Líf þitt — Hvaða tilgang hefur það?
„Hjarta mitt skyldi stjórna öllu viturlega . . . uns ég sæi, hvað gott væri fyrir mennina að gjöra . . . alla ævidaga þeirra.“ — PRÉDIKARINN 2:3.
1, 2. Hvers vegna er ekki rangt að láta sér annt um sjálfan sig?
ÞÉR er annt um sjálfan þig, er ekki svo? Það er eðlilegt. Þess vegna borðum við á hverjum degi, við sofum þegar við erum þreytt og okkur finnst gaman að vera með vinum og ættingjum. Stundum förum við í leiki eða sund eða gerum annað sem okkur finnst gaman og ber vott um heilbrigðan áhuga á sjálfum okkur.
2 Slíkur áhugi manns á sjálfum sér kemur heim og saman við það sem Guð lét Salómon skrifa: „Það er ekkert betra til með mönnum en að eta og drekka og láta sálu sína njóta fagnaðar af striti sínu.“ Vegna þessarar reynslu bætti Salómon við: „En það hefi ég séð, að einnig þetta kemur af Guðs hendi. Því að hver má eta eða neyta nokkurs án hans?“ — Prédikarinn 2:24, 25.
3. Hvaða erfiðum spurningum finna fæstir svör við?
3 En þú veist að lífið er meira en matur og drykkur, fögnuður og svefn. Við þolum líka þrautir, vonbrigði og áhyggjur. Og við virðumst eiga of annríkt til að hugleiða tilgang lífsins. Er það ekki reynsla þín? Vermont Royster, fyrrverandi ritstjóri The Wall Street Journal, benti á að maðurinn hafi vissulega aukið þekkingu sína og færni, en bætti svo við: „Hér kemur dálítið einkennilegt í ljós. Frá upphafi sögunnar hefur okkur lítið miðað áfram við að finna svör við spurningum okkar um manninn sjálfan, vandamál hans og hlutverk í alheiminum. Við sitjum enn uppi með þær spurningar hverjir við séum, hvers vegna við séum til og hvert við förum.“
4. Hvers vegna ættum við öll að vilja vera fær um að svara spurningum sem snerta okkur?
4 Hvernig svarar þú eftirfarandi spurningum: ‚Hverjir erum við? Hvers vegna erum við til? Og hvert förum við?‘ Royster lést í júlí síðastliðnum. Heldurðu að hann hafi verið búinn að finna viðunandi svör þá? Og það sem meira máli skiptir, er nokkur leið fyrir þig til að finna svörin? Hvernig getur það veitt þér hamingjuríkari og tilgangsríkari tilveru? Athugum málið.
Uppspretta innsæis
5. Hvers vegna ættum við að leita svara hjá Guði við spurningum um tilgang lífsins?
5 Ef við værum að leita að tilgangi lífsins upp á eigin spýtur er viðbúið að okkur yrði lítið eða ekkert ágengt líkt og flestum, jafnvel lærðustu og reyndustu mönnum. En við þurfum ekki að spjara okkur ein og óstudd. Skaparinn hefur veitt okkur hjálp. Er ekki niðurstaðan sú þegar þú hugleiðir málið, að hann sé æðsta uppspretta innsæis og visku þar sem hann er „frá eilífð til eilífðar“ og býr yfir fullkominni þekkingu á alheiminum og mannkynssögunni? (Sálmur 90:1, 2) Hann skapaði manninn og hefur fylgst með öllu sem drifið hefur á daga hans, þannig að við ættum að leita innsæis hjá honum, ekki hjá ófullkomnum mönnum með takmarkaða þekkingu og skilning. — Sálmur 14:1-3; Rómverjabréfið 3:10-12.
6. (a) Hvernig hefur skaparinn veitt okkur það innsæi sem við þurfum? (b) Hvernig er Salómon tengdur því?
6 Við getum auðvitað ekki reiknað með að skaparinn opinberi okkur hverju fyrir sig hver sé tilgangur lífsins. Hann hefur hins vegar látið í té innsæisuppsprettu — innblásið orð sitt. (Sálmur 32:8; 111:10) Biblíubókin, sem nefnd er Prédikarinn, er sérstaklega gagnleg að þessu leyti. Guð veitti Salómon, ritara hennar, innblástur þannig að „speki Salómons var meiri en speki allra austurbyggja.“ (1. Konungabók 3:6-12; 4:30-34) „Speki Salómons“ hafði þvílík áhrif á gestkomandi drottningu að hún kvaðst ekki hafa frétt helminginn, og bætti við að þeir sem heyrðu visku hans hlytu að vera mjög hamingjusamir.a (1. Konungabók 10:4-8) Viskan, sem skaparinn veitti fyrir milligöngu Salómons, getur líka veitt okkur skilning og gleði.
