Treystu á Jehóva er endirinn nálgast
„Treystið Drottni um aldur og ævi.“ — JES. 26:4.
1. Að hvaða leyti eru þjónar Guðs í annarri aðstöðu en umheimurinn?
TÍÐ vonbrigði gera að verkum að milljónir manna vita ekki lengur hverjum eða hverju er hægt að treysta. Þjónar Jehóva eru í harla ólíkri aðstöðu. Þeir hafa visku Guðs að leiðarljósi og vita að þeir eiga ekki að setja traust sitt á heiminn eða ,tignarmenn‘ hans. (Sálm. 146:3) Þeir leggja líf sitt og framtíð í hendur Jehóva, vitandi að hann elskar þá og stendur alltaf við orð sín. — Rómv. 3:4; 8:38, 39.
2. Hvernig vitnaði Jósúa um að Jehóva væri traustsins verður?
2 Jósúa vitnaði forðum daga um að Jehóva væri traustsins verður. Skömmu áður en hann dó sagði hann við Ísraelsmenn: „Þið skuluð játa af öllu hjarta og allri sálu að ekkert fyrirheitanna sem voru ykkur í hag og Drottinn, Guð ykkar, gaf ykkur er óefnt, öll hafa þau ræst.“ — Jós. 23:14.
3. Hvað segir nafn Guðs okkur um hann?
3 Jehóva stendur við fyrirheit sín, ekki aðeins vegna þess að hann elskar þjóna sína heldur öðru fremur vegna nafns síns. (2. Mós. 3:14; 1. Sam. 12:22) Í inngangi biblíuþýðingarinnar The Emphasized Bible segir J. B. Rotherham um nafn Guðs: „[Það] er háleitt loforð um að Guð geti lagað sig að hvaða aðstæðum sem er, hvaða erfiðleikum og hvaða nauðsyn sem upp kemur . . . [Það er] fyrirheit . . . opinberun, áminning og hátíðlegt loforð. Guð verður alltaf trúr þessu nafni og fyrirverður sig aldrei fyrir það.“
4. (a) Hvað erum við hvött til að gera í Jesaja 26:4? (b) Um hvað er fjallað í þessari grein?
4 Það er gott að spyrja sig hvort maður þekki Jehóva nógu vel til að treysta honum skilyrðislaust. Horfirðu vonglaður fram veginn, vitandi að Jehóva er voldugastur allra? Í Jesaja 26:4 segir: „Treystið Drottni um aldur og ævi því að Drottinn er eilíft bjarg.“ Jehóva vinnur að vísu ekki kraftaverk núna í þágu fólks eins og hann gerði stundum á biblíutímanum. Hann er engu að síður „eilíft bjarg“ og við getum treyst honum „um aldur og ævi“. Hvernig hjálpar Guð trúum dýrkendum sínum nú á tímum? Lítum á þrennt: Hann styrkir okkur þegar við leitum hjálpar hans til að standast freistingar, hann styður okkur þegar við eigum í höggi við áhugaleysi eða beina andstöðu, og hann uppörvar okkur þegar áhyggjur íþyngja okkur. Hugleiddu jafnframt hvernig þú getir borið enn meira traust til Jehóva.
Treystu á Guð þegar þú verður fyrir freistingum
5. Á hvaða sviði getur reynt sérstaklega á að við treystum Guði?
5 Það er eitt að treysta á fyrirheit Jehóva um paradís eða upprisuna sem við þráum svo heitt. Það getur verið öllu erfiðara að treysta á hann þegar siðferðismál eru annars vegar, að vera algerlega sannfærð um að það sé alltaf farsælast fyrir okkur að fylgja ráðum hans og meginreglum. Salómon konungur skrifaði: „Treystu Drottni af öllu hjarta en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Minnstu hans á öllum vegum þínum, þá mun hann gera leiðir þínar greiðar.“ (Orðskv. 3:5, 6) Taktu eftir að minnst er á ,vegi okkar og leiðir‘. Líf okkar í heild, ekki aðeins vonin sem við berum í brjósti, ætti að endurspegla að við treystum Guði. Hvernig getum við sýnt þetta traust þegar við verðum fyrir freistingum?
