Kanntu að meta skipulag Jehóva?
„Svo segir [Jehóva]: Himinninn er hásæti mitt og jörðin er fótskör mín.“ — JESAJA 66:1.
1, 2. (a) Hvaða sýnileg merki um skipulag Jehóva geturðu bent á? (b) Hvar býr Jehóva?
TRÚIR þú að Jehóva eigi sér skipulag? Hvers vegna trúirðu því? Þú gætir svarað: ‚Nú, við eigum ríkissal. Við höfum skipulagðan söfnuð með öldungaráði. Við höfum útnefndan farandhirði sem heimsækir okkur reglulega. Við sækjum vel skipulögð svæðis- og umdæmismót. Við höfum útibú Varðturnsfélagsins í landinu. Þetta og margt fleira sannar auðvitað að Jehóva á sér starfandi skipulag.‘
2 Allt eru þetta skýr merki þess að til sé skipulag. En ef við sjáum það eitt sem er hér á jörðinni höfum við ekki fullan skilning á skipulagi Jehóva. Jehóva sagði Jesaja að jörðin væri aðeins fótskör sín en himinninn væri hásæti sitt. (Jesaja 66:1) Hvaða ‚himin‘ var Jehóva að tala um? Andrúmsloftið, útgeiminn eða eitthvert annað tilverusvið? Jesaja talar um ‚heilagan og dýrðarsamlegan bústað‘ Jehóva og sálmaritarinn talar einnig um himininn sem „bústað“ hans. „Himinninn“ í Jesaja 66:1 er því hið ósýnilega, andlega tilverusvið þar sem Jehóva er æðstur. — Jesaja 63:15; Sálmur 33:13, 14.
3. Hvernig getum við sigrast á efasemdum?
3 Við verðum því að horfa til himins ef við viljum í alvöru skynja og skilja hvað skipulag Jehóva er og meta það að verðleikum. Og sumir eiga erfitt með það. Hvernig getum við verið viss um að himneskt skipulag Jehóva sé til í raun og veru fyrst það er ósýnilegt? Sumir eru kannski óvissir um tíma og spyrja sig hvernig hægt sé að vita vissu sína. Hvernig getur trú yfirunnið efasemdir? Tvær helstu leiðirnar eru rækilegt nám í orði Guðs og regluleg samkomusókn ásamt þátttöku í þeim. Þá getur ljós sannleikans eytt óvissu okkar og efasemdum. Aðrir þjónar Guðs hafa haft sínar efasemdir. Við skulum taka sem dæmi þjón Elísa þegar Ísrael varð fyrir árás Sýrlandskonungs. — Samanber Jóhannes 20:24-29; Jakobsbréfið 1:5-8.
Hann sá hinar himnesku hersveitir
4, 5. (a) Hvaða vanda átti þjónn Elísa við að glíma? (b) Hvernig brást Jehóva við bæn Elísa?
4 Sýrlandskonungur sendi mikinn herafla um nótt til Dótan í þeim tilgangi að ná Elísa. Þjóni Elísa brá ekki lítið þegar hann fór á fætur snemma morguns og fór út, kannski til að fá sér ferskt loft úti á flötu húsþakinu þar sem þeir dvöldu. Heill her Sýrlendinga með hesta og vagna umkringdi borgina og beið þess að handtaka spámann Guðs. Þjónninn hrópaði til Elísa: „Æ, herra minn, hvað eigum við nú til bragðs að taka?“ Elísa svaraði með augljósri ró og sannfæringu: „Óttast ekki, því að fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru.“ Þjónninn hlýtur að hafa hugsað undrandi: ‚Hvar eru þeir? Ég sé þá ekki!‘ Stundum gæti það líka verið okkar vandamál — við sjáum ekki hinar himnesku hersveitir með skilningsaugum okkar, við skynjum ekki tilvist þeirra. — 2. Konungabók 6:8-16; Efesusbréfið 1:18.
5 Elísa bað þess í bæn að augu þjónsins mættu opnast. Hvað gerðist svo? „Þá opnaði [Jehóva] augu sveinsins, og sá hann þá, að fjallið var alþakið hestum og eldlegum vögnum hringinn í kring um Elísa.“ (2. Konungabók 6:17) Já, hann sá hinar himnesku hersveitir, englaherinn sem beið þess að vernda þjón Guðs. Nú skildi hann trúartraust Elísa.
