Þegar Jehóva kenndi einvaldsherrum lexíu
„Allar gjörðir hans eru sannleikur, . . . og hann megnar að lægja þá, sem fram ganga í dramblæti.“ — DANÍEL 4:37.
1. Hvaða einkenni Jehóva vekur Elíhú athygli á?
„SJÁ, Guð er háleitur í framkvæmdum máttar síns, hver er slíkur kennari sem hann?“ Þessi orð Elíhús vöktu athygli hins þjáða Jobs á einu séreinkenni skaparans, Jehóva Guðs. Enginn jafnast á við hann í því að kenna eða fræða aðra. — Jobsbók 36:22.
2, 3. (a) Nefndu dæmi um lexíu sem Jehóva hefur þurft að kenna mönnum. (b) Hvaða valdhafa þurfti Jehóva að kenna þessa lexíu á dögum Móse og hvernig? (c) Hve oft lýsir Guð þeim tilgangi sínum að kenna mönnum þessa lexíu?
2 Rétt samband við Guð er eitt af því sem hann hefur þurft að kenna mönnum og þjóðum. Orð Davíðs í Sálmi 9:20, 21 bera það með sér: „Rís þú upp, [Jehóva]! Lát eigi dauðlega menn verða yfirsterkari, lát þjóðirnar hljóta dóm fyrir augliti þínu. Skjót lýðunum skelk í bringu, [Jehóva]! Lát þá komast að raun um, að þeir eru dauðlegir menn.“
3 Faraó á dögum Móse var einn hinna jarðnesku valdhafa sem Jehóva Guð þurfti að kenna þessa lexíu. Guð gerði það með plágunum sem hann lét koma yfir Egypta. Einnig sagði hann hinum rembiláta Faraó: „Þess vegna hefi ég þig standa látið, til þess að ég sýndi þér mátt minn og til þess að nafn mitt yrði kunngjört um alla veröld.“ (2. Mósebók 9:16) Meira en 70 sinnum frá 2. Mósebók 6:7 til Jóels 3:22 segir Jehóva í orði sínu að hann muni vinna áþekk máttarverk til að einvaldsherrar, lýðir og þjóðir skuli fá að vita að hann er Jehóva, hinn hæsti yfir allri jörðinni.
4. Hvaða þrem valdhöfum kenndi Jehóva lexíu á tímum Daníels og hvernig?
4 Daníelsbók segir frá nokkrum athyglisverðum dæmum þess hvernig Jehóva kenndi einvaldsherrum lexíu. Um var að ræða þjóðhöfðingjana Nebúkadnesar, Belsasar og Daríus. Hvenær gerðist það? Að öllum líkindum á árabilinu 617 f.o.t. til 535 f.o.t. Og hvernig? Með draumum, túlkun þeirra og með því að láta mátt sinn birtast. Jehóva kenndi þessum mennsku valdhöfum að hann er drottinvaldur alheimsins og að þeir eru einungis lítilmótlegir menn. Það er lexía sem núverandi valdhafar veraldar þurfa einnig að læra.
