Jehóva — Guð sem kennir
„Þeir munu allir verða af [Jehóva] fræddir.“ — JÓHANNES 6:45.
1. Hvað er Jesús að gera í Kapernaum?
JESÚS KRISTUR er nýlega búinn að vinna kraftaverk og er að kenna í samkunduhúsi í Kapernaum nálægt Galíleuvatni. (Jóhannes 6:1-21, 59) Margir eru vantrúaðir er hann segir: „Ég er stiginn niður af himni.“ Þeir muldra: „Er þetta ekki hann Jesús, sonur Jósefs? Vér þekkjum bæði föður hans og móður. Hvernig getur hann sagt, að hann sé stiginn niður af himni?“ (Jóhannes 6:38, 42) Jesús ávítar þá og segir: „Enginn getur komið til mín, nema faðirinn, sem sendi mig, dragi hann, og ég mun reisa hann upp á efsta degi.“ — Jóhannes 6:44.
2. Hvaða forsenda er til að trúa loforði Jesú um upprisuna?
2 Þetta er stórkostlegt fyrirheit — að verða reistur upp á efsta degi þegar ríki Guðs stjórnar! Við getum trúað þessu loforði af því að faðirinn, Jehóva Guð, ábyrgist það. (Jobsbók 14:13-15; Jesaja 26:19) Jehóva, sem kennir að dánir muni rísa upp, er „langmesti kennarinn.“ (Jobsbók 36:22, Today’s English Version) Jesús beinir athyglinni áfram að kennslu föðurins og segir: „Hjá spámönnunum er skrifað: ‚Þeir munu allir verða af [Jehóva] fræddir.‘“ — Jóhannes 6:45.
3. Hvaða spurningar skoðum við núna?
3 Vissulega hljóta það að vera sérréttindi að vera meðal þeirra sem spámaðurinn Jesaja skrifaði um: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva].“ (Jesaja 54:13) Getum við verið það? Hverjir hafa verið honum eins og synir og hafa fengið kennslu hjá honum? Hvaða mikilvægum kenningum Jehóva verðum við að kunna skil á og fara eftir til að hljóta blessun hans? Hvernig kenndi Jehóva í fortíðinni og kennir hann eins núna? Við ætlum að fjalla um þessar spurningar.
Faðir, kennari, eiginmaður
4. Hvaða synir Jehóva voru fyrstir til að fá kennslu hjá honum?
4 Jehóva varð fyrst bæði faðir og kennari þegar hann skapaði eingetinn son sinn er síðar varð maðurinn Jesús. Jehóva kallaði hann „Orðið“ af því að hann er fremsti talsmaður hans. (Jóhannes 1:1, 14; 3:16) Orðið þjónaði „við hlið [föðurins] sem verkstýra“ og lærði vel af kennslu hans. (Orðskviðirnir 8:22, 30) Reyndar var það fyrir milligöngu orðsins sem faðirinn skapaði allt annað, þar á meðal ‚andasyni Guðs.‘ Þeir hljóta að hafa notið þess að þiggja kennslu hjá Guði! (Jobsbók 1:6; 2:1; 38:7; Kólossubréfið 1:15-17) Síðar var Adam, fyrsti maðurinn, skapaður. Hann var líka ‚sonur Guðs‘ og Biblían opinberar að Guð hafi frætt hann. — Lúkas 3:38; 1. Mósebók 2:7, 16, 17.
5. Hvaða dýrmætum sérréttindum glataði Adam, en hverjum kenndi Jehóva samt og hvers vegna?
5 Því miður glataði Adam þeim sérréttindum að vera áfram sonur Guðs er hann óhlýðnaðist að yfirlögðu ráði. Afkomendur hans gátu því ekki krafist sonarsambands við Guð aðeins vegna ætternis síns. Samt kenndi Jehóva ófullkomnum mönnum sem leituðu leiðsagnar hjá honum. Nói reyndist til dæmis vera „maður réttlátur“ og „gekk með Guði,“ þannig að Guð fræddi hann. (1. Mósebók 6:9, 13–7:5) Með hlýðni sinni sýndi Abraham að hann var ‚vinur Jehóva‘ og hlaut því einnig kennslu hjá honum. — Jakobsbréfið 2:23; 1. Mósebók 12:1-4; 15:1-8; 22:1, 2.