6. Hvernig getum við fengið innsýn í himneskt skipulag Jehóva?
6 Eigum við stundum erfitt með að skilja og skynja eins og þjónn Elísa? Hættir okkur til að sjá aðeins áþreifanlegu hliðina þegar okkur eða hinu kristna starfi er ógnað einhvers staðar í heiminum? Ef svo er, megum við þá búast við sérstakri sýn til að upplýsa okkur? Nei, því að við höfum nokkuð sem þjónn Elísa hafði ekki — Biblíuna, heila bók sem inniheldur margar sýnir þar sem við fáum innsýn í hið himneska skipulag. Þetta innblásna orð Guðs inniheldur líka leiðbeinandi meginreglur til að leiðrétta hugsun okkar og lífsstefnu. En við verðum að leggja það á okkur að sækjast eftir dómgreind og hyggindum og læra að meta fyrirkomulag Jehóva að verðleikum. Og það getum við gert með einkanámi, bæn og hugleiðingu. — Rómverjabréfið 12:12; Filippíbréfið 4:6; 2. Tímóteusarbréf 3:15-17.
Nám til skilningsauka
7. (a) Af hverju gæti sumum þótt einkabiblíunám erfitt? (b) Hvers vegna er einkanám erfiðisins virði?
7 Mörgum þykir einkanám ekkert notaleg tilhugsun, til dæmis þeim sem voru engir námshestar í skóla eða hlutu litla menntun. En ef við viljum skynja og sjá skipulag Jehóva með skilningsaugum okkar verðum við að þroska með okkur löngun til náms. Er hægt að njóta ljúffengrar máltíðar án undirbúnings? Góður matreiðslumaður veit mætavel að það kostar heilmikla vinnu að elda gómsæta máltíð. Þó tekur ekki nema hálftíma eða minna að innbyrða hana. Einkanám getur hins vegar orðið að gagni ævilangt. Við getum lært að njóta einkanáms þegar við sjáum hvaða framförum hægt er að taka. Páll postuli sagði réttilega að við ættum að hafa stöðuga gát á sjálfum okkur og fræðslunni og vera kostgæfin við að lesa úr Ritningunni. Það kostar stöðuga viðleitni en gagnið getur verið eilíft. — 1. Tímóteusarbréf 4:13-16.
8. Hvaða viðhorfi mæla Orðskviðirnir með?
8 Spekingur til forna sagði: „Son minn [eða dóttir], ef þú veitir orðum mínum viðtöku og geymir boðorð mín hjá þér, svo að þú ljáir spekinni athygli þína, hneigir hjarta þitt að hyggindum, já, ef þú kallar á skynsemina og hrópar á hyggindin, ef þú leitar að þeim sem að silfri og grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum, þá munt þú skilja, hvað ótti [Jehóva] er, og öðlast þekking á Guði.“ — Orðskviðirnir 2:1-5.
9. (a) Hversu verðmætt er gull í samanburði við ‚þekkingu á Guði‘? (b) Hvaða verkfæri þurfum við til að afla okkur nákvæmrar þekkingar?
9 Sérðu hvar ábyrgðin liggur? Orðin „ef þú“ eru síendurtekin. Og taktu eftir orðunum ‚ef þú grefst eftir þeim eins og fólgnum fjársjóðum.‘ Hugsaðu þér silfur- og gullgrafarana sem stunduðu iðju sína öld eftir öld í Bólivíu, Mexíkó, Suður-Afríku og víðar. Þeir grófu af kappi með haka og skóflu í berg þar sem þeir fundu dýrmæta málma. Svo mikils mátu þeir gullið að í námu einni í Kaliforníu grófu þeir samanlagt 591 kílómetra löng göng, allt niður á eins og hálfs kílómetra dýpi — aðeins til að finna gull. En er hægt að borða gull eða drekka það? Heldur það lífinu í manni sem er að deyja úr hungri og þorsta í eyðimörk? Nei, verðmæti þess er tilbúið og tilviljanakennt, og það breytist dag frá degi eins og gullverð á alþjóðamörkuðum ber vitni um. Samt hafa menn dáið fyrir það. Hve mikið ætti maður að leggja á sig til að grafa upp andlegt gull, ‚þekkingu á Guði‘? Hugsaðu þér að eignast þekkingu á alvöldum Drottni alheimsins, skipulagi hans og tilgangi! Til þess getum við notað andlegan haka og skóflu. Þetta eru biblíuritin sem hjálpa okkur að grafa niður í orð Jehóva og skilja merkingu þess. — Jobsbók 28:12-19.
