Friður frá Guði fyrir þá sem Jehóva kennir
„Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ — JESAJA 54:13.
1, 2. Á hverju veltur það hvort menn geta notið friðar?
HVERSU eftirsóknarverður er ekki friður! Saga mannkynsins hefur hins vegar verið allt annað en friðsöm. Hvers vegna?
2 Vegna þess að friður er nátengdur virðingu fyrir yfirvaldi. Og hver er æðsta yfirvald í alheiminum? Skaparinn, Jehóva Guð. Ljóst er því að gott samband við hann er nauðsynlegt til að friður geti ríkt. (Sálmur 29:11; 119:165) Ef þetta mikilvæga samband er rofið eða spillist er ómögulegt að eiga ósvikinn frið við Guð, náunga sinn eða sjálfan sig. — Jesaja 57:21.
Hvers vegna heimurinn hefur ekki frið
3. Hvernig spilltist samband mannkynsins við Guð?
3 Eins og við vitum vel gerði Satan uppreisn gegn Guði skömmu eftir að saga mannkynsins hófst. Uppreisn er styrjaldarástand. Þessi friðarspillir, sem varð þekktur undir heitinu Satan, hvatti Evu til að láta ekki lög Guðs standa í vegi fyrir því að hún gerði það sem hún teldi vera sér til framdráttar. Djöfullinn fór rangt með staðreyndir til að koma henni til að halda að hún færi á mis við eitthvað gott með því að gefa gaum að Guði. Hann höfðaði til eigingirni, þess hugarfars sem stundum hefur verið nefnt „ég fyrst.“ Innan skamms fylgdi maðurinn hennar henni eftir út í lögleysið, og af því leiddi að allir afkomendur þeirra eru sýktir þeim anda. — 1. Mósebók 3:1-6, 23, 24; Rómverjabréfið 5:12.
4, 5. (a) Að hvaða marki hefur Satan heppnast að hafa áhrif á hugsun mannkynsins? (b) Hvaða áhrif hefur það haft á viðleitni mannsins til að koma á friði?
4 Það er ekki bara lítill hluti mannkyns sem virðir lög Guðs að vettugi. Ritningin segir okkur að Satan ‚afvegaleiði alla heimsbyggðina.‘ (Opinberunarbókin 12:9) Sumir eru gróflega löglausir, virða Guð og náunga sinn algerlega að vettugi! Aðrir ganga ekki alveg svo langt. En svo vel hefur Satan tekist að hafa áhrif á hugsun manna að Jóhannes postuli gat sagt: „Allur heimurinn er á valdi hins vonda.“ (1. Jóhannesarbréf 5:19) Hvort sem menn játa trú á tilvist djöfulsins eða ekki gera þeir það sem hann vill, hlýða honum, þannig að hann er stjórnandi þeirra. Þar af leiðandi er mannkynið fjarlægt Guði, fjandsamlegt gagnvart honum. Er það nokkur furða að tilraunir manna til að koma á friði í slíku umhverfi skuli hafa mistekist? — Kólossubréfið 1:21.
5 Samt sem áður nýtur sívaxandi fjöldi manna af öllum þjóðum friðar frá Guði, friðar sem á uppruna sinn hjá Guði. Hvernig hefur það gerst?
Hinn fullnægjandi friður sem Guð gefur
6. (a) Hvaða áherslu leggur Biblían á frið? (b) Fyrir tilstilli hvers er hægt að njóta þess friðar sem Guð gefur?
6 Í Rómverjabréfinu 15:33 er Jehóva réttilega kallaður „Guð friðarins.“ Allt frá upphafi hefur sá verið tilgangur Guðs að allar sköpunarverur hans byggju við frið. Yfir 300 sinnum minnist innblásið orð hans, Biblían, á frið. Þar kemur fram að Jesús Kristur sé „Friðarhöfðingi.“ (Jesaja 9:6, 7) Hann er sá sem Guð hefur falið að brjóta niður verk hins mikla friðarspillis, Satans djöfulsins. (1. Jóhannesarbréf 3:8) Og fyrir tilverknað Friðarhöfðingjans getum við, hvert og eitt okkar, notið þess unaðslega friðar sem Guð gefur.
7. (a) Hvað er fólgið í þeim friði sem Guð gefur? (b) Hvers vegna þarf ekki að bíða þess að hið gamla heimskerfi hverfi og við höfum hlotið fullkomleika?
