10. KAFLI
Hjónaband — gjöf frá Guði kærleikans
„Þrefaldan þráð er torvelt að slíta.“ — PRÉDIKARINN 4:12.
1, 2. (a) Hvaða spurningar koma stundum upp í hugann þegar fólk gengur í hjónaband og af hverju? (b) Hvaða spurningar verða ræddar í þessum kafla?
HEFURÐU gaman af að fara í brúðkaup? Það finnst mörgum því að brúðkaup geta verið einstaklega ánægjuleg. Maður sér brúðhjónin í sínu fínasta pússi og þau geisla af gleði. Á brúðkaupsdeginum eru þau brosandi út að eyrum og framtíðin er full af fyrirheitum.
2 Hitt verður þó að viðurkenna að hjónabandið á að mörgu leyti erfitt uppdráttar nú um stundir. Við óskum nýgiftum hjónum alls hins besta en veltum þó stundum fyrir okkur hvort þau eigi eftir að verða hamingjusöm og hvort hjónabandið eigi eftir að endast. Svarið ræðst af því hvort hjónin treysta leiðbeiningum Guðs um hjónabandið og fara eftir þeim. (Orðskviðirnir 3:5, 6) Það þurfa þau að gera til að kærleikur Guðs varðveiti þau. Við skulum nú leita svara Biblíunnar við fjórum spurningum: Af hverju gengur fólk í hjónaband? Hvernig á maður að velja sér maka? Hvernig er hægt að búa sig undir hjónaband? Og hvað getur hjálpað hjónum að vera hamingjusöm?
AF HVERJU GENGUR FÓLK Í HJÓNABAND?
3. Af hverju er óviturlegt að gifta sig af litlu tilefni?
3 Sumir halda að það sé nauðsynlegt að gifta sig til að vera hamingjusamur, að maður geti ekki öðlast lífsfyllingu nema maður finni sér maka. Það er alls ekki rétt. Jesús var einhleypur og sagði að sumum væri gefið að geta verið það. Hann hvatti þá sem gætu til að vera einhleypir. (Matteus 19:11, 12) Páll postuli ræddi einnig um kosti þess að vera einhleypur. (1. Korintubréf 7:32-38) Hvorki Jesús né Páll gerðu þetta hins vegar að reglu. Reyndar er það að „banna hjúskap“ flokkað með „lærdómum illra anda“. (1. Tímóteusarbréf 4:1-3) Engu að síður hefur einhleypi marga kosti fyrir þá sem vilja þjóna Jehóva án truflunar. Það er því óviturlegt að gifta sig af litlu tilefni, svo sem vegna hópþrýstings.
4. Hvers konar skilyrði skapar hjónaband til barnauppeldis?
4 En er hægt að nefna einhverjar góðar og gildar ástæður fyrir því að ganga í hjónaband? Já, hjónabandið er gjöf frá Guði kærleikans. (1. Mósebók 2:18) Það hefur því ýmsa kosti og býður upp á góða möguleika fyrir fólk til að vera hamingjusamt. Farsælt hjónaband skapar til dæmis bestu skilyrðin til að ala upp börn. Þau þurfa að búa við stöðugleika og eiga foreldra til að ala þau upp, elska, aga og leiðbeina. (Sálmur 127:3; Efesusbréfið 6:1-4) En barneignir eru ekki eina ástæðan til að gifta sig.
5, 6. (a) Hvernig er kostum góðrar vináttu lýst í Prédikaranum 4:9-12? (b) Hvernig getur hjónaband verið eins og þrefaldur þráður?
5 Lítum á ritningarstaðinn í upphafi kaflans og skoðum hann í samhengi. „Betri eru tveir en einn því að þeir hafa betri laun fyrir strit sitt. Falli annar þeirra getur hinn reist félaga sinn á fætur en vei einstæðingnum sem fellur og enginn er til að reisa á fætur. Ef tveir sofa saman er þeim heitt en hvernig getur þeim hitnað sem er einn? Ef einhver ræðst á þann sem er einn munu tveir geta staðist hann og þrefaldan þráð er torvelt að slíta.“ — Prédikarinn 4:9-12.
