Högum aldraðra gefinn gaumur
„Lítið ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.“ — FILIPPÍBRÉFIÐ 2:4.
1, 2. (a) Hvernig sýndi hið stjórnandi ráð fyrstu aldar áhuga á þörfum aldraðra? (b) Hvað ber vitni um að prédikunarstarfið hafi ekki verið vanrækt?
SKÖMMU eftir hvítasunnuna árið 33 „fóru grískumælandi menn [í kristna söfnuðinum] að kvarta út af því, að hebreskir settu ekkjur þeirra hjá við daglega úthlutun [matvæla til þeirra sem þurftu].“ Vafalaust voru margar þessara ekkna aldraðar og ekki lengur færar um að sjá sér farborða. Að minnsta kosti létu postularnir sjálfir málið til sín taka og sögðu: „Finnið því, bræður, sjö vel kynnta menn úr yðar hópi, sem fullir eru anda og visku. Munum vér setja þá yfir þetta starf.“ — Postulasagan 6:1-3.
2 Frumkristnir menn litu greinilega á það sem nauðsynlegt starf að sinna þörfum aldraðra. Mörgum árum síðar skrifaði lærisveinninn Jakob: „Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra.“ (Jakobsbréfið 1:27) Þýddi það þá að hið þýðingarmikla prédikunarstarf væri vanrækt? Nei, því að frásögn Postulasögunnar segir að eftir að neyðarhjálpin handa ekkjunum hafi fengið viðhlítandi athygli hafi ‚orð Guðs breiðst út, og tala lærisveinanna í Jerúsalem farið stórum vaxandi.‘ — Postulasagan 6:7.
3. Hvaða hvatning er gefin í Filippíbréfinu 2:4 og hvers vegna á hún sérstaklega vel við nú á dögum?
3 Við lifum núna ‚örðuga tíma.‘ (2. Tímóteusarbréf 3:1) Þegar fullnægt er kröfum fjölskyldulífsins og veraldlegrar vinnu eru kannski litlir kraftar — eða löngun — eftir til að gefa þörfum aldraðra gaum. Það er því við hæfi að Filippíbréfið 2:4 skuli hvetja okkur til að ‚líta ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.‘ Hvernig er hægt að gera það svo fulls jafnvægis sé gætt?
Ekkjum sýnd virðing
4. (a) Hvers vegna og hvernig ‚heiðraði‘ kristni söfnuðurinn á fyrstu öld ekkjur? (b) Voru slíkar ráðstafanir alltaf nauðsynlegar?
4 Í 5. kafla 1. Tímóteusarbréfs bendir Páll á hvernig frumkristnir menn sinntu þörfum aldraðra ekkna í söfnuðinum. Hann hvatti Tímóteus: „Heiðra ekkjur, sem í raun og veru eru ekkjur.“ (3. vers) Þess er getið að sérstaklega aldraðar ekkjur verðskuldi heiður í mynd reglubundinnar fjárhagsaðstoðar. Þessar ekkjur áttu hvergi örugga fjárhagsaðstoð og gátu einungis ‚fest von sína á Guði með stöðugu ákalli og bænum nótt og dag.‘ (5. vers) Hvernig var bænum þeirra um hjálp svarað? Í gegnum söfnuðinn þar sem séð var um með skipulegum hætti að verðugar ekkjur fengju hæfilegt viðurværi. Ef ekkja átti sjálf einhverja fjármuni eða ættingja, sem gátu séð fyrir henni, var slík aðstoð auðvitað óþörf. — Vers 4 og 16.
5. (a) Hvernig kunna einstakar ekkjur að hafa viljað fullnægja holdinu? (b) Var söfnuðinum skylt að veita þeim fjárstuðning?
