17. kafli
„Fallin er Babýlon“
1, 2. (a) Hvert er aðalstef Biblíunnar en hvaða mikilvægt aukastef kemur fram í Jesajabók? (b) Hvernig vinnur Biblían úr stefinu um fall Babýlonar?
ÞAÐ má líkja Biblíunni við mikilfenglegt tónverk með áberandi aðalstefi. Aukastefjum er svo skotið inn í verkið til að styrkja heildina. Biblían inniheldur eitt aðalstef — að drottinvald Jehóva verði réttlætt fyrir atbeina messíasarríkisins. En hún hefur einnig að geyma önnur mikilvæg stef sem eru endurtekin af og til. Eitt þeirra er fall Babýlonar.
2 Þetta stef kemur fyrst fram í 13. og 14. kafla Jesajabókar og er endurtekið í 21. kafla og aftur í 44. og 45. kafla. Jeremía útlistar þetta sama stef einni öld síðar og Opinberunarbókin lýkur því með tilþrifum. (Jeremía 51:60-64; Opinberunarbókin 18:1–19:4) Allir einlægir biblíunemendur þurfa að gefa gaum að þessu mikilvæga aukastefi í orði Guðs. Þar kemur 21. kafli Jesajabókar að gagni því að hann gefur athyglisverðar upplýsingar um hið boðaða fall þessa mikla heimsveldis. Síðar sjáum við að 21. kafli Jesajabókar leggur áherslu á annað mikilvægt biblíustef sem hjálpar okkur að kanna hversu árvökur við erum.
„Hörð tíðindi“
3. Af hverju er Babýlon kölluð „öræfin við hafið“ og hvað gefur þessi nafngift til kynna um framtíð hennar?
3 Tuttugasti og fyrsti kafli Jesajabókar hefst á uggvænlegum nótum: „Spádómur um öræfin við hafið. Eins og fellibyljir í suðurlandinu geysist það áfram, það kemur úr öræfunum, úr hinu hræðilega landi.“ (Jesaja 21:1) Efrat rennur gegnum Babýlon miðja og austurhelmingur borgarinnar liggur á svæðinu milli stjórfljótanna Efrat og Tígris. Töluverður vegur er til sjávar. Af hverju er borgin þá kölluð „öræfin við hafið“? Af því að árviss flóð urðu á svæðinu þar í grennd og mynduðu víðáttumikla mýri eða ‚haf.‘ En Babýloníumenn hafa tamið þessa votu eyðimörk með flóknu neti flóðgarða, stíflna og skurða. Árvatnið er notað hugvitssamlega sem þáttur í varnarkerfi borgarinnar. En enginn mannlegur máttur getur forðað Babýlon frá dómi Guðs. Öræfi var hún og að öræfum skal hún aftur verða. Ógæfa er í aðsigi, eins og stormar sem ganga stundum yfir Ísrael frá eyðimörkinni ógurlegu í suðri. — Samanber Sakaría 9:14.
4. Hvernig koma ‚vötn‘ og „eyðimörk“ fyrir í sýn Opinberunarbókarinnar um ‚Babýlon hina miklu‘ og hvað merkja „vötnin“?
4 Babýlon fortíðar á sér hliðstæðu nú á tímum eins og fram kom í 14. kafla þessarar bókar. Þetta er „Babýlon hin mikla,“ heimsveldi falskra trúarbragða. Opinberunarbókin talar líka um „eyðimörk“ og ‚vötn‘ í sambandi við hana. Jóhannes postuli er leiddur út á eyðimörk þar sem honum er sýnd Babýlon hin mikla. Honum er sagt að hún ‚sé við vötnin mörgu‘ sem tákna ‚lýði og fólk, þjóðir og tungur.‘ (Opinberunarbókin 17:1-3, 5, 15) Falstrúarbrögðin hafa alltaf átt tilveru sína undir vinsældum almennings en þessi ‚vötn‘ munu ekki vernda hana þegar að endalokunum kemur. Eins og fortíðarhliðstæðan líður hún undir lok — mannauð, vanrækt og yfirgefin.
