Haltu vöku þinni eins og Jeremía
„Ég [Jehóva] vaki yfir því að orði mínu verði framfylgt.“ — JER. 1:12.
1, 2. Af hverju er möndlutréð sett í samband við það að Jehóva vaki?
MÖNDLUTRÉÐ er með fyrstu trjánum sem blómgast að vori á hæðum Líbanons og Ísraels. Bleik eða hvít blómin byrja að skarta fegurð sinni í lok janúar eða byrjun febrúar. Hebreskt heiti trésins merkir bókstaflega „sá sem vaknar“.
2 Þegar Jehóva skipaði Jeremía spámann sinn notaði hann þetta einkenni möndlutrésins til að lýsa mikilvægum veruleika. Við upphaf ferils síns fékk spámaðurinn að sjá möndluviðargrein í sýn. Hvað merkti það? Jehóva skýrði það fyrir honum og sagði: „Ég vaki yfir því að orði mínu verði framfylgt.“ (Jer. 1:11, 12) Jehóva fór í táknrænum skilningi á fætur „snemma morguns“, rétt eins og möndlutréð, og sendi spámenn til að vara þjóð sína við afleiðingum þess að óhlýðnast. (Jer. 7:25, Biblían 1859) Hann myndi ekki unna sér hvíldar heldur ætlaði hann að ,vaka yfir því‘ að spádómlegt orð sitt næði fram að ganga. Á tilsettum tíma árið 607 f.Kr. fullnægði Jehóva dómi sínum yfir fráhvarfsríkinu Júda.
3. Hverju getum við treyst varðandi Jehóva?
3 Jehóva er sömuleiðis vakandi núna fyrir því að hrinda vilja sínum í framkvæmd. Það er óhugsandi að orð hans nái ekki fram að ganga. Hvaða áhrif hefur það á þig að Jehóva skuli halda vöku sinni? Trúirðu að hann sé vakandi fyrir því núna, árið 2011, að uppfylla fyrirheit sín? Ef við erum í minnsta vafa um að Jehóva standi við það sem hann lofar er tímabært að glaðvakna andlega og hrista af okkur allan svefndrunga og syfju. (Rómv. 13:11) Jeremía hélt vöku sinni sem spámaður Jehóva. Við skulum kynna okkur hvernig og hvers vegna hann hélt vöku sinni í þjónustu Guðs og læra af honum hvernig við getum haldið ótrauð áfram því verki sem okkur er falið.
Áríðandi boðskapur
4. Hvers vegna reyndi það á Jeremía að flytja boðskap sinn og af hverju var það áríðandi?
4 Jeremía kann að hafa verið um hálfþrítugt þegar Jehóva fékk honum það verkefni að vera varðmaður yfir Ísrael. (Jer. 1:1, 2) En honum fannst hann allt of ungur og algerlega ófær um að tala við öldunga þjóðarinnar sem voru jafnframt ráðamenn hennar. (Jer. 1:6) Hann átti að fordæma þá vægðarlaust og flytja óttalega dóma, sér í lagi prestum, falsspámönnum og valdhöfum þjóðarinnar, svo og þeim sem fóru „hver sína leið“ og höfðu „snúið baki við [Guði] fyrir fullt og allt“. (Jer. 6:13; 8:5, 6) Hið mikla musteri Salómons yrði eyðilagt, musterið sem hafði verið miðstöð sannrar tilbeiðslu í næstum fjórar aldir. Jerúsalem og Júda myndu leggjast í eyði og landsmenn yrðu fluttir í útlegð. Boðskapurinn, sem Jeremía var falið að flytja, var greinilega áríðandi.
5, 6. (a) Hvaða hlutverk hefur Jehóva falið Jeremíahópnum á okkar tímum? (b) Á hvað ætlum við að líta í þessari grein?
5 Á síðari tímum hefur Jehóva í kærleika sínum látið mannkyni í té táknrænan varðmann til að vara það við dómum hans yfir þessum heimi. Þetta er hópur andasmurðra kristinna manna. Áratugum saman hefur þessi Jeremíahópur hvatt fólk til að gefa því gaum á hvaða tímum við lifum. (Jer. 6:17) Í Biblíunni kemur skýrt fram að Jehóva, tímavörðurinn mikli, sé ekki seinn á sér. Hann lætur dag sinn renna upp nákvæmlega á réttum tíma, og það gerist þegar enginn býst við því. — Sef. 3:8; Mark. 13:33; 2. Pét. 3:9, 10.
