Fjórtándi kafli
Nýir herrar taka við hlutverkum konunganna tveggja
1, 2. (a) Hvað olli því að Antíokos 4. varð við kröfum Rómar? (b) Hvenær varð Sýrland rómverskt skattland?
ANTÍOKOS 4. Sýrlandskonungur ræðst inn í Egyptaland og krýnir sig til konungs þar. Að beiðni Ptólemeosar 6. Egyptalandskonungs er Gajus Pópilíus Laenas sendur frá Róm til Egyptalands. Hann ræður yfir glæsilegum flota og flytur Antíokosi 4. þau boð frá Róm að afsala sér konungdómi í Egyptalandi og yfirgefa landið. Sýrlandskonungur og sendimaður Rómar hittast í Elevsis, einu af úthverfum Alexandríu. Antíokos 4. biður um frest til að ráðfæra sig við ráðgjafa sína en Pópilíus dregur hring á jörðina kringum konung og segir honum að svara áður en hann stígi út fyrir línuna. Auðmýktur lætur Antíokos 4. að kröfu Rómar og snýr heim til Sýrlands árið 168 f.o.t. Þar með lýkur átökum Sýrlandskonungs norðursins og Egyptalandskonungs suðursins.
2 Róm er nú orðin ráðandi afl í málefnum Miðausturlanda og heldur áfram að segja Sýrlendingum fyrir verkum. Þótt fleiri konungar af ætt Selevkída séu við völd í Sýrlandi eftir að Antíokos 4. deyr árið 163 f.o.t. fara þeir ekki með hlutverk ‚konungsins norður frá.‘ (Daníel 11:15) Sýrland verður að lokum rómverskt skattland árið 64 f.o.t.
3. Hvenær og hvernig náði Róm yfirráðum yfir Egyptalandi?
3 Konungsætt Ptólemea í Egyptalandi hélt velli sem ‚konungurinn suður frá‘ í rétt ríflega 130 ár eftir dauða Antíokosar 4. (Daníel 11:14) Í orustunni við Aktíum árið 31 f.o.t. sigrar rómverski valdhafinn Oktavíanus sameiginlegar sveitir Kleópötru 7. — síðustu drottningar af ætt Ptólemea — og Markúsar Antoníusar, hins rómverska ástmanns hennar. Þegar Kleópatra sviptir sig lífi árið eftir verður Egyptaland einnig skattland Rómar og hættir að gegna hlutverki konungsins suður frá. Árið 30 f.o.t. ræður Róm bæði yfir Sýrlandi og Egyptalandi. Megum við búast við að einhver önnur stjórnvöld taki nú við hlutverkum konunganna norður frá og suður frá?
NÝR KONUNGUR SENDIR „SKATTHEIMTUMANN“
4. Af hverju megum við ætla að annað stjórnvald taki við hlutverki konungsins norður frá?
4 Jesús Kristur sagði lærisveinum sínum vorið 33: „Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað, . . . þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.“ (Matteus 24:15, 16) Jesús vitnar hér í Daníel 11:31 og varar fylgjendur sína við „viðurstyggð eyðingarinnar“ sem í vændum er. Þessi spádómur um konunginn norður frá var borinn fram um 195 árum eftir dauða Antíokosar 4., síðasta Sýrlandskonungs sem fór með það hlutverk. Annað stjórnvald hlaut að taka við hlutverki konungsins norður frá. Hvaða stjórnvald var það?
5. Hver tók við af Antíokosi 4. sem konungur norðursins?
5 Engill Jehóva Guðs boðar: „Í hans stað [Antíokosar 4.] mun annar koma, er senda mun skattheimtumann til þess landsins, sem er prýði ríkisins, en eftir nokkra daga mun hann drepinn verða, þó ekki í reiði né bardaga.“ (Daníel 11:20) Sá sem ‚kom‘ með þessum hætti var Oktavíanus, fyrsti keisari Rómar, síðar þekktur sem Ágústus keisari. — Sjá „Annar heiðraður, hinn fyrirlitinn,“ á bls. 248.
6. (a) Hvenær var ‚skattheimtumaður‘ sendur til ‚prýði ríkisins‘ og hvaða þýðingu hafði það? (b) Hvernig má segja að Ágústus hafi hvorki fallið „í reiði né bardaga“? (c) Hvaða breyting var nú orðin í sambandi við konunginn norður frá?
6 „Prýði ríkisins,“ sem Ágústus réð, var rómverska skattlandið Júdea, kallað „prýði landanna.“ (Daníel 11:16) Árið 2 f.o.t. sendi Ágústus út „skattheimtumann“ er hann fyrirskipaði skrásetningu eða manntal, sennilega til að hafa tiltæka tölu um mannfjölda vegna skattlagningar og herkvaðningar. Tilskipun hans varð til þess að Jósef og María fóru til Betlehem til að láta skrásetja sig, og þess vegna fæddist Jesús á þeim stað sem spáð hafði verið um. (Míka 5:1; Matteus 2:1-12) Ágústus var 76 ára þegar hann dó í ágústmánuði árið 14 — „eftir nokkra daga“ eða ekki löngu eftir að hann fyrirskipaði skrásetninguna. Hann dó hvorki „í reiði“ fyrir hendi launmorðingja né í „bardaga“ heldur vegna sjúkdóms. Nýr herra — Rómaveldi í persónu keisaranna — var tekinn við hlutverki konungsins norður frá.
