23. kafli
‚Nýtt nafn‘
1. Hvaða loforð er fólgið í 62. kafla Jesajabókar?
HUGGUN, hughreysting og endurreisnarvon er mikils virði fyrir örvilnaða Gyðinga í Babýlon. Áratugir eru liðnir síðan Jerúsalem var eytt og musterið lagt í rúst. Júda liggur í eyði 800 kílómetra í burtu og Jehóva virðist hafa gleymt Gyðingum. Loforð frá honum um að senda þá heim aftur og leyfa þeim að endurvekja hreina tilbeiðslu myndi bæta ástandið til muna. Þá myndu heiti eins og „Yfirgefin“ og „Auðn“ víkja fyrir orðum sem vitnuðu um velþóknun Guðs. (Jesaja 62:4; Sakaría 2:16) Sextugasti og annar kafli Jesajabókar er fullur af slíkum fyrirheitum. En þessi endurreisnarspádómur er ekki einskorðaður við frelsun Gyðinga úr ánauðinni í Babýlon, frekar en aðrir slíkir spádómar. Í aðaluppfyllingu 62. kaflans hjá Jesaja er fólgið loforð um að andleg þjóð Jehóva, „Ísrael Guðs,“ verði frjáls. — Galatabréfið 6:16.
Jehóva þegir ekki
2. Hvernig sýnir Jehóva Síon velvild á nýjan leik?
2 Babýlon fellur árið 539 f.o.t. Kýrus Persakonungur gefur síðan út tilskipun sem heimilar guðhræddum Gyðingum að snúa heim til Jerúsalem og endurvekja tilbeiðsluna á Jehóva. (Esrabók 1:2-4) Fyrstu Gyðingarnir koma heim árið 537 f.o.t. Jehóva sýnir Jerúsalem velvild sína á ný eins og sjá má af hlýlegri yfirlýsingu hans: „Sökum Síonar get ég ekki þagað, og sökum Jerúsalem get ég ekki kyrr verið, uns réttlæti hennar rennur upp sem ljómi og hjálpræði hennar sem brennandi blys.“ — Jesaja 62:1.
3. (a) Hvers vegna hafnaði Jehóva hinni jarðnesku Síon að lokum og hvað kom í staðinn? (b) Hvaða fráhvarf átti sér stað og hvenær, og hvaða tímabil stendur yfir núna?
3 Jehóva efndi loforð sitt um endurreisn Síonar eða Jerúsalem árið 537 f.o.t. Íbúarnir fengu að reyna hjálpræði hans, og réttlæti þeirra ljómaði skært. En síðar fjarlægðust þeir hreina tilbeiðslu á ný. Að síðustu höfnuðu þeir Jesú sem Messíasi og Jehóva hafnaði þeim endanlega sem útvalinni þjóð sinni. (Matteus 21:43; 23:38; Jóhannes 1:9-13) Hann myndaði síðan og útvaldi nýja þjóð, sem nefnd var „Ísrael Guðs,“ og hún boðaði fagnaðarerindið út um hinn þekkta heim á fyrstu öld. (Galatabréfið 6:16; Kólossubréfið 1:23) En því miður féllu menn frá hinni sönnu trú eftir dauða postulanna, og upp úr því þróaðist núverandi fráhvarfskristni kirkjufélaganna. (Matteus 13:24-30, 36-43; Postulasagan 20:29, 30) Kristni heimurinn hafði fengið að lasta nafn Jehóva um aldaraðir en árið 1914 hófst „náðarár“ Jehóva ásamt aðaluppfyllingu þessa hluta af spádómi Jesaja. — Jesaja 61:2.
4, 5. (a) Hverja tákna Síon og börn hennar nú á dögum? (b) Hvernig hefur Jehóva látið ‚hjálpræði Síonar loga sem brennandi blys‘?
4 Loforð Jehóva um endurreisn Síonar hefur ræst á andasmurðum kristnum mönnum, jarðneskum börnum hins himneska skipulags hans sem kallað er ‚Jerúsalem í hæðum.‘ (Galatabréfið 4:26) Hún er eins og dygg hjálparhella, vökul, kærleiksrík og vinnusöm. Það var gleðistund er hún fæddi messíasarríkið árið 1914. (Opinberunarbókin 12:1-5) Jarðnesk börn hennar hafa boðað öllum þjóðum réttlæti hennar og hjálpræði, sérstaklega frá 1919. Líkt og Jesaja spáði hafa þessi börn látið ljós sitt lýsa upp myrkrið eins og brennandi blys. — Matteus 5:15, 16; Filippíbréfið 2:15.
