Þriðji kafli
Reyndir en trúir Jehóva
1, 2. Hvaða mikilvægir atburðir voru undanfari frásögunnar sem Daníelsbók segir?
TJALDIÐ lyftist í spádómsbók Daníels á umbrotatíma í alþjóðamálum. Assýría er nýbúin að missa höfuðborgina Níníve. Egyptaland er valdalítið ríki suður af Júdeu. Og Babýlon er á hraðri uppleið sem voldugasta ríkið í baráttunni um heimsyfirráðin.
2 Árið 625 f.o.t. gerir Nekó, faraó Egyptalands, úrslitatilraun til að stöðva framrás Babýlonar til suðurs. Hann fer með her sinn til Karkemis við ofanverða Efrat. Orustan um Karkemis, eins og hún er kölluð, er sögufræg úrslitaorusta. Herlið Nekós faraós bíður afhroð fyrir babýlonska hernum sem Nebúkadnesar krónprins stýrir. (Jeremía 46:2) Nebúkadnesar notfærir sér þann meðbyr sem fylgir sigrinum, geysist yfir Sýrland og Palestínu og bindur að segja má enda á yfirráð Egypta á svæðinu. Hann gerir ekki hlé á herför sinni fyrr en Nabópólassar faðir hans deyr.
3. Hvernig lauk fyrstu herför Nebúkadnesars til Jerúsalem?
3 Árið eftir herjar Nebúkadnesar á Sýrland og Palestínu á nýjan leik og er nú krýndur konungur Babýlonar. Það er þá sem hann kemur til Jerúsalem í fyrsta sinn. Biblían greinir svo frá: „Á hans dögum fór Nebúkadnesar konungur í Babýlon herför þangað, og varð Jójakím honum lýðskyldur í þrjú ár. Síðan brá hann trúnaði við hann.“ — 2. Konungabók 24:1.
NEBÚKADNESAR Í JERÚSALEM
4. Hvernig ber að skilja orðin „á þriðja ríkisári Jójakíms konungs“ í Daníel 1:1?
4 Orðin „í þrjú ár“ vekja sérstakan áhuga okkar því að inngangsorð Daníelsbókar hljóða svo: „Á þriðja ríkisári Jójakíms konungs í Júda kom Nebúkadnesar konungur í Babýlon til Jerúsalem og settist um hana.“ (Daníel 1:1) Sé miðað við alla stjórnartíð Jójakíms frá 628 til 618 f.o.t. var Nebúkadnesar ekki orðinn „konungur í Babýlon“ á þriðja ríkisári hans heldur var hann krónprins á þeim tíma. Hann þvingaði Jójakím til að greiða sér skatt árið 620 f.o.t. En eftir um það bil þrjú ár gerði Jójakím uppreisn. Það var því árið 618 f.o.t., þriðja árið sem Jójakím var lénskonungur Babýlonar, að Nebúkadnesar konungur kom til Jerúsalem öðru sinni til að refsa hinum uppreisnargjarna konungi.
5. Hvernig lyktaði annarri herför Nebúkadnesars til Jerúsalem?
5 Umsátrið endaði þannig að Jehóva „gaf Jójakím Júdakonung á vald hans og nokkuð af áhöldum Guðs húss.“ (Daníel 1:2) Jójakím lét sennilega lífið, var annaðhvort myrtur eða féll í uppreisn snemma í umsátrinu. (Jeremía 22:18, 19) Árið 618 f.o.t. tók 18 ára sonur hans, Jójakín að nafni, við konungdómi. En Jójakín ríkti aðeins í þrjá mánuði og tíu daga og gafst upp árið 617 f.o.t. — Samanber 2. Konungabók 24:10-15.
