Er til óbrigðul ást?
„Ástin ... er brennandi bál, logi Drottins.“ – LJÓÐALJ. 8:6, NEÐANMÁLS.
1, 2. Hverjir geta notið góðs af Ljóðaljóðunum og hvers vegna? (Sjá mynd í upphafi greinar.)
BRÚÐHJÓNIN horfa ástaraugum hvort á annað. Þau brosa blíðlega. Engum dylst að þau eru ástfangin. Þetta fer ekki fram hjá safnaðaröldungnum sem er nýbúinn að gefa þau saman. Meðan brúðhjónin svífa tignarlega um dansgólfið í brúðkaupsveislunni veltir hann fyrir sér hvort hjónabandið eigi eftir að endast. Á ástin milli þeirra eftir að þroskast með árunum eða á hún eftir að fjara út? Óbrigðul ást milli karls og konu, sem stenst tímans tönn, er unaðslega fögur. En í ljósi þess hve algengt er að hjón skilji er full ástæða til að velta fyrir sér hvort sönn ást sé yfirleitt til.
2 Sönn ást var meira að segja fágæt á dögum Salómons konungs í Ísrael. Hann segir eftirfarandi um siðferðisástand samtíðarinnar: „Einn [„ráðvandan“, NW] mann af þúsundi hef ég fundið en konu hef ég aldrei fundið á meðal allra þeirra. Sjá, þetta eitt hef ég fundið, að Guð hefur skapað mennina rétt en vangaveltur þeirra urðu of margar.“ (Préd. 7:26-29) Siðferði var á svo lágu stigi á dögum Salómons að það var leitun að karlmanni eða konu með gott siðferði.a Að miklu leyti mátti rekja það til áhrifa erlendra kvenna sem dýrkuðu Baal. En í Ljóðaljóðunum, sem Salómon orti um 20 árum áður, kemur fram að til er varanleg ást milli karls og konu. Ljóðaljóðin lýsa einnig vel hvað einkennir sanna ást og hvernig hún birtist. Þjónar Jehóva, bæði giftir og ógiftir, geta lært margt um sanna ást með því að kynna sér þessa biblíubók vel.
SÖNN ÁST ER TIL
3. Hvers vegna geta karl og kona borið sanna ást hvort til annars?
3 Lestu Ljóðaljóðin 8:6, neðanmáls. Ástinni er líkt við ,loga Drottins‘ eða Jehóva og það segir mikið. Sönn ást er ,logi Jehóva‘ í þeim skilningi að hann er höfundur þessarar ástar. Hann skapaði manninn eftir sinni eigin mynd og áskapaði honum hæfileikann til að elska. (1. Mós. 1:26, 27) Þegar Guð leiddi Evu fyrir Adam, fyrsta manninn, lýsti Adam henni með ljóðrænum hætti. Eva fann vafalaust til náinna tengsla við Adam því að hún var ,af honum tekin‘. (1. Mós. 2:21-23) Þar sem Jehóva hefur gert mennina færa um að elska geta karl og kona borið ósvikna og varanlega ást hvort til annars.
4, 5. Endursegðu söguna í Ljóðaljóðunum í stuttu máli.
4 Ástin milli kynjanna getur verið bæði traust og varanleg en það er margt fleira fólgið í henni. Sumu af því er fagurlega lýst í Ljóðaljóðunum. Ljóðin minna á óperutexta og fjalla um ást ungs fjárhirðis og ungrar konu úr þorpinu Súnem eða Súlem. Salómon konungur hefur sett upp búðir sínar nálægt víngörðunum sem hún gætir. Hann veitir athygli hve fögur hún er og lætur færa hana í búðir sínar. En allt frá upphafi er ljóst að hún elskar fjárhirðinn. Salómon reynir að vinna ástir hennar en stúlkan lætur ítrekað í ljós hve heitt hún þrái að vera með manninum sem hún elskar. (Ljóðalj. 1:4-14) Fjárhirðirinn leitar hennar og finnur hana í búðum Salómons, og þau lýsa ást sinni með fögrum orðum. – Ljóðalj. 1:15-17.
