Frelsun inn í réttlátan, nýjan heim
„[Þeir skulu] gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — SÁLMUR 37:11.
1, 2. (a) Hvernig verður frelsun Jehóva nú á tímum ólík fyrri tíma frelsun? (b) Inn í hvers konar heim leiðir Jehóva fólk sitt?
JEHÓVA er Guð sem frelsar. Til forna frelsaði hann fólk sitt mörgum sinnum. Þessi frelsun var tímabundin því að í engu tilviki fullnægði Jehóva endanlegum dómi á heimi Satans í heild. En bráðlega vinnur Jehóva stórkostlegasta frelsunarverk sitt í þágu allra þjóna sinna. Í þetta sinn eyðir hann hverjum snefli af heimskerfi Satans um heim allan og leiðir þjóna sína inn í varanlegan, réttlátan, nýjan heim. — 2. Pétursbréf 2:9; 3:10-13.
2 Jehóva lofar: „Innan stundar eru engir guðlausir til framar . . . En hinir hógværu fá landið [„jörðina,“ NW] til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ (Sálmur 37:10, 11) Hversu lengi? „Hinir réttlátu fá landið til eignar og búa í því um aldur.“ (Sálmur 37:29; Matteus 5:5) En áður en það gerist gengur heimurinn gegnum mesta þrengingatíma sem orðið hefur.
‚Þrengingin mikla‘
3. Hvernig lýsti Jesús ‚þrengingunni miklu‘?
3 ‚Síðustu dagar‘ þessa heims runnu upp árið 1914. (2. Tímóteusarbréf 3:1-5, 13) Nú eru liðin 83 ár af þessu tímabili og það er senn á enda. „Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða“ aftur, spáði Jesús. (Matteus 24:21) Já, verri þrenging en síðari heimsstyrjöldin þegar um 50 milljónir manna létu lífið. Hvílík heimsumbrot eru í aðsigi!
4. Hvers vegna kemur dómur Guðs yfir ‚Babýlon hina miklu‘?
4 ‚Þrengingin mikla‘ kemur mjög óvænt, eins og „á einni stundu.“ (Opinberunarbókin 18:10) Hún hefst með því að Guð fullnægir dómi á öllum fölskum trúarbrögðum sem orð hans kallar einu nafni ‚Babýlon hina miklu.‘ (Opinberunarbókin 17:1-6, 15) Babýlon fortíðar einkenndist öðru fremur af falstrúarbrögðum. Babýlon nútímans er eins og hin forna fyrirmynd og táknar heimsveldi falskra trúarbragða. Hún hefur hagað sér eins og skækja með því að gera sér dælt við stjórnmálaöflin. Hún hefur stutt stríð þeirra og blessað heri gagnstæðra fylkinga með þeim afleiðingum að fólk sömu trúar hefur strádrepið hvert annað. (Matteus 26:51, 52; 1. Jóhannesarbréf 4:20, 21) Hún hefur lokað augunum fyrir spillingu áhangenda sinna og ofsótt sannkristna menn. — Opinberunarbókin 18:5, 24.
5. Hvernig hefst ‚þrengingin mikla‘?
5 ‚Þrengingin mikla‘ hefst þegar stjórnmálaöflin snúast skyndilega gegn ‚Babýlon hinni miklu.‘ Þau „munu hata skækjuna og gjöra hana einmana og nakta, eta hold hennar og brenna hana í eldi.“ (Opinberunarbókin 17:16) Eftir það munu þeir sem áður studdu hana „gráta og kveina yfir henni.“ (Opinberunarbókin 18:9-19) En þjónar Jehóva hafa vænst þessa lengi og þeir munu hrópa: „Hallelúja! . . . Hann hefur dæmt skækjuna miklu, sem jörðunni spillti með saurlifnaði sínum, og hann hefur látið hana sæta hefnd fyrir blóð þjóna sinna.“ — Opinberunarbókin 19:1, 2.
Ráðist á þjóna Guðs
6, 7. Af hverju geta þjónar Jehóva verið öruggir þegar ráðist verður á þá í ‚þrengingunni miklu‘?
6 Eftir að stjórnmálaöflin hafa eytt falstrúarbrögðunum snúa þau sér að þjónum Jehóva. Satan, nefndur „Góg í Magóglandi“ í spádómum, segir: „Ég vil . . . ráða á friðsama menn, sem búa óhultir.“ Hann hyggur að þeir séu auðveld bráð og ræðst á þá með ‚fjölmennum her, eins og óveðursský til þess að hylja landið.‘ (Esekíel 38:2, 10-16) Þjónar Jehóva vita að þessi árás mistekst af því að þeir treysta honum.