6 Allir þjónar Jehóva, bæði andasmurðir og félagar þeirra, vita að nýi heimurinn rennur upp innan tíðar. Þeir hafa því ekki mikinn tíma til stefnu til að boða dóma Jehóva. Það er áríðandi að þeir boði boðskap hans núna. Hvernig snertir það þig? Jesús gaf til kynna að allir þyrftu að taka afstöðu með ríki Guðs. Við skulum nú líta á þrennt sem hjálpaði Jeremía að vera vakandi fyrir því verkefni sem honum var falið og getur hjálpað okkur að gera slíkt hið sama.
Honum var annt um fólk
7. Lýstu hvernig umhyggja Jeremía var honum hvöt til að prédika þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
7 Af hvaða hvötum prédikaði Jeremía þrátt fyrir erfiðar aðstæður? Honum var annt um fólk. Hann vissi að sviksamir hirðar báru að miklu leyti sökina á erfiðleikum fólks. (Jer. 23:1, 2) Þessi vitneskja hjálpaði honum að sinna verki sínu af kærleika og umhyggju. Honum var annt um að samlandar sínir heyrðu orð Guðs og héldu lífi. Svo umhugað var honum um heill þeirra að hann grét vegna ógæfunnar sem átti eftir að henda þá. (Lestu Jeremía 8:21, 23.) Harmljóðin bera því glöggt vitni hve annt Jeremía var um nafn Jehóva og þjóð hans. (Harmlj. 4:6, 9) Langar þig ekki til að hughreysta fólk með fagnaðarerindinu um ríki Guðs þegar þú horfir upp á hvernig það er ,hrjáð og umkomulaust eins og sauðir er engan hirði hafa‘? — Matt. 9:36.
8. Á hverju má sjá að Jeremía varð ekki bitur þegar hann þjáðist?
8 Jeremía mátti þola harðræði af hendi þeirra sem hann vildi hjálpa. Hann varð þó hvorki bitur né reyndi að hefna sín. Hann var góðviljaður og langlyndur, meira að segja við Sedekía konung þó spilltur væri. Eftir að Sedekía féllst á að Jeremía yrði líflátinn hvatti spámaðurinn hann einlæglega til að hlýða Jehóva. (Jer. 38:4, 5, 19, 20) Er okkur svona annt um fólk?
Guð gaf honum hugrekki
9. Hvernig vitum við að hugrekki Jeremía var Jehóva að þakka?
9 Jeremía færðist undan í fyrstu þegar Jehóva talaði við hann. Það er því ljóst að hugrekkið og festan, sem hann sýndi eftir það, var honum ekki meðfædd. Óvenjulegur styrkur hans meðan hann var spámaður stafaði af því að hann reiddi sig á Guð í einu og öllu. Jehóva var með spámanninum eins og „voldug hetja“ á þann hátt að hann studdi hann og gaf honum styrk til að gera verkefni sínu skil. (Jer. 20:11) Slík var dirfska og hugrekki Jeremía að sumir héldu á sínum tíma að Jesús væri Jeremía endurfæddur. — Matt. 16:13, 14.
10. Í hvaða skilningi hafa hinir andasmurðu „vald yfir þjóðum og ríkjum“?
10 Jehóva, „konungur þjóðanna“, fól Jeremía að flytja ríkjum og þjóðum dómsboðskap. (Jer. 10:6, 7) En í hvaða skilningi hafa hinir andasmurðu „vald yfir þjóðum og ríkjum“? (Jer. 1:10) Jeremíahópurinn hefur, líkt og spámaðurinn, fengið verkefni frá Drottni alheims. Andasmurðir þjónar Guðs hafa því fullt umboð frá hinum hæsta Guði til að flytja dóma um allan heim yfir ríkjum og þjóðum. Þeir nota skýrt orðfæri Biblíunnar til að lýsa yfir að þjóðir og ríki verði upprætt og þeim eytt á tilsettum tíma Guðs og á þann hátt sem hann ákveður. (Jer. 18:7-10; Opinb. 11:18) Jeremíahópurinn er staðráðinn í að hvika í engu heldur halda áfram að boða dóma Jehóva um alla jörðina.
