4. kafli
Hús Jehóva upphafið
1, 2. Hvaða orð eru klöppuð á vegg á torgi Sameinuðu þjóðanna og hvaðan eru þau tekin?
„ÞÆR munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ Þessi orð eru klöppuð á vegg á torgi Sameinuðu þjóðanna í New York. Um áratuga skeið var þess ekki getið hvaðan orðin voru tekin. Þar eð markmið Sameinuðu þjóðanna er að vinna að heimsfriði mátti ætla að orðin væru höfð eftir stofnendum samtakanna árið 1945.
2 En árið 1975 var nafnið Jesaja meitlað á vegginn undir tilvitnuninni. Þá var ljóst að orðin voru ekki ný af nálinni. Reyndar voru þau skráð sem spádómur fyrir meira en 2700 árum þar sem nú er 2. kafli Jesajabókar. Friðarunnendur hafa um árþúsundir velt fyrir sér hvenær og hvernig það verði að veruleika sem Jesaja spáði. Nú þarf ekki lengur að velta vöngum yfir því vegna þess að við sjáum fyrir augum okkar stórmerka uppfyllingu þessa forna spádóms.
3. Hvaða þjóðir smíða plógjárn úr sverðum sínum?
3 Hvaða þjóðir smíða plógjárn úr sverðum sínum? Ekki eru það þjóðir og stjórnir nútímans. Fram til þessa hafa þessar þjóðir verið að smíða sverð eða vopn, bæði til hernaðar og til viðhalds „friði“ í skjóli herstyrks. Reyndar hafa þjóðirnar alltaf haft ríkari tilhneigingu til að smíða sverð úr plógjárnum! En spádómur Jesaja uppfyllist á fulltrúum allra þjóða, á fólki sem tilbiður Jehóva, „Guð friðarins.“ — Filippíbréfið 4:9.
Þjóðirnar sem streyma til hreinnar tilbeiðslu
4, 5. Hvað boða fyrstu versin í 2. kafla Jesajabókar og hvað leggur áherslu á áreiðanleika þeirra?
4 Annar kafli Jesajabókar hefst svo: „Orðið, sem Jesaja Amozsyni vitraðist um Júda og Jerúsalem. Það skal verða á hinum síðustu dögum, að fjall það, er hús [Jehóva] stendur á, mun grundvallað verða á fjallatindi og gnæfa upp yfir hæðirnar, og þangað munu allir lýðirnir streyma.“ — Jesaja 2:1, 2.
5 Taktu eftir að Jesaja er ekki með neinar vangaveltur. Honum er sagt að skrá atburði sem ‚skuli verða‘ — örugglega. Öllu, sem Jehóva ætlar sér, er ‚komið til vegar.‘ (Jesaja 55:11) Trúlega var Jehóva að leggja áherslu á að fyrirheit sitt væri áreiðanlegt er hann innblés spámanninum Míka, sem var samtíða Jesaja, að skrá sama spádóm í bók sinni og við finnum í Jesaja 2:2-4. — Míka 4:1-3.
6. Hvenær uppfyllist spádómur Jesaja?
6 Spádómur Jesaja á að uppfyllast „á hinum síðustu dögum.“ Kristnu Grísku ritningarnar sögðu margt fyrir sem átti að einkenna þetta tímabil. Það voru meðal annars styrjaldir, jarðskjálftar, drepsóttir, hallæri og „örðugar tíðir.“a (2. Tímóteusarbréf 3:1-5; Lúkas 21:10, 11) Uppfylling þessara spádóma er örugg sönnun fyrir því að við lifum „á hinum síðustu dögum“ þessa núverandi heimskerfis. Það er því rökrétt að við sjáum það sem Jesaja boðaði eiga sér stað á okkar tímum.
Tilbeiðslufjall
7. Hvaða spádómlega mynd dregur Jesaja upp?
7 Í fáum orðum dregur Jesaja upp fagra, spádómlega mynd. Við sjáum hátt fjall og á tindi þess dýrlegt hús sem er musteri Jehóva. Fjallið gnæfir yfir fjöll og hæðir umhverfis en er þó hvorki ógurlegt né ógnvekjandi. Það er hrífandi ásýndar og fólk af öllum þjóðum þráir að ganga þangað upp til húss Jehóva. Fólk streymir þangað. Það er ekki erfitt að sjá þetta fyrir sér, en hvað merkir það?