6. Hvern leit Jehóva síðar á sem „son“ sinn og hvers konar kennari var hann honum?
6 Löngu síðar, á dögum Móse, gerði Jehóva sáttmálasamband við Ísraelsþjóðina. Þar með varð Ísrael útvalin þjóð Guðs og litið var á Ísrael sem „son“ hans. Guð sagði: „Ísraelslýður er minn . . . sonur.“ (2. Mósebók 4:22, 23; 19:3-6; 5. Mósebók 14:1, 2) Á grundvelli þessa sáttmálasambands gátu Ísraelsmenn sagt eins og spámaðurinn Jesaja skráði: „Þú, [Jehóva] ert faðir vor.“ (Jesaja 63:16) Jehóva axlaði föðurábyrgð sína og kenndi börnum sínum, Ísrael, ástúðlega. (Sálmur 71:17; Jesaja 48:17, 18) Þegar þau urðu ótrú sárbændi hann þau í miskunn sinni: „Hverfið aftur, þér fráhorfnu synir.“ — Jeremía 3:14.
7. Hvaða samband átti Ísrael við Jehóva?
7 Vegna sáttmálasambandsins við Ísrael varð Jehóva líka táknrænt séð eiginmaður þjóðarinnar og hún varð táknræn eiginkona hans. Spámaðurinn Jesaja skrifaði um hana: „Hann, sem skóp þig, er eiginmaður þinn, [Jehóva] allsherjar er nafn hans.“ (Jesaja 54:5; Jeremía 31:32) Enda þótt Jehóva hafi rækt skyldur sínar sem eiginmaður með sæmd reyndist Ísraelsþjóðin ótrú eiginkona. „Eins og kona verður ótrú elskhuga sínum,“ sagði Jehóva, „eins urðuð þér ótrúir mér, Ísraels hús.“ (Jeremía 3:20) Jehóva hélt áfram að hvetja syni ótrúrrar eiginkonu sinnar; hann hélt áfram að vera hinn mikli fræðari þeirra. — Jesaja 30:20; 2. Kroníkubók 36:15.
8. Hvaða táknræna eiginkonu á Jehóva þótt hann hafi hafnað Ísrael sem þjóð?
8 Þegar Ísraelsþjóðin hafnaði og myrti son Guðs, Jesú Krist, hafnaði hann henni endanlega. Gyðingaþjóðin var því ekki lengur táknræn eiginkona hans og hann var ekki heldur faðir og kennari einþykkra sona hennar. (Matteus 23:37, 38) En Ísrael var aðeins táknræn eiginkona. Páll postuli vitnaði í Jesaja 54:1 sem talar um ‚óbyrju‘ er var önnur en ‚gifta konan,‘ Ísraelsþjóðin að holdinu. Páll opinberar að smurðir kristnir menn séu börn ‚óbyrjunnar‘ er hann kallar „Jerúsalem, sem í hæðum er.“ Þessi táknræna kona er himneskt andaveruskipulag Guðs. — Galatabréfið 4:26, 27.
9. (a) Hverja átti Jesús við þegar hann talaði um ‚syni sem væru lærisveinar Jehóva‘? (b) Á hvaða grundvelli verða menn andlegir synir Guðs?
9 Þegar því Jesús vitnaði í spádóm Jesaja: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva],“ í samkunduhúsinu í Kapernaum var hann að tala um þá sem yrðu „synir“ „Jerúsalem, sem í hæðum er,“ skipulags Guðs á himnum sem líkt er við eiginkonu. Með því að taka við kennslu Jesú Krists, sem var fulltrúi Guðs frá himni, gátu Gyðingarnir, er á hann hlýddu, orðið börn himneskrar konu Guðs, sem verið hafði „óbyrja,“ og myndað ‚heilaga þjóð,‘ andlegan „Ísrael Guðs.“ (1. Pétursbréf 2:9, 10; Galatabréfið 6:16) Er Jóhannes postuli lýsti hinu stórkostlega tækifæri að verða andlegir synir Guðs, sem Jesús gaf kost á, sagði hann: „Hann kom til eignar sinnar, en hans eigin menn tóku ekki við honum. En öllum þeim, sem tóku við honum, gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim, er trúa á nafn hans.“ — Jóhannes 1:11, 12.
