meðal guðanna, [ó Jehóva], og ekkert er sem þín verk.“ (Sálmur 86:8) Verk Jehóva eru meiri, stórkostlegri og stórbrotnari en nokkur maður gæti einu sinni ímyndað sér. Eins og nútímavísindi hafa gefið okkur nasasjón af er hinn skapaði alheimur — stærð hans, samstilling og mikilfengleikur — margfalt stórbrotnari en Davíð gat gert sér í hugarlund. Þó fann hann sig knúinn til að segja: „Himnarnir segja frá Guðs dýrð, og festingin kunngjörir verkin hans handa.“ — Sálmur 19:2.
15 Verk Jehóva birtast líka í því hvernig hann staðsetti jörðina í geimnum og gerði hana svo úr garði að það skiptist á dagur og nótt, árstíðir, sáning og uppskera og hún sæi fyrir fjölmörgu öðru sem ókomið mannkyn gæti notið. Og sjálf erum við stórkostlega úr garði gerð þannig að við getum notið þeirra verka Jehóva sem umkringja okkur. — 1. Mósebók 2:7-9; 8:22; Sálmur 139:14.
16. Hvert er stórkostlegasta merkið um gæsku Jehóva og hvaða önnur, óviðjafnanleg verk fylgja því?
16 Eftir að fyrstu foreldrar okkar óhlýðnuðust Guði og hleyptu af stað þeim hörmungum, sem hrjá jörðina enn þann dag í dag, vann Jehóva undursamlegt verk með því að senda son sinn til jarðar til að boða Guðsríki og deyja sem lausnargjald fyrir mannkynið. Og undur og stórmerki! Jehóva vakti Krist síðan upp frá dauðum til að hann gæti orðið meðkonungur hans. (Matteus 20:28; Postulasagan 2:32, 34) Úr hópi trúfastra manna hefur Guð einnig útvalið ‚nýja sköpun‘ er á að ríkja með Kristi sem góðgerðarsamur ‚nýr himinn‘ yfir ‚nýrri jörð‘ eða mannfélagi þar sem meðal annars verða milljarðar upprisinna manna. (2. Korintubréf 5:17; Opinberunarbókin 21:1, 5-7; 1. Korintubréf 15:22-26) Verk Jehóva munu þannig stefna fram að dýrlegu hámarki. Svo sannarlega getum við lofsungið Guði: „Ó [Jehóva], . . . hversu mikil er gæska þín, er þú hefir geymt þeim er óttast þig.“ — Sálmur 31:18-20.
17. Hvernig er Sálmur 86:9 að rætast núna hvað varðar verk Jehóva?
17 Verk Jehóva nú á tímum fela í sér það sem Davíð lýsir í Sálmi 86:9: „Allar þjóðir, er þú hefir skapað, munu koma og falla fram fyrir þér, [ó Jehóva], og tigna nafn þitt.“ Eftir að hafa kallað út úr hópi mannanna þá sem eftir eru af nýrri sköpun hans, hina ‚litlu hjörð‘ erfingja Guðsríkis, hefur Jehóva tekið að safna saman úr ‚öllum þjóðum‘ ‚miklum múgi‘ ‚annarra sauða,‘ milljónum manna sem einnig iðka trú á úthellt blóð Jesú. Hann hefur myndað úr þeim kraftmikil samtök, einu heimssamtök friðelskandi manna á jörðinni nú á tímum. Hinar himnesku hersveitir sjá það, falla fram fyrir Jehóva og segja: „Lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði vorum um aldir alda.“ Múgurinn mikli lofar einnig nafn Jehóva og þjónar honum „dag og nótt“ og ber þá von í brjósti að lifa af endalok þess heims og hljóta eilíft líf á jörð sem verður paradís. — Lúkas 12:32; Opinberunarbókin 7:9-17; Jóhannes 10:16.