‚FYRIRLITLEGUR MAÐUR KEMUR‘
7, 8. (a) Hver kom í stað Ágústusar sem konungur norðursins? (b) Af hverju var arftaka Ágústusar keisara veitt ‚konungstignin‘ með tregðu?
7 Engillinn heldur spádóminum áfram: „Í hans stað [Ágústusar] mun koma fyrirlitlegur maður, er þeir höfðu eigi ætlað konungstignina. Hann mun koma að óvörum og ná undir sig ríkinu með fláttskap. Og yfirvaðandi herflokkar munu skolast burt fyrir honum og eyddir verða, svo og sáttmálshöfðinginn.“ — Daníel 11:21, 22.
8 Þessi ‚fyrirlitlegi maður‘ var Tíberíus keisari, sonur Livíu, þriðju eiginkonu Ágústusar. (Sjá „Annar heiðraður, hinn fyrirlitinn,“ á bls. 248.) Ágústus hataði þennan stjúpson sinn sökum slæmra eiginleika hans og vildi síst að hann tæki við keisaraembætti af sér. Honum var veitt ‚konungstignin‘ með tregðu eftir að allir aðrir líklegir arftakar voru dánir. Ágústus ættleiddi Tíberíus árið 4 og tilnefndi hann erfingja að hásætinu. Eftir dauða Ágústusar ‚kom‘ hinn fyrirlitni Tíberíus, sem var þá 54 ára, og tók við völdum sem keisari Rómar og konungur norðursins.
9. Hvernig ‚náði Tíberíus undir sig ríkinu með fláttskap‘?
9 Alfræðibókin The New Encyclopædia Britannica segir að „Tíberíus hafi ráðskast með öldungaráðið og ekki leyft því að tilnefna sig keisara í næstum mánuð [eftir dauða Ágústusar].“ Hann sagði öldungaráðinu að enginn annar en Ágústus væri fær um að axla þá byrði að stjórna Rómaveldi, og bað ráðið að endurreisa þjóðveldið með því að fela hópi manna stjórnvaldið en ekki einum manni. „Öldungaráðsmenn þorðu ekki að láta að vilja hans, en reifuðu málið unz hann lét að lokum til leiðast að taka við völdunum,“ segir sagnfræðingurinn Will Durant og bætir við: „Leikurinn var vel leikinn af beggja hálfu. Tíberíus langaði í keisarastólinn, ella hefði hann fundið einhver ráð til að sleppa frá honum. Öldungaráðið óttaðist hann og hataði, en fýsti lítt að endurreisa þjóðveldi þar sem almannaþing hefðu, í orði kveðnu, öll hin æðstu völd.“ Þannig ‚náði Tíberíus undir sig ríkinu með fláttskap.‘
10. Hvernig var ‚yfirvaðandi herflokkum eytt‘?
10 Engillinn segir um hina ‚yfirvaðandi herflokka‘ grannríkjanna: ‚Þeir munu skolast burt og eyddir verða.‘ Þegar Tíberíus varð konungur norðursins var Germaníkus Sesar, bróðursonur hans, yfirmaður rómverska herliðsins við Rín. Árið 15 stefndi Germaníkus liði sínu gegn germönsku hetjunni Arminíusi og varð nokkuð ágengt. En sigurinn var takmarkaður og dýrkeyptur svo að Tíberíus hætti frekari hernaðaraðgerðum í Germaníu eftir það. Í staðinn reyndi hann að koma í veg fyrir að germönsku þjóðflokkarnir sameinuðust með því að kynda undir borgarastyrjöld. Tíberíus aðhylltist að jafnaði varnarstefnu í utanríkismálum og einbeitti sér að því að styrkja landamæri ríkisins. Þessi afstaða reyndist fremur heilladrjúg og honum tókst með þessum hætti að hafa hemil á ‚yfirvaðandi herflokkum‘ og ‚eyða‘ þeim í þeim skilningi.
11. Hvernig var ‚sáttmálshöfðinginn eyddur‘?
11 „Sáttmálshöfðinginn“ var einnig ‚eyddur‘ en sáttmálinn, sem hér um ræðir, var sáttmáli Jehóva Guðs við Abraham um blessun handa öllum þjóðum jarðar. Jesús Kristur var afkvæmi Abrahams sem heitið var í sáttmálanum. (1. Mósebók 22:18; Galatabréfið 3:16) Hinn 14. nísan árið 33 stóð Jesús frammi fyrir rómverska landstjóranum Pontíusi Pílatusi í höll hans í Jerúsalem. Prestar Gyðinga höfðu ákært Jesú fyrir drottinsvik við keisarann en Jesús sagði Pílatusi: „Mitt ríki er ekki af þessum heimi. . . . Ríki mitt [er] ekki þaðan.“ Gyðingar vildu koma í veg fyrir að rómverski landstjórinn sleppti Jesú, sem var alsaklaus, og hrópuðu: „Ef þú lætur hann lausan, ert þú ekki vinur keisarans. Hver sem gjörir sjálfan sig að konungi, rís á móti keisaranum.“ Eftir að hafa krafist aftöku Jesú sögðu þeir: „Vér höfum engan konung nema keisarann.“ Pílatus framseldi þá Jesú til ‚eyðingar‘ eða aftöku á kvalastaur í samræmi við drottinsvikalögin sem Tíberíus hafði útvíkkað svo að þau náðu yfir nálega hvaða móðgun við keisarann sem verkast vildi. — Jóhannes 18:36; 19:12-16; Markús 15:14-20.