7 Þegar Faraó og her hans áleit sig hafa króað þjóna Guðs af við Rauðahafið frelsaði Guð fólk sitt á undraverðan hátt og eyddi her Egypta. (2. Mósebók 14:26-28) Í ‚þrengingunni miklu,‘ þegar þjóðirnar telja sig hafa króað þjóna Jehóva af, kemur hann þeim aftur til bjargar á undraverðan hátt: „Þann dag . . . mun reiðin blossa í nösum mér. Í ákefð minni, í minni brennandi heift, tala ég það.“ (Esekíel 38:18, 19) Hámark ‚þrengingarinnar miklu‘ verður þá yfirvofandi.
8. Hvaða yfirnáttúrlegir atburðir eiga sér stað áður en Jehóva útrýmir hinum illu og með hvaða afleiðingum?
8 Yfirnáttúrlegir atburðir eiga sér stað einhvern tíma eftir að ‚þrengingin mikla‘ hefst, en áður en Jehóva fullnægir dómi sínum á þessum heimi í heild. Taktu eftir áhrifum þeirra. „Þá mun tákn Mannssonarins [Krists] birtast á himni, og allar kynkvíslir jarðarinnar hefja kveinstafi. Og menn munu sjá Mannssoninn koma á skýjum himins með mætti og mikilli dýrð.“ (Matteus 24:29, 30) „Tákn munu verða á sólu, tungli og stjörnum . . . Menn munu gefa upp öndina af ótta og kvíða fyrir því, er koma mun yfir heimsbyggðina.“ — Lúkas 21:25, 26.
„Lausn yðar er í nánd“
9. Hvers vegna geta þjónar Jehóva ‚lyft upp höfðum sínum‘ þegar yfirnáttúrlegir atburðir eiga sér stað?
9 Á þessari stundu rætist spádómurinn í Lúkasi 21:28. Jesús sagði: „Þegar þetta tekur að koma fram, þá réttið úr yður og lyftið upp höfðum yðar, því að lausn yðar er í nánd.“ Óvinir Guðs skjálfa af ótta vegna þess að þeir vita að hinir yfirnáttúrlegu atburðir eru verk Jehóva. En þjónar Jehóva fagna af því að þeir vita að frelsun þeirra er í nánd.
10. Hvernig lýsir orð Guðs hámarki ‚þrengingarinnar miklu‘?
10 Þá greiðir Jehóva kerfi Satans banahöggið: „Ég vil ganga í dóm við hann [Góg] með drepsótt og blóðsúthelling, með dynjandi steypiregni og haglsteinum. Eldi og brennisteini vil ég rigna láta yfir hann og yfir hersveitir hans . . . til þess að þær viðurkenni, að ég er [Jehóva].“ (Esekíel 38:22, 23) Enginn snefill verður eftir af kerfi Satans; því er eytt með öllu. Mannfélaginu, sem virti Guð einskis, er útrýmt algerlega. Þetta er hámark ‚þrengingarinnar miklu,‘ Harmagedónstríðið. — Jeremía 25:31-33; 2. Þessaloníkubréf 1:6-8; Opinberunarbókin 16:14, 16; 19:11-21.
11. Hvers vegna eru þjónar Jehóva frelsaðir úr ‚þrengingunni miklu‘?
11 Þær milljónir, sem tilbiðja Jehóva um heim allan, verða frelsaðar úr ‚þrengingunni miklu.‘ Þetta fólk myndar ‚múginn mikla‘ sem er „af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ Hvers vegna eru þeir frelsaðir með svona stórbrotnum hætti? Vegna þess að þeir þjóna Jehóva „dag og nótt.“ Þess vegna lifa þeir af endalok þessa heims og eru leiddir inn í réttlátan, nýjan heim. (Opinberunarbókin 7:9-15) Þannig sjá þeir fyrirheit Jehóva rætast: „Vona á [Jehóva] og gef gætur að vegi hans, þá mun hann hefja þig upp, að þú erfir landið, og þú skalt horfa á, þegar illvirkjum verður útrýmt.“ — Sálmur 37:34.
Nýi heimurinn
12. Til hvers geta þeir hlakkað sem lifa Harmagedónstríðið af?
12 Það verður stórkostlegur tími — illskunni útrýmt og dýrlegustu tímar allrar mannkynssögunnar renna upp! (Opinberunarbókin 20:1-4) Þeir sem bjargast úr Harmagedónstríðinu verða gagnteknir þakklæti til Jehóva. Þeir eru komnir inn í hreina og fagra siðmenningu sem Guð hefur skapað, í nýjan heim, á jörð sem breytt verður í paradís! (Lúkas 23:43, NW) Og þeir þurfa aldrei að eilífu að deyja! (Jóhannes 11:26) Þaðan í frá hafa þeir þá undraverðu og stórkostlegu von að lifa jafnlengi og Jehóva!