5. Hvernig fær Babýlon á sig það orð að vera sviksamleg og rángjörn?
5 Babýlon er ekki orðin ríkjandi heimsveldi á dögum Jesaja en Jehóva sér fyrir að hún muni misbeita valdi sínu þegar þar að kemur. Jesaja heldur áfram: „Hörð tíðindi hafa mér birt verið: ‚Ránsmenn ræna, hermenn herja!‘“ (Jesaja 21:2a) Babýlon mun ræna, herja á og svíkja þær þjóðir sem hún leggur undir sig, þeirra á meðal Júda. Babýloníumenn munu láta greipar sópa um Jerúsalem, ræna musterið og flytja fólkið sem fanga til Babýlonar. Þar verður farið sviksamlega með hjálparvana bandingjana, hæðst að trú þeirra og engin von gefin um að þeir fái að snúa heim aftur. — 2. Kroníkubók 36:17-21; Sálmur 137:1-4.
6. (a) Hvaða andvörp bindur Jehóva enda á? (b) Hvaða þjóðir eiga að ráðast á Babýlon og hvernig rætist það?
6 Babýlon verðskuldar vissulega þessi ‚hörðu tíðindi.‘ Jesaja heldur áfram: „Áfram, Elamítar! Gjörið umsát, Medíumenn! Ég gjöri enda á öllum andvörpum.“ (Jesaja 21:2b) Þeir sem þetta svikula heimsveldi hefur kúgað fá frelsi. Loksins taka andvörp þeirra enda! (Sálmur 79:11, 12) Hvaðan kemur hjálpin? Jesaja nafngreinir tvær þjóðir sem ráðast munu á Babýlon: Elamíta og Medíumenn. Tveim öldum síðar, árið 539 f.o.t., fer Kýrus Persakonungur fyrir sameinuðum sveitum Persa og Meda gegn Babýlon. Persakonungar verða að minnsta kosti búnir að leggja Elam undir sig að hluta fyrir 539 f.o.t. svo að Elamítar verða með hersveitum þeirra.a
7. Hvaða áhrif hefur sýn Jesaja á hann og hvað merkir það?
7 Tökum eftir hvernig Jesaja lýsir áhrifum sýnarinnar á sig: „Þess vegna skjálfa lendar mínar, þess vegna hremma sárir verkir mig, eins og hríðir jóðsjúka konu. Ég engist saman, svo að ég heyri ekkert, ég er svo agndofa, að ég sé ekkert. Hjarta mitt er ringlað, skelfing er skyndilega yfir mig komin. Nú er nóttin, sem ég jafnan hefi þráð, orðin mér að skelfingu.“ (Jesaja 21:3, 4) Spámaðurinn virðist njóta hljóðrar hugleiðingar í húmi nætur. En næturkoman hefur glatað töfrum sínum og ótti, kvöl og skelfing er tekin við. Spámaðurinn kvelst eins og kona í barnsnauð og hjarta hans er „ringlað.“ Fræðimaður þýðir þessa setningu: „hjarta mitt slær æðislega,“ og bendir á að orðatiltækið sé notað um „ofsafenginn og óreglulegan æðaslátt.“ Af hverju líður Jesaja svona illa? Augljóslega er líðan hans spádómleg því að Babýloníumenn líða sams konar skelfingu nóttina 5.- 6. október árið 539 f.o.t.