Mikilvægar kenningar Jehóva
10. Hvað kenndi Jehóva um ‚sæðið‘ strax eftir uppreisnina í Eden, og hver reyndist vera þetta sæði?
10 Jehóva er elskuríkur faðir og fræðir börn sín um tilgang sinn. Þegar uppreisnargjarn engill fékk fyrstu mannhjónin til að óhlýðnast lét Jehóva því vita strax hvað hann myndi gera til að uppfylla tilgang sinn að gera jörðina að paradís. Hann sagðist ætla að setja hatur milli ‚hins gamla höggorms,‘ Satans djöfulsins, „og konunnar.“ Síðan sagði hann að ‚sæði‘ konunnar myndi „merja höfuð“ Satans og veita honum banasár. (1. Mósebók 3:1-6, 15; Opinberunarbókin 12:9; 20:9, 10) Eins og bent hefur verið á er konan — síðar nefnd „Jerúsalem, sem í hæðum er“ — himneskt andaveruskipulag Guðs. En hvert er ‚sæði‘ hennar? Það er sonur Guðs, Jesús Kristur, sem sendur var frá himni og mun síðar tortíma Satan. — Galatabréfið 4:4; Hebreabréfið 2:14; 1. Jóhannesarbréf 3:8.
11, 12. Hvernig jók Jehóva við mikilvæga kennslu sína um ‚sæðið‘?
11 Jehóva jók við þessa mikilvægu kennslu um ‚sæðið‘ er hann hét Abraham: „Ég [skal] ríkulega blessa þig og stórum margfalda kyn þitt, sem stjörnur á himni . . . Og af þínu afkvæmi [„sæði,“ NW] skulu allar þjóðir á jörðinni blessun hljóta.“ (1. Mósebók 22:17, 18) Jehóva notaði Pál postula til að útskýra að Jesús Kristur sé hið fyrirheitna sæði Abrahams, en að aðrir yrðu líka hluti ‚sæðisins.‘ „Ef þér tilheyrið Kristi,“ skrifaði Páll, „þá eruð þér niðjar [„sæði,“ NW] Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.“ — Galatabréfið 3:16, 29.
12 Jehóva opinberaði einnig að Kristur, sæðið, kæmi af konungsætt Júda og að ‚þjóðirnar myndu ganga honum á hönd.‘ (1. Mósebók 49:10) Um Davíð konung af Júdaættkvísl hét Jehóva: „Ég læt niðja [„sæði,“ NW] hans haldast við um aldur og hásæti hans meðan himinninn er til. Niðjar [„Sæði,“ NW] hans skulu haldast við um aldur og hásæti hans sem sólin fyrir mér.“ (Sálmur 89:4, 5, 30, 37) Þegar engillinn Gabríel kunngerði fæðingu Jesú útskýrði hann að barnið væri hinn skipaði stjórnandi Guðs, sæði Davíðs. „Hann mun verða mikill og kallaður sonur hins hæsta,“ sagði Gabríel. „[Jehóva] Guð mun gefa honum hásæti Davíðs föður hans, . . . og á ríki hans mun enginn endir verða.“ — Lúkas 1:32, 33; Jesaja 9:6, 7; Daníel 7:13, 14.
13. Hvernig verðum við að bregðast við kennslu Jehóva til að hljóta blessun hans?
13 Til að öðlast blessun Jehóva verðum við að kunna skil á og fara eftir þessari mikilvægu kennslu um ríki hans. Við verðum að trúa að Jesús hafi komið niður af himnum, að hann sé útnefndur konungur Guðs — hið konunglega sæði sem mun hafa umsjón með endurreisn paradísar á jörð — og að hann muni reisa upp dána. (Lúkas 23:42, 43, NW; Jóhannes 18:33-37) Gyðingum í Kapernaum hefði átt að vera ljóst að Jesús var að segja sannleikann er hann talaði um að reisa upp dána. Aðeins fáeinum vikum áður, sennilega í Kapernaum, hafði hann reist upp 12 ára dóttur samkundustjórans! (Lúkas 8:49-56) Við höfum svo sannarlega ærið tilefni til að trúa og hegða okkur í samræmi við kennslu Jehóva um ríkið sem vekur með mönnum von!
14, 15. (a) Hve mikilvægt er ríki Jehóva fyrir Jesú? (b) Hvað þurfum við að skilja og geta útskýrt um ríki Jehóva?
