Styrjaldir heyra brátt sögunni til
LÍTUM aftur á biblíuspádóminn í Jesajabók sem segir: „Þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð, og ekki skulu þær temja sér hernað framar.“ Þú sérð af samhenginu að þeir, sem smíða plógjárn úr sverðum sínum, eru sagðir vera „margar þjóðir,“ er ganga á Guðs vegum. (Jesaja 2:2-4) Það merkir að þetta fólk tilbiður Jehóva Guð og hlýðir lögum hans. Hvaða fólk er það?
Þetta hlýtur að vera fólk af mörgum þjóðum sem hefur ekki aðeins hafnað stríðsvopnum heldur líka lagt sig fram um að uppræta úr hugum sér og hjörtum þau viðhorf og tilhneigingar sem leiða til átaka og styrjalda. (Rómverjabréfið 12:2) Þetta er fólk sem elskar náungann í stað þess að drepa hann. (Matteus 22:36-39) Hefurðu heyrt getið um þess konar fólk?
Þú hefur kannski heyrt að vottar Jehóva séu alþjóðlegt bræðalag og vilji ekki taka sér vopn í hönd til að drepa aðra. Hugsaðu þér: Ef allir jarðarbúar tækju sömu afstöðu, myndi þá ekki ríkja friður og öryggi hér á jörð nú þegar?
Að sjálfsögðu hafa ekki allir þessa afstöðu. Það er eins og Salómon konungur skrifaði fyrir hér um bil 3000 árum: „Enn sá ég alla þá kúgun, sem viðgengst undir sólinni: Þarna streyma tár hinna undirokuðu, en enginn huggar þá. Af hendi kúgara sinna sæta þeir ofbeldi.“ — Prédikarinn 4:1.
Ákall til friðelskandi manna
Losnar heimurinn einhvern tíma við styrjaldarbölið? Já. Verður það fyrir tilverknað manna? Nei. Mun það gerast á þann hátt að fjöldinn snúist til sannrar trúar? Nei. Sálmarnir í Biblíunni svara: „Komið, skoðið dáðir Drottins [Jehóva], . . . Hann stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar.“ — Sálmur 46:9, 10.
Hvernig fer Jehóva Guð að því? Orðskviðirnir svara: „Hinir hreinskilnu munu byggja landið, og hinir grandvöru verða eftir í því. En hinir óguðlegu [þeir sem virða lög Guðs að vettugi] munu upprættir verða úr landinu, og hinum svikulu verða útrýmt þaðan.“ — Orðskviðirnir 2:21, 22.
Ein helsta ástæðan fyrir því að Guð hefur ekki enn látið til skarar skríða er þessi: Hann er að gefa mönnum tækifæri til að læra um vegu sína þannig að þeir geti gengið á hans stigum. Pétur postuli skrifaði: „Ekki er [Jehóva] seinn á sér með fyrirheitið, þótt sumir álíti það seinlæti, heldur er hann langlyndur við yður, þar eð hann vill ekki að neinir glatist, heldur að allir komist til iðrunar.“ (2. Pétursbréf 3:9) Þjónar Guðs leggja því á sig það óeigingjarna erfiði að hjálpa öðrum að kynnast Jehóva. Eins og Jesaja lýsti því, kalla þeir: „Komið, förum upp á fjall [Jehóva], . . . svo að hann kenni oss sína vegu.“ — Jesaja 2:3.
‚Hinir síðustu dagar‘
Þessi ritningargrein í Jesajabók sagði líka fyrir að friðarmenntun fólks myndi fara fram „á hinum síðustu dögum.“ (Jesaja 2:2) Sá tími stendur yfir núna. Það er reyndar kaldhæðnislegt að styrjaldir þessarar aldar skuli einmitt gefa það til kynna.