8. Hvað gera Babýloníumenn eins og spáð er, þó svo að óvinirnir séu úti fyrir?
8 Babýloníumönnum er engin skelfing í hug þegar dimmir þetta örlagaríka kvöld. Jesaja boðar tveim öldum fyrir fram: „Borðin eru sett fram og ábreiðurnar breiddar á hvílubekkina, etið er og drukkið.“ (Jesaja 21:5a) Hinn hrokafulli Belsasar konungur heldur veislu. Hvílubekkir eru settir fram fyrir þúsund stórmenni hans, auk fjölda kvenna og hjákvenna. (Daníel 5:1, 2) Veislugestir vita að það er her fyrir utan borgarmúrana en trúa að borgin sé óvinnandi. Hún er umlukin gríðarlegum múrum og djúpu síki svo að það virðist ógerningur að vinna hana. Og allir guðirnir sjá til þess að það sé ekki hægt. Þess vegna er ‚etið og drukkið.‘ Belsasar er drukkinn og sennilega ekki sá eini. Höfðingjarnir eru sljóir af drykkju eins og ráða má af því að það þarf að vekja þá eins og Jesaja segir þessu næst.
9. Af hverju þarf að ‚smyrja skjölduna‘?
9 „Rísið upp, þjóðhöfðingjar! Smyrjið skjölduna!“ (Jesaja 21:5b) Veislan er skyndilega á enda og höfðingjarnir þurfa að rísa af mókinu. Hinn aldni spámaður Daníel er kallaður til og hann sér hvernig Jehóva skelfir Belsasar konung eins og Jesaja lýsir. Stórmenni konungs vita ekki sitt rjúkandi ráð þegar sameiginlegar sveitir Meda, Persa og Elamíta brjótast gegnum varnir borgarinnar. Babýlon fellur fljótt! En hvað merkir það að ‚smyrja skjöldu‘? Biblían kallar konung stundum skjöld þjóðar sinnar af því að hann er verndari hennar og landsins.b (Sálmur 89:19) Í þessu versi er Jesaja líklega að boða að þjóðina vanti nýjan konung vegna þess að Belsasar er drepinn þessa „sömu nótt.“ Þess vegna þarf að ‚smyrja skjöldinn‘ eða skipa nýjan konung. — Daníel 5:1-9, 30.
10. Hvernig getur spádómur Jesaja um svikula ræningjann hughreyst dýrkendur Jehóva?
10 Þetta er hughreystandi frásaga fyrir alla þá sem unna sannri tilbeiðslu. Babýlon nútímans, sem kölluð er hin mikla, er jafnsvikull ræningi og hliðstæða hennar forðum daga. Allt fram á þennan dag hafa trúarleiðtogar unnið að því leynt og ljóst að láta banna votta Jehóva, ofsækja þá eða leggja á þá refsiskatta. En eins og spádómurinn minnir á fer þessi sviksemi ekki fram hjá Jehóva og hann lætur hennar ekki óhegnt. Hann mun útrýma öllum trúarbrögðum sem rangfæra hann og fara illa með fólk hans. (Opinberunarbókin 18:8) Getur það gerst? Já, við þurfum ekki annað en að sjá hvernig viðvaranir hans hafa ræst í sambandi við fall Babýlonar til forna og hliðstæðu hennar nú á tímum. Það styrkir trúna.
„Fallin er Babýlon“
11. (a) Hvert er hlutverk varðmanns og hver hefur verið varðmaður á okkar tímum? (b) Hvað tákna reiðmennirnir tveir?
11 Jehóva talar nú til spámannsins sem segir: „Svo sagði [Jehóva] til mín: ‚Far og set út vörð, sem segi, hvað hann sér.‘“ (Jesaja 21:6, Biblían 1859) Þetta eru inngangsorð að öðru mikilvægu stefi kaflans — stefinu um varðmanninn. Allir sannkristnir menn hafa áhuga á því vegna þess að Jesús hvatti fylgjendur sína til að ‚vaka.‘ Hinn „trúi og hyggni þjónn“ hefur aldrei sofnað á verðinum heldur skýrt frá því sem hann sér í sambandi við yfirvofandi dómsdag Guðs og hætturnar frá hinum spillta heimi. (Matteus 24:42, 45-47) Hvað sér varðmaðurinn í sýn Jesaja? „Varðmaðurinn sá reiðmenn koma ríðandi, tvo og tvo, á hestum, ösnum og úlföldum. Hann gætti að þeim vandlega og með miklu athygli.“ (Jesaja 21:7, Biblían 1859) Reiðmennirnir tákna líklega heil riddaralið sem sækja hratt fram til bardaga. Asna- og úlfaldafylkingarnar tákna heimsveldin tvö, Medíu og Persíu, sem sameinast í árásinni. Og mannkynssagan staðfestir að Persaher notaði bæði asna og úlfalda í bardögum.