HARÐSTJÓRI ‚HEFUR RÁÐAGERÐIR MEÐ HÖNDUM‘
12. (a) Hverjir bundust félagsskap við Tíberíus? (b) Hvernig ‚bar Tíberíus hærri hlut fáliðaður‘?
12 Engillinn heldur áfram að spá um Tíberíus og segir: „Og upp frá því, er menn hafa bundið félagsskap við hann, mun hann beita svikum. Hann mun leggja af stað fáliðaður og bera hærri hlut.“ (Daníel 11:23) Öldungaráðsmenn Rómar höfðu samkvæmt stjórnlögum „bundið félagsskap“ við Tíberíus og hann var að forminu til háður þeim. En hann var undirförull og ‚bar hærri hlut fáliðaður.‘ Þetta fámenna lið var lífvarðarsveit keisarans sem hafði herbúðir sínar rétt við borgarmúra Rómar. Öldungaráðið hafði beyg af henni og nálægð hennar auðveldaði Tíberíusi að halda uppreisnum almennings gegn valdi sínu í skefjum. Með þessari 10.000 manna lífvarðarsveit treysti Tíberíus völd sín.
13. Með hvaða hætti gekk Tíberíus lengra en forfeður hans?
13 Engillinn heldur spádóminum áfram: „Að óvörum mun hann brjótast inn í frjósömustu sveitir landsins og gjöra það, sem hvorki feður hans né forfeður hafa gjört: Herfangi, rændu fé og auðæfum mun hann úthluta þeim ríkulega, og gegn virkjum mun hann hafa ráðagjörðir með höndum. Þó mun það aðeins verða um hríð.“ (Daníel 11:24) Tíberíus var tortrygginn með afbrigðum og manndráp samkvæmt skipun voru tíð undir stjórn hans. Síðari stjórnarárin einkenndust af ógn og ótta, einkum vegna áhrifa Sejanusar, yfirforingja lífvarðarsveitarinnar. Að síðustu féll grunur á Sejanus sjálfan og hann var tekinn af lífi. Tíberíus gekk lengra í harðstjórn sinni en forfeður hans höfðu gert.
14. (a) Hvernig útbýtti Tíberíus „herfangi, rændu fé og auðæfum“ út um skattlönd Rómar? (b) Hvaða álit höfðu menn á Tíberíusi þegar hann lést?
14 En Tíberíus útbýtti „herfangi, rændu fé og auðæfum“ til skattlanda Rómar. Hagur hinna þegnskyldu þjóða var góður um það leyti sem hann féll frá. Skattar voru lágir og keisarinn gat verið örlátur við þau svæði þar sem hart var í ári. Hermenn og embættismenn máttu búast við refsingu keisarans ef þeir kúguðu nokkurn mann eða gerðust sekir um óreiðu. Sterk valdstjórn hélt uppi almannaöryggi og samgöngubætur örvuðu viðskiptalífið. Tíberíus gætti þess að málefnum ríkisins væri stjórnað af jöfnuði og stöðugleika jafnt innan Rómar sem utan. Löggjöf var bætt, og þjóðfélags- og siðareglur styrktar með því að halda áfram þeim umbótum sem Ágústus keisari hafði hleypt af stað. En Tíberíus ‚hafði ráðagerðir með höndum‘ sem ollu því að rómverski sagnaritarinn Tacítus kallar hann hræsnisfullan mann og leikinn í að villa á sér heimildir. Er Tíberíus lést í marsmánuði árið 37 var hann álitinn harðstjóri.
15. Hvernig vegnaði Róm síðla á fyrstu öld og snemma á þeirri annarri?
15 Arftakar Tíberíusar, sem gegndu hlutverki konungsins norður frá, voru meðal annarra þeir Gajus Sesar (Kalígúla), Kládíus 1., Neró, Vespasíanus, Títus, Dómitíanus, Nerva, Trajanus og Hadríanus. „Arftakar Ágústusar fylgdu að mestu leyti stjórnarstefnu hans og byggingaráætlunum, en nýbreytnin var minni og sýndarmennskan meiri,“ að sögn alfræðibókarinnar The New Encyclopædia Britannica. Og bókin heldur áfram: „Róm var mikilfenglegust og fjölmennust síðla á fyrstu öld og snemma á þeirri annarri.“ Þótt Rómaveldi ætti í einhverjum átökum á landamærum sínum um þessar mundir var það ekki fyrr en á þriðju öld sem kom til hinna boðuðu árekstra með því og konungi suðursins.
BEITIR SÉR GEGN KONUNGINUM SUÐUR FRÁ
16, 17. (a) Hver tók við hlutverki konungsins norður frá sem spáð er um í Daníel 11:25? (b) Hver tók við hlutverki konungsins suður frá og hvenær?
16 Engill Guðs heldur spádóminum áfram og segir: „Því næst mun hann [konungurinn norður frá] beita styrk sínum og hugrekki gegn konunginum suður frá með miklum her, og konungurinn suður frá mun hefja ófrið við hann með miklum her og mjög öflugum, en þó mun hann [konungurinn norður frá] ekki fá í móti staðið, því að menn brugga ráð í móti honum. Þeir sem eta við borð hans, munu fella hann, og her hans skolast burt, og margir særðir í val falla.“ — Daníel 11:25, 26.