Þegar lærisveinar Jesú spurðu hann hvað myndi vera til marks um endalok þessa heimskerfis lýsti hann ‚landskjálftum miklum og drepsóttum og hungri á ýmsum stöðum.‘ (Lúkas 21:11; Matteus 24:3) Hann sagði einnig: „‚Þegar þér spyrjið hernað og upphlaup, þá skelfist ekki. Þetta á undan að fara, en endirinn kemur ekki samstundis.‘ Síðan sagði hann við þá: ‚Þjóð mun rísa gegn þjóð og ríki gegn ríki.‘“ — Lúkas 21:9, 10.
Enda þótt stríð hafi verið háð um þúsundir ára er þetta eina öldin sem hefur mátt þola tvær heimsstyrjaldir og, að mati sumra, bókstaflega hundruð minni háttar stríð. Það er hrikalegt til að hugsa að tugmilljónir manna skuli hafa fallið í styrjöldum á þessari öld. Að sögn tímaritsins World Watch tók að meðaltali 50 ár að fella eina milljón manna í stríði síðustu 2000 ár fram að tuttugustu öldinni. Á þessari öld hefur fallið að meðaltali ein milljón manna á ári.
Heimur án hernaðar
Hinar hræðilegu styrjaldir okkar aldar, ásamt mörgu öðru sem biblíuspádómarnir sögðu fyrir, sýna að við stöndum á þröskuldi nýs heims sem Guð mun skapa. Ringulreið gamla heimsins verður þurrkuð út og í staðinn kemur ‚ný jörð‘ þar sem friður og réttlæti ríkir. (2. Pétursbréf 3:13) Orð Guðs segir: „Illvirkjarnir verða afmáðir, en þeir er vona á [Jehóva], fá landið til eignar. En hinir hógværu fá landið til eignar, gleðjast yfir ríkulegri gæfu.“ — Sálmur 37:9, 11.
Milljónir manna um heim allan þrá að búa í heimi án hernaðar. Spámaður Guðs skrifaði endur fyrir löngu eftirfarandi orð til að sýna fram á að Guð muni örugglega standa við loforð sitt um að skapa slíkan heim: „Enn hefir vitrunin sinn ákveðna tíma, en hún skundar að takmarkinu og bregst ekki. Þótt hún dragist, þá vænt hennar, því að hún mun vissulega fram koma og ekki undan líða.“ — Habakkuk 2:3.
Það er því viturlegt að setja traust sitt á Guð og fá að sjá fyrirheit hans rætast: „Guð sjálfur mun vera hjá þeim [þjónum sínum], Guð þeirra. Og hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:3, 4.
[Rammi/Myndir á blaðsíðu 9, 10]
Fyrirheit Biblíunnar um nýja heiminn:
Glæpir, ofbeldi og illska upprætt
„[Guð] stöðvar styrjaldir til endimarka jarðar.“ — Sálmur 46:10.
„Illvirkjarnir verða afmáðir . . . Innan stundar eru engir guðlausir til framar.“ — Sálmur 37:9, 10.
Allt mannkyn nýtur friðar
„Barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Nafn hans skal kallað . . . Friðarhöfðingi. Mikill skal höfðingjadómurinn verða og friðurinn engan enda taka.“ — Jesaja 9:6, 7.
Öll jörðin verður paradís
Jesús sagði: „[Þú skalt] vera með mér í Paradís.“ — Lúkas 23:43.
„Hinir réttlátu fá landið [„jörðina,“ NW] til eignar og búa í því um aldur.“ — Sálmur 37:29.
Ástríkt heimsbræðralag
„Guð fer ekki í manngreinarálit. Hann tekur opnum örmum hverjum þeim, sem óttast hann og ástundar réttlæti, hverrar þjóðar sem er.“ — Postulasagan 10:34, 35.
Upprisa látinna ástvina
„Sú stund kemur, þegar allir þeir, sem í gröfunum eru, munu heyra raust [Jesú] og ganga fram.“ — Jóhannes 5:28, 29.
Sjúkdómar, elli og dauði ekki til framar
„Hann mun þerra hvert tár af augum þeirra. Og dauðinn mun ekki framar til vera, hvorki harmur né vein né kvöl er framar til. Hið fyrra er farið.“ — Opinberunarbókin 21:4.