6. Hvað gerði Nebúkadnesar við hin helgu áhöld musterisins í Jerúsalem?
6 Nebúkadnesar tók hin helgu áhöld musterisins í Jerúsalem að herfangi og „flutti þau til Sínearlands í musteri guðs síns, og áhöldin flutti hann í fjárhirslu guðs síns,“ Mardúks. (Daníel 1:2; Jeremía 50:2) Fundist hefur babýlonsk áletrun þar sem Nebúkadnesar er látinn segja um musteri Mardúks: „Ég geymdi þar inni silfur og gull og dýra steina . . . og hafði þar fjárhirslu ríkis míns.“ Við lesum aftur um þessi helgu áhöld á dögum Belsasars konungs. — Daníel 5:1-4.
UNGMENNI HELDRA FÓLKSINS Í JERÚSALEM
7, 8. Hvað má ráða um uppruna Daníels og félaga hans þriggja af Daníel 1:3, 4 og 6?
7 Það var fleira flutt til Babýlonar en fjársjóðir musteris Jehóva. Frásagan segir: „Og konungur bauð Aspenasi hirðstjóra að velja meðal Ísraelsmanna, bæði af konungsættinni og af höfðingjunum, sveina nokkra, er engin líkamslýti hefðu og væru fríðir sýnum, vel að sér í hvers konar vísindum, fróðir og vel viti bornir og hæfir til að þjóna í konungshöllinni.“ — Daníel 1:3, 4.
8 Hverjir voru valdir? Okkur er sagt: „Meðal þeirra voru af Júdamönnum þeir Daníel, Hananja, Mísael og Asarja.“ (Daníel 1:6) Hér er varpað nokkru ljósi á uppruna Daníels og félaga hans sem er að öðru leyti á huldu. Til dæmis sjáum við að þeir voru ‚Júdamenn,‘ það er að segja af konungsættkvíslinni Júda. Hvort þeir voru beinlínis konungsættar er ekki vitað, en telja má víst að þeir hafi að minnsta kosti verið af tignar- og áhrifamönnum komnir. Þeir voru bæði heilbrigðir í huga og á líkama og voru vel að sér, fróðir og vel viti bornir — þótt þeir væru ekki eldri en svo að þeir voru kallaðir ‚sveinar,‘ hugsanlega lítt stálpaðir unglingar. Daníel og félagar hans hljóta að hafa borið af unglingum Jerúsalemborgar.
9. Af hverju má telja víst að Daníel og félagar hans hafi átt guðhrædda foreldra?
9 Frásagan segir ekki að öðru leyti hverra manna þessir unglingar voru. Víst mun þó að foreldrar þeirra hafi verið guðhræddir og hafi tekið foreldraábyrgð sína alvarlega. Sé tekið tillit til hinnar útbreiddu siðferðilegu og andlegu hnignunar í Jerúsalem á þeim tíma, einkum innan ‚konungs- og höfðingjaættanna,‘ er ljóst að afburðaeiginleikar Daníels og þriggja félaga hans voru engin tilviljun. Það hlýtur auðvitað að hafa verið átakanlegt fyrir foreldrana að sjá syni sína flutta til fjarlægs lands. En stoltir hefðu þeir orðið ef þeir hefðu vitað hvernig sonunum vegnaði. Það er geysilega mikilvægt að foreldrar ali börnin upp „með aga og umvöndun [Jehóva].“ — Efesusbréfið 6:4.
BARÁTTA UM HUGANN
10. Hvað var ungu Hebreunum kennt og í hvaða tilgangi?
10 Þegar í stað tók við barátta um huga þessara ungu útlaga. Til að tryggja að hebresku táningarnir mótuðust svo að þeir féllu vel inn í hið babýlonska kerfi fyrirskipaði Nebúkadnesar embættismönnum sínum að „kenna þeim bókmenntir og tungu Kaldea.“ (Daníel 1:4) Þetta var engin venjuleg menntun. Biblíualfræðibókin The International Standard Bible Encyclopedia segir að hún hafi „falið í sér nám í súmersku, akkadísku, arameísku . . . og fleiri tungumálum, auk náms í yfirgripsmiklum bókmenntum á þessum málum.“ Hinar ‚yfirgripsmiklu bókmenntir‘ voru saga, stærðfræði, stjörnufræði og margt fleira. En „tengdir trúartextar, bæði um stjörnuspár og fyrirboðafræði . . . , gegndu stóru hlutverki.“