7 Þessi friður er í sannleika stórkostlegur! Hann er annað og meira en aðeins það að ekki sé stríð. Hebreska orðið shalom, venjulega þýtt „friður,“ lýsir heilbrigði, velmegun og farsæld. Friður frá Guði, sem er eign sannkristinna manna, hefur sérstöðu að því leyti að hann er ekki háður umhverfi mannsins. Þetta merkir ekki að óþægilegt umhverfi snerti þá ekki. Hins vegar búa þeir yfir styrk hið innra sem gerir þeim kleift að forðast það að stuðla að ólgu og óróa með því að gjalda í sömu mynt þegar hún snertir þá. (Rómverjabréfið 12:17, 18) Þótt menn séu veikir að líkamanum til eða hafi litlu úr að spila geta þeir eigi að síður verið hraustir og auðugir í andlegum skilningi, og þar með notið þess friðar sem Guð gefur. Að sjálfsögðu munu þeir njóta friðarins enn betur þegar hinn eigingjarni heimur umhverfis okkur er horfinn, og hann mun dýpka þegar allt mannkynið hefur náð fullkomleika. En sá friður frá Guði, sem hægt er að njóta nú þegar, er ró og friður í huga og hjarta, friður og stilling hið innra hvað sem er að gerast hið ytra. (Sálmur 4:9) Hann stafar af slíku sambandi við Guð sem hann hefur velþóknun á. Hann er ómetanleg eign!
Synir sem Jehóva kennir
8. Hverjir urðu fyrstir til að njóta þessa friðar við Guð fyrir milligöngu Jesú Krists?
8 Hverjir njóta slíks friðar vegna þess að þeir láta Jehóva kenna sér og gefa gaum að boðorðum hans? Til svars við því beinir Biblían fyrst athygli okkar að þeim sem mynda hinn andlega Ísrael. Talað er um þá í Galatabréfinu 6:16 þar sem við lesum: „Yfir öllum þeim, sem þessari reglu fylgja, sé friður og miskunn, og yfir Ísrael Guðs.“ Þetta eru þær 144.000 sem Guð hefur útvalið til að lifa á himnum með Jesú Kristi. — Opinberunarbókin 14:1.
9. Hver var hegðunarreglan sem tengdist því að hinn andlegi Ísrael nyti friðar?
9 Á fyrstu öldinni voru þeir sem mynduðu hinn andlega Ísrael að læra frumsannindi, hegðunarreglu, sem var nátengd því að þeir gætu notið friðar. Þeim var lífsnauðsyn að skilja þessa hegðunarreglu. Í meira en fimmtán aldir hafði Jehóva notað Móselögmálið sem skugga hinna komandi gæða. En eftir fórnardauða Krists voru kröfur Móselaganna ekki lengur bindandi. (Hebreabréfið 10:1; Rómverjabréfið 6:14) Það birtist í úrskurði hins kristna, stjórnandi ráðs í Jerúsalem í deilunni um umskurnina. (Postulasagan 15:5, 28, 29) Það var undirstrikað á ný í hinu innblásna bréfi til Galatanna. Þau gæði, sem Móselögmálið hafði verið skuggi af, voru orðin að veruleika. Með þolinmæði var Jehóva að innprenta smurðum fylgjendum Krists gildi hinnar óverðskulduðu náðar hans sem birtist í Kristi. Með því að iðka trú á þessa ráðstöfun, með því að hegða sér í samræmi við hana, gátu þeir notið friðar af því tagi sem syndugir menn höfðu aldrei áður getað. — Galatabréfið 3:24, 25; 6:16, 18.
10. (a) Hvaða loforð í Jesaja 54:13 var að rætast á hinum andlega Ísrael? (b) Hvernig hefur ögun Jehóva við þá stuðlað að því að þeir nytu friðar?
10 Þessir andlegu Ísraelsmenn voru að kynnast uppfyllingu stórkostlegs fyrirheits, skráð í Jesaja 54:13. Þar sagði Guð sjálfur við skipulag drottinhollra andavera, líkt við eiginkonu: „Allir synir þínir eru lærisveinar [Jehóva] og njóta mikils friðar.“ Helsti sonurinn er auðvitað Jesús Kristur sjálfur, fæddur sem Messías þegar hann var smurður heilögum anda árið 29. En himnesk „kona“ Jehóva á fleiri syni — 144.000 í viðbót sem eru hluti þess sæðis sem sagt var fyrir í 1. Mósebók 3:15. Jehóva lofaði að hann skyldi vera hinn mikli fræðari allra þessara sona. Hann hefur kennt þeim sannleikann um sjálfan sig og tilgang sinn. Hann hefur sagt þeim hvernig þeir eigi að þjóna honum. Stundum hefur hann þurft að aga þá þegar þeir hafa ekki farið eftir orði hans, en þeir hafa auðmjúkir viðurkennt þörf sína fyrir aga og gert nauðsynlegar breytingar, og þessi agi hefur borið góðan ávöxt — „ávöxt friðar og réttlætis.“ — Hebreabréfið 12:7, 11; Sálmur 85:9.