5 Jehóva lætur sér mjög annt um dýrkendur sína og unnir sér hvorki hvíldar né þagnar fyrr en hann hefur uppfyllt öll loforð sín við Síon og börn hennar. Þeir sem eftir eru af hinum smurðu og félagar þeirra, ‚aðrir sauðir,‘ láta ekki sitt eftir liggja og vísa fólki háum rómi á einu hjálpræðisleiðina. — Jóhannes 10:16; Rómverjabréfið 10:10.
Jehóva gefur ‚nýtt nafn‘
6. Hvað ætlast Jehóva fyrir með Síon?
6 Hvað ætlast Jehóva fyrir með Síon, himneska ‚konu‘ sína sem Jerúsalem fortíðar táknar? Hann segir: „Þá skulu þjóðirnar sjá réttlæti þitt og allir konungar vegsemd þína, og þú munt nefnd verða nýju nafni, er munnur [Jehóva] mun ákveða.“ (Jesaja 62:2) Þjóðirnar neyðast til að horfa með athygli á réttlæti fólks Guðs. Konungar neyðast jafnvel til að viðurkenna að hann noti Jerúsalem og að allar aðrar stjórnir blikni í samanburði við ríki hans. — Jesaja 49:23.
7. Hvað táknar hið nýja nafn Síonar?
7 Jehóva gefur Síon nýtt nafn til að votta að staða hennar sé breytt. Nýja nafnið er tákn um þá blessun og þá virðingarstöðu sem jarðnesk börn hennar njóta frá 537 f.o.t.a Það sýnir að hann viðurkennir að Síon tilheyri sér. Ísrael Guðs fagnar því nú á tímum að njóta sams konar góðvildar hans og hinir aðrir sauðir fagna sömuleiðis.
8. Hvernig hefur Jehóva heiðrað Síon?
8 Eftir að hafa gefið Síon nýja nafnið lofar Jehóva: „Þú munt verða prýðileg kóróna í hendi [Jehóva] og konunglegt höfuðdjásn í hendi Guðs þíns.“ (Jesaja 62:3) Það er eins og Jehóva haldi hinni táknrænu eiginkonu sinni, himneskri Síon, á loft til að hægt sé að horfa á hana með aðdáun. (Sálmur 48:3; 50:2) Kórónan og hið ‚konunglega höfuðdjásn‘ gefa til kynna að hún sé íklædd heiðri og valdi. (Sakaría 9:16) Ísrael Guðs er fulltrúi hinnar himnesku Síonar eða ‚Jerúsalem í hæðum‘ og er athyglisvert dæmi um hönd Jehóva að verki, það er að segja mátt hans í framkvæmd. (Galatabréfið 4:26) Með hjálp Jehóva hefur hin andlega þjóð sýnt af sér frábæra ráðvendni og hollustu. Milljónir manna, bæði smurðir og aðrir sauðir, fá kraft til að sýna einstaka trú og kærleika. Í þúsundáraríki Krists verða hinir smurðu, sem hafa þá hlotið himneska umbun, verkfæri í hendi Jehóva til að lyfta hinni stynjandi sköpun upp til eilífs lífs. — Rómverjabréfið 8:21, 22; Opinberunarbókin 22:2.
‚Jehóva ann þér‘
9. Lýstu umbreytingu Síonar.
9 Nýja nafnið markar ánægjuleg þáttaskil hjá jarðneskum börnum hinnar himnesku Síonar. Við lesum: „Þú munt ekki framar nefnd verða Yfirgefin, og land þitt ekki framar nefnt verða Auðn, heldur skalt þú kölluð verða Yndið mitt, og land þitt Eiginkona, því að [Jehóva] ann þér og land þitt mun manni gefið verða.“ (Jesaja 62:4) Hin jarðneska Síon hefur legið í eyði síðan hún var lögð í rúst árið 607 f.o.t. en Jehóva lofar að hún verði endurreist og landið byggt að nýju. Þótt Síon hafi verið eydd er hún ekki yfirgefin um aldur og landið skal ekki liggja í auðn framar. Endurreisn Jerúsalem árið 537 f.o.t. táknar alger umskipti fyrir hana miðað við rústirnar sem fyrir voru. Jehóva lýsir yfir að hún verði kölluð „Yndið mitt“ og landið „Eiginkona.“ — Jesaja 54:1, 5, 6; 66:8; Jeremía 23:5-8; 30:17; Galatabréfið 4:27-31.
