9. kafli
Treystu á Jehóva þegar á móti blæs
1. Hvers vegna geta kristnir menn nú á dögum haft mikið gagn af 7. og 8. kafla Jesajabókar?
SJÖUNDI og áttundi kafli Jesajabókar lýsa ólíkum viðbrögðum manna. Bæði Jesaja og Akas tilheyra þjóð sem er vígð Jehóva, báðir hafa fengið verkefni frá honum, annar sem spámaður, hinn sem konungur Júda, og báðir standa frammi fyrir sömu ógninni — innrás öflugra óvinaherja í Júda. Jesaja treystir á Jehóva þegar þessi ógnun blasir við en Akas verður lafhræddur. Af hverju eru viðbrögð þeirra svona ólík? Kristnir menn eru einnig umkringdir óvinasveitum svo að þeim er hollt að kynna sér þessa tvo kafla Jesajabókar til að kanna hvað megi læra af þeim.
Ákvörðunar þörf
2, 3. Hvaða samantekt gerir Jesaja í inngangsorðunum?
2 Jesaja hefur frásögu sína með fáeinum almennum orðum um upphaf og endi þeirra atburða sem hann er að fara að segja frá, ekki ósvipað og listmálari gerir frumdrátt að nýju málverki með fáeinum grófum pensilstrokum: „Svo bar til á dögum Akasar, konungs í Júda, Jótamssonar, Ússíasonar, að Resín Sýrlandskonungur og Peka Remaljason, konungur í Ísrael, fóru upp til Jerúsalem til að herja á hana, en fengu ekki unnið hana.“ — Jesaja 7:1.
3 Þetta er á áttundu öld f.o.t. Akas er tekinn við konungdómi í Júda af Jótam föður sínum. Resín Sýrlandskonungur og Peka, konungur Ísraelsríkis í norðri, ráðast inn í Júda af mikilli hörku og setjast loks um Jerúsalem. En umsátrið fer út um þúfur. (2. Konungabók 16:5, 6; 2. Kroníkubók 28:5-8) Af hverju? Við komumst að því síðar.
4. Af hverju skelfur hjarta Akasar og þjóðarinnar?
4 Fyrr í stríðinu „kom húsi Davíðs þessi fregn: Sýrland hefir gjört bandalag við Efraím. Skalf þá hjarta konungs og hjarta þjóðar hans, eins og skógartré skjálfa fyrir vindi.“ (Jesaja 7:2) Akas og menn hans eru dauðskelfdir er þeir komast að raun um að Sýrlendingar og Ísraelsmenn hafa tekið höndum saman og eru búnir að slá herbúðum sínum í Efraím (Ísrael), en það eru ekki nema tvær eða þrjár dagleiðir frá Jerúsalem.
5. Hvernig líkist fólk Guðs nú á tímum Jesaja?
5 Jehóva segir Jesaja: „Gakk þú og Sear Jasúb, sonur þinn, til móts við Akas, að enda vatnstokksins úr efri tjörninni, við veginn út á bleikivöllinn.“ (Jesaja 7:3) Hugsaðu þér! Á stund sem þessari hefði konungurinn átt að vera á leið til spámanns Jehóva til að leita leiðsagnar en í staðinn þarf spámaðurinn að fara og hafa upp á konungi! En samt sem áður hlýðir Jesaja fúslega boði Jehóva. Fólk Guðs nú á dögum er á sama hátt fúst til að fara og leita uppi þá sem eru óttaslegnir vegna álagsins í heiminum. (Matteus 24:6, 14) Það er gleðilegt til að vita að á hverju ári taka hundruð þúsunda manna vel á móti boðberum fagnaðarerindisins og grípa þakklátir í verndarhendi Jehóva.
6. (a) Hvaða hughreystandi boð flytur spámaðurinn Akasi konungi? (b) Hvernig er ástandið núna?