11. Hvað var gert til að tryggja að hebresku unglingarnir samlöguðust lífinu við babýlonsku hirðina?
11 Til að hebresku unglingarnir tileinkuðu sér fullkomlega siði og menningu babýlonsku hirðarinnar ákvað konungur að þeir skyldu fá „daglegan skammt frá konungsborði og af víni því, er hann sjálfur drakk, og bauð að uppala þá í þrjú ár, og að þeim liðnum skyldu þeir þjóna frammi fyrir konunginum.“ (Daníel 1:5) Og „hirðstjórinn breytti nöfnum þeirra og kallaði Daníel Beltsasar, Hananja Sadrak, Mísael Mesak og Asarja Abed-Negó.“ (Daníel 1:7) Algengt var á biblíutímanum að gefa manni nýtt nafn til minnis um merkan viðburð á ævi hans. Til dæmis breytti Jehóva nöfnum Abrams og Saraí í Abraham og Söru. (1. Mósebók 17:5, 15, 16) Að maður breyti nafni annars manns er skýrt merki um vald hans eða yfirráð. Þegar Jósef varð matvælastjóri Egypta nefndi faraó hann Safenat-panea. — 1. Mósebók 41:44, 45; samanber 2. Konungabók 23:34; 24:17.
12, 13. Hvers vegna má segja að nafnabreyting ungu Hebreanna hafi verið tilraun til að spilla trú þeirra?
12 Nafnabreyting Daníels og þriggja félaga hans var umtalsverð. Nöfnin, sem foreldrarnir höfðu gefið þeim, samræmdust tilbeiðslunni á Jehóva. „Daníel“ merkir „Guð er dómari minn.“ Nafnið „Hananja“ merkir „Jehóva hefur sýnt velvild.“ „Mísael“ merkir hugsanlega „hver er líkur Guði?“ og „Asarja“ merkir „Jehóva hefur hjálpað.“ Eflaust hafa foreldrarnir átt þá von heitasta að synirnir yxu upp undir handleiðslu Jehóva Guðs og yrðu trúfastir og dyggir þjónar hans.
13 En nýju nöfnin, sem Hebreunum fjórum voru gefin, voru öll náskyld falsguðanöfnum, eins og til að minna á að hinn sanni Guð hefði lotið í lægra haldi fyrir þessum guðum. Þetta var lúmsk aðferð til að spilla trú piltanna.
14. Hvað merkja nöfnin sem Daníel og félögum hans voru gefin?
14 Nafni Daníels var breytt í Beltsasar sem merkir „verndaðu líf konungsins.“ Greinilega var þetta stytting á ákalli til Bels eða Mardúks, helsta guðs Babýlonar. Hvort sem Nebúkadnesar átti þátt í að velja þetta nafn á Daníel eða ekki viðurkenndi hann að minnsta kosti með stolti að það væri „eftir nafni guðs“ síns. (Daníel 4:8) Hananja var nefndur Sadrak sem sumir heimildarmenn telja samsett og merkja „fyrirskipun Aku,“ en Aku var reyndar nafn á súmerskum guði. Mísael var nefndur Mesak (hugsanlega Mishaaku) en það virðist vera snjöll afbökun úr „hver er líkur Guði?“ í „hver er slíkur sem Aku?“ Hið babýlonska nafn Asarja, Abed-Negó, merkir sennilega „þjónn Negós“ og Negó er afbrigði guðsnafnsins „Nebó“ sem margir babýlonskir valdhafar voru einnig nefndir eftir.
STAÐRÁÐNIR Í AÐ VERA TRÚIR JEHÓVA
15, 16. Hvaða hættur blöstu við Daníel og félögum hans og hvernig brugðust þeir við?
15 Babýlonsku nöfnin, menntunin og sérfæðið — allt var þetta tilraun til að láta Daníel og hina ungu Hebrea samlagast babýlonsku líferni og jafnframt að gera þá afhuga trúaruppeldi sínu, uppruna og Guði sínum Jehóva. Hvað gerðu ungu mennirnir andspænis öllu þessu álagi og freistingum?