10. (a) Hvaða þáttaskil urðu hjá Ísrael Guðs? (b) Hvað táknar „land“ Ísraels Guðs?
10 Áþekk þáttaskil urðu hjá Ísrael Guðs árið 1919. Guð virtist hafa hafnað smurðum kristnum mönnum í fyrri heimsstyrjöldinni en árið 1919 endurheimtu þeir velvild hans og tilbeiðsla þeirra var hreinsuð. Þetta hafði áhrif á kenningar þeirra, skipulag og starfsemi. Ísrael Guðs endurheimti „land“ sitt, hina andlegu landareign eða starfsvettvang. — Jesaja 66:7, 8, 20-22.
11. Hvernig geta Gyðingar eignast móður sína fyrir eiginkonu?
11 Jehóva leggur enn meiri áherslu á það að fólk hans njóti nú velvildar og segir: „Eins og ungur maður fær meyjar, eins munu synir þínir eignast þig, og eins og brúðgumi gleðst yfir brúði, eins mun Guð þinn gleðjast yfir þér.“ (Jesaja 62:5) Hvernig geta Gyðingarnir, sem eru „synir“ Síonar, eignast móður sína fyrir eiginkonu? Með þeim hætti að þeir setjast aftur að í hinni fornu höfuðborg sinni eftir að þeir koma heim úr útlegðinni í Babýlon. Þegar það gerist liggur Síon ekki lengur í auðn heldur fyllist sonum. — Jeremía 3:14.
12. (a) Hvernig hefur Jehóva sýnt ótvírætt að smurðir kristnir menn tilheyra skipulaginu sem er bundið honum eins og eiginkona? (b) Hvernig eru samskipti Jehóva við fólk sitt göfugt dæmi fyrir hjón til að líkja eftir? (Sjá rammagrein á bls. 342.)
12 Börn Síonar á himnum hafa á hliðstæðan hátt sest að á andlegri landareign sinni eftir 1919 en hún ber spádómsnafnið „Eiginkona.“ Kristin starfsemi hinna smurðu í landinu sýnir að þeir eru ‚lýður sem ber nafn Jehóva.‘ (Postulasagan 15:14) Þeir bera ávöxt ríkisins og boða nafn Jehóva sem er ótvírætt merki þess að þeir hafa velþóknun hans. Hann hefur sýnt að þeir tilheyra skipulaginu sem er bundið honum órjúfanlegum böndum. Með því að smyrja þessa kristnu menn með heilögum anda, frelsa þá úr andlegri ánauð og nota þá til að boða öllu mannkyni vonina um ríkið hefur Jehóva látið í ljós að hann gleðst yfir þeim eins og brúðgumi yfir brúði sinni. — Jeremía 32:41.
‚Þeir unna sér engrar hvíldar‘
13, 14. (a) Hvernig varð Jerúsalem öruggt skjól forðum daga? (b) Hvernig hefur Síon orðið ‚vegsamleg á jörðinni‘ í nútímanum?
13 Hið táknræna nafn, sem Jehóva gefur, er traustvekjandi fyrir þjóna hans. Þeir vita að hann viðurkennir þá og á þá. Hann bregður nú upp annarri líkingu og talar um fólk sitt sem borg umgirta múrum: „Ég hefi skipað varðmenn yfir múra þína, Jerúsalem. Þeir skulu aldrei þegja, hvorki um daga né nætur. Þér sem minnið [Jehóva] á, unnið yður engrar hvíldar! Ljáið honum engrar hvíldar, uns hann reisir Jerúsalem og gjörir hana vegsamlega á jörðinni.“ (Jesaja 62:6, 7) Jerúsalem verður ‚vegsamleg á jörðinni‘ í fyllingu tímans, eftir heimkomu hinna trúföstu leifa frá Babýlon. Hún verður girt múrum sem vernda íbúana. Vökulir varðmenn gæta öryggis borgarinnar dag og nótt uppi á múrunum, reiðubúnir að vara íbúana við aðsteðjandi hættu. — Nehemíabók 6:15; 7:3; Jesaja 52:8.