6 Jesaja finnur Akas fyrir utan múra Jerúsalem. Konungur er að skoða vatnsveitu borgarinnar til að búa sig undir yfirvofandi umsátur. Jesaja flytur honum boðskap Jehóva: „Gæt þín og haf kyrrt um þig. Óttast þú eigi og lát eigi hugfallast fyrir þessum tveimur rjúkandi brandabrotum, fyrir brennandi reiði þeirra Resíns, Sýrlendinga og Remaljasonar.“ (Jesaja 7:4) Þegar árásarherir höfðu farið ránshendi um Júda áður hafði reiði þeirra verið eins og brennandi logi. Núna eru þeir rétt eins og ‚tvö rjúkandi brandabrot.‘ Akas þarf ekki að óttast Resín Sýrlandskonung eða Peka Ísraelskonung Remaljason. Eins er það núna. Leiðtogar kristna heimsins hafa um aldaraðir ofsótt sannkristna menn grimmilega. En núna líkist kristni heimurinn einna helst nær útbrunnum viðardrumbi. Dagar hans eru taldir.
7. Af hverju kveikir nafn Jesaja og sonar hans von?
7 Það er fleira sem vekur von á dögum Akasar en boðskapur Jesaja því að merking nafnsins Jesaja og nafns sonar hans vekja einnig von hjá þeim sem treysta á Jehóva. Júda er vissulega í hættu en nafnið Jesaja merkir „hjálpræði Jehóva“ og er ábending um að Jehóva frelsi þjóna sína. Jehóva segir Jesaja að taka með sér soninn Sear Jasúb en nafn hans merkir „Leifar munu aftur hverfa.“ Jafnvel þótt Júdaríkið falli um síðir ætlar Guð í miskunn sinni að láta leifar snúa aftur heim í landið.
Meira en stríð milli þjóða
8. Af hverju er árásin á Jerúsalem meira en stríð milli þjóða?
8 Fyrir munn Jesaja opinberar Jehóva hernaðaráætlun óvina Júda. Þeir ætla sér að „fara herferð á hendur Júda og skjóta mönnum skelk í bringu, taka landið herskildi og setja Tabelsson þar til konungs.“ (Jesaja 7:5, 6) Sýrlendingar og Ísraelsmenn hyggjast leggja Júda undir sig og setja sinn mann í stað Akasar sonar Davíðs. Árásin á Jerúsalem er orðin að baráttu milli Satans og Jehóva, ekki aðeins að stríði milli þjóða. Hvernig þá? Jehóva Guð gerði sáttmála við Davíð konung og hét honum að synir hans myndu ríkja yfir þjóð Guðs. (2. Samúelsbók 7:11, 16) Það yrði ekki lítill sigur fyrir Satan ef hann gæti komið einhverri annarri konungsætt til valda í Jerúsalem! Kannski gæti hann jafnvel ónýtt þá fyrirætlun Jehóva að láta ætt Davíðs geta af sér varanlegan erfingja, ‚Friðarhöfðingjann.‘ — Jesaja 9:6, 7.
Kærleiksrík loforð Jehóva
9. Hvaða loforð hefði átt að hughreysta Akas og ætti að hughreysta kristna menn nú á tímum?
9 Ætli ráðabrugg Sýrlendinga og Ísraelsmanna heppnist? Nei, „það skal eigi takast og það skal eigi verða,“ segir Jehóva. (Jesaja 7:7) Fyrir munn Jesaja segir hann að umsátrið um Jerúsalem fari út um þúfur og heldur svo áfram: „Áður en liðin eru sextíu og fimm ár skal Efraím gjöreytt verða og eigi verða þjóð upp frá því.“ (Jesaja 7:8) Já, innan 65 ára verður Ísrael ekki framar til sem þjóð.a Þetta loforð með þessari ákveðnu tímasetningu ætti að hughreysta Akas. Fólk Guðs nú á tímum sækir líka styrk í þá vissu að heimur Satans á skammt eftir.
10. (a) Hvernig geta sannkristnir menn nú á tímum líkt eftir Jehóva? (b) Hvað býður Jehóva Akasi?