17 Um 300 árum eftir að Oktavíanus gerði Egyptaland að skattlandi Rómar tók Árelíanus Rómarkeisari við hlutverki konungsins norður frá. Septimía Zenóbía, drottning rómversku nýlendunnar Palmýru, fór nú með hlutverk konungsins suður frá.a (Sjá „Zenóbía — herdrottning Palmýru,“ á bls. 252.) Her Palmýrumanna lagði Egyptaland undir sig árið 269 undir því yfirskini að tryggja yfirráð Rómar. Zenóbía hugðist gera Palmýru að áhrifamestu borg eystra og vildi ráða yfir austurskattlöndum Rómar. Árelíanus óttaðist metnað hennar og beitti „styrk sínum og hugrekki“ gegn henni.
18. Hvernig lyktaði átökum Árelíanusar keisara, konungsins norður frá, og Zenóbíu drottningar, konungsins suður frá?
18 Konungurinn suður frá, undir forystu Zenóbíu, ‚hóf nú ófrið‘ við konunginn norður frá „með miklum her og mjög öflugum“ undir stjórn hershöfðingjanna Zabdasar og Zabbaís. En Árelíanus vann Egyptaland og lagði síðan í herför til Litlu-Asíu og Sýrlands. Zenóbía beið ósigur við Emesu (nú Homs) og hörfaði til Palmýru. Árelíanus settist um borgina og Zenóbía varðist frækilega en varð að láta í minni pokann. Hún lagði á flótta ásamt syni sínum í átt til Persíu en Rómverjar náðu þeim við Efrat. Palmýrumenn gáfust upp árið 272. Árelíanus þyrmdi Zenóbíu og hafði hana fyrir sýningardjásn á sigurgöngu sinni um Róm árið 274. Hún bjó sem hefðarfrú í Róm það sem hún átti eftir ólifað.
19. Hvernig voru ‚brugguð ráð‘ gegn Árelíanusi svo að hann féll?
19 Árelíanus ‚fékk ekki staðið því að brugguð voru ráð í móti honum.‘ Hann lagði upp í herför gegn Persum árið 275 en ‚þeir sem átu við borð hans‘ brugguðu honum banaráð og ‚felldu hann‘ er hann beið færis í Þrakíu að fara yfir sundin til Litlu-Asíu. Hann hafði ætlað sér að refsa Erosi, ritara sínum, fyrir óreiðu, en Eros falsaði lista með nöfnum nokkurra foringja er taka skyldi af lífi. Er foringjarnir sáu listann sórust þeir saman um að ráða Árelíanus af dögum og myrtu hann.
20. Hvernig bar það til að „her“ konungsins norður frá ‚skolaðist burt‘?
20 Hlutverki konungsins norður frá lauk ekki með dauða Árelíanusar keisara því að aðrir valdhafar Rómar tóku við af honum. Um hríð sátu tveir keisarar, annar í austri og hinn í vestri. Undir stjórn þeirra ‚skolaðist herinn burt‘ eða ‚tvístraðist‘b og margir ‚féllu særðir í valinn‘ vegna árása germanskra ættflokka úr norðri. Gotar brutust inn fyrir landamæri Rómaveldis á fjórðu öld og innrásir héldu áfram, hver á fætur annarri. Árið 476 steypti germanski leiðtoginn Ódóvakar af stóli síðasta keisaranum sem sat í Róm. Við upphaf sjöttu aldar var vesturhluti Rómaveldis búinn að vera og germanskir konungar ríktu í Britanníu, Gallíu, Norður-Afríku og á Ítalíu og Spáni. Austurhluti heimsveldisins stóð hins vegar fram á 15. öld.
VOLDUGT HEIMSVELDI SKIPTIST
21, 22. Hvað gerði Konstantínus á fjórðu öld?
21 Engill Jehóva sleppir óþörfum lýsingum á falli Rómaveldis, sem tók nokkrar aldir, og heldur áfram að segja fyrir gerninga konunganna norður frá og suður frá. En stutt ágrip vissra atburða í sögu Rómaveldis auðveldar okkur að bera kennsl á konungana tvo sem keppa um völdin á síðari tímum.
22 Konstantínus Rómarkeisari veitti fráhvarfskristni opinbera viðurkenningu á fjórðu öld. Hann kallaði jafnvel saman kirkjuþing í Níkeu í Litlu-Asíu árið 325 og stýrði því sjálfur. Síðar flutti hann keisarasetrið frá Rómaborg til Býsans eða Konstantínópel og gerði hana að nýrri höfuðborg sinni. Rómaveldi var undir stjórn eins keisara fram til dauða Þeódósíusar 1. hinn 17. janúar árið 395.
23. (a) Hvernig skiptist Rómaveldi eftir dauða Þeódósíusar? (b) Hvenær leið Austrómverska ríkið undir lok? (c) Hverjir réðu Egyptalandi árið 1517?
