Hin ráðvanda þjóð
„Látið upp hliðin, svo að réttlátur lýður megi inn ganga, sá er trúnaðinn varðveitir.“ — JESAJA 26:2.
1. Hvers vegna kunna orð Jesaja um ‚réttláta þjóð‘ að koma á óvart?
TIL ERU alls konar þjóðir nú á tímum. Sumar þeirra búa við lýðræði, sumar við einræði. Sumar eru auðugar, sumar fátækar. Eitt eiga þær sameiginlegt: Allar eru þær hluti af þeim heimi sem Satan er guð yfir. (2. Korintubréf 4:4) Skoðað í því ljósi kunna orð Jesaja að koma sumum á óvart er hann segir: „Látið upp hliðin, svo að réttlátur lýður [„þjóð,“ NW] megi inn ganga, sá er trúnaðinn varðveitir“ (Jesaja 26:2) Réttlát þjóð? Já, réttlát þjóð er til því að spádómurinn segir að svo eigi að vera nú á dögum. Hvernig er hægt að bera kennsl á þessa óvenjulegu þjóð?
2. Hver er ‚hin réttláta þjóð‘? Hvernig vitum við það?
2 Í Nýheimsþýðingunni er það orðað svo í Jesaja 26:2 að þjóðin ‚varðveiti trúfasta breytni.‘ King James biblían talar um ‚réttlátu þjóðina sem varðveitir sannleikann.‘ Báðar lýsingarnar eiga vel við. Reyndar er auðvelt að bera kennsl á hina réttlátu þjóð vegna þess að hún er eina þjóðin á jörðinni sem er undirgefin konunginum Kristi og þar af leiðandi ekki hluti af heimi Satans. (Jóhannes 17:16) Þegnar hennar eru þekktir fyrir að ‚hegða sér vel meðal þjóðanna.‘ Lífsmáti þeirra vegsamar Guð. (1. Pétursbréf 2:12) Hvar sem þeir eru í heiminum eru þeir þar að auki hluti af ‚söfnuði lifanda Guðs sem er stólpi og grundvöllur sannleikans.‘ (1. Tímóteusarbréf 3:15) Þeir styðja sannleikann, hafna heiðinni heimspeki sem kristni heimurinn kennir og eru talsmenn ‚hinnar andlegu, ósviknu mjólkur‘ — orðs Guðs, Biblíunnar. (1. Pétursbréf 2:2) Enn fremur prédika þeir fagnaðarerindið um ríkið kostgæfilega fyrir „öllu, sem skapað er undir himninum.“ (Kólossubréfið 1:23) Getur nokkur vafi leikið á að þessi þjóð sé mynduð af þeim sem eftir eru af „Ísrael Guðs,“ söfnuði smurðra kristinna manna? Alls ekki! — Galatabréfið 6:16.
Þjóðin fæðist
3. Lýstu tilkomu ‚hinnar réttlátu þjóðar.‘
3 Hvenær fæddist ‚hin réttláta þjóð‘? Tilurð hennar var spáð í Jesajabók. Í Jesaja 66:7, 8 lesum við: „Hún [Síon] fæðir, áður en hún kennir sín, hún er orðin léttari að sveinbarni, áður en hún tekur jóðsóttina. . . . óðara en Síon hefir kennt sóttar, hefir hún alið börn sín.“ Síon, himneskt skipulag Guðs, átti að fæða ‚sveinbarn‘ áður en hún tæki jóðsóttina eða fengi fæðingarhríðir sem er mjög óvenjulegt. Árið 1914 fæddist Messíasarríkið á himnum. (Opinberunarbókin 12:5.) Í kjölfarið drógust fleiri þjóðir inn í fyrri heimsstyrjöldina og smurðir kristnir menn urðu fyrir miklum þrengingum og ofsóknum. Loksins, árið 1919, fæddist hin andlega þjóð, ‚sveinbarnið,‘ á jörðinni. Þannig ‚ól Síon börn sín‘ — smurða þegna hinnar nýju ‚réttlátu þjóðar‘ — og þau voru virkjuð til sívaxandi vitnisburðarstarfs. — Matteus 24:3, 7, 8, 14; 1. Pétursbréf 2:9.
