Sælir eru mildir í lund
„Sælir eru mildir í lund því að þeir munu erfa jörðina.“ — MATTEUS 5:5, NW.
1. Lýstu þeirri mildi sem Jesús talaði um í fjallræðu sinni.
Í FJALLRÆÐU sinni sagði Jesús Kristur: „Sælir eru mildir í lund því að þeir munu erfa jörðina.“ (Matteus 5:5, NW) Þessi mildi í lund, þessi hógværð, er hvorki hræsnisfull yfirborðsmildi né einfaldlega meðfæddur eiginleiki. Þetta er ósvikin mildi sem kemur innan frá, friðsemd sem er fyrst og fremst viðbrögð við vilja og handleiðslu Jehóva. Þeir sem eru mildir í raun viðurkenna fullkomlega að þeir eru háðir Guði og það endurspeglast í mildri framkomu við aðra. — Rómverjabréfið 12:17-19; Títusarbréfið 3:1, 2.
2. Hvers vegna lýsti Jesús milda menn hamingjusama?
2 Jesús sagði að mildir menn væru sælir, hamingjusamir, vegna þess að þeir myndu erfa jörðina. Hann sjálfur, sonur Guðs, fullkominn í mildi, er aðalerfingi jarðarinnar. (Sálmur 2:8; Matteus 11:29; Hebreabréfið 1:1, 2; 2:5-9) Sem messíanskur ‚mannssonur‘ átti hann þó einnig að eiga sér meðstjórnendur í ríki sínu á himnum. (Daníel 7:13, 14, 22, 27) Þessir andasmurðu, mildu „samarfar Krists“ munu erfa jörðina með honum. (Rómverjabréfið 8:17) Aðrir mildir, sauðumlíkir menn munu hljóta eilíft líf í paradís á jarðnesku yfirráðasvæði ríkisins. (Matteus 25:33, 34, 46; Lúkas 23:43) Þessar framtíðarhorfur veita þeim sannarlega mikla hamingju.
3. Hvaða fordæmi hafa Guð og Kristur gefið um mildi?
3 Hinn mildi aðalerfingi jarðarinnar fær hana frá föður sínum, Jehóva, sem er æðsta ímynd mildinnar. Hversu oft segir ekki Ritningin að Guð sé „þolinmóður og gæskuríkur.“ (2. Mósebók 34:6; Nehemía 9:17; Sálmur 86:15) Hann er máttugur mjög en þó svo mildur að dýrkendur hans geta óttalaust gengið fram fyrir hann. (Hebreabreabréfið 4:16; 10:19-22) Sonur Guðs, sem var „hógvær og af hjarta lítillátur,“ kenndi lærisveinum sínum að vera mildir. (Matteus 11:29; Lúkas 6:27-29) Þessir mildu þjónar Guðs og sonar hans líktu síðan eftir og töluðu um „hógværð og mildi Krists.“ — 2. Korintubréf 10:1; Rómverjabréfið 1:1; Jakobsbréfið 1:1, 2; 2. Pétursbréf 1:1.
4. (a) Hvað gera þeir sem eru í sannleika mildir, samkvæmt Kólossubréfinu 3:12? (b) Hvaða spurningar eru íhugunarverðar?
4 Jafnt smurðir kristnir menn sem félagar þeirra með jarðneska von þurfa að vera mildir í lund. Eftir að þeir hafa afklæðst allri vonsku, sviksemi, hræsni, öfund og baktali hefur andi Guðs hjálpað þeim að ‚endurnýjast í anda og hugsun.‘ (Efesusbréfið 4:22-24; 1. Pétursbréf 2:1, 2) Þeir eru hvattir til að íklæðast „hjartans meðaumkun, góðvild, auðmýkt, hógværð [„mildi,“ NW] og langlyndi.“ (Kólossubréfið 3:12) En hvað, nákvæmlega, er fólgið í mildi? Hvers vegna er það gagnlegt að vera mildur í lund? Og hvernig getur þessi eiginleiki stuðlað að hamingju okkar?