8. (a) Hverju tengdust hæðir og fjöll á dögum Jesaja? (b) Hvað er táknað með því að þjóðir skuli streyma til ‚fjallsins sem hús Jehóva stendur á‘?
8 Á dögum Jesaja voru hæðir og fjöll oft tengd tilbeiðslu. Til dæmis voru reistir þar helgidómar falsguða og stunduð skurðgoðadýrkun. (5. Mósebók 12:2; Jeremía 3:6) En það er hús eða musteri Jehóva sem prýðir tind Móríafjalls í Jerúsalem. Trúfastir Ísraelsmenn fara þangað þrisvar á ári og ganga á fjallið til að tilbiðja hinn sanna Guð. (5. Mósebók 16:16) Þegar þjóðir streyma til ‚fjallsins, sem hús Jehóva stendur á,‘ táknar það að margir safnast saman til sannrar tilbeiðslu.
9. Hvað táknar ‚fjallið sem hús Jehóva stendur á‘?
9 Fólk Guðs safnast auðvitað ekki saman núna á bókstaflegu fjalli með musteri úr steini. Rómverskur her eyðilagði musteri Jehóva í Jerúsalem árið 70. Og Páll postuli sýndi fram á að musterið í Jerúsalem og tjaldbúðin, sem var á undan því, voru táknræn. Þau táknuðu meiri andlegan veruleika, ‚tjaldbúðina hina sönnu sem Jehóva reisti en eigi maður.‘ (Hebreabréfið 8:2) Þessi andlega tjaldbúð er tilbeiðslufyrirkomulag Jehóva sem byggist á lausnarfórn Jesú Krists. (Hebreabréfið 9:2-10, 23) Í samræmi við þetta táknar ‚fjallið, sem hús Jehóva stendur á‘ og nefnt er í Jesaja 2:2, hina upphöfnu hreinu tilbeiðslu á Jehóva nú á tímum. Þeir sem taka upp hreina guðsdýrkun safnast ekki saman á neinum ákveðnum stað heldur sameinast í tilbeiðslu.
Hrein tilbeiðsla upphafin
10, 11. Í hvaða skilningi hefur tilbeiðslan á Jehóva verið upphafin á okkar dögum?
10 Spámaðurinn segir að ‚fjallið, sem hús Jehóva stendur á,‘ það er að segja hrein tilbeiðsla, verði ‚grundvallað á fjallatindi og gnæfi upp yfir hæðirnar.‘ Löngu fyrir daga Jesaja hafði Davíð konungur flutt sáttmálsörkina upp á Síonfjall í Jerúsalem sem var í 760 metra hæð yfir sjávarmáli. Þar stóð örkin uns musterið var fullgert á Móríafjalli og hún var flutt þangað. (2. Samúelsbók 5:7; 6:14-19; 2. Kroníkubók 3:1; 5:1-10) Á dögum Jesaja hafði hin helga örk því verið bókstaflega upphafin og komið fyrir í musterinu þar sem hún stóð hærra en hinar fjölmörgu hæðir umhverfis þar sem falsguðadýrkun fór fram.
11 Í andlegum skilningi hefur tilbeiðslan á Jehóva auðvitað alltaf verið hafin yfir trúariðkanir falsguðadýrkenda. En á okkar dögum hefur Jehóva upphafið tilbeiðslu sína himinhátt, langt yfir óhreina guðsdýrkun í sérhverri mynd, langt upp yfir „hæðirnar“ og ‚fjallatindana.‘ Hvernig þá? Aðallega með því að safna saman þeim sem vilja tilbiðja hann „í anda og sannleika.“ — Jóhannes 4:23.
12. Hverjir eru „börn ríkisins“ og hvaða samansöfnun hefur átt sér stað?
12 Kristur Jesús kallaði ‚endi veraldar‘ uppskerutíma þegar englarnir myndu safna saman ‚börnum ríkisins,‘ það er að segja þeim sem hefðu von um að ríkja með Jesú í himneskri dýrð. (Matteus 13:36-43) Frá 1919 hefur Jehóva falið þeim sem eftir eru af þessum börnum að taka þátt í uppskerustarfinu með englunum. (Opinberunarbókin 12:17) Fyrst er því safnað ‚börnum ríkisins‘ eða smurðum bræðrum Jesú og þeir vinna síðan að frekari samansöfnun.