4. Af hverju hefur réttlát þjóð Guðs þurft að berjast til að varðveita ráðvendni?
4 Allt frá upphafi hefur reynt mjög mikið á ráðvendni þessarar þjóðar. Hvers vegna? Þegar hið himneska ríki fæddist var Satan og illum öndum hans varpað af himni niður á jörðina. Rödd mikil lýsti yfir: „Nú er komið hjálpræðið og mátturinn og ríki Guðs vors, og veldi hans Smurða. Því að niður hefur verið varpað kæranda bræðra vorra, honum sem þá kærir fyrir Guði vorum dag og nótt. Og þeir hafa sigrað hann fyrir blóð lambsins og fyrir orð vitnisburðar síns, og eigi var þeim lífið svo kært, að þeim ægði dauði.“ Satan brást ævareiður við þessum breyttu aðstæðum „og fór burt til þess að heyja stríð við aðra afkomendur [konunnar], þá er varðveita boð Guðs og hafa vitnisburð Jesú.“ Smurðir kristnir menn stóðu einarðir gegn árásum Satans. Allt fram á þennan dag hafa kostgæfir þegnar réttlátrar þjóðar Guðs iðkað trú á lausnarblóð Jesú. Þeir halda áfram að veita Jehóva svar gegn ákærandanum mikla með því að varðveita ráðvendni jafnvel þegar dauðinn blasir við. — Opinberunarbókin 12:1, 5, 9-12, 17; Orðskviðirnir 27:11.
5. Hvaða góð viðhorf nútímavotta Jehóva hafa hjálpað þeim að varðveita ráðvendni?
5 Árið 1919, þegar nútímavitnisburðurinn um ríki Guðs hófst, voru Biblíunemendurnir, eins og vottar Jehóva voru kallaðir á þeim tíma, fáir að tölu en sterkir í trúnni. Þeir urðu undirstaða ‚rammgervrar borgar með hjálpræði að múrum og varnarvirki.‘ Traust þeirra hvíldi á ‚Jah Jehóva sem er eilíft bjarg.‘ (Jesaja 26:1, 3, 4) Líkt og Móse til forna lýstu þeir yfir: „Ég vil kunngjöra nafn [Jehóva]: Gefið Guði vorum dýrðina! Bjargið — fullkomin eru verk hans, því að allir vegir hans eru réttlæti. Trúfastur Guð og tállaus, réttlátur og réttvís er hann.“ — 5. Mósebók 32:3, 4.
6. Á hvaða hátt hefur Jehóva blessað fólk sitt núna á síðustu dögum?
6 Síðan þá hafa hlið Guðsríkis staðið galopin. Fyrst var safnað þeim sem eftir voru af hinum 144.000 smurðu kristnu mönnum, og núna er mikill múgur ‚annarra sauða‘ að ganga í lið með þeim við að boða tilgang Jehóva með ríkið. (Jóhannes 10:16) Þess vegna má tilkynna með gleðibrag: „Þú hefir gjört þjóðina stóra, [Jehóva], þú hefir gjört þjóðina stóra, þú hefir gjört þig dýrlegan, þú hefir fært út öll takmörk landsins.“ (Jesaja 26:15) Þegar við könnum heimsakurinn nú á tímum sjáum við að þessi orð eru dagsönn! Með krafti heilags anda hefur verið borið vitni um hið komandi ríki Krists „allt til endimarka jarðarinnar.“ (Postulasagan 1:8) Þessa aukningu má sjá af þjónustuskýrslu votta Jehóva fyrir árið 1994 sem er að finna í erlendum útgáfum blaðsins á blaðsíðu 12 til 15.
Nýtt boðberahámark
7, 8. (a) Á hverju sést að fólk Guðs hefur ‚gert tjaldstög sín löng‘? (b) Á hvaða svæðum er sérstaklega verið að ‚færa út takmörk landsins‘ samkvæmt þjónustuskýrslunni 1994?
7 Lítum á nokkra hápunkta þessarar skýrslu. Hámarkstala boðbera Guðsríkis á akrinum komst upp í 4.914.094! Það er hrífandi að sjá hina stöðugu samansöfnun ‚mikils múgs af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum sem stendur frammi fyrir hásætinu og frammi fyrir lambinu skrýddur hvítum skikkjum‘! Já, þeir hafa líka reynst vera ráðvandir. Þeir „hafa þvegið skikkjur sínar og hvítfágað þær í blóði lambsins“ og eru taldir réttlátir af því að þeir iðka trú á lausnarfórn Jesú. — Opinberunarbókin 7:9, 14.