Mildi skoðuð nánar
5. Hvernig má skilgreina mildi?
5 Mildur einstaklingur er þíður bæði að eðlisfari og í framkomu. Í íslensku biblíunni er gríska orðið prays oftast þýtt „hógvær,“ en margar erlendar biblíuþýðingar nota orð sem samsvarar „mildur.“ Í klassískri grísku er það til dæmis notað um ljúfa golu eða blíða rödd. Það getur lýst viðfelldnum manni. Grískufræðingurinn W. E. Vine segir að tilsvarandi nafnorð, praytes, sé „fyrst og fremst notað um samskipti við Guð. Það er með því hugarfari sem við tökum á móti samskiptum hans við okkur sem góðum og þess vegna án þess að deila á þau eða sporna gegn þeim; það er nátengt orðinu tapeinofrosune [auðmýkt].“
6. Hvernig má segja að mildi sé ekki veikleiki?
6 Mildi er ekki veikleiki. „Það er blíða í praus,“ skrifaði fræðimaðurinn William Barclay, „en að baki blíðunnar er styrkur stálsins.“ Það þarf styrk til að vera mildur í lund. Til dæmis þarf styrk til að vera mildur andspænis áreitni eða undir ofsóknum. Mildur sonur Guðs, Jesús Kristur, gaf gott fordæmi í þessu efni. „Hann illmælti eigi aftur, er honum var illmælt, og hótaði eigi, er hann leið, heldur gaf það í hans vald [Jehóva Guðs], sem réttvíslega dæmir.“ (1. Pétursbréf 2:23) Við getum, líkt og hinn mildi Jesús, verið viss um að Guð muni taka á þeim sem illmæla okkur og ofsækja. (1. Korintubréf 4:12, 13) Við getum sýnt stillingu eins og hinn ofsótti Stefán og haft hugfast að Jehóva mun styðja okkur ef við erum trúföst, og ekki láta neitt verða okkur til varanlegs tjóns. — Sálmur 145:14; Postulasagan 6:15; Filippíbréfið 4:6, 7, 13.
7. Hvað segja Orðskviðirnir 25:28 um þann sem skortir mildi?
7 Jesús var mildur í lund en sýndi þó styrk sinn með því að vera fastur fyrir í því sem rétt var. (Matteus 21:5; 23:13-39) Hver sá sem hefur „huga Krists“ verður eins og hann að þessu leyti. (1. Korintubréf 2:16) Sá sem er ekki mildur líkist ekki Kristi. Hann er frekar eins og Orðskviðirnir 25:28 lýsa: „Eins og borg, sem múrarnir hafa verið brotnir utan af, eins er sá maður, sem eigi hefir stjórn á skapsmunum sínum.“ Sá sem ekki er mildur hefur lítið viðnám gegn röngum hugsunum sem geta komið honum til að hegða sér með óviðeigandi hætti. Enda þótt mildur kristinn maður sé ekki veiklundaður veit hann þó að „mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.“ — Orðskviðirnir 15:1.
8. Hvers vegna er það ekki auðvelt að vera mildur í lund?
8 Það er ekki auðvelt að vera mildur í lund því að við höfum erft ófullkomleika og synd. (Rómverjabréfið 5:12) Séum við þjónar Jehóva þurfum við einnig að berjast gegn illum andaverum sem gætu með ofsóknum reynt á mildi okkar. (Efesusbréfið 6:12) Og flest okkar vinna meðal manna er einkennast af hinum harðneskjulega anda heimsins sem er undir stjórn djöfulsins. (1. Jóhannesarbréf 5:19) Hvernig getum við þá þroskað með okkur mildi?