16 Hin innblásna frásaga segir: „Daníel einsetti sér að saurga sig ekki á matnum frá konungsborði né á víni því, er konungur drakk.“ (Daníel 1:8a) Þótt Daníel einn sé nefndur með nafni er ljóst af framhaldinu að félagar hans þrír studdu ákvörðun hans. Orðin „einsetti sér“ sýna að fræðslan, sem Daníel hafði hlotið í föðurhúsum og annars staðar heima fyrir, hafði náð til hjartans. Eflaust var sams konar uppeldi leiðarljós hinna Hebreanna þriggja og réð ákvörðun þeirra. Þetta dæmi sýnir vel fram á gildi þess að kenna börnunum, jafnvel meðan þau virðast enn of ung til að skilja það sem kennt er. — Orðskviðirnir 22:6; 2. Tímóteusarbréf 3:14, 15.
17. Af hverju settu Daníel og félagar hans sig aðeins upp á móti hinum daglega mat af konungsborði en ekki öðru?
17 Af hverju andmæltu Hebrearnir ungu aðeins krásunum og víninu en ekki hinum ráðstöfununum? Ástæðan er ljós af því hvernig Daníel rökhugsaði: ‚Hann vildi ekki saurga sig.‘ Þótt þeim geðjaðist ekki að því að kynnast ‚bókmenntum og tungu Kaldea‘ og fá babýlonsk nöfn þurftu þeir ekki að saurgast af því. Lítum á Móse sem var uppi nálega 1000 árum áður. Hann var „fræddur í allri speki Egypta“ en var Jehóva hollur þrátt fyrir það. Svo var fyrir að þakka uppeldinu sem hann fékk hjá foreldrum sínum. Þess vegna „hafnaði Móse því, er hann var orðinn fulltíða maður, að vera talinn dóttursonur Faraós, og kaus fremur illt að þola með lýð Guðs en njóta skammvinns unaðar af syndinni.“ — Postulasagan 7:22; Hebreabréfið 11:24, 25.
18. Hvernig hefði maturinn af konungsborði saurgað ungu Hebreana?
18 Hvernig gátu krásirnar af konungsborði saurgað ungu mennina? Í fyrsta lagi gátu verið þar matvæli sem Móselögin bönnuðu. Til dæmis átu Babýloníumenn óhrein dýr sem lögmálið bannaði Ísraelsmönnum að leggja sér til munns. (3. Mósebók 11:1-31; 20:24-26; 5. Mósebók 14:3-20) Í öðru lagi var það ekki siður Babýloníumanna að blóðga dýr áður en þeir átu kjötið af þeim. Að neyta óblóðgaðs kjöts var skýlaust brot á lögum Jehóva um blóð. (1. Mósebók 9:1, 3, 4; 3. Mósebók 17:10-12; 5. Mósebók 12:23-25) Í þriðja lagi var það venja falsguðadýrkenda að bera mat sinn fyrir skurðgoð áður en þeir átu hann sem samfélagsmáltíð. Þjónar Jehóva vildu ekki taka þátt í neinu slíku. (Samanber 1. Korintubréf 10:20-22.) Að síðustu var það varla heilsusamlegt fyrir fólk á nokkrum aldri, hvað þá unglinga, að borða þungan mat á hverjum degi og drekka vín með.