5 „En hin bílífa [ekkja] er dauð [andlega], þó að hún lifi,“ aðvaraði Páll. (6. vers) Páll skýrir ekki nánar hvað hann á við með því að sumar hafi verið „munaðargjarnar“ eins og Kingdom Interlinear Translation kemst að orði. Sumar kunna að hafa átt í baráttu við kynhvöt sína. (11. vers) Samkvæmt orðabókinni Liddell & Scott’s Greek-English Lexicon getur slík ‚munaðargirni‘ líka hafa falið í sér ‚makræði eða óhófleg þægindi og nautnir.‘ Kannski vildu sumar reyna að auðgast á kostnað safnaðarins og láta hann kosta nautnalíf og óhóf. Hvað sem um var að ræða gefur Páll til kynna að slíkir einstaklingar ættu ekki að njóta fjárstuðnings frá söfnuðinum.
6, 7 og neðanmálsathugasemd. (a) Hvaða „skrá“ talar Páll um? (b) Hvers vegna áttu ekkjur undir sextugu ekki rétt á hjálp? (c) Hvernig vann Páll gegn því að ungar ekkjur gerðust ‚brotlegar‘?
6 Síðan segir Páll: „Ekkja sé ekki tekin á skrá yfir ekkjur [sem hljóta fjárhagsaðstoð] nema hún sé orðin fullra sextíu ára.“ Á dögum Páls var kona yfir sextugt greinilega talin ófær um að sjá sér farborða og ólíkleg til að giftast á ný.a „En,“ heldur Páll áfram, „tak ekki við ungum ekkjum [á skrá]. Þegar þær verða gjálífar afrækja þær Krist, vilja giftast og gerast þá sekar um að brjóta sitt fyrra heit.“ — Vers 9, 11, 12.
7 Hefði ‚skráin‘ staðið opin ungum ekkjum hefðu sumar ef til vill í fljótfærni lýst yfir þeirri ætlun sinni að vera einhleypar áfram. Með tímanum gætu þær hins vegar átt erfitt með að stjórna kynhvöt sinni og langað til að giftast á ný og þar með ‚gerst sekar um að brjóta sitt fyrra heit‘ um að giftast ekki aftur. (Samanber Prédikarann 5:2-6.) Páll afstýrði slíkum vandamáum með því að segja: „Ég vil því að ungar ekkjur giftist, ali börn.“ — Vers 14.
8. (a) Hvernig voru leiðbeiningar Páls söfnuðinum vernd? (b) Var líka annast um þurfandi ungar ekkjur eða aldraða karlmenn?
8 Postulinn takmarkaði líka fjölda ekkna á skrá með því ákvæði að þær yrðu að eiga að baki áralanga trúfasta þjónustu samfara kristnum verkum. (10. vers) Söfnuðurinn var ekki „velferðarríki“ fyrir lata eða ágjarna. (2. Þessaloníkubréf 3:10, 11) En hvað um aldraða karlmenn eða ungar ekkjur? Ef einhver slíkur komst í nauðir hefur söfnuðurinn vafalaust annast þá á einstaklingsgrundvelli. — Samanber 1. Jóhannesarbréf 3:17, 18.
9. (a) Hvers vegna er ólíkt að farið við að aðstoða aldraða núna og á fyrstu öld? (b) Hvað hjálpar orð Páls um ekkjur í 1. Tímóteusarbréfi 5. kafla okkur að skilja?
9 Þetta fyrirkomulag hefur líklega fullnægt vel þörfum frumkristna safnaðarins. En eins og The Expositor’s Bible Commentary segir: „Nú á dögum, með einkatryggingum, almannatryggingum og atvinnumöguleikum er ástandið mjög ólíkt.“ Sökum breyttra þjóðfélags- og efnahagsaðstæðna er þess sjaldan þörf að söfnuðurinn haldi skrá um aldraða sem þarfnast neyðarhjálpar. Engu að síður hjálpa orð Páls til Tímóteusar okkur að hafa hugfast: (1) Að vandamál aldraðra varða allan söfnuðinn — einkum öldungana. (2) Skipuleggja þarf umönnun aldraðra á réttan hátt. (3) Slík umönnum takmarkast við þá sem eru í raun þurfandi.