Grafið eftir skilningi
10. Hvað sá Daníel í sýn?
10 Við skulum grafa svolítið andlega til að byrja að draga fram þekkingu á himnesku skipulagi Jehóva. Til að fá vissa undirstöðuþekkingu skulum við fletta upp á sýninni þar sem Daníel sá hinn aldraða í hásæti. Daníel skrifar: „Ég horfði og horfði, þar til er stólar voru settir fram og hinn aldraði settist niður. Klæði hans voru hvít sem snjór og höfuðhár hans sem hrein ull. Hásæti hans var eldslogar og hjólin undir því eldur brennandi. Eldstraumur gekk út frá honum, þúsundir þúsunda þjónuðu honum og tíþúsundir tíþúsunda stóðu frammi fyrir honum. Dómendurnir settust niður og bókunum var flett upp.“ (Daníel 7:9, 10) Hverjar voru þessar þúsundir sem þjónuðu Jehóva? Ef við notum spássíutilvísanir í Nýheimsþýðingunni sem „haka“ og „skóflu“ sjáum við að vísað er í Sálm 68:17 (vers 18 í Biblíunni 1981) og Hebreabréfið 1:14. Í ljós kemur að þúsundirnar sem þjónuðu voru englar.
11. Hvernig getur sýn Daníels hjálpað okkur að skilja orð Elísa?
11 Daníel segir ekki í frásögn sinni að hann hafi séð alla trúfasta engla sem Guð ræður yfir. Þeir gætu verið milljónum fleiri. En við ættum að geta skilið hvers vegna Elísa gat sagt: „Fleiri eru þeir, sem með okkur eru, en þeir, sem með þeim eru.“ Himneskar hersveitir Jehóva voru fjölmennari en her Sýrlandskonungs, jafnvel þótt hann hefði ótrúa engla, illu andana, sér til fulltingis. — Sálmur 34:8; 91:11.
12. Hvernig geturðu fengið nánari vitneskju um engla?
12 Kannski langar þig til að vita meira um þessa engla, svo sem hvaða hlutverki þeir gegna í þjónustu Jehóva. Af gríska orðinu, sem þýtt er engill, má sjá að þeir eru sendiboðar því að orðið merkir það einnig. En skyldur þeirra eru fleiri og þú þarft að grafa til að komast að raun um hverjar þær eru. Ef þú hefur Innsýn í Ritninguna við hendina geturðu lesið greinina undir flettiorðinu „Englar“ („Angels“) eða leitað í greinum um engla sem birst hafa í Varðturninum. Það kemur þér á óvart hve miklar upplýsingar er að fá um þessa himnesku þjóna Guðs og þú lærir að meta stuðning þeirra. (Opinberunarbókin 14:6, 7) En sumar andaverur í himnesku skipulagi Guðs þjóna sérstökum tilgangi.
Sýn Jesaja
13, 14. Hvað sá Jesaja í sýn og hvaða áhrif hafði það á hann?
13 Við skulum nú grafa örlítið í sýn Jesaja. Þér þykir lýsingin í 6. kafla, 1. til 7. versi áreiðanlega tilkomumikil. Jesaja segist hafa ‚séð Jehóva sitjandi á veldistóli‘ og ‚serafa standa umhverfis hann.‘ Þeir kunngerðu dýrð Jehóva og dásömuðu heilagleika hans. Þú ættir að vera snortinn af því einu að lesa þessa frásögu. Hvernig brást Jesaja við? „Þá sagði ég: ‚Vei mér, það er úti um mig! Því að ég er maður, sem hefi óhreinar varir og bý meðal fólks, sem hefir óhreinar varir, því að augu mín hafa séð konunginn, [Jehóva] allsherjar.‘“ Hann var djúpt snortinn af þessari sýn. Hvað um þig?
14 Hvernig gat Jesaja afborið þessa dýrðarsýn? Hann segir að serafi hafi komið sér til bjargar og sagt: „Misgjörð þín er burt tekin og friðþægt er fyrir synd þína.“ (Jesaja 6:7) Jesaja gat treyst á miskunn Jehóva Guðs og gefið gaum að orðum hans. Langar þig ekki til að vita meira um þessar háttsettu andaverur? Hvað þarftu þá að gera? Grafa eftir meiri upplýsingum. Eitt af áhöldunum, sem þú getur notað, er Efnisskrá Varðturnsfélagsins. Með tilvísanir hennar að vopni geturðu viðað að þér ýmsu efni til skilningsauka.
Hvað sá Esekíel?
15. Af hverju má ráða að sýn Esekíels sé áreiðanleg?
15 Beinum nú athyglinni að annars konar andaveru. Esekíel fékk þau sérréttindi að sjá hrífandi sýn meðan hann var enn fangi í Babýlon. Opnaðu Biblíuna á 1. kafla Esekíelsbókar og líttu á þrjú fyrstu versin. Hvernig hefst frásagan? Hefst hún með orðunum: ‚Einu sinni, í fjarlægu landi . . .‘? Nei, þetta er ekkert ævintýri frá goðsögutíma. Fyrsta versið segir: „Á þrítugasta árinu, í fjórða mánuðinum, hinn fimmta dag mánaðarins, þá er ég var á meðal hinna herleiddu við Kebarfljótið, opnaðist himinninn og ég sá guðlegar sýnir.“ Hverju tekurðu eftir í þessu versi? Það tiltekur nákvæman stað og stund þannig að við vitum að þetta gerðist á fimmta útlegðarári Jójakíns konungs, árið 613 f.o.t.
