Orð Jehóva er lifandi
Höfuðþættir Jesajabókar — síðari hluti
JESAJA gegnir spámannsstarfi sínu af trúmennsku. Spádómarnir, sem hann flutti gegn tíuættkvíslaríkinu Ísrael, hafa þegar ræst. Nú hefur hann meiri boðskap að flytja varðandi Jerúsalem.
Borgin verður lögð í eyði og íbúarnir teknir herfangi. Borgin á þó ekki að liggja í eyði til frambúðar. Sönn tilbeiðsla verður endurreist að nokkrum tíma liðnum. Þetta er grunntónninn í Jesajabók 36:1–66:24.a Við getum notið góðs af efni þessara kafla vegna þess að margir af spádómunum, sem þar er að finna, hljóta aðal- eða lokauppfyllingu á okkar dögum eða uppfyllast í náinni framtíð. Í þessum hluta Jesajabókar er einnig að finna hrífandi spádóma um Messías.
„SJÁ, ÞEIR DAGAR MUNU KOMA“
Assýringar ráðast inn í Júda á 14. stjórnarári Hiskía konungs (732 f.Kr.). Jehóva heitir að verja Jerúsalem. Innrásin verður endaslepp þegar engill Jehóva drepur 185.000 assýrska hermenn einn síns liðs.
Hiskía veikist. Jehóva bænheyrir hann og lengir líf hans um 15 ár. Þegar konungur Babýlonar sendir menn á fund hans til að árna honum heilla gerir Hiskía þau mistök að sýna þeim alla fjársjóði sína. Jesaja flytur Hiskía þá eftirfarandi boð frá Jehóva: „Sjá, þeir dagar munu koma, að allt, sem er í höll þinni, og það, sem feður þínir hafa saman dregið allt til þessa dags, mun flutt verða til Babýlon.“ (Jesaja 39:5, 6) Spádómurinn rætist rétt rúmlega hundrað árum síðar.
Biblíuspurningar og svör:
38:8 — Hvað var ‚stigskugginn‘ sem átti að færast aftur? Sólskífur voru þekktar bæði í Egyptalandi og Babýlon á áttundu öld f.Kr. þannig að hugsanlegt er að átt sé við stig og gráður á sólskífu sem Akas, faðir Hiskía, kann að hafa eignast. Eins má vera að stigi hafi verið í höllinni og súla hjá stiganum hafi varpað skugga á þrepin sem var þá hægt að nota til að telja tímann.
Lærdómur:
36:2, 3, 22. Þótt Sébna hafi verið vikið úr embætti kanslara fékk hann að vera áfram í þjónustu konungs og þá sem ritari arftaka síns. (Jesaja 22:15, 19) Ef við þurfum einhverra orsaka vegna að víkja úr ábyrgðarstöðu í söfnuði Jehóva ættum við samt sem áður að halda áfram að þjóna honum á hvern þann hátt sem hann leyfir okkur.
37:1, 14, 15; 38:1, 2. Þegar erfiðleika ber að garði er skynsamlegt af okkur að leita til Jehóva í bæn og setja allt traust okkar á hann.
37:15-20; 38:2, 3. Þegar Assýringar ógnuðu Jerúsalem hafði Hiskía mestar áhyggjur af því að það yrði nafni Jehóva til háðungar ef borgin félli. Þegar hann frétti að veikindi hans myndu draga hann til dauða hafði hann ekki aðeins áhyggjur af sjálfum sér. Hann hafði miklu meiri áhyggjur af því að hann myndi deyja án þess að hafa eignast erfingja og af þeim áhrifum sem það myndi hafa á konungsætt Davíðs. Hann hafði líka áhyggjur af því hver myndi fara með forystu í baráttunni gegn Assýringum. Við hugsum eins og Hiskía og leggjum meira upp úr því að nafn Jehóva helgist og fyrirætlun hans nái fram að ganga en að við sjálf hljótum hjálpræði.
38:9-20. Af sálmi Hiskía má læra að ekkert er mikilvægara í lífinu en að geta lofað Jehóva.
„HÚN SKAL ENDURREIST VERÐA“
Jesaja flytur endurreisnarspádóm strax eftir að hann hefur boðað eyðingu Jerúsalem og útlegðina í Babýlon. (Jesaja 40:1, 2) „Hún skal endurreist verða,“ segir í Jesaja 44:28. Skurðgoð Babýloníumanna verða flutt á brott eins og hver önnur „byrði“. (Jesaja 46:1) Babýlon verður lögð í eyði. Allt rætist þetta tveim öldum síðar.
Jehóva ætlar að gefa þjóna sína sem ‚ljós fyrir þjóðirnar‘. (Jesaja 49:6) „Himinninn“, sem táknar valdastétt Babýlonar, mun „leysast sundur sem reykur“ og þegnarnir „deyja sem mý“ en ‚dóttirin Síon mun losa af sér hálsfjötra sína‘. (Jesaja 51:6; 52:2) Jehóva segir þeim sem koma til hans og hlýða á hann: „Ég vil gjöra við yður eilífan sáttmála, Davíðs órjúfanlega náðarsáttmála.“ (Jesaja 55:3) Menn munu „gleðjast yfir Drottni“ ef þeir lifa í samræmi við réttlátar kröfur hans. (Jesaja 58:14) Syndir þjóðarinnar valda hins vegar ‚skilnaði milli hennar og Guðs‘. — Jesaja 59:2.