„Mikill múgur“ fræddur um veg Guðs
11. (a) Hverjum öðrum kennir Jehóva nú á tímum? (b) Hvernig sýna þeir að lýsingin í Jesaja 2:2, 3 á við þá, og hvaða áhrif hefur það á aðra?
11 Á okkar dögum er hinn andlegi Ísrael ekki eini hópurinn sem Jehóva kennir. Síðastliðna hálfa öld hefur athyglinni einnig verið beint að öðrum. Jesaja var blásið í brjóst að skrifa um þá í 2. kafla, 2. og 3. versi: „Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús [Jehóva] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma.“ Já, þeir sem gerast tilbiðjendur hins eina sanna Guðs láta þessa tilbeiðslu skipa æðstan sess í lífi sínu. Þannig er hún hátt upp hafin yfir hvers kyns aðra guðsdýrkun sem þeir áður stunduðu og heimurinn umhverfis þá heldur áfram að stunda. Fólk af öllum þjóðum hefur veitt þessu athygli. Það hefur séð að óháð kröfum veraldlegra yfirvalda eða því hversu útbreiddar ókristilegar athafnir eru í heiminum, taka tilbiðjendur Jehóva samband sitt við hann fram yfir allt annað. Þeir hafa líka veitt athygli þeim ávexti sem þetta gefur í lífi slíkra guðsdýrkenda, og margir vilja eignast hlut í honum. Því segja núna yfir þrjár milljónir manna við aðra: „Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum.“ — Sjá einnig Sakaría 8:23.
12. Hvaða gagn hafa þeir sem nefndir eru í Jesaja 2:2, 3 af því að eiga sér Guð fyrir fræðara, og hvað er áberandi hluti fræðslunnar sem hann veitir þeim?
12 Hugsaðu þér hvað það þýðir — að eiga Guð sem kennara! Þeir sem hljóta kennslu hjá honum og meta að verðleikum höfund hennar eru ekki þjakaðir af stöðugri baráttu innra með sér. Hjá þeim togast ekki á tvær ólíkar skoðanir! Þeir eru ekki í erfiðri klípu með að ákveða hvað sé rétt. Sannleikurinn í orði Guðs er þeim kristaltær. Og hvern segir Jesaja 2:4 vera áberandi þátt í fræðslunni sem þeir fá? Hann lýtur að því hvernig njóta eigi friðar í stríðshrjáðum heimi. Óháð því hvað aðrir kjósa að gera ákveða þeir sem Jehóva kennir að smíða að eigin frumkvæði plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Þeir temja sér ekki hernað framar.
13. Úr hvað umhverfi er ‚múgurinn mikli‘ kominn en hvað hefur gert hann að því sem hann er?
13 Þessum sama hópi er lýst í Opinberunarbókinni 7:9, 10, 14 sem þeim er bjargast inn á hina nýju, friðsömu jörð Guðs sem kemur í kjölfar ‚þrengingarinnar miklu.‘ Þeir eru af alls kyns fólki, kynkvíslum, lýðum og tungum. Margir tilheyrðu áður þjóðabrotum og hópum sem háðu stríð hver við annan. Aðrir lifðu einfaldlega fyrir sjálfa sig, en með því hindruðu þeir líka að einhverju marki að aðrir gætu notið friðar. En núna bæði elskar þetta fólk af öllum þjóðum frið og stuðlar að honum. Og hvað hefur gert það þannig? Það að Jehóva hefur kennt því. — Jesaja 11:9.
Einstæður friður
14. Á hverju byggist friður þjóna Jehóva og hvernig víkur því við?
14 Sá friður, sem Jehóva veitir fólki sínu, er einstakur. Hann er ekki þess konar friður sem kemst á þegar ótraustur samningur er gerður milli tveggja aðila sem tortryggja hvor annan. Hann felur ekki í sér neins konar málamiðlun. Hann er byggður á réttlæti. (Jesaja 32:17) En hvernig getur slíkur friður verið eign ófullkominna manna? Hvaða réttlæti höfum við sem erum allir syndarar? Vegna trúar getum við átt okkur réttlæti byggt á friðþægingargildi fórnar Jesú.
