24. kafli
Jehóva afrekar sér dýrlegt nafn
1, 2. (a) Af hverju hafa kristnir menn mjög mikinn áhuga á væntanlegum ‚degi Jehóva‘? (b) Hvaða göfug ástæða liggur að baki þess sem gerist á degi Jehóva?
Í NÆSTUM tvö þúsund ár hafa kristnir menn beðið þess með eftirvæntingu að dagur Jehóva rynni upp. Hann hefur verið þeim ákaflega hugstæður. (2. Pétursbréf 3:12; Títusarbréfið 2:13) Skiljanlegt er að þeir séu óþreyjufullir að sjá þennan dag ganga í garð, enda verður hann upphafið að því að þeir losna undan eyðileggingaráhrifum ófullkomleikans. (Rómverjabréfið 8:22) Og þá lýkur því álagi sem þeir hafa mátt þola á þessum ‚örðugu tíðum.‘ — 2. Tímóteusarbréf 3:1.
2 En þó svo að það verði mikill léttir fyrir réttláta menn að sjá dag Jehóva renna upp hefur hann tortímingu í för með sér fyrir „þá, sem þekkja ekki Guð, og . . . þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú.“ (2. Þessaloníkubréf 1:7, 8) Þetta er alvarlegt umhugsunar. Ætlar Guð virkilega að eyða hinum óguðlegu til þess eins að bjarga fólki sínu úr nauðum? Sextugasti og þriðji kafli Jesajabókar bendir á að ástæðan sé mun göfugri, það er að segja sú að helga nafn hans.
Sigursæll stríðsmaður gengur fram
3, 4. (a) Hver er umgjörð spádómsins í 63. kafla Jesajabókar? (b) Hvern sér Jesaja skálma í átt til Jerúsalem og hvern halda sumir fræðimenn hann vera?
3 Í 62. kafla Jesajabókar lásum við um frelsun Gyðinga úr ánauðinni í Babýlon og endurheimt ættlands þeirra. Sú spurning hlýtur að vakna hvort hinir heimkomnu Gyðingar þurfi að óttast að óvinaþjóðir eyði landið á ný. Sýn Jesaja slær á þann ótta. Spádómurinn hefst þannig: „Hver er þessi, sem kemur frá Edóm, í hárauðum klæðum frá Bosra? Þessi hinn tigulega búni, sem gengur fram hnarreistur í mikilleik máttar síns?“ — Jesaja 63:1a.
4 Jesaja sér röskan og sigursælan stríðsmann skálma í átt til Jerúsalem. Skartklæðin bera vitni um að hann sé háttsettur mjög. Hann kemur frá Bosra, helstu borg Edóms, sem bendir til þess að hann sé búinn að vinna frækilegan sigur á þessu óvinveitta ríki. Hver getur stríðsmaðurinn verið? Sumir fræðimenn segja að þetta sé Jesús Kristur en aðrir telja hann vera Júdas Makkabeus, herstjóra Gyðinga. En stríðsmaðurinn svarar því sjálfur og segir deili á sér: „Það er ég, sá er mæli réttlæti og mátt hefi til að frelsa.“ — Jesaja 63:1b.
5. Hver er stríðsmaðurinn sem Jesaja sér? Rökstyddu svarið.
5 Lítill vafi leikur á að stríðsmaðurinn er Jehóva Guð sjálfur. Annars staðar er Jehóva lýst svo að hann sé ‚mikill að krafti‘ og ‚tali það sem rétt er.‘ (Jesaja 40:26; 45:19, 23) Tignarklæðin minna á orð sálmaritarans: „[Jehóva], Guð minn, þú ert harla mikill. Þú ert klæddur hátign og vegsemd.“ (Sálmur 104:1) Jehóva er Guð kærleikans en Biblían bendir á að hann bregði sér í búning stríðsmanns þegar nauðsyn ber til. — Jesaja 34:2; 1. Jóhannesarbréf 4:16.
6. Hvers vegna er Jehóva á heimleið eftir bardaga í Edóm?
6 En af hverju er Jehóva á heimleið eftir bardaga í Edóm? Um aldaraðir, allt frá dögum Esaús ættföður síns, hafa Edómítar verið hatursmenn sáttmálaþjóðar Guðs. (1. Mósebók 25:24-34; 4. Mósebók 20:14-21) Hatur þeirra á Júdamönnum sýndi sig berlega er þeir eggjuðu hermenn Babýlonar til dáða meðan eyðing Jerúsalem stóð yfir. (Sálmur 137:7) Jehóva lítur á slíkan fjandskap sem persónulega móðgun við sig svo að það er ekkert undarlegt að hann skuli hafa ákveðið að láta sverð hefndarinnar dynja á Edóm. — Jesaja 34:5-15; Jeremía 49:7-22.
