Hvaða framtíð viltu búa börnum þínum?
LÍTURÐU á börnin sem dýrmæta gjöf frá Guði? (Sálmur 127:3) Eða líturðu á uppeldi þeirra sem fjárhagslega byrði og árangurinn með öllu óvissan? Börnin skila ekki arði heldur þarf að eyða peningum í uppeldi þeirra uns þau geta séð fyrir sér sjálf. Farsælt uppeldi er að því leyti líkt umsjón með verðmætri gjöf að það kostar góða skipulagningu.
Umhyggjusamir foreldrar vilja koma börnum sínum vel á legg. Enda þótt mjög sorglegir atburðir geti átt sér stað í þessum heimi geta foreldrar gert margt til að vernda börnin. Lítum á Werner og Evu sem dæmi, en þau voru nefnd í greininni á undan.a
Þegar foreldrar láta sér annt um börnin
Werner segir að foreldrar sínir hafi ekki verið afskiptalausir heldur sýnt því ósvikinn áhuga sem var að gerast í skólanum. „Ég var mjög þakklátur fyrir ráðleggingar þeirra og fann að þeim var annt um mig og þau studdu mig. Þau voru mjög ákveðnir foreldrar en ég vissi að þau voru sannir vinir mínir.“ Og þegar skólanámið kom Evu úr jafnvægi svo að hún varð þunglynd og átti erfitt um svefn eyddu foreldrarnir, Francisco og Inez, líka löngum tíma í að tala við hana og hjálpa henni að ná aftur andlegu jafnvægi.
Hvernig reyndu Francisco og Inez að vernda börnin sín og búa þau undir fullorðinsárin? Allt frá því að börnin voru ung höfðu þessir ástríku foreldrar þau með sér við dagleg störf. Francisco og Inez fóru ekki ein í kunningjaheimsóknir heldur tóku börnin með sér hvert sem þau fóru. Þau veittu syni sínum og dóttur líka rétta leiðsögn. „Við kenndum þeim að annast heimilið, vera hagsýn og sjá sjálf um fötin sín,“ segir Inez. „Og við hjálpuðum þeim að velja sér starfsgrein og samrýma skyldur sínar og andleg hugðarefni.“
Það er gríðarlega mikilvægt að kynnast börnunum og leiðbeina þeim. Könnum nánar þrjú svið þar sem þú gætir gert það: (1) Hjálpaðu börnunum að velja sér viðeigandi vinnu; (2) búðu þau undir tilfinningaálag í skóla og á vinnustað og (3) kenndu þeim að fullnægja andlegum þörfum sínum.
Hjálpaðu þeim að velja sér heppilega vinnu
Þar sem veraldleg vinna hefur áhrif á fjárhag fólks og er mjög tímafrek huga góðir foreldrar að áhugamálum og hæfileikum hvers barns. Enginn samviskusamur maður vill vera öðrum til byrði, þannig að foreldrar ættu að hugsa alvarlega um það hvernig þeir geti búið barn sitt undir að sjá fyrir sjálfu sér og fjölskyldu. Þarf sonur eða dóttir að læra eitthvert fag til að sjá sómasamlega fyrir sér? Leggðu þig allan fram um að hjálpa barninu að þroska með sér eiginleika eins og iðjusemi, námfýsi og þægilegt viðmót.
Tökum Nínu sem dæmi. Hún segir: „Foreldrar mínir voru með hreingerningaþjónustu og létu mig vinna með sér. Þau stungu upp á að ég legði fram ákveðinn hundraðshluta af tekjunum til heimilisrekstrarins og notaði svo afganginn til eigin þarfa eða legði hann fyrir. Þetta jók ábyrgðartilfinningu mína og reyndist mjög gagnlegt síðar á ævinni.“
Orð Guðs, Biblían, segir ekki hvers konar vinnu fólk eigi að velja sér, en það gefur góðar leiðbeiningar. Til dæmis sagði Páll postuli: „Ef einhver vill ekki vinna, þá á hann heldur ekki mat að fá.“ Hann sagði líka í bréfi sínu til kristinna manna í Þessaloníku: „Vér heyrum, að nokkrir meðal yðar lifi óreglulega, vinni ekkert, heldur gefi sig alla að því, sem þeim kemur eigi við. Slíkum mönnum bjóðum vér og áminnum þá vegna Drottins Jesú Krists, að vinna kyrrlátlega og eta eigið brauð.“ — 2. Þessaloníkubréf 3:10-12.