6 Þessi vers fjalla fyrst og fremst um gildi góðra vináttubanda. Hjónaband er auðvitað nánasti vinskapur sem hægt er að hugsa sér. Eins og versin bera með sér geta hjón stutt hvort annað, hughreyst og verndað. En hjónabandið verður enn sterkara ef það er ekki bara samband karls og konu. Eins og gefið er í skyn í síðasta versinu væri hægt að slíta tvöfaldan þráð. Það er miklu erfiðara að slíta þráð sem er ofinn eða snúinn úr þrem þáttum. Þegar bæði hjónin leggja sig fram um að þóknast Jehóva er hjónabandið eins og þrefaldur þráður. Jehóva er þá mikilvægur þáttur í hjónabandinu og gerir það mun sterkara en ella væri.
7, 8. (a) Hvað ráðlagði Páll einhleypu fólki sem á í baráttu við kynhvötina? (b) Hvaða raunsæja sýn gefur Biblían á hjónaband?
7 Það er aðeins innan hjónabands sem hægt er að svala kynhvötinni á réttmætan hátt. Þar má með réttu líta á kynmök sem gleðigjafa. (Orðskviðirnir 5:18) Þó að einhleypur einstaklingur sé kominn á ‚manndómsskeið‘ og unglingsárin liðin hjá — sá tími þegar sterk kynhvöt gerir fyrst vart við sig — getur hann engu að síður átt í baráttu við þessa hvöt. Ef ekki er haft taumhald á henni getur það leitt til óhreinnar eða óviðeigandi hegðunar. Páli var innblásið að ráðleggja einhleypu fólki: „Hafi þau ekki taumhald á sjálfum sér, þá gangi þau í hjónaband því að betra er að ganga í hjónaband en að brenna af girnd.“ — 1. Korintubréf 7:9, 36; Jakobsbréfið 1:15.
8 En hver sem ástæðan er fyrir því að fólk giftir sig er nauðsynlegt að vera raunsær. Eins og Páll komst að orði hljóta þeir sem ganga í hjónaband „þrenging . . . fyrir hold sitt“. (1. Korintubréf 7:28, Biblían 1912) Hjón eiga við ýmis vandamál að glíma sem einhleypt fólk er laust við. En hvað geta þeir sem stofna til hjónabands gert til að vandamálin verði sem fæst og sambúðin sem farsælust? Meðal annars að velja sér maka af skynsemi.
HVERNIG Á MAÐUR AÐ VELJA SÉR MAKA?
9, 10. (a) Hvernig lýsti Páll hættunni sem fylgir því að velja sér maka sem er ekki í trúnni? (b) Hvaða afleiðingar hefur það oft að fara ekki eftir því ráði Guðs að giftast aðeins í trúnni?
9 Páli var innblásið að skrásetja mikilvæga meginreglu sem fólk ætti að fylgja þegar það velur sér maka: „Dragið ekki ok með vantrúuðum.“ (2. Korintubréf 6:14) Samlíkingin er sótt til akuryrkju. Ef tvö misstór eða missterk dýr eru látin ganga undir sama oki kemur það niður á þeim báðum. Það má segja hið sama um hjónaband. Ef þjónn Jehóva velur sér maka sem er annarrar trúar eru miklar líkur á að það valdi spennu og ágreiningi. Ef annað hjónanna vill þjóna Guði kærleikans en hitt hefur lítinn eða engan áhuga á því verða áherslur þeirra í lífinu ólíkar og það veldur erfiðleikum fyrir þau bæði. Páll hvetur því kristna menn til að giftast aðeins „í Drottni“. — 1. Korintubréf 7:39, Biblían 1981.
10 Í sumum tilfellum hafa einhleypir þjónar Guðs ályktað sem svo að það sé þó betra að giftast vantrúuðum en vera einmana. Sumir ákveða að fara ekki eftir ráðum Biblíunnar og finna sér maka sem þjónar ekki Jehóva. Útkoman hefur oft orðið dapurleg. Þeir uppgötva að þeir eru bundnir lífsförunaut sem þeir geta ekki deilt með því sem er mikilvægast í lífinu. Einmanaleikinn, sem það hefur í för með sér, er stundum miklu verri en þeir bjuggu við áður en þeir giftust. Þúsundir einhleypra kristinna manna treysta hins vegar ráðleggingum Guðs og fylgja þeim dyggilega. (Sálmur 32:8) Þeir hafa kannski hugsað sér að giftast einhvern tíma en gera það ekki fyrr en þeim tekst að finna sér maka sem tilbiður Jehóva Guð.