7. (a) Hvernig rættist spádómurinn um Edóm í upphafi? (b) Hvað táknar Edóm?
7 Sýn Jesaja er því einkar uppörvandi fyrir Gyðingana sem eru á heimleið til Jerúsalem. Hún fullvissar þá um að þeir geti búið óhultir í nýjum heimkynnum. Á dögum spámannsins Malakís er Guð búinn að gera ‚fjallbyggðir Edóms að auðn og fá eyðimerkursjakölunum arfleifð hans til eignar.‘ (Malakí 1:3) Var spádómur Jesaja þá búinn að rætast að fullu? Nei, þótt Edóm lægi í eyði voru Edómítar staðráðnir í að byggja upp eyðistaðina að nýju, og Malakí kallar Edóm áfram „Glæpaland“ og „Lýðinn sem [Jehóva] er eilíflega reiður.“a (Malakí 1:4, 5) En spádómlega táknar Edóm allar þjóðir sem reynast óvinir tilbiðjenda Jehóva, en ekki aðeins afkomendur Esaús. Þar hafa þjóðir kristna heimsins gengið hvað lengst. Hvað verður um þennan Edóm nútímans?
Vínþröngin
8, 9. (a) Hvað hafði stríðsmaðurinn í sýn Jesaja verið að gera? (b) Hvenær og hvernig er hin táknræna vínþröng troðin?
8 Jesaja spyr hinn heimkomna stríðsmann: „Hví er rauð skikkja þín, og klæði þín eins og þess, er treður ber í vínþröng?“ Jehóva svarar: „Vínlagarþró hefi ég troðið, aleinn, af þjóðunum hjálpaði mér enginn. Ég fótum tróð þá í reiði minni, marði þá sundur í heift minni. Þá hraut lögur þeirra á klæði mín, og skikkju mína ataði ég alla.“ — Jesaja 63:2, 3.
9 Þessi myndrænu orð lýsa blóðbaði. Tignarklæði Guðs eru jafnvel óhrein eins og föt manns sem treður vínþröng. Vínþröngin er viðeigandi tákn þeirrar sjálfheldu sem óvinir Jehóva eru í þegar hann eyðir þeim. Hvenær verður hin táknræna vínþröng troðin? Jóel og Jóhannes postuli tala einnig um táknræna vínþröng í spádómum sínum. Vínþröngin í þessum spádómum verður troðin er Jehóva traðkar niður óvini sína í eyðingarstríðinu við Harmagedón. (Jóel 3:18; Opinberunarbókin 14:18-20; 16:16) Hin spádómlega vínþröng Jesaja vísar til sama tíma.
10. Af hverju segist Jehóva hafa troðið vínþröngina sjálfur?
10 En hvers vegna segist Jehóva hafa troðið vínþröngina aleinn og að enginn af þjóðunum hafi hjálpað sér? Treður ekki Jesús Kristur, fulltrúi hans, með honum? (Opinberunarbókin 19:11-16) Jú, en Jehóva er að tala um menn en ekki andaverur. Hann er að segja að enginn maður sé verkinu vaxinn að losa jörðina við fylgismenn Satans. (Jesaja 59:15, 16) Guð hinn alvaldi þarf sjálfur að troða þá í reiði sinni uns þeim er öllum tortímt.
11. (a) Hvers vegna hefur Jehóva ákveðið ‚hefndardag‘? (b) Hverjir voru leystir forðum daga og hverjir eru leystir núna?
11 Jehóva skýrir nánar hvers vegna hann vinnur verkið sjálfur og segir: „Hefndardagur var mér í hug, og lausnarár mitt er komið.“ (Jesaja 63:4)b Enginn nema Jehóva á rétt á að fullnægja hefnd á þeim sem vinna fólki hans mein. (5. Mósebók 32:35) Forðum daga ‚leysti‘ hann Gyðinga úr haldi Babýloníumanna. (Jesaja 35:10; 43:1; 48:20) Í nútímasögu voru það hinar smurðu leifar sem hann leysti úr trúarlegri ánauð líkt og hliðstæðu þeirra forðum daga. (Opinberunarbókin 12:17) Hinir smurðu og félagar þeirra, ‚aðrir sauðir,‘ hafa einnig verið ofsóttir og mátt þola andstöðu líkt og Gyðingar til forna. (Jóhannes 10:16) Spádómur Jesaja veitir kristnum mönnum tryggingu fyrir því að Guð skerist í leikinn í fyllingu tímans.