12. Hvaða eiginleika sýnir varðmaðurinn og hverjir þurfa að vera þannig núna?
12 Varðmaðurinn finnur sig knúinn til að skýra frá því sem hann sér: „Síðan kallaði hann, eins (hátt) og ljón: ‚Eg var, [Jehóva], allt af á daginn uppi á sjónarleitinu, og stóð á verði mínum allar nætur. Og sjá, þar komu reiðmenn ríðandi á hestum, tveir og tveir.‘“ (Jesaja 21:8, 9a, Biblían 1859) Varðmaðurinn í sýninni kallar hugrakkur ‚eins og ljón.‘ Það þarf hugrekki til að boða dóm jafnógurlegri þjóð og Babýloníumönnum. Og það kostar líka þolgæði. Varðmaðurinn stendur vörð dag og nótt og slakar aldrei á árvekni sinni. Varðmannshópur hinna síðustu daga hefur einnig þurft að vera hugrakkur og þolgóður. (Opinberunarbókin 14:12) Allir sannkristnir menn þurfa þess með.
13, 14. (a) Hvernig fer fyrir Babýlon fortíðar og í hvaða skilningi eru goðalíkneski hennar brotin? (b) Hvernig og hvenær féll Babýlon hin mikla?
13 Varðmaðurinn í sýninni sér tvo reiðmenn nálgast. Hvaða fréttir flytja þeir? „Þeir tóku til orða og sögðu: ‚Fallin, fallin er Babýlon, og allar goðalíkneskjur hennar liggja sundur brotnar á jörðinni.‘“ (Jesaja 21:8, 9b) Hvílíkar fréttir! Loksins er þessi svikuli ræningi þjóðar Guðs fallinn!c En í hvaða skilningi eru goðalíkneskin og skurðgoðin brotin? Ætla Medar og Persar að þramma inn í musteri Babýlonar og brjóta hin óteljandi skurðgoð hennar? Nei, þess þarf ekki. Skurðgoð Babýlonar eru brotin í þeim skilningi að þau eru afhjúpuð fyrir að geta ekki verndað borgina. Og Babýlon fellur þegar hún megnar ekki lengur að kúga fólk Guðs.
14 Hvað um Babýlon hina miklu? Það var henni að kenna að þjónar Guðs voru kúgaðir í fyrri heimsstyrjöldinni svo að segja má að hún hafi haldið þeim í útlegð um hríð. Boðunarstarf þeirra stöðvaðist að heita mátti. Forseti Varðturnsfélagsins og aðrir forystumenn voru fangelsaðir fyrir upplognar sakir. En árið 1919 urðu ótrúleg umskipti. Forystumönnum Félagsins var sleppt úr haldi, aðalstöðvarnar opnaðar á nýjan leik og boðunarstarfið komst aftur í gang. Babýlon hin mikla féll í þeim skilningi að hún gat ekki haldið fólki Guðs lengur.d Fall hennar er boðað tvívegis í Opinberunarbókinni af engli sem notar sömu orð og gert er í Jesaja 21:9. — Opinberunarbókin 14:8; 18:2.
15, 16. Í hvaða skilningi er þjóð Jesaja ‚þreskt‘ og hvað má læra af afstöðu hans til hennar?
15 Jesaja lýkur þessum spádómsboðskap með samúðarorðum til þjóðar sinnar. Hann segir: „Kramda og þreskta þjóðin mín, það sem ég hefi heyrt af [Jehóva] allsherjar, Guði Ísraels, það hefi ég kunngjört yður.“ (Jesaja 21:10) Þresking er oft notuð í Biblíunni sem tákn um ögun og hreinsun fólks Guðs. Sáttmálaþjóð hans verður eins og ‚þreskt þjóð‘ því að hveitið er losað frá hisminu með afli svo að eftir stendur hreinsað og verðmætt korn. Jesaja hlakkar ekki yfir þessari ögun heldur finnur til með hinni ‚þresktu þjóð‘ því að hann veit að sumir munu eyða ævinni sem útlagar í ókunnu landi.