Hvernig má þroska mildi
9. Hvaða viðhorf hjálpar okkur að þroska mildi?
9 Sú sannfæring að það sé krafa Biblíunnar að við sýnum mildi hjálpar okkur að þroska hana. Við verðum að vinna daglega að því að rækta með okkur mildi. Að öðrum kosti yrðum við eins og fólk er lítur á mildi sem veikleika og álítur að velgengni byggist á því að vera hrokafullur, harður og jafnvel grimmur. Orð Guðs fordæmir hins vegar dramsemi og viturlegur orðskviður segir: „Kærleiksríkur maður gjörir sálu sinni gott, en hinn grimmi kvelur sitt eigið hold.“ (Orðskviðirnir 11:17; 16:18) Fólk forðast harðneskjulegan, óvingjarnlegan mann, jafnvel þótt það geri það fyrst og fremst til að verða ekki fyrir barðinu á grimmd hans og harðneskju.
10. Hverju verðum við að lúta til að vera mild í lund?
10 Til að vera mild verðum við að lúta áhrifum heilags anda eða starfskraftar Guðs. Rétt eins og Jehóva gerði jörðina þannig úr garði að hún gæfi af sér uppskeru, eins gerir hann þjónum sínum kleift að bera ávöxt anda síns, meðal annars mildi. Páll skrifaði: „En ávöxtur andans er: Kærleiki, gleði, friður, langlyndi, gæska, góðvild, trúmennska, hógværð [„mildi,“ NW] og bindindi. Gegn slíku er lögmálið ekki.“ (Galatabréfið 5:22, 23) Já, mildi er einn af ávöxtum anda Guðs sem þeir sýna er þóknast honum. (Sálmur 51:11, 12) Og mildi getur sannarlega áorkað stórum breytingum! Nefnum dæmi: Tony var hrottafenginn maður, áflogaseggur, þjófur, fíkniefnasmyglari og forsprakki vélhjólagengis. Hann sat stundum í fangelsi. Með því að afla sér biblíuþekkingar og með hjálp anda Guðs breyttist hann í mildan þjón Jehóva. Saga Tonys er dæmigerð. Hvað getur þá sá maður gert sem hefur verið víðs fjarri því að vera mildur?
11. Hvert er hlutverk bænarinnar í því að þroska mildi?
11 Innileg bæn um anda Guðs og ávöxt hans, mildi, hjálpar okkur að rækta þennan eiginleika. Við getum þurft að ‚halda áfram að biðja‘ eins og Jesús sagði, og Jehóva Guð mun veita okkur það sem við biðjum um. Eftir að hafa bent á að mennskir feður gefi börnum sínum góðar gjafir sagði Jesús: „Fyrst þér, sem eruð [syndugir og því hlutfallslega] vondir, hafið vit á að gefa börnum yðar góðar gjafir, hve miklu fremur mun þá faðirinn himneski gefa þeim heilagan anda, sem biðja hann.“ (Lúkas 11:9-13) Bæn getur stuðlað að því að gera mildi að rótgrónum þætti í skapgerð okkar — eiginleika sem stuðlar að hamingju sjálfra okkar og þeirra sem við umgöngumst.
12. Hvernig getur það hjálpað okkur að vera mild í lund ef við höfum hugfast að menn eru ófullkomnir?
12 Það auðveldar okkur að vera mild í lund ef við höfum hugfast að menn eru ófullkomnir. (Sálmur 51:7) Við getum ekki hugsað eða hegðað okkur fullkomlega rétt frekar en nokkur annar, þannig að við ættum tvímælalaust að geta sett okkur í spor annarra og komið fram við þá eins og við viljum láta koma fram við okkur. (Matteus 7:12) Þegar við erum okkur meðvitandi um að við gerum öll mistök ætti það að koma okkur til að fyrirgefa og vera mild í samskiptum við aðra. (Matteus 6:12-15; 18:21, 22) Erum við ekki, þegar öllu er á botninn hvolft, þakklát fyrir að Guð skuli vera kærleiksríkur og mildur við okkur? — Sálmur 103:10-14.
13. Hvers vegna er auðveldara að vera mildur ef við viðurkennum að Guð hefur skapað okkur með frjálsa siðferðisvitund?
13 Viðurkenning á því að Guð hefur gefið okkur frjálsa siðferðisvitund getur líka hjálpað okkur að rækta með okkur mildi. Þetta þýðir ekki að nokkur maður geti þverbrotið lög Guðs sér að meinalausu, en það býður upp á fjölbreytilegan smekk og skoðanamun meðal þjóna hans. Við skulum því viðurkenna að engum er skylt að falla í það mót sem við kannski teljum best. Þetta hugarfar hjálpar okkur að vera mild í lund.