8 Sérstaklega frá 1919 hefur skipulagi Jehóva verið boðið: „Víkka þú út tjald þitt, og lát þá þenja út tjalddúka búðar þinnar, meina þeim það ekki, gjör tjaldstög þín löng og rek fast hælana.“ (Jesaja 54:2) Sem svar við því heldur prédikunarstarfið áfram af fullum krafti, jafnvel í hinu ískalda Yukon-héraði við landamæri Alaska þar sem harðger hópur brautryðjenda má búast við allt að 45 til 50 stiga gaddi svo vikum skiptir. Á síðustu árum hafa æ fleiri hópast til hinnar ráðvöndu þjóðar Jehóva. Hliðin hafa verið opnuð upp á gátt til að taka við fólki frá Asíulöndum utan áhrifasvæðis kristna heimsins, frá fyrrverandi vígjum kommúnismans, frá mörgum Afríkulöndum og frá yfirráðasvæðum kaþólsku kirkjunnar svo sem Ítalíu, Spáni, Portúgal og Suður-Ameríku. Nýr starfsvettvangur hefur opnast meðal uppflosnaðs fólks. Á Englandi sinna vottarnir til dæmis þörfum 13 erlendra tungumálahópa.
„Gjörið þetta“
9. (a) Hvað gefur aðsóknin að minningarhátíðinni árið 1994 til kynna? (b) Nefndu nokkur lönd þar sem aðsóknin að minningarhátíðinni var sérstaklega mikil.
9 Aðsóknin að minningarhátíðinni er annar hápunktur ársskýrslunnar. Skömmu áður en Jesús dó stofnaði hann til minningarhátíðar um dauða sinn og sagði fylgjendum sínum: „Gjörið þetta í mína minningu.“ (1. Korintubréf 11:24) Það var hrífandi að sjá að 12.288.917 — langt umfram tvöfalda tölu virkra boðbera — komu saman árið 1994 til að hlýða þessum fyrirmælum, annaðhvort sem þátttakendur eða áhorfendur. Í sumum löndum var hlutfallið milli viðstaddra á minningarhátíðinni og boðbera jafnvel hærra. Hinir 4049 boðberar á Eistlandi, Lettlandi og Litháen voru himinlifandi að sjá 12.876 sækja minningarhátíðina, yfir þrefalda boðberatöluna. Og í Benín sóttu 16.786 minningarhátíðina sem er næstum fimmföld boðberatalan. Í einum söfnuði með um 45 boðbera var 831 viðstaddur minningarhátíðina!
10. (a) Hvaða ábyrgð fylgir þessari miklu aðsókn að minningarhátíðinni? (b) Lýstu því sem getur gerst þegar gestur á minningarhátíðinni fær enn meiri hjálp.
10 Vottar Jehóva gleðjast mjög yfir því að svona margt áhugasamt fólk skuli hafa komið saman með þeim við þetta tækifæri og það lofar vissulega góðu. Núna vilja þeir hjálpa þessu fólki að taka meiri framförum í skilningi sínum og kærleika til sannleikans. Sumir bregðast kannski við líkt og Alla í Rússlandi. Alla var að nema með sérbrautryðjandasystur en tók litlum framförum þannig að náminu var hætt. Engu að síður þáði Alla boð um að sækja minningarhátíðina. Þessi þýðingarmikla samkoma hafði djúpstæð áhrif á hana. Þegar hún kom heim henti hún öllum helgimyndunum sínum og bað Jehóva hjálpar. Tveim dögum síðar heimsótti brautryðjandasystirin hana til að kanna hvernig henni hefði fundist minningarhátíðin. Árangursríkar samræður fylgdu í kjölfarið. Námið með Öllu komst aftur í gang. Innan skamms var hún byrjuð að taka þátt í vitnisburðarstarfinu. Þessi reynsufrásaga sýnir gildi þess að heimsækja þá sem sækja minningarhátíðina. Margir bregðast sennilega við líkt og Alla.
„Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar“
11-13. (a) Hvað er meðal annars fólgið í trúfastri breytni hinnar réttlátu þjóðar? (b) Af hverju þurfa sannkristnir menn að sækja samkomur?