5. Hvaða vitnisburð má nota til að hrekja rök þeirra sem efast um áreiðanleika Daníelsbókar?
5 En draga ekki margir biblíugagnrýnendur í efa áreiðanleika Daníelsbókar? Einn biblíufræðimaður svaraði gagnrýni þeirra svo: „Hún gefur í skyn að kraftaverkin og fullyrðir að spádómarnir séu skráðir af Daníel, samtíðarmanni. Við höfum því annaðhvort sönn kraftaverk og sanna spádóma eða ekkert nema ósannindi.“ (Daniel the Prophet eftir E. B. Pusey, bls. 75) Aftur og aftur segir ritari bókarinnar deili á sér með orðum líkt og „ég, Daníel“! (Daníel 8:15; 9:2; 10:2) Var þetta tóm fölsun? Sannleikurinn er sá að hvorki Gyðingar né kristnir menn véfengdu fyrr en snemma á 18. öld að Daníel væri höfundur þeirrar bókar sem ber nafn hans. Vitnisburður Ritningarinnar um Daníelsbók er þó enn þyngri á metunum en skoðanir ýmissa biblíufræðimanna nútímans. Til dæmis er Daníel nafngreindur þrívegis í Esekíelsbók. (Esekíel 14:14, 20; 28:3) Þyngst vega þó orð Jesú, sonar Guðs, sem standa í Matteusi 24:15, 16: „‚Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað,‘ — lesandinn athugi það — ‚þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla.‘“a
Nebúkadnesar lærist hver hinn sanni Guð er
6. Hvað kann að hafa ýtt undir dramb konungsins í Babýlon og hvað sagði hann um sjálfan sig í ritum sínum?
6 Eins og Jesaja spámaður sýnir fram á voru konungar Babýlonar afar stoltir menn. (Jesaja 14:4-23) Nebúkadnesar var líka mjög trúrækinn. Í ritum sínum segir hann frá „byggingarframkvæmdum sínum og gaumgæfni við guði Babýloníu.“ Vafalaust steig það honum til höfuðs að honum skyldi heppnast að taka Jerúsalem og alla Júdeu eftir að Sanherib hafði mistekist það svo herfilega.
7. Hverju er sagt frá í 1. kafla Daníelsbókar sem hefði átt að kenna Nebúkadnesar að virða Guð Hebrea?
7 Eftir að Daníel og hinir hebresku félagar hans þrír höfðu gengið fyrir Nebúkadnesar hafði hann vissulega ástæðu til að virða Guð þeirra, því að „í öllum hlutum, sem viturleik og skilning þurfti við að hafa og konungur spurði þá um, reyndust þeir tíu sinnum fremri en allir spásagnamenn og særingamenn í öllu ríki hans.“ Já, þeir vitru menn, sem áttu sér Jehóva fyrir Guð, sköruðu langt fram úr öllum þeim sem dýrkuðu aðra guði. Slíkt getur ekki hafa farið fram hjá Nebúkadnesar. — Daníel 1:20.
8. Hvernig afhjúpaði Jehóva að vitringar Babýlonar byggju ekki yfir sérstakri þekkingu?
8 Jehóva þurfti að kenna Nebúkadnesar konungi fleira. Sagt er frá næstu lexíu í 2. kafla Daníelsbókar. Guð lét konung dreyma draum, er skaut honum skelk í bringu, og síðan gleyma honum. Þessi draumur gerði einvaldinum í Babýlon mjög órótt í skapi og hann kallaði á sinn fund alla vitringa sína og heimtaði að þeir segðu sér drauminn og þýðingu hans. Að sjálfsögðu gátu þeir ekki sagt konungi drauminn og þaðan af síður þýðingu hans. Þar með játuðu þeir óbeint að þeir byggju ekki yfir neinni sérstakri þekkingu. Konungur reiddist svo heiftarlega að hann fyrirskipaði aftöku þeirra allra. Þegar Daníel og félögum hans var sagt frá tilskipun konungs bað Daníel um frest sem veittur var. Síðan lögðu hann og félagar hans þrír málið fyrir Jehóva í innilegri bæn með þeim afleiðingum að hann opinberaði Daníel drauminn og þýðingu hans. — Daníel 2:16-20.
9. (a) Hver einn gat ráðið draum Nebúkadnesars og hver var ráðningin? (b) Að hvaða niðurstöðu komst konungur þar af leiðandi?