14 Í nútímanum hefur Jehóva látið smurða varðmenn sína vísa auðmjúkum mönnum veginn frá falstrúarfjötrum til frelsis. Þeim er boðið inn í skipulag hans þar sem þeir eru verndaðir fyrir andlegri spillingu, óguðlegum áhrifum og vanþóknun hans. (Jeremía 33:9; Sefanía 3:19) Varðmannshópurinn, hinn „trúi og hyggni þjónn,“ er snar þáttur í verndinni en hann lætur í té andlegan „mat á réttum tíma.“ (Matteus 24:45-47) ‚Múgurinn mikli‘ vinnur með varðmanninum og á drjúgan þátt í því að gera Síon „vegsamlega á jörðinni.“ — Opinberunarbókin 7:9.
15. Hvernig þjóna varðmannshópurinn og félagar hans Jehóva ‚um daga og nætur‘?
15 Dyggileg þjónusta varðmannshópsins og félaga hans heldur áfram. Milljónir manna starfa heilshugar að henni og njóta stuðnings farandumsjónarmanna og eiginkvenna þeirra, sjálfboðaliða við Betelheimili og prentsmiðjur votta Jehóva, trúboða, sérbrautryðjenda, reglulegra brautryðjenda og aðstoðarbrautryðjenda. Enn fremur leggja þeir hart að sér við að reisa nýja ríkissali, heimsækja sjúka, veita ráðgjöf og aðstoða þá sem eiga í erfiðleikum vegna læknismeðferðar og veita fórnarlömbum slysa og náttúruhamfara neyðaraðstoð. Þetta fórnfúsa fólk þjónar stundum bókstaflega „dag og nótt.“ — Opinberunarbókin 7:14, 15.
16. Hvernig ljá þjónar Jehóva „honum engrar hvíldar“?
16 Þjónar Jehóva eru hvattir til að vera bænræknir og biðja Guð þess að ‚vilji hans verði svo á jörðu sem á himni.‘ (Matteus 6:9, 10; 1. Þessaloníkubréf 5:17) Þeir eru hvattir til að ‚ljá Jehóva engrar hvíldar‘ fyrr en sönn tilbeiðsla hefur verið endurreist eins og vonir þeirra og langanir standa til. Jesús lagði áherslu á stöðugar bænir og hvatti fylgjendur sína til að „hrópa til [Guðs] dag og nótt.“ — Lúkas 18:1-8.
Þeim er launað sem þjóna Guði
17, 18. (a) Hvers vegna geta Síonarbúar vænst þess að njóta ávaxtar erfiðis síns? (b) Hvernig njóta nútímaþjónar Jehóva ávaxtarins af erfiði sínu?
17 Nýja nafnið, sem Jehóva gefur fólki sínu, er trygging fyrir því að það erfiði ekki til einskis. „[Jehóva] hefir svarið við hægri hönd sína og við sinn máttuga armlegg: ‚Ég mun aldrei framar gefa óvinum þínum korn þitt að eta, og eigi skulu útlendir menn drekka aldinlög þinn, sem þú hefir erfiði fyrir haft, heldur skulu þeir, sem hirt hafa kornið, eta það sjálfir og lofa [Jehóva] fyrir, og þeir, sem safnað hafa aldinleginum, skulu drekka hann í forgörðum helgidóms míns.‘“ (Jesaja 62:8, 9) Hægri hönd og armleggur Jehóva tákna mátt hans og styrk. (5. Mósebók 32:40; Esekíel 20:5, Biblíurit, ný þýðing 1998) Hann sver við hönd sína og armlegg til að sýna að hann sé staðráðinn í að snúa við högum Síonar. Hann leyfir óvinum hennar að fara ránshendi um hana árið 607 f.o.t., en nú fá þeir einir notið eigna hennar sem eiga rétt á því. — 5. Mósebók 14:22-27; 28:33, 51.
18 Endurreist þjóð Jehóva býr við mikla andlega hagsæld í nútímauppfyllingu þessa fyrirheits. Hún nýtur ávaxtar erfiðis síns í mynd nýrra lærisveina og gnótta andlegrar fæðu. (Jesaja 55:1, 2; 65:14) Þjónar Jehóva eru trúfastir svo að hann leyfir ekki óvinum þeirra að spilla hinni andlegu velmegun eða ræna þá ávextinum af hugheilli þjónustu þeirra. Þjónusta við Jehóva er aldrei unnin fyrir gýg. — Malakí 3:10-12; Hebreabréfið 6:10.