16. Hvað sá Esekíel?
16 Hönd Jehóva kom yfir Esekíel og hann sá Jehóva í ógnþrunginni sýn þar sem hann sat í hásæti á gríðarmiklum, himneskum stríðsvagni með feikistórum hjólum, og voru hjólbogarnir alsettir augum. Það vekur sérstakan áhuga okkar að ein vera stóð við hvert hjólanna fjögurra. „Og þetta var útlit þeirra: Mannsmynd var á þeim. Hver þeirra hafði fjórar ásjónur og hver þeirra hafði fjóra vængi. . . . Ásjónur þeirra litu svo út: Mannsandlit að framan, ljónsandlit hægra megin á þeim fjórum, nautsandlit vinstra megin á þeim fjórum og arnarandlit á þeim fjórum aftanvert.“ — Esekíel 1:5, 6, 10.
17. Hvað tákna hin fjögur andlit kerúbanna?
17 Hverjar voru þessar fjórar verur? Esekíel segir þetta hafa verið kerúba. (Esekíel 10:1-3, 14) Hvers vegna höfðu þeir fjögur andlit? Til að tákna fjóra höfuðeiginleika alvalds Drottins Jehóva. Arnarandlitið táknaði framsýna visku. (Jobsbók 39:27-29) Hvað táknaði nautsandlitið? Háls og bógur nautsins er gríðarlega sterkur og þess eru dæmi að naut í vígahug hafa kastað hesti og knapa á loft. Nautið er vissulega tákn um takmarkalaust afl Jehóva. Ljónið er notað sem tákn hugrekkis og réttlætis. Og mannsandlitið táknar eðlilega kærleika Guðs því að maðurinn er eina veran á jörð sem getur sýnt þennan eiginleika af greind og skynsemi. — Matteus 22:37, 39; 1. Jóhannesarbréf 4:8.
18. Hvernig bætir Jóhannes postuli skilning okkar á hinu himneska skipulagi?
18 Ýmsar aðrar sýnir geta hjálpað okkur að fullgera myndina. Þeirra á meðal eru sýnir Jóhannesar sem Opinberunarbókin segir frá. Líkt og Esekíel sér hann Jehóva í dýrlegu hásæti umkringdan kerúbum. Hvað gera kerúbarnir? Þeir enduróma yfirlýsingu serafanna í 6. kafla Jesajabókar og segja: „Heilagur, heilagur, heilagur, [Jehóva] Guð, hinn alvaldi, hann sem var og er og kemur.“ (Opinberunarbókin 4:6-8) Jóhannes sér einnig lamb við hásætið. Hvern skyldi það tákna? Sjálft Guðslambið, Jesú Krist. — Opinberunarbókin 5:13, 14.
19. Hvað hefurðu lært um skipulag Jehóva af þessu námsefni?
19 Hvað höfum við þá lært af þessum sýnum? Að Jehóva Guð situr æðstur í hásæti sínu í hinu himneska skipulagi og með honum er lambið Jesús Kristur sem er einnig kallaður orðið eða Logos. Síðan höfum við séð himneskan englaher sem í eru meðal annars serafar og kerúbar. Þeir tilheyra einu, gríðarmiklu og sameinuðu skipulagi sem þjónar tilgangi Jehóva. Og sá tilgangur felur meðal annars í sér prédikun fagnaðarerindisins um heim allan núna á endalokatímanum. — Markús 13:10; Jóhannes 1:1-3; Opinberunarbókin 14:6, 7.
20. Hvaða spurningu verður svarað í greininni á eftir?
20 Loks er að nefna votta Jehóva á jörðinni sem safnast saman í ríkissölunum til að læra að gera vilja alvalds Drottins. Við hljótum að gera okkur ljóst núna að það eru fleiri með okkur en með Satan og óvinum sannleikans. En þeirri spurningu er enn ósvarað hvernig hið himneska skipulag tengist prédikun fagnaðarerindisins um ríkið. Það og fleira er skoðað í greininni á eftir.
Upprifjunarspurningar
◻ Hvað verðum við að skynja til að kunna að meta skipulag Jehóva?
◻ Hvað fékk þjónn Elísa að reyna og hvernig hvatti spámaðurinn hann?
◻ Hvernig ættum við að líta á einkanám?
◻ Hvaða upplýsingar veita Daníel, Jesaja og Esekíel um hið himneska skipulag?
[Mynd á blaðsíðu 8]
Einkanám gerir miklu varanlegra gagn en gómsæt máltíð.
[Mynd á blaðsíðu 9]
Jehóva svaraði bæn Elísa með því að sýna himneskar hersveitir í sýn.