5 Salómon snýr aftur til Jerúsalem og tekur ungu konuna með sér. Fjárhirðirinn eltir. (Ljóðalj. 4:1-5, 8, 9) Salómon tekst ekki að vinna ástir hennar hvað sem hann reynir. (Ljóðalj. 6:4-7; 7:1-10) Loks leyfir hann henni að snúa aftur heim. Ljóðaljóðunum lýkur með því að stúlkan óskar þess að ástvinur hennar komi hlaupandi til hennar „líkur dádýri“. – Ljóðalj. 8:14.
6. Hvers vegna er ekki alltaf auðvelt að greina hver talar í Ljóðaljóðunum?
6 Þótt „Ljóðaljóð Salómons“ séu innihaldsrík og fagurlega ort er ekki alltaf auðvelt að greina hver talar og draumum hverra er verið að lýsa. (Ljóðalj. 1:1) „Megináherslan er ekki lögð á söguþráðinn, fléttuna, framvinduna eða persónurnar,“ að því er segir í handbókinni The New Interpreter’s Dictionary of the Bible. Nöfnum þeirra sem tala kann að hafa verið sleppt til að draga ekki athyglina frá ljóðrænu formi verksins. Hins vegar er hægt að átta sig á hver talar hverju sinni með því að skoða það sem sagt er.
„ÁSTARJÁTNINGAR ÞÍNAR ERU LJÚFARI EN VÍN“
7, 8. Hvað má segja um ástarjátningarnar sem er að finna í Ljóðaljóðunum? Nefndu dæmi.
7 Unga konan og fjárhirðirinn tjá hvort öðru ást sína ríkulega með fögrum orðum. Ástarjátningarnar endurspegla hugsunarhátt fólks í Austurlöndum nær fyrir um það bil 3.000 árum. Sumar þeirra geta komið okkur spánskt fyrir sjónir en þær eru innihaldsríkar og tjá tilfinningar sem við þekkjum mætavel. Fjárhirðirinn líkir til dæmis blíðum augum stúlkunnar við „dúfuaugu“. (Ljóðalj. 1:15, Biblían 1981) Hún líkir hins vegar augum hans við dúfurnar sjálfar. (Lestu Ljóðaljóðin 5:12.) Henni finnst dökk lithimnan umkringd hvítunni jafn fögur og dúfur að baða sig í mjólk.
8 Ástarjátningarnar í Ljóðaljóðunum vísa ekki allar til líkamlegrar fegurðar. Tökum eftir hvað fjárhirðirinn segir um tal ungu konunnar. (Lestu Ljóðaljóðin 4:7, 11.) Hann segir að ,hunang drjúpi af vörum hennar‘ og ,hunang og mjólk sé undir tungu hennar‘. Þetta merkir að orð hennar eru ljúf og sæt eins og mjólk og hunang. Þegar fjárhirðirinn segir við stúlkuna: „Öll ertu fögur ... lýtalaus með öllu,“ er hann ekki aðeins að tala um líkamlega fegurð.
9. (a) Hvað er fólgið í ástinni milli hjóna? (b) Hvers vegna er mikilvægt að hjón tjái hvort öðru ást sína?