11 Minningarhátíðin er mikilvægasta samkoman á almanaki votta Jehóva en alls ekki sú eina. Í viku hverri koma vottar Jehóva saman í hlýðni við orð Páls: „Gefum gætur hver að öðrum og hvetjum hver annan til kærleika og góðra verka. Vanrækið ekki safnaðarsamkomur yðar eins og sumra er siður, heldur uppörvið hver annan, og það því fremur sem þér sjáið að dagurinn færist nær.“ (Hebreabréfið 10:24, 25) Þeir eiga samfélag við hina réttlátu þjóð Jehóva sem þekkist á trúfastri breytni sinni. Trúföst breytni felur í sér að sækja samkomurnar trúfastlega.
12 Filippseyingar skilja þetta greinilega mjög vel þar sem meðalsamkomusókn á sunnudögum á öllu landinu er 25 prósentum yfir boðberatölu. Einn hópur votta og áhugasamra í Argentínu skilur þetta líka mætavel. Þessi hópur býr í um 20 kílómetra fjarlægð frá ríkissalnum. Engu að síður skýrir farandumsjónarmaðurinn svo frá, að ekki einn einasti þeirra missi nokkurn tíma af samkomum nema þá vegna veikinda. Þeir ferðast fjórar klukkustundir í hestvagni eða á hestbaki, og að vetrarlagi fara þeir heimleiðis í myrkri.
13 Eftir því sem endir þessa heimskerfis nálgast verður lífið erfiðara, vandamálin magnast og það getur kostað æ meiri áreynslu að sækja samkomur reglulega. En undir slíkum kringumstæðum þörfnumst við meir en nokkru sinni fyrr hinnar andlegu fæðu og hins hlýja samfélags sem er aðeins að finna á slíkum samkomum.
„Gef þig að því“
14. Hvers vegna finnst vottum Jehóva liggja á í þjónustu sinni og hvað ber vitni um það?
14 Á síðasta ári kallaði kaþólska kirkjan á Ítalíu starf votta Jehóva „ruddalegt trúboð.“ En í rauninni er ekkert ruddalegt við það sem vottarnir gera. Þjónusta þeirra ber öllu heldur vott um djúpan náungakærleika. Hún er líka merki um hlýðni við orð Páls: „Prédika þú orðið, gef þig að því í tíma og ótíma.“ (2. Tímóteusarbréf 4:2) Sú tilfinning að mikið liggi á kemur vottum Jehóva til að vera kostgæfir í þjónustu sinni eins og sjá má af því að þeir notuðu alls 1.096.065.354 klukkustundir árið 1994 til að prédika fyrir nágrönnum sínum, fara í endurheimsóknir og halda 4.701.357 biblíunám. Margir gátu tekið þátt í brautryðjandastarfi sem sýnir að brautryðjendaandinn dafnar. Meðaltal brautryðjenda um heim allan, 636.202, sannar það.
15, 16. (a) Hvernig hafa bæði ungir og gamlir sýnt brautryðjendaanda? (b) Í hvaða löndum eru sérstaklega margir brautryðjendur samkvæmt þjónustuskýrslunni 1994?
15 Í þessum brautryðjendahópi eru margir unglingar. Í Bandaríkjunum þjóna sumir núna sem reglulegir brautryðjendur samhliða námi í almennum framhaldsskóla, og bekkjarfélagarnir eru aðalstarfssvæði þeirra. Þessir unglingar hafa komist að raun um að brautryðjandastarf er langbesta leiðin til að vernda sig fyrir fíkniefnunum, siðleysinu og ofbeldinu sem gagnsýrir marga skóla þar í landi. Margir aðrir unglingar hafa brautryðjandastarf sem markmið að skólagöngu lokinni. Irina í Úkraínu var aðstoðarbrautryðjandi öll árin, sem hún gekk í almennan framhaldsskóla, í þeim tilgangi að búa sig undir brautryðjandastarf eftir að hún útskrifaðist. Þegar hún lauk skólagöngu bauðst fjölskylda hennar til að hjálpa henni fjárhagslega þannig að hún gæti verið fulltrúi fjölskyldunnar í reglulegu brautryðjandastarfi. Efnahagsástand er bágborið í Úkraínu. En Irina segir: „Ég veit að ég er að vinna verk sem hefur líf í för með sér, ekki bara fyrir mig heldur líka fyrir þá sem ég prédika fyrir.“ Það er sannarlega gleðilegt að sjá svona marga unglinga nú á tímum hugsa líkt og Irina. Er nokkur betri leið fyrir þá til að ‚muna eftir skapara sínum á unglingsárunum‘? — Prédikarinn 12:1.
