Varðveittu hjartað og vertu hreinlífur
„Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins.“ — ORÐSKVIÐIRNIR 4:23.
1-3. (a) Hvernig sýna margir að þeim finnst lítils virði að vera hreinlífir? Lýstu með dæmi. (b) Hvers vegna er mikilvægt að ígrunda hvers virði það er að vera hreinlífur?
KANNSKI þótti málverkið gamaldags. Ef til vill fór það ekki vel við húsbúnaðinn. Að minnsta kosti er ljóst að eigandinn taldi sig hafa lítið við það að gera. Málverkið var því boðið til sölu á flóamarkaði fyrir 2200 krónur. En fáeinum árum síðar kom í ljós að málverkið var metið á rúmlega 70 milljónir króna! Þarna var um að ræða fágætt meistaraverk. Við getum rétt ímyndað okkur hvernig fyrri eiganda hefur verið innanbrjósts en hann hafði vanmetið þennan dýrgrip stórlega.
2 Þannig fer stundum fyrir siðferðilegum hreinleika fólks. Allt of margir meta það ósköp lítils að vera hreinlífir. Sumir virðast álíta það gamaldags og ekki í takt við tímann, svo að þeir láta hreinleika sinn af hendi við vægu verði. Sumir láta hann í skiptum fyrir nokkurra mínútna kynferðisnautn. Aðrir fórna honum í von um að vaxa í áliti meðal kunningjanna eða hjá einhverjum af hinu kyninu. — Orðskviðirnir 13:20.
3 Margir átta sig ekki á því fyrr en um seinan hve verðmætur hreinleikinn er. Og missirinn er oft sár. Eins og Biblían orðar það geta eftirköst siðleysis verið eins og eitur og „beiskari en malurt“. (Orðskviðirnir 5:3, 4) Þegar á það er litið hve útbreidd siðspillingin er orðin er eðlilegt að spyrja hvernig hægt sé að varðveita hreinleika sinn. Við beinum athygli okkar að þrennu sem við getum gert og það tengist innbyrðis.
Varðveittu hjartað
4. Hvað er hið táknræna hjarta mannsins og hvers vegna ættum við að varðveita það?
4 Til að geta varðveitt hreinleika sinn er nauðsynlegt að varðveita hjartað. „Varðveit hjarta þitt framar öllu öðru, því að þar eru uppsprettur lífsins,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 4:23) „Hjartað“, sem hér er nefnt, er ekki bókstaflegt heldur táknrænt. Það merkir hinn innri mann, þar á meðal hugsanir okkar, tilfinningar og áhugahvatir. Biblían segir: „Þú skalt elska Drottin Guð þinn af öllu hjarta þínu og af allri sálu þinni og af öllum mætti þínum.“ (5. Mósebók 6:5) Jesús sagði þetta vera mest allra boðorða. (Markús 12:29, 30) Ljóst er að hjartað er ákaflega þýðingarmikið og er þess virði að varðveita.
5. Hvernig getur hjartað verið bæði verðmætt og hættulegt í senn?
5 Biblían segir hins vegar að hjartað sé svikult fremur öllu öðru og spillt. (Jeremía 17:9) Hvernig getur hjartað verið svikult og hættulegt? Tökum dæmi. Bíll getur verið hið gagnlegasta tæki og jafnvel lífgjafi í neyðartilfelli. En ef ökumaðurinn gætir þess ekki að halda um stýrið og stjórna bílnum vel getur bíllinn breyst í banvænt vopn. Eins er það með hjartað. Ef þú varðveitir það ekki ertu viljalaust verkfæri allra langana og skyndihvata og stefnir lífi þínu í bráðan voða. Orð Guðs segir: „Sá sem treystir eigin hyggjuviti, er heimskingi, en sá sem breytir viturlega, mun undan komast.“ (Orðskviðirnir 28:26) Já, við getum breytt viturlega og forðast ógæfu ef við notum orð Guðs til leiðsagnar, rétt eins og við skoðum vegakort áður en við leggjum upp í ferðalag. — Sálmur 119:105.