9 Hjónabandið er annað og meira en formlegt samkomulag eða samningur án ástar og tilfinninga. Sönn ást er aðalsmerki kristins hjónabands. En hvers konar ást er það? Er það kærleikur sem stjórnast af meginreglum Biblíunnar? (1. Jóh. 4:8) Er það ástúð og hlýja eins og milli náinna ættingja? Er það tryggð og væntumþykja eins og ríkir milli vina? (Jóh. 11:3) Er það rómantísk ást? (Orðskv. 5:15-20) Sönn og varanleg ást milli hjóna er allt þetta. Ástin sýnir sig best í orðum og verkum. Það er mikilvægt að hjón láti ekki hið daglega amstur verða til þess að þau gleymi að tjá hvort öðru ást sína. Þannig geta þau stuðlað að öryggiskennd og hamingju hvort annars. Í sumum þjóðfélögum er algengt að foreldrar velji maka handa börnum sínum og unga fólkið þekkist varla fyrr en brúðkaupsdagurinn rennur upp. Það er mikilvægt að þau séu vakandi fyrir því að játa ást sína hvort fyrir öðru. Þá dafnar ástin og hjónabandið styrkist.
10. Hvaða áhrif getur minningin um ljúf ástarorð haft?
10 Það hefur jákvæð áhrif á annan hátt að hjón tjái hvort öðru ást sína. Salómon konungur bauðst til að gera „gullfléttur ... greyptar á silfurspangir“ handa stúlkunni frá Súnem. Hann hleður á hana lofi og segir að hún sé „fögur sem máninn, leiftrandi sem sólin“. (Ljóðalj. 1:9-11; 6:10) En unga konan er trú fjárhirðinum sínum. Hvað styrkir hana og hughreystir meðan þau eru aðskilin? Hún segir að það sé minningin um „ástarjátningar“ fjárhirðisins. Í huga hennar eru þær „ljúfari en vín“ sem gleður þó hjartað. Nafn hans er henni eins og „dýrasta olía“ á höfuðið. (Ljóðalj. 1:2, 3; Sálm. 23:5; 104:15) Minningin um ljúf ástarorð getur hlúið að ástinni. Hjón þurfa sannarlega að tjá hvort öðru ást sína sem oftast.
„VEKIÐ EKKI ÁSTINA FYRR EN HÚN SJÁLF VILL“
11. Hvaða lærdóm má draga af því að unga konan skyldi láta Jerúsalemdætur vinna sér eið að því að vekja ekki ástina?
11 Einhleypir þjónar Guðs geta einnig dregið lærdóm af Ljóðaljóðunum, ekki síst þeir sem eru í giftingarhugleiðingum. Ungan konan bar engar tilfinningar til Salómons. Hún lætur Jerúsalemdætur vinna sér eið og segir: „Vekið ekki ástina fyrr en hún sjálf vill.“ (Ljóðalj. 2:7; 3:5) Hvers vegna? Vegna þess að það er hreinlega ekki rétt að mynda rómantísk tengsl við hvern sem er. Þjónn Guðs, sem langar til að giftast, ætti því að vera þolinmóður þangað til hann finnur manneskju sem hann getur elskað af öllu hjarta.
12. Af hverju elskaði stúlkan frá Súnem fjárhirðinn?
12 Af hverju elskaði stúlkan frá Súnem fjárhirðinn? Víst var hann myndarlegur. Hann „líkist dádýri“, hendur hans eru sterkar eins og „gullkefli“ og fótleggirnir fagrir og sterklegir eins og „marmarasúlur“. En hann er ekki bara sterkur og myndarlegur. „Sem eplatré í kjarrviði ber elskhugi minn af sveinunum,“ segir stúlkan. Hún var trú Jehóva, og fjárhirðirinn hlaut að elska Jehóva líka fyrst henni þótti svona vænt um hann. – Ljóðalj. 2:3, 9; 5:14, 15.
13. Hvers vegna elskaði fjárhirðirinn ungu konuna?
13 Stúlkan frá Súnem var nógu fögur til að vekja athygli konungs sem átti þá ,sextíu drottningar, áttatíu hjákonur og óteljandi ungmeyjar‘. En sjálf sagðist hún vera „narsissa á Saronvöllum“ – eða ósköp venjulegt blóm. Stúlkan var einstaklega auðmjúk og hógvær. Í augum fjárhirðisins var hún þó ekkert venjuleg heldur „sem lilja meðal þyrna“. Hún var Jehóva trú. – Ljóðalj. 2:1, 2; 6:8, Biblían 1981.
