Þrettándi kafli
Tveir konungar takast á
1, 2. Af hverju ættum við að hafa áhuga á spádóminum í 11. kafla Daníelsbókar?
TVEIR konungar heyja harða valdabaráttu. Árin líða og þeir hafa yfirburði til skiptis. Stundum ræður annar þeirra lögum og lofum um skeið en hinn hefur hægt um sig og stundum liggja átök niðri. En svo blossa átökin upp á nýjan leik og baráttan heldur áfram. Meðal þátttakenda í þessum sjónleik hafa verið Selevkos 1. Níkator Sýrlandskonungur, Ptólemeos Lagos Egyptalandskonungur, Kleópatra 1. prinsessa af Sýrlandi og drottning Egyptalands, Ágústus og Tíberíus Rómarkeisarar og Zenóbía drottning Palmýru. Undir lok átakanna hefur Þýskaland undir stjórn nasista, hin kommúníska þjóðafylking, ensk-ameríska heimsveldið, Þjóðabandalagið og Sameinuðu þjóðirnar átt aðild að átökunum, en ekkert þessara pólitísku afla sér leikslokin fyrir. Engill Jehóva flutti spámanninum Daníel þennan hrífandi spádóm fyrir um það bil 2500 árum. — Daníel, 11. kafli.
2 Daníel hlýtur að hafa verið stórhrifinn þegar hann heyrði engilinn lýsa í smáatriðum valdabaráttu tveggja væntanlegra konunga. Þessi sjónleikur vekur líka áhuga okkar af því að valdabarátta konunganna nær allt til okkar daga. Mannkynssagan segir frá því hvernig fyrri hluti spádómsins hefur uppfyllst, og það styrkir trú okkar á að síðari hlutinn rætist örugglega. Ef við gefum gaum að spádóminum fáum við skýra mynd af því hvar við stöndum í tímans rás. Það styrkir einnig þann ásetning okkar að vera hlutlaus í deilunni og bíða þolinmóð eftir að Guð láti til sín taka í okkar þágu. (Sálmur 146:3, 5) Við skulum því hlusta með óskiptri athygli á það sem engill Jehóva segir Daníel.
GEGN GRIKKLANDS RÍKI
3. Hvern styrkti engillinn „á fyrsta ári Daríusar hins medíska“?
3 „Á fyrsta ári Daríusar hins medíska [539/538 f.o.t.] tók ég mér stöðu til að efla hann og styrkja,“ segir engillinn. (Daníel 11:1, Biblíurit, ný þýðing 1997) Daríus var látinn þegar hér var komið sögu en engillinn tilgreindi stjórnartíð hans sem upphafstíma spádómsins. Hann var konungurinn sem fyrirskipaði að Daníel skyldi dreginn upp úr ljónagryfjunni. Og það var hann sem skipaði öllum þegnum sínum að óttast Guð Daníels. (Daníel 6:22-28) En sá sem engillinn tók sér stöðu hjá til að efla og styrkja var ekki Daríus hinn medíski heldur Míkael — verndarengill þjóðar Daníels. (Samanber Daníel 10:12-14.) Engillinn veitti Míkael þennan stuðning þegar hann barðist við djöflahöfðingja Medíu-Persíu.
4, 5. Hverjir voru Persakonungarnir fjórir sem spáð var um?
4 Engill Guðs heldur áfram: „Sjá, enn munu þrír konungar koma fram í Persíu, en hinn fjórði mun afla meiri auðs en allir aðrir, og er hann er voldugur orðinn fyrir auð sinn, mun hann bjóða öllu út gegn Grikklands ríki.“ (Daníel 11:2) Hverjir voru þessir valdhafar Persíu?
5 Fyrstu þrír voru þeir Kýrus mikli, Kambýses 2. og Daríus 1. Þar eð Bardía (eða ef til vill svikari að nafni Gaumata) ríkti aðeins í sjö mánuði er ekki minnst á stutta stjórnartíð hans í spádóminum. Árið 490 f.o.t. reyndi þriðji konungurinn, Daríus 1., að ráðast inn í Grikkland öðru sinni. En Persar guldu afhroð við Maraþon og hörfuðu til Litlu-Asíu. Daríus undirbjó vandlega nýja herför gegn Grikkjum en kom henni ekki í verk áður en hann lést fjórum árum síðar. Herförin kom í hlut sonar hans og arftaka, ‚fjórða‘ konungsins, Xerxesar 1. Hann er sá hinn sami og Ahasverus konungur sem gekk að eiga Ester. — Esterarbók 1:1; 2:15-17.
6, 7. (a) Hvernig bauð fjórði konungurinn „öllu út gegn Grikklands ríki“? (b) Hvernig lyktaði herför Xerxesar gegn Grikkjum?