Hvernig umsjónarmenn geta gefið þörfum aldraðra gaum
10. Hvernig geta öldungarnir tekið forystuna í að sýna öldruðum áhuga?
10 Hvernig taka umsjónarmenn okkar tíma forystuna í að sýna öldruðum áhuga? Af og til geta þeir rætt um þarfir aldraðra á fundum sínum. Þegar sérstakrar hjálpar er þörf geta þeir séð um að hún sé veitt. Óvíst er að þeir þurfi að veita sjálfa aðstoðina persónulega því að oft geta margir — líka unglingar — í söfnuðinum lagt lið. Umsjónarmennirnir geta samt sem áður haft góða yfirumsjón með þessari hjálp, kannski með því að fela ákveðnum bróður að samræma þá hjálp sem einstaklingnum er veitt.
11. Hvernig geta öldungarnir kynnt sér þarfir aldraðra?
11 Salómon ráðlagði: „Haf nákvæmar gætur á útliti sauða þinna.“ (Orðskviðirnir 27:23) Umsjónarmennirnir geta sjálfir heimsótt hina öldruðu til að ganga úr skugga um hvernig best megi ‚taka þátt í þörfum heilagra.‘ (Rómverjabréfið 12:13) Farandumsjónarmaður orðaði það þannig: „Sumir hina öldruðu eru mjög sjálfstæðir og þýðingarlaust að spyrja þá aðeins hvað þurfi að gera. Það er best að leggja sjálfur mat á hvað gera þurfi og koma því síðan í framkvæmd!“ Í Japan komust umsjónarmenn að raun um að áttræð systir þarfnaðist mjög hjálpar og athygli. Þeir segja svo frá: „Við sjáum nú um að einhver hafi samband við hana tvisvar á dag, kvölds og morgna, símleiðis eða með því að heimsækja hana.“ — Samanber Matteus 25:36.
12. (a) Hvernig geta öldungarnir séð um að aldraðir hafi gagn af safnaðarsamkomunum? (b) Hvernig má nota segulböndin sem Félagið gefur út?
12 Umsjónarmönnum er líka umhugað að aldraðir bræður og systur fái notið góðs af safnaðarsamkomunum. (Hebreabréfið 10:24, 25) Þurfa sumir hjálp til að komast á samkomurnar? Eru einhverjir hreinlega ófærir um að ‚heyra og skilja‘ sökum lakrar heyrnar? (Matteus 15:10) Ef til vill mætti koma fyrir heyrnartólum eða öðrum hjálpartækjum þeim til handa. Sums staðar láta söfnuðir flytja samkomurnar símleiðis til að þeir sem eiga ekki heimangengt geti hlustað á þær heima hjá sér. Sums staðar eru samkomurnar teknar upp á segulband handa þeim sem eru of sjúkir til að komast á samkomur — og í einstaka tilviki hafa verið keypt segulbandstæki handa þeim. Öldungur í Þýskalandi segir: „Ég hef heimsótt allmarga aldraða sem bara sátu við sjónvarpið og horfðu á dagskrárefni sem tæplega er hægt að kalla andlega uppbyggjandi.“ Hví ekki að hvetja þá til að hlusta í staðinn á segulbandsupptökur, sem Félagið hefur látið gera, til dæmis með ríkissöngvunum og upplestri úr Biblíunni?
13. Hvernig má hjálpa öldruðum að vera virkir boðberar Guðsríkis?
13 Sumir aldraðir safnaðarmeðlimir hafa orðið óreglulegir eða óvirkir í þjónustunni. Hár aldur þarf þó ekki sjálfkrafa að hindra bræður og systur í að boða ‚fagnaðarerindið um ríkið.‘ (Matteus 24:14) Sumir kynnu að þiggja boð þitt fúslega ef þú byðist til að starfa með þeim á akrinum. Kannski getur þú endurvakið kærleika þeirra til prédikunarstarfsins með því að segja þeim frásögur af akrinum. Ef þeir eiga erfitt með að ganga upp stiga mætti fara með þeim í starfið í fjölbýlishús þar sem eru lyftur eða íbúðarhverfi þar sem lítið er um stiga eða tröppur. Boðberar geta líka tekið hina öldruðu með sér í biblíunám — eða haft biblíunám á heimili þeirra.