16 Stór hópur brautryðjenda er kominn á efri æviár. Systir úr þeim hópi skýrir svo frá að í síðari heimsstyrjöldinni hafi faðir hennar og bróðir verið drepnir þegar þeir börðust í stríðinu og móðir hennar og systir verið skotnar í fátækrahverfi. Síðar missti hún son sinn. Núna, þegar hún er orðin öldruð og heilsutæp, hefur Jehóva gefið henni miklu stærri fjölskyldu í kristna söfnuðinum en hún missti. Og hún nýtur þess að hjálpa öðrum sem reglulegur brautryðjandi.
17, 18. Hvernig getum við öll sýnt brautryðjendaanda, hvort sem við erum brautryðjendur eða ekki?
17 Það geta að sjálfsögðu ekki allir verið brautryðjendur. Jehóva tekur fúslega við allri tíundinni frá okkur, því besta sem við getum boðið, hvað svo sem það er í okkar tilviki. (Malakí 3:10) Já, öll getum við ræktað sama anda og þessir kostgæfu brautryðjendur og gert allt sem aðstæður okkar leyfa til að efla prédikun fagnaðarerindisins.
18 Í Ástralíu var 16. apríl til dæmis valinn sem sérstakur dagur til vitnisburðar á götum úti. Boðberar jafnt sem brautryðjendur studdu starfið vel sem sést af nýja boðberahámarkinu, 58.780, þann mánuðinn. Auk þess var dreift 90.000 fleiri blöðum en í sama mánuði árið áður. Á þessum sérstaka degi þáði maður blöðin hjá systur einni. Þegar hún var að skrifa hjá sér nafn hans og heimilisfang til að fylgja eftir áhuganum uppgötvaði hún að þau voru skyld! Þau voru systkinabörn en höfðu ekki sést í 30 ár. Þetta stuðlaði sannarlega að mjög ánægjulegri endurheimsókn!
Varðveittu ráðvendni allt til enda
19. Hvers vegna er áríðandi að hin réttláta þjóð Jehóva varðveiti ráðvendni allt til enda?
19 Það er áríðandi að allir innan réttlátrar þjóðar Guðs varðveiti ráðvendni meðan heimur Satans er í dauðateygjunum. Innan skamms mun heilög þjóð Jehóva heyra kallað: „Gakk þú, þjóð mín, inn í herbergi þitt og lyk aftur dyrunum á eftir þér. Fel þig skamma hríð, uns reiðin er liðin hjá.“ Óhjákvæmlegt er að dómur Guðs komi yfir þennan blóðseka heim. „Því sjá, [Jehóva] gengur út frá aðseturstað sínum til þess að hegna íbúum jarðarinnar fyrir misgjörðir þeirra. Jörðin mun birtast láta blóðið, sem á henni hefir verið úthellt, og hún mun ekki lengur hylja þá, sem á henni hafa myrtir verið.“ (Jesaja 26:20, 21) Megum við eitt og sérhvert vera staðföst sem ráðvandir kristnir menn í samfélagi við réttláta þjóð Jehóva. Þá munum við fagna því að öðlast eilíft líf á jarðneskum eða himneskum vettvangi ríkis Krists.
Manst þú?
◻ Hvenær fæddist ‚hin réttláta þjóð‘?
◻ Hvers vegna hefur fólk Guðs þarfnast þolgæðis núna á síðustu dögum?
◻ Hvað má sjá af hinum mikla boðberafjölda og öllum þeim tíma sem varið var til starfsins samkvæmt þjónustuskýrslunni 1994?
◻ Af hverju er svona mikilvægt að sækja samkomur er endalok þessa heims nálgast?
◻ Hvers vegna verða allir að varðveita ráðvendni sem hafa samfélag við réttláta þjóð Guðs?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Ráðvant fólk innan réttlátrar þjóðar Jehóva öðlast eilíft líf í fullkomleika.