6 Það má með sanni segja að Xerxes 1. hafi ‚boðið öllu út gegn Grikklands ríki,‘ það er að segja hinum sjálfstæðu grísku ríkjum í heild. Bókin The Medes and Persians — Conquerors and Diplomats segir: „Að áeggjan metnaðargjarnra hirðmanna gerði Xerxes árás á sjó og landi.“ Gríski sagnaritarinn Heródótos frá fimmtu öld f.o.t. skrifar að „enginn annar leiðangur virðist nokkuð í samanburði við þennan.“ Hann segir að sjóliðar hafi verið „samanlagt 517.610. Fótgönguliðar voru 1.700.000, riddarar 80.000, og þá þarf að bæta við Aröbum sem riðu úlföldum og Líbíumönnum sem börðust á stríðsvögnum en þá tel ég hafa verið 20.000. Allur land- og sjóherinn samanlagður var því 2.317.610 manns.“
7 Xerxes 1. ætlaði sér ekkert minna en algeran sigur og stefndi hinum gríðarmikla her gegn Grikklandi árið 480 f.o.t. Grikkjum tókst að tefja um stund fyrir Persum í Laugaskarði (Þermópýle) en síðan létu Persar greipar sópa um Aþenu og eyddu hana. En við Salamis biðu þeir herfilegan ósigur. Grikkir unnu annan sigur á Persum við Plateu árið 479 f.o.t. Enginn af sjö eftirmönnum Xerxesar á konungsstóli Persaveldis barðist næstu 143 árin gegn Grikklandi. En þá reis upp í Grikklandi voldugur konungur.
VÍÐLENT RÍKI SKIPTIST Í FERNT
8. Hvaða „hraustur konungur“ reis upp og hvernig náði hann að „drottna yfir víðlendu ríki“?
8 „Eftir það mun rísa hraustur konungur og drottna yfir víðlendu ríki og til leiðar koma því, er hann vill,“ segir engillinn. (Daníel 11:3) Alexander var tvítugur er hann ‚reis‘ sem konungur Makedóníu árið 336 f.o.t. Og „hraustur“ varð hann og mikill — Alexander mikli. Hann lagði undir sig skattlönd Persa í Litlu-Asíu knúinn af áætlun föður síns, Filipposar 2. Hann hélt yfir Efrat og Tígris með 47.000 manna liði og tvístraði 250.000 manna her Daríusar 3. við Gágamelu. Daríus flýði og var síðan myrtur. Með honum leið konungsætt Persa undir lok. Grikkland varð heimsveldi og Alexander ‚drottnaði yfir víðlendu ríki og kom til leiðar því sem hann vildi.‘
9, 10. Hvernig rættist sú spá að ríki Alexanders skyldi ekki ganga til afkomenda hans?
9 Heimsyfirráð Alexanders áttu að vera skammvinn því að engill Guðs bætir við: „Þegar uppgangur hans er sem mestur, þá mun sundrast ríki hans og skiptast eftir fjórum áttum himinsins, en þó ekki til eftirkomenda hans, og ekki með slíku veldi, er hann hafði, því að ríki hans mun eytt verða og fengið öðrum en þeim.“ (Daníel 11:4) Alexander var rétt tæplega 33 ára þegar hann veiktist skyndilega og dó í Babýlon árið 323 f.o.t.
10 Hið víðlenda veldi Alexanders gekk ekki í arf „til eftirkomenda hans.“ Bróðir hans, Filippos 3. Arrhídeos, ríkti skemur en sjö ár og var myrtur að undirlagi Ólympíasar, móður Alexanders, árið 317 f.o.t. Alexander 4., sonur Alexanders mikla, ríkti fram til ársins 311 f.o.t. þegar hann féll fyrir hendi Kassanders, eins af hershöfðingjum föður síns. Herakles, óskilgetinn sonur Alexanders, reyndi að ríkja í nafni föður síns en var myrtur árið 309 f.o.t. Þar með leið ætt Alexanders undir lok og „ríki hans“ gekk úr höndum hennar.
11. Hvernig skiptist ríki Alexanders „eftir fjórum áttum himinsins“?
11 Eftir dauða Alexanders ‚skiptist ríkið eftir fjórum áttum himinsins.‘ Hinir mörgu hershöfðingjar hans deildu sín á milli og reyndu að sölsa undir sig svæði. Antígónos 1. hershöfðingi hinn eineygði reyndi að leggja allt heimsveldi Alexanders undir sig. En hann féll í orustu við Ipsos í Frýgíu. Árið 301 f.o.t. réðu fjórir hershöfðingjar Alexanders yfir hinu víðlenda svæði sem foringi þeirra hafði lagt undir sig. Kassander réði Makedóníu og Grikklandi. Lýsimakos náði yfirráðum yfir Litlu-Asíu og Þrakíu. Selevkos 1. Níkator náði undir sig Mesópótamíu og Sýrlandi. Og Ptólemeos Lagos réði Egyptalandi og Palestínu. Eins og spádómurinn sagði skiptist hið mikla heimsveldi Alexanders í fjögur hellenísk ríki.
TVEIR KEPPINAUTAR KOMA FRAM
12, 13. (a) Hvernig fækkaði fjórum hellenískum ríkjum í tvö? (b) Hvaða konungsætt kom af Selevkosi í Sýrlandi?