14 og ramminn. (a) Hvað geta öldungarnir gert ef aldraður bróðir eða systir kemst í miklar fjárhagsnauðir? (b) Hvernig hafa sumir söfnuðir svarað þörfum aldraðra boðbera?
14 „Silfrið veitir forsælu.“ (Prédikarinn 7:12) Margir aldraðir bræður eða systur eru hins vegar í miklum fjáhagsnauðum og eiga enga ættingja sem eru fúsir til að rétta þeim hjálparhönd. Einstaklingar innan safnaðarins eru þó yfirleitt meira en fúsir til að veita aðstoð þegar þeim er þörfin ljós. (Jakobsbréfið 2:15-17) Öldungarnir geta líka kannað hvaða félagsleg aðstoð, tryggingar, lífeyrir eða styrkir eru fáanlegir frá opinberum aðilum. Í sumum löndum er hins vegar erfitt að fá slíka hjálp og ekki annars úrkosti en að fyglja þeirri fyrirmynd sem gefin er í 5. kafla 1. Tímóteusarbréfs, og skipuleggja nauðsynlega hjálp á vegum safnaðarins í heild. (Sjá Organized to Accomplish Our Ministry, bls. 122-3.)
Boðberar í Nígeríu veittu 82 ára reglulegum brautryðjanda og konu hans reglubundna fjárhagsaðstoð. Þegar stjórnvöld ákváðu að húsið, sem þau bjuggu í, skyldi rifið, bauð söfnuðurinn þeim að flytja í herbergi áfast Ríkissalnum þar til annað húsnæði byðist.
Í Brasilíu hefur söfnuður ráðið hjúkrunarkonu til að annast öldruð hjón. Samtímis var systur falið að halda húsinu hreinu, elda fyrir þau og sinna öðrum efnislegum þörfum þeirra. Mánaðarlega leggur söfnuðurinn til hliðar fjármuni fyrir þau.
15. (a) Eru takmörk fyrir þeirri hjálp sem söfnuður getur veitt? (b) Hvernig geta ráðin í Lúkasi 11:34 átt erindi til sumra sem gera of miklar kröfur?
15 Eins og á fyrstu öldinni eru slíkar ráðstafanir aðeins ætlaðar verðugum einstaklingum sem eru í raun þurfandi. Umsjónarmönnum er ekki skylt að uppfylla óhóflegar óskir eða koma til móts við ósanngjarnar kröfur um athygli og aðstoð. Aldraðir verða líka að varðveita auga sitt „heilt.“ — Lúkas 11:34.
Hvernig einstaklingar geta gefið þörfum aldraðra gaum
16, 17. (a) Hvers vegna er mikilvægt að aðrir auk öldunganna sýni öldruðum áhuga? (b) Hvernig geta önnum kafnir boðberar keypt sér tíma til að sinna öldruðum?
16 Fyrir nokkru var aldurhnigin systir lögð inn á spítala. Sjúkdómsgreiningin var sú að hún þjáðist af vannæringu. „Ef fleiri í söfnuðinum hefðu sýnt henni áhuga,“ skrifaði öldungur, „hefði þetta ef til vill ekki gerst.“ Já, öldungarnir eru ekki þeir einu sem verða að sýna hinum öldruðu áhuga. Páll sagði: „Vér erum hver annars limir.“ — Efesusbréfið 4:25.