Mikilleikur Jehóva
18. Hvernig hefur Jehóva sýnt fram á að hann einn er Guð?
18 Davíð vekur nú athygli á guðdómi Jehóva og segir: „Því að þú ert mikill og gjörir furðuverk, þú einn, ó Guð [„þú ert Guð, þú einn,“ NW]!“ (Sálmur 86:10) Jehóva hefur frá alda öðli verið að sýna fram á að hann einn sé Guð. Það var harðstjórinn Faraó í Egyptalandi sem ögraði Móse: „Hver er [Jehóva], að ég skuli hlýða honum til þess að leyfa Ísrael að fara? Ég þekki ekki [Jehóva].“ En hann fékk fljótlega að kynnast því hve mikill Jehóva er! Alvaldur Guð auðmýkti guði Egyptalands og galdraprestana með því að senda stórskaðlegar plágur, deyða frumgetna syni Egypta og tortíma Faraó og úrvalsher hans í Rauðahafinu. Svo sannarlega er enginn Jehóva líkur meðal guðanna! — 2. Mósebók 5:2; 15:11, 12.
19, 20. (a) Hvenær mun söngurinn í Opinberunarbókinni 15:3, 4 hljóta sína stórkostlegustu uppfyllingu? (b) Hvernig getum við nú þegar átt hlutdeild í verkum Jehóva?
19 Sem hinn eini Guð hefur Jehóva unnið furðuverk til þess að undirbúa frelsun hlýðinna dýrkenda sinna úr Egyptalandi nútímans — heimi Satans. Í umfangsmestu prédikunarherferð mannkynssögunnar hefur hann látið boða dóma sína um alla jörðina til vitnisburðar og uppfyllt þannig spádóm Jesú í Matteusi 24:14. Innan skamms hlýtur „endirinn“ að koma er Jehóva sýnir mikilleika sinn eins og hann hefur aldrei áður gert, með því að afmá alla illsku af jörðinni. (Sálmur 145:20) Þá mun söngur Móse og söngur lambsins ná fullum styrk: „Mikil og dásamleg eru verkin þín, [Jehóva] Guð, þú alvaldi, réttlátir og sannir eru vegir þínir, þú konungur aldanna. Hver skyldi ekki óttast, [Jehóva], og vegsama nafn þitt? Því að þú einn ert heilagur.“ — Opinberunarbókin 15:3, 4.
20 Megum við fyrir okkar leyti vera kostgæf í því að tala við aðra um þennan stórkostlega tilgang Guðs. (Samanber Postulasöguna 2:11.) Jehóva mun halda áfram að vinna mikil og stórkostleg máttarverk á okkar dögum og í framtíðinni eins og lýst er í greininni sem fylgir.
[Neðanmáls]
a Biblíuskýringarit frá 1874 hefur eftir Andrew A. Bonar: „Það var margt, mjög margt í hinu sérstæða eðli Guðs opinberað í lok síðasta [85.] sálmsins. Það kann að skýra hvers vegna annar fylgir, ‚Davíðs-bæn,‘ sem er næstum jafnfullur af eðli Jehóva. Grunntónn þessa [86.] sálms er nafn Jehóva.“
b Sjá Vaknið! (enska útgáfu) þann 22. júní 1984, bls. 28, útgefið af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
c Ítarlegri upplýsingar er að finna í þjónustuskýrslu votta Jehóva um árið 1992 sem birtist í erlendum útgáfum Varðturnsins þann 1. janúar 1993.
Manst þú
◻ Hvers vegna ættum við að gera bænina í Sálmi 86 að okkar bæn?
◻ Hvernig getum við eignast innilegt samband við Jehóva?
◻ Hvernig tjáir Jehóva okkur gæsku sína?
◻ Nefndu nokkur af óviðjafnanlegum verkum Jehóva.
◻ Hvernig er Jehóva ‚Guð einn‘ í mikilleik?
[Mynd á blaðsíðu 22]
Á hinni komandi ‚nýju jörð‘ munu dásemdarverk Jehóva vitna um dýrð hans og gæsku.