12 Kassander lést fáeinum árum eftir að hann komst til valda, og árið 285 f.o.t. sló Lýsimakos eign sinni á Evrópuhluta gríska heimsveldisins. Lýsimakos féll árið 281 f.o.t. í bardaga við Selevkos 1. Níkator, og þar með fékk Selevkos yfirráð yfir stærstum hluta Asíusvæðanna. Antígónos 2. Gónatas, sonarsonur eins af hershöfðingjum Alexanders, settist í hásæti Makedóníu árið 276 f.o.t. Er tímar liðu varð Makedónía háð Róm og varð að síðustu rómverskt skattland árið 146 f.o.t.
13 Nú voru aðeins tvö af hellenísku ríkjunum fjórum sem nokkuð kvað að — ríki Selevkosar 1. Níkators og ríki Ptólemeosar Lagosar. Konungsætt Selevkída í Sýrlandi var af Selevkosi komin. Hann byggði meðal annars borgina Antíokkíu — hina nýju höfuðborg Sýrlands — og hafnarborgina Selevkíu. Páll postuli kenndi síðar í Antíokkíu þar sem fylgjendur Krists voru fyrst kallaðir kristnir. (Postulasagan 11:25, 26; 13:1-4) Selevkos var ráðinn af dögum árið 281 f.o.t. en ætt hans var við völd fram til ársins 64 f.o.t. þegar rómverski hershöfðinginn Gnajus Pompejus gerði Sýrland að rómversku skattlandi.
14. Hvenær komst konungsætt Ptólemea til valda í Egyptalandi?
14 Ríki Ptólemeosar Lagosar eða Ptólemeosar 1. stóð lengst hellenísku ríkjanna fjögurra, en hann tók sér konungstitil árið 305 f.o.t. Konungsætt hans var við völd í Egyptalandi uns það féll fyrir Róm árið 30 f.o.t.
15. Hvaða tveir sterkir konungar komu af hellenísku ríkjunum fjórum og hvaða átök hófu þeir?
15 Af hellenísku ríkjunum fjórum komu því tveir sterkir konungar, þeir Selevkos 1. Níkator í Sýrlandi og Ptólemeos 1. í Egyptalandi. Með þessum tveim konungum hófst hin langa átakasaga „konungsins norður frá“ og „konungsins suður frá“ sem lýst er í 11. kafla Daníelsbókar. Engill Jehóva nafngreinir ekki konungana því að persóna þeirra og þjóðerni átti að breytast í aldanna rás. Hann sleppir óþörfum smáatriðum og nefnir aðeins þá valdhafa og þá atburði sem koma átökunum við.
ÁTÖKIN HEFJAST
16. (a) Til hvers vísa nafngiftirnar konungurinn norður frá og konungurinn suður frá? (b) Hverjir gegndu fyrstir hlutverki ‚konungsins norður frá‘ og ‚konungsins suður frá‘?
16 Fylgstu með. Engill Jehóva lýsir upphafi þessara stórbrotnu átaka og segir: „Konungurinn suður frá mun öflugur verða, en einn af höfðingjum hans [Alexanders] mun verða öflugri en hann, og hann [konungurinn norður frá] mun ríki ráða. Ríki hans mun verða stórveldi.“ (Daníel 11:5) Nafngiftirnar „konungurinn norður frá“ og „konungurinn suður frá“ vísa til konunga fyrir norðan og sunnan þjóð Daníels sem hafði þá verið frelsuð úr ánauð Babýlonar og snúið heim til Júda. „Konungurinn suður frá“ var upphaflega Ptólemeos 1. í Egyptalandi. Einn af hershöfðingjum Alexanders, sem varð öflugri en Ptólemeos 1. og ‚réð ríki‘ miklu, var Selevkos 1. Níkator Sýrlandskonungur sem gegndi þá hlutverki ‚konungsins norður frá.‘
17. Hver réð yfir Júda um þær mundir sem átökin milli konunganna norður frá og suður frá hófust?
17 Þegar átökin hófust var Júda undir yfirráðum konungsins suður frá. Frá því um 320 f.o.t. hvatti Ptólemeos 1. Gyðinga til að flytjast til Egyptalands og stofna þar nýlendur. Blómleg Gyðinganýlenda var í Alexandríu þar sem Ptólemeos 1. stofnaði frægt bókasafn. Gyðingar í Júdeu voru undir stjórn Ptólemea í Egyptalandi, konungsins suður frá, fram til ársins 198 f.o.t.
18, 19. Hvernig náðu keppinautarnir „sáttum“ þegar fram liðu stundir?
18 Engillinn spáir um konungana tvo: „Að nokkrum árum liðnum munu þeir mægjast hvor við annan. Þá mun dóttir konungsins suður frá koma til konungsins norður frá til þess að koma á sáttum. En sú hjálp mun að engu haldi koma, stuðningur hans mun og eigi standa [„en mætti sínum mun hún ekki halda og máttur hans mun einnig dvína,“ Biblíurit, ný þýðing 1997]. Og hún mun framseld verða, hún og þeir, sem hana höfðu flutt þangað, og faðir hennar og sá, er gekk að eiga hana, á sínum tíma.“ (Daníel 11:6) Hvernig atvikaðist þetta?
