RÁÐ VIÐ STREITU
Að takast á við streitu
Til að geta unnið á streitu þarftu að hugsa um heilsuna, samskipti þín við aðra, markmið þín og hvað þú lætur hafa forgang, það er að segja hvað þú telur skipta mestu máli. Í þessari grein skoðum við nokkrar gagnlegar meginreglur sem geta hjálpað þér að takast betur á við álag og jafnvel að draga úr því.
Reyndu að hugsa um einn dag í einu
„Hafið ekki áhyggjur af morgundeginum því að morgundeginum fylgja sínar áhyggjur.“ – MATTEUS 6:34.
Hvað merkir það? Áhyggjur eru hluti af lífinu. Auktu ekki á áhyggjur dagsins með því að bæta áhyggjum morgundagsins við þær. Reyndu að hugsa um einn dag í einu.
Streita getur valdið okkur áhyggjum. Við verðum að sætta okkur við að ekki er hægt að komast hjá allri streitu. Það eykur bara á hana að ergja sig yfir því sem maður getur ekki komið í veg fyrir. Mundu líka að oft óttumst við að eitthvað gerist sem verður aldrei.
Gerðu sanngjarnar kröfur
„Viskan sem kemur ofan að er ... sanngjörn.“ – JAKOBSBRÉFIÐ 3:17.
Hvað merkir það? Varastu að gera óraunhæfar kröfur og ætlast til fullkomleika af sjálfum þér eða öðrum.
Vertu hógvær og gerðu sanngjarnar kröfur. Gerðu þér grein fyrir takmörkunum þínum og annarra. Þá dregurðu úr streitu bæði fyrir sjálfan þig og aðra og stuðlar að því að ykkur gangi vel. Reyndu líka að halda kímnigáfunni. Þegar þú hlærð – jafnvel þegar eitthvað fer úrskeiðis – losarðu um spennu og léttir lundina.
Gerðu þér grein fyrir hvað veldur þér streitu
„Geðrór maður er skynsamur.“ – ORÐSKVIÐIRNIR 17:27, Biblían 1981.
Hvað merkir það? Neikvæðar tilfinningar geta komið í veg fyrir að maður hugsi skýrt. Reyndu því að halda rónni.
Gerðu þér grein fyrir hvað stressar þig og taktu eftir hvernig þú bregst við því. Taktu til dæmis eftir hvernig þér líður og hvað þú hugsar þegar þú ert stressaður. Þú gætir jafnvel skrifað það niður. Þú getur líklega tekist betur á við streituna ef þú ert meðvitaður um hvernig þú bregst við henni. Reyndu líka að losa þig við það sem veldur þér streitu. Ef það er ekki hægt skaltu reyna að láta það hafa minni áhrif á þig, til dæmis með því að hafa betri stjórn á tíma þínum eða verkefnum.
Reyndu að sjá hlutina í öðru ljósi. Það sem veldur þér streitu virkar kannski ekki stressandi á einhvern annan. Munurinn gæti legið í því hvernig þið lítið á málin. Skoðaðu eftirfarandi þrjár tillögur:
Vertu ekki fljótur að ætla fólki slæmar hvatir. Segjum að einhver fari fram fyrir þig í biðröð. Ef þú lítur á það sem dónaskap verðurðu líklega pirraður. Reyndu að ætla honum ekki slæmar hvatir. Kannski ætlaði hann ekki að vera dónalegur.
Horfðu á það jákvæða við aðstæður. Það er auðveldara að þola langa bið á læknabiðstofu eða á flugvelli ef þú notar tímann til að lesa, sinna verkefni úr vinnunni eða lesa tölvupóst.
Horfðu á heildarmyndina. Spyrðu þig hvort þetta vandamál verði enn til staðar á morgun eða í næstu viku. Gerðu greinarmun á vandamálum sem eru skammvinn og þeim sem eru alvarlegri.
Reyndu að vera skipulagður
„Allt skal fara fram á sómasamlegan og skipulegan hátt.“ – 1. KORINTUBRÉF 14:40.
Hvað merkir það? Reyndu að hafa skiplag á hlutunum.
Við viljum gjarnan hafa ákveðna reglu á hlutunum. Eitt af því sem ýtir undir óreiðu, og þar með streitu, er að fresta því sem þarf að gera. Það getur orðið til þess að verkefni sem bíða þín hrannast upp. Prófaðu þessar tvær tillögur:
Gerðu raunhæfa áætlun og haltu þig við hana.
Komdu auga á og lagfærðu það sem fær þig til að fresta verkefnum.
Gættu jafnvægis
„Betri er hnefafylli af ró en báðar hendur fullar af striti og eftirsókn eftir vindi.“ – PRÉDIKARINN 4:6.