10 Akas er kannski vantrúaður á svip því að Jehóva segir fyrir munn Jesaja: „Ef þér trúið eigi, munuð þér eigi fá staðist.“ Í þolinmæði sinni talar Jehóva „enn . . . við Akas.“ (Jesaja 7:9, 10) Þetta er afbragðsfordæmi. Þótt fáir taki við boðskap Guðsríkis ættum við að líkja eftir Jehóva með því að heimsækja fólk aftur og aftur og ‚tala enn‘ við það. Jehóva segir við Akas: „Bið þér tákns af [Jehóva], Guði þínum, hvort sem þú vilt heldur beiðast þess neðan úr undirheimum eða ofan að frá hæðum.“ (Jesaja 7:11) Akas má biðja um tákn og Jehóva ætlar að veita honum það sem tryggingu fyrir því að hann verndi hús Davíðs.
11. Hvaða loforð er fólgið í orðunum ‚Guð þinn‘?
11 Tökum eftir hvernig Jehóva kemst að orði: ‚Biddu um tákn frá Guði þínum.‘ Jehóva er góðviljaður Guð. Akas er að sögn farinn að dýrka falsguði og fylgja andstyggilegum, heiðnum siðum þegar hér er komið sögu. (2. Konungabók 16:3, 4) Þrátt fyrir það og þrátt fyrir hræðslu Akasar kallar Jehóva sig Guð hans. Þetta fullvissar okkur um að Jehóva hafni mönnum ekki í fljótræði. Hann er fús til að aðstoða þá sem villast af leið eða veiklast í trúnni. Ætlar Akas að grípa í útrétta kærleikshönd hans?
Frá efa til óhlýðni
12. (a) Hvaða hroka sýnir Akas? (b) Hvar leitar Akas hjálpar í stað þess að leita til Jehóva?
12 Akas svarar þrjóskulega: „Ég vil einskis biðja og eigi freista [Jehóva].“ (Jesaja 7:12) Það er ekki hlýðni við ákvæði lögmálsins sem býr að baki hjá Akasi en lögmálið segir: „Eigi skuluð þér freista [Jehóva] Guðs yðar.“ (5. Mósebók 6:16) Öldum síðar vitnar Jesús í þetta sama ákvæði þegar Satan freistar hans. (Matteus 4:7) Jehóva er aftur á móti að bjóða Akasi að snúa aftur til sannrar tilbeiðslu og býðst til að styrkja trú hans með tákni. En Akas vill frekar leita verndar annars staðar. Það er hugsanlega núna sem konungur sendir háa fjárhæð til Assýríu og falast eftir hjálp gegn óvinunum í norðri. (2. Konungabók 16:7, 8) Í millitíðinni sest sýrlensk-ísraelski herinn um Jerúsalem og umsátrið hefst.
13. Hvaða breytingu tökum við eftir í 13. versi og hvað gefur það til kynna?
13 Vegna trúleysis konungs segir Jesaja: „Heyrið, þér niðjar Davíðs, nægir yður það eigi að þreyta menn, úr því að þér þreytið einnig Guð minn?“ (Jesaja 7:13) Jehóva getur orðið þreyttur á sífelldum mótþróa. Og taktu eftir að spámaðurinn segir núna „Guð minn“ en ekki ‚Guð þinn.‘ Þetta eru örlagarík umskipti. Þegar Akas hafnar Jehóva og leitar á náðir Assýringa glatar hann einstöku tækifæri til að endurheimta samband sitt við hann. Fórnum aldrei sambandinu við Guð með því að hvika frá biblíulegri trú okkar vegna stundarhags.