19 Spádómurinn nefnir ekki Antíokos 1., son og arftaka Selevkosar 1. Níkators, því að hann átti ekki í neinu afgerandi stríði við konunginn suður frá. En eftirmaður hans, Antíokos 2., háði langt stríð við Ptólemeos 2., son Ptólemeosar 1. Antíokos 2. og Ptólemeos 2. voru þá konungurinn norður frá og konungurinn suður frá. Antíokos 2. var kvæntur Laódíku og þau áttu son sem nefndur var Selevkos 2., en Ptólemeos 2. átti dóttur er Berníka hét. Þessir tveir konungar náðu „sáttum“ árið 250 f.o.t. Sáttmáli þeirra útheimti að Antíokos 2. skildi við Laódíku og kvæntist Berníku, ‚dóttur konungsins suður frá.‘ Hann eignaðist son með henni sem átti að erfa hásæti Sýrlands í stað sona hans með Laódíku.
20. (a) Hvernig atvikaðist það að ‚máttur‘ Berníku brást henni? (b) Hvað varð um Berníku, ‚þá sem hana höfðu flutt‘ og ‚þann er gekk að eiga hana‘? (c) Hver varð konungur Sýrlands eftir að Antíokosi 2. ‚hvarf mátturinn‘?
20 Ptólemeos 2., faðir Berníku, var ‚máttur‘ hennar og stuðningur. Þegar hann féll frá árið 246 f.o.t. ‚hélt hún ekki mætti sínum‘ hjá eiginmanni sínum. Antíokos 2. hafnaði henni, kvæntist Laódíku aftur og lýsti son þeirra arftaka sinn. Berníka og sonur hennar voru myrt að undirlagi Laódíku. Ætla má að þjónarnir sem flutt höfðu Berníku frá Egyptalandi til Sýrlands — „þeir, sem hana höfðu flutt þangað,“ — hafi hlotið sömu örlög. Laódíka byrlaði jafnvel Antíokosi 2. eitur og þar með ‚dvínaði‘ og hvarf „máttur hans“ einnig. „Faðir“ Berníku og Sýrlandskonungur, „sá, er gekk að eiga hana“ um stundarsakir, dóu því báðir. Selevkos 2., sonur Laódíku, stóð því eftir sem Sýrlandskonungur. Hvernig ætli næsti konungur af ætt Ptólemea hafi brugðist við?
KONUNGUR HEFNIR MORÐSINS Á SYSTUR SINNI
21. (a) Hver var ‚kvisturinn af rótum‘ Berníku og hvernig ‚spratt hann upp‘? (b) Hvernig komst Ptólemeos 3. „inn í virki konungsins norður frá“ og bar hærri hlut af honum?
21 „Því næst mun í hans stað kvistur upp spretta af rótum hennar,“ segir engillinn. „Hann mun fara í móti liðsaflanum og komast inn í virki konungsins norður frá og fara með þá sem honum líkar, og verða voldugur.“ (Daníel 11:7) ‚Kvisturinn,‘ sem spratt upp af „rótum“ eða foreldrum Berníku var bróðir hennar, Ptólemeos 3. faraó Egyptalands. Hann ‚spratt upp‘ sem konungur suðursins þegar faðir hans féll frá. Hann lét til skarar skríða þegar í stað að hefna morðsins á systur sinni og réðst á „virki konungsins norður frá“ með því að fara fylktu liði gegn Selevkosi 2. Sýrlandskonungi sem Laódíka hafði fengið til að myrða Berníku og son hennar. Ptólemeos 3. tók hinn víggirta hluta Antíokkíu og drap Laódíku. Hann hélt síðan austur um ríki konungsins norður frá, rændi Babýloníu og hélt áfram för sinni allt til Indlands.
22. Hvað flutti Ptólemeos 3. með sér heim til Egyptalands og af hverju ‚lét hann konunginn norður frá í friði í nokkur ár‘?
22 Hvað gerðist svo? Engill Guðs heldur áfram: „Já, jafnvel guði þeirra, ásamt steyptum líkneskjum þeirra og dýrindiskerum af silfri og gulli, mun hann flytja hernumda til Egyptalands. Þá mun hann í nokkur ár láta konunginn norður frá í friði.“ (Daníel 11:8) Meira en 200 árum áður hafði Kambýses 2. Persakonungur unnið Egyptaland og flutt heim með sér egypska guði eða ‚steypt líkneski þeirra.‘ Nú rændi Ptólemeos 3. Súsu, fyrrverandi höfuðborg Persíu, endurheimti þessa guði og flutti þá „hernumda“ til Egyptalands. Hann hafði líka á brott með sér að herfangi ‚dýrindisker af silfri og gulli.‘ En svo þurfti hann að bæla niður uppreisn heima fyrir og ‚lét konunginn norður frá í friði‘ án þess að vinna honum frekara mein.
