Aldraðir meðal sannkristinna manna
„HINIR öldruðu hafa lokið starfsævi sinni,“ segir rannsóknamaðurinn Suzanne Steinmetz, „og það er á þeim grundvelli sem siðmenning okkar metur einstaklinginn, tekur tillit til hans, sýnir honum virðingu og umbunar honum.“ Viðhorf nútímaþjóðfélags til aldraðra er því fremur neikvætt. Það er því engin furða að við skulum oft heyra fréttir þess efnis að þeir sæti illri meðferð eða séu afræktir.
En hvaða afstöðu tekur Biblían til aldraðra? Orð Guðs viðurkennir af raunsæi að því fylgi ýmsir erfiðleikar að verða gamall. Sálmaritarinn bað: „Útskúfa mér eigi í elli minni, yfirgef mig eigi, þá er þróttur minn þverrar.“ (Sálmur 71:9) Í elli sinni fann sálmaritarinn meiri þörf fyrir stuðning Jehóva en nokkru sinni fyrr. Og Biblían gefur skýrt til kynna að við ættum líka að vera jákvæð og gefa þörfum aldraðra gaum.
Að vísu kallaði Salómon elliárin ‚vondu dagana‘ og þau árin sem mönnum ‚líkuðu ekki.‘ (Prédikarinn 12:1-3) En Biblían nefnir líka „langa lífdaga og farsæl ár“ í sömu andránni og blessun frá Guði. (Orðskviðirnir 3:1, 2) Svo dæmi sé tekið lofaði Jehóva Abraham: „Þú skalt verða jarðaður í góðri elli.“ (1. Mósebók 15:15) Þetta þýddi auðvitað ekki að Guð væri að dæma hinn trúfasta Abraham til að lifa ömurlega ‚vonda daga‘ sem honum ‚líkuðu ekki.‘ Abraham bjó við kyrrð og rósemi efri æviár sín og gat litið ánægður um öxl eftir að hafa notað líf sitt til að þjóna Jehóva. Hann gat líka horft fram veginn til „borgar, sem hefur traustan grunn,“ ríkis Guðs. (Hebreabréfið 11:10) Hann dó því „gamall og saddur lífdaga.“ — 1. Mósebók 25:8.
En hvers vegna kallaði Salómon þá elliárin ‚vondu dagana‘? Hann hafði í huga þá vægðarlausu hrörnun líkama og heilsu sem á sér stað í ellinni. Þó er sérstaklega ógæfusöm elli þess sem ekki hefur ‚munað eftir skapara sínum á unglingsárum sínum.‘ (Prédikarinn 12:1) Slíkur maður hefur kastað lífi sínu á glæ og hefur enga ánægju af efri æviárunum. Guðlaus lífsstefna hans kann jafnvel að hafa haft í för með sér ýmsa kvilla og krankleika sem auka á óþægindi elliáranna. (Samanber Orðskviðina 5:3-11.) Þegar hann horfir fram á við sér hann enga framtíð aðra en gröfina. Sá sem hefur notað líf sitt til að þjóna Guði þolir líka ‚vonda daga‘ þegar líkaminn veiklast. En eins og Abraham getur hann notið gleði og lífsfyllingar yfir því að hafa varið lífi sínu vel og notað þá krafta, sem eftir eru, í þjónustu Guðs. „Gráar hærur eru heiðurskóróna, á vegi réttlætis öðlast menn hana,“ segir Biblían. — Orðskviðirnir 16:31.
Meira að segja geta elliárin haft vissa kosti í för með sér. „Æska og morgunroði lífsins eru hverful,“ segir Salómon. Þótt ungt fólk sé heilsuhraust og þróttmikið skortir það oft reynslu og dómgreind. Sá sem kominn er á efri æviár á að baki lífsreynslu heillrar mannsævi. Hinn aldraði getur ‚hrint gremju burt,‘ ólíkt áhrifagjörnum unglingi sem oft steypir sér beint út í erfiðleikana. (Prédikarinn 11:10; 2. Tímóteusarbréf 2:22) Því gat Salómon sagt: „Hærurnar [eru] prýði öldunganna.“ — Orðskviðirnir 20:29.
Biblían sýnir hinum öldruðu virðingu. Hvaða áhrif hefur það á afstöðu kristins manns til þeirra?