16 Þetta er kannski þörf áminning fyrir okkur. Það getur gerst í kristna söfnuðinum að menn hætti að finna til með syndurum. Og þeim sem fá ögun hættir til að fyrtast við. En ef við höfum í huga að Jehóva agar fólk sitt til að hreinsa það gerum við hvorki lítið úr öguninni og þeim sem taka auðmjúkir við henni né spyrnum við fótum þegar við erum öguð. Þiggjum ögun Guðs og lítum á hana sem merki um kærleika hans. — Hebreabréfið 12:6.
Varðmaðurinn spurður
17. Af hverju er „Dúma“ réttnefni á Edóm?
17 Næsti spádómsboðskapur í 21. kafla Jesajabókar lýsir varðmanninum nánar. Hann hefst þannig: „Spádómur um Dúma. Það er kallað til mín frá Seír: ‚Vökumaður, hvað líður nóttinni? Vökumaður, hvað líður nóttinni?‘“ (Jesaja 21:11) Hvar er þessi Dúma? Nokkrar borgir virðast hafa heitið það á biblíutímanum en hér er ekki átt við neina þeirra. Dúma er ekki í Seír sem er annað heiti á Edóm. Orðið „Dúma“ merkir „þögn“ svo að hugmyndin virðist vera sú sama og í orðsendingunni á undan að héraðinu er gefið nafn sem gefur vísbendingu um framtíð þess. Edómítar voru langræknir óvinir þjóðar Guðs og þögnin á að vera örlög þeirra — þögn dauðans. En áður en það gerist eiga einhverjir að spyrjast kvíðnir fyrir um framtíðina.
18. Hvernig rætist yfirlýsingin: „Morgunninn kemur, og þó er nótt,“ á Edóm fortíðar?
18 Þegar Jesaja er að skrifa bók sína liggur leið hins volduga Assýríuhers um Edóm. En sumir Edómítar þrá að vita hvenær nótt kúgunarinnar ljúki. „Vökumaðurinn svarar: ‚Morgunninn kemur, og þó er nótt.“ (Jesaja 21:12a) Þetta veit ekki á gott fyrir Edóm. Morgunskíman sést við sjóndeildarhring en það er skammvinn blekking. Á hæla hennar kemur nótt, annar myrkur kúgunartími. Þetta lýsir framtíð Edóms mætavel. Kúgun Assýringa tekur enda en Babýlon tekur við sem heimsveldi og gerir út af við Edóm. (Jeremía 25:17, 21; 27:2-8) Þetta endurtekur sig aftur og aftur. Kúgun Babýlonar linnir en Persar taka við og síðan Grikkir. Það rennur upp skammur ‚morgunn‘ á tímum Rómverja þegar Heródesarættin, sem er edómísk að uppruna, kemst til valda í Jerúsalem. En þessi ‚morgunn‘ stendur stutt. Að lokum þagnar Edóm endanlega og hverfur af sjónarsviðinu. Nafnið Dúma hæfir þjóðinni vel þegar yfir lýkur.
19. Hvað á varðmaðurinn hugsanlega við er hann segir: „Ef þér viljið spyrja, þá komið aftur og spyrjið“?
19 Varðmaðurinn lýkur stuttri orðsendingu sinni þannig: „Ef þér viljið spyrja, þá komið aftur og spyrjið.“ (Jesaja 21:12b) Orðin „komið aftur“ vísa hugsanlega til þess að Edóm eigi sífelldar ‚nætur‘ fyrir höndum. En það má einnig þýða hebreskuna „snúa aftur“ og þá er spámaðurinn hugsanlega að segja að hver sá Edómíti, sem vill umflýja ill örlög þjóðarinnar, skuli iðrast og „snúa aftur“ til Jehóva. Varðmaðurinn býður upp á frekari fyrirspurnir hvort heldur er.