SÝRLANDSKONUNGUR HEFNIR SÍN
23. Hvers vegna hvarf konungur norðursins „aftur heim í sitt land“ eftir að hann komst inn í ríki konungsins suður frá?
23 Hvernig brást konungur norðursins við? Daníel var sagt: „Hann mun gjöra árás á ríki konungsins suður frá og hverfa þó aftur heim í sitt land.“ (Daníel 11:9) Konungurinn norður frá — Selevkos 2. af Sýrlandi — barði frá sér. Hann gerði árás á „ríki“ suðurkonungsins en beið ósigur. Selevkos 2. ‚hvarf aftur heim í land sitt‘ með aðeins litlar leifar af hernum og kom til sýrlensku höfuðborgarinnar Antíokkíu um árið 242 f.o.t. Selevkos 3. sonur hans tók við ríkinu við andlát hans.
24. (a) Hvað varð um Selevkos 3.? (b) Hvernig óð Antíokos 3. Sýrlandskonungur yfir og braust fram gegnum ríki konungsins suður frá?
24 Hverju var spáð um afkomendur Selevkosar 2. Sýrlandskonungs? Engillinn sagði Daníel: „Og synir hans munu leggja út í ófrið og draga saman afar mikinn her. Og hann mun koma og vaða yfir og brjótast fram, en hann mun snúa aftur, og þeir munu herja allt að virki hans [eða sínu].“ (Daníel 11:10) Selevkos 3. var ráðinn af dögum tæplega þrem árum síðar. Bróðir hans, Antíokos 3., tók við völdum í Sýrlandi af honum. Þessi sonur Selevkosar 2. dró saman mikinn her til árásar á konunginn suður frá sem þá var Ptólemeos 4. Hinn nýi Sýrlandskonungur norðursins bar hærri hlut af Egyptum og vann aftur hafnarborgina Selevkíu, héraðið Sílí-Sýrland, borgirnar Týrus og Ptólemais og nálægar borgir. Hann gersigraði her Ptólemeosar 4. og tók margar af borgum Júda. Vorið 217 f.o.t. yfirgaf hann Ptólemais og hélt norður á bóginn, ‚allt að virki sínu‘ í Sýrlandi. En umskipti voru á næsta leiti.
TAFLIÐ SNÝST
25. Hvar mættust Ptólemeos 4. og Antíokos 3. í bardaga og hvað var ‚selt á vald‘ Egyptalandskonungs í suðri?
25 Við hlustum eftirvæntingarfull, líkt og Daníel, þegar engill Jehóva spáir áfram: „Þetta mun konunginum suður frá gremjast, og hann mun leggja af stað og berjast við hann, við konunginn norður frá. Hann mun kveðja upp mikinn her, en herinn mun seldur verða hinum á vald.“ (Daníel 11:11) Með 75.000 manna liði hélt konungurinn suður frá, Ptólemeos 4., til norðvesturs gegn óvininum. Konungur norðursins, Antíokos 3. af Sýrlandi, hafði ‚kvatt upp mikinn her‘ 68.000 manna gegn honum. En „herinn“ var ‚seldur á vald‘ konunginum suður frá í orustu við strandborgina Rafíu, skammt frá landamærum Egyptalands.
26. (a) Hvaða ‚her‘ rak konungur suðursins burt í orustunni við Rafía og hverjir voru friðarskilmálarnir? (b) Í hverju reyndist Ptólemeos 4. ‚ekki öflugur‘? (c) Hver tók við sem konungurinn suður frá?
26 Spádómurinn heldur áfram: „Og herinn mun rekinn verða burt. Hjarta hans mun ofmetnast, og hann mun tíþúsundir að velli leggja, og þó ekki reynast öflugur.“ (Daníel 11:12) Ptólemeos 4., konungur suðursins, ‚rak burt‘ í dauðann 10.000 sýrlenska fótgönguliða og 300 riddaraliðsmenn, og tók 4000 til fanga. Konungarnir gerðu síðan með sér samkomulag um að Antíokos 3. héldi sýrlensku hafnarborginni Selevkíu en léti af hendi Fönikíu og Sílí-Sýrland. Egyptalandskonungur ‚ofmetnaðist‘ í hjarta sér vegna sigursins, einkum gagnvart Jehóva. Júda var áfram undir yfirráðum Ptólemeosar 4. Hann ‚reyndist þó ekki öflugur‘ til að fylgja eftir sigri sínum á Sýrlandskonungi heldur lagðist í sukk og fimm ára sonur hans, Ptólemeos 5., tók við sem konungur suðursins nokkrum árum fyrir dauða Antíokosar 3.