19. Hvernig hefðu ungu Hebrearnir getað hugsað en hvað hjálpaði þeim að komast að réttri niðurstöðu?
19 Það er eitt að vita hvað okkur beri að gera en annað að hafa hugrekki til þess, sérstaklega undir þrýstingi eða í freistingum. Daníel og vinir hans þrír hefðu getað hugsað sem svo að þeir væru hvort eð er fjarri foreldrum og vinum sem hefðu ekki hugmynd um hvað þeir gerðu. Þeir hefðu líka getað tekið þann pól í hæðina að þetta væri skipun konungs og það virtist ekki um neitt að velja annað en hlýða. Auk þess hafa aðrir unglingar eflaust sætt sig við ráðstafanir konungs og talið það fremur forréttindi en þraut að hlíta þeim. En slíkur hugsunarháttur gat auðveldlega leitt menn út í að syndga í laumi sem er hættuleg tálgryfja fyrir ungt fólk. Hebresku unglingarnir vissu að „augu [Jehóva] eru alls staðar“ og að „Guð mun leiða sérhvert verk fyrir dóm, sem haldinn verður yfir öllu því sem hulið er, hvort sem það er gott eða illt.“ (Orðskviðirnir 15:3; Prédikarinn 12:14) Við skulum öll taka okkur þessa trúföstu ungu menn til fyrirmyndar.
HUGREKKI OG ÞRAUTSEIGJA UMBUNUÐ
20, 21. Hvað gerði Daníel og hver var útkoman?
20 Eftir að Daníel hafði einsett sér að sporna gegn spillandi áhrifum hegðaði hann sér í samræmi við það. Hann „beiddist þess af hirðstjóra, að hann þyrfti ekki að saurga sig.“ (Daníel 1:8b) Orðið, sem þýtt er „beiddist,“ gefur til kynna margendurtekna beiðni. Oftast er þrautseigja nauðsynleg til að verjast freistingum eða sigrast á veikleika. — Galatabréfið 6:9.
21 Þrautseigjan borgaði sig. „Guð lét Daníel verða náðar og líknar auðið hjá hirðstjóranum.“ (Daníel 1:9) Þótt Daníel og félagar hans væru geðþekkir og greindir var það ekki ástæðan fyrir því að þeim vegnaði vel. Það var blessun Jehóva að þakka. Eflaust mundi Daníel eftir hebreska orðskviðnum: „Treystu [Jehóva] af öllu hjarta, en reiddu þig ekki á eigið hyggjuvit. Mundu til hans á öllum þínum vegum, þá mun hann gjöra stigu þína slétta.“ (Orðskviðirnir 3:5, 6) Það skilaði sér að fara eftir þessum ráðum.
22. Hvernig mótmælti hirðstjórinn?
22 Hirðstjórinn mótmælti í fyrstu: „Ég er hræddur um að minn herra konungurinn, sem tiltekið hefir mat yðar og drykk, sjái yður fölari í bragði en aðra sveina á yðar aldri, og verðið þér svo þess valdandi, að ég fyrirgjöri lífi mínu við konunginn.“ (Daníel 1:10) Hann hafði gilda ástæðu til að óttast um sinn hag og andmæla. Enginn komst upp með að óhlýðnast Nebúkadnesar konungi, og hirðstjóranum var ljóst að líf hans væri í hættu ef hann færi gegn fyrirmælum hans. Hvað gerði Daníel?
23. Hvernig sýndi Daníel visku og hyggindi með afstöðu sinni?
23 Þarna reyndi á visku hans og hyggindi. Sennilega mundi hann eftir orðskviðnum: „Mjúklegt andsvar stöðvar bræði, en meiðandi orð vekur reiði.“ (Orðskviðirnir 15:1) Í stað þess að krefjast þess þrjóskulega að fá vilja sínum framgengt og koma kannski öðrum til að gera sig að píslarvotti lét hann málið niður falla. Þegar vel stóð á kom hann að máli við „tilsjónarmanninn“ sem var ef til vill fúsari en hirðstjórinn til að hliðra örlítið til þar eð hann heyrði ekki beint undir konung. — Daníel 1:11.
TÍU DAGA TILRAUN
24. Hvaða tilraun stakk Daníel upp á?
24 Daníel fór fram á það við tilsjónarmanninn að gerð yrði tilraun: „Gjör tilraun við oss þjóna þína í tíu daga og lát gefa oss kálmeti að eta og vatn að drekka. Skoða síðan yfirbragð vort og yfirbragð sveina þeirra, er eta við konungsborð, og gjör því næst við oss eftir því, sem þér þá líst á oss.“ — Daníel 1:12, 13.