20. Af hverju er orðsendingin í Jesaja 21:11, 12 mikils virði fyrir fólk Jehóva nú á dögum?
20 Þessi stutta orðsending er nútímavottum Jehóva mikils virði.e Okkur er ljóst að svartnætti grúfir yfir mannkyninu sem er andlega blint og fjarlægt Guði svo að ekkert annað en eyðing blasir við núverandi heimskerfi. (Rómverjabréfið 13:12; 2. Korintubréf 4:4) Sérhver vonarglæta um að mannkyninu takist einhvern veginn að tryggja frið og öryggi er eins og skammvinn og svikul morgunskíma því að enn meira svartnætti tekur við. Raunveruleg dögun er í nánd, dögun þúsund ára stjórnar Krists yfir jörðinni, en meðan nóttin varir verðum við að fylgja leiðsögn varðmannshópsins með því að halda andlegri árvekni okkar og boða hugrökk að þetta spillta heimskerfi sé að líða undir lok. — 1. Þessaloníkubréf 5:6.
Nótt skellur á í Arabíu
21. (a) Hvaða orðaleikur er hugsanlega fólginn í Jesaja 21:13? (b) Hverjar eru kaupmannalestir Dedansmanna?
21 Síðasta orðsendingin í 21. kafla Jesajabókar beinist gegn „Arabíu.“ Hún hefst þannig: „Spádómur um Arabíu. Takið náttstað í kjarrinu að kveldi, þér kaupmannalestir Dedansmanna!“ (Jesaja 21:13) Hebreska orðið, sem hér er þýtt „Arabía,“ merkir bókstaflega „eyðimerkurslétta“ og er mjög líkt hebreska orðinu sem þýtt er „kvöld.“ Sumir telja þetta orðaleik, það er að segja að kvöldmyrkur eða erfiðleikar séu í þann mund að skella á þar um slóðir. Orðsendingin hefst með því að talað er um náttstað kaupmannalestar Dedansmanna sem var þekkt Arabaættkvísl. Kaupmannalestir fluttu kryddjurtir, perlur og önnur verðmæti eftir vissum verslunarleiðum sem lágu milli vinja í eyðimörkinni. En þarna neyðast þær til að víkja út af fjölförnum slóðum og fela sig yfir nóttina. Af hverju?
22, 23. (a) Hvaða þjakandi þungi er í þann mund að leggjast á Arabaættkvíslirnar og hvaða afleiðingar hefur það fyrir þær? (b) Hversu fljótt kemur þessi hörmung og af völdum hvers?
22 Jesaja svarar: „Komið út með vatn á móti hinum þyrstu, þér sem búið í Temalandi! Færið brauð flóttamönnunum! Því þeir flýja undan sverðunum, undan brugðnu sverði, undan bendum boga, undan þunga ófriðarins.“ (Jesaja 21:14, 15) Já, þjakandi þungi ófriðar og átaka leggst á þessar Arabaættkvíslir. Temaland er við einhverjar vatnsríkustu vinjar á svæðinu og neyðist til að færa hinum ógæfusömu stríðsflóttamönnum vatn og brauð. Hvenær gerist þetta?
23 Jesaja heldur áfram: „Því að svo hefir [Jehóva] sagt við mig: Áður en eitt ár er liðið, eins og ár kaupamanna eru talin, skal öll vegsemd Kedars að engu verða, og leifarnar, sem eftir verða af bogum Kedarínga kappa, munu verða teljandi, því að [Jehóva], Ísraels Guð, hefir sagt það.“ (Jesaja 21:16, 17) Ættkvísl Kedaringa er svo kunn að hún er stundum notuð sem samheiti Arabíu. Jehóva hefur ákveðið að bogmönnum og köppum þessarar ættkvíslar skuli fækka svo að ekki verði nema leifar eftir. Hvenær? „Áður en eitt ár er liðið,“ rétt eins og kaupamaður vinnur ekki lengur en honum er greitt fyrir. Óvíst er hvernig þetta rættist. Tveir Assýríukonungar, þeir Sargon 2. og Sanheríb, sögðust hafa lagt Arabíu undir sig. Vel má vera að annar hvor hafi nær útrýmt þessum stoltu Arabaættkvíslum eins og spáð var.
