Jehóva umbunar trú og hugrekki
„Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi og af þinni hendi, konungur.“ — DANÍEL 3:17.
1. Hvaða lexía var dregin fram í greininni á undan og hvers vegna getur verið gagnlegt að skoða frásöguna á ný?
JEHÓVA Guð, drottinvaldur alheimsins, hefur kennt veraldarleiðtogum mikilvægar lexíur varðandi drottinvald sitt. Í greininni á undan sáum við hvernig það gerðist í og með þeim atburðum sem fyrstu sex kaflar Daníelsbókar greina frá. Við getum nú skoðað aftur þessar sömu frásögur til að sjá hvað megi læra af þeim í samræmi við hin innblásnu orð Páls postula: „Allt það, sem áður er ritað, er ritað oss til uppfræðingar, til þess að vér fyrir þolgæði og huggun ritninganna héldum von vorri.“ — Rómverjabréfið 15:4.
2, 3. Hverjir voru meðal þeirra sem Nebúkadnesar konungur tók til fanga og hvað má álykta út frá nöfnum þeirra?
2 Það var árið 617 f.o.t., í hinni stuttu stjórnartíð Jójakíns, sonar Jójakíms konungs, að Nebúkadnesar konungur fyrirskipaði að sumir af fríðustu og vitrustu sveinum Gyðinga skyldu fluttir til Babýlonar. Í þeirra hópi voru Daníel, Hananía, Mísael og Asarja. — Daníel 1:3, 4, 6.
3 Af nöfnum þeirra er ljóst að þrátt fyrir þá illsku, sem ríkti í Júda á þeim tíma, hafa þessir fjórir hebresku unglingar átt guðhrædda foreldra. „Daníel“ merkir „Guð er minn dómari.“ „Hananía“ merkir „Jehóva hefur sýnt velvild; Jehóva hefur verið náðugur.“ Nafnið „Mísael“ kann að merkja „Hver er líkur Guði?“ eða „Hver tilheyrir Guði?“ Og nafnið „Asarja“ merkir „Jehóva hefur hjálpað.“ Vafalaust hafa nöfn þeirra verið þeim hvatning til að vera trúfastir hinum eina sanna Guði. Kaldear gáfu þessum fjórum Hebreum ný nöfn, Beltsasar, Sadrak, Mesak og Abed-Negó. Með því að þeir voru þrælar í ókunnu landi réðu þeir auðvitað engu um þau nöfn sem herrar þeirra kusu að kalla þá. — Daníel 1:7.
Trú og hugrekki prófreynt
4. Hvað gefur til kynna að Jehóva hafi viljað að þjónar hans tækju alvarlega lög hans um hrein og óhrein dýr?
4 Hinir guðræknu foreldrar Hebreanna fjögurra gerðu meira til að gefa þeim góðan grundvöll í lífinu en það eitt að gefa þeim slík nöfn. Þeir hljóta líka að hafa alið þá upp í nákvæmu samræmi við lögmál Móse, meðal annars ákvæði þess um mataræði. Jehóva Guð mat þau svo mikilvæg að hann sagði eftir að hafa tíundað mörg áþekk bönn: „Verið heilagir, því að ég er heilagur.“ — 3. Mósebók 11:44, 45.
5. Hvernig reyndi á gott uppeldi Hebreanna fjögurra?
5 Fljótlega reyndi á hið góða uppeldi þessara ungu Hebrea. Það atvikaðist þannig að þeim var ákveðinn ‚daglegur skammtur frá konungsborði og af víni því, er hann sjálfur drakk.‘ (Daníel 1:5) Þeir vissu að samkvæmt lögmáli Móse var þeim bannað að leggja sér til munns meðal annars svín, kanínur, ostrur og ál. Jafnvel kjöt það, sem lögmálið leyfði neyslu á, var vafasamt við babýlonsku hirðina þar eð ógerlegt var að vita hvort dýrin hefðu verið blóðguð réttilega. Auk þess kynni kjötið að hafa verið saurgað vegna heiðinna helgisiða. — 3. Mósebók 3:16, 17.