7. (a) Að hvaða niðurstöðu komst Salómon í sambandi við flest sem fram fer undir himninum? (b) Hvað sýnir raunsæi Salómons?
7 Prédikarinn ber vitni um guðlega visku sem hafði áhrif á hjarta og huga Salómons. Salómon hafði tíma, fjármagn og innsæi til að rannsaka ‚allt það er gerðist undir himninum.‘ Hann komst að raun um að mest af því var „hégómi og eftirsókn eftir vindi,“ og það er innblásið mat sem við ættum að hafa í huga þegar við ígrundum tilgang lífsins. (Prédikarinn 1:13, 14, 16) Salómon var hreinskilinn og raunsær. Hugsaðu til dæmis um orð hans í Prédikaranum 1:15, 18. Þú veist að í aldanna rás hafa menn prófað ýmiss konar stjórnarform og hafa stundum í einlægni reynt að leysa vandamál og bæta hlutskipti fólks. En hefur nokkurri stjórn tekist í alvöru að bæta úr öllu því sem er ‚bogið‘ við þetta ófullkomna kerfi? Og þér er kannski ljóst að því meiri sem þekking mannsins er, þeim mun meir finnur hann fyrir því hve ógerlegt er á stuttri ævi að lagfæra allt að fullu. Slík vitneskja veldur mörgum manninum vonbrigðum, en hún þarf ekki endilega að vera okkur til skapraunar.
8. Hvaða hringrásir hafa lengi verið til?
8 Annað umhugsunarefni eru hinar stöðugu hringrásir sem hafa áhrif á okkur, svo sem sólarupprás og sólarlag og hringrás vatns og vinda. Þær voru til á dögum Móse, Salómons, Napóleons og langafa okkar. Og þær ganga enn sinn gang. Eins er það að „ein kynslóðin fer og önnur kemur.“ (Prédikarinn 1:4-7) Frá mannlegum bæjardyrum séð hefur lítið breyst. Fólk tók sér svipað fyrir hendur til forna og nú, hafði sambærilegar vonir og metnaðarmál og vann svipuð afrek. Jafnvel þótt einhver hafi skapað sér nafn og búið yfir einstakri fegurð eða hæfileikum, hvar er hann núna? Hann er horfinn og sennilega gleymdur. Þetta er engin bölsýni. Fæstir geta jafnvel nafngreint langafa sína eða tilgreint hvar þeir fæddust og hvar þeir eru grafnir. Þú sérð hvers vegna Salómon var raunsær í mati sínu á hégómleika mannlegra athafna og viðfangsefna. — Prédikarinn 1:9-11.
9. Hvað getur hjálpað okkur að sjá stöðu mannkynsins með raunsæi?
9 Þessi skilningur, sem Guð veitir á aðstæðum mannkynsins, ætti ekki að gera okkur döpur heldur vera okkur til gagns. Hann getur forðað okkur frá þeim mistökum að leggja of mikið upp úr markmiðum eða viðfangsefnum sem bráðlega verða gleymd og grafin. Hann ætti að hjálpa okkur að leggja mat á það sem við fáum út úr lífinu og það sem við erum að reyna að áorka. Tökum dæmi: Við þurfum ekki að lifa meinlætalífi heldur getum við notið matar og drykkjar í hófi. (Prédikarinn 2:24) Eins og við munum sjá var Salómon mjög jákvæður og bjartsýnn í niðurstöðu sinni. Í stuttu máli er hún sú að við ættum að meta mikils samband okkar við skaparann sem getur hjálpað okkur að vera hamingjusöm og hafa tilgang í lífinu að eilífu. Salómon sagði: „Vér skulum hlýða á niðurlagsorðið í því öllu: Óttastu Guð og haltu hans boðorð, því að það á hver maður að gjöra.“ — Prédikarinn 12:13.