24. Hvers vegna getum við verið viss um að spádómur Jesaja um Arabíu rættist?
24 En eitt er víst: Spádómurinn rættist orð fyrir orð. Það er undirstrikað rækilega með lokaorðum hans: „[Jehóva], Ísraels Guð, hefir sagt það.“ Það hefur kannski þótt ósennilegt á dögum Jesaja að veldi Babýlonar myndi rísa hærra en Assýríu, og að hún yrði síðan svipt völdum á einni nóttu í miðri svallveislu. Það getur þótt jafnólíklegt að hinir voldugu Edómítar hnígi í dauðaþögn eða að þrengingar og skortur bíði auðugra Arabaættkvísla. En Jehóva segir það og þá verður það. Jehóva segir núna að heimsveldi falskra trúarbragða verði að engu gert. Það er ekki aðeins möguleiki heldur vissa. Jehóva hefur sjálfur sagt það.
25. Hvernig getum við tekið varðmanninn okkur til fyrirmyndar?
25 Við skulum því vera eins og varðmaðurinn. Verum árvökur líkt og við stöndum í háum varðturni og skimum eftir hættumerkjum við sjóndeildarhring. Verum dyggir bandamenn varðmannshópsins, þeirra sem eftir eru af hinum smurðu á jörðinni. Leggjum þeim lið og boðum hugrökk það sem við sjáum — hin yfirþyrmandi merki þess að Kristur ríki á himnum, að hann bindi bráðlega enda á langa viðskilnaðarnótt mannkyns við Guð og láti síðan renna upp dögun þúsundáraríkisins og paradísar á jörð.
[Neðanmáls]
a Kýrus Persakonungur var stundum kallaður „konungur Ansan“ sem var hérað eða borg í Elam. Vera má að Ísraelsmenn á dögum Jesaja, á áttundu öld f.o.t., hafi þekkt Elam en ekki vitað af Persíu. Það kann að vera skýringin á því að Jesaja talar um Elamíta í stað Persa.
b Margir biblíuskýrendur telja að orðin ‚smyrja skjöldu‘ höfði til þess forna hermannasiðar að olíubera leðurskildi fyrir bardaga svo að höggin geigi frekar. Þó svo að þessi skýring kunni að eiga rétt á sér er vert að minna á að Babýloníumenn höfðu varla tíma til að veita mótspyrnu nóttina sem borgin féll, og þaðan af síður til að smyrja skildina!
c Svo nákvæmur er spádómur Jesaja um fall Babýlonar að sumir biblíugagnrýnendur hafa slegið því fram að hann hljóti að hafa verið skrifaður eftir að hún féll. En hebreskufræðingurinn F. Delitzsch bendir á að slíkar getgátur séu óþarfar ef sú staðreynd sé viðurkennd að hægt sé að innblása spámanni að segja fyrir atburði öldum fyrir fram.
d Sjá bókina Revelation — Its Grand Climax At Hand!, bls. 164-9.
e Jesaja 21:11 stóð á forsíðu tímaritsins Varðturninn fyrstu 59 árin sem það var gefið út og var einnig stefið í síðustu skriflegu prédikun Charles T. Russells, fyrsta forseta Varðturnsfélagsins. (Sjá mynd á blaðsíðunni á undan.)
[Mynd á blaðsíðu 219]
„Borðin eru sett fram . . . etið er og drukkið.“
[Mynd á blaðsíðu 220]
Varðmaðurinn ‚kallaði eins og ljón.‘
[Mynd á blaðsíðu 222]
‚Ég stend á verði alla daga og allar nætur.‘