Hefurðu „vitrar varir“?
● Salómon konungur skrifaði eitt sinn: „Gnægð er af gulli og perlum en dýrmætastar eru þó vitrar varir.“ (Orðskviðirnir 20:15) Gull hefur alltaf verið talið verðmætt og á dögum Salómons voru perlur líka álitnar dýrmætar. En þó geta varir okkar verið enn verðmætari en gull og perlur. Hvernig þá? Ekki vegna þess að þær fegra andlitið heldur vegna þess sem þær tjá.
Dýrmætar varir tjá gæsku, góðvild og kærleika. Og „vitrar varir“ segja sannleikann um Guð eins og honum er lýst í Biblíunni. Þótt Biblían sé gömul bók hefur hún að geyma visku skaparans, sannleikann um hann og óbrigðul ráð fyrir alla. — Jóhannes 17:17.
Því miður beita margir vörunum á rangan hátt með því að segja ósatt um Guð. Sumir kenna honum til dæmis um ranglætið og þjáningarnar sem eiga sér stað í heiminum þótt maðurinn beri að mörgu leyti ábyrgð á þeim sjálfur. Í Orðskviðunum 19:3 segir um slíka hegðun: „Flónska mannsins eyðir efnum hans en hjarta hans kennir Drottni um.“
Aðrir rýra verðgildi vara sinna með því að segja það sem þeir meina ekki eða með því að bera út skaðlegt slúður, jafnvel róg. Í Orðskviðunum 26:23 er beitt kröftugu myndmáli. Þar segir: „Sem sorasilfur utan af leirbroti, svo eru eldheitir kossar og illt hjarta.“ Rétt eins og hægt er að fela leir undir silfurhúð er hægt að fela „illt hjarta“ með ‚eldheitum kossum‘ en þeir gefa til kynna sterkar tilfinningar eða jafnvel einlægni. — Orðskviðirnir 26:24-26.
Að sjálfsögðu er slík illska ekki hulin sjónum Guðs. Hann sér hver við erum innst inni. Þess vegna tók Jesús Kristur svona til orða: „Hreinsaðu fyrst bikarinn innan svo að hann verði líka hreinn að utan.“ (Matteus 23:26) Þetta er mikilvægt. Ef við höfum hreint hjarta og nærum það á sannindum frá orði Guðs hefur það áhrif á hvað við segjum. Hver verður árangurinn? Þá höfum við „vitrar varir“, einkum í augum Guðs.
[Mynd á blaðsíðu 30]
„Vitrar varir“ eru dýrmætar.