6. Hvernig getum við barist af einbeitni gegn röngum hugsunum?
6 Við þurfum að hafa stjórn á huga okkar til að forðast hið illa. (Lestu Rómverjabréfið 8:5; Efesusbréfið 2:3.) Hvað geturðu gert til að berjast af einbeitni gegn röngum hugsunum? Lítum á fimm leiðir: 1. Leitaðu hjálpar Guðs í bæn. (Matt. 6:9, 13) 2. Hugleiddu frásögur í Biblíunni af fólki sem hlustaði á Jehóva og fólki sem gerði það ekki. Veittu síðan athygli hvernig fór fyrir því.a (1. Kor. 10:8-11) 3. Íhugaðu þá hugarkvöl sem þú getur valdið sjálfum þér og ástvinum þínum með því að syndga. 4. Hugleiddu hvernig Guði hlýtur að vera innanbrjósts þegar einhver af þjónum hans syndgar alvarlega. (Lestu Sálm 78:40, 41.) 5. Hugsaðu þér hvað það gleður hjarta Jehóva að sjá dyggan þjón sinn hafna hinu illa og gera hið rétta, hvort heldur það er leynt eða ljóst. (Sálm. 15:1, 2; Orðskv. 27:11) Þú getur einnig sýnt að þú treystir á Jehóva.
Treystu á Guð þegar fólk er áhugalaust eða andsnúið
7. Hvernig reyndi á Jeremía og hvernig leið honum stundum?
7 Mörg trúsystkini okkar boða trúna á svæðum þar sem reynir verulega á úthaldið. Jeremía spámaður starfaði í róstusömu umhverfi. Það var í Júdaríkinu skömmu áður en það leið undir lok. Það reyndi á trú hans á hverjum degi vegna þess að hann hlýddi Guði og boðaði dóma hans. Einu sinni kvaðst jafnvel Barúk, dyggur ritari hans, vera orðinn örmagna. (Jer. 45:2, 3) Missti Jeremía móðinn? Stundum var hann reyndar langt niðri. „Bölvaður sé dagurinn þegar ég fæddist,“ stundi hann einu sinni. „Hvers vegna þurfti ég að koma úr skauti móður minnar til þess að sjá mæðu og andstreymi og enda ævidaga mína í smán?“ — Jer. 20:14, 15, 18.
8, 9. Hvað þurfum við að gera til að halda áfram að bera góðan ávöxt, samanber Jeremía 17:7, 8 og Sálm 1:1-3?
8 En Jeremía gafst ekki upp. Hann hélt áfram að treysta á Jehóva. Þar af leiðandi sá þessi trúi spámaður orð Jehóva rætast sem skráð eru í Jeremía 17:7, 8: „Blessaður er sá maður sem treystir Drottni, Drottinn er athvarf hans. Hann er sem tré, gróðursett við vatn og teygir rætur sínar að læknum, það óttast ekki að sumarhitinn komi því að lauf þess er sígrænt. Það er áhyggjulaust í þurru árferði, ber ávöxt án afláts.“
9 Jeremía hætti aldrei að ,bera ávöxt‘. Hann var eins og gróskumikið ávaxtatré „gróðursett við vatn“ eða í aldingarði með áveitu. Þótt óguðlegir menn hæddust að honum lét hann þá ekki hafa áhrif á sig. Hann fór í einu og öllu eftir því sem Jehóva sagði honum. Þannig hélt hann sig við þá uppsprettu ,vatns‘ sem viðhélt lífi hans. (Lestu Sálm 1:1-3; Jer. 20:9) Jeremía er okkur prýðileg fyrirmynd, einkum þeim okkar sem þjóna Guði á erfiðum starfssvæðum. Ef það á við um þig skaltu halda áfram að reiða þig á Jehóva því að hann gefur þér úthald til að „játa nafn hans“. — Hebr. 13:15.
10. Hvað hefur Jehóva gefið okkur og hvaða spurningar ættum við að spyrja okkur?
10 Jehóva hefur gefið okkur margt til að hjálpa okkur að takast á við þá erfiðleika sem við verðum fyrir núna á síðustu dögum. Meðal annars hefur hann gefið okkur orð sitt í heild, og verið er að þýða það af nákvæmni á sífellt fleiri tungumál. Hann hefur látið hinn trúa og hyggna þjón sjá okkur fyrir tímabærri andlegri fæðu í ríkum mæli. Og hann hefur séð okkur fyrir stuðningi og félagsskap trúsystkina sem við hittum stórum hópum á samkomum og mótum. Nýtirðu þér allt þetta eftir bestu getu? Allir sem gera það „hrópa af glöðu hjarta“. Þeir sem hlusta ekki á Guð munu hins vegar „kveina af kvöldu hjarta og hljóða af angist“. — Jes. 65:13, 14.