‚Þú skalt standa upp fyrir gamalmenninu‘
Guð batt virðingu fyrir hinum öldruðu í lög hjá Ísraelsþjóðinni. Í Móselögunum sagði: „Þú skalt standa upp fyrir hinum gráhærða og heiðra gamalmennið.“ (3. Mósebók 19:32) Síðar fóru Gyðingar að taka þetta lagaákvæði mjög svo bókstaflega. Dr. Samuel Burder segir í bók sinni Oriental Customs: „Skrifarar Gyðinga segja að reglan hafi verið sú að standa upp fyrir þeim þegar þeir voru í fjögurra álna fjarlægð; og setjast jafnskjótt og þeir voru komnir fram hjá, til að ljóst mætti vera að þeir hafi staðið upp eingöngu til að sýna þeim virðingu.“ Slík virðing var ekki takmörkuð við framámenn. „Virtu jafnvel gamalmennið sem hefur misst lærdóm sinn,“ sagði Talmúd Gyðinga. Einn rabbíni hélt því fram að þessi virðing ætti líka að ná til fáfróðs og ólærðs gamalmennis. „Sú staðreynd ein að hann er orðinn gamall,“ sagði rabbíninn, „hlýtur að eiga sér einhverja verðleika að baki.“ — The Jewish Encyclopedia.
Kristnir menn eru ekki bundnir af ákvæðum Móselaganna. (Rómverjabréfið 7:6) Það merkir þó ekki að þeim sé ekki skylt að sýna öldruðum sérstaka virðingu. Það má ljóst vera af fyrirmælum sem Páll postuli gaf hinum kristna umsjónarmanni Tímóteusi: „Ávíta þú ekki aldraðan mann harðlega, heldur áminn hann sem föður, . . . aldraðar konur sem mæður.“ (1. Tímóteusarbréf 5:1, 2) Páll sagði hinum unga Tímóteusi að hann hefði vald til að „bjóða“ eða fyrirskipa. (1. Tímóteusarbréf 1:3) En ef einhver honum eldri — sér í lagi ef hann var umsjónarmaður — sýndi slaka dómgreind eða fór með rangt mál átti Tímóteus ekki að ‚ávíta hann harðlega‘ sem sér óæðri. Þess í stað átti hann að áminna hann virðulega „sem föður.“ Tímóteus átti að sýna öldruðum konum í söfnuðinum samsvarandi virðingu. Í reynd átti hann sem fyrr að „standa upp fyrir hinum gráhærða.“
Kristnin hvetur því áhangendur sína til að virða aldraða. Þótt kaldhæðnislegt sé eru aldraðir oft settir hjá eða sæta illri meðferð í löndum sem játa sig kristin. Þeir eru þó til sem halda sér enn við staðla Biblíunnar. Vottar Jehóva hafa til dæmis sín á meðal þúsundir aldraðra sem eru ekki áitnir til byrði. Þótt heilsufar komi kannski í veg fyrir að hinir öldruðu geti gert jafnmikið og áður, þá eiga margir að baki langa, trúfasta, kristna þjónustu, og það er hvatning yngri vottum til að líkja eftir trú þeirra. — Samanber Hebreabréfið 13:7.
En hinum öldruðu er ekki ætlað að vera óvirkir áhorfendur í söfnuðinum. Þeir eru hvattir til að setja gott fordæmi með því að vera „bindindissamir, heiðvirðir, hóglátir, heilbrigðir í trúnni . . . í háttalagi sínu eins og heilögum sæmir,“ og miðla öðrum ríkulega af visku sinni og reynslu. (Títusarbréfið 2:2, 3) Jóel spáði því að meðal þeirra sem bæru út boðskap Biblíunnar yrðu „gamalmenni.“ (Jóel 3:1) Vafalaust hefur þú sjálfur veitt athygli að margir aldraðir vottar Jehóva hafa enn yndi af virkri þátttöku í prédikun trúarinnar hús úr húsi.
‚Takið enn meiri framförum‘ í að sýna þeim virðingu
Vottar Jehóva leitast við að taka sérstakt tillit til aldraðra á marga vegu. Á árlegum mótum sínum eru til dæmis oft tekin frá sæti á hentugum stað handa öldruðum. Þeim er líka sýnd tillitssemi á einstaklingsgrundvelli. Í Japan lætur til dæmis vottur eftir sæti sitt í fjölskyldubifreiðinni til að 87 ára gömul kona geti komist með á safnaðarsamkomur. Þess í staðinn notar hann reiðhjól. Í Brasilíu er 92 ára boðberi trúarinnar í fullu starfi. Aðrir í söfnuðinum „sýna honum virðingu, tala við hann . . . Hann er til mikils stuðnings í söfnuðinum.“
Þar með er þó ekki sagt að ekki sé hægt að taka framförum í að heiðra aldraða. Páll skrifaði kristnum mönnum í Þessaloníku: ‚Þér sýnið bróðurkærleika öllum bræðrum í allri Makedóníu. En vér áminnum yður, bræður, að taka enn meiri framförum.‘ (1. Þessaloníkubréf 4:9, 10) Áþekkra leiðbeininga um tillitssemi við aldraða er stundum þörf nú á tímum. Aldraður kristinn maður, 85 ára, varð til dæmis mjög vonsvikinn þegar hann fékk ekki eintak af nýju biblíuriti. Orsökin var sú að hann er nálega heyrnarlaus og heyrði ekki tilkynningu þar sem bræður voru minntir á að panta bókina, og enginn í söfnuðinum hafði hugsun á að panta hana fyrir hann. Að sjálfsögðu var séð um að hann fengi eintak af bókinni svo fljótt sem hægt var, en þetta dæmi sýnir að við þurfum að gefa þörfum aldraðra sérstakan gaum.