13. Hvernig tekur Jesús aftur til við þær lækningar sem hann hóf á jörðinni?
13 Jesús, sem Jehóva hefur skipað himneskan konung, hefur umsjón með að veita hinum frelsuðu stórkostlega blessun. Þegar hann var á jörð opnaði hann augu blindra og eyru daufra og læknaði „hvers kyns sjúkdóm og veikindi.“ (Matteus 9:35; 15:30, 31) Í nýja heiminum tekur hann aftur til við að lækna, en nú á heimsmælikvarða. Sem fulltrúi Guðs uppfyllir hann fyrirheitið: „[Guð] mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ (Opinberunarbókin 21:4) Aldrei framar verður þörf á læknum eða útfararstjórum. — Jesaja 25:8; 33:24.
14. Hvaða frelsun veitir Jehóva látnum þjónum sínum?
14 Guð frelsar líka alla trúfasta þjóna sína sem dánir eru. Í nýja heiminum verður þeim bjargað úr greipum grafarinnar. Jehóva fullvissar okkur um að „upp muni rísa bæði réttlátir og ranglátir.“ (Postulasagan 24:15) Líklegt er að hinir ‚réttlátu‘ verði reistir upp á undan og fái að vinna að því að stækka paradís. Það verður hrífandi fyrir þá sem lifa Harmagedón af að heyra þessa trúföstu menn fortíðar, sem nú eru upprisnir, segja frá! — Jóhannes 5:28, 29.
15. Lýstu ástandinu í nýja heiminum.
15 Allir þálifandi menn kynnast af eigin raun því sem sálmaritarinn sagði um Jehóva: „Þú lýkur upp hendi þinni og seður allt sem lifir með blessun.“ (Sálmur 145:16) Hungur verður ekki til framar: Vistkerfi jarðar endurheimtir jafnvægi sitt og gefur ríkulega af sér. (Sálmur 72:16) Enginn verður heimilislaus: „Þeir munu reisa hús og búa í þeim,“ og „hver mun búa undir sínu víntré og undir sínu fíkjutré og enginn hræða þá.“ (Jesaja 65:21, 22; Míka 4:4) Ótti verður liðin tíð: Hvorki verða stríð, ofbeldi né glæpir. (Sálmur 46:9, 10; Orðskviðirnir 2:22) „Öll jörðin nýtur nú hvíldar og friðar, fagnaðarópin kveða við.“ — Jesaja 14:7.
16. Hvers vegna mun réttlæti ríkja í nýja heiminum?
16 Áróðursmiðlar Satans verða ekki til í nýja heiminum. Þess í stað „læra byggjendur jarðríkis réttlæti.“ (Jesaja 26:9; 54:13) Með heilnæmri, andlegri fræðslu ár eftir ár verður jörðin „full af þekkingu á [Jehóva], eins og djúp sjávarins er vötnum hulið.“ (Jesaja 11:9) Mannkynið verður gagntekið af uppbyggjandi hugsunum og verkum. (Filippíbréfið 4:8) Hugsaðu þér heimssamfélag manna sem er laust við glæpi, sjálfselsku og öfund — alþjóðlegt bræðralag manna sem allir bera ávöxt anda Guðs. Múgurinn mikli er nú þegar að rækta með sér þennan ávöxt. — Galatabréfið 5:22, 23.
Hvers vegna svona lengi?
17. Hvers vegna hefur Jehóva beðið svona lengi með að binda enda á illskuna?
17 En hvers vegna hefur Jehóva beðið svona lengi með að afmá illskuna og frelsa fólk sitt inn í nýja heiminn? Hugleiddu það sem áorka þurfti. Í fyrsta lagi þurfti að réttlæta drottinvald Jehóva, rétt hans til að stjórna. Með því að láta nógu langan tíma líða hefur hann sýnt umfram allan vafa að mönnum hefur mistekist hrapallega að stjórna óháð drottinvaldi hans. (Jeremía 10:23) Jehóva er þess vegna fyllilega réttlættur í því núna að láta mannastjórn víkja fyrir himneskri stjórn sinni í höndum Krists. — Daníel 2:44; Matteus 6:9, 10.
18. Hvenær áttu afkomendur Abrahams að erfa Kanaanland?
18 Það sem gerst hefur allar þessar aldir er líkt því sem gerðist á dögum Abrahams. Jehóva sagði Abraham að afkomendur hans myndu erfa Kanaanland — en ekki fyrr en eftir 400 ár ‚því að enn höfðu Amorítar eigi fyllt mæli synda sinna.‘ (1. Mósebók 12:1-5; 15:13-16) Hér er orðið „Amorítar“ (sem voru ráðandi ættflokkur) líklega notað um íbúa Kanaanlands í heild. Um fjórar aldir myndu því líða uns Jehóva gerði fólki sínu kleift að vinna Kanaanland. Þangað til leyfði Jehóva þjóðunum í Kanaan að þróa þjóðfélög sín. Með hvaða afleiðingum?