6, 7. (a) Hvað er heilagleiki og hvers vegna er hann mikilvægur fyrir þjóna Jehóva? (b) Hvernig vitum við að ófullkomnir menn geta endurspeglað heilagleika Jehóva?
6 Hjartað hneigist ekki sjálfkrafa til hreinlífis heldur verðum við að beina því inn á þá braut. Við gerum það meðal annars með því að íhuga gildi þess að vera hreinlíf. Hreinlífi er náskylt heilagleika sem merkir að vera hrein og flekklaus og halda sig frá öllu sem er syndsamlegt. Heilagleiki er mjög verðmætur og er einn grundvallareiginleiki Jehóva Guðs. Hundruð versa í Biblíunni tala um að Jehóva sé heilagur. Hún segir jafnvel: „Heilagleiki tilheyrir Jehóva.“ (2. Mósebók 28:36, NW ) En hvernig snertir þessi háleiti eiginleiki okkur ófullkomna menn?
7 Jehóva segir okkur í orði sínu: „Verið heilagir, því ég er heilagur.“ (1. Pétursbréf 1:16) Já, við getum líkt eftir heilagleika Jehóva. Við getum staðið hrein frammi fyrir honum og varðveitt hreinleika okkar. Þegar við höldum okkur frá óhreinum og saurgandi verkum erum við að seilast eftir háleitu og stórkostlegu tækifæri — því að endurspegla fagran eiginleika hins hæsta Guðs. (Efesusbréfið 5:1) Við skulum ekki ímynda okkur að þetta sé utan seilingar fyrir okkur því að Jehóva er vitur og sanngjarn og krefst aldrei meira af okkur en við getum gert. (Sálmur 103:13, 14; Jakobsbréfið 3:17) Það kostar vissulega áreynslu að halda sér siðferðilega og andlega hreinum en Páll postuli bendir á að okkur beri að sýna Kristi einlæga og hreina tryggð. (2. Korintubréf 11:3) Eiga ekki Kristur og faðir hans það inni hjá okkur að við gerum okkar ýtrasta til að halda okkur siðferðilega hreinum? Þegar allt kemur til alls hafa þeir sýnt okkur meiri kærleika en við getum nokkurn tíma endurgoldið. (Jóhannes 3:16; 15:13) Það er mjög svo viðeigandi að við sýnum þakklæti okkar með því að lifa hreinu og siðsömu lífi. Ef við sjáum hreinleika okkar í þessu ljósi metum við hann mikils og varðveitum hjartað.
8. (a) Hvernig getum við nært hið táknræna hjarta? (b) Hvað getur umræðuefni okkar afhjúpað?
8 Við varðveitum hjartað einnig með því að næra okkur rétt. Við þurfum að næra hugann og hjartað reglulega á góðri andlegri fæðu og einbeita okkur að fagnaðarerindinu um ríki Guðs. (Kólossubréfið 3:2) Þetta ætti jafnvel að endurspeglast í umræðuefni okkar. Ef við erum þekkt fyrir að ræða um holdleg og siðlaus mál afhjúpum við að vissar hvatir búi í hjarta okkar. (Lúkas 6:45) Við skulum heldur vera þekkt fyrir að tala um það sem er andlegt og uppbyggjandi. (Efesusbréfið 5:3) Til að varðveita hjartað þurfum við að vara okkur á ýmsum alvarlegum hættum. Við skulum ræða um tvær þeirra.
Flýið saurlifnaðinn
9-11. (a) Hvers vegna er veruleg hætta á að þeir sem hunsa 1. Korintubréf 6:18 geri sig seka um alvarlegt siðleysi? Lýstu með dæmi. (b) Hvað forðumst við ef við ætlum að flýja saurlifnaðinn? (c) Hvernig er hinn trúfasti Job góð fyrirmynd fyrir okkur?