23 Rómaveldi skiptist milli sona Þeódósíusar eftir fráfall hans. Honoríus tók við vesturhlutanum en Arkadíus við austurhlutanum og sat í Konstantínópel. Britannía, Gallía, Ítalía, Spánn og Norður-Afríka tilheyrðu vesturgeiranum. Makedónía, Þrakía, Litla-Asía, Sýrland og Egyptaland heyrðu undir austurgeira ríkisins. Árið 642 féll Alexandría, höfuðborg Egyptalands, í hendur Serkjum (Aröbum) og Egyptaland varð kalífadæmi. Í janúarmánuði árið 1449 tók Konstantínus 11. við embætti sem síðasti keisari Austrómverska ríkisins. Tyrkir tóku Konstantínópel 29. maí árið 1453 undir forystu Mehmeds 2. soldáns og þar með leið Austrómverska ríkið undir lok. Tyrkir lögðu Egyptaland undir sig árið 1517. En síðar meir komst þetta land, sem verið hafði aðsetur konungsins suður frá að fornu, undir stjórn annars heimsveldis úr vestri.
24, 25. (a) Hvað markaði upphaf Heilaga rómverska keisaradæmisins að sögn sumra sagnfræðinga? (b) Hvað varð loks um keisaratitil Heilaga rómverska keisaradæmisins?
24 Kaþólsku biskuparnir, sem sátu í Róm í vesturhluta heimsveldisins, gerðust býsna voldugir, og Leó páfa 1. á fimmtu öld er sérstaklega getið fyrir að treysta völd páfastólsins. Síðar sölsaði páfastóllinn undir sig það hlutverk að krýna keisara vesturríkisins. Það gerðist í Rómaborg á jóladag árið 800 þegar Leó páfi 3. krýndi Karl Frankakonung (Karlamagnús) keisara hins nýja Vestrómverska ríkis. Með krýningunni var keisaradæmi Rómar endurvakið og sumir sagnfræðingar kalla þetta upphaf Heilaga rómverska keisaradæmisins. Þaðan í frá voru tvö ríki, Austrómverska ríkið og Heilaga rómverska keisaradæmið sem bæði þóttust kristin.
25 Arftakar Karlamagnúsar reyndust duglausir stjórnendur er tímar liðu. Um skeið var ekki einu sinni skipað í keisaraembættið. Síðar lagði Ottó 1. Þýskalandskonungur undir sig stærstan hluta Norður- og Mið-Ítalíu og lýsti sig konung Ítalíu. Hinn 2. febrúar árið 962 krýndi Jóhannes páfi 12. Ottó 1. keisara Heilaga rómverska keisaradæmisins. Höfuðborgin var í Þýskalandi, keisararnir voru þýskir og flestir þegnanna einnig. Fimm öldum síðar náði austurríska Habsborgaraættin keisaratitlinum og hélt honum lengst af meðan Heilaga rómverska keisaradæmið stóð.
KONUNGARNIR TVEIR AFTUR Í SKÝRU LJÓSI
26. (a) Lýstu endalokum Heilaga rómverska keisaradæmisins. (b) Hver kom nú fram sem konungurinn norður frá?
26 Napóleon 1. greiddi Heilaga rómverska keisaradæminu banahöggið er hann neitaði að viðurkenna tilveru þess eftir sigurvinninga sína í Þýskalandi árið 1805. Frans 2. keisari var ófær um að verja krúnuna og afsalaði sér rómverskri keisaratign 6. ágúst árið 1806. Hann dró sig í hlé og sneri sér að keisaradæmi sínu heima í Austurríki. Heilaga rómverska keisaradæmið — stofnað af Leó 3., rómversk-kaþólskum páfa, og Karlamagnúsi konungi Franka — leið undir lok eftir að hafa staðið í 1006 ár. Róm varð höfuðborg konungsríkisins Ítalíu árið 1870, óháð Páfagarði. Árið eftir reis upp þýskt keisaradæmi með Vilhjálm 1. sem keisara. Þar með var kominn fram á sjónarsviðið nútímakonungur norðursins — Þýskaland.
27. (a) Hvernig varð Egyptaland breskt verndarsvæði? (b) Hver tók við hlutverki konungsins suður frá?
27 En hver gegndi þá hlutverki konungsins suður frá á þeim tíma? Sagan sýnir að Bretland efldist mjög sem heimsveldi á 17. öld. Napóleon 1. freistaði þess að rjúfa verslunarleiðir Breta og lagði undir sig Egyptaland árið 1798. Stríð braust út og Bretar og Tyrkir gerðu með sér bandalag og neyddu Frakka til að yfirgefa Egyptaland sem hafði gegnt hlutverki konungsins suður frá í upphafi átakanna. Áhrif Breta í Egyptalandi uxu á nítjándu öld og Egyptaland var breskt yfirráðasvæði frá og með 1882. Þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út árið 1914 heyrði Egyptaland undir Tyrki og var með tyrkneskan landstjóra. Eftir að Tyrkir tóku að styðja Þjóðverja í stríðinu settu Bretar landstjórann af og lýstu Egyptaland breskt verndarsvæði. Smám saman mynduðust sterk tengsl milli Bretlands og Bandaríkjanna og ensk-ameríska heimsveldið varð til. Í sameiningu tóku þessi tvö ríki við hlutverki konungsins suður frá.
[Neðanmáls]
a Þar eð heitin „konungurinn norður frá“ og „konungurinn suður frá“ eru titlar geta þau átt við hvaða stjórnvöld sem er, hvort heldur konung, drottningu eða þjóðafylkingu.
b Sjá neðanmálsathugasemd við Daníel 11:26 í New World Translation of the Holy Scriptures — With References, gefin út af Watchtower Bible and Tract Society of New York, Inc.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Hvaða Rómarkeisari kom fyrstur fram sem konungurinn norður frá og hvenær sendi hann út „skattheimtumann“?