SIGURVEGARINN SNÝR AFTUR
27. Hvernig sneri konungur norðursins aftur „að liðnum nokkrum árum“ til að endurheimta lendur af Egyptum?
27 Vegna sigurvinninga sinna var Antíokos 3. nefndur hinn mikli. Engillinn segir um hann: „Þá mun konungurinn norður frá enn kveðja upp her, meiri en hinn fyrri, og að liðnum nokkrum árum mun hann koma með fjölmennum liðsafla og miklum útbúnaði.“ (Daníel 11:13) Þetta var að minnsta kosti 16 árum eftir að Egyptar sigruðu Sýrlendinga við Rafíu. Er hinn ungi Ptólemeos 5. tók við hlutverki konungsins suður frá gerði Antíokos 3. bandalag við Filippos 5. Makedóníukonung og kvaddi upp mikinn „her, meiri en hinn fyrri,“ til að endurheimta þau landsvæði sem hann hafði misst í hendur Egyptalandskonungi.
28. Í hvaða erfiðleikum átti hinn ungi konungur suður frá?
28 Konungur suðursins átti einnig í erfiðleikum heima fyrir. „Um þær mundir munu margir rísa gegn konunginum suður frá,“ segir engillinn. (Daníel 11:14a) Margir ‚risu gegn konunginum suður frá.‘ Auk hersveita Antíokosar 3. og bandamanns hans í Makedóníu átti hinn ungi konungur suðursins í vök að verjast heima í Egyptalandi. Agaþókles verndari hans, sem ríkti í hans nafni, sýndi Egyptum hroka og margir gerðu uppreisn. Engillinn bætir við: „Og ofríkisfullir menn af þjóð þinni munu hefja uppreisn til þess að láta vitrunina rætast, en þeir munu steypast.“ (Daníel 11:14b) Sumir af samlöndum Daníels gerðust meira að segja „ofríkisfullir“ byltingarmenn. En hver sú ‚vitrun,‘ sem þessir Gyðingar þóttust fá um að hrinda af sér yfirráðum heiðingja heima fyrir, var tálsýn og hlaut að bregðast eða „steypast.“
29, 30. (a) Hvernig fóru „herir suðurríkisins“ halloka fyrir árás úr norðri? (b) Hvernig náði konungurinn norður frá „fótfestu í prýði landanna“?
29 Engill Jehóva heldur áfram: „Og konungurinn norður frá mun koma og hlaða virkisvegg og vinna víggirta borg, og herir suðurríkisins munu eigi fá staðist og einvalalið hans mun eigi þrótt hafa til að veita viðnám. Og sá sem fer í móti honum, mun gjöra það, er honum þóknast, með því að enginn fær honum viðnám veitt, og hann mun fá fótfestu í prýði landanna, og eyðing er í hendi hans.“ — Daníel 11:15, 16.
30 Herlið Ptólómeosar 5., „suðurríkisins,“ fór halloka fyrir árás úr norðri. Við Paneas (Sesareu Filippí) hrakti Antíokos 3. egypska hershöfðingjann Skópas og 10.000 manna „einvalalið“ hans til Sídonar sem var ‚víggirt borg.‘ Antíokos 3. ‚hlóð þar virkisvegg‘ og tók fönikísku hafnarborgina árið 198 f.o.t. Hann ‚gerði er honum þóknaðist‘ þar eð hersveitir Egyptalandskonungs gátu ekki veitt honum viðnám. Antíokos 3. hélt síðan sem leið lá til Jerúsalem, höfuðborgar Júda sem var „prýði landanna.“ Árið 198 f.o.t. færðust yfirráðin yfir Jerúsalem og Júda úr höndum Egyptalandskonungs í suðri í hendur Sýrlandskonungs í norðri. Og Antíokos 3., konungurinn norður frá, náði „fótfestu í prýði landanna.“ ‚Eyðing var í hendi hans‘ gagnvart öllum Júdamönnum og Egyptum sem veittu honum viðnám. Hversu lengi gat þessi konungur norðursins hegðað sér eins og honum sýndist?
RÓM SETUR SIGURVEGARANUM SKORÐUR
31, 32. Af hverju gerði konungur norðursins „sátt“ um frið við konung suðursins?
31 Engill Jehóva svarar því: „Síðan mun hann [konungurinn norður frá] ásetja sér að koma með öllum herafla ríkis síns, en hann mun gjöra sátt við hann og gefa honum unga stúlku, landinu til tjóns. En ráðagjörð hans mun eigi framgang fá og eigi takast.“ — Daníel 11:17.
32 Konungur norðursins, Antíokos 3., ‚ásetti sér‘ að ráða yfir Egyptalandi „með öllum herafla ríkis síns.“ En svo fór að hann ‚gerði sátt‘ og samdi frið við Ptólemeos 5., konung suðursins. Antíokos 3. hafði breytt um áætlun að kröfu Rómar. Þegar þeir Filippos 5. Makedóníukonungur gerðu með sér bandalag gegn hinum unga konungi Egyptalands og hugðust leggja undir sig lönd hans leituðu verndarar hans ásjár Rómar. Róm sá sér leik á borði að færa út áhrifasvæði sitt og sýndi nú mátt sinn.