9 Jehóva innblés Páli postula að skrifa ákveðnar leiðbeiningar sem hafa hjálpað mörgum að varðveita hjarta sitt og hreinleika. „Flýið saurlifnaðinn!“ sagði Páll. (1. Korintubréf 6:18) Við tökum eftir að hann hvatti okkur ekki aðeins til að forðast saurlifnað. Kristnir menn eiga að ganga lengra. Þeir eiga að taka til fótanna og flýja siðlausar athafnir, rétt eins og þeir myndu hlaupa sem fætur toga til að forða sér úr lífshættu. Ef við hunsum þetta ráð er meiri hætta á því að við gerumst sek um alvarlegt siðleysi og glötum velþóknun Guðs.
10 Lýsum þessu með dæmi: Fjölskylda er að fara í veislu og móðirin er búin að þvo drengnum sínum og klæða hann í sparifötin. Hann spyr hvort hann megi fara út að leika sér þangað til fjölskyldan leggur af stað. Mamma hans leyfir honum það með einu skilyrði: „Komdu ekki nálægt drullupollinum. Ég verð reið ef þú óhreinkar þig!“ En það líða ekki nema fáeinar mínútur þangað til hún sér drenginn tiplandi á tánum rétt við drullupollinn. Hann er ekki búinn að óhreinka sig — ekki enn þá. En hann óhlýðnast mömmu sinni greinilega því að hún sagði honum að koma ekki nálægt pollinum. Það er nánast óhjákvæmilegt að drengurinn komi sér í klandur. (Orðskviðirnir 22:15) Margir unglingar og fullorðnir, sem ættu að vita betur, gera sömu skyssuna. Hvernig þá?
11 Allt of margir hafa ofurselt sig „svívirðilegum girndum“ með þeim afleiðingum að til er orðin blómleg atvinnugrein sem snýst um það að auglýsa óleyfilegt kynlíf og hvetja til þess. (Rómverjabréfið 1:26, 27) Klámplágan hefur breiðst út í tímaritum og bókum, á myndböndum og á Netinu. Sá sem kýs að hleypa slíkum myndum inn í hugann er tæpast að flýja saurlifnaðinn. Hann er öllu heldur að gæla við hann, hann hunsar viðvaranir Biblíunnar og er kominn út á ystu nöf. Hann varðveitir ekki hjartað heldur eitrar það með myndum sem geta verið mörg ár að hverfa úr huganum. (Orðskviðirnir 6:27) Drögum lærdóm af hinum trúfasta Job sem gerði sáttmála — formlegan samning — við augu sín um að horfa ekki á neitt sem myndi einungis freista hans til að gera rangt. (Jobsbók 31:1) Þetta er sannarlega gott fordæmi.
12. Hvernig geta kristin hjónaleysi flúið saurlifnaðinn meðan tilhugalífið stendur yfir?
12 Það er sérstaklega mikilvægt að flýja saurlifnað í tilhugalífinu. Tilhugalífið á að vera ánægjulegt. Það á að vera tími vonar og eftirvæntingar, en sum ung, tilvonandi hjón spilla því með því að fikta við siðleysi. Og í leiðinni ræna þau hvort annað bestu undirstöðu góðs hjónabands, sem er samband byggt á óeigingjarnri ást, sjálfstjórn og hlýðni við Jehóva Guð. Tilvonandi hjón gerðu sig sek um siðlausa hegðun í tilhugalífinu. Eftir að þau voru gift viðurkenndi konan að samviskan þjakaði hana og hefði meira að segja spillt brúðkaupsdeginum. „Ég hef margbeðið Jehóva að fyrirgefa mér,“ segir hún, „en þó að það séu liðin sjö ár síðan þetta gerðist heldur samviskan áfram að kvelja mig.“ Það er mikilvægt að þeir sem fremja slíkar syndir leiti hjálpar safnaðaröldunganna. (Jakobsbréfið 5:14, 15) En mörg kristin hjónaleysi sýna þá visku að gera ráðstafanir til að forðast slíkar hættur í tilhugalífinu. (Orðskviðirnir 22:3) Þau gæta þess að sýna ekki ástúð sína úr hófi fram. Oft hafa þau siðgæðisvörð með í för og þau gæta þess vandlega að vera hvergi alein saman á afviknum stöðum.