13. Hvernig hefur Jehóva blessað hinar smurðu leifar?
13 Núna á uppskerutímanum hefur Jehóva jafnt og þétt hjálpað hinum smurðu leifum að skilja orð sitt, Biblíuna, og fara eftir því. Það hefur líka átt sinn þátt í að upphefja hreina tilbeiðslu. Þó svo að ‚myrkur grúfi yfir jörðinni og sorti yfir þjóðunum‘ skína hinir smurðu „eins og ljós“ meðal mannkyns, því að Jehóva hefur hreinsað þá og fágað. (Jesaja 60:2; Filippíbréfið 2:15) Þessir andasmurðu menn hafa ‚fyllst þekkingu á vilja Guðs með allri speki og skilningi andans‘ og ‚skína sem sól í ríki föður síns.‘ — Kólossubréfið 1:9; Matteus 13:43.
14, 15. Hvaða samansöfnun hefur átt sér stað, auk þess að safna ‚börnum ríkisins,‘ og hvernig sagði Haggaí það fyrir?
14 En fleiri hafa streymt til ‚fjallsins sem hús Jehóva stendur á.‘ Jesús kallaði þá „aðra sauði“ sína og þeir hafa von um að lifa að eilífu í paradís á jörð. (Jóhannes 10:16; Opinberunarbókin 21:3, 4) Þeir komu fram á sjónarsviðið á fjórða áratug aldarinnar, fyrst í þúsundatali, síðan í hundruð þúsunda tali og nú í milljónatali. Í sýn, sem Jóhannesi postula var gefin, eru þeir kallaðir „mikill múgur, sem enginn gat tölu á komið, af alls kyns fólki og kynkvíslum og lýðum og tungum.“ — Opinberunarbókin 7:9.
15 Spámaðurinn Haggaí boðaði komu þessa mikla múgs og sagði: „Svo segir [Jehóva] allsherjar: Eftir skamma hríð mun ég hræra himin og jörð, haf og þurrlendi. Ég mun hræra allar þjóðir, svo að gersemar allra þjóða [þeir sem sameinast smurðum kristnum mönnum í hreinni tilbeiðslu] skulu hingað koma, og ég mun fylla hús þetta dýrð — segir [Jehóva] allsherjar.“ (Haggaí 2:6, 7) Tilvist þessa vaxandi ‚mikla múgs‘ og smurðra félaga þeirra upphefur og vegsamar hreina tilbeiðslu í húsi Jehóva. Aldrei fyrr er vitað til þess að svona margir hafi sameinast í tilbeiðslu á hinum sanna Guði, og það er honum og krýndum konungi hans, Jesú Kristi, til vegsauka. „Fólksmergðin er prýði konungsins,“ skrifaði Salómon konungur. — Orðskviðirnir 14:28.
Tilbeiðsla upphafin í lífi fólks
16-18. Hvaða breytingar hafa sumir gert til að tilbiðja Jehóva velþóknanlega?
16 Jehóva verðskuldar allan heiðurinn af því að upphefja hreina tilbeiðslu á okkar tímum. En þeir sem nálgast hann fá samt þau sérréttindi að eiga þátt í því. Það þarf að leggja eitthvað á sig til að klífa fjall og eins þarf að leggja eitthvað á sig til að læra réttláta staðla Guðs og lifa eftir þeim. Líkt og kristnir menn á fyrstu öld hafa nútímaþjónar Guðs sagt skilið við lífsmáta og iðkanir sem samrýmast ekki sannri tilbeiðslu. Saurlífismenn, skurðgoðadýrkendur, hórkarlar, þjófar, ágjarnir, drykkjumenn og fleiri hafa breytt um háttalag og látið „laugast“ og þvost í augum Guðs. — 1. Korintubréf 6:9-11.