14. Hver ætti að vera ásetningur okkar í sambandi við mildi?
14 Sá ásetningur að hvika ekki frá mildi okkar hjálpar okkur að halda áfram að rækta þennan eiginleika. Með því að gefa okkur undir anda Jehóva urðu háttaskipti í hugsun okkar. (Rómverjabréfið 12:2) Mildur andi, líkur Kristi, heldur okkur nú frá „saurlifnaði, girndum, ofdrykkju, óhófi, samdrykkjum og svívirðilegri skurðgoðadýrkun.“ Við megum aldrei láta fjárhagslegar, félagslegar eða aðrar ástæður, ellegar það að fólk lastar guðrækni okkar, koma okkur til að hætta að vera mild. (1. Pétursbréf 4:3-5) Við megum ekki láta neitt koma okkur til að vinna „holdsins verk“ þannig að við glötum mildi okkar og erfum ekki Guðsríki og blessun þess. (Galatabréfið 5:19-21) Við skulum alltaf meta mikils þau sérréttindi að vera mildir þjónar Guðs, annaðhvort smurðir til lífs á himnum eða með jarðneska von. Við skulum í því skyni ígrunda nokkra kosti mildinnar.
Kostir mildinnar
15. Hvers vegna er það viturlegt samkvæmt Orðskviðunum 14:30 að vera mildur?
15 Mildur maður býr yfir ró í hjarta, huga og líkama. Það kemur til af því að hann flækir sig ekki í deilum, æsir sig ekki yfir hátterni annarra og kvelur ekki sjálfan sig með vægðarlausum áhyggjum. Mildi hjálpar honum að hafa hemil á tilfinningum sínum og það er honum til góðs bæði hugarfarslega og líkamlega. Orðskviður segir: „Rósamt hjarta er líf líkamans.“ (Orðskviðirnir 14:30) Skorti mildi getur það leitt til reiði sem getur hækkað blóðþrýstinginn eða valdið meltingartruflunum, astma, augnkvillum og ýmsu fleiru. Mildur kristinn maður finnur fyrir ýmiss konar jákvæðum áhrifum, meðal annars ‚friði Guðs‘ sem varðveitir hjarta hans og hugsanir. (Filippíbréfið 4:6, 7) Það er viturlegt að vera mildur í lund.
16-18. Hvaða áhrif hefur mildi á samband okkar við aðra?
16 Mildi bætir samskipti okkar við aðra. Kannski vorum við áður fyrr vön að halda málum til streitu uns við höfðum okkar fram. Menn kannski reiddust okkur vegna þess að okkur skorti auðmýkt og mildi. Við þær aðstæður hefði það ekki átt að koma okkur á óvart að lenda hvað eftir annað í deilum. Orðskviður segir hins vegar: „Þegar eldsneytið þrýtur, slokknar eldurinn, og þegar enginn er rógberinn, stöðvast deilurnar. Eins og kol þarf til glóða og við til elds, svo þarf þrætugjarnan mann til að kveikja deilur.“ (Orðskviðirnir 26:20, 21) Ef við erum mild, í stað þess að ‚bæta á eldinn‘ og espa aðra, eigum við gott samband við þá.
17 Mildur maður á líklega góða vini. Fólk hefur ánægju af því að vera samvistum við hann vegna þess að viðhorf hans eru jákvæð og orð hans hressandi og sæt eins og hunang. (Orðskviðirnir 16:24) Svo var um Jesú sem gat sagt: „Takið á yður mitt ok og lærið af mér, því að ég er hógvær [„mildur í lund“, NW] og af hjarta lítillátur, og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ (Matteus 11:29, 30) Jesús var ekki harðneskjulegur í viðmóti og ok hans ekki íþyngjandi. Hann kom vel fram við þá sem komu til hans og hressti þá andlega. Eins er það með okkur þegar við höfum félagsskap við mildan kristinn vin.
