Hjálpaðu börnunum að dafna
MARGIR foreldrar leita langt yfir skammt að svörum við spurningum sínum um barnauppeldi. Svörin eru nefnilega innan seilingar. Biblían er til á ótal heimilum, en í stað þess að nota hana við uppeldi barnanna er hún látin safna ryki í bókahillunni.
Margir eru að vísu efins um að Biblían dugi fjölskyldunni sem leiðarvísir. Þeir telja hana úrelta, gamaldags eða allt of harðneskjulega. En heiðarleg athugun leiðir í ljós að Biblían er mjög gagnleg fyrir fjölskylduna. Athugum málið.
Rétta umhverfið
Biblían segir feðrum að líta á börn sín eins og ‚teinunga olíutrésins umhverfis borð sitt.‘ (Sálmur 128:3, 4) Viðkvæm ungtré vaxa ekki upp og verða ávaxtatré án góðrar umhyggju, réttrar næringar, góðs jarðvegs og vökvunar. Farsælt barnauppeldi kostar líka vinnu og umhyggju. Börn þurfa heilbrigt umhverfi til að vaxa og þroskast.
Fyrsti efnisþáttur slíks umhverfis er ást — milli hjóna og milli foreldra og barna. (Efesusbréfið 5:33; Títusarbréfið 2:4) Algengt er í fjölskyldum að fólk elski hvert annað en sjái enga þörf á að tjá ást sína. En hugleiddu málið: Geturðu sagt með sanni að þú hafir skipst á skoðunum við vin ef þú skrifar honum bréf en skrifar aldrei utan á umslögin, setur aldrei á þau frímerki og sendir þau aldrei? Eins bendir Biblían á að sönn ást sé miklu meira en hlý tilfinning í hjartanu; hún birtist í orðum og verkum. (Samanber Jóhannes 14:15 og 1. Jóhannesarbréf 5:3.) Guð gaf fordæmið og lýsti ást sinni á syni sínum með orðum: „Þessi er minn elskaði sonur, sem ég hef velþóknun á.“ — Matteus 3:17.
Hrós
Hvernig geta foreldrar sýnt börnum sínum slíka ást? Það er góð byrjun að hafa opin augu fyrir hinu góða. Það er auðvelt að finna að börnum. Vanþroski þeirra, reynsluleysi og eigingirni sýnir sig á ótal vegu daginn út og daginn inn. (Orðskviðirnir 22:15) En þau gera líka margt gott á hverjum degi. Hvort einblínir þú á? Guð einblínir ekki á galla okkar heldur minnist hins góða sem við gerum. (Sálmur 130:3; Hebreabréfið 6:10) Við ættum að koma eins fram við börnin okkar.
Ungur maður segir: „Öll þau ár, sem ég bjó heima, minnist ég ekki að hafa fengið neins konar hrós — hvorki fyrir það sem ég gerði heima eða í skólanum.“ Foreldrar, gleymið ekki þessari mikilvægu þörf barnanna! Öll börn ættu að fá hrós að staðaldri fyrir það góða sem þau gera. Það dregur úr hættunni á að þau verði „ístöðulaus“ þegar þau vaxa úr grasi, döpur og sannfærð um að þau geti aldrei gert neitt nógu vel. — Kólossubréfið 3:21.
Tjáskipti
Önnur góð leið til að tjá börnunum ást sína er að fylgja ráðum Jakobsbréfsins 1:19: „[Vertu] fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.“ Færðu börnin til að opna sig og hlustarðu vel á það sem þau segja? Ef börnin vita að þú ferð að lesa yfir þeim jafnvel áður en þau eru búin að tala út, eða þú reiðist þegar þú kemst að raun um hvernig þeim er innanbrjósts, þá er líklegt að þau byrgi tilfinningarnar inni. En ef þau vita að þú hlustar virkilega er miklu líklegra að þau opni sig fyrir þér. — Samanber Orðskviðina 20:5.