17 Reynsla ungrar konu er dæmigerð. Hún segir: „Einu sinni var ég vegvillt og vonlaus. Ég drakk og lifði siðlausu lífi. Ég var með kynsjúkdóma. Ég seldi fíkniefni og stóð á sama um allt.“ Hún kynnti sér Biblíuna og gerbreytti lífi sínu í samræmi við kröfur Guðs. Núna segist hún hafa „hugarfrið, sjálfsvirðingu, framtíðarvon, eiga raunverulega fjölskyldu og það sem best er, samband við föður okkar, Jehóva.“
18 Þegar fólk hefur öðlast velþóknun Guðs þarf það að halda áfram að upphefja hreina tilbeiðslu með því að láta hana skipa stóran sess í lífi sínu. Fyrir árþúsundum sagði Jehóva fyrir munn Jesaja að mikill fjöldi manna nú á tímum myndi sækjast eftir því að láta tilbeiðsluna á honum ganga fyrir öllu öðru í lífi sínu. Ert þú einn þeirra?
Fólk sem lærir veg Jehóva
19, 20. Hvað er fólki Guðs kennt og hvar?
19 Jesaja segir okkur meira um þá sem taka upp hreina tilbeiðslu nú á dögum: „Margar þjóðir munu búast til ferðar og segja: ‚Komið, förum upp á fjall [Jehóva], til húss Jakobs Guðs, svo að hann kenni oss sína vegu og vér megum ganga á hans stigum,‘ því að frá Síon mun kenning út ganga og orð [Jehóva] frá Jerúsalem.“ — Jesaja 2:3.
20 Jehóva lætur fólk sitt ekki eigra um eins og týnda sauði. Hann veitir því „orð“ sitt og ‚kennslu‘ í Biblíunni og biblíutengdum ritum svo að það læri vegi hans. Þessi þekking gerir mönnum kleift að „ganga á hans stigum.“ Með þakklæti í hjarta og í samræmi við handleiðslu Jehóva Guðs tala þeir hver við annan um vegi hans. Þeir safnast saman á stórmótum og í smærri hópum — í ríkissölum og á einkaheimilum — til að hlýða á og læra vegi hans. (5. Mósebók 31:12, 13) Þannig líkja þeir eftir frumkristnum mönnum sem komu saman til að uppörva hver annan og hvetja til „kærleika og góðra verka.“ — Hebreabréfið 10:24, 25.
21. Hvaða starfi taka þjónar Jehóva þátt í?
21 Þeir hvetja aðra til að ‚fara upp‘ til hinnar háleitu tilbeiðslu á Jehóva Guði. Þetta kemur vel heim og saman við fyrirmæli Jesú til lærisveina sinna rétt áður en hann steig upp til himna. Hann sagði þeim: „Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður.“ (Matteus 28:19, 20) Með stuðningi Guðs fara vottar Jehóva hlýðnir um alla jörðina til að kenna, gera menn að lærisveinum og skíra þá.
Plógjárn úr sverðum
22, 23. Hvað boðar Jesaja 2:4 og hvað sagði háttsettur maður hjá Sameinuðu þjóðunum um það?
22 Nú erum við komin að næsta versi sem stendur að hluta til á veggnum á torgi Sameinuðu þjóðanna. Jesaja skrifar: „Hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ — Jesaja 2:4.
23 Það væri meiri háttar afrek að gera þetta. Federico Mayor, framkvæmdastjóri Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna, sagði einu sinni: „Allur stríðsviðbjóðurinn, sem sjónvarpið færir okkur heim í stofu, virðist ekki geta stöðvað hina gríðarlegu stríðsvél sem smíðuð hefur verið og haldið gangandi um aldaraðir. Núverandi kynslóðir eiga fyrir höndum hið nánast óhugsandi, biblíulega verkefni að ‚smíða plógjárn úr sverðum sínum‘ og umbreyta stríðshvötinni, sem maðurinn hefur þroskað með sér frá ómunatíð, í friðsemd. Að ná þessu markmiði væri besta og göfugasta verk sem ‚heimssamfélagið‘ gæti unnið, og besta arfleifð sem við gætum gefið afkomendum okkar.“
24, 25. Á hverjum uppfyllast orð Jesaja og hvernig?
24 Sem heild munu þjóðir heims aldrei ná þessu göfuga markmiði. Það er þeim hreinlega ofviða. Orð Jesaja uppfyllast á einstaklingum af mörgum þjóðum sem eru sameinaðir í hreinni tilbeiðslu. Jehóva hefur ‚skorið úr málum‘ þeirra. Hann hefur kennt fólki sínu að búa í friði hvert við annað. Í sundruðum og stríðshrjáðum heimi hafa þeir í táknrænum skilningi smíðað „plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum.“ Hvernig?