13. Af hverju ætti kristið fólk ekki að draga sig eftir þeim sem elska ekki Jehóva?
13 Kristið fólk, sem leitar sér maka utan safnaðarins, hættir á að kalla yfir sig stórkostleg vandamál. Hvernig getur það bundist manneskju sem elskar ekki Jehóva Guð? Það er ákaflega mikilvægt að kristinn maður bindist aðeins einstaklingi sem elskar Jehóva og virðir hreinleikakröfur hans. Orð Guðs segir: „Gangið ekki undir ósamkynja ok með vantrúuðum. Hvað er sameiginlegt með réttlæti og ranglæti? Hvaða samfélag hefur ljós við myrkur?“ — 2. Korintubréf 6:14.
14, 15. (a) Hvernig misskilja sumir orðið ‚saurlifnaður‘? (b) Hvers konar athafnir eru saurlifnaður og hvernig geta kristnir menn flúið saurlifnaðinn?
14 Góð þekking skiptir einnig máli. Við getum tæpast flúið saurlifnaðinn ef við vitum ekki alveg hvað telst saurlifnaður. Sumir í heiminum gera sér alranga hugmynd um merkingu hugtaksins. Þeir ímynda sér að þeir geti fullnægt kynhvötinni án þess að vera giftir, svo framarlega sem þeir hafa ekki raunveruleg kynmök. Virtar heilbrigðisstofnanir hafa jafnvel hvatt unglinga til afbrigðilegrar kynhegðunar í því skyni að fækka þungunum meðal táninga. En slík ráð eru byggð á alvarlegum misskilningi. „Saurlifaður“ er víðara hugtak en þetta, og það eitt að forðast þungun utan hjónabands er ekki það sama og að lifa hreinu lífi.
15 Gríska orðið porneiʹa, sem þýtt er ‚saurlifnaður‘, hefur býsna breiða merkingu. Það er notað um kynmök fólks sem er ekki gift hvort öðru og lýsir misnotkun getnaðarfæranna. Porneiʹa felur í sér munnmök, endaþarmsmök og það að fróa annarri manneskju — athafnir sem eru almennt settar í samband við vændishús. Þeir sem halda að þetta sé ekki „saurlifnaður“ eru að blekkja sjálfa sig og hafa gengið í eina af snörum Satans. (2. Tímóteusarbréf 2:26) Og að varðveita hreinleika sinn er meira en að forðast einfaldlega hverja þá athöfn sem kallast saurlifnaður. Til að flýja saurlifnaðinn verðum við að forðast kynferðislegan óhreinleika og lausung í öllum myndum, hvaðeina sem gæti leitt til þeirrar grófu syndar sem kallast porneiʹa. (Efesusbréfið 4:19) Þannig varðveitum við hreinleika okkar.
Daður er varhugarvert
16. Við hvaða aðstæður er eðlilegt að vera ástleitinn og hvernig vitnar Biblían um það?
16 Daður er önnur hætta sem við þurfum að varast ef við viljum varðveita hreinleika okkar. Sumir halda því fram að það sé skaðlaus skemmtun að daðra við einhvern af hinu kyninu. Óneitanlega getur verið staður og stund fyrir vissa ástleitni. Sagt er frá því að Ísak hafi látið vel að Rebekku, og þeim sem sáu til þeirra var ljóst að þau voru ekki bara systkini. (1. Mósebók 26:7-9) En þau voru hjón svo að það var fyllilega við hæfi að þau létu vel hvort að öðru. Daður er allt annar hlutur.