12, 13. (a) Í hvaða skilningi hjálpar enginn Jehóva? (b) Hvernig veitir armleggur Jehóva hjálpræði og hvernig aðstoðar heiftin hann?
12 Jehóva heldur áfram: „Ég litaðist um, en enginn var til að hjálpa, mig undraði, að enginn skyldi aðstoða mig. En þá hjálpaði mér armleggur minn, og heift mín aðstoðaði mig. Ég tróð þjóðirnar í reiði minni og marði þær sundur í heift minni og lét löginn úr þeim renna á jörðina.“ — Jesaja 63:5, 6.
13 Enginn mennskur hjálpari getur eignað sér heiðurinn af hinum mikla hefndardegi Jehóva. Og Jehóva þarf ekki stuðning manna til að framkvæma vilja sinn.c Armleggur hans er óendanlega sterkur og ræður fullkomlega við þetta verk. (Sálmur 44:4; 98:1; Jeremía 27:5) Og heift hans aðstoðar hann. Hvernig þá? Heift Guðs er ekki taumlaus bræði heldur réttlát reiði. Hann hefur réttlátar meginreglur alltaf að leiðarljósi þannig að heiftin aðstoðar hann og knýr til að láta ‚löginn úr óvinum sínum renna á jörðina‘ er hann sigrar þá og auðmýkir. — Sálmur 75:9; Jesaja 25:10; 26:5.
Mildi Guðs og miskunn
14. Á hvað minnir Jesaja Gyðingana?
14 Gyðingar forðum daga voru gleymnir á góðverk Jehóva Guðs. Jesaja minnir þá þess vegna á hvers vegna Jehóva hafi gert þeim gott. Hann segir: „Ég vil víðfrægja hinar mildilegu velgjörðir [Jehóva], syngja honum lof fyrir allt það, sem hann hefir við oss gjört, og hina miklu gæsku hans við Ísraels hús, er hann hefir auðsýnt þeim af miskunn sinni og mikilli mildi. Hann sagði: ‚Vissulega eru þeir minn lýður, börn, sem ekki munu bregðast!‘ Og hann varð þeim frelsari. Ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir, kenndi hann nauða, og engill auglitis hans frelsaði þá. Af elsku sinni og vægðarsemi endurleysti hann þá, hann tók þá upp og bar þá alla daga hinna fyrri tíða.“ — Jesaja 63:7-9.
15. Hvenær og hvernig sýndi Jehóva afkomendum Abrahams í Egyptalandi mildi og miskunn?
15 Jehóva er einstakt dæmi um mildi og miskunn.d (Sálmur 36:8; 62:13) Hann bast ættföðurnum Abraham kærleiksböndum og hét honum því að afkvæmi hans skyldi verða öllum þjóðum jarðar til blessunar. (Míka 7:20; 1. Mósebók 22:17, 18) Jehóva stóð við þetta loforð og sýndi Ísraelsætt mikla gæsku og góðvild. Ein mesta velgerð hans var sú að bjarga afkomendum Abrahams úr þrælkun í Egyptalandi. — 2. Mósebók 14:30.
16. (a) Hvaða traust sýndi Jehóva er hann gerði sáttmálann við Ísrael? (b) Hvernig kemur Guð fram við fólk sitt?
16 Eftir burtförina af Egyptalandi leiddi Jehóva Ísraelsmenn til Sínaífjalls og hét þeim: „Ef þér hlýðið minni röddu grandgæfilega og haldið minn sáttmála, þá skuluð þér vera mín eiginleg eign . . . Og þér skuluð vera mér prestaríki og heilagur lýður.“ (2. Mósebók 19:5, 6) Var hann að blekkja þá með boði sínu? Nei, því að Jesaja segir að Jehóva hafi sagt við sjálfan sig: „Vissulega eru þeir minn lýður, börn, sem ekki munu bregðast!“ Fræðimaður segir: „Orðið ‚vissulega‘ er ekki tilskipun einvalds eða sagt í skjóli fyrirvitundar heldur tjáir það von og traust kærleikans.“ Jehóva gerði sáttmála sinn í góðri trú og þráði í einlægni að fólki sínu farnaðist vel. Hann sýndi þjóðinni traust þrátt fyrir augljósan ófullkomleika hennar. Það er unaðslegt að mega tilbiðja Guð sem ber svona mikið traust til dýrkenda sinna. Öldungar nútímans styrkja þá sem þeim er falin umsjón með ef þeir líkja eftir Guði og treysta að trúbræður þeirra séu í eðli sínu góðir. — 2. Þessaloníkubréf 3:4; Hebreabréfið 6:9, 10.
