Matteus segir frá
17 Sex dögum síðar tók Jesús þá Pétur, Jakob og Jóhannes bróður hans með sér upp á hátt fjall þar sem þeir voru einir.+ 2 Þar ummyndaðist hann frammi fyrir þeim. Andlit hans geislaði sem sólin og föt hans urðu skínandi* eins og ljósið.+ 3 Skyndilega birtust Móse og Elía og töluðu við Jesú. 4 Pétur sagði þá við Jesú: „Drottinn, það er gott að vera hér. Ef þú vilt skal ég reisa hér þrjú tjöld, eitt handa þér, eitt handa Móse og eitt handa Elía.“ 5 Meðan hann var enn að tala huldi þá bjart ský og rödd heyrðist úr skýinu sem sagði: „Þetta er sonur minn sem ég elska og hef velþóknun á.+ Hlustið á hann.“+ 6 Lærisveinarnir urðu mjög hræddir þegar þeir heyrðu þetta og féllu á grúfu. 7 Jesús kom þá til þeirra, snerti þá og sagði: „Standið upp. Verið óhræddir.“ 8 Þeir litu upp en sáu nú engan nema Jesú einan. 9 Á leiðinni niður af fjallinu gaf Jesús þeim þessi fyrirmæli: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn hefur verið reistur upp frá dauðum.“+
10 Lærisveinarnir spurðu hann: „Hvers vegna segja fræðimennirnir að Elía eigi að koma fyrst?“+ 11 Hann svaraði: „Elía kemur vissulega og færir allt í samt lag.+ 12 En ég segi ykkur að Elía er þegar kominn og þeir þekktu hann ekki heldur fóru með hann eins og þeim sýndist.+ Eins á Mannssonurinn að þjást af þeirra völdum.“+ 13 Þá skildu lærisveinarnir að hann var að tala um Jóhannes skírara.
14 Þegar þeir nálguðust mannfjöldann+ kom maður til Jesú, féll á kné og sagði: 15 „Drottinn, miskunnaðu syni mínum því að hann er flogaveikur og illa haldinn. Hann fellur oft í eld og oft í vatn.+ 16 Ég fór með hann til lærisveina þinna en þeir gátu ekki læknað hann.“ 17 Jesús svaraði: „Þú trúlausa og spillta kynslóð,+ hve lengi þarf ég að vera hjá ykkur? Hve lengi þarf ég að umbera ykkur? Komið með hann hingað til mín.“ 18 Síðan ávítaði Jesús illa andann, hann fór út af drengnum og drengurinn læknaðist samstundis.+ 19 Þegar lærisveinarnir voru einir með Jesú spurðu þeir hann: „Hvers vegna gátum við ekki rekið hann út?“ 20 Hann svaraði: „Vegna þess að þið hafið ekki næga trú. Trúið mér, ef þið hafið trú á við sinnepsfræ getið þið sagt við þetta fjall: ‚Færðu þig þangað,‘ og það færir sig. Ekkert verður ykkur um megn.“+ 21* ——
22 Meðan þeir voru saman í Galíleu sagði Jesús við þá: „Mannssonurinn verður svikinn í hendur manna+ 23 og þeir munu taka hann af lífi en á þriðja degi verður hann reistur upp.“+ Þeir urðu mjög hryggir við þetta.
24 Þegar þeir voru komnir til Kapernaúm komu mennirnir sem innheimtu musterisskattinn* til Péturs og spurðu: „Greiðir kennari ykkar ekki musterisskattinn?“+ 25 „Jú,“ svaraði hann. En þegar hann kom inn í húsið spurði Jesús hann að fyrra bragði: „Hvað heldur þú, Símon? Af hverjum heimta konungar jarðarinnar tolla eða skatta?* Af sonum sínum eða öðrum?“ 26 „Af öðrum,“ svaraði hann. „Þá eru synirnir undanþegnir skatti,“ sagði Jesús. 27 „En til að við hneykslum þá ekki+ skaltu ganga niður að vatninu, renna öngli og taka fyrsta fiskinn sem þú færð. Þegar þú opnar munninn á honum finnurðu silfurpening.* Taktu hann og greiddu skattinn fyrir mig og þig.“