Þú hefur ástæðu til að fagna
SKÖPUNIN ber vott um skipulag og reglufestu allt frá smæstu frumu upp í víðáttumiklar vetrarbrautir, sem saman mynda þyrpingar og loks reginþyrpingar. Það kemur heldur ekki á óvart því að skaparinn er ,ekki Guð truflunar‘ eða óreiðu. (1. Kor. 14:33) Tilbeiðslufyrirkomulag Guðs er líka stórfenglegt. Hugsaðu um það sem Jehóva hefur gert. Hann hefur safnað saman skynsemigæddum verum, sem hafa frjálsan vilja, í einn alheimssöfnuð. Bæði englar og menn í hundruð milljónatali eru sameinaðir á stórkostlegan hátt í sannri tilbeiðslu.
Jerúsalem fyrirmyndaði jarðneskan hluta alheimssafnaðar Guðs í Ísrael til forna. Þar var musteri Guðs staðsett og þar hafði smurður konungur hans aðsetur. Ísraelskur fangi í Babýlon lýsti tilfinningum sínum til borgarinnar helgu á svohljóðandi hátt: „Tungan loði mér við góm hugsi ég ekki til þín, ef Jerúsalem er eigi allra besta yndið mitt.“ — Sálm. 137:6.
Berð þú sama hug til alheimssafnaðar Guðs? Veitir hann þér meiri gleði en nokkuð annað? Þekkja börnin þín sögu hins jarðneska hluta alheimssafnaðar Guðs og hlutverk hans? Eru þau þakklát fyrir að tilheyra alþjóðlegu bræðralagi votta Jehóva? (1. Pét. 2:17) Hvernig væri að prófa tillögurnar hér á eftir á biblíunámskvöldum fjölskyldunnar svo að þið lærið enn betur að meta alheimssöfnuð Jehóva?
Segið frá „löngu liðnum tímum“
Ísraelskar fjölskyldur söfnuðust árlega saman til að halda páska. Þegar hátíðin var innleidd sagði Móse við fólkið: „Ef sonur þinn spyr þig síðar og segir: Hvað merkir þetta? skaltu svara honum: Drottinn leiddi okkur með máttugri hendi út úr Egyptalandi, út úr þrælahúsinu.“ (2. Mós. 13:14) Samskipti Jehóva við Ísraelsþjóðina máttu ekki falla í gleymsku. Við getum verið viss um að margir feður í Ísrael fóru eftir þessu boði Móse. Mörgum kynslóðum síðar bar Ísraelsmaður fram eftirfarandi bæn: „Guð, með eigin eyrum höfum vér heyrt, feður vorir hafa sagt oss frá dáðum, sem þú drýgðir á dögum þeirra, á löngu liðnum tímum.“ — Sálm. 44:2.
Saga Votta Jehóva síðustu 100 árin eða svo getur líka hljómað eins og saga frá „löngu liðnum tímum“ í eyrum unga fólksins. Hvernig getur þú glætt þessa sögu lífi til að vekja áhuga barnanna? Sumir foreldrar nota bókina Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom og árbókina eða ævisögur, sem eru birtar í ritum okkar, eða einhverjar aðrar frásögur af sögu safnaðar Guðs, þar á meðal nýja mynddiskinn um þjóna Guðs á okkar tímum. Myndbönd, sem fjalla um ofsóknirnar á hendur trúsystkinum okkar í Sovétríkjunum og í Þýskalandi á dögum nasista, eru tilvalið efni fyrir biblíunámskvöld fjölskyldunnar. Af slíku efni geta fjölskyldur lært að treysta Jehóva á erfiðum tímum og það styrkir trú barnanna þegar reynir á ráðvendni þeirra.