Tilgangurinn ljós af hringrásum lífsins
10. Hvernig bar Salómon saman menn og dýr?
10 Viska Guðs, sem birtist í Prédikaranum, getur hjálpað okkur enn frekar að íhuga tilgang lífsins. Hvernig þá? Á þann hátt að Salómon benti með raunsæi á önnur sannindi sem við hugsum kannski sjaldan um. Meðal annars benti hann á að sumt væri hliðstætt með mönnum og dýrum. Jesús líkti fylgjendum sínum við sauði, en yfirleitt vilja menn ekki láta líkja sér við dýr. (Jóhannes 10:11-16) Salómon benti engu að síður á nokkrar óvéfengjanlegar staðreyndir: „Guð [reynir mennina] til þess að þeir sjái, að þeir eru sjálfir ekki annað en skepnur. Því að örlög mannanna og örlög skepnunnar — örlög þeirra eru hin sömu: Eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn, . . . og yfirburði hefir maðurinn enga fram yfir skepnuna, því að allt er hégómi. . . . Allt er af moldu komið, og allt hverfur aftur til moldar.“ — Prédikarinn 3:18-20.
11. (a) Hvernig er hægt að lýsa dæmigerðu lífsferli dýrs? (b) Hvað finnst þér um svona greiningu?
11 Hugsaðu þér dýr sem þú hefur gaman af að horfa á, til dæmis héra eða kanínu. (5. Mósebók 14:7; Sálmur 104:18; Orðskviðirnir 30:26) Eða kannski sérðu fyrir þér íkorna sem er til í liðlega 300 afbrigðum um heim allan. Hvernig er lífsferill hans? Ungi fæðist og móðirin hefur hann á spena í nokkrar vikur. Fljótlega vex honum feldur og hann áræðir út úr bælinu. Þú sérð hann skjótast um og læra að leita sér fæðu. En oft virðist hann bara vera að leika sér og njóta æskunnar. Um það bil ársgamall finnur hann sér maka. Þá þarf hann að gera sér bæli og sjá fyrir afkvæmi. Ef hann finnur nóg af berjum, hnetum og fræjum verður íkornafjölskyldan bústin og hefur kannski tíma til að stækka heimili sitt. En það líða ekki nema fáein ár þangað til ellihrörnun gerir vart við sig og dýrinu verður hættara við slysum og sjúkdómum. Það deyr um tíu ára gamalt. Þannig er lífsferill hinna ýmsu íkornategunda að öllu jöfnu.
12. (a) Hvers vegna er æviskeið margra manna lítið frábrugðið dýrunum? (b) Hvað gætum við hugleitt næst þegar við sjáum dýrið sem við höfðum í huga?
12 Flestum þykir þetta eðlilegt æviskeið hjá dýri og fæstir reikna með að íkorninn hafi nokkurn yfirvegaðan tilgang í lífinu. En er ekki líf margra manna ósköp svipað? Þeir fæðast og fá umönnun í bernsku. Þeir nærast, stækka og leika sér á barnsaldri. Áður en langt um líður eru þeir fullvaxta, finna sér maka og leita sér að hentugum bústað og leið til að sjá fyrir sér. Ef vel gengur verða þeir kannski bústnir og finna sér stærra heimili (bæli) til að ala upp afkvæmi. En áratugirnir líða fljótt og aldurinn sækir á. Svo deyja þeir eftir 70 eða 80 ár full af ‚mæðu og hégóma,‘ ef ekki fyrr. (Sálmur 90:9, 10, 12) Þú gætir leitt hugann að þessu næst þegar þú sérð íkorna (eða annað dýr sem þú hafðir í huga.)
13. Hvað sannast bæði á mönnum og dýrum?
13 Þú sérð hvers vegna Salómon bar saman æviskeið manna og dýra. Hann skrifaði: „Öllu er afmörkuð stund . . . Að fæðast hefir sinn tíma og að deyja hefir sinn tíma.“ Hið síðarnefnda, dauðinn, er svipaður hjá mönnum og dýrum því að „eins og skepnan deyr, svo deyr og maðurinn.“ Hann bætti við: „Allt er af moldu komið, og allt hverfur aftur til moldar.“ — Prédikarinn 3:1, 2, 19, 20.