Immanúelstáknið
14. Hvernig sýnir Jehóva að hann er trúr sáttmála sínum við Davíð?
14 Jehóva er trúr sáttmála sínum við Davíð. Boðið var upp á tákn og tákn verður gefið! Jesaja heldur áfram: „Fyrir því mun [Jehóva] gefa yður tákn sjálfur: Sjá, yngismær verður þunguð og fæðir son og lætur hann heita Immanúel. Við súrmjólk og hunang skal hann alast, þá er hann fer að hafa vit á að hafna hinu illa og velja hið góða. Áður en sveinninn hefir vit á að hafna hinu illa og velja hið góða, skal mannauðn verða í landi þeirra tveggja konunga, sem nú skelfa þig.“ — Jesaja 7:14-16.
15. Hvaða tveim spurningum svarar spádómurinn um Immanúel?
15 Þetta eru góð tíðindi fyrir alla sem óttast að innrásarmenn steypi konungsætt Davíðs af stóli. „Immanúel“ merkir „Guð með oss.“ Guð er með Júda og leyfir ekki að sáttmáli sinn við Davíð sé ógiltur. Og Akasi og þjóðinni er ekki aðeins sagt hvað Jehóva ætli að gera heldur einnig hvenær. Óvinaþjóðunum verður eytt áður en drengurinn Immanúel verður nógu gamall til að hafa vit á að greina milli góðs og ills. Og sú verður raunin.
16. Hver kann að vera ástæðan fyrir því að Jehóva segir ekkert um ættir Immanúels á dögum Akasar?
16 Biblían lætur þess ógetið hverra manna drengurinn Immanúel er. En þar eð Immanúel á að vera tákn og Jesaja segir síðar að hann og synir sínir séu „til tákns“ er hugsanlegt að hann sé sonur spámannsins. (Jesaja 8:18) Kannski segir Jehóva ekkert um ætterni Immanúels á dögum Akasar til að draga ekki athygli síðari kynslóða frá Immanúel hinum meiri. Hver er það?
17. (a) Hver er hinn meiri Immanúel og hvað táknaði fæðing hans? (b) Hvers vegna getur fólk Guðs hrópað nú á tímum: „Guð með oss“?
17 Nafnið Immanúel kemur aðeins einu sinni fyrir í Biblíunni utan Jesajabókar, en það er í Matteusi 1:23. Jehóva innblés Matteusi að heimfæra spádóminn um fæðingu Immanúels á fæðingu Jesú sem var lögmætur erfingi að hásæti Davíðs. (Matteus 1:18-23) Fæðing hins fyrri Immanúels var tákn um að Guð hefði ekki snúið baki við húsi Davíðs. Fæðing Jesú, hins meiri Immanúels, var tákn þess að Guð hefði ekki snúið baki við mannkyninu eða ríkissáttmála sínum við hús Davíðs. (Lúkas 1:31-33) Aðalfulltrúi Jehóva var nú meðal manna svo að Matteus gat sannarlega sagt: „Guð með oss.“ Núna ríkir Jesús sem konungur á himni og er með söfnuði sínum á jörðinni. (Matteus 28:20) Fólk Guðs hefur enn ríkari ástæðu til að hrópa djarfmannlega: „Guð með oss“!
Aðrar afleiðingar ótrúmennskunnar
18. (a) Af hverju vekja orð Jesaja í framhaldinu skelfingu áheyrenda? (b) Hvaða umskipti verða bráðlega?
18 Síðustu orð Jesaja voru hughreystandi en framhaldið vekur skelfingu áheyrenda: „[Jehóva] mun láta yfir þig og yfir þjóð þína og yfir hús föður þíns þá daga koma, að ekki hafa slíkir yfir liðið síðan Efraím skildist frá Júda — Assýríukonung.“ (Jesaja 7:17) Já, ógæfa er yfirvofandi og það af hendi Assýríukonungs. Assýringar voru alræmdir fyrir grimmd sína svo að tilhugsunin um yfirráð þeirra hlýtur að hafa gert Akas og fólk hans andvaka margar nætur. Akas hafði ímyndað sér að hann myndi losna við Ísraelsmenn og Sýrlendinga með því að vingast við Assýringa. Og Assýríukonungur svarar reyndar beiðni Akasar með því að ráðast inn í Ísrael og Sýrland. (2. Konungabók 16:9) Það er líklega ástæðan fyrir því að Peka og Resín neyðast til að hætta umsátrinu um Jerúsalem. Sýrlendingum og Ísraelsmönnum tekst því ekki að vinna Jerúsalem. (Jesaja 7:1) En áheyrendum Jesaja bregður illa er hann segir þeim að Assýringar verði kúgarar þeirra en ekki verndarar eins og til stóð. — Samanber Orðskviðina 29:25.