14 Jesús helgaði jarðlíf sitt kennslunni um ríki Jehóva. Það var kjörorð þjónustu hans og hann sagði fylgjendum sínum meira að segja að biðja um það í bænum sínum. (Matteus 6:9, 10; Lúkas 4:43) Gyðingar að holdinu komu til álita sem „synir ríkisins,“ en sökum trúleysis misstu flestir af þeim sérréttindum. (Matteus 8:12; 21:43) Jesús opinberaði að einungis ‚lítil hjörð‘ hlyti þau sérréttindi að verða „synir ríkisins.“ Þessir „synir“ verða „samarfar Krists“ að himnesku ríki hans. — Lúkas 12:32; Matteus 13:38; Rómverjabréfið 8:14-17; Jakobsbréfið 2:5.
15 Hve marga samarfa tekur Kristur til himna til að ríkja með sér yfir jörðinni? Aðeins 144.000 að sögn Biblíunnar. (Jóhannes 14:2, 3; 2. Tímóteusarbréf 2:12; Opinberunarbókin 5:10, NW; 14:1-3; 20:4) En Jesús sagði að hann ætti „aðra sauði“ sem yrðu jarðneskir þegnar þessa ríkis. Þeir munu njóta fullkominnar heilsu og friðar að eilífu í paradís á jörð. (Jóhannes 10:16; Sálmur 37:29; Opinberunarbókin 21:3, 4) Við þurfum að skilja kennslu Jehóva um ríkið og geta útskýrt hana.
16. Hvaða mikilvæga kenningu Jehóva þurfum við líka að læra og tileinka okkur?
16 Páll postuli benti á aðra mikilvæga kenningu Jehóva. Hann sagði: „Guð hefur sjálfur kennt yður að elska hver annan.“ (1. Þessaloníkubréf 4:9) Til að þóknast Jehóva verðum við að sýna slíkan kærleika. „Guð er kærleikur,“ segir Biblían, og við verðum að líkja eftir kærleiksfordæmi hans. (1. Jóhannesarbréf 4:8; Efesusbréfið 5:1, 2) Því miður hafa fæstir lært að elska náunga sinn eins og Guð kennir okkur að gera. Hvað um okkur? Höfum við tekið þessa kennslu Jehóva til okkar?
17. Viðhorfi hvers ættum við að líkja eftir?
17 Það er mikilvægt að við séum móttækileg fyrir allri kennslu Jehóva. Megum við hafa sama viðhorf og sálmaritararnir sem skrifuðu: „Vísa mér vegu þína, [Jehóva], kenn mér stigu þína. Lát mig ganga í sannleika þínum og kenn mér.“ „Kenn mér lög þín. Kenn mér góð hyggindi og þekkingu . . . Kenn mér ákvæði þín.“ (Sálmur 25:4, 5; 119:12, 66, 108) Ef þú ert sama sinnis og sálmaritararnir geturðu orðið hluti af miklum múgi sem Jehóva kennir.
Mikill múgur hlýtur kennslu
18. Hvað sagði spámaðurinn Jesaja fyrir að ætti að gerast á okkar tímum?
18 Spámaðurinn Jesaja sagði fyrir hvað gerast myndi á okkar tímum: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús [Jehóva] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar . . . Og margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu.‘“ (Jesaja 2:2, 3; Míka 4:2) Hverjir eru þetta sem Jehóva kennir?
19. Hverjum öðrum kennir Jehóva nú á tímum?
19 Það eru ekki bara þeir sem munu ríkja með Kristi á himnum. Eins og áður hefur verið nefnt sagðist Jesús eiga „aðra sauði“ — jarðneska þegna ríkisins — auk ‚lítillar hjarðar‘ ríkiserfingjanna. (Jóhannes 10:16; Lúkas 12:32) ‚Múgurinn mikli,‘ sem lifir ‚þrenginguna miklu‘ af, er af hópi hinna annarra sauða og stendur líka velþóknanlegur frammi fyrir Jehóva vegna trúar sinnar á úthellt blóð Jesú. (Opinberunarbókin 7:9, 14) Enda þótt hinir aðrir sauðir séu ekki beinlínis í hópi ‚sonanna,‘ sem talað er um í Jesaja 54:13, njóta þeir þeirrar blessunar að fá kennslu hjá Jehóva. Þess vegna ávarpa þeir Guð réttilega sem ‚föður‘ vegna þess að hann verður í reynd afi þeirra fyrir milligöngu ‚Eilífðarföðurins‘ Jesú Krists. — Matteus 6:9; Jesaja 9:6.