11. Hvað getur hjálpað þér að velja góðan maka? (Sjá einnig rammagreinina „Að hverju á ég að leita í fari væntanlegs maka?“.)
11 Auðvitað er ekki sjálfgefið að allir sem þjóna Jehóva séu hentugur maki. Ef þú ert að hugsa um að giftast skaltu leita að maka sem elskar Jehóva, hefur svipuð markmið í trúnni og þú og persónuleika sem fer saman við þinn. Hinn trúi þjónshópur hefur gefið út heilmikið efni um þetta mál. Þú ættir að kynna þér þetta efni, ræða málið við Jehóva í bæn og taka mið af hinum biblíutengdu ráðum þegar þú tekur þessa mikilvægu ákvörðun.a — Sálmur 119:105.
12. Hvernig er stofnað til hjúskapar í mörgum löndum og hvaða dæmi í Biblíunni má hafa til hliðsjónar?
12 Í mörgum löndum tíðkast það að foreldrar velji maka handa börnum sínum. Í þessum samfélögum er almennt viðurkennt að foreldrarnir búi yfir þeirri visku og reynslu sem þarf til að taka svona alvarlega ákvörðun. Hjónabönd, sem er stofnað til með þessum hætti, reynast oft farsæl ekki síður en á biblíutímanum. Frásagan af því hvernig Abraham sendi þjón sinn til að finna konu handa Ísak er lærdómsrík fyrir foreldra sem eru í þessari aðstöðu nú á dögum. Abraham hugsaði ekki um peninga eða þjóðfélagsstöðu heldur lagði mikla áherslu á að fundin yrði kona handa Ísak meðal tilbiðjenda Jehóva.b — 1. Mósebók 24:3, 67.
HVERNIG ER HÆGT AÐ BÚA SIG UNDIR FARSÆLT HJÓNABAND?
13-15. (a) Hvernig getur meginreglan í Orðskviðunum 24:27 hjálpað ungum manni sem stefnir að hjónabandi? (b) Hvað getur ung kona gert til að búa sig undir hjónaband?
13 Ef þú ert að hugsa um að ganga í hjónaband ættirðu að spyrja þig hvort þú sért í alvöru undir það búinn. Svarið snýst ekki eingöngu um það hvernig þú hugsar um ást, kynlíf, félagsskap eða barnauppeldi. Allir sem ætla sér að stofna til hjúskapar þurfa einnig að hugsa um viss markmið.
14 Ungur maður, sem er að leita sér að konu, ætti að hugsa vandlega um þessa meginreglu: „Sinntu útiverkunum og ljúktu þeim á akrinum, síðan getur þú byggt þér hús.“ (Orðskviðirnir 24:27) Hvað er verið að benda á? Sá sem vildi ‚byggja sér hús‘, það er að segja að stofna heimili, þurfti að spyrja sjálfan sig hvort hann væri tilbúinn til að sjá fyrir eiginkonu og væntanlegum börnum. Hann þurfti að byrja á því að vinna með því að annast akur sinn og uppskeru. Staðan er sú sama nú á tímum. Maður sem ætlar sér að giftast þarf að búa sig undir ábyrgðina sem fylgir því. Hann þarf að vinna svo framarlega sem heilsa og kraftar leyfa. Í Biblíunni kemur fram að sá sem sér ekki fyrir efnislegum, tilfinningalegum og andlegum þörfum fjölskyldu sinnar sé verri en vantrúaður. — 1. Tímóteusarbréf 5:8.
15 Kona, sem ákveður að gifta sig, er líka að taka á sig margs konar skyldur. Í Biblíunni er talað um sumt af því sem eiginkona þarf að hafa til brunns að bera til að styðja mann sinn og annast heimilið. (Orðskviðirnir 31:10-31) Þegar karlar og konur ana út í hjónaband án þess að búa sig undir að axla ábyrgðina sem fylgir því, ber það í rauninni vott um eigingirni því að þau hugsa lítið um hvað þau geti boðið tilvonandi maka sínum. Síðast en ekki síst þurfa þeir sem stefna að hjónabandi að vera færir um að fylgja meginreglum Guðs.