15. Hvað var Jehóva að kenna væntanlegum sonum sínum, sem var forsenda friðar, meðan jarðvistarþjónusta Jesú stóð?
15 Þetta hjálpar okkur að skilja hvað Jesú átti við í Jóhannesi 6:45-47. Hann var þar að tala við Gyðinga sem ekki hneigðust til hans sem Messíasar heldur mögluðu gegn honum. Það var hins vegar um lærisveina sína sem hann sagði: „Hjá spámönnunum er skrifað [nánar til tekið í Jesaja 54:13]: ‚Þeir munu allir verða af Guði fræddir.‘ Hver sem hlýðir á föðurinn og lærir af honum, kemur til mín. Ekki er það svo, að nokkur hafi séð föðurinn. Sá einn, sem er frá Guði, hefur séð föðurinn. Sannlega, sannlega segi ég yður: Sá sem trúir, hefur eilíft líf.“ Þessir lærisveinar tóku við þeirri fræðslu sem Jehóva gaf þeim. Þeir fylgdu Jesú. Þegar sumir höfnuðu því sem hann kenndi og yfirgáfu hann voru þeir eftir. Eins og Pétur sagði: „Vér trúum og vitum, að þú ert hinn heilagi Guðs.“ (Jóhannes 6:69) Vegna trúar sinnar á Jesú Krist gátu þeir eignast friðsamlegt samband við Jehóva Guð, samband sem hefur í för með sér fullvissu um eilíft líf.
16. (a) Hvernig nutu fylgjendur Jesú góðs af ráðstöfun Guðs fyrir milligöngu Krists, frá og með hvítasunnunni árið 33? (b) Hvers var krafist af þeim eftir það?
16 Frá og með hvítasunnunni árið 33 fóru þessir trúföstu fylgjendur Jesú að njóta hagnaðarins af fórn hans. Það sem Páll síðar skrifaði í Rómverjabréfinu 5:1 rættist á þeim: „Réttlættir af trú höfum vér því frið við Guð fyrir Drottin vorn Jesú Krist.“ Allir þessir menn voru afkomendur Adams. Sem syndarar voru þeir fjarlægir Guði. Engin góðverk, sem þeir gætu unnið, hefðu getað vegið upp á móti erfðasynd þeirra. En í óverðskuldaðri náð sinni tók Jehóva á móti fórn Jesú, fullkomnu mannslífi hans sem hann fórnaði fyrir afkomendur Adams. Þeir sem iðkuðu trú á þessa ráðstöfun áttu þess nú kost að vera tilreiknað réttlæti, að Guð tæki sér þá fyrir syni er ættu eilíft líf í vændum. (Efesusbréfið 1:5-7) En var einhvers meira krafist af þeim? Já, þeir urðu að ganga á vegum Jehóva. Þeir máttu ekki lengur iðka synd. En þeir gerðu sér ljóst að hvert það réttlæti, sem þeir höfðu til að bera, væri að þakka óverðskuldaðri náð Guðs sem birtist í gegnum Krist. Eins og Ritningin segir ‚höfðu þeir frið við Guð fyrir Drottin Jesú Krist.‘
17, 18. (a) Njóta hinir ‚aðrir sauðir‘ slíks friðar við Guð? (b) Hvaða spurningar eru íhugunarverðar?
17 Hvað um þá sem Jesús kallaði ‚aðra sauði‘? (Jóhannes 10:16) Hafa þeir slíkan frið við Guð? Ekki sem synir Guðs, en Kólossubréfið 1:19, 20 segir einnig þá hafa þegið frið frá Guði. Þar er sagt að Guði hafi þóknast að „láta [Krist] koma öllu í sátt við sig, öllu bæði á jörðu [það er að segja þeim sem hljóta eilíft líf á jörð sem verður paradís] og himnum.“ Þeir sem eiga jarðneskt líf í vændum eru lýstir réttlátir og hafa frið við Guð nú þegar, þó ekki sem synir heldur sem ‚vinir Guðs‘ eins og Abraham. Það eru mikil sérréttindi! — Jakobsbréfið 2:23.
18 Býrð þú við þennan frið? Nýtur þú hans í eins ríkum mæli og mönnum er gerlegt nú á mikilvægustu tímum mannkynssögunnar? Í greininni á eftir munum við skoða ýmislegt sem getur stuðlað að því.
Spurningar til upprifjunar
◻ Hvers vegna er ekki friður í heiminum?
◻ Hver er sá friður sem Guð veitir núna?
◻ Hverjir geta notið slíks friðar?
◻ Hvers vegna er réttlæti þýðingarmikill þáttur í þessum friði?
[Mynd á blaðsíðu 25]
„Hver sem hlýðir á föðurinn og lærir af honum, kemur til mín.“