Hvernig Jehóva kennir
20. Á hvaða vegu kennir Jehóva?
20 Jehóva kennir á marga vegu, til dæmis með sköpunarverkum sínum sem bera bæði vitni um tilvist hans og mikla visku. (Jobsbók 12:7-9; Sálmur 19:2, 3; Rómverjabréfið 1:20) Auk þess kennir hann milliliðalaust eins og hann kenndi Jesú áður en hann varð maður. Og þrívegis er greint frá því að hann hafi talað beint af himni til manna á jörðinni. — Matteus 3:17; 17:5; Jóhannes 12:28.
21. Hvaða engil notaði Jehóva sérstaklega sem fulltrúa sinn en hvernig vitum við að aðrir voru líka notaðir?
21 Jehóva notar líka engla sem kennslufulltrúa, þeirra á meðal frumgetinn son sinn, „Orðið.“ (Jóhannes 1:1-3) Enda þótt Jehóva hefði getað talað beint við fullkominn, mennskan son sinn, Adam, í Edengarðinum notaði hann trúlega Jesú sem talsmann. (1. Mósebók 2:16, 17) Jesús var sennilega sá „engill Guðs, sem gekk á undan liði Ísraels,“ og Guð fyrirskipaði þeim að ‚hlýða hans röddu.‘ (2. Mósebók 14:19; 23:20, 21) Vafalaust var Jesús líka „fyrirliðinn fyrir hersveit [Jehóva]“ sem birtist Jósúa til að styrkja hann. (Jósúabók 5:14, 15) Jehóva notar líka aðra engla til að koma kennslu sinni á framfæri, svo sem þá er færðu Móse lögmálið. — 2. Mósebók 20:1; Galatabréfið 3:19; Hebreabréfið 2:2, 3.
22. (a) Hverja hefur Jehóva notað til að kenna á jörðinni? (b) Hvernig kennir Jehóva mönnum fyrst og fremst nú á dögum?
22 Þar að auki notar Jehóva Guð mennska fulltrúa til að kenna. Ísraelskir foreldrar áttu að kenna börnum sínum; spámenn, prestar, höfðingjar og levítar kenndu þjóðinni lögmál Jehóva. (5. Mósebók 11:18-21; 1. Samúelsbók 12:20-25; 2. Kroníkubók 17:7-9) Jesús var aðaltalsmaður Guðs á jörðinni. (Hebreabréfið 1:1, 2) Hann sagði oft að það sem hann kenndi væri nákvæmlega það sama og hann hefði lært af föðurnum, þannig að áheyrendur hans voru í reynd að fá kennslu frá Jehóva. (Jóhannes 7:16; 8:28; 12:49; 14:9, 10) Jehóva lét færa orð sín í letur og á okkar dögum kennir hann mönnum fyrst og fremst fyrir milligöngu þessarar innblásnu Ritningar. — Rómverjabréfið 15:4; 2. Tímóteusarbréf 3:16.
23. Hvaða spurningar verður fjallað um í næstu grein?
23 Við lifum á mikilvægum tímum því að Ritningin lofar að ‚á hinum síðustu dögum [sem við lifum núna] muni margar þjóðir fá kennslu um vegu Jehóva.‘ (Jesaja 2:2, 3) Hvernig er þessi kennsla veitt? Hvað þurfum við að gera til að njóta góðs af henni og taka þátt í hinni stórkostlegu kennsluáætlun Jehóva sem fer fram núna? Við fjöllum um það í næstu grein.
Hvert er svar þitt?
◻ Hvernig varð Jehóva faðir, kennari og eiginmaður?
◻ Hvað kennir Jehóva um ‚sæðið‘?
◻ Hvaða mikilvægri kenningu Guðs verðum við að fara eftir?
◻ Hvernig kennir Jehóva?
[Mynd á blaðsíðu 4]
Með því að reisa dóttur Jaírusar upp frá dauðum var komin forsenda fyrir að trúa upprisuloforði Jesú.