Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Orðskviðanna
SALÓMON Ísraelskonungur „mælti þrjú þúsund orðskviðu“. (1. Konungabók 4:32) Höfum við aðgang að spakmælum hans? Já, mörg þeirra eru varðveitt í Orðskviðum Biblíunnar sem voru teknir saman í endanlegri mynd árið 717 f.Kr. Orðskviðirnir eru allir eignaðir Salómon nema tveir síðustu kaflarnir en þeir eru eignaðir Agúr Jakesyni og Lemúel konungi. Sumir telja reyndar að Lemúel sé annað nafn Salómons.
Hin innblásna speki, sem er safnað saman í Orðskviðunum, þjónar tvennum tilgangi. Hún er ætluð til þess að „menn kynnist visku“ og sömuleiðis „aga“. (Orðskviðirnir 1:2) Orðskviðirnir hjálpa okkur að öðlast visku en hún er fólgin í því að geta séð hlutina í skýru ljósi og geta beitt þekkingu sinni til að ráða fram úr vandamálum. Og siðferðileg leiðsögn Orðskviðanna agar okkur. Ef við gefum gaum að þessum spakmælum og tökum til okkar ráðleggingar þeirra geta þau haft áhrif á hjarta okkar, stuðlað að hamingju og orðið til gæfu. — Hebreabréfið 4:12.
‚AFLAÐU ÞÉR VISKU OG HALTU FAST Í AGANN‘
„Spekin kallar hátt á strætunum,“ segir Salómon. (Orðskviðirnir 1:20) Af hverju ættum við að hlusta á háa og skýra rödd hennar? Í 2. kafla eru nefndir nokkrir kostir þess að afla sér visku. Þriðji kaflinn ræðir um það hvernig hægt sé að eignast náið samband við Jehóva. Síðan segir Salómon: „Upphaf viskunnar er: afla þér visku, afla þér hygginda fyrir allar eigur þínar! Haltu fast í agann, slepptu honum ekki.“ — Orðskviðirnir 4:7, 13.
Hvað getur hjálpað okkur að forðast siðlaust hátterni heimsins? Því er svarað í 5. kafla Orðskviðanna: Vertu hygginn og varaðu þig á tælandi áhrifum heimsins. Hugsaðu einnig til þess hve siðleysi er dýrkeypt. Í kaflanum á eftir er varað við hátterni og hugarfari sem geta stofnað sambandi okkar við Jehóva í hættu. Sjöundi kaflinn veitir ómetanlega innsýn í hugarheim siðlausrar manneskju. Í 8. kaflanum er lýst með hrífandi hætti hve verðmæt og eftirsóknarverð viskan er. Níundi kaflinn dregur saman niðurstöðu þeirra spakmæla sem rædd hafa verið í köflunum á undan og bregður upp líkingu sem brýnir lesendur til að sækjast eftir visku.
Biblíuspurningar og svör:
1:7; 9:10 — Af hverju er ótti Jehóva „upphaf þekkingar“ og „upphaf viskunnar“? Ef við óttumst ekki Jehóva er enga þekkingu að hafa því að Jehóva er skapari alls og höfundur Biblíunnar. (Rómverjabréfið 1:20; 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17) Hann er uppspretta allrar sannrar þekkingar. Lotningarfullur ótti við Jehóva er því upphaf þekkingar. Guðsótti er einnig upphaf viskunnar af þeirri ástæðu að viska er óhugsandi án þekkingar. Sá sem óttast ekki Jehóva notar ekki heldur þá þekkingu, sem hann kann að hafa, til að heiðra skaparann.
5:3 — Hvers vegna er vændiskona kölluð ‚framandi kona‘? (Biblíurit, ný þýðing 1998) Í Orðskviðunum 2:16, 17 (Biblíurit) er einnig talað um „framandi konu“ og sagt að hún hafi „gleymt sáttmála Guðs síns“. Hver sem tilbað falska guði eða hirti ekki um Móselögin (þar með talin vændiskonan) var kallaður framandi eða útlendur. — Jeremía 2:25; 3:13.