Biblíuspurningar og svör:
40:27, 28 — Af hverju segir Ísrael: „Hagur minn er hulinn fyrir Drottni, og réttur minn er genginn úr höndum Guði mínum“? Sumum Gyðingum í Babýlon hefur ef til vill fundist að óréttlætið, sem þeir máttu þola, væri hulið Jehóva eða hann sæi það ekki. Þeir voru minntir á að Babýlon væri ekki utan seilingar skapara himins og jarðar sem þreytist ekki og lýist ekki.
43:18-21 — Hvers vegna var útlögunum sagt að ‚renna ekki huga til hins umliðna‘ þegar að heimförinni liði? Hugsunin er ekki sú að þeir hafi átt að gleyma frelsuninni sem Jehóva hafði veitt þeim áður fyrr. Jehóva vildi hins vegar að þeir lofuðu sig vegna þess að hann hafði „nýtt fyrir stafni“ sem þeir áttu eftir að kynnast, svo sem það að þeir kæmust heilu og höldnu heim til Jerúsalem, ef til vill eftir tiltölulega beinni leið um eyðimörkina. „Mikill múgur“ manna, sem kemur úr „þrengingunni miklu“, fær einnig nýjar og persónulegar ástæður til að lofa Jehóva. — Opinberunarbókin 7:9, 14.
49:6 — Hvernig er Messías ‚ljós fyrir þjóðirnar‘ jafnvel þó að hann hafi einungis starfað meðal Ísraelsmanna meðan hann var á jörð? Það kemur til af því sem gerðist eftir dauða hans. Í Biblíunni er Jesaja 49:6 heimfært upp á lærisveina hans. (Postulasagan 13:46, 47) Andasmurðir kristnir menn og mikill múgur annarra guðsdýrkenda eru nú ‚ljós fyrir þjóðirnar‘ og upplýsa fólk „til endimarka jarðarinnar“. — Matteus 24:14; 28:19, 20.
53:10 — Í hvaða skilningi þóknaðist Jehóva að kremja son sinn? Jehóva er umhyggjusamur og brjóstgóður Guð þannig að það hlýtur að hafa tekið hann sárt að horfa upp á son sinn þjást. Hins vegar hafði hann velþóknun á hlýðni Jesú og öllu því sem þjáningar hans og dauði myndi koma til leiðar. — Orðskviðirnir 27:11; Jesaja 63:9.
53:11 — Hvaða þekking er það sem Messías notar til að „gjöra marga réttláta“? (Biblían 1912) Þetta er þekkingin sem Jesús hlaut þegar hann kom til jarðar, varð maður, var ranglæti beittur, þjáðist og dó. (Hebreabréfið 4:15) Þannig færði hann lausnarfórn sem var nauðsynleg til að andasmurðir kristnir menn og múgurinn mikli gætu staðið réttlátir frammi fyrir Guði. — Rómverjabréfið 5:19; Jakobsbréfið 2:23, 25.
56:6 — Hverjir eru ‚útlendingarnir‘ og hvernig ‚halda þeir fast við sáttmála Guðs‘? ‚Útlendingarnir‘ eru ‚aðrir sauðir‘ Jesú. (Jóhannes 10:16) Þeir halda fast við nýja sáttmálann með því að hlýða lögum hans, styðja það sem gert er fyrir tilstuðlan hans, neyta sömu andlegu fæðunnar og hinir andasmurðu og styðja boðun fagnaðarerindisins og kennsluna.
Lærdómur:
40:10-14, 26, 28. Jehóva er sterkur en mildur, almáttugur og alvitur og býr yfir miklu meira innsæi og þekkingu en við fáum skilið.
40:17, 23; 41:29; 44:9; 59:4. Pólitísk bandalög og skurðgoð eru „minna en ekki neitt“. Það er algerlega til einskis að treysta á þau.
42:18, 19; 43:8. Við yrðum andlega blind og heyrnarlaus ef við lokuðum augunum fyrir rituðu orði Guðs og eyrunum fyrir leiðbeiningum ‚hins trúa og hyggna þjóns‘. — Matteus 24:45.
43:25. Jehóva afmáir afbrot þjóna sinna sjálfs sín vegna. Það er mun mikilvægara að nafn hans helgist heldur en að við séum leyst úr fjötrum syndar og dauða og hljótum líf.
44:8. Við höfum stuðning Jehóva sem er traustur eins og klettur. Við ættum aldrei að vera smeyk við að vitna um guðdóm hans. — 2. Samúelsbók 22:31, 32.
44:18-20. Skurðgoðadýrkun er merki um spillt hjarta. Ekkert ætti að koma í stað Jehóva í hjarta okkar.