18 Mildi kemur trúbræðrum okkar til að þykja vænt um okkur. Án efa hafa flestir kristnir menn í Korintu hænst að Páli vegna þess að hann áminnti þá „með hógværð og mildi Krists.“ (2. Korintubréf 10:1) Páll hlýtur að hafa höfðað til Þessaloníkumanna vegna þess hve mildur kennari hann var. (1. Þessaloníkubréf 2:5-8) Enginn vafi leikur á að öldungarnir í Efesus höfðu lært margt af Páli og þótti innilega vænt um hann. (Postulasagan 20:20, 21, 37, 38) Sýnir þú mildi sem gerir þig hjartfólginn öðrum?
19. Hvernig hjálpar mildi þjónum Jehóva að halda sér innan settra marka í skipulagi hans?
19 Milt lundarfar hjálpar þjónum Jehóva að vera undirgefnir og halda sér innan settra marka í skipulagi hans. (Filippíbréfið 2:5-8, 12-14; Hebreabréfið 13:17) Mildi kemur í veg fyrir að við sækjumst eftir upphefð sem er byggð á drambi og Guð hefur andstyggð á. (Orðskviðirnir 16:5) Mildur maður lítur ekki á sjálfan sig sem fremri trúbræðrum sínum og reynir ekki að skara fram úr á þeirra kostnað. (Matteus 23:11, 12) Hann viðurkennir þess í stað að hann er syndugur og þarf á að halda lausnargjaldinu sem Guð lét í té.
Mildi stuðlar að hamingju
20. Hvaða áhrif hefur mildi á fjölskyldulíf?
20 Allir þjónar Guðs ættu að muna að mildi er ávöxtur anda hans sem stuðlar að hamingju. Til dæmis er hamingjuríkt fjölskyldulíf einkennandi fyrir þjóna Jehóva vegna þess að þeir sýna af sér eiginleika svo sem kærleika og mildi. Þegar hjón eru mild í samskiptum hvort við annað eru börn þeirra alin upp í friðsamlegu umhverfi, ekki í fjölskyldu þar sem hranaleg orð og athafnir eru tíð. Þegar faðirinn leiðbeinir börnum sínum mildilega hefur það góð áhrif á barnshugann og líklegt er að mildi verði hluti af persónuleika þeirra. (Efesusbréfið 6:1-4) Mildi hjálpar eiginmanni að halda áfram að elska konu sína. Hún hjálpar eiginkonum að vera undirgefnar mönnum sínum og fær börnin til að hlýða foreldrum sínum. Mildi kemur einnig fjölskyldunni til að vera fús til að fyrirgefa sem stuðlar að hamingju. — Kólossubréfið 3:13, 18-21.
21. Hvert er inntak heilræða Páls í Efesusbréfinu 4:1-3?
21 Mildar fjölskyldur og einstaklingar stuðla einnig að hamingju safnaðar síns. Þjónar Jehóva þurfa þess vegna að leggja sig kappsamlega fram um að vera mildir í lund. Gerir þú það? Páll postuli hvatti smurða meðbræður sína til að framganga eins og samboðið væri himneskri köllun þeirra og vera ‚hvarvetna lítillátir og hógværir, þolinmóðir, langlyndir og umbera hver annan í kærleika, og kappkosta að verðveita einingu andans í bandi friðarins.‘ (Efesusbréfið 4:1-3) Kristnir menn með jarðneska von verða líka að sýna af sér mildi og aðra eiginleika Guði að skapi. Það er lífsstefna sem hefur sanna hamingju í för með sér. Já, þeir sem eru mildir í lund eru sannarlega hamingjusamir.
Hverju svarar þú?
◻ Hvers vegna eru mildir menn hamingjusamir?
◻ Hvað felst í því að vera mildur í lund?
◻ Hvernig er hægt að þroska með sér mildi?
◻ Nefndu nokkra kosti þess að vera mildur.