25. Hvað hefur sennilega tilheyrt ‚kálmetinu‘ sem Daníel og vinum hans var borið?
25 Skyldu þeir verða „fölari“ en hinir eftir tíu daga á ‚kálmeti og vatni‘? „Kálmeti“ er þýðing á hebresku orði sem hefur grunnmerkinguna „fræ.“ Í sumum biblíuþýðingum er það þýtt „belgávextir,“ það er að segja „æt fræ ýmissa belgjurta (svo sem ertur og baunir).“ Sumir fræðimenn telja samhengið gefa til kynna fleira en belgávexti. Heimildarrit segir: „Það sem Daníel og félagar hans fóru fram á var hversdagslegt grænmetisfæði almennings í stað hins þunga kjötmetis af konungsborði.“ Kálmetið gat því verið nærandi réttir úr baunum, gúrkum, hvítlauk, blaðlauk, linsubaunum, melónum og lauk, og brauð úr ýmsum korntegundum. Enginn myndi kalla það sultarfæði. Ljóst er að tilsjónarmaðurinn skildi hvað um var að ræða. „Og hann veitti þeim bón þessa og gjörði tilraun við þá í tíu daga.“ (Daníel 1:14) Hver var svo niðurstaðan?
26. Hvernig tókst þessi tíu daga tilraun og af hverju?
26 „Að tíu dögum liðnum reyndust þeir fegurri ásýndum og feitari á hold en allir sveinarnir, sem átu við konungsborð.“ (Daníel 1:15) Þetta er ekki ábending um að grænmetisfæði sé betra en kjötmatur. Tíu dagar eru stuttur tími til að sjá áþreifanlegan árangur af hvers konar mataræði sem er, en það er nógu langur tími fyrir Jehóva til að ná fram tilgangi sínum. „Blessun [Jehóva], hún auðgar, og erfiði mannsins bætir engu við hana,“ segir orð hans. (Orðskviðirnir 10:22) Ungu Hebrearnir fjórir settu trú sína og traust á Jehóva og hann yfirgaf þá ekki. Öldum síðar lifði Jesús Kristur í 40 daga án matar. Hann vitnaði þá í orðin í 5. Mósebók 8:3 þar sem við lesum: „Maðurinn lifir eigi á einu saman brauði, heldur . . . á sérhverju því, er fram gengur af munni [Jehóva].“ Reynsla Daníels og vina hans er sígilt dæmi um það.
HYGGINDI OG VISKA Í STAÐ KRÁSA OG VÍNS
27, 28. Hvernig var mataræðið, sem Daníel og vinir hans kusu sér, undirbúningur undir það sem framundan var?
27 Þessir tíu dagar voru aðeins tilraun en árangurinn var mjög sannfærandi. „Eftir það lét tilsjónarmaðurinn bera burt matinn og vínið, sem þeim hafði verið ætlað, og gaf þeim kálmeti.“ (Daníel 1:16) Það er ekki erfitt að gera sér í hugarlund hvernig hinir unglingarnir, sem voru í þjálfun, hafa hugsað um Daníel og félaga. Þeim hlýtur að hafa fundist óttalega heimskulegt að afþakka krásir konungs dag eftir dag og borða kálmeti í staðinn. En miklar prófraunir voru framundan og þær kröfðust allrar þeirrar árvekni og yfirvegunar sem hinir ungu Hebrear gátu sýnt. Trú þeirra og traust á Jehóva myndi meira en nokkuð annað hjálpa þeim að komast gegnum trúarprófraunir sínar. — Samanber Jósúabók 1:7.