Börn hafa ekki alltaf þolinmæði fyrir langa sögufyrirlestra. Fáðu þau til að vera þátttakendur. Þú getur til dæmis beðið þau um að velja land sem þeim finnst áhugavert og afla sér upplýsinga um sögu votta Jehóva í þessu landi og kynna síðan efnið fyrir fjölskyldunni. Kannski eru vottar í heimasöfnuði þínum sem hafa þjónað Guði af trúmennsku um langt árabil. Þú gætir boðið þeim að vera með ykkur í biblíunámi fjölskyldunnar eitt kvöld. Eitt barnanna gæti fengið það verkefni að biðja gestinn um að segja frá reynslu sinni í þjónustu Jehóva. Einnig mætti láta börnin teikna mynd af merkum áfanga í sögu safnaðarins svo sem alþjóðamóti, byggingu deildarskrifstofu eða notkun plötuspilara í boðunarstarfinu.
Þannig ,innir hver sína þjónustu af hendi‘
Páll postuli líkti kristna söfnuðinum við líkama. Kristur „tengir líkamann saman og heldur honum saman með því að láta sérhverja taug inna sína þjónustu af hendi, allt eftir þeim krafti sem hann úthlutar hverri þeirra. Þannig lætur hann líkamann vaxa og byggjast upp í kærleika“. (Ef. 4:16) Þegar við fræðumst um starfsemi mannslíkamans fyllumst við lotningu og þakklæti til skaparans. Á sama hátt getum við ekki annað en dáðst að því „hve margháttuð speki Guðs er“ þegar við fræðumst um starfsemi alheimssafnaðar hans. — Ef. 3:10.
Jehóva lýsir því hvernig alheimssöfnuður hans starfar, þar með talinn himneski hlutinn. Hann segir okkur til dæmis að hann hafi fyrst veitt Jesú Kristi opinberun, en Jesús „sendi engil sinn og lét hann kynna það Jóhannesi, þjóni sínum, sem bar [því] vitni“. (Opinb. 1:1, 2) Þar sem Guð opinberar hvernig ósýnilegur hluti alheimssafnaðarins starfar má þá ekki ætla að hann vilji að við skiljum hvernig hinir ýmsu hlutar safnaðar hans á jörðu „inna sína þjónustu af hendi“?
Þegar von er á að farandumsjónarmaðurinn heimsæki söfnuðinn mætti til dæmis rifja upp hlutverk og verkefni hans með fjölskyldunni. Hvernig hjálpa farandumsjónarmenn okkur, hverju og einu? Það mætti líka spyrja spurninga eins og: „Hvers vegna er mikilvægt að skila skýrslu um boðunarstarfið? Hvernig er söfnuður Guðs fjármagnaður? Hvernig starfar hið stjórnandi ráð og hvernig sér það okkur fyrir andlegri fæðu?“
Þegar við áttum okkur á því hvernig starfsemi þjóna Guðs er skipulögð nýtist það okkur að minnsta kosti á þrjá vegu. Við metum að verðleikum alla þá sem erfiða í okkar þágu. (1. Þess. 5:12, 13) Það örvar okkur til að fylgja þeirri leiðsögn sem við fáum. (Post. 16:4, 5) Og það leiðir til þess að við treystum þeim sem fara með forystuna betur, þar sem við vitum að allar ákvarðanir og ráðstafanir eru byggðar á biblíulegum grunni. — Hebr. 13:7.
„Virðið fyrir yður virkin“
„Gangið umhverfis Síon, gangið kringum hana, teljið turna hennar, skoðið borgarmúrana vandlega, virðið fyrir yður virkin svo að þér getið sagt komandi kynslóð.“ (Sálm. 48:13, 14) Með þessum orðum hvatti sálmaskáldið Ísraelsmenn til að virða Jerúsalem vel fyrir sér. Hugsaðu þér hvað ísraelskar fjölskyldur hafa átt dýrmætar minningar frá ferðum sínum til borgarinnar helgu. Þar hélt fólkið árlegar hátíðir, sá musterið glæsilega og hlýtur að hafa langað til að segja „komandi kynslóðum“ frá þessu öllu.