19. Hvaða viðvörun fyrir kristna menn er fólgin í þessum sögulega sjónleik?
19 Þessi sanna frásaga er viðvörun til kristinna manna nú á tímum. Undir álagi gætum við freistast til að víkja frá kristnum meginreglum og hafna þar með vernd Jehóva. Það er mikil skammsýni og jafnvel lífshættulegt eins og sjá má af orðum Jesaja í framhaldinu þar sem hann lýsir hvernig innrás Assýringa fari með landið og fólkið.
20. Hverjar eru „flugurnar“ og „býflugurnar“ og hvað gera þær?
20 Jesaja skiptir yfirlýsingu sinni í fernt, og í hverjum hluta er boðað hvað gerast muni „á þeim degi,“ það er að segja þegar Assýringar ráðast inn í Júda. „Á þeim degi mun [Jehóva] blístra á flugurnar, sem eru við mynnið á Níl-kvíslunum á Egyptalandi, og á býflugurnar, sem eru í Assýríu, og þær munu allar koma og setjast í dalverpin og bergskorurnar, í alla þyrnirunna og í öll vatnsból.“ (Jesaja 7:18, 19) Herjum Egypta og Assýringa verður beint til fyrirheitna landsins eins og flugna- og býflugnageri. Þetta verður ekki skammvinn innrás heldur munu „flugurnar“ og „býflugurnar“ setjast að og leggja undir sig hvern krók og kima í landinu.
21. Hvernig verður Assýríukonungur eins og rakhnífur?
21 Jesaja heldur áfram: „Á þeim degi mun [Jehóva] með rakhnífi, leigðum fyrir handan fljót — með Assýríukonungi — raka höfuðið og kviðhárin, og skeggið mun hann einnig nema burt.“ (Jesaja 7:20) Nú er aðeins minnst á Assýringa sem eru helsta ógnunin. Akas leigir Assýríukonung til að „raka“ Sýrland og Ísrael. En þessi ‚leigði rakhnífur‘ frá Efratsvæðinu mun snúast gegn ‚höfðinu‘ Júda og raka af því bæði hár og skegg.
22. Hvaða dæmi nefnir Jesaja til að sýna fram á afleiðingarnar af yfirvofandi innrás Assýringa?
22 Og hvað svo? „Á þeim degi mun maður hafa kvígu og tvær ær, og vegna þess, hve vel þær mjólka, mun hann hafa súrmjólk til matar. Á súrmjólk og hunangi skal hver maður lifa, sem eftir verður í landinu.“ (Jesaja 7:21, 22) Þegar Assýringar verða búnir að „raka“ landið verða svo fáir eftir í því að það þarf ekki nema örfáar skepnur til að framfleyta fólkinu. ‚Súrmjólk og hunang‘ verða til matar — ekkert annað, hvorki vín, brauð né önnur undirstöðufæða. Rétt eins og til að hnykkja á því hve mikil eyðingin verður þrítekur Jesaja að þyrnar og þistlar muni vaxa þar sem áður var verðmætt ræktarland. Þeir sem hætta sér út í sveit þurfa að hafa „örvar og boga“ til varnar gegn villidýrum sem leynast í gróðurþykkninu. Akrar verða traðkaðir af sauðfé og nautpeningi. (Jesaja 7:23-25) Þessi spádómur byrjar að uppfyllast strax á dögum Akasar. — 2. Kroníkubók 28:20.
Nákvæmar spár
23. (a) Hvað er Jesaja sagt að gera núna? (b) Með hvaða hætti er spjaldtáknið staðfest?