• Hver tók við hlutverki konungsins norður frá af Ágústusi og hvernig var ‚sáttmálshöfðinginn eyddur‘?
• Hvernig lyktaði átökum Árelíanusar í hlutverki konungsins norður frá og Zenóbíu í hlutverki konungsins suður frá?
• Hvað varð um Rómaveldi og hvaða ríki gegndu hlutverki konunganna tveggja undir lok 19. aldar?
[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 248-251]
ANNAR HEIÐRAÐUR, HINN FYRIRLITINN
ANNAR breytir stríðshrjáðu þjóðveldi í heimsveldi. Hinn tuttugfaldar auðævi þess á 23 árum. Annar er heiðraður við dauða sinn, hinn fyrirlitinn. Stjórnartíð beggja þessara Rómarkeisara nær yfir ævi og þjónustutíð Jesú. Hverjir voru þeir og hvers vegna var annar heiðraður en hinn ekki?
HANN „KOM AÐ RÓM ÚR TIGULSTEINI EN SKILDI VIÐ HANA ÚR MARMARA“
Þegar Júlíus Sesar var ráðinn af dögum árið 44 f.o.t. var Gajus Oktavíanus, dóttursonur systur hans, aðeins 18 ára. Þessi ungi kjörsonur og aðalerfingi Júlíusar Sesars hélt þegar í stað til Rómar til að gera tilkall til arfs síns. Þar hitti hann fyrir óárennilegan keppinaut — Markús Antoníus, yfirliðsforingja Sesars, sem bjóst við að vera aðalerfingi hans. Þar með hófst pólitískt leynimakk og valdabarátta sem stóð í 13 ár.
Oktavíanus varð ekki óumdeilanlegur valdhafi Rómaveldis fyrr en hann sigraði sameiginlegar sveitir Kleópötru Egyptalandsdrottningar og Markúsar Antoníusar, ástmanns hennar, árið 31 f.o.t. Antoníus og Kleópatra sviptu sig lífi árið eftir, og Oktavíanus innlimaði Egyptaland í Rómaveldi. Þar með hurfu síðustu menjar gríska heimsveldisins af sjónarsviðinu og Róm varð heimsveldi.
Oktavíanus var minnugur þess að Júlíus Sesar hafði verið ráðinn af dögum sökum harðstjórnar sinnar og gætti þess að gera ekki sömu mistök og hann. Til að fara ekki fyrir brjóstið á þeim sem aðhylltust þjóðveldi klæddi hann einræðið í búning þjóðveldis og afþakkaði titlana „konungur“ og „einvaldur.“ Hann gekk skrefi lengra og tilkynnti að hann hyggðist skila öldungaráðinu í Róm yfirstjórn allra skattlandanna og bauðst til að afsala sér öllum embættum. Þetta hreif. Öldungaráðið hvatti hann til að halda embættum sínum og forræði sumra skattlandanna.
Hinn 16. janúar árið 27 f.o.t. veitti öldungaráðið honum titilinn „ágústus“ sem merkir „hinn upphafni, heilagi.“ Oktavíanus þáði nafnbótina og nefndi einn mánuðinn eftir sér. Hann tók einn dag að láni frá febrúar svo að ágúst hefði jafnmarga daga og júlí sem nefndur var eftir Júlíusi Sesar. Oktavíanus varð þar með fyrsti keisari Rómar og var eftir það þekktur sem Ágústus keisari eða „hátignin.“ Síðar tók hann sér titilinn „pontifex maximus“ (æðstiprestur) og árið 2 f.o.t. — árið sem Jesús fæddist — veitti öldungaráðið honum titilinn pater patriae, „faðir föðurlandsins.“
Sama ár kom það „boð . . . frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. . . . Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.“ (Lúkas 2:1-3) Þessi tilskipun varð til þess að Jesús fæddist í Betlehem eins og Biblían hafði spáð. — Daníel 11:20; Míka 5:1.
Stjórn Ágústusar einkenndist af allnokkrum heiðarleika og traustum gjaldmiðli. Hann kom á laggirnar skilvirkri póstþjónustu, lagði vegi og reisti brýr. Hann endurskipulagði herinn, kom upp varanlegum sjóher og stofnaði keisaralega lífvarðarsveit skipaða úrvalsliði. (Filippíbréfið 1:13) Rithöfundar eins og Vergilíus og Hóratíus blómstruðu undir verndarvæng hans, og myndhöggvarar sköpuðu fögur listaverk í klassískum stíl sem nú kallast. Ágústus lauk byggingarframkvæmdum sem Júlíus Sesar hafði átt ólokið og endurreisti fjölda hofa. Rómarfriðurinn (Pax Romana), sem hann kom á, stóð í rösklega 200 ár. Ágústus lést 76 ára að aldri hinn 19. ágúst árið 14 og var tekinn í guðatölu eftir það.
Ágústus stærði sig af því að hann hefði ‚komið að Róm úr tigulsteini en skilið við hana úr marmara.‘ Hann vildi koma í veg fyrir að átök hins fyrrverandi þjóðveldis tækju sig upp að nýju og hugðist þjálfa næsta keisara til starfa. En valkostir voru fáir. Systursonur hans, tveir dóttursynir og annar stjúpsonur voru dánir og stjúpsonurinn Tíberíus einn eftir til að taka við af honum.