11. Hvernig getum við haldið áfram að prédika þegar á móti blæs?
11 Það er ekki óeðlilegt að verða stundum niðurdreginn þegar fólk er andsnúið eða áhugalaust eða þegar lífið er erfitt. (2. Kor. 1:8) En við skulum halda áfram eins og Jeremía gerði. Missum ekki kjarkinn. Áköllum Guð, reiðum okkur á hann og viðhöldum djörfung okkar með hjálp hans. (1. Þess. 2:2) Við verðum að rækja vel þær skyldur sem Guð hefur falið okkur. Við þurfum að vera ákveðin í að halda áfram að boða að kristna heiminum verði eytt en hin ótrúa borg Jerúsalem fyrirmyndaði hann. Jeremíahópurinn boðar ekki aðeins „náðarár Drottins“ heldur líka „hefndardag Guðs vors“. — Jes. 61:1, 2; 2. Kor. 6:2.
Innileg gleði
12. Af hverju getum við ályktað að Jeremía hafi haldið gleði sinni og hvað hafði mikil áhrif á það?
12 Jeremía hafði ánægju af starfi sínu. Hann sagði við Jehóva: „Þegar orð þín komu gleypti ég þau, orð þín urðu gleði mín. Hjarta mitt fagnaði því að ég er kenndur við þig, Drottinn, Guð hersveitanna.“ (Jer. 15:16) Það var mikill heiður fyrir Jeremía að vera fulltrúi hins sanna Guðs og boða orð hans. Það er athyglisvert að Jeremía missti gleðina þegar hann hugsaði of mikið um háðsglósur fólksins. Hann endurheimti hins vegar gleði sína þegar hann einbeitti sér að mikilvægi boðskaparins og fegurð hans. — Jer. 20:8, 9.
13. Af hverju er mikilvægt að næra okkur með því að kafa djúpt í orð Guðs?
13 Við þurfum að nærast á ,fastri fæðu‘ til að viðhalda gleðinni í boðunarstarfinu. (Hebr. 5:14) Þar er átt við djúptæk biblíuleg sannindi. Við byggjum upp trú með því að kafa djúpt í orð Guðs. (Kól. 2:6, 7) Þá skiljum við betur hvernig við getum glatt hjarta Jehóva með verkum okkar. Ef við eigum erfitt með að finna tíma til að lesa og hugleiða orð Biblíunnar ættum við að endurskoða hvernig við notum tímann. Þótt við notum ekki nema fáeinar mínútur á dag til náms og hugleiðingar styrkjum við tengslin við Jehóva og stuðlum að ,gleði og fögnuði hjartans‘ eins og Jeremía gerði.
14, 15. (a) Hvaða ávöxt bar dyggilegt starf Jeremía? (b) Hverju gerum við okkur grein fyrir varðandi boðunarstarfið?
14 Jeremía hélt ótrauður áfram að boða viðvaranir og dóma Jehóva en missti aldrei sjónar á því verkefni sínu að „byggja upp og gróðursetja“. (Jer. 1:10) Þetta starf hans bar ávöxt. Sumir Gyðingar og útlendingar komust lífs af þegar Jerúsalem var eydd árið 607 f.Kr. Við vitum af Ebed Melek, Rekabítunum og Barúk. (Jer. 35:19; 39:15-18; 43:5-7) Það má líkja þessum trúu og guðhræddu vinum Jeremía við þá sem eiga von um að lifa á jörð og vingast við Jeremíahópinn. Hinir andasmurðu hafa óblandna ánægju af því að byggja upp trú þeirra sem tilheyra ,múginum mikla‘. (Opinb. 7:9) Dyggir félagar hinna andasmurðu hafa sömuleiðis mikla ánægju af því að hjálpa hjartahreinu fólki að kynnast sannleikanum.