9 Þegar Daníel var leiddur fyrir Nebúkadnesar spurði konungur: „Getur þú sagt mér drauminn, sem mig dreymdi og þýðing hans?“ Eftir að hafa minnt hinn stolta einvaldsherra á að spekingar hans hafi ekki getað opinberað þann leyndardóm, sem draumurinn og þýðing hans var, sagði Daníel: „En sá Guð er á himnum, sem opinberar leynda hluti og hann hefir kunngjört Nebúkadnesar konungi það, er verða mun á hinum síðustu dögum.“ Daníel sagði síðan konungi frá hinu risastóra líkneski, sem hann hafði dreymt, og þýðingu þess. Konungi þótt svo mikið til um að hann sagði: „Í sannleika er yðar Guð yfirguð guðanna og herra konunganna og opinberari leyndra hluta, með því að þú máttir þennan leyndardóm auglýsa.“ Jehóva kenndi þannig Nebúkadnesar konungi að hann er hinn eini sanni Guð. — Daníel 2:26, 28, 47.
10, 11. (a) Hvað lét Nebúkadnesar konungur gera í rembilæti sínu og hvað fyrirskipaði hann svo? (b) Hvaða deilumál kom upp er Hebrearnir þrír neituðu að hlýða skipun konungs og með hvaða afleiðingum?
10 Þótt Nebúkadnesar konungi þætti vafalaust mikið um þekkingu og visku Guðs Hebrea átti hann enn margt ólært. Í drambsemi sinni lét hann reisa mikið gulllíkneski í Dúradal. Líkneskið var 60 álna hátt og 6 álna breitt. Það minnir okkur á töluna 666, sem er merkið á ‚dýri‘ Satans í Opinberunarbókinni 13:18. (Alin jafngildir 44,5 cm og var líkneskið því um 27 metra hátt og um 2,7 metra breitt.) Konungur fyrirskipaði að allir höfðingjar og embættismenn í ríki hans skyldu koma „til vígslu líkneskisins.“ Skyldu allir falla fram og tilbiðja líkneskið þegar hljómsveit tæki að leika. Einhverjir kaldverskir embættismenn, sem voru öfundsjúkir í garð Hebreanna, tóku eftir að Hebrearnir þrír tóku ekki þátt í athöfninni og skýrðu konungi frá. — Daníel 3:1, 2.
11 Þetta var háalvarlegt mál fyrir Nebúkadnesar því að hann hafði einu sinni gortað af því að hann væri „sá er setur í munn manna lotningu fyrir hinum miklu guðum.“ Hér var því á ferðinni frekleg óvirðing bæði við konunglega hátign Nebúkadnesars og trúarhita hans. Fullur heiftar og reiði gaf hinn rembiláti einvaldur Hebreunum þrem annað tækifæri, en þó með þessum afarkostum: „Ef þér tilbiðjið það ekki, þá skal yður samstundis verða kastað inn í eldsofn brennandi, og hver er sá Guð, er yður megi frelsa úr mínum höndum?“ Nú, Nebúkadnesar átti eftir að komast að raun um að þeirra Guð var í sannleika fær um að frelsa þjóna sína úr höndum lítilmótlegs einvaldsherra, og að enginn annar Guð er til sem getur frelsað eins og Guð Hebrea. — Daníel 3:15.
Draumurinn um tréð
12, 13. (a) Hvernig túlkaði Daníel draum Nebúkadnesars um tréð? (b) Hvernig sýndi Nebúkadnesar að hann hafði ekki látið sér segjast við þýðingu draumsins?
12 Hvaða áhrif hefðu lexíur sem þessar haft á þig? Svo virðist sem þær hafi ekki nægt til að koma Nebúkadnesar í skilning um hver væri staða hans. Jehóva þurfti því að kenna honum eina lexíu enn. Sem fyrr birtist hún honum í draumi og enn sem fyrr gat enginn af vitringum Babýlonar ráðið hann. Að lokum var Daníel kallaður til og hann gat upplýst konung um þýðingu draumsins sem var sú að í sjö ár myndi hann lifa eins og ‚dýr merkurinnar‘ og síðan endurheimta vit sitt á ný. — Daníel 4:1-37.