19, 20. (a) Hvernig var brautin rudd fyrir heimför Gyðinga til Jerúsalem? (b) Hvernig hefur brautin inn í skipulag Jehóva verið rudd handa auðmjúkum nútímamönnum?
19 Nýja nafnið gerir skipulag Jehóva sömuleiðis aðlaðandi fyrir hjartahreina menn. Þeir flykkjast þangað hópum saman og leiðinni er haldið opinni. Spádómur Jesaja segir: „Gangið út, gangið út um borgarhliðin! Greiðið götu lýðsins! Leggið, leggið braut! Ryðjið burt grjótinu! Reisið merki fyrir þjóðirnar!“ (Jesaja 62:10) Í fyrri uppfyllingunni var eflaust átt við förina út um hlið borganna í Babýloníu við upphaf ferðar heim til Jerúsalem. Heimfararnir eiga að ryðja burt grjóti til að auðvelda förina og reisa upp merki til að vísa veginn. — Jesaja 11:12.
20 Frá 1919 hefur Jehóva útvalið smurða kristna menn til þjónustu sinnar og þeir ganga ‚brautina helgu.‘ (Jesaja 35:8) Þeir gengu andlegan veg út úr Babýlon hinni miklu fyrstir manna. (Jesaja 40:3; 48:20) Guð veitti þeim þann heiður að láta þá hafa forystu um að boða máttarverk sín og vísa öðrum inn á veginn. Það var fyrst og fremst til góðs fyrir þá sjálfa að ryðja burt grjóti og ásteytingarsteinum. (Jesaja 57:14) Þeir þurftu að sjá ásetning Guðs og kenningar í skýru ljósi. Falstrú er eins og ásteytingarsteinar á veginum til lífsins en orð Jehóva eins og „hamar, sem sundurmolar klettana.“ Smurðir kristnir menn notuðu það til að brjóta ásteytingarsteina í vegi þeirra sem vildu þjóna honum. — Jeremía 23:29.
21, 22. Hvaða merki hefur Jehóva reist fyrir þá sem yfirgefa falstrúarbrögðin og hvernig vitum við hvert merkið er?
21 Jerúsalem varð merkið sem vísaði gyðingaleifunum veginn heim árið 537 f.o.t. svo að þær gætu endurbyggt musterið. (Jesaja 49:22) Hinar smurðu leifar reikuðu ekki stefnulaust er þær voru leystar úr fjötrum falstrúar árið 1919. Þær vissu hvert þær stefndu því að Jehóva hafði reist merki handa þeim. Hvaða merki? Hið sama og sagt var fyrir í Jesaja 11:10 þar sem stendur: „Á þeim degi mun rótarkvistur Ísaí standa sem hermerki fyrir þjóðirnar.“ Páll postuli heimfærði þessi orð á Jesú. (Rómverjabréfið 15:8, 12) Merkið er sem sagt Jesús Kristur sem er konungur á hinu himneska Síonfjalli. — Hebreabréfið 12:22; Opinberunarbókin 14:1.
22 Bæði smurðir kristnir menn og aðrir sauðir hópast kringum Jesú Krist til að tilbiðja hinn hæsta Guð í einingu. Stjórn hans upphefur drottinvald Jehóva yfir alheimi og er hjartahreinum mönnum allra þjóða til blessunar. Er það ekki verðugt tilefni fyrir okkur öll til að vegsama Jehóva og lofsyngja?
„Hjálpræði þitt kemur!“
23, 24. Hvernig er þeim sem trúa á Guð veitt hjálpræði?
23 Hið nýja nafn, sem Jehóva gefur skipulagi sínu, tengist eilífu hjálpræði barna þess, en eins og við munum er skipulaginu líkt við eiginkonu. Jesaja skrifar: „Sjá, [Jehóva] gjörir það kunnugt til endimarka jarðarinnar: Segið dótturinni Síon: ‚Sjá, hjálpræði þitt kemur! Sjá, endurgjald hans fylgir honum, og fengur hans fer á undan honum!‘“ (Jesaja 62:11) Hjálpræði Gyðinga kom þegar Babýlon féll og þeir sneru aftur heim til ættjarðar sinnar. En það er meira fólgið í þessum orðum. Yfirlýsing Jehóva minnir á spádóm Sakaría um Jerúsalem: „Fagna þú mjög, dóttirin Síon, lát gleðilátum, dóttirin Jerúsalem! Sjá, konungur þinn kemur til þín. Réttlátur er hann og sigursæll, lítillátur og ríður asna, ungum ösnufola.“ — Sakaría 9:9.