En hvað þá ef þau láta í ljós tilfinningar sem þú veist að eru rangar? Er þá rétt að reiðast, lesa þeim pistilinn eða aga þau? Vissulega getur stundum verið erfitt að vera ‚seinn til að tala og seinn til reiði‘ þegar einhver barnaskapur brýst fram. En líttu aftur á fordæmi Guðs í samskiptum við börn sín. Skapar hann andrúmsloft sjúklegs ótta þannig að börnin hans séu hrædd við að segja honum hvernig þeim er raunverulega innanbrjósts? Nei, Sálmur 62:9 segir: „Treyst [Guði], allur þjóðsöfnuðurinn, úthellið hjörtum yðar fyrir honum, Guð er vort hæli.“
Þegar Abraham hafði áhyggjur af þeirri ákvörðun Guðs að eyða borgunum Sódómu og Gómorru hikaði hann ekki við að segja við himneskan föður sinn: „Fjarri sé það þér að gjöra slíkt . . . Mun dómari alls jarðríkis ekki gjöra rétt?“ Jehóva ávítaði ekki Abraham heldur hlustaði á hann og sefaði ótta hans. (1. Mósebók 18:20-33) Guð er einstaklega þolinmóður og mildur, jafnvel þegar börn hans úthella fyrir honum tilfinningum sem eru með öllu óréttlætanlegar og ósanngjarnar. — Jónas 3:10–4:11.
Foreldrar þurfa líka að skapa það umhverfi að börnunum finnist sér óhætt að opinbera innstu tilfinningar sínar, hversu mjög sem þeim gæti brugðið við að heyra þær. Hlustaðu því ef barnið fær tilfinningaþrungna útrás. Í stað þess að skamma barnið skaltu viðurkenna tilfinningar þess og fá það til að segja ástæðuna. Þú gætir til dæmis sagt: „Þú virðist reiður við þennan eða hinn. Viltu segja mér hvað gerðist?“
Að stjórna reiði
Ekkert foreldri er auðvitað jafnþolinmótt og Jehóva. Og börn geta vissulega reynt á þolinmæði foreldra sinna til hins ítrasta. Haltu ekki að þú sért slæmt foreldri þótt þú reiðist stundum við börnin þín. Það er fyllilega réttlætanlegt að þú reiðist af og til. Guð reiðist börnum sínum réttilega stundum, jafnvel sumum sem standa honum mjög nærri. (2. Mósebók 4:14; 5. Mósebók 34:10) En orð hans kennir okkur að hafa hemil á reiðinni. — Efesusbréfið 4:26.
Hvernig? Stundum er gott að taka sér smáhlé uns okkur er runnin reiðin. (Orðskviðirnir 17:14) Og mundu að þetta er barn! Ætlastu ekki til fullorðinshegðunar eða þroskaðrar hugsunar. (1. Korintubréf 13:11) Ef þú skilur af hverju barnið hegðar sér á ákveðinn veg getur það dregið úr reiði þinni. (Orðskviðirnir 19:11) Gleymdu aldrei hvílíkur reginmunur er á því að gera eitthvað slæmt og að vera slæmur. Ef þú hellir þér yfir barnið með óbótaskömmum fyrir það hve slæmt það sé hugsar það ef til vill með sér að það sé kannski ekki þess virði að reyna að vera gott. En ef þú leiðréttir barnið í kærleika hjálparðu því að gera betur næst.
Að viðhalda reglu og virðingu
Eitthvert erfiðasta verkefni foreldra er að innræta börnunum virðingu og skyn á reglu. Í undanlátssömum heimi nútímans spyrja margir hvort það sé hreinlega rétt að setja börnunum skorður. Biblían svarar: „Vöndur og umvöndun veita speki, en agalaus sveinn gjörir móður sinni skömm.“ (Orðskviðirnir 29:15) Sumir hafa andúð á orðinu „vöndur“ og halda að það gefi í skyn einhvers konar misþyrmingu. Svo er hins vegar ekki. Hebreska orðið, sem þýtt er „vöndur,“ merkir stafur eins og fjárhirðir notaði til að leiðbeina sauðunum — ekki berja þá.a Vöndurinn er því tákn um aga.