7:1, 2 — Hvað er innifalið í ‚orðunum‘ og ‚boðorðunum‘? Hér er ekki aðeins um að ræða kenningar Biblíunnar heldur einnig húsreglur sem foreldrar setja til góðs fyrir fjölskylduna. Börnin þurfa að fylgja þeim, rétt eins og ákvæðum Biblíunnar sem þau fá frá foreldrum sínum.
8:30 — Hver er ‚verkstýran‘? Spekin er persónugerð og kallar sig verkstýru. Hér er ekki aðeins um að ræða bókmenntalegt stílbragð til að skýra einkenni spekinnar heldur er persónugervingin notuð til að lýsa frumgetnum syni Guðs, Jesú Kristi, áður en hann varð maður. Hann var ‚skapaður í upphafi vega Guðs‘, löngu áður en hann fæddist sem mannsbarn á jörðinni. (Orðskviðirnir 8:22) Hann vann sem „verkstýra“ með föður sínum að sköpun allra hluta. — Kólossubréfið 1:15-17.
9:17 — Hvað er átt við þegar talað er um „stolið vatn“ og af hverju er það „sætt“? Biblían líkir kynlífi hjóna við ferskt vatn úr brunni. Stolið vatn táknar því siðlaust kynferðissamband sem á sér stað í leynum. (Orðskviðirnir 5:15-17) Sætleikinn, sem fólki finnst það njóta, er fólginn í leyndinni sem það telur sig komast upp með.
Lærdómur:
1:10-14. Látum ekki loforð syndugra manna um fé og ríkidæmi tæla okkur til afbrota.
3:3. Við ættum að meta kærleika og trúfesti afar mikils og sýna hvort tveggja opinskátt rétt eins og dýrmætt hálsmen. Við þurfum sömuleiðis að rita þessa eiginleika á hjarta okkar svo að þeir séu óaðskiljanlegur hluti af okkur.
4:18. Trúarleg þekking stendur ekki í stað. Til að halda okkur í ljósinu þurfum við að halda áfram að vera hógvær og lítillát.
5:8. Við ættum að halda okkur fjarri öllum siðlausum áhrifum, hvort sem þau berast með tónlist, skemmtiefni, Netinu, bókum eða tímaritum.
5:21. Er maður, sem elskar Jehóva, tilbúinn til að fórna góðu sambandi sínu við hann fyrir fáeinar unaðsstundir? Auðvitað ekki. Sterkasta hvatningin til að vera siðferðilega hreinn er vitundin um að Jehóva sér hvernig við hegðum okkur og gerir okkur ábyrg fyrir því.
6:1-5. Hér fáum við viturlega ábendingu um að sýna skynsemi ef við göngum í ábyrgð fyrir annan mann. Ef í ljós kemur við nánari athugun að það hafi ekki verið skynsamlegt að gangast í ábyrgð ættum við tafarlaust að ‚leggja að náunga okkar‘ og sækja það fast að koma málum okkar í lag.
6:16-19. Hér eru nefndir sjö algengustu þættir rangrar breytni. Við ættum að hafa andstyggð á þeim.
6:20-24. Biblíulegt uppeldi getur veitt okkur vörn gegn kynferðislegu siðleysi. Foreldrar ættu ekki að vanrækja slíkt uppeldi.
7:4. Við ættum að láta okkur þykja vænt um visku og skynsemi.
STAKIR ORÐSKVIÐIR TIL LEIÐSAGNAR FYRIR OKKUR
Það sem eftir er af orðskviðum Salómons eru stök en hnitmiðuð spakmæli. Með því að bregða upp andstæðum, hliðstæðum eða samanburði er miðlað mikilvægum sannindum sem varða viðhorf, hegðun eða notkun tungunnar.