Þjónum Guðs nú á tímum standa óteljandi leiðir opnar til að „taka enn meiri framförum“ í þessu efni. Kristnar samkomur eru gott tækifæri til að ‚hvetja‘ aldraða, „til kærleika og góðra verka.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Og þótt ungir og aldnir blandi geði í ríkissölum votta Jehóva má kannski gera enn meira í því efni. Sumir foreldrar hvetja til dæmis börnin sín til að eiga frumkvæðið að því að tala við aldraða í söfnuðinum með virðulegu móti.
Þá getum við líka haldið áfram að heiðra aldraða í söfnuðinum á óformlegri hátt. Í samræmi við meginreglu Jesú í Lúkasi 14:12-14 er hægt að gera meira í því að bjóða öldruðum í heimsókn til sín. Jafnvel þótt þeir treysti sér ekki til að koma kunna þeir örugglega að meta að þú skulir muna eftir þeim. Kristnir menn eru auk þess hvattir til að ‚stunda gestrisni.‘ (Rómverjabréfið 12:13) Það gerir ekki kröfur til okkar um að bera eitthvað fínt og dýrt á borð fyrir gesti okkar. Vottur Jehóva í Þýskalandi leggur til: „Bjóddu öldruðum að þiggja hjá þér tebolla og láttu þá segja frá ýmsu sem hefur drifið á daga þeirra.“
Páll postuli sagði: „Verið hver yðar fyrri til að veita öðrum virðing.“ (Rómverjabréfið 12:10) Meðal votta Jehóva eru það einkum hinir útnefndu safnaðaröldungar sem taka forystuna í að sýna öldruðum bræðrum sínum heiður og virðingu. Oft geta þeir úthlutað hinum öldruðu hæfilegum verkefnum, svo sem að þjálfa nýja boðbera orðsins úti á akrinum eða að aðstoða við viðhald Ríkissalarins. Ungir menn, sem þjóna starfi safnaðaröldunga, sýna öldruðum safnaðaröldungum virðingu með því að leita auðmjúkir ráða hjá þeim og notfæra sér þroska þeirra og lífsreynslu. (Orðskviðirnir 20:5) Þegar öldungar funda fylgja hinir yngri biblíulegu fordæmi hins unga Elíhús og sýna hinum eldri og reyndari sín á meðal þá virðingu að leyfa þeim að tjá sig áður en þeir sjálfir taka orðið. — Jobsbók 32:4.
Gættu þess að missa ekki þolinmæðina þótt hinn aldraði geti ekki hreyft sig eða hugsað jafnhratt og þú. Dr. Robert N. Butler lýsir vel þeim vanda sem getur verið ellinni samfara: „Menn glata líkamsþreki sínu og afkastagetu, og það í sjálfu sér getur verið ótrúlega skelfandi. Mikilvæg skilningarvit, svo sem heyrn eða sjón, geta bilað.“ Með tilliti til þessa ættu hinir yngri að reyna að setja sig í spor þeirra og skilja tilfinningar þeirra. — 1. Pétursbréf 3:8.
Já, kristnum mönnum er skylt að sýna hinum öldruðu sín á meðal sannan kærleika, umhyggju og virðingu. Það er gert á hrósunarverðan hátt meðal votta Jehóva. En hvað gerist þegar aldraðir kristnir menn — eða foreldrar kristinna manna — veikjast eða komast í fjárhagslegar nauðir? Hver ber ábyrgð á að annast þá? Greinarnar á eftir fjalla um hvernig Biblían svarar þessum spurningum.
[Myndir á blaðsíðu 7]
Í söfnuðum votta Jehóva geta aldraðir gert margt sem veitir þeim lífsfyllingu.