„FYRIRLITLEGUR MAÐUR“
Innan mánaðar frá dauða Ágústusar útnefndi öldungaráðið í Róm hinn 54 ára gamla Tíberíus keisara. Tíberíus ríkti til dauðadags en hann lést í marsmánuði árið 37. Hann var því keisari Rómar þegar þjónusta Jesú meðal almennings stóð yfir.
Tíberíus sýndi bæði dyggðir og lesti í embætti. Af dyggðum hans má nefna tregðu til að eyða fé í munað. Þar af leiðandi dafnaði Rómaveldi undir stjórn hans og hann réð yfir fé til að veita neyðaraðstoð eftir hörmungar og bágindi. Það má segja Tíberíusi til hróss að hann leit á sig sem venjulegan mann, hafnaði mörgum hefðartitlum og beindi keisaradýrkuninni jafnan að Ágústusi en ekki sjálfum sér. Hann nefndi engan mánuð eftir sér eins og þeir Ágústus og Júlíus Sesar höfðu gert og leyfði engum að heiðra sig með þeim hætti.
En dyggðir Tíberíusar féllu í skuggann af löstunum. Hann var tortrygginn með afbrigðum og hræsnisfullur í samskiptum við aðra, og fyrirskipuð morð voru tíð undir stjórn hans. Margir fyrrverandi vina hans voru meðal fórnarlambanna. Hann útvíkkaði drottinsvikalögin svo að þau náðu ekki aðeins yfir uppreisn heldur einnig ærumeiðingar gegn honum sjálfum. Það var líklega með þessi lög að vopni sem Gyðingar þvinguðu rómverska landstjórann Pontíus Pílatus til að lífláta Jesú. — Jóhannes 19:12-16.
Tíberíus safnaði lífvarðarsveitinni saman rétt utan við Róm er hann reisti víggirtar búðir handa henni norðan við borgarmúrinn. Öldungaráðið, sem ógnaði valdi hans, hafði beyg af nærveru lífvarðarsveitarinnar sem hafði hemil á allri ókyrrð meðal almennings. Tíberíus hvatti einnig til kerfisbundinna uppljóstrana og síðari hluti stjórnartíðar hans einkenndist af grimmd.
Tíberíus var álitinn harðstjóri um þær mundir sem hann lést. Rómverjar fögnuðu andláti hans og öldungaráðið neitaði að taka hann í guðatölu. Meðal annars á þann hátt uppfyllti Tíberíus spádóminn um að „fyrirlitlegur maður“ myndi rísa upp sem „konungurinn norður frá.“ — Daníel 11:15, 21.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Hvernig varð Oktavíanus fyrsti keisari Rómar?
• Hvað afrekaði Ágústus í stjórnartíð sinni?
• Lýstu dyggðum og löstum Tíberíusar.
• Hvernig rættist spádómurinn um ‚fyrirlitlegan mann‘ á Tíberíusi?
[Mynd]
Tíberíus
[Rammagrein/myndir á blaðsíðu 252-255]
ZENÓBÍA — HERDROTTNING PALMÝRU
„HÚN var dökk yfirlitum . . . Tennurnar voru perluhvítar, og einkar aðlaðandi fas hennar tempraði hinn óvenjulega eld sem brann í stórum, svörtum augunum. Röddin var sterk og hljómfögur. Hún bjó yfir karlmannlegum skilningi sem hún hafði fágað og dýpkað með námi. Hún kunni latínu en var jafnvíg á grísku, sýrlensku og egypsku.“ Þannig lofar sagnfræðingurinn Edward Gibbon herdrottninguna Zenóbíu frá borginni Palmýru í Sýrlandi.
Eiginmaður Zenóbíu hét Ódenaþus. Hann var aðalsmaður í Palmýru og var skipaður ræðismaður Rómar árið 258 eftir velheppnaða herför gegn Persum. Tveim árum síðar veitti Gallíenus Rómarkeisari honum nafnbótina corrector totius Orientis (landstjóri allra Austurlanda) sem viðurkenningu fyrir sigur hans á Sapúr 1. Persakonungi. Ódenaþus tók sér að lokum titilinn „konungur konunga.“ En að miklu leyti átti hann velgengni sína að þakka hugrekki og forsjálni Zenóbíu.
ZENÓBÍA HYGGUR Á STOFNUN HEIMSVELDIS
Ódenaþus var ráðinn af dögum ásamt erfingja sínum er hann var á hátindi frægðar sinnar árið 267. Zenóbía tók við embætti manns síns þar eð sonur hennar var of ungur til þess. Henni tókst að ávinna sér virðingu og stuðning þegna sinna, enda var hún fögur, metnaðarfull og stjórnhæf í besta lagi, talaði reiprennandi nokkur tungumál og var vön að berjast með manni sínum. Hún unni lærdómi og safnaði að sér lærdómsmönnum. Heimspekingurinn og orðsnillingurinn Kassíus Longínus var einn af ráðgjöfum hennar, en hann er sagður hafa verið „lifandi bókasafn og gangandi minjasafn.“ Richard Stoneman segir í bók sinni Palmyra and Its Empire — Zenobia’s Revolt Against Rome: „Á fimm árum eftir dauða Ódenaþusar . . . var Zenóbía búin að festa sig í sessi í hugum þegna sinna sem drottning Austurlanda.“
Annars vegar við ríki Zenóbíu var Persía sem hún og maður hennar höfðu veiklað mjög, og hins vegar var Rómaveldi sem var að gliðna í sundur. Sagnfræðingurinn J. M. Roberts segir um ástand Rómaveldis á þeim tíma: „Þriðja öldin var . . . skelfilegur tími fyrir Rómaveldi, jafnt á landamærunum í austri sem vestri, og heima fyrir var brostin á ný alda borgarastyrjalda og erfðaréttardeilna. Tuttugu og tveir keisarar komu og fóru (og þá eru þeir ótaldir sem gerðu tilkall til embættisins á fölskum forsendum).“ En Sýrlandsdrottning var föst í sessi sem einvaldur í ríki sínu. „Hún réð jafnvæginu milli tveggja stórvelda [Persíu og Rómaveldis] og gat gert sér vonir um að skapa hið þriðja og ráða yfir þeim báðum,“ segir Stoneman.