33. (a) Hvaða skilmálar voru í friðarsamningi Antíokosar 3. og Ptólemeosar 5.? (b) Hver var tilgangurinn með því að gifta Kleópötru 1. Ptólemeosi 5. og af hverju fór ráðagerðin út um þúfur?
33 Róm þvingaði Antíokos 3. til að bjóða konungi suðursins frið. Frekar en að hlíta kröfum Rómar og afsala sér þeim landsvæðum sem hann hafði lagt undir sig, gifti hann „unga stúlku“ Ptólemeosi 5. svo að framsalið yrði einungis að nafninu til. Stúlkan var Kleópatra 1., dóttir hans, og hluti heimanmundarins var Júda, „prýði landanna.“ En Sýrlandskonungur lét löndin ekki af hendi við Ptólemeos 5. við giftinguna árið 193 f.o.t. Þetta var pólitískur ráðahagur, til þess gerður að koma Egyptalandi undir sýrlensk yfirráð. En ráðagerðin fór út um þúfur því að Kleópatra 1. tók síðar afstöðu með eiginmanni sínum. Þegar stríð braust út milli Antíokosar 3. og Rómverja studdu Egyptar Rómverja.
34, 35. (a) Hver voru ‚strandríkin‘ sem konungurinn norður frá sneri sér að? (b) Hvernig batt Róm enda á ‚smánanina‘ af völdum konungsins norður frá? (c) Við hvaða aðstæður dó Antíokos 3. og hver tók við sem konungur norðursins?
34 Engillinn heldur áfram og segir um ófarir konungsins norður frá: „Og hann [Antíokos 3.] mun snúa sér að eyjunum [„strandríkjunum,“ samkvæmt nákvæmri þýðingu frumtextans] og vinna margar, en hershöfðingi nokkur [Róm] mun gjöra enda á smánan hans [smánina af völdum Antíokosar 3.], já, hann mun láta smánan hans koma yfir sjálfan hann. Þá mun hann [Antíokos 3.] snúa sér að virkjum síns eigin lands, og hann mun hrasa og falla, og hans mun engan stað sjá framar.“ — Daníel 11:18, 19.
35 ‚Strandríkin‘ voru Makedónía, Grikkland og Litla-Asía. Stríð braust út í Grikklandi árið 192 f.o.t. og Antíokos 3. var talinn á að fara þangað. Rómverjar brugðust hinir verstu við að Sýrlandskonungur skyldi vera að reyna að leggja undir sig meira land þar og lýstu stríði á hendur honum. Hann laut í lægra haldi fyrir Rómverjum við Laugaskarð. Um það bil ári eftir að hann tapaði í orustunni við Magnesíu árið 190 f.o.t. varð hann að sleppa öllum lendum sínum í Grikklandi, Litlu-Asíu og svæðunum vestur af Tárusfjöllum. Róm krafði Sýrlandskonung um háar skaðabætur og staðfesti yfirráð sín yfir honum. Antíokos 3. var hrakinn frá Grikklandi og Litlu-Asíu, hafði misst nálega allan flotann og sneri sér aftur „að virkjum síns eigin lands,“ Sýrlands. Rómverjar höfðu látið „smánan hans koma yfir sjálfan hann.“ Antíokos 3. lést árið 187 f.o.t. er hann var að reyna að ræna musteri í Elýmais í Persíu. Þar með ‚féll‘ hann í dauðann og Selevkos 4. sonur hans tók við ríki af honum, næsti konungur norður frá.
ÁTÖKIN HALDA ÁFRAM
36. (a) Hvernig reyndi konungur suðursins að halda baráttunni áfram en hvernig fór fyrir honum? (b) Hvernig féll Selevkos 4. og hver tók við ríki af honum?
36 Ptólemeos 5., sem var konungurinn suður frá, vildi ná þeim löndum sem höfðu verið heimanmundur Kleópötru og áttu að koma í hans hlut. En honum var byrlað eitur og Ptólemeos 6. tók við ríkinu. En hvað um Selevkos 4.? Hann vantaði fé til að greiða Róm hinar himinháu skaðabætur og sendi Helíódóros, féhirði sinn, til Jerúsalem til að hirða auðævin sem sögð voru geymd í musterinu. Helíódóros girntist hásætið og myrti Selevkos 4. En Evmenes, konungur Pergamos, og Attalos bróðir hans létu krýna Antíokos 4., bróður hins myrta konungs.
37. (a) Hvernig reyndi Antíokos 4. að sýna sig máttugri en Jehóva Guð? (b) Til hvers leiddi vanhelgun Antíokosar 4. á musterinu í Jerúsalem?
