KAFLI 51
Hvernig getum við glatt Jehóva með tali okkar?
Þegar Jehóva skapaði okkur gaf hann okkur dásamlega gjöf, talgáfuna. Honum er alls ekki sama um hvernig við notum þessa gjöf. (Lestu Jakobsbréfið 1:26.) Hvernig getum við talað á þann hátt sem gleður Jehóva?
1. Hvernig getum við notað talgáfuna á góðan hátt?
Biblían segir okkur að ‚halda áfram að uppörva og styrkja hvert annað‘. (1. Þessaloníkubréf 5:11) Veistu um einhverja sem þurfa uppörvun? Hvernig geturðu uppörvað þá? Fullvissaðu þá um að þér sé annt um þá. Þú getur til dæmis sagt þeim hvað þú kannt að meta í fari þeirra. Dettur þér í hug biblíuvers sem gæti uppörvað einhvern sem þú þekkir? Það er úr mörgum að velja. Mundu líka að það sem þú segir er ekki það eina sem hefur áhrif, heldur líka hvernig þú segir það. Reyndu því alltaf að tala vingjarnlega og af mildi. – Orðskviðirnir 15:1.
2. Hvernig ættum við ekki að tala?
Í Biblíunni segir: „Látið ekkert fúkyrði koma af vörum ykkar.“ (Lestu Efesusbréfið 4:29.) Það þýðir að við notum ekki ljótt orðbragð eða særum aðra með því að segja eitthvað ljótt eða móðgandi við þá. Við verðum líka að forðast skaðlegt slúður og að ljúga upp á aðra. – Lestu Orðskviðina 16:28.
3. Hvað getur hjálpað okkur að vera uppbyggileg í tali?
Það sem við tölum um endurspeglar oft það sem okkur er ofarlega í huga og hjarta. (Lúkas 6:45) Við þurfum því að æfa okkur í að hugsa um það sem er jákvætt – það sem er rétt, hreint, elskuvert og lofsvert. (Filippíbréfið 4:8) Til að einbeita okkur að þessu þurfum við að vanda val okkar á vinum og afþreyingu. (Orðskviðirnir 13:20) Það er líka gott að gefa sér tíma til að hugsa áður en maður talar. Hugsaðu um hvaða áhrif það sem þú segir mun hafa á aðra. Í Biblíunni segir: „Hugsunarlaus orð eru eins og sverðstungur en tunga hinna vitru græðir.“ – Orðskviðirnir 12:18.
KAFAÐU DÝPRA
Lærðu hvernig hægt er að tala á þann hátt sem gleður Jehóva og uppörvar aðra.
4. Gættu að því hvernig þú talar
Við segjum öll stundum eitthvað sem við sjáum eftir. (Jakobsbréfið 3:2) Lesið Galatabréfið 5:22, 23 og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:
Hvaða eiginleika gætir þú beðið um hjálp til að rækta með þér til að hafa stjórn á tali þínu? Hvernig gætu þeir hjálpað þér?
Lesið 1. Korintubréf 15:33 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvernig getur val þitt á vinum og afþreyingarefni haft áhrif á hvernig þú talar?
Lesið Prédikarann 3:1, 7 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvenær gæti verið skynsamlegt að þegja eða bíða eftir betri tíma til að tala?
5. Talaðu jákvætt um aðra
Hvernig getum við forðast það að særa aðra eða segja eitthvað óvingjarnlegt? Spilið MYNDBANDIÐ og ræðið síðan eftirfarandi spurningar:
Hvers vegna vildi bróðirinn í myndbandinu breyta því hvernig hann talaði um aðra?
Hvernig breytti hann sér?
Lesið Prédikarann 7:16 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvað ættum við að hafa í huga þegar okkur finnst freistandi að tala illa um einhvern?
Lesið Prédikarann 7:21, 22 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvernig geta þessi vers hjálpað þér að taka það ekki of nærri þér þegar einhver talar illa um þig?
6. Talaðu vingjarnlega við fjölskylduna
Jehóva vill að við tölum við fjölskyldu okkar á vingjarnlegan og kærleiksríkan hátt. Spilið MYNDBANDIÐ og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvað getur hjálpað þér að tala vingjarnlega við fjölskylduna?
Lesið Efesusbréfið 4:31, 32 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvers konar tal byggir upp fjölskylduna?
Jehóva sagði hvað honum fannst um Jesú son sinn. Lesið Matteus 17:5 og ræðið síðan eftirfarandi spurningu:
Hvernig getum við líkt eftir Jehóva í samskiptum við fjölskylduna?
SUMIR SEGJA: „Ég segi það sem mér finnst. Það er ekki mitt vandamál ef einhverjum líkar það ekki.“
Hugsar þú þannig? Hvers vegna?
SAMANTEKT
Orð okkar hafa áhrif á aðra. Við þurfum að hugsa vel um hvað við segjum, hvenær við segjum það og hvernig.
Upprifjun
Hvernig geturðu hjálpað öðrum með því sem þú segir?
Hvers konar tal viltu forðast?
Hvað getur hjálpað okkur að vera alltaf vingjarnleg og uppbyggileg í tali?
KANNAÐU
Hvað getur hjálpað okkur að vera jákvæð í tali?
Kynntu þér hvað getur hjálpað þér að forðast ljótt orðbragð.
Sjáðu hvernig er hægt að varast að falla í þá gryfju að slúðra um aðra.
Lestu um hvernig Jehóva hjálpaði manni að hætta að blóta.
„Ég fór að hugsa alvarlega um það hvert líf mitt stefndi“ (Grein úr Varðturninum)