Hvað merkir það? Vinnufíklar geta misst af því að njóta hagnaðarins af vinnu sinni þó að þeir séu með „báðar hendur fullar af striti“ því að þeir eiga engan tíma eða orku eftir.
Líttu raunsætt á vinnu og peninga. Að verða ríkari þýðir ekki að maður verði hamingjusamari eða undir minna álagi. Reyndar getur það verið alveg öfugt. „Offylli auðmanns ljær honum ekki svefnfrið,“ segir í Prédikaranum 5:11. Reyndu að lifa ekki um efni fram.
Taktu þér tíma til að slaka á. Þegar þú gerir það sem þú hefur gaman af losarðu um spennu. En afþreying sem krefst engrar þátttöku, eins og að horfa á sjónvarp, hjálpar kannski ekki.
Gættu hófs í tækjanotkun. Varastu að vera stöðugt að kíkja á tölvupóst, textaskilaboð eða samfélagsmiðla. Ekki skoða vinnutengdan tölvupóst utan vinnutíma nema aðstæður krefjist þess sérstaklega.
Hugsaðu um heilsuna
„Líkamleg æfing er gagnleg.“ – 1. TÍMÓTEUSARBRÉF 4:8.
Hvað merkir það? Regluleg hreyfing stuðlar að betri heilsu.
Temdu þér góðar venjur. Líkamleg hreyfing getur haft góð áhrif á skapið og bætt viðbrögð líkamans við streitu. Borðaðu hollan mat og reyndu að sleppa ekki úr máltíðum. Gættu þess að fá næga hvíld.
Varastu að leita í skaðlegar „lausnir“ við streitu eins og að reykja, neyta fíkniefna eða misnota áfengi. Til lengri tíma litið eykur það streituna því að það getur skemmt heilsuna og rænt þig peningum sem þú hafðir fyrir að afla þér.
Farðu til læknis ef streitan verður yfirþyrmandi. Það er ekkert að því að leita sér aðstoðar fagfólks.
Forgangsraðaðu
„Metið hvað sé mikilvægt.“ – FILIPPÍBRÉFIÐ 1:10.
Hvað merkir það? Skoðaðu vel hvernig þú forgangsraðar.
Raðaðu verkefnum eftir mikilvægi. Þá geturðu einbeitt þér að því sem skiptir mestu máli og séð hvaða verkefnum þú getur frestað, falið öðrum eða jafnvel sleppt.
Skrifaðu niður í eina viku hvernig þú notar tíma þinn. Skoðaðu síðan hvernig þú getur nýtt hann betur. Því betri stjórn sem þú hefur á tímanum því minna álagi finnurðu fyrir.
Taktu frá tíma til að slaka á. Þó að þú takir þér bara stutt hlé getur það endurnært þig og dregið úr streitu.
Þiggðu hjálp
„Hugsýki íþyngir hjartanu, eitt vingjarnlegt orð gleður það.“ – ORÐSKVIÐIRNIR 12:25.
Hvað merkir það? Vingjarnleg og umhyggjusöm orð geta hresst þig.
Ræddu við skilningsríkan einstakling. Trúnaðarvinur getur hjálpað þér að sjá hlutina öðrum augum og jafnvel að sjá lausn sem þú komst ekki auga á. Og þér getur liðið betur bara af að létta á hjarta þínu.
Biddu um aðstoð. Geturðu falið öðrum verkefni eða fengið einhvern til að aðstoða þig við það?
Ef vinnufélagi veldur þér streitu skaltu reyna að bæta ástandið. Gætirðu til dæmis sagt honum vingjarnlega og á nærgætinn hátt hvaða áhrif hann hefur á þig? (Orðskviðirnir 17:27) Ef það skilar ekki árangri geturðu kannski minnkað samskipti þín við hann.
Sinntu andlegri þörf þinni
„Þeir sem skynja andlega þörf sína eru hamingjusamir.“ – MATTEUS 5:3.
Hvað merkir það? Við þurfum meira en mat, föt og húsaskjól. Við höfum andlega þörf. Við getum ekki verið hamingjusöm nema við gerum okkur grein fyrir þessari þörf og sinnum henni.
Bænin getur hjálpað okkur mikið. Guð býður þér að ,varpa öllum áhyggjum þínum á sig því að hann ber umhyggju fyrir þér‘. (1. Pétursbréf 5:7) Við getum eignast innri frið með því að biðja til Guðs og hugsa um það sem byggir upp. – Filippíbréfið 4:6, 7.
Lestu efni sem nálægir þig Guði. Meginreglurnar sem eru ræddar í þessu blaði eru teknar úr Biblíunni en hún var skrifuð til að uppfylla andlega þörf okkar. Þessar meginreglur hjálpa okkur einnig að sýna „visku og gætni“. (Orðskviðirnir 3:21) Við hvetjum þig til að setja þér það markmið að lesa Biblíuna. Það getur verið ágætt að byrja á Orðskviðunum.