6. Hvernig brugðust Hebrearnir fjórir við þegar á þá reyndi?
6 Hvað gátu Hebrearnir fjórir gert? Við lesum að Daníel, og vafalaust hinir þrír einnig, hafi einsett sér í hjarta sínu að saurgast ekki af slíkum mat. Þess vegna ‚beiddust‘ þeir þess að fá grænmeti eitt í stað krásanna af borði konungs og vatn í stað víns. Það skipti þá engu hvort bragðaðist betur. Það kallaði greinilega á trú og hugrekki að halda þessu til streitu. En þar eð Jehóva var annt um þessa fjóra ungu menn sá hann til þess að hirðstjórinn væri velviljaður í garð Daníels. Embættismaðurinn var ragur við að verða við bón Daníels af ótta við að slíkt mataræði hefði skaðleg áhrif á heilsu hans. Daníel fór því þess á leit að honum yrði leyft að reyna þetta mataræði í tíu daga. Hann treysti því að bæði myndi það veita honum góða samvisku að hlýða lögum Guðs og einnig vera honum til heilsubótar. Sökum afstöðu sinnar hafa Hebrearnir fjórir vafalaust mátt þola mikið háð og spott. — Daníel 1:8-14; Jesaja 48:17, 18.
7. Hvernig var Hebreunum umbunað hugrekki sitt?
7 Það hafði kostað Hebreana fjóra trú og hugrekki að gera mataræði sitt að ágreiningsefni. En þeim var umbunað fyrir, því að eftir tíu daga tilraun voru þeir fegurri ásýndum og hraustlegri en nokkur hinna! Jehóva veitti þeim þekkingu, innsæi og visku þannig að þegar þeir gengu fyrir konung að lokinni þriggja ára þjálfun sinni reyndust þeir „tíu sinnum fremri en allir spásagnamenn og særingamenn í öllu ríki hans.“ — Daníel 1:20.
8. Hvaða lærdóm geta nútímaþjónar Jehóva dregið af þessu?
8 Í þessu er fólginn lærdómur fyrir alla þjóna Jehóva Guðs nú á dögum. Þessir ungu Hebrear hefðu getað hugsað með sér að ákvæði Móselaganna um mataræði skiptu ekki svo miklu máli, sérstaklega í samanburði við boðorðin tíu eða lögin um fórnir eða hinar árlegu hátíðir. Hinir drottinhollu Hebrear gerðu það ekki, heldur var þeim annt um að lifa samkvæmt öllum ákvæðum laga Guðs. Það minnir okkur á meginreglu sem Jesús setti fram, eins og hún er orðuð í Lúkasi 16:10: „Sá sem er trúr í því smæsta, er einnig trúr í miklu, og sá sem er ótrúr í því smæsta, er og ótrúr í miklu.“ — Samanber Matteus 23:23.
9. Hvernig hafa sumir vottar látið í ljós sams konar hugrekki nú á tímum?
9 Vottar Jehóva sýna oftsinnis sams konar trú og hugrekki, svo sem þegar þeir biðja vinnuveitendur sína um leyfi frá störfum til að sækja umdæmismót. Aftur og aftur er gerð undantekning þeirra vegna. Vottar, sem hafa viljað gerast brautryðjendur eða aðstoðarbrautryðjendur, hafa sótt það að fá að vinna hluta úr degi og fengið það.