37 Hinn nýi konungur norðursins vildi sýna að hann væri máttugri en Jehóva Guð og vildi uppræta tilbeiðslufyrirkomulag hans. Hann bauð Jehóva birginn með því að vígja musterið í Jerúsalem Seifi eða Júpíter. Í desembermánuði árið 167 f.o.t. var heiðið altari reist ofan á hinu mikla altari í musterisforgarðinum þar sem Jehóva hafði verið færð brennifórn daglega. Tíu dögum síðar var Seifi færð fórn á hinu heiðna altari. Þessi vanhelgun varð kveikjan að uppreisn Gyðinga undir forystu Makkabea. Antíokos 4. barðist gegn þeim í þrjú ár, en árið 164 f.o.t., á afmæli vanhelgunarinnar, endurvígði Júdas Makkabeus musteri Jehóva og vígsluhátíðin hanúka var stofnuð. — Jóhannes 10:22.
38. Hvernig enduðu yfirráð Makkabea?
38 Makkabear gerðu sennilega sáttmála við Róm árið 161 f.o.t. og stofnuðu konungsríki árið 104 f.o.t. En ýfingum þeirra og Sýrlandskonungs í norðri linnti ekki. Loks voru Rómverjar beðnir að skakka leikinn. Rómverski hershöfðinginn Gnajus Pompejus tók Jerúsalem árið 63 f.o.t. eftir þriggja mánaða umsátur. Árið 39 f.o.t. skipaði rómverska öldungaráðið Edómítann Heródes konung í Júdeu. Hann tók Jerúsalem árið 37 f.o.t. og batt þar með enda á yfirráð Makkabea.
39. Hvaða gagn hefur þú haft af því að skoða Daníelsbók 11:1-19?
39 Það er hrífandi að sjá hvernig fyrri hluti spádómsins um átök konunganna tveggja hefur uppfyllst í smáatriðum. Áhugavert er að rýna í 500 ára sögu eftir að Daníel var færður hinn spádómlegi boðskapur, og kanna hvaða valdhafar gegndu hlutverki konunganna norður frá og suður frá. En nýir herrar taka við hlutverkum konunganna tveggja í átökum þeirra fram að tímum Jesú Krists og allt fram til okkar daga. Ef við berum saman söguþróunina og forvitnilega þætti þessa spádóms getum við borið kennsl á þessa tvo konunga.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Hvaða tvær sterkar konungsættir komu af hellenísku ríkjunum og hvaða átök hófu konungarnir?
• Hvernig náðu konungarnir tveir „sáttum“ eins og sagt var fyrir í Daníelsbók 11:6?
• Hvernig héldu átökin áfram á milli
Selevkosar 2. og Ptólemeosar 3. (Daníel 11:7-9)?
Antíokosar 3. og Ptólemeosar 4. (Daníel 11:10-12)?
Antíokosar 3. og Ptólemeosar 5. (Daníel 11:13-16)?
• Hvaða tilgangi þjónaði hjónaband Kleópötru 1. og Ptólemeosar 5. og af hverju fór ráðagerðin út um þúfur (Daníel 11:17-19)?
• Hvaða gagn hefur þú haft af því að gefa gaum að Daníelsbók 11:1-19?
[Tafla/myndir á blaðsíðu 228]
KONUNGARNIR Í DANÍELSBÓK 11:5-19
Konungurinn Konungurinn
norður frá suður frá
Daníel 11:5 Selevkos 1. Níkator Ptólemeos 1.
Daníel 11:6 Antíokos 2. Ptólemeos 2.
(eiginkona: Laódíka) (dóttir: Berníka)
Daníel 11:7-9 Selevkos 2. Ptólemeos 3.
Daníel 11:10-12 Antíokos 3. Ptólemeos 4.
Daníel 11:13-19 Antíokos 3. Ptólemeos 5.
(dóttir: Kleópatra 1.) Arftaki:
Arftakar: Ptólemeos 6.
Selevkos 4. og
Antíokos 4.
[Mynd]
Peningur með mynd af Ptólemeosi 2. og eiginkonu hans.
[Mynd]
Selevkos 1. Níkator
[Mynd]
Antíokos 3.
[Mynd]
Ptólemeos 6.
[Mynd]
Ptólemeos 3. og arftakar hans reistu þetta musteri Hórusar í Idfú í Efra-Egyptalandi.
[Kort/myndir á blaðsíðu 216, 217]
(Sjá uppraðaðann texta í bókinni)
Nafngiftirnar „konungurinn norður frá“ og „konungurinn suður frá“ vísa til konunga fyrir norðan og sunnan þjóð Daníels.
MAKEDÓNÍA
GRIKKLAND
LITLA-ASÍA
ÍSRAEL
LÍBÍA
EGYPTALAND
EÞÍÓPÍA
SÝRLAND
Babýlon
ARABÍA
[Mynd]
Ptólemeos 2.
[Mynd]
Antíokos mikli.
[Mynd]
Steinhella með opinberum tilskipunum Antíokosar mikla.
[Mynd]
Peningur með mynd af Ptólemeosi 5.
[Mynd]
Hlið Ptólemeosar 3. í Karnak í Egyptalandi.
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 210]
[Mynd á blaðsíðu 215]
Selevkos 1. Níkator
[Mynd á blaðsíðu 218]
Ptólemeos 1.