23 Jesaja snýr sér nú aftur að allra nánustu framtíð. Borgin er enn umsetin sameiginlegum her Sýrlendinga og Ísraelsmanna er Jesaja segir: „[Jehóva] sagði við mig: ‚Tak þér stórt spjald og rita þú á það með algengu letri: Hraðfengi Skyndirán. Og tak mér skilríka votta, prestinn Úría og Sakaría Jeberekíason.‘“ (Jesaja 8:1, 2) Jesaja biður tvo virta menn í samfélaginu að vottfesta ritun þessa nafns (á hebresku Maher-sjalal Kas-bas) á stórt spjald svo að þeir geti síðar staðfest að það sé ósvikið. En þetta tákn skal staðfest með öðru.
24. Hvaða áhrif átti táknið Maher-sjalal Kas-bas að hafa á Júdamenn?
24 Jesaja segir: „Og ég nálgaðist spákonuna, og hún varð þunguð og ól son. Þá sagði [Jehóva] við mig: ‚Lát þú hann heita Hraðfengi Skyndirán. Því að áður en sveinninn lærir að kalla „faðir minn“ og „móðir mín,“ skal auður Damaskus og herfang Samaríu burt flutt verða fram fyrir Assýríukonung.‘“ (Jesaja 8:3, 4) Bæði stóra spjaldið og nýfæddi drengurinn eru tákn um að Assýringar muni bráðlega ræna kúgara Júdamanna, þá Sýrlendinga og Ísraelsmenn. Hversu bráðlega? Áður en drengurinn getur sagt ‚pabbi‘ og ‚mamma‘ — fyrstu orðin sem börn læra að jafnaði. Þessi nákvæma spá ætti að vekja traust manna á Jehóva en hún gæti líka komið einhverjum til að gera gys að Jesaja og sonum hans. Hvað sem því líður rætast spádómsorð Jesaja. — 2. Konungabók 17:1-6.
25. Hvað er líkt með dögum Jesaja og okkar tímum?
25 Kristnir menn geta dregið lærdóm af endurteknum viðvörunum Jesaja. Páll postuli benti á að Jesaja tákni Jesú Krist í þessum spádómlega sjónleik, og synir hans tákni smurða lærisveina Jesú. (Hebreabréfið 2:10-13) Jesús hefur notað smurða fylgjendur sína á jörðinni til að minna sannkristna menn á nauðsyn þess að halda vöku sinni á þeim örlagatímum sem við lifum. (Lúkas 21:34-36) Jafnframt eru iðrunarlausir mótstöðumenn varaðir við væntanlegri eyðingu, þó svo að oft sé gert gys að þessum viðvörunum. (2. Pétursbréf 3:3, 4) Uppfylling tímatengdra spádóma á dögum Jesaja er trygging fyrir því að stundaskrá Guðs fyrir okkar tíma muni „vissulega fram koma og ekki undan líða.“ — Habakkuk 2:3.
Eyðandi „vötn“
26, 27. (a) Hvaða atburðum spáir Jesaja? (b) Hvað segja orð Jesaja þjónum Jehóva nú á tímum?
26 Jesaja heldur áfram viðvörun sinni: „Af því að þessi lýður fyrirlítur hin straumhægu Sílóa-vötn, en fagnar Resín og Remaljasyni, sjá, fyrir því mun [Jehóva] láta yfir þá koma hin stríðu og miklu vötn fljótsins — Assýríukonung og allt hans einvalalið. Skal það ganga upp yfir alla farvegu sína og flóa yfir alla bakka. Og það skal brjótast inn í Júda, flæða þar yfir og geysast áfram, þar til manni tekur undir höku, og breiða vængi sína yfir allt þitt land, eins og það er vítt til, Immanúel!“ — Jesaja 8:5-8.