10. Hvaða lærdóm geta vottar, sem eiga börn, dregið af öllu þessu?
10 Guðræknir foreldrar nú á tímum geta dregið góðan lærdóm af því góða uppeldi sem þessir fjóru Hebrear höfðu bersýnilega fengið. Þegar kristnir foreldrar bera andlegan hag barna sinna í raun fyrir brjósti munu þeir láta hann ganga fyrir öðru í lífi sínu í samræmi við Matteus 6:33. Þá geta þeir vænst þess að börnin þeirra standist freistingar og þrýsting jafnaldra sinna og skólafélaga til að halda upp á afmæli eða hátíðir, eða brjóta meginreglur Ritningarinnar með öðrum hætti. Þessir guðræknu foreldrar sýna þannig fram á að Orðskviðirnir 22:6 fara með satt mál.
Óttalaust réð hann draum Nebúkadnesars
11. Hvernig getum við fylgt fordæmi Daníels og vina hans þriggja?
11 Annar kafli Daníelsbókar geymir annað dæmi um trú og hugrekki. Létu Daníel og félagar hans þrír skelfingu ná tökum á sér þegar þeir heyrðu boð konungsins um aftöku allra vitringa Babýlonar, úr því að þeir gátu ekki sagt honum draum hans og þýðingu draumsins? Alls ekki. Í fullu trausti þess að Jehóva Guð myndi upplýsa konunginn um það sem hann vildi gekk Daníel fram fyrir einvaldsherrann og bað um frest til að veita konungi svar. Honum var veittur frestur. Þá lögðu Daníel og vinir hans þrír málið fyrir Jehóva í innilegri bæn. Jehóva umbunaði þeim trú sína með því að upplýsa þá um það sem þurfti. Við það bar Daníel fram innilega þakkarbæn til Jehóva. (Daníel 2:23) Og ráðning Daníels á draumnum í 4. kafla útheimti að hann segði Nebúkadnesar konungi að hann yrði að lifa í sjö ár eins og skepna meðal villidýra. Það krafðist sams konar trúar og hugrekkis sem þjónar Guðs verða að sýna núna er þeir boða hinn öfluga boðskap um hefndardag hans yfir heimi Satans.
„Slökktu eldsbál“
12, 13. Hvaða prófraun þriggja vina Daníels segir 3. kafli bókarinnar frá?
12 Þriðji kafli Daníelsbókar geymir eina af athyglisverðustu frásögum Biblíunnar sem sýnir hvernig Jehóva umbunaði undraverða trú og hugrekki Hebreanna þriggja. Sjáðu fyrir þér í huganum alla tignarmenn Babýlonar saman komna á Dúrasléttu. Frammi fyrir þeim stendur gulllíkneski sem er um 27 metra hátt og 2,7 metra breitt. Konungur hefur stillt þar upp hljómsveit til að hafa áhrif á tilfinningar viðstaddra. Þegar hljómsveitin tekur að leika eiga hinir samankomnu að ‚falla fram og tilbiðja gulllíkneskið sem Nebúkadnesar konungur hefur látið reisa. Hver sem ekki fellur fram og tilbiður skal á sömu stundu kastað inn í brennandi eldsofn.‘ — Daníel 3:5, 6.
13 Enginn vafi leikur á að það kostaði sterka trú og hugrekki að hlýða ekki skipuninni. En það að vera ‚trúir í því smæsta‘ hafði búið þá undir að vera ‚trúir í miklu.‘ Sú staðreynd að afstaða þeirra kynni að stofna öðrum Gyðingum í hættu skipti ekki máli. Þeir ætluðu ekki að falla fram og tilbiðja líkneskið. Nokkrir öfundarmenn þeirra tóku eftir að þeir féllu ekki fram og skýrðu konungi tafarlaust frá.