13 Af því sem síðar gerðist er augljóst að draumurinn nægði ekki til að koma vitinu fyrir Nebúkadnesar. Því gerðist það um það bil ári síðar, er konungur var á gangi í höll sinni, að hann sagði með miklu yfirlæti: „Er þetta ekki sú hin mikla Babýlon, sem ég hefi reist að konungssetri með veldisstyrk mínum og tign minni til frægðar?“ Hvílíkur sjálfbirgingsháttur! Á sömu stundu heyrðist rödd af himni sem sagði hinum drambláta valdhafa að ríkið yrði frá honum tekið og að hann myndi dvelja með dýrum merkurinnar í sjö tíðir „uns þú viðurkennir, að hinn Hæsti ræður yfir konungdómi mannanna.“ — Daníel 4:30-32.
14. Hvernig rættist draumurinn um tréð og hvaða áhrif hafði það á Nebúkadnesar?
14 Eftir að Nebúkadnesar hafði lifað eins og dýr í þessar sjö tíðir eða ár veitti Jehóva honum vit sitt á ný og hann varð að viðurkenna að ‚enginn geti tálmað Hinum hæsta eða sagt við hann: „Hvað gjörir þú?“ Auk þess lét konungurinn í Babýlon nú í ljós að hann hefði lært sína lexíu og sagði: „Nú vegsama ég, Nebúkadnesar, göfga og tigna konung himnanna, því að allar gjörðir hans eru sannleikur, vegir hans réttlæti og hann megnar að lægja þá, sem fram ganga í dramblæti“ — eins og konungur hafði gert. Er ekki allur þessi vitnisburður um það hvernig Jehóva útkljáði aftur og aftur deiluna um drottinvald mjög sterk rök fyrir því að þessar frásagnir séu ekki uppspuni, heldur verk manns sem Guð innblés til að segja söguna eins og hún gerðist? — Daníel 4:35, 37.
Belsasar sér það sem skrifað var á veginn
15. Hvernig sýndi Belsasar hinum sanna Guði, Jehóva, fyrirlitningu?
15 Belsasar var annar konungur sem Jehóva þurfti að kenna lexíu. Hann var sonur og meðstjórnandi Nabónídusar konungs sem var sonur Nebúkadnesars. Í veislu mikilli var Belsasar svo fífldjarfur að fyrirskipa að gullkerin, sem afi hans hafði tekið úr musteri Jehóva í Jerúsalem, yrðu sótt svo að hann, höfðingjar hans, konur og hjákonur mættu drekka af þeim. Þau „drukku vín og vegsömuðu guði sína úr gulli, silfri, eiri, járni, tré og steini.“ — Daníel 5:3, 4.
16, 17. (a) Hvernig vakti Jehóva ótta Belsasars? (b) Hvernig þýddi Daníel letrið á veggnum og hvernig rættist sú þýðing?
16 Nú var kominn tími Guðs til að binda enda á yfirráð Babýlonar. Því lét hann birtast undarlega skrift á veggnum. Konungi brá svo við að hann lét samstundis kalla á alla spekinga sína til að túlka áletrunina. Enginn þeirra gat það. Þá minnti móðir hans hann á að Daníel, sem hafði ráðið drauma Nebúkadnesars, myndi geta lesið úr áletruninni. (Daníel 5:10-12) Þegar Daníel var kallaður til og spurður hvort hann gæti það minnti hann einvaldsherrann á hvernig Guð hefði auðmýkt hinn stolta afa hans til að hann mætti vita að Hinn hæsti ráði yfir konungdómi mannanna. — Daníel 5:20, 21.
17 Daníel sagði Belsasar einnig: „Þann Guð, sem hefir lífsanda þinn í hendi sér, og ráð hefir á öllum högum þínum, hann hefir þú ekki tignað.“ (Daníel 5:23) Letrið á veggnum tilkynnti því konunginum í Babýlon að konungdómur hans væri á enda runninn, hann hefði verið veginn og léttvægur fundinn og ríki hans gefið Medum og Persum. Þessa sömu nótt, eftir að Jehóva hafði kennt hinum rembiláta einvaldsherra þessa þörfu lexíu, var Belsasar Kaldeakonungur drepinn. — Daníel 4:23.