17. (a) Hvernig sýndi Jehóva Ísraelsmönnum kærleika sinn og miskunn? (b) Hverju getum við treyst?
17 En sálmaritarinn segir um Ísraelsmenn: „Þeir gleymdu Guði, frelsara sínum, þeim er stórvirki gjörði í Egyptalandi.“ (Sálmur 106:21) Þrjóskan og óhlýðnin kom þeim oft í skelfilegar ógöngur. (5. Mósebók 9:6) Hætti Jehóva að sýna þeim mildi og miskunn? Nei, Jesaja segir að ‚ávallt þegar þeir voru í nauðum staddir hafi hann kennt nauða.‘ Jehóva er einstaklega hluttekningarsamur. Hann er eins og ástríkur faðir sem tekur sárt að sjá börnin sín þjást, jafnvel þótt þau geti engu um kennt nema eigin flónsku. Eins og sagt var fyrir, og til merkis um kærleika sinn, sendi hann ‚engil auglitis síns‘ til að leiða þá inn í fyrirheitna landið. Líklega er þar átt við Jesú áður en hann varð maður. (2. Mósebók 23:20) Hann tók þjóðina upp og bar hana „eins og faðir ber barn sitt.“ (5. Mósebók 1:31; Sálmur 106:10) Við getum treyst því að Jehóva er jafnmeðvitaður um þjáningar okkar og kennir til með okkur þegar við erum í nauðum stödd. Við getum óhikað ‚varpað allri áhyggju okkar á hann því að hann ber umhyggju fyrir okkur.‘ — 1. Pétursbréf 5:7.
Guð gerist óvinur
18. Hvers vegna varð Jehóva óvinur þjóðar sinnar?
18 En við ættum aldrei að misnota mildi Guðs og miskunn. Jesaja heldur áfram: „Þeir gjörðust mótsnúnir og hryggðu heilagan anda hans. Gjörðist hann þá óvinur þeirra og barðist sjálfur í móti þeim.“ (Jesaja 63:10) Jehóva varaði Ísraelsmenn við því að hann ‚léti ekki með öllu óhegnt‘ fyrir syndir þótt hann miskunni og líkni. (2. Mósebók 34:6, 7) Ísraelsmenn kölluðu yfir sig refsingu með sífelldri óhlýðni og mótþróa. „Gleym því eigi, hvernig þú reittir [Jehóva] Guð þinn til reiði í eyðimörkinni,“ sagði Móse. „Frá því þú fyrst lagðir af stað úr Egyptalandi og þar til, er þér komuð hingað, hafið þér óhlýðnast [Jehóva].“ (5. Mósebók 9:7) Þeir hryggðu anda Guðs með því að streitast gegn heilnæmum áhrifum hans og neyddu hann til að gerast óvinur þeirra. — Efesusbréfið 4:30; 3. Mósebók 26:17; 5. Mósebók 28:63.
19, 20. Hvers minnast Gyðingar og af hverju?
19 Sumir Gyðingar hugsa til baka þegar neyðin er sem stærst. Jesaja segir: „Þá minntist lýður hans hinna fyrri tíða, þá er Móse var á dögum: Hvar er hann, sem leiddi þá upp úr hafinu ásamt hirði hjarðar sinnar? Hvar er hann, sem lét heilagan anda sinn búa mitt á meðal þeirra? Hann sem lét dýrðarsamlegan armlegg sinn ganga Móse til hægri handar, hann sem klauf vötnin fyrir þeim til þess að afreka sér eilíft nafn, hann sem lét þá ganga um djúpin, eins og hestur gengur um eyðimörk, og þeir hrösuðu ekki? Eins og búféð, sem fer ofan í dalinn, færði andi [Jehóva] þá til hvíldar.“ — Jesaja 63:11-14a.