Í Biblíunni merkir orðið að aga fyrst og fremst að kenna. Þess vegna tala Orðskviðirnir fjórum sinnum um að ‚hlýða á aga.‘ (Orðskviðirnir 1:8; 4:1; 19:27, NW; 8:33, Biblían 1981) Börn þurfa að læra að það hefur umbun í för með sér að gera rétt og slæmar afleiðingar að gera rangt. Refsing getur hnykkt á ávítum fyrir ranga hegðun alveg eins og umbun — svo sem hrós — getur styrkt rétta hegðun. (Samanber 5. Mósebók 11:26-28.) Foreldrar ættu að líkja eftir fordæmi Guðs í sambandi við refsingu, því hann sagði fólki sínu að hann myndi hirta það „í hófi.“ (Jeremía 46:28) Sum börn þurfa ekki nema fáein ávítunarorð til að þau hegði sér vel. Önnur þurfa ákveðnari aga. En hirting „í hófi“ er aldrei slík að hún geti unnið barninu líkamlegt eða tilfinningalegt tjón.
Öfgalaus agi ætti að fela í sér að kenna börnum viðeigandi takmörk. Mörg þeirra eru vel skilgreind í orði Guðs. Biblían kennir virðingu fyrir takmörkum í sambandi við eignarrétt. (5. Mósebók 19:14) Hún setur líkamleg takmörk, svo sem að það sé rangt að elska ofbeldi eða vinna öðrum tjón af ásetningi. (Sálmur 11:5; Matteus 7:12) Hún setur kynferðisleg takmörk og fordæmir sifjaspell. (3. Mósebók 18:6-18) Hún viðurkennir jafnvel persónuleg og tilfinningaleg takmörk og bannar að menn kalli aðra illum nöfnum eða misþyrmi í orðum að öðru leyti. (Matteus 5:22) Það er nauðsynlegt að kenna börnum þessi takmörk — bæði í orði og verki — til að skapa heilbrigt andrúmsloft á heimilinu.
Annar lykill að reglu og virðingu í fjölskyldunni er fólginn í því að skilja hlutverkaskiptinguna innan hennar. Í mörgum fjölskyldum nú á dögum er hlutverkaskiptingin óljós eða á reiki. Sumir foreldrar trúa barni fyrir þungbærum vandamálum sem eru því algerlega ofviða. Í öðrum fjölskyldum fá börnin að leika litla harðstjóra og taka ákvarðanir fyrir alla hina. Það er bæði rangt og skaðlegt. Foreldrum er skylt að sjá fyrir þörfum ungra barna sinna — efnislegum, tilfinningalegum og andlegum — ekki öfugt. (2. Korintubréf 12:14; 1. Tímóteusarbréf 5:8) Tökum Jakob sem dæmi en hann lét alla fjölskyldu sína og fylgdarlið hægja á sér til að íþyngja ekki börnunum. Hann skildi takmörk þeirra og hagaði sér eftir því. — 1. Mósebók 33:13, 14.
Að sinna andlegum þörfum
Ekkert stuðlar meir að heilbrigðu andrúmslofti innan fjölskyldunnar en andlegt hugarfar. (Matteus 5:3, NW) Börn hafa mikla hæfni til að þroska það með sér. Þau eru uppfull af spurningum: Af hverju erum við til? Hver gerði jörðina og dýrin, trén og sjóinn? Af hverju deyr fólk? Hvað gerist svo? Af hverju lendir gott fólk í erfiðleikum? Spurningarnar virðast endalausar. Oft eru það foreldrarnir sem kjósa að hugsa ekki um slík mál.b
Biblían hvetur foreldra til að taka sér tíma til að veita börnunum andlegt uppeldi. Hún fer fögrum orðum um slíkt uppeldi og lýsir því sem samfelldum samræðum foreldra og barna. Foreldrar geta frætt börnin um Guð og orð hans þegar þau eru á gangi, eru heima og um háttatímann — við öll tækifæri. — 5. Mósebók 6:6, 7; Efesusbréfið 6:4.