18. Með hvaða hætti mun Jehóva kenna valdhöfum nútímans áþekka lexíu varðandi drottinvald sitt og mátt til að bjarga?
18 Alveg eins og Jehóva kenndi hinum stoltu einvaldsherrum, Nebúkadnesar og Belsasar, lexíu um drottinvald sitt og mátt til að bjarga, eins mun Guð í Harmagedón gera öllum valdhöfum jarðar kunnugt að hann er Hinn hæsti, hinn alvaldi drottinvaldur alheimsins. Það mun hafa áhrif á líf þitt. Hvernig? Á þann hátt að þá mun Jehóva einnig frelsa trúfasta þjóna sína líkt og hann frelsaði Hebreana þrjá úr eldsofninum brennandi. — Daníel 3:26-30.
Daríus kynnist mætti Jehóva til að bjarga
19, 20. Hvaða atburður í lífi Daníels sýndi Daríusi fram á mátt Jehóva til að bjarga?
19 Sjötti kafli Daníelsbókar segir frá enn einu tilviki er Jehóva kenndi einvaldsherra lexíu. Það var Daríus og hann fékk að kynnast mætti Guðs til að bjarga. Sökum samsæris varð konungur að láta kasta Daníel í ljónagryfju mjög gegn vilja sínum. Hann hafði ekki upphafið sig fullur drambs gegn hinum sanna Guði. Athyglisvert er að þótt Daríus hafi fullvissað Daníel um að Guð hans myndi bjarga honum virtist hann ekki trúa því fyllilega. Ella hefði hann tæpast orðið andvaka um nóttina og flýtt sér áhyggjufullur til ljónagryfjunnar í dögun. Þar kallaði hann: „Daníel, þú þjónn hins lifanda Guðs, hefir Guð þinn, sá er þú dýrkar án afláts, megnað að frelsa þig frá ljónunum?“ — Daníel 6:18-21.
20 Já, Guð hafði getað verndað Daníel. Daríus konungur varð svo glaður að hann gaf út þessa tilskipun: „Í öllu veldi ríkis míns skulu menn hræðast og óttast Guð Daníels, því að hann er hinn lifandi Guð og varir að eilífu. Ríki hans gengur ekki á grunn . . . hann frelsar og bjargar, hann gjörir tákn og furðuverk á himni og jörðu, hann sem frelsaði Daníel undan ljónunum.“ — Daníel 6:26, 27.
21. (a) Hvað má læra af fyrstu sex köflum Daníelsbókar? (b) Hvaða áhrif ætti þessi frásaga að hafa á okkur?
21 Fyrstu sex kaflar Daníelsbókar eru hrífandi dæmi um það hvernig Jehóva, sem er kostgæfur — já, afbrýðisamur — gagnvart nafni sínu, kenndi voldugum einvaldsherrum þessa heims að hann sé hinn alvaldi drottinvaldur alheimsins og fær um að auðmýkja stolta valdhafa en frelsa dygga þjóna sína. Þessar frásögur ættu að innræta okkur heilnæman ótta við Guð og virðingu fyrir almætti hans og drottinvaldi. Þessi innblásna frásaga styrkir einnig trú okkar mjög, því að hún geymir fögur dæmi um þjóna Jehóva Guðs sem sýndu mikla trú og hugrekki eins og skoðað verður ítarlega í greininni á eftir.
[Neðanmáls]
Hverju svarar þú?
◻ Hvaða lexíu hefur Jehóva þurft að kenna valdhöfum heims?
◻ Hvað má segja um áreiðanleika Daníelsbókar?
◻ Hvaða lexía auðmýkti Nebúkadnesar konung?
◻ Hvaða áhrif ætti það að hafa á okkur að Jehóva skuli hafa kennt einvaldsherrum lexíu?