27 „Þessi lýður“ er Ísraelsríki í norðri sem hafnar sáttmála Jehóva við Davíð. (2. Konungabók 17:16-18) Þeim finnst sáttmálinn veikburða eins og hin straumhæga Sílóam sem er vatnslind Jerúsalem. Þeir eru himinlifandi yfir stríði sínu gegn Júda. En þeim verður hegnt fyrir lítilsvirðingu sína. Jehóva leyfir Assýringum að „flæða“ yfir Sýrland og Ísrael líkt og hann leyfir stjórnmálaöflum heimsins bráðlega að flæða yfir áhrifasvæði falstrúarbragðanna. (Opinberunarbókin 17:16; samanber Daníel 9:26.) Því næst, segir Jesaja, munu þessi ólgandi ‚vötn brjótast inn í Júda þar til tekur undir höku,‘ allt til Jerúsalem þar sem höfuð (konungur) Júda ríkir.b Pólitískir aftökumenn falstrúarbragðanna munu einnig umkringja þjóna Jehóva á okkar dögum þar til „tekur undir höku.“ (Esekíel 38:2, 10-16) Hvernig fer það? Nú, hvað gerist á dögum Jesaja? Steypast Assýringar yfir borgarmúrana og skola fólki Guðs burt? Nei, Guð stendur með fólki sínu.
Óttist ekki — „Guð er með oss!“
28. Um hvað fullvissar Jehóva Júdamenn þrátt fyrir ákafa og erfiði óvinanna?
28 Jesaja segir í viðvörunartón: „Vitið það, lýðir, [andstæðingar sáttmálaþjóðar Guðs] og hlustið á, allar fjarlægar landsálfur! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast! Herklæðist, þér skuluð samt láta hugfallast! Takið saman ráð yðar, þau skulu að engu verða. Mælið málum yðar, þau skulu engan framgang fá, því að Guð er með oss!“ (Jesaja 8:9, 10) Þessi orð rætast nokkrum árum síðar í stjórnartíð Hiskía, hins trúfasta sonar Akasar. Engill Jehóva eyðir 185.000 Assýringum sem ógna Jerúsalem. Guð er greinilega með þjóð sinni og konungsætt Davíðs. (Jesaja 37:33-37) Í hinu komandi stríði við Harmagedón sendir Jehóva hinn meiri Immanúel bæði til að tortíma óvinum sínum og bjarga öllum þeim sem treysta á hann. — Sálmur 2:2, 9, 12.
29. (a) Hvernig eru Gyðingar á dögum Akasar og Hiskía ólíkir? (b) Af hverju varast þjónar Jehóva nú á tímum öll trúarleg og pólitísk bandalög?
29 En samtíðarmenn Akasar treysta ekki á vernd Jehóva, ólíkt Gyðingum á dögum Hiskía. Þeir aðhyllast ríkjabandalag eða „samsæri“ við Assýringa til varnar gegn bandalagi Sýrlendinga og Ísraelsmanna. En „hönd“ Jehóva ýtir við Jesaja að tala gegn þeim ‚vegi sem þetta fólk gengur,‘ það er að segja almennri stefnu. Hann segir: „Þér skuluð ekki . . . óttast það, sem það óttast, og eigi skelfast. [Jehóva] allsherjar, hann skuluð þér telja heilagan, hann sé yður ótti, hann sé yður skelfing.“ (Jesaja 8:11-13) Nútímaþjónar Jehóva hafa þetta hugfast og varast sérhvert samsæri við kirkjuráð og stjórnmálabandalög og traust á þeim. Þjónar Jehóva bera fullt traust til verndarmáttar hans. Þegar öllu er á botninn hvolft, ef ‚Jehóva er með okkur, hvað geta menn gert okkur?‘ — Sálmur 118:6.