20 Gyðingar þjást sökum óhlýðni sinnar og sakna þess tíma er Jehóva var frelsari þeirra en ekki óvinur. Þeir eru minnugir þess hvernig ‚hirðar‘ þeirra, þeir Móse og Aron, leiddu þá óhulta gegnum Rauðahafið. (Sálmur 77:21; Jesaja 51:10) Þeir minnast þess er þeir hryggðu ekki anda Guðs heldur nutu handleiðslu hans fyrir milligöngu Móse og annarra andaskipaðra öldunga. (4. Mósebók 11:16, 17) Og þeir minnast þess hvernig Jehóva beitti ‚dýrðarsamlegum armlegg‘ máttar síns fyrir milligöngu Móse. Síðar leiddi Guð þá út úr eyðimörkinni miklu og hræðilegu og veitti þeim hvíld í landi er flaut í mjólk og hunangi. (5. Mósebók 1:19; Jósúabók 5:6; 22:4) En núna líða Ísraelsmenn af því að þeir hafa glatað vinsamlegu sambandi sínu við Guð.
„Dýrðarsamlegt nafn“
21. (a) Hvaða einstök sérréttindi gátu Ísraelsmenn haft í sambandi við nafn Guðs? (b) Hver var meginástæðan fyrir því að Guð frelsaði afkomendur Abrahams frá Egyptalandi?
21 Ísraelsmenn hafa kastað frá sér þeim sérréttindum að vegsama nafn Guðs. Efnislegt tjón þeirra bliknar í samanburði við það. Móse sagði Gyðingum: „[Jehóva] gjöri þig að lýð, sem heilagur er fyrir honum, eins og hann hefir svarið þér, ef þú varðveitir skipanir [Jehóva] Guðs þíns og gengur á hans vegum. Og allar þjóðir á jörðinni munu þá sjá, að þú hefir nefndur verið eftir nafni [Jehóva], og þær munu óttast þig.“ (5. Mósebók 28:9, 10) Þegar Jehóva bjargaði afkomendum Abrahams úr þrælkuninni í Egyptalandi var það ekki aðeins í þeim tilgangi að gera lífið þægilegra og ánægjulegra fyrir þá. Hann gerði það vegna nafns síns sem var miklu mikilvægara mál, til þess að það „yrði kunngjört um alla veröld.“ (2. Mósebók 9:15, 16) Og þegar hann hugðist refsa Ísrael eftir uppreisnina í eyðimörkinni en hætti við það var það ekki sökum tilfinningasemi heldur sagði hann: „Ég gjörði það samt ekki, fyrir nafns míns sakir, svo að það skyldi eigi vanhelgað verða í augum heiðingja.“ — Esekíel 20:8-10.
22. (a) Hvenær mun Guð berjast aftur fyrir fólk sitt? (b) Hvaða áhrif hefur það á breytni okkar að elska nafn Guðs?
22 Jesaja lýkur þessum spádómi á mjög áhrifamikinn hátt. Hann segir: „Þannig hefir þú leitt lýð þinn til þess að afreka þér dýrðarsamlegt nafn.“ (Jesaja 63:14b) Nú sjáum við í skýru ljósi hvers vegna Jehóva berst kröftuglega fyrir þjóð sína. Það er til þess að afreka sér dýrlegt nafn. Spádómur Jesaja er því sterk áminning um að það sé bæði ógurlegur heiður og ábyrgð að bera nafn Jehóva. Sannkristnir menn elska nafn hans heitar en eigið líf. (Jesaja 56:6; Hebreabréfið 6:10) Þeir vilja ekki gera neitt sem gæti hugsanlega kastað rýrð á hið helga nafn. Þeir svara tryggum kærleika Guðs með því að sýna honum hollustu. Og þar sem þeir elska dýrlegt nafn hans þrá þeir þann dag er hann treður niður óvini sína í vínþröng reiðinnar — ekki eingöngu vegna þess að það er sjálfum þeim til hagsbóta heldur einnig vegna þess að það verður nafni þess Guðs, sem þeir elska, til vegsemdar. — Matteus 6:9.
[Neðanmáls]
a Heródesarætt fyrstu aldar var komin af Edómítum.
b Hugsanlegt er að ‚lausnarárið‘ sé sama tímabil og ‚hefndardagurinn.‘ Svipuðum heitum er stillt upp sem hliðstæðum í Jesaja 34:8.
c Jehóva lýsir undrun sinni yfir því að enginn skuli hafa boðið sér aðstoð. Það má reyndar telja furðulegt að nærri 2000 árum eftir dauða Jesú skuli valdamenn enn þá standa á móti vilja Guðs. — Sálmur 2:2-13; Jesaja 59:16.
d Hebreska orðið, sem þýtt er „mildi“ og „mildilegu“ í Jesaja 63:7, merkir bókstaflega ástúðleg umhyggja eða tryggur kærleikur. Það er yfirleitt þýtt „miskunn“ í íslensku biblíunni.
[Mynd á blaðsíðu 359]
Jehóva batt miklar vonir við fólk sitt.