14. Hvernig reyna menn stundum að breyta hinni almennu hringrás lífsins en hver er árangurinn?
14 Við þurfum ekki að líta á þetta raunsæja mat sem bölsýni. Sumir reyna að vísu að bæta hlutskipti sitt, til dæmis með því að vinna meira til að hafa það betra en foreldrarnir. Þeir mennta sig kannski lengur til að auka lífsgæði sín og reyna jafnframt að skilja lífið betur. Sumir einbeita sér að líkamsrækt og mataræði til að bæta heilsuna og lifa ögn lengur. Og allt getur þetta haft sína kosti. En hver getur verið viss um að það skili árangri? Og þótt það skili árangri, hversu lengi dugir það?
15. Hvaða hreinskilnislegt mat á lífi flestra manna er í fullu gildi?
15 Salómon spurði: „Og þótt til séu mörg orð, sem auka hégómann — hvað er maðurinn að bættari? Því að hver veit, hvað gott er fyrir manninn í lífinu, alla daga hans fánýta lífs, er hann lifir sem skuggi? Því að hver segir manninum, hvað bera muni við eftir hans dag?“ (Prédikarinn 6:11, 12) Þar eð dauðinn bindur tiltölulega skjótt enda á viðleitni mannsins, er þá ekki í rauninni til lítils að strita til að afla sér fleiri efnislegra gæða eða sitja áralangt á skólabekk til þess eins að eignast meira? Og þegar menn uppgötva að þeim hefur mistekist átta þeir sig kannski á því að þeim vinnst ekki tími til að beina kröftum sínum að nýjum markmiðum, því að lífið er svo stutt, eins og skuggi sem líður hjá. Auk þess veit maðurinn ekki heldur hvað verður um börn hans „eftir hans dag.“
Tímabært að ávinna sér gott mannorð
16. (a) Hvað ættum við að gera sem dýrin geta ekki? (b) Hvaða önnur sannindi ættu að hafa áhrif á hugsun okkar?
16 Ólíkt dýrunum erum við mennirnir færir um að ígrunda hver sé tilgangur lífsins. Er hann bara föst hringrás frá vöggu til grafar? Mundu hvað Salómon sagði um menn og dýr: „Allt hverfur aftur til moldar.“ Þýðir það að dauðinn bindi algerlega enda á tilveru mannsins? Biblían bendir á að mennirnir hafi ekki ódauðlega sál sem lifi líkamsdauðann. Menn eru sálir og sú sál deyr sem syndgar. (Esekíel 18:4, 20) Salómon skýrði málið nánar: „Þeir sem lifa, vita að þeir eiga að deyja, en hinir dauðu vita ekki neitt og hljóta engin laun framar, því að minning þeirra gleymist. Allt, sem hönd þín megnar að gjöra með kröftum þínum, gjör þú það, því að í dánarheimum [gröfinni], þangað sem þú fer, er hvorki starfsemi né hyggindi né þekking né viska.“ — Prédikarinn 9:5, 10.
17. Hvað ætti Prédikarinn 7:1, 2 að vekja okkur til umhugsunar um?
17 Í ljósi þessarar óumflýjanlegu staðreyndar skaltu líta á þessi orð: „Betra er gott mannorð en góð ilmsmyrsl og dauðadagur betri en fæðingardagur. Betra er að ganga í sorgarhús en að ganga í veislusal, því að það eru endalok sérhvers manns, og sá sem lifir, hugfestir það.“ (Prédikarinn 7:1, 2) Við verðum að viðurkenna að dauðinn hefur verið „endalok sérhvers manns.“ Engin elixír, vítamínblanda, mataræði eða líkamsrækt getur veitt mönnum eilíft líf. Og yfirleitt ‚gleymist minning þeirra‘ skömmu eftir að þeir eru dánir. Hvers vegna er þá ‚gott mannorð betra en góð ilmsmyrsl og dauðadagur betri en fæðingardagur‘?
18. Hvers vegna getum við verið viss um að Salómon trúði á upprisuna?
18 Salómon var raunsær eins og bent hefur verið á. Hann vissi af forfeðrum sínum, þeim Abraham, Ísak og Jakob sem höfðu vissulega áunnið sér gott mannorð hjá skaparanum. Jehóva Guð þekkti Abraham vel og hét að blessa hann og afkvæmi hans. (1. Mósebók 18:18, 19; 22:17) Já, Abraham hafði gott mannorð hjá Guði og varð vinur hans. (2. Kroníkubók 20:7; Jesaja 41:8; Jakobsbréfið 2:23) Abraham vissi að líf hans og sonar hans var ekki bara hluti af endalausri hringrás fæðingar og dauða. Það hafði greinilega meiri tilgang en það. Þeir áttu sér örugga von um að lifa aftur síðar, ekki vegna ódauðlegrar sálar heldur upprisu. Abraham var sannfærður um að „Guð væri þess jafnvel megnugur að vekja [Ísak] upp frá dauðum.“ — Hebreabréfið 11:17-19.