Biblían mælir ekki aðeins með andlegri fræðslu af þessu tagi. Hún lætur líka í té það efni sem til þarf. Hvernig myndirðu svara spurningum barnsins sem taldar voru upp hér á undan? Biblían inniheldur svörin. Þau eru skýr, hrífandi og veita sterka von í þessum vonlausa heimi. Og það sem betra er, með skilningi á visku Biblíunnar geturðu gefið börnum þínum traustasta akkerið og öruggustu leiðsögnina á hinum ruglingslegu tímum sem við lifum. Veittu þeim þennan skilning og þá dafna þau — nú og í framtíðinni.
[Neðanmáls]
a Sjá Vaknið!, (enska útgáfu) 8. september 1992, bls. 26-7.
b Bókin Lykillinn að hamingjusömu fjölskyldulífi er ætluð til fjölskyldunáms og inniheldur raunhæfar leiðbeiningar frá Biblíunni um hjónaband og barnauppeldi. Hún er gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
[Innskot á blaðsíðu 11]
Reyndu að hrósa barninu þínu að staðaldri fyrir eitthvað sem það gerir.
[Rammi á blaðsíðu 9]
Að hjálpa börnunum að dafna
• Búðu þeim öruggt umhverfi þar sem þau finna að þau eru elskuð og þeirra er þarfnast.
• Hrósaðu þeim að staðaldri og segðu þeim fyrir hvað.
• Hlustaðu vel á þau.
• Taktu þér hlé ef þú reiðist.
• Settu skýr takmörk og vertu sjálfum þér samkvæmur.
• Lagaðu agann að þörfum hvers barns.
• Gerðu ekki meiri kröfur til barnsins en sanngjarnt er.
• Fullnægðu andlegum þörfum barnsins með reglulegu námi í orði Guðs.
[Rammi á blaðsíðu 10]
Á undan sinni samtíð
LÍFSREGLUR Biblíunnar stuðluðu að langtum betra fjölskyldulífi í Forn-Ísrael en þekktist meðal þjóðanna umhverfis. Sagnfræðingurinn Alfred Edersheim segir: „Utan landamæra Ísraels var naumast rétt að tala um nokkurt fjölskyldulíf eða þá fjölskyldu eins og við skiljum þessi hugtök.“ Lög Rómverja til forna veittu föðurnum til dæmis alræðisvald í fjölskyldunni. Hann gat selt börnin sín í þrælkun, látið þau vinna eins og verkamenn eða jafnvel tekið þau af lífi — sér að meinalausu.
Sumum Rómverjum þóttu Gyðingar skrýtnir að fara svona blíðlega með börnin sín. Rómverski sagnaritarinn Tacítus á fyrstu öld skrifaði til dæmis hatursfullan kafla um Gyðinga og sagði að siðir þeirra væru „í senn öfugsnúnir og ógeðslegir.“ En hann viðurkenndi þó: „Það er glæpur hjá þeim að drepa nokkurt nýfætt barn.“
Biblían setti háleitar lífsreglur. Hún kenndi Gyðingum að börn væru dýrmæt — raunar ætti að líta á þau sem gjöf eða arf frá Guði sjálfum — og það ætti að fara með þau samkvæmt því. (Sálmur 127:3) Ljóst er að margir lifðu eftir slíkum ráðleggingum. Jafnvel tungumál Gyðinga leiðir sitthvað í ljós í þessu sambandi. Edersheim nefnir að auk orðanna sonur og dóttir hafi Forn-Hebrear átt níu orð um börn sem hvert um sig var notað um ólík aldursskeið. Til dæmis var til orð um barn sem enn var á brjósti og annað um barn sem vanið hafði verið af brjósti. Um aðeins eldri börn var til orð sem gaf til kynna að þau væru að styrkjast og stálpast. Og um stálpaða unglinga var til orð sem bókstaflega merkti ‚að slíta sig lausan.‘ Edersheim segir: „Ljóst er að þeir sem fylgdust svo grannt með lífi barnanna að þeir gáfu hverju þroskastigi í tilveru þeirra lýsandi heiti hljóta að hafa átt ástúðleg tengsl við börn sín.“