14. Hvernig brást Nebúkadnesar við þegar þeir neituðu að falla fram og hverju svöruðu þeir afarkostum hans?
14 Í „reiði og heift“ fyrirskipaði Nebúkadnesar að Hebrearnir þrír skyldu leiddir fyrir sig. Orð hans bera með sér að honum er það óskiljanlegt að þeir skyldu neita að falla fram og tilbiðja gulllíkneskið. Hann var fús til að gefa þeim annað tækifæri, en ef þeir neituðu enn yrði þeim kastað í brennandi eldsofn. „Og,“ sagði hinn rembiláti einvaldur Babýlonar, „hver er sá guð, er yður megi frelsa úr mínum höndum?“ Fullir hugrekkis og trúar á Jehóva svöruðu Hebrearnir konungi með virðingu: „Vér þurfum ekki að svara þér einu orði upp á þetta. Ef Guð vor, sem vér dýrkum, vill frelsa oss, þá mun hann frelsa oss úr eldsofninum brennandi og af þinni hendi, konungur. En þótt hann gjöri það ekki, þá skalt þú samt vita, konungur, að vér munum ekki dýrka þína guði né tilbiðja gull-líkneskið, sem þú hefir reisa látið.“ — Daníel 3:13-18.
15. Hvað gerði Nebúkadnesar?
15 Nebúkadnesar hafði verið reiður fyrir en nú fylltist hann heiftarreiði því að við lesum að ‚ásjóna hans hafi afmyndast‘ frammi fyrir Hebreunum þrem. (Daníel 3:19) Sú fyrirskipun að kynda ofninn sjöfalt heitara en vanalegt var gefur vísbendingu um reiði hans. Rammefldir menn úr her hans tóku Hebreana þrjá og köstuðu þeim í eldsofninn. Svo miklir voru logarnir að þeir gengu af mönnunum, sem unnu þetta verk, dauðum.
16. Hvernig var Hebreunum þrem umbunuð trú sín?
16 En mikil varð undrun konungs þegar hann sá ekki aðeins þrjá menn heldur fjóra gangandi um óskaddaða í eldinum! Þegar konungur kallaði Hebreana þrjá fram komst hann að raun um að ekki hafði eitt einasta hár af höfði þeirra sviðnað og ekki var einu sinni reykjareimur af klæðnaði þeirra. Jehóva hafði sannarlega umbunað þeim trú sína og hugrekki. Vafalaust var það fordæmi þeirra sem Páll postuli hafði í huga þegar hann nefndi í hópi hins mikla fjölda votta þá sem „slökktu eldsbál.“ (Hebreabréfið 11:34) Þeir hafa verið öllum þjónum Jehóva upp frá því afbragðsfordæmi!
17. Hvaða áþekk dæmi þekkjum við úr nútímanum?
17 Vottum Jehóva nú á tímum er ekki hótað dauða í bókstaflegum eldsofni. Þó hefur reynt mjög á ráðvendni ótalmargra að því er varðar að sýna þjóðartáknum lotningu. Reynt hefur á drottinhollustu annarra þegar þess hefur verið krafist að þeir keyptu flokksskírteini í stjórnmálaflokki eða gegndu herþjónustu. Jehóva hefur stutt alla slíka einstaklinga og gert þeim fært að vera óhagganlegir þegar reynt hefur á ráðvendni þeirra, og þar með að sanna djöfulinn lygara og Jehóva hinn sanna Guð.
Annað dæmi um trú og hugrekki
18. Hvernig lét Belsasar í ljós fyrirlitningu á Jehóva, Guði Gyðinga, samanber Daníel 5:3, 4?
18 Daníelsbók segir frá enn einu dæmi um trú og hugrekki. Fimmti kaflinn greinir frá því að Belsasar Babýloníukonungur hafi haldið dýrindisveislu handa þúsundum tignarmanna sinna, hjákvenna og kvenna. Skyndilega birtist mannshönd sem skrifaði undarleg tákn á veginn. Konungi varð svo mikið um að mjaðmarliðir hans gengu í sundur og kné hans skulfu. Enn var kallað á Daníel, þjón hins sanna Guðs, til að þýða letrið, því að allir vitringar Babýlonar voru ráðþrota.