En lífið snýst ekki um það eitt að fá sér vinnu og afla tekna. Hætt er við að of metnaðargjarnt fólk verði óánægt þegar fram í sækir og komist að raun um að það sé að ‚sækjast eftir vindi.‘ (Prédikarinn 1:14) Í stað þess að hvetja börnin til að sækjast eftir viðurkenningu og velmegun ættu foreldrar að sýna þeim fram á viskuna í guðinnblásnum orðum Jóhannesar postula: „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum. Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
Hvernig geturðu fullnægt tilfinningalegum þörfum þeirra?
Uppalandi þarf að vera eins og íþróttaþjálfari. Þjálfarinn einbeitir sér ekki einvörðungu að því að þjálfa íþróttamennina líkamlega svo að þeir geti hlaupið hraðar eða stokkið lengra. Trúlega reynir hann einnig að byggja upp hugarþrek þeirra með því að hjálpa þeim að sigrast á neikvæðum viðhorfum. Hvernig geturðu hvatt, uppbyggt og örvað börnin þín?
Þegar Ragnar var 13 ára fann hann til mikillar ólgu innra með sér vegna líkamlegra breytinga gelgjuskeiðsins. Ósamkomulag foreldranna og skortur á athygli bætti gráu ofan á svart. Hvað er hægt að gera fyrir ungt fólk eins og hann? Þótt ógerlegt sé að hlífa börnunum við öllum slæmum áhrifum og áhyggjum skaltu aldrei gefast upp á uppeldishlutverkinu. Ofverndaðu ekki börnin heldur agaðu þau skynsamlega. Hafðu alltaf hugfast að engin tvö börn eru eins. Vinsemd og ástúð eiga stóran þátt í því að láta barn finna til öryggis. Það kemur líka í veg fyrir að barnið skorti sjálfstraust og sjálfsvirðingu þegar fram í sækir.
Hvort sem foreldrum þínum tókst vel eða illa að fullnægja tilfinningaþörfum þínum er þrennt sem getur gert þig að farsælum uppalanda: (1) Vertu ekki svo upptekinn af eigin vandamálum að þú sinnir ekki þeim vandamálum barnanna sem virðast smávægileg; (2) reyndu að eiga þægileg og innihaldsrík tjáskipti við þau daglega og (3) stuðlaðu að jákvæðri afstöðu til vandamála sem leysa þarf og til samskipta við aðra.
Björg segir um táningsárin: „Ég þurfti að læra að maður getur ekki breytt fólki þannig að það sé eins og maður vill hafa það. Mamma rökræddi við mig á þeim nótum að þegar ég sæi eitthvað í fari annarra, sem mér líkaði ekki, ætti ég að forðast að vera eins og þeir. Hún sagði líka að það væri best að breyta sjálfum sér meðan maður væri ungur.“
En börnin þurfa fleira en vinnu og tilfinningalegt jafnvægi. Líturðu á foreldrahlutverkið sem ábyrgð frá Guði? Ef þú gerir það sinnir þú andlegum þörfum barnanna.