19. Hvaða ljósi varpar Jobsbók á merkingu Prédikarans 7:1?
19 Þetta er skýringin á því hvers vegna ‚gott mannorð getur verið betra en góð ilmsmyrsl og dauðadagur betri en fæðingardagur.‘ Eins og Job forðum daga var Salómon sannfærður um að skapari mannsins gæti lífgað hann aftur. Hann getur gefið látnum líf. (Jobsbók 14:7-14) Hinn trúfasti Job sagði: „Þú [Jehóva] mundir kalla, og ég — ég mundi svara þér, þú mundir þrá verk handa þinna.“ (Jobsbók 14:15) Hugsaðu þér. Skapari okkar ‚þráir‘ að sjá drottinholla þjóna sína sem dánir eru. („Þú myndir vilja sjá handaverk þín aftur.“ — The Jerusalem Bible.) Með því að beita lausnarfórn Jesú Krists getur skaparinn reist menn upp frá dauðum. (Jóhannes 3:16; Postulasagan 24:15) Ljóst er að menn geta átt sér aðra framtíð en dýr sem bara deyja.
20. (a) Hvenær er dauðadagur betri en fæðingardagur? (b) Hvaða áhrif hlýtur upprisa Lasarusar að hafa haft á marga?
20 Þetta þýðir að dauðadagur manns getur verið betri en fæðingardagur ef hann hefur áunnið sér gott mannorð hjá Jehóva sem getur reist trúfasta menn upp frá dauðum. Hinn meiri Salómon, Jesús Kristur, sannaði það. Til dæmis vakti hann hinn trúfasta Lasarus upp frá dauðum. (Lúkas 11:31; Jóhannes 11:1-44) Eins og þú getur ímyndað þér voru margir djúpt snortnir sem urðu vitni að upprisu Lasarusar og tóku að trúa á son Guðs. (Jóhannes 11:45) Heldurðu að þeim hafi fundist sig skorta tilgang í lífinu, að þeir hafi enga hugmynd haft um hverjir þeir væru og hvert þeir færu? Auðvitað ekki, því að þeir gerðu sér ljóst að þeir þurftu ekki að vera eins og dýr sem fæðast, lifa um skeið og deyja svo. Tilgangur þeirra í lífinu var nátengdur því að þekkja föður Jesú og gera vilja hans. Hvað um þig? Hefur þessi umræða sýnt þér fram á hvernig líf þitt getur haft raunverulegan tilgang og ætti að gera það, eða glöggvað skilning þinn á því?
21. Hvaða hlið á tilgangi lífsins viljum við skoða nánar?
21 En sannur og innihaldsríkur tilgangur í lífinu felur miklu meira í sér en að hugsa um dauðann og upprisu þar á eftir. Hann felur í sér hvernig við notum líf okkar dags daglega. Salómon sýndi líka fram á það í Prédikaranum eins og við sjáum í greininni á eftir.
[Neðanmáls]
a „Sagan af drottningunni af Saba leggur áherslu á visku Salómons, og hún hefur oft verið kölluð þjóðsaga. (1Kon. 10:1-13) En samhengið gefur til kynna að heimsókn hennar til Salómons hafi raunar tengst viðskiptum og frásagan er skiljanleg á þeim forsendum; ekki þarf að draga sannsögulegt gildi hennar í efa.“ — The International Standard Bible Encyclopedia (1988), IV bindi, bls. 567.
Manstu?
◻ Hvað er sambærilegt með mönnum og dýrum?
◻ Hvernig sýnir dauðinn fram á að stór hluti af brölti og viðleitni manna er hégómi?
◻ Hvernig getur dauðadagur verið betri en fæðingardagur?
◻ Á hvaða sambandi byggist innihaldsríkur tilgangur í lífinu?
[Mynd á blaðsíðu 21]
Hvaða verulegur munur er á lífi þínu og dýranna?