14. Hvað geta þeir sem eru í giftingarhugleiðingum lært af fjárhirðinum og ungu konunni frá Súnem?
14 Kristnir menn eru minntir á það í Biblíunni að giftast „aðeins ... í Drottni“. (1. Kor. 7:39, Biblían 1981) Sá sem er í giftingarhugleiðingum gætir þess að mynda ekki rómantísk tengsl við manneskju sem er ekki í trúnni. Hann leitar sér að maka meðal dyggra dýrkenda Jehóva. Hjón þurfa að takast á við álagið sem fylgir daglega lífinu. En ef þau bæði eiga náið samband við Jehóva getur hjónabandið verið friðsamt og hamingjuríkt. Ef þú ert í giftingarhugleiðingum skaltu líkja eftir fjárhirðinum og stúlkunni frá Súnem og leita þér að maka sem elskar Jehóva og þjónar honum dyggilega.
BRÚÐUR MÍN ER „LOKAÐUR GARÐUR“
15. Hvernig er stúlkan frá Súnem ógiftum þjónum Jehóva til fyrirmyndar?
15 Lestu Ljóðaljóðin 4:12. Hvers vegna segir fjárhirðirinn að stúlkan hans sé „lokaður garður“? Afgirtur garður með læstu hliði er ekki opinn almenningi. Það er aðeins hægt að komast inn í hann með því að opna hliðið. Stúlkan frá Súnem var eins og þess konar garður því að ást hennar stóð engum til boða nema fjárhirðinum sem hún ætlaði að giftast. Hún lét ekki undan gylliboðum konungs. Hún var ekki eins og „hurð“ sem opnaðist upp á gátt heldur eins og „múrveggur“. (Ljóðalj. 8:8-10) Ógiftir þjónar Jehóva geyma ást sína og rómantískar tilfinningar handa tilvonandi maka sínum.
16. Hvað má læra af Ljóðaljóðunum um tilhugalíf?
16 Fjárhirðirinn býður stúlkunni að fara út að ganga með sér á fögrum vordegi en bræður hennar leyfa það ekki heldur senda hana til að gæta víngarðanna. Hvers vegna? Treysta þeir henni ekki? Halda þeir kannski að hún ætli að gera eitthvað ósiðlegt? Nei, þeir vilja bara vernda systur sína svo að hún lendi ekki í aðstæðum þar sem hún gæti fallið í freistni. (Ljóðalj. 1:6; 2:10-15) Par í söfnuðinum, sem er að draga sig saman, getur dregið þann lærdóm af þessu að gera viðeigandi ráðstafanir til að forðast freistingar. Verið ekki ein saman þar sem enginn sér til. Það getur verið viðeigandi að tjá ást sína en gætið þess að það sé gert í öllum hreinleika.
17, 18. Hvaða gagn hefurðu haft af því að skoða Ljóðaljóðin?
17 Nýgift kristin hjón eru að jafnaði yfir sig ástfangin. Jehóva er höfundur hjónabandsins og hann vill að það endist. Hjónin þurfa því að halda ástinni lifandi og skapa aðstæður þar sem hún getur þrifist og dafnað. – Mark. 10:6-9.
18 Ef þig langar til að giftast skaltu leita þér að maka sem þú getur elskað af öllu hjarta. Þegar þú hefur fundið hann skuluð þið styrkja ástarböndin og viðhalda þeim eins og kemur svo vel fram í Ljóðaljóðunum. Megir þú finna sanna ást – ,loga Jehóva‘ – hvort sem þú ert að leita þér að maka eða ert nú þegar genginn í hjónaband. – Ljóðalj. 8:6, neðanmáls.
a Sjá Varðturninn (enska útgáfu) 15. janúar 2007, bls. 31.