Drottningin af Saba var í fyrstu vantrúuð á frásögurnar af frábærri stjórn Salómons og einstakri visku hans. En hvað sannfærði hana um að það sem hún hafði heyrt væri rétt? „Ekki trúði ég því sem sagt var,“ sagði hún, „fyrr en ég kom og kynntist því af eigin raun.“ (2. Kron. 9:6) Já, það sem við kynnumst „af eigin raun“ getur haft djúp áhrif á okkur.
Hvernig getur þú hjálpað börnunum að kynnast „af eigin raun“ hve stórkostlegur alheimssöfnuður Jehóva er? Ef Vottar Jehóva eru með deildarskrifstofu á þínum slóðum skaltu reyna að fara þangað í heimsókn. Þegar Mandy og Bethany voru að alast upp bjuggu þær í um 1.500 km fjarlægð frá Betelheimilinu í heimalandi sínu. Samt sem áður fór fjölskyldan oft að heimsækja Betel, einkum þegar dæturnar voru að vaxa úr grasi. Þær sögðu: „Áður en við fórum þangað héldum við að Betel væri bara fyrir eldra fólk og að þar væri allt frekar stíft og formlegt. En við hittum ungt fólk sem vann hörðum höndum fyrir Jehóva og hafði ánægju af. Við sáum að söfnuður Jehóva var annað og meira en hópurinn á svæðinu þar sem við áttum heima. Og hver heimsókn á Betel færði okkur nær Jehóva og vakti hjá okkur löngun til að þjóna honum enn betur.“ Þegar Mandy og Bethany kynntust söfnuði Jehóva betur, varð það þeim hvatning til að hefja brautryðjandastarf og þeim var meira að segja boðið að starfa tímabundið sem sjálfboðaliðar á Betel.
Við getum kynnst söfnuði Jehóva af „eigin raun“ á annan hátt sem Ísraelsmenn til forna áttu ekki kost á. Þjónar Guðs hafa á undanförnum árum fengið myndbönd og mynddiska sem fjalla um söfnuð Guðs frá ýmsum hliðum, svo sem Jehovah’s Witnesses — Organized to Share the Good News, Our Whole Association of Brothers, To the Ends of the Earth og United by Divine Teaching. Þegar þið fjölskyldan sjáið allt það erfiði sem ýmsir leggja á sig, svo sem Betelstarfsfólk, sjálfboðaliðar við hjálparstörf, trúboðar og bræður sem undirbúa og skipuleggja mót, þá finnið þið örugglega fyrir djúpu þakklæti til safnaðar Guðs.
Hver einasti söfnuður gegnir mikilvægu hlutverki í boðun fagnaðarerindisins og veitir þjónum Guðs á hverjum stað stuðning. Þið fjölskyldan ættuð samt að gefa ykkur tíma saman til að hugsa um „bræður ykkar og systur um allan heim“. Það hjálpar ykkur fjölskyldunni að vera „stöðug í trúnni“ og sjá að þið hafið ástæðu til að fagna. — 1. Pét. 5:9.
[Rammi/mynd á bls. 18]
Söfnuður Guðs Áhugavert námsefni
Við höfum heilmikið af hjálpargögnum til að kynna okkur betur sögu og starfsemi safnaðar Jehóva. Eftirfarandi spurningar gætu hjálpað þér að hefjast handa:
☞ Hvernig hófst starf farandumsjónarmanna nútímans? — Varðturninn 1. mars 1997, bls. 8-12.
☞ Hvað var sérstakt við „barnadaginn“ á móti sem var haldið árið 1941? — Jehovah’s Witnesses — Proclaimers of God’s Kingdom, bls. 86, 88.
☞ Hvernig eru ákvarðanir teknar í hinu stjórnandi ráði? — Tilbiðjum hinn eina sanna Guð, bls. 131-132, Varðturninn 15. maí 2008, bls. 29.