25 Meðal annars taka þeir ekki afstöðu í styrjöldum þjóðanna. Skömmu fyrir dauða Jesú komu vopnaðir menn til að handtaka hann. Þegar Pétur hjó til manns með sverði til að verja meistara sinn sagði Jesús við hann: „Slíðra sverð þitt! Allir, sem sverði bregða, munu fyrir sverði falla.“ (Matteus 26:52) Síðan þá hafa fylgjendur hans smíðað plógjárn úr sverðum sínum. Þeir hafa forðast að taka sér vopn í hönd til að drepa náungann eða styðja styrjaldir á aðra vegu. Þeir ‚stunda frið við alla menn.‘ — Hebreabréfið 12:14.
Að ganga veg friðarins
26, 27. Hvernig ‚ástundar fólk Guðs frið og keppir eftir honum‘? Nefndu dæmi.
26 Friður þjóna Guðs nær miklu lengra en að neita stríðsþátttöku. Þótt þeir búi í rösklega 230 löndum, tali ótal tungumál og búi við ólíka menningu eiga þeir frið hver við annan. Orð Jesú við lærisveina sína á fyrstu öldinni uppfyllast á þeim: „Á því munu allir þekkja, að þér eruð mínir lærisveinar, ef þér berið elsku hver til annars.“ (Jóhannes 13:35) Kristnir menn nú á tímum eru „friðflytjendur.“ (Matteus 5:9) Þeir ‚ástunda frið og keppa eftir honum‘ og Jehóva, „Guð friðarins“ heldur þeim uppi. — 1. Pétursbréf 3:11; Rómverjabréfið 15:33.
27 Til eru áhrifamikil dæmi um fólk sem lærði að ástunda frið. Ungur maður segir um yngri æviár sín: „Harður skóli reynslunnar kenndi mér að verja mig. Ég varð harðskeyttur og reiður út í lífið. Ég var sífellt að lenda í slagsmálum. Ég slóst á hverjum degi við einhvern krakka í hverfinu, stundum með hnefum, stundum með steinum og flöskum. Ég varð óskaplega ofbeldisfullur.“ En síðar þáði hann boðið að fara upp á ‚fjallið , sem hús Jehóva stendur á.‘ Hann lærði að ganga á vegi Guðs og varð friðsamur þjónn hans.
28. Hvað geta kristnir menn gert til að ástunda frið?
28 Þjónar Jehóva hafa fæstir alist upp við slíkt ofbeldi. En þeir keppa að friði hver við annan jafnvel í smáu — með því að gera hver öðrum gott, fyrirgefa og sýna samúð. Þótt ófullkomnir séu gera þeir sitt besta til að fara eftir því ráði Biblíunnar að ‚umbera hver annan og fyrirgefa hver öðrum, ef einhver hefur sök á hendur öðrum.‘ — Kólossubréfið 3:13.
Friðsæl framtíð
29, 30. Hvaða framtíð á jörðin fyrir sér?
29 Jehóva hefur unnið undursamlegt verk núna á „hinum síðustu dögum.“ Hann hefur safnað saman úr öllum þjóðum fólki sem vill þjóna honum. Hann hefur kennt því að ganga vegi sína, vegi friðarins. Það er þetta fólk sem mun lifa af ‚þrenginguna miklu‘ og ganga inn í friðsælan nýjan heim þar sem styrjöldum hefur verið endanlega útrýmt. — Opinberunarbókin 7:14.
30 Sverð eða hergögn verða ekki til framar. Sálmaritarinn skrifar um þann tíma: „Komið, skoðið dáðir [Jehóva], hversu hann framkvæmir furðuverk á jörðu. Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar, brýtur bogann, slær af oddinn, brennir skjöldu í eldi.“ (Sálmur 46:9, 10) Í ljósi þessa er eftirfarandi hvatning Jesaja jafnviðeigandi núna og hún var þegar hann skrifaði hana: „Ættmenn Jakobs, komið, göngum í ljósi [Jehóva].“ (Jesaja 2:5) Já, látum ljós Jehóva lýsa götu okkar núna, þá göngum við á vegi hans að eilífu. — Míka 4:5.
[Neðanmáls]
a Sjá bókina Þekking sem leiðir til eilífs lífs, 11. kafla, „Núna eru síðustu dagar!“ gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.