17. Hvað er daður og hvernig er hægt að forðast það?
17 Það er daður að gefa öðrum undir fótinn án þess að vera í giftingarhugleiðingum. Mannveran er margbrotin þannig að það er eflaust hægt að daðra á ótal vegu, stundum á mjög óljósan hátt. (Orðskviðirnir 30:18, 19) Það er því ekki hægt að setja neinar stífar reglur um þetta mál heldur þarf annað og betra að koma til — að rannsaka sjálfan sig heiðarlega og fara samviskusamlega eftir meginreglum Biblíunnar.
18. Hvers vegna daðra sumir og af hverju er daður skaðlegt?
18 Ef við erum heiðarleg við sjálf okkur verðum við sennilega flest að viðurkenna að við erum svolítið upp með okkur þegar við skynjum að einhver af hinu kyninu hefur áhuga á okkur. Það eðlilegt. En döðrum við til að laða fram slíkan áhuga — svona rétt til að hressa upp á sjálfsálitið hjá sjálfum okkur eða öðrum? Höfum við þá hugleitt hvaða sársauka við getum valdið? Orðskviðirnir 13:12 segja til dæmis: „Langdregin eftirvænting gjörir hjartað sjúkt.“ Ef við döðrum af ásettu ráði við aðra manneskju vitum við líklega minnst um þau áhrif sem það hefur á hana. Hún gæti byggt upp væntingar um tilhugalíf og jafnvel hjónaband. Vonbrigðin, sem fylgja í kjölfarið, geta verið reiðarslag. (Orðskviðirnir 18:14) Það er grimmilegt að leika sér að tilfinningum annarra.
19. Hvernig getur daður stofnað kristnu hjónabandi í voða?
19 Það er sérstaklega mikilvægt að forðast daður þegar gift fólk á í hlut. Það er rangt að sýna giftri manneskju rómantískan áhuga, og það er líka rangt af giftri manneskju að sýna öðrum en maka sínum slíkan áhuga. Því miður hefur einstaka kristinn maður talið sér trú um að það sé í lagi að vera svolítið hrifinn af einhverjum öðrum en maka sínum. Sumir trúa slíkum „vini“ eða „vinkonu“ fyrir innstu hugðarefnum sínum, jafnvel leyndustu hugsunum sem þeir segja ekki einu sinni maka sínum frá. Slík hrifning getur þróast þannig að fólk verði tilfinningalega háð öðrum, og það getur síðan grafið undan hjónabandi eða eyðilagt það. Kristnir menn, sem eru giftir, ættu að muna eftir viðvörun Jesú gegn hórdómi — að hann á upptök sín í hjartanu. (Matteus 5:28) Við skulum því varðveita hjartað og forðast aðstæður sem gætu valdið slíkum skaða.
20. Hvernig er mikilvægt að líta á hreinleika sinn?
20 Það er engan veginn auðvelt að halda sér hreinum í siðlausum heimi samtímans. Höfum samt hugfast að það er margfalt auðveldara að varðveita hreinleika sinn en endurheimta hann ef hann glatast. Jehóva getur auðvitað ‚fyrirgefið ríkulega‘ og hann getur hreinsað þá sem iðrast synda sinna í einlægni. (Jesaja 55:7) Hins vegar hlífir hann ekki þeim sem fremja siðleysi við afleiðingum verka sinna. Eftirköstin geta varað árum saman eða jafnvel ævilangt. (2. Samúelsbók 12:9-12) Varðveittu hreinleika þinn fyrir alla muni með því að varðveita hjartað. Líttu á hreina stöðu þína frammi fyrir Jehóva sem dýrmætan fjársjóð — og slepptu honum aldrei!
Hvert er svarið?
• Hvað er hreinlífi og hvers vegna er það mikilvægt?
• Hvernig getum við varðveitt hjartað?
• Hvað felst í því að flýja saurlifnaðinn?
• Hvers vegna ættum við að forðast daður?
[Mynd á blaðsíðu 25]
Bíll er hættulegur ef honum er ekki rétt stýrt.
[Myndir á blaðsíðu 26]
Hvað getur gerst ef við hunsum viðvaranir?
[Mynd á blaðsíðu 27]
Hreint tilhugalíf er ánægjulegt og Guði til heiðurs.