19. Hvað er eftirtektarvert í því er Daníel túlkaði letrið á veggnum?
19 Þótt Daníel stæði þarna einn í þessu íburðarmikla en fjandsamlega umhverfi missti hann ekki kjarkinn, útvatnaði boðskap sinn eða missti sjónar á kjarna málsins. Með reisn og ró bar hann skýrmæltur og virðulega vitni um Guð sinn. Daníel lét sér ekki nægja einfaldlega að þýða letrið heldur minnti hann konung á að Jehóva Guð hefði auðmýkt afa hans með því að láta hann lifa með dýrum merkurinnar uns hann viðurkenndi að hinn hæsti Guð ræður yfir ríki mannanna. „Þótt þú vissir allt þetta,“ segir Daníel Belsasar, ‚auðmýktir þú þig ekki heldur vanhelgaðir kerin úr musteri Jehóva og vegsamaðir guði úr gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini sem hvorki sjá, heyra né vita neitt. En þann Guð, sem hefur lífsanda þinn í hendi sér og ráð hefur á öllum högum þínum, hefur þú ekki tignað. Því er þessi úrskurður frá honum genginn. Þú ert veginn á skálum og léttvægur fundinn og ríki þitt deilt og gefið Medum og Persum.‘ Enn sem fyrr gefur Daníel nútímaþjónum Guðs afbragðsfordæmi um trú og hugrekki. — Daníel 5:22-28.
20. Hvernig sýndi Daníel mikla trú í stjórnartíð Daríusar?
20 Í sjötta kafla Daníelsbókar er að finna enn eitt dæmi um trú og hugrekki. Daríus konungur er nú við völd og gerir Daníel að einum af þrem yfirhöfðingjum ríkis síns. Nokkrir öfundarmenn Daníels telja einvaldinn á að setja lög þess efnis að í 30 daga megi enginn bera fram bæn til nokkurs nema konungsins. Þeir gera sér ljóst að þetta er eina leiðin til að finna Daníel eitthvað til saka. Hann virðir lögin að vettugi og heldur áfram að biðja í loftstofu sinni með opinn glugga er snýr að Jerúsalem. Daníel er fundinn sekur um að brjóta gegn tilskipun konungs og er dæmdur í ljónagryfju í samræmi við refsiákvæði laganna. Enn á ný umbunar Guð Daníel trú hans og hugrekki. Hvernig? Eins og Hebreabréfið 11:33 orðar það ‚byrgði Jehóva gin ljóna.‘
21. Hver ætti að vera ásetningur okkar í ljósi hins góða fordæmis um trú og hugrekki sem fyrstu sex kaflar Daníelsbókar segja frá?
21 Fyrstu sex kaflar Daníelsbókar geyma frásögur sem styrkja mjög trú okkar! Jehóva umbunaði þeim ríkulega sem sýndu trú og hugrekki! Í annan stað gerðist það með því að þeir voru upphafnir og í hinn stað með því að þeir voru frelsaðir með undraverðum hætti. Svo sannarlega getum við látið lífsreynslu þessara trúföstu votta hughreysta okkur og veita von þegar við verðum fyrir prófraunum. Sá er einmitt tilgangurinn með því að færa þessar frásögur í letur. Megum við því vera ráðin í að líkja vel eftir slíkri trú og hugrekki! — Rómverjabréfið 15:4; Hebreabréfið 6:12.
Upprifjun
◻ Hvað má ráða af nöfnum Hebreanna ungu um uppeldi þeirra?
◻ Hvaða lærdóm getum við dregið af viðbrögðum Hebreanna gagnvart prófrauninni um mataræði?
◻ Hvernig hefur reynt á ráðvendni þjóna Jehóva nú á dögum líkt og Hebreanna þriggja?
◻ Hvernig sýndi Daníel trú og hugrekki er hann bar vitni fyrir Belsasar?
[Mynd á blaðsíðu 15]
Daníel og félagar hans lærðu að segja nei.