Í 10. til 24. kafla er lögð áhersla á gildi þess að bera lotningu fyrir Jehóva og óttast hann. „Menn Hiskía Júdakonungs“ tóku saman efnið sem er að finna í 25. til 29. kafla. (Orðskviðirnir 25:1) Þar eru lesendur hvattir til þess að reiða sig á Jehóva og þeim kenndir fleiri lærdómar.
Biblíuspurningar og svör:
10:6 — Hvernig ‚hylmir munnur óguðlegra yfir ofbeldi‘? Það getur verið í þeim skilningi að óguðlegir menn feli ill áform sín að baki fallegum orðum. Í biblíunni frá 1859 er versið þýtt: „Ofbeldi aptur byrgir munn hinna óguðlegu.“ Illir menn mæta yfirleitt óvild þannig að fjandskapur annarra getur þaggað niður í þeim.
10:10 — Hvernig getur „sá sem deplar með auganu“ valdið skapraun? „Varmenni“ á það bæði til að ganga um „með fláttskap í munni“ og reyna að dylja raunverulegt tilefni sitt með líkamstjáningu, til dæmis með því að ‚depla með auganu‘. (Orðskviðirnir 6:12, 13) Þessi blekking getur valdið fórnarlambi hans miklu hugarangri.
10:29 — Hvað er „vegur Drottins“? Hér er ekki átt við þá lífsstefnu sem við eigum að fylgja heldur starfshætti Jehóva gagnvart mannkyni. Guð starfar með þeim hætti að saklausir menn geta verið öruggir en illir menn fyrirfarast.
11:31 — Af hverju hljóta óguðlegir endurgjald umfram réttláta? Endurgjaldið er í þessu tilviki fólgið í þeirri hirtingu sem hver og einn hlýtur. Þegar réttlátum manni verður eitthvað á fær hann það endurgjald að hljóta ögun fyrir brot sitt. Hinn óguðlegi syndgar af ásettu ráði og vill ekki snúa sér til betri vegar. Hann verðskuldar því harðari refsingu og hlýtur hana.
12:23 — Hvernig á maður að fara „dult með þekking sína“? Hér er ekki átt við það að fela þekkingu sína með öllu heldur að sýna hana með varfærni þannig að maður sé ekki að flagga henni eða stæra sig af henni.
14:17 — Hvers vegna er ‚hrekkvís maður hataður‘? Hebreska orðið, sem er þýtt „hrekkvís“, getur merkt annaðhvort skarpskyggn eða illgjarn. Illgjarn maður er auðvitað hataður en hið sama er að segja um skarpskyggnan mann sem beitir skynseminni og ákveður að tilheyra ekki heiminum. — Jóhannes 15:19.
18:19 — Af hverju er ‚erfiðara að ávinna svikinn bróður en að vinna rammbyggða borg‘? Sá sem hefur verið svikinn getur verið þver og ófáanlegur til að gefa eftir á nokkurn hátt, rétt eins og rammbyggð borg í umsátri. Deilur hans við hinn brotlega geta hæglega endað með stífni, líkt og séu „slagbrandar fyrir hallardyrum“.
Lærdómur:
10:11-14. Til að orð okkar séu uppbyggileg þurfum við að búa yfir nákvæmri þekkingu í huganum og kærleika í hjartanu og vera með viturleg orð á vörunum.
10:19; 12:18; 13:3; 15:28; 17:28. Það er gott að vera ekki of málgefinn og hugsa áður en maður talar.
11:1; 16:11; 20:10, 23. Jehóva vill að við séum heiðarleg í viðskiptum.
11:4. Það er heimskulegt að fórna samkomum, bæn, boðunarstarfi og sjálfsnámi í Biblíunni til að sækjast eftir peningum.
13:4. Það er ekki nóg að ‚girnast‘ ábyrgðarstöðu í söfnuðinum eða eilíft líf í nýja heiminum. Við þurfum líka að vera dugleg og leggja okkur fram við að uppfylla hæfniskröfurnar.