28 Af næsta versi bókarinnar sést að Jehóva var með ungu mönnunum: „Þessum fjórum sveinum gaf Guð kunnáttu og skilning á alls konar rit og vísindi, en Daníel kunni og skyn á alls konar vitrunum og draumum.“ (Daníel 1:17) Það þurfti meira en líkamskrafta og góða heilsu til að komast gegnum þá erfiðleika sem framundan voru. „Speki mun koma í hjarta þitt, og þekking verða sálu þinni yndisleg. Aðgætni mun vernda þig, og hyggindin varðveita þig, til þess að frelsa þig frá vegi hins illa.“ (Orðskviðirnir 2:10-12) Það var einmitt þetta sem Jehóva gaf ungu mönnunum til að búa þá undir það sem beið þeirra.
29. Af hverju ‚kunni Daníel skyn á alls konar vitrunum og draumum‘?
29 Fram kemur að Daníel hafi ‚kunnað skyn á alls konar vitrunum og draumum.‘ Þetta merkir ekki að hann hafi verið orðinn skyggn. Daníel er álitinn einn hinna miklu hebresku spámanna en það er athyglisvert að honum var aldrei innblásið að lýsa yfir: „Fyrir því segir hinn alvaldi [Jehóva] svo,“ eða: „Svo segir [Jehóva] allsherjar.“ (Jesaja 28:16; Jeremía 6:9) Samt sem áður var það einungis vegna leiðsagnar heilags anda Guðs sem Daníel gat skilið og túlkað sýnir og drauma sem opinberuðu tilgang hans.
LOKAPRÓFIÐ
30, 31. Hvernig reyndist það Daníel og félögum til góðs að taka þá stefnu sem þeir gerðu?
30 Þriggja ára menntun og þjálfun var loks á enda. Þá rann upp lokaprófið — viðtal við konunginn sjálfan. „Og er liðinn var sá tími, er konungur hafði tiltekið, að þá skyldi leiða á sinn fund, þá leiddi hirðstjórinn þá fyrir Nebúkadnesar.“ (Daníel 1:18) Nú urðu ungu mennirnir fjórir að standa sig. Kom það sér vel fyrir þá að hafa haldið sig við lög Jehóva í stað þess að láta undan babýlonskum háttum?
31 „Konungur átti tal við þá, en eigi fannst neinn af þeim öllum slíkur sem þeir Daníel, Hananja, Mísael og Asarja, og gengu þeir í þjónustu konungs.“ (Daníel 1:19) Nú var fullkomlega réttlætt sú stefna sem þeir höfðu fylgt undanfarin þrjú ár! Það hafði ekki verið nein firra að fylgja því mataræði sem trú þeirra og samviska bauð. Daníel og vinir hans uppskáru mikla blessun fyrir að vera trúir í því sem virst gat smávægilegt. Allir ungu mennirnir í þjálfuninni sóttust eftir þeim sérréttindum að ganga í „þjónustu konungs.“ Biblían lætur ósagt hvort ungu Hebrearnir fjórir voru þeir einu sem valdir voru, en hvað sem því leið hafði trúfesti þeirra „mikil laun í för með sér“ fyrir þá. — Sálmur 19:12.
32. Hvers vegna má segja að Daníel, Hananja, Mísael og Asarja hafi notið meiri sérréttinda en þeirra að þjóna við hirð konungs?
32 „Sjáir þú mann vel færan í verki sínu, hann getur boðið konungum þjónustu sína,“ segir Biblían. (Orðskviðirnir 22:29) Nebúkadnesar valdi þá Daníel, Hananja, Mísael og Asarja til að vera í þjónustu sinni, það er að segja að þjóna við konungshirðina. Í öllu þessu sjáum við hönd Jehóva stýra málum þannig að mikilvægir þættir í tilgangi hans yrðu kunnir fyrir atbeina þessara ungu manna, einkum Daníels. Enda þótt það væri mikill heiður að vera valinn í hirð Nebúkadnesars konungs var það langtum meiri heiður að vera notaður á svo stórkostlegan hátt af konungi alheimsins, Jehóva.
33, 34. (a) Hvers vegna hreifst konungur af hinum ungu Hebreum? (b) Hvaða lærdóm má draga af reynslu Hebreanna fjögurra?