17 Vafalaust finnst okkur mörgum að á okkur hvíli nú þegar nógu margar skyldur, en okkur ber að ‚líta ekki aðeins á eigin hag, heldur einnig annarra.‘ (Filippíbréfið 2:4) Með góðri stundarskrá og skipulagningu er oft hægt að kaupa sér tíma. (Efesusbréfið 5:16) Gætir þú til dæmis heimsótt einhvern aldraðan bróður eða systur eftir þjónustuna á akrinum? Sumir aldraðir eru sérstaklega einmana á virkum dögum. Unglingar geta líka átt þátt í að heimsækja aldraða og hjálpa þeim við húsverkin. Systir, sem unglingur veitti aðstoð, bað: „Þakka þér, Jehóva, fyrir hinn unga bróður John. Hann er svo góður piltur.“
18. (a) Hvers vegna getur stundum verið erfitt að halda uppi samræðum við aldraða? (b) Hvernig geta heimsóknir til aldraðra verið báðum til uppbyggingar?
18 Lætur þú nægja á samkomunum aðeins að kasta kveðju á hina öldruðu? Að vísu er kannski ekki auðvelt að halda uppi samræðum við þann sem er heyrnarsljór eða á erfitt með að tjá sig. Og sökum hrakandi heilsu eru aldraðir ekki alltaf glaðir og léttir í lund. En Biblían talar vel um ‚þolinmóðan mann.‘ (Prédikarinn 7:8) Með því að leggja örlítið á sig er hægt að „uppörvast saman.“ (Rómverjabréfið 1:12) Reyndu að segja frásögur af akrinum eða minnast á eitthvað sem þú last í Varðturninum eða Vaknið! Eða gerðu það sem betra er, hlustaðu. (Samanber Jobsbók 32:7.) Aldraðir hafa frá mörgu að segja ef þeir fá tækifæri til. Öldungur viðurkenndi: „Ég hafði mjög gott af að heimsækja þennan aldraða bróður.“
19. (a) Til hverra nær umhyggja okkar fyrir öldruðum? (b) Nefnið dæmi um hvernig við getum hjálpað fjölskyldum sem hafa fyrir öldruðum foreldrum að sjá.
19 Ætti ekki umhyggja okkar fyrir öldruðum líka að ná til þeirra fjölskyldna sem annast þá? Hjón, sem önnuðust aldraða foreldra, sögðu: „Í stað þess að hvetja okkur eru sumir í söfnuðinum orðnir mjög gagnrýnir. Systir sagði: ‚Ef þið haldið áram að missa af samkomum verðið þið andlega veik!‘ En hún var ekki fús til að gera neitt til að hjálpa okkur að komast á fleiri samkomur.“ Óljós loforð svo sem: ‚Láttu mig bara vita ef þig vantar hjálp,‘ eru jafnletjandi. Oft eru þau lítið frábrugðin því að segja: „Vermið yður og mettið!“ (Jakobsbréfið 2:16) Það er miklu betra að láta umhyggju þína birtast í verki! Hjón segja svo frá: „Bræðurnir hafa verið dásamlegir og stutt okkur mikið. Sumir annast mömmu í fáeina daga í senn svo að við getum fengið örlítið hlé. Aðrir taka hana með í biblíunám. Og það er mjög uppörvandi fyrir okkur þegar bræður spyrja hvernig henni heilsist.“
20, 21. Hvað geta aldraðir gert til að aðstoða þá sem veita þeim hjálp?
20 Í langflestum tilvikum er vel séð fyrir þörfum aldraðra okkar á meðal. En hvað geta aldraðir vottar gert sjálfir til að slík aðstoð sé veitt með gleði en ekki andvarpandi? (Samanber Hebreabréfið 13:17.) Verið samvinnuþýðir gagnvart þeim ráðstöfunum sem öldungarnir hafa gert ykkur til góðs. Sýnið þakklæti fyrir góðvild og umhyggju, sem ykkur er sýnd, og varist að vera of kröfuhörð eða gagnrýnin. Og þótt verkir og kvillar ellinar séu mjög svo raunverulegir, reynið samt að vera glöð og jákvæð. — Orðskviðirnir 15:13.