Treystu á Guð í glímunni við áhyggjur
11, 12. Hvað er viturlegt að gera í ljósi þeirra vandamála sem hrjá heiminn?
11 Flóðbylgja vandamála gengur yfir mannkynið rétt eins og spáð var. (Matt. 24:6-8; Opinb. 12:12) Þegar bókstafleg flóð verða er algengt að fólk forði sér þangað sem land stendur hærra eða klifri upp á húsþök. Erfiðleikar mannkyns magnast og milljónir manna leita hælis hjá stofnunum sem virðast standa upp úr, svo sem fjármála-, stjórnmála- eða trúarstofnunum, eða leita á náðir tækni og vísinda. En ekkert af þessu býður upp á raunverulegt öryggi. (Jer. 17:5, 6) Þjónar Jehóva eiga sér hins vegar öruggt athvarf hjá honum því að hann er „eilíft bjarg“. (Jes. 26:4) Sálmaskáldið kallaði Jehóva,öruggan klett sinn og athvarf‘. (Lestu Sálm 62:7-10.) Hvernig gerum við þennan örugga klett að athvarfi okkar?
12 Við höldum okkur fast við Jehóva þegar við förum eftir orði hans en það stingur oft í stúf við visku mannanna. (Sálm. 73:23, 24) Þegar fólk lætur mannlega visku ráða ferðinni segir það kannski: Þú átt bara eitt líf, njóttu þess. Komdu þér áfram í lífinu. Aflaðu þér peninga. Kauptu þetta, kauptu hitt. Ferðastu og skoðaðu heiminn. Viska Guðs er á hinn bóginn á þessa lund: „Þau sem njóta heimsins gæða [skulu vera] eins og þau færðu sér þau ekki í nyt. Því að heimurinn í núverandi mynd líður undir lok.“ (1. Kor. 7:31) Jesús hvetur okkur sömuleiðis til að láta tilbeiðsluna á Jehóva alltaf ganga fyrir öðru. Þannig söfnum við okkur „fjársjóðum á himni“ þar sem þeir eru algerlega öruggir. — Matt. 6:19, 20.
13. Hvaða spurninga ættum við að spyrja okkur með hliðsjón af 1. Jóhannesarbréfi 2:15-17?
13 Endurspeglar afstaða þín til ,heimsins og þess sem í heiminum er‘ að þú treystir Guði í einu og öllu? (1. Jóh. 2:15-17) Finnst þér mikilvægara að safna andlegum fjársjóðum og gera meira í þjónustu Jehóva en að sækjast eftir því sem heimurinn hefur upp á að bjóða? (Fil. 3:8) Leggurðu þig fram um að halda ,auganu heilu‘? (Matt. 6:22) Jehóva vill auðvitað ekki að þú gerir eitthvað vanhugsað eða sýnir ábyrgðarleysi, sérstaklega ef þú átt fyrir fjölskyldu að sjá. (1. Tím. 5:8) Hann ætlast hins vegar til þess að þjónar hans treysti á hann — en ekki deyjandi heim Satans. — Hebr. 13:5.
14-16. Nefndu dæmi sem sýna hvaða blessun fylgir því að ,halda auga sínu heilu‘ og láta þjónustuna við Jehóva ganga fyrir.
14 Richard og Ruth eiga þrjú ung börn. „Ég vissi að ég gæti gert meira fyrir Jehóva,“ segir Richard. „Ég lifði þægilegu lífi en mér fannst eins og ég gæfi Guði bara afganginn, ef svo má að orði komast. Eftir að hafa rætt málið við Jehóva í bæn og reiknað dæmið til enda vorum við Ruth sammála um að ég myndi spyrja yfirmanninn hvort ég mætti minnka vinnuna niður í fjóra daga í viku, þrátt fyrir að það væri efnahagskreppa í landinu. Það var samþykkt og tæplega mánuði seinna fór ég að vinna styttri vinnuviku.“ Hvernig er Richard innanbrjósts núna?