33 Nebúkadnesar komst brátt að raun um að skilningurinn og viskan, sem Jehóva hafði veitt fjórmenningunum, skaraði langt fram úr visku allra ráðgjafa og vitringa við hirðina. „Í öllum hlutum, sem viturleik og skilning þurfti við að hafa og konungur spurði þá um, reyndust þeir tíu sinnum fremri en allir spásagnamenn og særingamenn í öllu ríki hans.“ (Daníel 1:20) Hvernig gat annað verið? ‚Spásagnamennirnir‘ og ‚særingamennirnir‘ reiddu sig á veraldlegan lærdóm og hjátrú Babýlonar en Daníel og vinir hans treystu á visku að ofan. Þessu var ekki saman að jafna — viskan að ofan var ofjarl hins.
34 Það hefur lítið breyst í aldanna rás. Á fyrstu öld okkar tímatals, þegar grísk heimspeki og rómversk lög voru í tísku, var Páli postula innblásið að skrifa: „Speki þessa heims er heimska hjá Guði. Ritað er: Hann er sá, sem grípur hina vitru í slægð þeirra. Og aftur: [Jehóva] þekkir hugsanir vitringanna, að þær eru hégómlegar. Fyrir því stæri enginn sig af mönnum.“ (1. Korintubréf 3:19-21) Við þurfum að halda okkur við það sem Jehóva hefur kennt okkur og láta ekki glys og glaum heimsins glepja okkur sýn. — 1. Jóhannesarbréf 2:15-17.
TRÚFASTIR ALLT TIL ENDA
35. Hve mikið er okkur sagt um hina þrjá vini Daníels?
35 Hin sterka trú þeirra Hananja, Mísaels og Asarja birtist með áhrifamiklum hætti í sambandi við gulllíkneski Nebúkadnesars í Dúradal og eldraunina í ofninum sem sagt er frá í 3. kafla Daníelsbókar. Ekki leikur vafi á að þessir guðhræddu Hebrear reyndust Jehóva trúir allt til dauða. Við vitum það af því að Páll postuli var eflaust að tala um þá þegar hann minntist á menn sem „fyrir trú . . . slökktu eldsbál.“ (Hebreabréfið 11:33, 34) Þeir eru bæði ungum og öldnum þjónum Jehóva frábær fyrirmynd.
36. Hvernig var æviferill Daníels einstakur?
36 Síðasta versið í 1. kafla Daníelsbókar segir um hann: „Og Daníel dvaldist þar allt til fyrsta árs Kýrusar konungs.“ Kýrus vann Babýlon á einni nóttu árið 539 f.o.t. eins og mannkynssagan greinir frá. Daníel þjónaði við hirð Kýrusar, trúlega sökum orðstírs og stöðu. Daníel 10:1 segir reyndar að „á þriðja ári Kýrusar Persakonungs“ hafi Jehóva opinberað Daníel merka hluti. Hafi hann verið á unglingsaldri þegar hann var fluttur til Babýlonar árið 617 f.o.t. hefur hann verið næstum tíræður þegar hann sá þessa síðustu sýn. Hann átti greinilega langa og blessunarríka ævi í þjónustu Jehóva.
37. Hvaða lærdóm getum við dregið af 1. kafla Daníelsbókar?
37 Fyrsti kafli Daníelsbókar segir meira en sögu fjögurra trúfastra ungmenna sem stóðust trúarprófraunir. Hann sýnir hvernig Jehóva getur notað hvern sem hann vill til að ná fram tilgangi sínum. Frásagan sannar að það sem virðist ógæfa við fyrstu sýn getur þjónað góðum tilgangi ef Jehóva leyfir. Og hún bendir á að trúfesti í smáu hafi ríkulega umbun í för með sér.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Hvað má segja um uppruna Daníels og vina hans þriggja?
• Hvernig reyndi á gott uppeldi ungu Hebreanna fjögurra í Babýlon?
• Hvernig umbunaði Jehóva Hebreunum fjórum hugrekki þeirra?
• Hvað geta þjónar Jehóva nú á tímum lært af Daníel og félögum hans?
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 30]