24 Jesús reið inn í Jerúsalem og hreinsaði musterið þrem og hálfu ári eftir að hann skírðist í vatni og var smurður anda Guðs. (Matteus 21:1-5; Jóhannes 12:14-16) Núna færir Jesús Kristur öllum hjálpræði sem trúa á Jehóva. Er Jehóva setti hann í hásæti árið 1914 var honum jafnframt falið að dæma og fullnægja dómi. Árið 1918, þrem og hálfu ári eftir valdatökuna, hreinsaði hann andlegt musteri Jehóva með því að hreinsa söfnuð smurðra kristinna manna á jörðinni. (Malakí 3:1-5) Að reisa Jesú sem merki var upphaf þess að safna saman mönnum alls staðar að til stuðnings messíasarríkinu. Samkvæmt hinni fornu fyrirmynd hlaut Ísrael Guðs „hjálpræði“ er hann var leystur úr Babýlon hinni miklu árið 1919. Hinir fórnfúsu uppskerumenn eiga í vændum „endurgjald“ eða ‚feng‘ sem felst annaðhvort í ódauðleika á himnum eða eilífu lífi á jörð. Allir sem eru trúfastir geta treyst að ‚erfiði þeirra sé ekki árangurslaust í Drottni.‘ — 1. Korintubréf 15:58.
25. Hverju er fólki Jehóva lofað?
25 Þetta eru jákvæðar horfur fyrir himneskt skipulag Jehóva, fyrir smurða fulltrúa þess á jörðinni og fyrir alla sem styðja þá. (5. Mósebók 26:19) Jesaja spáði: „Þeir munu kallaðir verða hinn heilagi lýður, hinir endurleystu [Jehóva], og þú munt kölluð verða hin fjölsótta, borgin, sem eigi var yfirgefin.“ (Jesaja 62:12) ‚Jerúsalem í hæðum,‘ í mynd Ísraels Guðs, fannst hún einu sinni vera yfirgefin en það gerist aldrei aftur. Fólk Jehóva mun njóta verndar hans að eilífu og gleðjast yfir velþóknun hans.
[Neðanmáls]
a Í spádómum Biblíunnar getur ‚nýtt nafn‘ táknað nýja stöðu eða sérréttindi. — Opinberunarbókin 2:17; 3:12.
[Rammagrein á blaðsíðu 342]
Göfugt fordæmi fyrir hjón
Allir gera sér ákveðnar væntingar þegar þeir stofna til hjónabands. En hvers væntir Guð, höfundur hjónabandsins? Hvaða tilgangi átti það að þjóna?
Samband Guðs við Ísraelsþjóðina er ákveðin vísbending um sjónarmið hans. Jesaja líkir sambandi þeirra við hjónaband. (Jesaja 62:1-5) Sjáðu hvernig Jehóva, „eiginmaðurinn,“ verndar „brúði“ sína og helgar hana. (Jesaja 62:6, 7, 12) Hann metur hana mikils og heiðrar hana. (Jesaja 62:3, 8, 9) Og hann gleðst yfir henni eins og sjá má af nýju nöfnunum sem hann gefur henni. — Jesaja 62:4, 5, 12.
Páll postuli endurómar lýsingu Jesaja á sambandi Jehóva og Ísraels er hann líkir sambandi hjóna við samband Krists og safnaðar hinna smurðu. — Efesusbréfið 5:21-27.
Páll hvatti kristna menn til að líkja eftir sambandi Jesú og safnaðarins í hjónabandinu. Það er ekki hægt að sýna meiri kærleika en Jehóva sýndi Ísrael og Kristur söfnuðinum. Þessi táknrænu sambönd eru göfug fyrirmynd að farsælu og hamingjusömu hjónabandi kristinna manna. — Efesusbréfið 5:28-33.
[Mynd á blaðsíðu 339]
Jehóva mun kalla hina himnesku Síon nýju nafni.
[Mynd á blaðsíðu 347]
Varðmannshópur Jehóva í nútímanum hefur ekki þagað.