21 ‚Bræðurnir eru stórkostlegir. Ég veit ekki hvað ég myndi gera án þeirra,‘ hafa margir aldraðir heyrst segja. En aðalábyrgðin á að annast aldraða hvílir á börnum þeirra. Hvað er fólgið í þessari ábyrgð og hvernig má best rísa undir henni?
[Neðanmáls]
a 3. Mósebók 27:1-7 talar um endurlausn einstaklinga sem ‚heitnir‘ voru musterinu sem verkamenn. Lausnarverðið var breytilegt eftir aldri. Við sextugt lækkaði þetta verð stórlega, greinilega sökum þess að einstaklingur á þeim aldri var ekki talinn fær um að vinna jafnmikið og sá sem yngri var. The Encyclopedia of Judaica segir enn fremur: „Samkvæmt Talmúd hefst ellin . . . við sextugt.“
Manst þú?
◻ Hvað var gert á fyrstu öld fyrir aldraðar ekkjur?
◻ Hvernig geta umsjónarmenn skipulagt hjálp til handa öldruðum í söfnuðinum?
◻ Hvernig geta einstaklingar innan safnaðarins sýnt öldruðum bræðrum og systrum áhuga?
◻ Hvað geta aldraðir gert til að vinna með þeim sem sýna þeim umhyggju?
[Rammagrein á blaðsíðu 11]
Það sem sumir gera til að hjálpa öldruðum
Söfnuður í Brasilíu hefur fundið hentuga leið til að sinna efnislegum þörfum bróður sem býr í grennd við Ríkissalinn: Bóknámshópurinn, sem hefur það verkefni að gera Ríkissalinn hreinan, gerir líka hreint hjá honum.
Annar söfnuður þar notar einfalda aðferð til að hjálpa lasburða bróður til að taka þátt í Guðveldisskólanum. Þegar að honum kemur að flytja ræðu er bróður falið að taka með sér tvo eða þrjá boðbera til hans í heimsókn. Stutt samkoma er hafin með bæn og bróðirinn skilar nemendaverkefni sínu. Síðan eru veittar nauðsynlegar leiðbeiningar. Þessar heimsóknir er honum mikil uppörvun.
Farandumsjónarmenn hafa sett gott fordæmi í að veita aðstoð. Í einum söfnuði varð bróðir í hjólastól mjög skapstyggur og fékk þar af leiðandi sjaldan heimsóknir. En farandumsjónarmaður ákvað að flytja fyrir hann fyrirlestur með skuggamyndum. Aldraði bróðirinn táraðist af því sem hann sá. Umsjónarmaðurinn segir: „Mér fannst það mikil umbun að sjá hvaða afleiðingar smávegis athygli og kærleikur gat haft.“
Nokkrir öldungar í Nígeríu fóru í hirðisheimsókn til aldurhnigins bróður og uppgötvuðu að hann var alvarlega veikur. Hann var samstundis lagður inn á spítala. Í ljós kom að bróðirinn þurfti á mikilli læknishjálp að halda en átti ekki fyrir henni. Þegar söfnuðinum var skýrt frá þörf hans lögðu boðberarnir fram nægilegt fé til að standa undir þeim útgjöldum. Tveir öldungar skiptust á um að aka honum til spítalans og heim aftur, jafnvel þótt það útheimti að þeir tækju sér frí úr vinnu. Þeir urðu þeirrar gleði aðnjótandi að sjá bróðurinn ná sér af veikindum sínum og starfa sem aðstoðarbrautryðjandi þar til hann lést um fjórum árum síðar.
Öldruð systir á Filippseyjum átti enga að. Í gegnum þriggja ára veikindi hennar sá söfnuðurinn um hana. Hann sá henni fyrir litlu húsnæði, færði henni daglega mat og sá um þvott, þrif og hreinlæti.
[Mynd á blaðsíðu 10]
Allir geta átt þátt í að heiðra aldraða í söfnuðum okkar.