16, 17. Hvaða meginreglur Biblíunnar ættu þeir sem hyggja á hjónaband að hugleiða?
16 Til að búa sig undir hjónaband þarf fólk að hugleiða þau hlutverk sem Guð hefur falið eiginmanni og eiginkonu. Maðurinn þarf að vita hvað það merkir að vera höfuð kristinnar fjölskyldu. Það merkir ekki að hann megi drottna með harðri hendi yfir heimilinu heldur á hann að líkja eftir forystu Jesú. (Efesusbréfið 5:23) Kristin kona þarf einnig að skilja hvert sé hið göfuga hlutverk eiginkonunnar. Er hún fús til að lúta „því lögmáli sem bindur hana“ eiginmanninum? (Rómverjabréfið 7:2) Hún er nú þegar bundin af lögmáli Jehóva og Krists. (Galatabréfið 6:2) Forysta eiginmannsins í fjölskyldunni er líka eins konar lögmál. Getur hún verið undirgefin ófullkomnum manni og stutt hann? Ef henni hugnast það ekki ætti hún ekki að ganga í hjónaband.
17 Bæði hjónin þurfa að vera reiðubúin að annast sérstakar þarfir hvort annars. (Filippíbréfið 2:4) Páll skrifaði: „Hver og einn skal elska eiginkonu sína eins og sjálfan sig en konan beri lotningu fyrir manni sínum,“ það er að segja djúpa virðingu. Vegna innblásturs vissi Páll að það væri mikilvægt fyrir manninn að skynja að konan bæri djúpa virðingu fyrir honum. Og það er mikilvægt fyrir konuna að finna að eiginmaðurinn elskar hana. — Efesusbréfið 5:21-33.
Margir sýna þá skynsemi í tilhugalífinu að vera með siðgæðisvörð.
18. Af hverju ættu hjónaleysi að sýna sjálfstjórn í tilhugalífinu?
18 Tilhugalífið er sem sagt ekki bara tækifæri til að skemmta sér. Hjónaleysin eiga að nota það til að skilja og skynja hvernig þau eigi að koma fram hvort við annað og til að kanna hvort það sé skynsamlegt fyrir þau að giftast. Og þau þurfa líka að sýna sjálfstjórn. Það getur verið ákaflega freistandi að ganga lengra í ástaratlotum en góðu hófi gegnir því að hið líkamlega aðdráttarafl er ofur eðlilegt. En tveir einstaklingar, sem elska hvor annan, gæta þess að gera ekkert sem myndi skemma samband hins við Guð. (1. Þessaloníkubréf 4:6) Sýndu því sjálfstjórn í tilhugalífinu því að það verður þér til góðs alla ævi, hvort sem þú giftist eða ekki.
HVERNIG GETUR HJÓNABANDIÐ ORÐIÐ TRAUST OG VARANLEGT?
19, 20. Hvernig ætti kristinn maður að líta á hjónaband, ólíkt mörgum í heiminum? Lýstu með dæmi.
19 Ef hjón ætla að gera hjónaband sitt traust og varanlegt þurfa þau að sjá skuldbingar sínar í réttu ljósi. Í skáldsögum og kvikmyndum er farsæll endir oft fólginn í því að fólk nái saman og giftist. Í veruleikanum er stofnun hjónabands ekki endir heldur upphaf — upphaf sambands sem Jehóva ætlast til að endist. (1. Mósebók 2:24) Það er því miður ekki útbreidd skoðun í heimi nútímans. Í sumum menningarsamfélögum er haft á orði að fólk „hnýti hnútinn“ þegar það gengur í hjónaband. Margir átta sig líklega ekki á því hve vel þetta myndmál lýsir almennri skoðun á hjónabandinu. Góður hnútur á vissulega að halda meðan hans er þörf en það er líka ætlast til þess að auðvelt sé að hnýta hann og leysa.