30. Hver verða örlög þeirra sem treysta ekki á Jehóva?
30 Jesaja ítrekar síðan að Jehóva verði „helgidómur“ eða vernd þeirra sem treysta honum. En þeir sem hafna honum „munu hrasa, falla og meiðast, festast í snörunni og verða veiddir“ — fimm lýsandi sagnir sem sýna að örlög þeirra sem treysta ekki á Jehóva eru ótvíræð. (Jesaja 8:14, 15) Þeir sem höfnuðu Jesú á fyrstu öldinni hrösuðu líka og féllu. (Lúkas 20:17, 18) Eins fer fyrir þeim sem vilja ekki heita hinum krýnda, himneska konungi Jesú hollustu sinni. — Sálmur 2:5-9.
31. Hvernig geta sannkristnir menn fylgt fordæmi Jesaja og þeirra sem hlýða á kennslu hans?
31 Ekki hrasa þó allir á dögum Jesaja. Hann segir: „Ég bind saman vitnisburðinn og innsigla kenninguna hjá lærisveinum mínum. Ég treysti [Jehóva], þótt hann byrgi nú auglit sitt fyrir Jakobs niðjum, og ég bíð hans.“ (Jesaja 8:16, 17) Jesaja og þeir sem þiggja kennslu hans snúa ekki baki við lögmáli Guðs. Þeir treysta áfram á Jehóva þótt óhlýðnir samlandar þeirra vilji ekki gera það með þeim afleiðingum að hann byrgir auglit sitt fyrir þeim. Megum við fylgja fordæmi þeirra sem treysta á Jehóva og vera jafnákveðin í að halda okkur fast við hreina tilbeiðslu! — Daníel 12:4, 9; Matteus 24:45; samanber Hebreabréfið 6:11, 12.
‚Tákn‘ og ‚jarteikn‘
32. (a) Hverjir eru „til tákns og jarteikna“ nú á tímum? (b) Af hverju eiga kristnir menn að vera ólíkir heiminum?
32 Jesaja lýsir nú yfir: „Sjá, ég og synirnir, sem [Jehóva] hefir gefið mér, vér erum til tákns og jarteikna í Ísrael frá [Jehóva] allsherjar, sem býr á Síonfjalli.“ (Jesaja 8:18) Jesaja, Sear Jasúb og Maher-sjalal Kas-bas eru til tákns um tilgang Jehóva með Júda. Jesús og smurðir bræður hans eru sambærileg tákn nú á tímum. (Hebreabréfið 2:11-13) Og þeir fá liðstyrk í starfi sínu frá ‚miklum múgi‘ af ‚öðrum sauðum.‘ (Opinberunarbókin 7:9, 14; Jóhannes 10:16) Tákn kemur auðvitað ekki að gagni nema að það skeri sig úr umhverfinu. Kristnir menn geta því aðeins verið tákn að þeir séu ólíkir heiminum, setji allt traust sitt á Jehóva og boði tilgang hans djarfmannlega.
33. (a) Hvað eru sannkristnir menn staðráðnir í að gera? (b) Af hverju geta sannkristnir menn verið staðfastir?
33 Við skulum því öll fylgja lífsreglum Guðs en ekki heimsins. Höldum áfram að skera okkur úr — sem tákn — og framfylgjum fyrirmælum Jesú Krists, hins meiri Jesaja að „boða náðarár . . . og hefndardag Guðs vors.“ (Jesaja 61:1, 2; Lúkas 4:17-21) Þegar flóðbylgja Assýringa steypist yfir jörðina — jafnvel þótt hún nái upp í höku — þá sópast sannkristnir menn ekki burt. Við stöndum traustum fótum af því að „Guð er með oss.“
[Neðanmáls]
a Ítarefni um uppfyllingu spádómsins má finna í Insight on the Scriptures, 1. bindi, bls. 62 og 758, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
b Assýringum er einnig líkt við fugl sem breiðir út vængina yfir allt landið „eins og það er vítt til.“ Assýríuher breiðir sig sem sagt yfir landið hvert sem það nær.
[Mynd á blaðsíðu 103]
Jesaja tók Sear Jasúb með sér þegar hann flutti Akasi boðskap Jehóva.
[Mynd á blaðsíðu 111]
Af hverju skrifaði Jesaja „Maher-sjalal Kas-bas“ á stórt spjald?