15 Þjónar Guðs vita að boðun fagnaðarerindisins er ekki aðeins þjónusta við þá sem heyra heldur einnig þáttur í tilbeiðslu okkar á Guði. Hvort sem fólk er móttækilegt eða ekki höfum við mikla ánægju af því að veita Jehóva heilaga þjónustu með því að boða trúna. — Sálm. 71:23; lestu Rómverjabréfið 1:9.
Vertu vakandi fyrir verkinu sem þér er falið
16, 17. Hvernig kemur fram í Opinberunarbókinni 17:10 og Habakkuk 2:3 að tíminn er orðinn naumur?
16 Hinn innblásni spádómur í Opinberunarbókinni 17:10 varpar skýru ljósi á hvar við stöndum í tímans rás. Sjöundi konungurinn, ensk-ameríska heimsveldið, er kominn fram á sjónarsviðið. Við lesum um hann: „Er hann [sjöundi konungurinn] kemur á hann að vera stutt.“ Þar sem þetta heimsveldi á að „vera stutt“ hlýtur tíminn að vera að renna út. Habakkuk spámaður hvetur okkur til að vera eftirvæntingarfull og segir um endalok þessa illa heims: „Spáð er fyrir um ákveðinn tíma . . . þetta rætist vissulega og án tafar.“ — Hab. 2:3.
17 Spyrðu þig: Lifi ég í samræmi við þá staðreynd að tíminn er orðinn naumur? Sýni ég að ég vænti þess að endirinn sé nærri? Eða gefa ákvarðanir mínar og áherslur í lífinu til kynna að ég búist ekki við endinum á næstunni eða jafnvel að ég efist um að hann komi nokkurn tíma?
18, 19. Af hverju megum við ekki slá slöku við?
18 Starfi hins táknræna varðmanns er ekki lokið. (Lestu Jeremía 1:17-19.) Það er mikið fagnaðarefni að þeir sem eru eftir af hinum andasmurðu skuli vera jafn óhagganlegir og ,járnsúla‘ og ,víggirt borg‘. Þeir eru ,gyrtir sannleika um lendar sér‘ af því að þeir sækja styrk og kraft í orð Guðs til að ljúka verkinu sem þeim er falið. (Ef. 6:14) Þeir sem mynda múginn mikla eru jafn einbeittir, og þeir styðja Jeremíahópinn með ráðum og dáð og hjálpa honum að vinna verkið sem Guð hefur falið honum.
19 Við megum ekki slá slöku við í þjónustunni við Jehóva heldur skulum við hugleiða það sem stendur í Jeremía 12:5. (Lestu.) Við þurfum öll að standast ýmsar prófraunir. Það má líkja þeim við „fótgangandi menn“ sem við þurfum að hlaupa með. Eftir því sem nær dregur ,þrengingunni miklu‘ má búast við að erfiðleikarnir magnist. (Matt. 24:21) Þegar það gerist er eins og við séum að „keppa við hesta“. Það þarf mikið úthald til að hlaupa á við hest á harðastökki. Það er því gott að vera úthaldsgóð í þeim prófraunum sem við verðum fyrir núna. Þannig getum við búið okkur undir prófraunirnar fram undan.
20. Hvað ætlar þú að gera?
20 Við getum öll líkt eftir Jeremía og leyst samviskusamlega af hendi það verkefni að prédika. Jeremía var umhyggjusamur, hugrakkur og varðveitti gleði sína, og það hjálpaði honum að sinna starfi sínu dyggilega í 67 ár. Blóm möndlutrésins minna okkur á að Jehóva ,vakir yfir því að orði hans verði framfylgt‘. Við höfum ærna ástæðu til að líkja eftir honum. Jeremía hélt vöku sinni og við getum það líka.
Manstu?
• Hvernig var kærleikur Jeremía honum hvatning til að vera vakandi fyrir verkinu sem Jehóva fól honum?
• Af hverju þurfum við að reiða okkur á Guð til að vera hugrökk?
• Hvernig gat Jeremía viðhaldið gleði sinni?
• Af hverju vilt þú halda vöku þinni?
[Myndir á bls. 31]
Ætlarðu að halda áfram að prédika þrátt fyrir andstöðu?