15 „Launin hjá mér lækkuðu um 20 prósent,“ segir hann, „en á móti kemur að ég hef 50 daga aukalega á ári til að vera með fjölskyldunni og ala upp börnin. Ég nota helmingi meiri tíma í boðunarstarfið, er með þrefalt fleiri biblíunámskeið og tek meiri forystu í söfnuðinum. Og þar sem ég hef meiri tíma til að sinna börnunum hefur Ruth getað verið aðstoðarbrautryðjandi af og til. Ég er staðráðinn í að halda þessum takti eins lengi og hægt er.“
16 Roy og Petina gátu minnkað við sig vinnu og gerst brautryðjendur þó að dóttir þeirra byggi enn heima. „Ég vinn þrjá daga í viku,“ segir Roy, „og Petina vinnur tvo. Við fluttum úr einbýlishúsi í íbúð sem er miklu auðveldara að halda við. Við vorum brautryðjendur áður en við eignuðumst börnin okkar tvö og löngunin til að vera brautryðjendur var alltaf til staðar. Þegar börnin voru orðin stór gerðumst við brautryðjendur á nýjan leik. Allir peningar í heimi jafnast ekki á við blessunina sem við höfum hlotið.“
Láttu ,frið Guðs‘ varðveita hjarta þitt
17. Hvernig hefur Biblían verið þér til hughreystingar þrátt fyrir óvissuna í lífinu?
17 Enginn veit hvað morgundagurinn ber í skauti sér því að „tími og tilviljun“ hittir okkur öll fyrir. (Préd. 9:11) En óvissan um morgundaginn þarf ekki að spilla hugarfriði okkar í dag eins og algengt er hjá þeim sem búa ekki við það öryggi að eiga náið samband við Guð. (Matt. 6:34) Páll postuli skrifaði: „Verið ekki hugsjúk um neitt heldur gerið í öllum hlutum óskir ykkar kunnar Guði með bæn og beiðni og þakkargjörð. Og friður Guðs, sem er æðri öllum skilningi, mun varðveita hjörtu ykkar og hugsanir ykkar.“ — Fil. 4:6, 7.
18, 19. Hvernig hughreystir Jehóva okkur? Lýstu með dæmi.
18 Fjöldi bræðra og systra hefur fundið fyrir innri friði og ró þegar reynt hefur verulega á. Systir segir: „Skurðlæknir reyndi ítrekað að fá mig að þiggja blóðgjöf. ,Hvaða vitleysa er þetta með að þiggja ekki blóð?‘ spurði hann með þjósti í eitt af fyrstu skiptunum sem við hittumst. Ég bað til Jehóva í hljóði eins og oftar og friður hans kom yfir mig. Ég var eins og klettur. Þó að blóðgildin væru lág og ég væri veikburða tókst mér að færa skýr biblíuleg rök fyrir afstöðu minni.“
19 Jehóva Guð getur stutt okkur þegar á þarf að halda með því að láta trúsystkini hughreysta okkur eða gefa okkur andlega fæðu á réttum tíma. Þú hefur sennilega heyrt bróður eða systur segja: „Þessi grein var einmitt það sem ég þarfnaðist. Hún var skrifuð handa mér.“ Jehóva sýnir okkur kærleika sinn ef við treystum honum og gildir þá einu hverjar þarfir okkar eða aðstæður eru. Þegar allt kemur til alls erum við „gæsluhjörð“ hans og fáum að bera nafn hans. — Sálm. 100:3; Jóh. 10:16; Post. 15:14, 17.
20. Af hverju munu þjónar Jehóva vera óhultir þegar heimur Satans líður undir lok?
20 Allt sem heimur Satans treystir á hrynur eins og spilaborg á „reiðidegi Drottins“ sem nálgast óðfluga. Hvorki gull, silfur né önnur verðmæti veita þá nokkurt öryggi eða skjól. (Sef. 1:18; Orðskv. 11:4) Eina athvarfið, sem við höfum, er Jehóva, hið ,eilífa bjarg‘. (Jes. 26:4) Við skulum því sýna að við treystum í hvívetna á Jehóva með því að hlýða honum og ganga réttláta vegi hans. Við skulum boða ríki hans þrátt fyrir áhugaleysi eða andstöðu fólks og varpa öllum áhyggjum okkar á hann. Ef við gerum það munum við ,búa óhult og örugg og engri ógæfu kvíða‘. — Orðskv. 1:33.
[Neðanmáls]
a Sjá bókina „Látið kærleika Guðs varðveita ykkur“, bls. 102-106.
Geturðu svarað?
Hvernig getum við treyst á Guð
• þegar við verðum fyrir freistingum?
• þegar fólk er áhugalaust eða andsnúið?
• í glímunni við áhyggjur?
[Mynd á bls. 13]
Það er okkur til gæfu að fylgja meginreglum Guðs.
[Mynd á bls. 15]
Jehóva er „eilíft bjarg“.