20 Í augum margra er hjónaband ekki bindandi. Þeir giftast fúslega af því að þeir halda að það þjóni þörfum þeirra en ætlast líka til þess að það megi slíta hjónabandinu ef erfiðleikar koma upp. En hugsum til líkingamálsins sem notað er í Biblíunni um hjónaband — þrefalda þráðinn. Hebreska orðið, sem er þýtt „þráður“ í Prédikaranum 4:12, getur líka merkt reipi. Reipi á seglskipum eru gerð til að endast. Þau eiga ekki að trosna eða rakna upp, ekki einu sinni í hvössustu stormum. Hjónabandið á líka að endast. Eins og við munum sagði Jesús: „Það sem Guð hefur tengt saman má eigi maðurinn sundur skilja.“ (Matteus 19:6) Ef þú giftist þarftu að hugsa þannig um hjónabandið. Gerir það hjónabandið íþyngjandi? Nei.
21. Hvernig þurfa hjón að líta hvort á annað og hvað getur hjálpað þeim til þess?
21 Hjón þurfa að sjá hvort annað í réttu ljósi. Ef bæði einbeita sér að kostum hvort annars og góðri viðleitni verður hjónabandið ánægjulegt og endurnærandi. Er það óraunsæi að líta svona jákvætt á ófullkominn maka sinn? Jehóva er aldrei óraunsær en við getum samt sem áður treyst að hann hafi jákvætt álit á okkur. Sálmaskáldið spurði: „Ef þú, Drottinn, gæfir gætur að misgjörðum, Drottinn, hver fengi þá staðist?“ (Sálmur 130:3) Hjón þurfa að vera jákvæð hvort gagnvart öðru og reiðubúin að fyrirgefa. — Kólossubréfið 3:13.
22, 23. Hvernig eru Abraham og Sara hjónum góð fyrirmynd?
22 Hamingja hjóna getur farið vaxandi með árunum. Í Biblíunni segir frá hjónabandi Abrahams og Söru þegar þau voru komin á efri ár. Þau fengu vissulega sinn skerf af þrautum og erfiðleikum. Hugsaðu þér hvernig það hlýtur að hafa verið fyrir Söru, sem var sennilega komin yfir sextugt, að taka sig upp, yfirgefa þægilegt heimili í blómlegri borg og búa í tjöldum þaðan í frá. Hún fylgdi engu að síður forystu eiginmannsins. Hún var hjálparhella Abrahams, studdi hann og virti og hjálpaði honum að hrinda ákvörðunum sínum í framkvæmd. Og undirgefni hennar var ekki yfirborðsleg. Hún kallaði hann jafnvel herra innra með sér. (1. Mósebók 18:12; 1. Pétursbréf 3:6) Hún virti Abraham af öllu hjarta.
23 Þetta þýðir hins vegar ekki að Abraham og Sara hafi alltaf verið sammála. Einu sinni kom hún með uppástungu sem honum ‚féll mjög þungt‘. Hann sýndi hins vegar þá auðmýkt að fara að ráði konu sinnar eftir bendingu frá Jehóva og það reyndist til blessunar fyrir fjölskylduna. (1. Mósebók 21:9-13) Við getum lært margt af þessum guðhræddu hjónum, jafnvel þau okkar sem hafa verið gift áratugum saman.
24. Hvers konar hjónaband er Jehóva Guði til sóma og af hverju?
24 Í kristna söfnuðinum er að finna þúsundir hamingjusamra hjóna þar sem konan ber djúpa virðingu fyrir manni sínum, maðurinn elskar og virðir eiginkonu sína og bæði vinna saman að því að láta vilja Jehóva sitja í fyrirrúmi. Ef þú ákveður að gifta þig skaltu velja þér maka af skynsemi, búa þig vel undir hjónabandið og vinna að því að heimilislífið sé friðsælt og Jehóva Guði til sóma. Ef þú gerir það stuðlarðu að því að kærleikur Guðs varðveiti þig.
a Sjá 2. kafla bókarinnar Farsælt fjölskyldulíf — hver er leyndardómurinn? gefin út af Vottum Jehóva.
b Sumir hinna trúu ættfeðra áttu fleiri en eina konu. Jehóva umbar fjölkvæni meðal ættfeðranna og meðal Ísraelsmanna. Hann kom því ekki á heldur setti einungis ákvæði um það. Kristnir menn hafa hins vegar hugfast að Jehóva leyfir ekki lengur fjölkvæni meðal tilbiðjenda sinna. — Matteus 19:9; 1. Tímóteusarbréf 3:2.