Að fullnægja andlegum þörfum þeirra
Jesús Kristur sagði í fjallræðunni: „Sælir eru þeir sem eru sér meðvita um andlega þörf sína því að himnaríkið tilheyrir þeim.“ (Matteus 5:3, NW) Hvað er fólgið í því að fullnægja andlegum þörfum? Það er mjög gagnlegt fyrir börnin að foreldrarnir sýni gott fordæmi með trú sinni á Jehóva Guð. Páll postuli skrifaði: „Án trúar er ógerlegt að þóknast [Guði], því að sá, sem gengur fram fyrir Guð, verður að trúa því, að hann sé til og að hann umbuni þeim, er hans leita.“ (Hebreabréfið 11:6) En til að trúin hafi raunverulegt gildi þarf að biðja. (Rómverjabréfið 12:12) Ef þú viðurkennir andlegar þarfir þínar leitarðu leiðsagnar Guðs eins og faðir drengsins sem varð hinn kunni Samson dómari í Ísrael. (Dómarabókin 13:8) Þá bæði biður þú til Guðs og leitar hjálpar í innblásnu orði hans, Biblíunni. — 2. Tímóteusarbréf 3:16, 17.b
Þrátt fyrir allt erfiðið sem það kostar að veita börnunum góða leiðsögn, tilfinningalegan stuðning og andlega hjálp getur umbunin verið mikil. Tveggja barna faðir í Brasilíu segir: „Ég get ekki hugsað mér að vera án barnanna. Það er svo margt gott sem við getum miðlað þeim.“ Móðirin bætir við til skýringar á því hvers vegna börnunum vegni vel: „Við erum alltaf saman og reynum að gera samveruna ánægjulega. Og það sem mestu máli skiptir er að við biðjum alltaf fyrir börnunum.“
Rósa minnist ástar og þolinmæði foreldra sinna við sig hvenær sem hún átti í erfiðleikum. „Þau voru sannir vinir og hjálpuðu mér í öllu,“ segir hún. „Sem barn fann ég greinilega að það var farið með mig eins og ‚gjöf frá Jehóva.‘“ (Sálmur 127:3) Hví ekki að taka frá tíma til að lesa með börnunum í Biblíunni og kristnum ritum, líkt og margir foreldrar gera? Það getur veitt börnunum sjálfsöryggi og trausta framtíðarvon að ræða saman um frásögur Biblíunnar og meginreglur hennar.
Þegar öll börn verða óhult
Enda þótt framtíð margra barna virðist ekki glæsileg nú á tímum heitir orð Guðs því að jörðin verði bráðlega að öruggu heimili handa mannkyninu. Hugsaðu þér hvernig það verður þegar nýr heimur, sem Guð hefur lofað, er genginn í garð og foreldrar þurfa ekki að hafa áhyggjur af öryggi barna sinna. (2. Pétursbréf 3:13) Reyndu að sjá fyrir þér stórkostlega uppfyllingu þessa spádóms: „Þá mun úlfurinn búa hjá lambinu og pardusdýrið liggja hjá kiðlingnum, kálfar, ung ljón og alifé ganga saman og smásveinn gæta þeirra.“ (Jesaja 11:6) Hið andlega öryggi, sem lýst er með þessum orðum, er nú þegar að uppfyllast táknrænt meðal þeirra sem þjóna Jehóva. Þú finnur fyrir ást hans og umhyggju þeirra á meðal. Ef þú elskar Guð máttu vera viss um að hann skilur tilfinningar þínar sem foreldris og hjálpar þér að takast á við þær áhyggjur og erfiðleika sem verða á vegi þínum. Kynntu þér orð hans og settu von þína á ríki hans.
Hjálpaðu börnunum þínum að ganga veginn til eilífs lífs með góðu fordæmi þínu. Ef þú leitar hælis hjá Jehóva Guði getur framtíð þín og barna þinna farið fram úr þínum glæstustu vonum. Þá geturðu haft sama trúartraust og sálmaritarinn sem söng: „Þá munt þú gleðjast yfir [Jehóva], og hann mun veita þér það sem hjarta þitt girnist.“ — Sálmur 37:4.
[Neðanmáls]
a Nöfnum er breytt í þessari grein.
b Sjá 5. til 7. kafla bókarinnar Lykillinn að hamingjusömu fjölskyldulífi, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.