46:10, 11. Jehóva getur látið ‚ráðsályktun sína standa stöðuga‘, það er að segja hrint fyrirætlun sinni í framkvæmd, og það sannar svo ekki verður um villst að hann er Guð.
48:17, 18; 57:19-21. Ef við treystum að Jehóva veiti okkur hjálpræði, eigum náið samband við hann og gefum gaum að boðorðum hans verður gæfa okkar eins og fljót og réttlætisverkin eins ríkuleg og bylgjur sjávarins. Þeir sem hirða ekki um orð Guðs eru hins vegar eins og „ólgusjór“. Þeim er enginn friður búinn.
52:5, 6. Babýloníumenn ályktuðu ranglega að Guð væri veikburða. Þeir gerðu sér ekki grein fyrir því að Ísraelsmenn voru í þrælkun vegna þess að Jehóva hafði vanþóknun á þeim. Það er ekki skynsamlegt að draga fljótfærnislegar ályktanir þegar aðrir verða fyrir ógæfu.
52:7-9; 55:12, 13. Við höfum að minnsta kosti þrjár ástæður til að njóta þess að boða ríki Guðs og gera menn að lærisveinum. Fætur okkar eru yndislegir í augum auðmjúkra manna sem hungrar í andleg sannindi. Við sjáum Jehóva „með eigin augum“ af því að við eigum náið samband við hann. Og við búum við andlega velsæld.
52:11, 12. Við verðum að vera andlega og siðferðilega hrein til að mega ‚bera ker Drottins‘ en þar er átt við ráðstafanir hans varðandi heilaga þjónustu.
58:1-14. Það er til einskis að þykjast guðrækinn og réttlátur. Þeir sem tilbiðja Guð ættu að vera ósparir á að sýna guðrækni og bróðurelsku. — Jóhannes 13:35; 2. Pétursbréf 3:11.
59:15b-19. Jehóva fylgist með gangi mála meðal manna og grípur í taumana þegar það er tímabært.
HÚN SKAL VERÐA „PRÝÐILEG KÓRÓNA“
Í Jesaja 60:1 er fjallað um endurreisn sannrar tilbeiðslu forðum daga. Þar segir: „Statt upp, skín þú, því að ljós þitt kemur og dýrð Drottins rennur upp yfir þér!“ Síon skal verða „prýðileg kóróna í hendi Drottins“ Jehóva. — Jesaja 62:3.
Jesaja biður fyrir samlöndum sínum sem eiga eftir að sýna iðrun í útlegðinni í Babýlon. (Jesaja 63:15–64:12) Hann ber saman sanna þjóna Jehóva og falska og lýsir síðan hvernig Jehóva blessar þá sem þjóna honum. — Jesaja 65:1–66:24.
Biblíuspurningar og svör:
61:8, 9 — Hvaða ‚eilífa sáttmála‘ er um að ræða og hvert er ‚afsprengið‘? Þetta er nýi sáttmálinn sem Jehóva hefur gert við andasmurða kristna menn. Með ‚afsprenginu‘ er átt við ‚aðra sauði‘ Jesú, þær milljónir manna sem taka við boðskap hinna andasmurðu. — Jóhannes 10:16.
63:5 — Hvernig getur heift Guðs aðstoðað hann? Með heift Guðs er átt við réttláta reiði hans og hún er ekki stjórnlaus heldur er hún honum hvatning og aðstoð við að fullnægja réttlátum dómum.
Lærdómur:
64:5. Ófullkomnir menn geta ekki bjargað sjálfum sér. Réttlætisverk þeirra geta ekki friðþægt fyrir syndir þeirra frekar en óhrein flík. — Rómverjabréfið 3:23, 24.
65:13, 14. Jehóva blessar trúfasta þjóna sína og sér ríkulega fyrir andlegum þörfum þeirra.
66:3-5. Jehóva hatar hræsni.
„Gleðjist og fagnið“
Endurreisnarspádómarnir hljóta að hafa verið ákaflega hughreystandi fyrir trúfasta Gyðinga í útlegðinni í Babýlon. „Gleðjist og fagnið ævinlega yfir því, sem ég skapa,“ sagði Jehóva, „því sjá, ég gjöri Jerúsalem að fögnuði og fólkið í henni að gleði.“ — Jesaja 65:18.
Við erum sömuleiðis uppi á tímum þegar „myrkur grúfir yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum“. (Jesaja 60:2) Tímarnir eru erfiðir. (2. Tímóteusarbréf 3:1) Hjálpræðisboðskapur Jesajabókar er því einstaklega uppörvandi fyrir okkur. — Hebreabréfið 4:12.
[Neðanmáls]
a Fjallað var um Jesaja 1:1–35:10 í greininni „Orð Jehóva er lifandi — Höfuðþættir Jesajabókar — fyrri hluti“ í Varðturninum 1. desember 2006.
[Mynd á blaðsíðu 18]
Veistu hvers vegna Hiskía bað þess að Assýringum tækist ekki að vinna Jerúsalem?
[Mynd á blaðsíðu 21]
„Hversu yndislegir eru á fjöllunum fætur fagnaðarboðans.“