13:24; 29:15, 21. Ástríkir foreldrar spilla ekki börnum sínum með dekri og eftirlæti eða með því að horfa í hina áttina þegar þau gera eitthvað af sér. Foreldrar leiðrétta börnin svo að óhlýðnin festi ekki rætur í fari þeirra.
14:10. Við getum ekki alltaf tjáð innstu tilfinningar okkar nákvæmlega eða ætlast til þess að aðrir skilji okkur öllum stundum. Þeir geta því ekki alltaf hughreyst okkur sem skyldi. Stundum verðum við að bera einhverja erfiðleika og reiða okkur eingöngu á Jehóva.
15:7. Við ættum ekki að gusa öllu sem við vitum í einu lagi yfir aðra manneskju, ekki frekar en bóndinn sáir öllum fræjunum í sama blettinn. Vitur maður dreifir út þekkingu sinni í hæfilegum skömmtum, eftir því sem við á hverju sinni.
15:15; 18:14. Jákvætt hugarfar hjálpar okkur að vera glöð, jafnvel þó að aðstæður séu okkur erfiðar.
17:24. Við ættum að sækjast eftir visku svo að við getum breytt skynsamlega en ekki vera eins og ‚heimskinginn‘ sem einbeitir ekki augunum eða huganum að neinu sem máli skiptir.
23:6-8. Við ættum ekki að sýna af okkur uppgerðargestrisni.
27:21. Hrós getur dregið fram í dagsljósið hvaða mann við höfum að geyma. Ef hrósið verður til þess að við viðurkennum skuld okkar við Jehóva og ef það hvetur okkur til að halda áfram að þjóna honum, þá sýnir það sig að við erum auðmjúk. Ef hrósið verður hins vegar til þess að okkur finnst við vera betri en aðrir er ljóst að við erum ekki auðmjúk.
27:23-27. Í þessum orðskviðum er tekin líking af hjarðgæslu og sveitalífi til að leggja áherslu á gildi þess að vera dugleg og njóta þess að lifa einföldu lífi. Þeir ættu að minna okkur á hve mikilvægt það er að reiða sig á Guð.a
28:5. Ef við ‚leitum‘ Jehóva með því að lesa orð hans og biðja, getum við ‚skilið allt‘ sem þarf til að þjóna honum á þóknanlegan hátt.
‚SPAKMÆLI‘
Orðskviðunum lýkur með tvenns konar ‚spakmælum‘. (Orðskviðirnir 30:1; 31:1, Biblían 1912) Agúr bregður upp umhugsunarverðum samlíkingum og dregur fram hve óseðjandi græðgin er, og hann bendir á með hve lævísum og sannfærandi hætti karlmaður getur táldregið konu.b Hann varar fólk einnig við því að upphefja sjálft sig og tala í reiði.
Spakmælin, sem móðir Lemúels kenndi honum, hafa að geyma góðar ábendingar um meðferð áfengis og um það að dæma með réttlæti. Hann lýsir góðri eiginkonu og lýkur svo með orðunum: „Gefið henni af ávexti handa hennar, og verk hennar skulu lofa hana.“ — Orðskviðirnir 31:31.
Aflaðu þér visku, þiggðu aga, temdu þér guðsótta og reiddu þig á Jehóva. Hinir innblásnu Orðskviðir Biblíunnar leggja þunga áherslu á þetta. Við skulum umfram allt fara eftir góðum ráðum þeirra og uppskera þá hamingju sem fylgir því að „óttast Drottin“. — Sálmur 112:1.
[Neðanmáls]
a Sjá Varðturninn (enska útgáfu), 1. ágúst 1991, bls. 31.
b Sjá Varðturninn (enska útgáfu), 1. júlí 1992, bls. 31.
[Myndir á blaðsíðu 8]
Jehóva er uppspretta sannrar þekkingar.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Hvað merkir það að „dreifa út þekkingu“?