Zenóbía fékk tækifæri til að færa út valdasvæði sitt árið 269 þegar uppreisnarseggur komst til valda í Egyptalandi og véfengdi yfirráðarétt Rómverja þar. Her Zenóbíu fór með hraði til Egyptalands, lagði uppreisnarsegginn að velli og vann landið. Zenóbía lýsti sig drottningu Egyptalands og lét slá mynt í sínu nafni. Ríki hennar náði nú frá Níl til Efratar. Það var þá sem Zenóbía tók við hlutverki ‚konungsins suður frá.‘ — Daníel 11:25, 26.
HÖFUÐBORG ZENÓBÍU
Zenóbía styrkti og fegraði höfuðborgina Palmýru svo að hún jafnaðist á við helstu borgir Rómaveldis. Íbúar eru taldir hafa verið rösklega 150.000. Borgin var full af stórfenglegum opinberum byggingum, hofum, görðum, súlum og minnismerkjum, og borgarmúrarnir eru sagðir hafa verið 21 kílómetri að ummáli. Súlnagöng voru meðfram helsta breiðstræti borgarinnar. Þetta voru um 1500 súlur í Korintustíl og voru þær 15 metra háar. Styttur og brjóstmyndir af hetjum og auðugum velgerðarmönnum voru margar í borginni. Árið 271 reisti Zenóbía styttur af sjálfri sér og manni sínum heitnum.
Sólarhofið var ein fegursta bygging Palmýru og gegndi eflaust aðalhlutverki í trúarlífi borgarinnar. Vera má að Zenóbía hafi tilbeðið einhvern sólguð. En mörg trúarbrögð þrifust í Sýrlandi á þriðju öld. Í ríki Zenóbíu voru gyðingar, menn sem kölluðu sig kristna og dýrkendur tungls og sólar. Hver var afstaða hennar til hinna ýmsu trúarbragða? Stoneman segir: „Vitur stjórnandi afrækir engan þann sið sem virðist hæfa þegnunum. . . . Menn vonuðu . . . að guðirnir hefðu skipast til stuðnings Palmýru.“ Zenóbía virðist hafa verið umburðarlynd í trúmálum.
Litríkur persónuleiki Zenóbíu ávann henni aðdáun margra. Mikilvægast var þó hlutverk hennar sem fulltrúi þeirra stjórnarafla sem lýst er í spádómi Daníels. En hún var ekki við völd lengur en fimm ár. Árelíanus Rómarkeisari sigraði hana árið 272 og fór svo illa með Palmýru skömmu síðar að borgin átti sér ekki viðreisnar von. Zenóbíu var þyrmt og sagt er að hún hafi gifst rómverskum öldungaráðsmanni. Sennilega hefur hún haldið sig fjarri veraldarvafstri það sem hún átti eftir ólifað.
HVAÐ LÆRÐIR ÞÚ?
• Hvernig er Zenóbíu lýst?
• Lýstu nokkrum af afrekum Zenóbíu.
• Hver var afstaða Zenóbíu í trúmálum?
[Mynd]
Zenóbía drottning ávarpar hermenn sína.
[Tafla/myndir á blaðsíðu 246]
KONUNGARNIR Í DANÍELSBÓK 11:20-26
Konungurinn Konungurinn
norður frá suður frá
Daníel 11:20 Ágústus
Daníel 11:21-24 Tíberíus
Daníel 11:25, 26 Árelíanus Zenóbía drottning
Rómaveldi Þýska Bretland
liðast sundur keisaradæmið og síðar
eins og spáð ensk-ameríska
var og af því heimsveldið
sprettur
[Mynd]
Tíberíus
[Mynd]
Árelíanus
[Mynd]
Smálíkneski af Karlamagnúsi
[Mynd]
Ágústus
[Mynd]
Breskt herskip frá 17. öld
[Heilsíðumynd á blaðsíðu 230]
[Mynd á blaðsíðu 233]
Ágústus
[Mynd á blaðsíðu 234]
Tíberíus
[Mynd á blaðsíðu 235]
Tilskipun Ágústusar varð til þess að Jósef og María fóru til Betlehem.
[Caption on page 235]
[Mynd á blaðsíðu 237]
Jesús var ‚eyddur‘ eins og spáð var.
[Myndir á blaðsíðu 245]
1. Karlamagnús 2. Napóleon 1. 3. Vilhjálmur 1. 4. Þýskir hermenn í fyrri heimsstyrjöldinni