19, 20. Hvers konar þjóðfélög þróuðu Kanverjar?
19 Bókin Bible Handbook eftir Henry H. Halley bendir á að í Megiddó hafi fornleifafræðingar fundið rústir musteris Astarte, gyðju sem var eiginkona Baals. Hann skrifar: „Aðeins fáeinum skrefum frá musterinu var grafreitur þar sem fundust fjöldamargar krúsir með leifum ungbarna er fórnað hafði verið í þessu musteri . . . Spámenn Baals og Astarte voru opinberir ungbarnamorðingjar.“ „Svokallaðar ‚undirstöðufórnir‘ voru annar hræðilegur siður. Þegar reisa átti hús var barni fórnað og líkið múrað inn í vegginn.“
20 Halley segir: „Dýrkun Baals, Astarte og annarra guða Kanverja fólst í yfirgengilegu kynsvalli; musteri þeirra voru spillingarbæli. . . . Kanverjar tilbáðu guði sína með því að fullnægja siðlausum fýsnum . . . og síðan með því að myrða frumgetin börn sín sem fórn handa þessum sömu guðum. Kanaanland virðist að verulegu leyti hafa orðið eins konar Sódóma og Gómorra á landsvísu. . . . Átti siðmenning er einkenndist af jafnviðurstyggilegum sora og grimmd sér nokkurn tilverurétt lengur? . . . Fornleifafræðingar, sem grafa upp borgarrústir Kanverja, undrast að Guð skyldi ekki tortíma þeim fyrr en hann gerði.“ — Samanber 1. Konungabók 21:25, 26.
21. Hvað er líkt með tímum Kanverja og okkar?
21 Amorítar höfðu „fyllt mæli“ illsku sinnar. Jehóva var því fyllilega réttlættur í því að útrýma þeim. Hið sama er uppi á teningnum núna. Þessi heimur er fullur ofbeldis, siðleysis og fyrirlitningar á lögum Guðs. Okkur hryllir réttilega við hinum óhugnanlegu barnafórnum í Kanaanlandi til forna. En hvað finnst okkur þá um fórnir á tugmilljónum ungmenna í stríðum þessa heims sem er langtum verra en nokkuð sem gerðist í Kanaanlandi? Það hlýtur að vera fullkomlega réttmætt af Jehóva að eyða þessu illa heimskerfi núna.
Annað sem áorkað hefur verið
22. Hverju áorkar þolinmæði Jehóva á okkar tímum?
22 Þolinmæði Jehóva núna á síðustu dögum áorkar öðru. Hún gefur tíma til að safna saman og mennta mikinn múg sem er nú orðinn yfir fimm milljónir manna. Undir handleiðslu Jehóva hafa þeir myndað framsækið skipulag. Karlar, konur, börn og unglingar eru þjálfuð í að kenna öðrum sannleika Biblíunnar. Þau læra um ástríka vegu Guðs á samkomum sínum og af biblíuritum sínum. (Jóhannes 13:34, 35; Kólossubréfið 3:14; Hebreabréfið 10:24, 25) Auk þess eru þjónar Guðs að þjálfa sig í húsbyggingum, rafeindatækni, prentun og á öðrum sviðum til að styðja prédikun ‚fagnaðarerindisins.‘ (Matteus 24:14) Líklega verða mikil not fyrir slíka kunnáttu í kennslu og húsbyggingum í nýja heiminum.
23. Hvers vegna eru það sérréttindi að vera á lífi núna?
23 Já, Jehóva er að búa þjóna sína undir að ganga gegnum ‚þrenginguna miklu‘ inn í réttlátan, nýjan heim. Þá eiga þeir ekki lengur í höggi við Satan og illan heim hans, og ekki heldur við sjúkdóma, sorg og dauða. Fólk Guðs hefst þá handa við að byggja paradís af miklum eldmóði og gleði, þar sem hver dagur verður þeim til ‚ríkulegrar gæfu.‘ Það eru mikil sérréttindi fyrir okkur að lifa núna við hámark aldanna, og fá að þekkja Jehóva og þjóna honum og vita að mjög bráðlega getum við ‚lyft upp höfðum okkar því að lausn okkar er í nánd‘! — Lúkas 21:28; Sálmur 146:5.
Upprifjunarspurningar
◻ Hvað er ‚þrengingin mikla‘ og hvernig hefst hún?
◻ Hvers vegna mistekst árás Gógs á þjóna Jehóva?
◻ Hvernig lýkur ‚þrengingunni miklu‘?
◻ Hvaða stórkostlega blessun hefur nýi heimurinn í för með sér?
◻ Hvers vegna hefur Jehóva beðið svona lengi með að binda enda á þetta heimskerfi?
[Mynd á blaðsíðu 16]
Allri jörðinni verður breytt í paradís.